Lúpínan á Haukadalsheiði - Myndir...


landgrae_slufelag.jpg

 

Um síðustu helgi skrapp ég upp á Haukadalsheiði og tók nokkrar myndir af Alaskalúpínunni þar. Haukadalsheiði er fáeina kílómetra fyrir norðan Geysi.


Lúpínan er jurt sem margir hrífast af. Hún er með eindæmum duglegur landnemi á hrjóstrugu landi og hentar vel til að græða upp örfoka mela eins og á Haukadalsheiði.

Á Haukadalsheiði var áður fyrr gróið land og jafnvel skógi vaxið eins og allnokkrar kolagrafir sem fundist hafa bera vitni um, svo og stöku rofabörð sem gnæfa mannhæð upp úr örfoka melunum. Allt þetta land hefur nú fokið burt vegna þess að menn eyddu skóginum og ofbeittu landið. Köld ár Litlu ísaldarinnar svokölluðu hafa sjálfsagt ráðið úrslitum. 

Fyrir nokkrum áratugum mátti sjá gríðarlegt moldrok leggjast yfir uppsveitirnar í norðanátt, en sem betur fer hefur það minnkað mjög verulega, en það er fyrst og fremst að þakka Lúpínunni. Vissulega hefur melgresi einnig verið sáð, duglegir menn og konur hafa stungið niður þau fáu rofabörð sem eftir eru, og flutt gamalt hey á melana til að reyna að hefta sandfokið, en án Lúpínunnar er lítil von til þess að snúa megi vörn í sókn.

Að koma á Haukadalsheiði meðan lúpínan er í blóma er mikil upplifun. Maður fyllist bjartsýni og von. Ég man vel eftir því hvernig heiðin leit út fyrir hálfri öld. Þvílíkur munur :-)

Vissulega sjá sumir rautt þegar þeir horfa yfir fagurbláar lúpínubreiðurnar og fyllast hatri gagnvart þessari einstöku jurt. Það þykir þeim sem þessar línur ritar mjög undarlegt og finnur til með þeim sem þannig hugsa.  Vissulega er hún ágeng og á ekki heima alls staðar. En illgresi er hún ekki.  Hún er dugleg og eiginlega eina vopn okkar í baráttunni við uppblásturinn. Við verðum þó að nota hana rétt og ekki dreifa hvar sem er.

Hvað er það sem gerir Lúpínuna svona einstaka? Lúpínan er belgjurt eins og til dæmis Baunagras og Hvítsmári. Hún hefur rótarhnýðisbakteríur sem vinna nitur (köfnunarefni) úr andrúmsloftinu, og geta jafnvel losað um bundinn fosfór í jarðveginum. Bæði þessi efni eru áburður fyrir Lúpínuna og aðrar plöntur sem vaxa á sama stað. Lúpínan hefur því eins og aðrar belgjurtir innbyggða áburðarverksmiðju í rótarkerfinu. Rætur liggja djúpt og sinumyndun er mikil, þannig að á undaraskömmum tíma breytist ófrjósamur örfoka jarðvegur í frjósamt land.

 

Eftir allnokkra áratugi fer Lúpínan síðan smátt og smátt að hörfa og annar gróður sem nýtur góðs af frjósömum jarðveginum kemur í staðinn. Einfaldasta ráðið til að flýta þessu ferli er hæfileg beit. Þannig má nýta þjóðarblómið til að framleiaða gómsætar kótilettur, þegar það hefur unnið sitt verk við að græða upp landið. Ekki amaleg tilhugsun...

 

(Stækka má myndir með því að tvísmella á þær).

 

img_2964.jpg
 
Lúpínan hefur unnið kraftaverk á Haukadalsheiði.
 
 
img_2975.jpg
 
Smám saman vinnur blessuð lúpínan á.
 
 
img_2971.jpg
 
Hér má glöggt sjá hve mikið hefur fokið burt. Rofabarðið er sjálfsagt rúmlega mannhæð. Fyrst og fremst er þetta afleiðing ofbeitar.
 
 
img_2973.jpg
 
Hér stendur uppi eitt rofabarð eins og minnismerki um forna frægð.
 
 
img_2986_edited-1_1004822.jpg


 Þessi bleika Lúpína skar sig úr. Vildi víst vera öðruvísi en hinar.

 

img_2988.jpg
 
Eru þær ekki fallegar?
 
 
16-maddaman.jpg
 
Nei, þessi mynd er ekki frá Tunglinu :-)  Myndina tók skrásetjarinn fyrir hálfri öld á Haukadalsheiði, þ.e. árið 1960 þegar hann vann við að planta skógi þar örlítið sunnar. Þá var Haukadalsheiðin eyðimörk. Nú er hún að vakna til lífsins aftur. Þökk sé Lúpínunni og dugnaði Tungnamanna.
Það er erfitt að ímynda sér að hér hafi land eitt sinn verið skógi vaxið.  
 Er virkilega einhver sem vill að landið líti svona út?
 
 
 


Kvæði eftir Margréti Guðjónsdóttur í Dalsmynni.

Alaskalúpína er öndvegisjurt
sem ætti að lofa og prísa
en umhverfisverndarmenn vilja hana burt
og vanþóknun mikilli lýsa.

Þó gerir hún örfoka eyðisand
og urðir að frjósömum reitum
undirbýr vel okkar ágæta land
til átaka í hrjóstugum sveitum.

Hún er líka ágætur íslenskur þegn
með alveg magnaðar rætur,
í auðninni er henni ekki um megn
að annast jarðvegsins bætur.

Mestallt sumar er grænt hennar glit
þó geti það valdið fári
að hún ber himinsins heiðbláa lit
hálfan mánuð á ári.

 

 

 
Auðvelt er að komast á Haukadalsheiði með því að aka sem leið liggur frá Geysi um skógræktargirðinguna í Haukadal. Ekið er framhjá kirkjunni og síðan í norðurátt um mjög fallegt skóglendi. Skógurinn nær langleiðina upp á heiðina. 
 
 

 Krækjur:

Ný klæði á land í tötrum, eftir Hauk Ragnarsson

Vinir Lúpínunnar á Fésbók  Umræður og krækjur í nýlegar greinar.

Vísindvefurinn (Sigmundur Guðbjarnason): Hvaða lækningagildi hefur lúpínan?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikta E

Takk fyrir að tala máli Lúpínunnar - hún verðskuldar það - Lúpínan græðir upp og fegrar landið okkar - er augna yndi - gleðigjafi og geðbót.

Aftur - Takk - Takk - fyrir að tala máli Lúpínunnar og sýna okkur þessar dásamlegu myndir sem sýna best og sanna hvað Lúpínan sómir sér vel í íslenskri náttúru.

Benedikta E, 30.6.2010 kl. 20:24

2 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Húrra fyrir lúpínuni, hún er ótrúleg, getur vaxið upp úr grjóti.

Aðalsteinn Agnarsson, 30.6.2010 kl. 20:27

3 identicon

Sæll Ágúst.

Ég hef mikinn áhuga á að vita hvaða heimildir þú hafir fyrir því að lúpínan hörfi smátt og smátt eftir nokkra áratugi? Eins hvort þú getir fullyrt að hún geri það alltaf.

Samkvæmt grein eftir Borgþór Magnússon hjá Náttúrufræðistofnun Íslands frá 2007, þar sem hann vitnar í rannsóknir á lúpínu á Íslandi hefur hún á sumum stöðum hörfað eftir 15-25 ár, en annars staðar hefur hún ekki látið á sjá eftir rúmlega 30 ára vöxt.

Eins langar mig að vita hvernig standi á því að lúpínan hafi þá ekki dáið út í Alaska ef hún hörfar eftir nokkra áratugi...

Með kveðju,

Guðjón Torfi Sigurðsson

Guðjón Torfi Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 21:23

4 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir þessa frábæru færslu Ágúst. Ég hef undanfarna áratugi labbað töluvert á Esjuna, Skarðsheiðina og fleiri fjöll. Meðan lúpínufræ voru auðfáanleg dreifði ég þeim venjulega við gönguleiðirnar. Það sama hefur gerst þar og á Haukadalsheiði. Fallegar lúpínur glæða fjallendið lífi og fegurð þar sem áður var einungis urð og grjót. Ég man vel eftir því þegar farið var yfir hálendið upp úr 1960 hvað gróðurvana auðnin var dapurleg yfir að líta. Hvað sem má um okkar kynslóð segja þá er landið alla vega fallegra núna og grónara en það var í okkar ungdæmi. Þökk sé ekki síst blessaðri lúpínunni.

Jón Magnússon, 30.6.2010 kl. 21:32

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

 Dæmi um að Lúpínan hopar:

Fréttablaðið, 15. jún. 2010 03:13

"Mér finnst þessar tillögur, sem fram eru komnar um útrýmingu lúpínu ekki skynsamlegar."

Þetta segir Tómas Ísleifsson, bóndi og líffræðingur á Ytri-Sólheimum í Mýrdal. „Mér virðist sem skoðanir á þessu máli byggist ekki bara á þekkingu, heldur allt of mikið á tilfinningum," bætir hann við.

Mismunandi skoðanir eru á þeim tillögum um heftingu á útbreiðslu lúpínu sem umhverfisráðuneytið kynnti nýlega. Tómas kveðst þekkja mörg dæmi um gagnsemi jurtarinnar:

„Það var fyrir um fjörutíu árum sem girtur var af lítill skiki í landi Eystri-Sólheima. Þetta gerði Þorsteinn Jónsson sem þar var þá bóndi. Skikinn var á uppblásnum jökulmel og algjörlega gróðurlaus. Þarna setti Þorsteinn niður lúpínu, sem fljótlega þakti blettinn alveg. Þegar girðingin féll niður, að um tuttugu árum liðnum, þá kom beit á þetta. Nú er þetta bara graslendi og ekki eina einustu lúpínu að sjá. Landið í kring er enn þá örfoka, réttnefnt Ísland í tötrum."

Tómas segist geta nefnt fleiri dæmi um gagnsemi lúpínunnar.
Í skógræktargirðingu í landi Ytri-Sólheima, þar sem ein fyrsta lúpínusáningin hafi átt sér stað fyrir fimmtíu og fimm árum eða svo, séu nú vaxin væn tré. Innan girðingar sé orðið grösugt en lúpínan hafi hopað eftir að farið var að beita fé hóflega í hana.

Tómas kveður það augljóst að Íslendingar hafi ekki efni á að græða upp öræfi landsins nema að nota aðferðir eins og að ofan greinir. Nú sé á Sólheimum verið að sá grasfræi ofan vegar í 240 hektara lands. Ekki sé ólíklegt að áburðarkostnaður hlaupi á einhverjum milljónum króna á hverju landi, svo lengi sem eigi að hafa beitarnot af því.

„Þakka ber að landgræðslan er að hjálpa til þarna," segir Tómas. „Hins vegar sá ég það nýverið þegar ég ók frá Sólheimum til Reykjavíkur að öskuvandamálið er fyrst og fremst í landi Sólheima. Öskufallið er bölvun ef það kemur niður á örfoka land, því þá fýkur askan til. Fíngerðasti hlutinn fýkur í burtu. Eftir stendur grófasti hlutinn, sem sverfur jurtir til dauða, fýkur í skafla sem feykjast fram og til baka. Sömu sandkornin eru að eyðileggja ár eftir ár. Þar sem askan fellur á gróið land, til dæmis lúpínugróður sem gengur næst skóginum í að hindra fok, er askan þegar fram í sækir blessun. Mér er sagt að fosfórmagnið sé það mikið í henni að þarna eru komnar birgðir 60 ára."

Ágúst H Bjarnason, 30.6.2010 kl. 21:54

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Bravó, bravó frændi fyrir þessa fallegu færslu. Sláandi myndin af ykkur á gömlu Magdalenu Skógræktarinnar eiginlega á sama stað og myndin að ofan er tekin.

Ég bara skil þetta fólk ekki sem vill hafa landið svona eins og það var 1960 frekar en það er í dag.. En myndin er held ég fyrir ofan mörkin sem Svandís setti er það ekki ?

Halldór Jónsson, 30.6.2010 kl. 22:53

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það getur vel verið að lúpínan sé heppileg á örfokasvæðum.  En hún er algjör skaðvaldur í grónu landi, hún er að yfir taka alla lyngmóa á mörgum svæðum, og er algjör skemmdarvargur þar sem okkar íslenska lyng er í hættu vegna þessa vargs.  Og taktu bara myndir í ágúst af sömu svæðum og sjáðu hvort það er einhver fegurð á ferðinni.  Ég vil útrýma þessum skaðvaldi á öllu landi þar sem íslenskar fjallajurtir eru í útrýmingarhættu af þessari plágu, alveg rétt eins og kerfillinn er að yfirtaka stóran hlut í bæjarfélögum. 

Lúpínan er eins og minkurinn skaðvaldur í íslenskri náttúru.  Og ber að verjast henni með öllum tiltækum ráðum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.6.2010 kl. 23:08

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Frábær færsla og 100% sammála.

Lesa má ótrúlega heift úr viðbrögðum sumra í garð lúpínunnar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.7.2010 kl. 00:15

9 identicon

Spurningar Guðjóns Torfa eru þarflegar og minna mann á að heildarlausn í svona málum er ekki til. Lúpínan er væntanlega ágæt í sum uppgræðsluferli eins og Sóheimar hafa líklega sýnt (þekki ekki það dæmi svo ég get ekkert fullyrt um það) en væntanlega er hún alls ekki hentug allstaðar og getur orðið ráðandi tegund á landsvæðum sem annars gætu orðið vel gróin af ýmsum gróðri (líffræðileg fjölbreytni er nefnilega mikilvæg).

Það eina sem er eiginlega hægt að segja er að það þarf frekari rannsóknir, þangað til finnst mér að það ætti að fara í landgræðslu með lúpínunni með varkárni, en ekki geysa af stað út í óvissuna eins og mannskepnunni (og þá sérstaklega Íslendingum) er svo tamt.

En munum fyrst og fremst að það er búið að skilgreina lúpínuna sem ásókna tegund (invasive species) innan NOBANIS verkefnisins, sjá http://www.nobanis.org/files/factsheets/Lupinus_nootkatensis.pdf og þá sérstaklega kafla 6 þar sem kallast Impact og ef menn vilja kafa dýpra þá skoða tilvitnanirnar í þessu skjali.

Ólafur Jens Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 00:56

10 identicon

Guðjón Torfi Sigurðsson:

 

Í fjölriti RaLa (Rannsóknastofnunar landbúnaðarins) nr. 192 frá árinu 1997 („Útbreiðsluhættir alaskalúpínu í Heiðmörk raktir eftir loftmyndum“) er að finna BSc-ritgerð Daða Björnssonar. Athugunartímabil Daða var 25 ár. Þar kemur fram að landnám lúpínu í grónu landi í Heiðmörk er hverfandi. Árlega hörfar lúpínan af stærra svæði en hún leggur undir sig af grónu landi. Útbreiðslan er fyrst og fremst á lítt grónu eða ógrónu landi.

 

Hörfunarhraði lúpínu ræðst að verulegu leyti á fræframboði skuggþolinna, næringarkrefjandi tegunda sem numið geta land inni í lúpínubreiðum. Ef engar slíkar tegundir finnast í nágrenni lúpínvaxinna svæða (en hætt er við að slíkt gerist á stórum, samfelldum auðnum fjarri fjölbreyttu gróðurlendi) verður hörfunarhraðinn hægur. Öðru máli gegnir um lúpínuvaxin svæði sem vaxa nærri fræuppsprettum fjölbreyttra gróðursamfélaga: þar getur lúpínuvaxin, fyrrum auðnin breyst á fáum áratugum í ríkulegt blómlendi, vaxið t.a.m. sigurskúf, hvönn eða ýmsum trjátegundum, svo sem reynivið. Flýta má enn frekar fyrir framvindunni með því að færa inn í lúpínubreiðurnar slíkar tegundir, ef þær skyldi vanta í nágrenninu.

 

Lúpína hefur ekki dáið út í Alaska vegna þess að þurrlendisvistkerfi eru þar óstöðug og verða þar oft fyrir röskun (D: aurskriður, vatnsrof á bökkum jökulfljóta eða sjávarstranda, hopandi jöklar, o.s.frv.). Á slíku næringarsnauðu landi á lúpínan sitt kjörlendi og nemur skjótt land (ásamt fleiri niturbindandi tegundum) uns hún gefur eftir í samkeppni við fjölbreytta flóru trjátegunda.

Sjá mynd: http://www.terragalleria.com/photo/?id=alas6452&keyword=flower-alaska

Aðalsteinn Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 01:46

11 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Halldór. Er ekki notkun Lúpínu óheimil ofan 400 metra samkvæmt ákvörðun Svandísar? Mér sýndist landið þarna vera neðan þessara marka þegar ég gjóaði augunum á litla GPS tækið mitt. Lúpínunni ætti því að vera óhætt þar.

Það væri hræðilegt ef einhverjum dytti í hug að ráðast á Lúpínuna með eiturhernaði eins og þegar Bandaríkjamenn dreifðu Agent Orange í Víetnam til að eyða gróðri. 

Ágúst H Bjarnason, 1.7.2010 kl. 07:22

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og fyrrum aðstoðarmaður umhverfisráðherra skrifaði fyrir nokkrum dogum í Morgunblaðið mjög skynsamlega grein:

-

   Böl sandfoksins og uppgræðsla lands


Eftir Einar Sveinbjörnsson
(Morgunblaðið, mánudaginn 21. júní, 2010)

 
"Þrátt fyrir ötult starf við uppgræðslu landsins í meira en öld er uppblástur enn helsta umhverfisógnin sem steðjar að okkur Íslendingum."

Við höfum verið minnt á undanförnum vikum á böl sandfoksins. Eldgos í Eyjafjallajökli og jökulhlaup í Markarfljóti skilur eftir sig fínefni sem fýkur auðveldlega og veldur tjóni á gróðurlendum. Jarðvegseyðing hefur verið gríðarleg hér um aldirnar og jarðvegur fokið á haf út. Eftir sitja gróðurlitlar auðnir.


Á dögunum var greint frá því að tekist hefði á ekki nema tveimur áratugum að græða upp um 5.000 hektara lands við suðurjaðar Öræfajökuls. Áður var þarna gamalt uppblásturssvæði, sorfið niður í grjót svo notuð séu orð Arnar Bergssonar formanns Landgræðslufélags Öræfinga. Lúpínan og birki eru í aðalhlutverki við uppgræðsluna. Ástæða er til að óska Öræfingum heilla með frábæran árangur.


Íslenska sandauðnin líður fyrir þurrð á köfnunarefni. Við uppgræðslu hennar þarf því annað hvort innfluttan og dýran áburð í miklu magni eða plöntur sem vinna köfnunarefni úr loftinu og flytja í jarðveginn. Þar hefur alaskalúpínan mikla yfirburði. Það hefur sýnt sig m.a. á umræddu landssvæði í Öræfasveit að almenn gróðurframvinda er til þess að gera hröð þar sem lúpína er.


Þrátt fyrir ötult starf við uppgræðslu landsins í meira en öld er uppblástur enn helsta umhverfisógnin sem steðjar að okkur Íslendingum. Foksand verður að hefta og við beitum þeim aðferðum sem bestar þykja til að græða upp landið og endurheimta landgæði. Birkiskógurinn og kjarrið sem í fyrndinni klæddi landið er óðum að ná sér á strik, en næringarefnaþurrð örfoka lands hamlar þar mjög.


Á næstu áratugum og öldum munu ný landsvæði sem skipta munu hundruðum og þúsundum ferkílómetra koma undan hopandi jöklum. Afleiðingar loftslagshlýnunar verða ekki umflúnar og jöklarnir eru þegar teknir að rýrna eins og mælingar sýna glöggt. Ný svæði jökulleirs og fjúkandi sands koma því stöðugt fram og sandfok verður viðvarandi vandamál. Það þarf ekki eldgos til þó þau hjálpi vissulega ekki upp á sakirnar í þessum efnum. Framskrið foksands verður ekki heft nema með uppgræðslu og gróðurþekju. Höfum það hugfast að þrátt fyrir allt þekja sæmilega heilleg gróðurvistkerfi enn ekki nema lítið brot af flatarmáli landins og okkar bíður því mikið starf við uppgræðslu. Þar mun alaskalúpínan áfram gegna miklu hlutverki, hvað sem mönnum kann annars að finnast um þá ágætu plöntu.

Ágúst H Bjarnason, 1.7.2010 kl. 07:29

13 Smámynd: Halldór Sverrisson

Gott innlegg, Ágúst. Dæmin um það að lúpínan vinnur kraftaverk á örfoka landi eru óteljandi og blasa hvarvetna við. Það sem mér heyrist fólk fyrst og fremst hafa á móti þessari plöntutegund er að hún hefur sums staðar dreifst inn í lyngmóa þar sem fólk á margar ánægjustundir við berjatínslu. Margir átta sig ekki á því að um leið og berjamóinn er friðaður fyrir beit fer gróðurfar að breytast. Víðir þýtur upp og birki sáir sér inn í móann og með tímanum endar þetta í birkiskógi eða kjarri.  Sem sagt, til þess að viðhalda gróðurfari beitarlandslagsins þarf beit.

Halldór Sverrisson, 1.7.2010 kl. 09:24

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Halldór vissulega breytist gróður þegar sauðkindin fer.   Hér fyrir ofan mig hefur landið verið friðað meira en 30 ár, breytingin sem varð er sú að í stað krækilyngs er nú að mestu aðalbláberjalyng, og bláberjalyng en ekki trjágróður.  Víðir hefur vaxið upp neðar í hlíðum en ekki þar sem lyngið er. 

Ég tel það vera nokkuð sýnilegan tíma til að átta sig á hvað gerist við að beit er hætt.

Hér má sjá heilu fjöllin alþakin lúpínu og hún verður áfram og eirir engu.  Í kjölfar hennar kemur svo kerfill sem er eiginlega meira skaðræði en lúpínan.  Ég vil halda í lyngmóa og jurtir svo sem eins og brönugrösin okkar, ljónslappa, lambagrös og rjúpnalauf.  Allt þetta hverfur undir lúpínubreiður. 

Ég get skilið að menn vilji nota lúpínu á örfokasvæði, þar hefur líka verið notað melgresi og annar harðgerður gróður.  En lúpínu ber að fara að með varúð.  Sérstaklega þar sem ekki er uppblástur.  En lyng og annar undirgróður þekur hlíðar og móa. Veit ekki einu sinni hvort lóan okkar getur þrifist innan um lúpínuna, helt að hún færi sig um set, alveg eins og þegar við þurrkuðum upp tún og móa, og hröktum burtu vaðfugla.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.7.2010 kl. 10:11

15 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Halldór

Ég á einmitt landskika sem er fyrst og fremst ófrjór lyngmói með krækiberjalyngi, bláberjalyngi o.fl. Mjög fallegt land.  Eftir að ég losnaði við hross og kindur af landinu fyrir um áratug hefur það tekið miklum breytingum. Fyrst og fremst er það loðvíðir sem breiðist hratt út, en sjálfsáð birki sprettur einnig upp. Stundum finnst mér loðvíðirinn vera allt of ágengur því hann breiðir svo hratt úr sér. Líklega miklu hraðar en lúpínan myndi gera. Berjalyngið á eftir að hverfa að miklu leyti innan margra ára.

Smávegis af lúpínu er í árbakka, en fræ hefur borist með ánni frá landgræðslusvæði. Lúpínan hefur þó lítið sem ekkert borist inn á lyngmóann. Heldur sig fyrst og fremst þar sem landið hefur rofnað af völdum árinnar. Hún er þar ásamt hvönninni til mikillar prýði.

Ágúst H Bjarnason, 1.7.2010 kl. 10:12

16 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Ágúst H. Bjarnason spurði Halldór Sverrisson: „Er ekki notkun Lúpínu óheimil ofan 400 metra samkvæmt ákvörðun Svandísar?“

 

Hér er örlítill misskilningur á ferðinni. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur aðeins móttekið skýrslu frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðslu ríkisins þar sem lagt er til að hæðarmörkin fyrir notkun lúpínu verði færð niður um 100 m (úr 500m hæð yfir sjávarmáli niður í 400m). Hins vegar hefur umhverfisráðherra enn ekki tekið ákvörðun um hvort eða í hvaða mæli þeim eða öðrum ráðum sem gefin eru í skýrslu NÍ og Lr verði fylgt eftir.

 

Umhverfisráðherra hefur veitt leyfi til að gera opinberar athugasemdir Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands við þessa skýrslu og má lesa þær, ásamt fyrrnefndri skýrslu NÍ og Lr HÉR. Í þeim athugasemdum kemur fram eftirfarandi gagnrýni á tillöguna um að færa hæðarmörkin niður um hundrað metra:

 „Tillaga á bls. 14 í skýrslunni um að banna notkun lúpínu í meira en 400 m er byggð á þeim rökum að hún gerbreyti fjölbreytileika á þeim svæðum sem hún fer yfir og að hún geti borist tiltölulega hratt niður með vatnsfarvegum og haft áhrif á svæði sem neðar liggja. Á móti má færa fram þau rök að land í 400-600+ m hæð hefur víðast hvar misst megnið af gróðurhulu sinni frá landnámi og mikill meirihluti þess er nýttur til beitar. Af því leiðir að land í meira en 400 m h.y.s. gæti verið og þyrfti að vera framleiðslumeira en það er, en um leið kemur beit víðast hvar í veg fyrir að hægt sé að nota lúpínu til að græða það upp jafn vel þótt sumur lengist á komandi árum.  Ef spár um hlýnun rætast munu opnast möguleikar á að nota lúpínu til uppgræðslu örfoka lands í meiri hæð en nú er mögulegt. Það land er ekki á neinn hátt líffræðilega fjölbreyttara, ósnortnara eða í minni þörf fyrir uppgræðslu en samskonar land neðan 400 m. Af því landi mun lúpína ekkert frekar berast niður ár en af landi neðan 400 m. Bann við notkun lúpínu í yfir 400 m hæð mun auka kostnað við uppgræðslu svæða þar sem annars mundi henta að nota lúpínu. Því er lagt til að ekki verði sett hæðarmörk á notkun lúpínu. Þess í stað verði hálend svæði, sem láglend, skilgreind og afmörkuð eftir því sem raunveruleg rök mæla gegn notkun lúpínu. Sé eindreginn vilji til að setja notkun lúpínu hæðarmörk er lagt til að þau verði hækkuð upp í 600 m y.s.“

 

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 1.7.2010 kl. 11:41

17 identicon

Takk fyrir framtakið. Myndirnar eru stórkostlega flottar. Við fórum ríðandi þarna upp í gamal daga með pabba og þvílík auðn yfir að líta, þá töluðum við oft um hvernig ætti að græða þetta örfoka land og  moldrokið  grúfði yfir okkur dögum saman þegar norðanáttin náði sér upp í Haukadal, loftið var brúnt og þurrt.  Nú hefur lúpínan  borist niður Tungufjljót á eyrarnar neðan nýrri brúarinnar og hefur það gerst á örskömmum tíma. Mjög falleg sýn finnst mér.  Ég er lúpínufylgjandi. Segðu mér er þetta minn maður aftan á bílnum á gömlu myndinni?

Sigriður Benedikz (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 12:34

18 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sigga. Myndin er héðan.

Undir henni stendur:

Þessi mynd er líklega frá 1960 eða 61 og tekin á Haukadalsheiði. Það var gríðarlega mikill uppblástur, en þar hefur vel tekist til við að hefta sandfokið. Á þessum árum, og reyndar fyrr, sáði Skógræktin Alaskalúpínu þar með undraverðum árangri.

Vinstra meginn á Maddömuni er Guðmundur Salbergsson, en Haraldur Logason stendur aftan á.  Ómögulegt er að sjá hver það er sem hleypur svona hratt, en Óli Jóns telur að það geti verið Sigurður Richter.

Sjálfur hljóp ég aftast með myndavélina.

Var ekki Víponinn kallaður Maddaman eða Magdalena, eða Madama Magdanela?   



                

Ágúst H Bjarnason, 1.7.2010 kl. 12:50

19 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Varðar: „ En munum fyrst og fremst að það er búið að skilgreina lúpínuna sem ásókna tegund (invasive species) innan NOBANIS verkefnisins, sjá http://www.nobanis.org/files/factsheets/Lupinus_nootkatensis.pdf og þá sérstaklega kafla 6 þar sem kallast Impact og ef menn vilja kafa dýpra þá skoða tilvitnanirnar í þessu skjali.“ (Ólafur Jens Sigurðsson)

 

Munum í leiðinni að enn er ekki til fullnægjandi né nothæf skilgreining á því hvað felst í hugtakinu „innrásartegund“ (e. invasive species). Munum líka í leiðinni að NOBANIS-verkefnið er enginn alþjóðadómstóll eða alþjóðlegt yfirvald í hreintrúargróðurpólitík. Margt í þeirra röksemdafærslum og málflutningi orkar mjög tvímælis fræðilega, svo ekki sé tekið dýpra í árinni!

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 1.7.2010 kl. 12:55

20 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Mér þykir mynd númer tvö vera hvað sterkust, því hún sýnir hvort tveggja í senn: before og after. Ég hef það eftir manni sem náð hefur að rækta skóg i holtunum kringum Hafravatn, að mestu máli skipti að efla frjómagn jarðvegsins og þá nái trjágróður sér á strik. Sá maður notaði taðköggla úr fjárhúsi, barði þá sundur og dreifði út á melana. Síðan kom lúpínana á eftir og svo trjágróður. 

Sumir nýbúar eru velkomnir á Íslandi og þykir merki um þröngsýni og heimóttarskap að amast við þeim. Jafnvel talað um kynþáttahatur. Blessuð lúpínan hjálpar bara til við að klæða þetta land og það er vel.

Flosi Kristjánsson, 1.7.2010 kl. 13:50

21 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég kann betur við auðnirnar heldur en þetta blómahaf.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.7.2010 kl. 15:28

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Segi sama Emil.  Og ég hlæ bú bara að því að ætla að banna lúpínubreiður fyrir ofan 400 metra hver ætlar að tilkynna lúpínunni þetta?

Ég var í upphafi hlynnt lúpínunni, og fanns eins og mörgum hér þetta vera besta mál, þar til ég horfði upp á eyðilegginguna á gróðri sem hún veldur í grónu landi.  Við eigum ekki við mikinn uppblástur að eiga hér.  Og mér finnst við ef til vill vera að ræða um epli og appelsínur, talandi um eyðingu gróðurs og sandfok.  Það er ekki hér.  Heyrði garðyrkjumann segja hér fyrir ekki löngu síðan að við værum búin að missa algjörlega tökin á Lúpínunni og héðan í frá væri ekki hægt að hefta útbreiðslu hennar.  Hún æðir út um allt.  Ég frábið mér að vera kölluð rasisti eða heimóttarmanneskja við það að gera mér grein fyrir skaðsemi þessarar jurtar.  En umræðan fer alltaf í sömu skotgrafirnar eins og í pólitíkinni.  Fólk virðist ekki geta lært að ræða hlutlaust og yfirvegað um neitt.  Skiptist alltaf í með og á móti og andmælendur eru fífl og fávitar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.7.2010 kl. 17:50

23 Smámynd: Karl Jóhann Guðnason

Ég er sammála með að lúpínan er mjög góð til að græða upp land hér á landi. Ekki veitir af. Þegar hún er í blóma þá er það mjög fallegt að sjá.  Auðvitað eru svæði sem lúpínan á ekki að vera en til að græða upp örfoka land eins og er víða, þá er varla til betri planta en lúpínan að mínu mati.

Karl Jóhann Guðnason, 1.7.2010 kl. 18:02

24 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Emil og Ásthildur.

Auðnirnar á Haukadalsheiði eru að mestu af mannavöldum. Þarna var áður skógur, væntanlega svipaður birkiskóginum sem er víða í Bláskógabyggð. Þegar gróðurinn hvarf fauk nánast allur jarðvegurinn burt og eftir stendur ísaldar-ruðningurinn; ber, kaldur og líflaus.

Hvað væri sagt ef einhverjir tækju upp á því í dag að hreinsa allan gróður og jarðveg af þúsundum hektara lands? Fáum þætti sú auðn falleg sjón.  Ekki mér.

Í dag reynum við að bæta fyrir misgjörðir forfeðra okkar. Eyðileggingin var svo gríðarleg að við höfum enga aðra möguleika á að mynda jarðveg og græða upp landið en nota til þess plöntur sem nota andrúmsloftið og sólarljósið til að mynda lífmassa, sem síðar verður að jarðvegi. Plöntur sem eru með innbyggða áburðarverksmiðju eins og lúpínan. Þegar jarðvegurinn er kominn er möguleiki á að planta t.d. birki hér og þar, og leyfa því síðan að sá sér út.   Sigurinn er unninn.

Svo er það auðvitað annað mál, að það verður að fara varlega þegar lúpínu er sáð á ný svæði. Á sumum stöðum á hún ekki heima. Um það eru flestir sammála.



Ágúst H Bjarnason, 1.7.2010 kl. 18:32

25 identicon

Það væri gaman að fá hagfræðing til að bera saman hvað það kostar að græða upp örfoka land með áburði og fræi, eða með lúpínu.  -  Flestir vita að ef sáð er grasfræi og tilbúinn áburður settur með, þá þarf að endurtaka áburðargjöfina á nokkra ára flesti.  Lúpínan er aftur á móti sjálfbær.  Gaman væri að sjá einhverjar tölur um þetta.

Flesti eru sammála að það sé til góðs að vinna á eyðimörkinni, en ekki eru allir á sama máli.   -   Þess vegna þarf að skilja eftir stór svæði til að auðnardýrkendur geti fullnægt tómleikaþörf sinni.

Halldór Ásgeirsson (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 18:46

26 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ágúst þetta er einmitt það sem ég er að segja með epli og appelsínur.  Sumstaðar er lúpinan besta mál, en það á alls ekki að planta henni þar sem landið er uppgróið og með  og íslenskum fjalla og heiðargróðri. Ég er að tala um það, að fólk hefur verið að planta lúpínu til dæmis inn í stað sem við köllum Skóg, í öll svæði þar sem birkikjarrið er ekki fyrir, þar hefur hún eytt öllum undirgróðri og er á góðri leið með að eyðileggja lyngmóa og berjalönd.  Svo vill til að okkar besta berjaland hefur einmitt verið í Skóginum.  Þar er nú einvörðungu lúpína, liggur við að ég taki nokkrar myndir af þessum hrylling til að sýna fram á eyðilegginguna af völdum hennar þar sem hún á EKKI VIÐ.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.7.2010 kl. 19:14

27 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er auðvitað skiptar skoðanir um þetta eins og margt annað. Mér finnst ágætt að vera kallaður auðnadýrkandi (sbr. athugasemd nr.25). Íslensku hálendisauðnirnar urðu til á löngum tíma sumpart vegna skógarhöggs og beitar en einnig vegna kaldari veðráttu og eldgosa, þær urðu ekki til vegna þess að einhver ákvað að þarna ætti að vera auðn heldur eru þær afleiðing ýmissa þátta.

Mér finnst sandauðnir hálendisins fallegar eins og hraunin og jöklarnir og gefa landinu sérstakan blæ sem er fandfundinn annarsstaðar. Ef þarna hefur verið gróður áður þá mun hann koma aftur í fyllingu tímans og það mun verða náttúrulegur innlendur gróður. Lúpínusáning í stórum stíl finnst mér vera bera vott um óþolinmæði og það er alls ekki vitað nógu vel hvernig náttúran tekur þessum framandi gesti úr allt öðru vistkerfi.

En ég neita því þó ekki að lúpína getur fegrað umhverfið á stöku stað, en í tómleikaþörf minni þá hef ég dálitlar áhyggjur af auðnunum.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.7.2010 kl. 21:18

28 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Trúlega er helsta ástæða þess hve Landgræðslufélag Biskupstungna  (sjá  skiltið á efstu myndinni) leggur mikla áherslu á uppgræðslu svæðisins hið gríðarmikla moldryk sem stundum kemur frá heiðinni. Það hefur þó minnkað stórlega á undanförnum áratugum, fyrst og fremst vegna þess hve vel hefur tekist til með uppgræðlu. Auðvitað á jurtin sem "ber himinsins heiðbláa lit" þar mjög stóran hlut að máli.

Ágúst H Bjarnason, 1.7.2010 kl. 22:59

29 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Myndir teknar 23. júlí 2009 gefa hugmynd um moldryk sem komið getur frá Haukadalsheiði í stífri norðanátt:

 

Laugafell og Geysir fyrir miðju. Mökkurinn er að leggja af stað frá heiðinni.

 

 Mökkurinn kominn nær. Enn sést í Laugafell.  Geysissvæðið að hverfa í mökkinn.

 

Enn versnar ástandið. Ekki sést lengur í fjöllin Bjarnarfell og Sandfell sem eru bak við Laugafell.

 

Farið að sjást illa til sólar þegar horft er til suðurs yfir sveitina.

 

Horft í átt að Bjarnarfelli  sem er í rúmlega kílómeters fjarlægð. Ekki sést hálfa leið.

 

 Myndavélinni beint suður yfir sveitir. Sjálfsagt er allt að fyllast af moldryki þar...

-

Svona var ástandið á góðviðrisdegi fyrir ári. Fyrir nokkrum áratugum var það oft miklu verra. Í þetta sinn var greinilegt að rykmökkurinn kom frá svæðum þar sem lítið er af lúpínu. 

 

Ágúst H Bjarnason, 1.7.2010 kl. 23:32

30 Smámynd: Jón Ásgeir Bjarnason

Þetta eru góð orð hjá þér Ágúst.

Gott að það séu margir sem skoða þetta.

Það er alveg ótrúlegt að ætla nú að fara að eyða fjármunum í að stöðva uppgræðslu Íslands.  

Hvað ætli það séu mörg lönd í heiminum þar sem aktívt skal brjóta niður gróðurlendi hálf örfoka lands?

Er allt í lagi með umhverfisráðherra?

Jón Ásgeir Bjarnason, 2.7.2010 kl. 10:48

31 Smámynd: Halldór Jónsson

Ásthildur Cesil

Ég er búinn að stunda sama bláberjalandið ár hvert í meira en fjörtíu ár. Það er lúpína allt í kringum móann í grjóturð og uppblástursflögum sem þar eru. Ekki verð ég var við hana í lyngmóanum þar sem er þykk gróðurþekja. Þar sem áður var lúpína er víða komið graslendi. Ég sé ekki að hún sé að vaða yfir allt eins og þú segir. Við þyrftum að skoða þetta betur hvort á sínu svæði og senda Ágústi myndir af þessu og láta hann setja þessi dæmi fram til umræðu.

Ágúst frændi, eru Skerslin bara í  2-300 metra hæð. Þekkir þú einhver dæmi að lúpína sé ofar en þetta ?  

Halldór Jónsson, 2.7.2010 kl. 12:02

32 Smámynd: Halldór Jónsson

Jú Ágúst,, þetta með bílinn

hún var keypt til skógræktarinnar í Fosssvogi úr sölunni þegar ég var þar og gekk undir þessum nöfnum báðum man ég. Það hlýtur að hafa unnið þarna einhver Magðalena á þessum tíma og bíllinn skírður eftir henni þó éwg muni það ekki. Við vögguðum á henni mikið í Undirhlíðum við störf þar. Eins í  Haukadal var Jónas Ólafsson bílstjóri og hestamaður að keyra okkur á henni með Lása smið og Baldur Þorsteinsson og fleiri stórhöfðingja og höfuðsnillinga, sem hana sátu. Þetta var talsvert áður en þið komuð til skjalanna.

Halldór Jónsson, 2.7.2010 kl. 12:13

33 identicon

Þakka þér hlý orð í garð lúpínunnar Gústi. Þegar ég vann hjá í Haukadal 1967 var talað um "Mödduna". 1968 fór Greipur heitinn með mig upp í heiðarbrúnina og sýndi mér hryllinginn. Grjót og foksandur, en einstaka rofabörð, allt uppí 4 m þykk. Þegar ég kom aftur til starfa í Haukadal 1983, gerði ég það að föstum lið, að fara að lokinni gróðursetningu hvers árs eitt síðdegi á ákveðinn stað, þar sem Greipur eða hans menn höfðu sáð lúpínu utan í barð við slóðann uppá Sandfell. Við hirtum þarna tugi eða hundruð eins til tveggja ára lúpínuplantna hvert okkar, settum í gróðursetningarpokana og síðan var haldið inná heiðina, með það að leiðarljósi, að planta lúpínu með ca. 15-20 m millibili og þá helst á hernaðarlega mikilvæga staði, þ.e. efst í vantsrofsför og á hæðarbrúnir, til að þyngdaraflið mætti hjálpa okkur að dreifa plöntunni sem víðast á sem skemmstum tíma. Þetta var gert í um fjögur ár og tókst okkur á þeim tíma að fara um alla þá auðn, sem tilheyrði Skógræktinni, sem mun vera nokkur hundruð ha. Fórum líka uppá Sandfellið, en talsvert fyrr hafði Greipur sett lúpínu við Skotmannsvörður.

Síðasta árið fór ég með þáverandi skólastjórafrú í Tungunum. Það var síðsumars og höfðum við með okkur skálpa með fræi og dreifðum þeim á svæðið ofan við slóðann inná heiði, til að flýta uppgræðslunni. Einnig fór ég með talsvert af lúpínu í hlíðar Sandfellsins, langt inn fyrir landamerki Skógræktar og Landgræðslu á þessum árum. Samtals hefur sú lúpínuuppgræðsla, sem við blasir í hlíðum Sandfellsins og á Haukadalsheiðinni innan landareignar Skógræktarinnar kostað sem nemur um 10 dagsverkum og er þá meðtalið það svæði í Sandfellshlíðunum, sem er innan umsjónarlands Landgræðslunnar. Ætli fjöldi ha sé ekki 3-400.  Semsagt ca. 30-40 ha fyrir hvert ársverk. En það hefur tekið lúpínuna hátt á þriðja tug ára, að ná því að verða nokkuð samvaxin breiða. Hún dreifir sér með vatni niður eftir rof-farvegum innan um gróðurlendi og eins næst uppfoksjaðrinum. En þar sem lyngið var ríkjandi og mosasvörður þéttur á lúpínan ekki séns, enda hennar ekki þörf.

Fólk er oft að ruglast í ríminu, þegar það ásakar lúpínu um að ráðast inní berjalönd af hvaða tagi sem er. Hún dreifir sér aðeins þar sem svarðgróðurinn, þ.m.t. mosinn er gloppóttur. Á Laugarheiðinni innan við hverasvæðið breyttist krækilyngsmói smám saman í bláberjaland. Ég efa ekki, að með tíð og tíma og án ferfættra beitardýra mun bláberjalyngið láta undan fyrir gróskumeiri gróðri, alveg án aðkomu lúpínu á þessu landi. Þess má geta, að aðalbláberjalyng er algengasta gróðurhverfið í norskum rauðngreniskógum, en er auðvitað ekki áberandi, meðan skógurinn er á þéttasta þroskastigi. Fólk verður að læra að taka tímavíddina með í reikninginn, þegar það skoðar náttúruna. Þróun gróðurs frá örfoka landi til þess að verða frjósamt land, án aðkomu lúpínu eða annarra belgjurta, getur eflaust tekið margar aldir, þannig að ég hygg að hún Ásthildur Cesil Þórðardóttir sé full bráðlát. Hún ætti að taka sér til fyrirmyndar Erlend heitin á Hamarsheiði í Gnúpverjahreppi. Þegar Sr. Flóki spurði Erlend, hvernig á því stæði, að hann maður um sjötugt væri að byrja í skógrækt svaraði Erlendur: "Ég ætla að planta þangað til ég drepst og koma svo aftur og sjá, hvernig til tókst." Prestur bað hann þá endilega að reyna að finna einhvern til að passa skóginn á meðan.

Lúpínan er svo miklu ódýrari leið til uppgræðslu en áburður og grasfræ, að mismunurinn getur örugglega verið meira en hundraðfaldur. Þegar við bætist, hve orkufrek áburðarframleiðslan er, hann að hluta framleiddur úr olíu, fluttur langan veg til landsins með tilheyrandi útblæstri koltvísýrings, skil ég ekki að menn geti verið á móti notkun lúpínu til landgræðslu og jafnframt talið sig vera umhverfisverndarsinna. Ég skil vel sjónarmið þeirra, sem elska grjótið, en finnst að þeir ættu að geta látið sér nægja eyðimerkur, sem liggja annaðhvort of hátt yfir sjó fyrir lúpínuna eða eru of þurrar fyrir hana. Eldgos hófust ekki við landnám og skógum var að mestu eytt áður en loftslag tóka að kólna. Eins er ljóst, að kólnunin hefði aðeins átt að færa gróðurmörkin neðar, en ekki eyða gróðri niður að sjávarmáli. Þar átti mannskepnan allan hlut að máli, því maðurinn hlýtur að ráða yfir sauðkindinni en ekki öfugt.

Það munu vera til rannsóknaniðurstöður, sem sýna, að háplöntur eru færri í lúpínubreiðu en í örfoka mel. Skyldi engan undra. En eins og rannsókn Daða Björnssonar í Heiðmörkinni sýnir skýrt, víkur lúpínan, nema þar sem er viðvarandi áfok eða árennsli. Gaman væri, ef rannsókn hans væri framlengd frá 1990, þegar síðustu lofmyndir, sem hann notaði munu hafa verið teknar og fram til dagsins í dag. Þá kæmi hygg ég í ljós, hve fyndin orð þau eru, sem höfð voru eftir bæjarverkfræðingi Garðabæjar í Mbl. 28. júní sl., þar sem hann spáði því, að lúpínan myndi leggja undir sig alla Heiðmörkina á næstu 10 árum. Af hverju ætti lúpínan að leggja Heiðmörkina undir sig aftur, svona nýbúin að því og hörfar ört (nema á einhverjum örfoka melum ofan við Vífilsstaðavatn, þar sem hún varð dálítið sein fyrir). Þegar lúpínan víkur, fjölgar háplöntunum aftur. Jafnframt fjölgar mjög jarðvegslífverum í lúpínubreiðu, miðað við örfoka land, sbr. rannsóknir Eddu Oddsdóttur. Fuglar gera sig heimakomna í lúpínubreiðum. Þar nærast þrestir á ánamöðkum og spóinn hefur einhverrra hluta vegna nýtt sér lúpínuakra sem búsvæði, þótt fjarri fari því að þeir geti talist votlendi. Þéttleiki músastofnsins er líka gífurlegur í lúpínubreiðum og þ.a.l. fjölgar branduglu, þar sem mikið er um lúpínu. Skyldi Náttúrufræðistofunun hafa rannsakað samband lúpínu og fuglalífs? Þegar allt kemur til alls eykur lúpínan því lífbreytileikann, þótt hún hafi mér vitanlega engin áhrif á fjölbreytni líffræði sem fræðigreinar. Þar mætti þó eflaust bæta úr. Þekkt er þjóðsagan, sem talin var viðtekin vísindi á Bretlandseyjum meðal náttúrufræðinga, um að engir fuglar þrifust í sitkagreniskógum. Annað kom nefnilega í ljós, loksins þegar fuglafræðingar treystu sér til að hefja rannsóknir á fuglalífi í sitkagreniskógum þarlendum. 

Sigvaldi Ásgeirsson (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 14:25

34 Smámynd: Óskar Þorkelsson

lúpinan er falleg og frábær

Óskar Þorkelsson, 2.7.2010 kl. 14:53

35 identicon

Halldór

Þeir Lási og Sigtryggur lentu einhverju sinni í krísu. Veðurtepptir í Haukadal og þá varð prímus, eða öllu heldur, olían af honum til að lina þjáningar þeirra.

Maddömu nafnið er þaðan komið. Kannski langsótt fyrir suma en þeir sem þekkja söguna skilja hana. Vonandi rifjast þetta upp fyrir hinum.

Sagt var að maddaman hafi bjargað þeim.

Gummi (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 17:25

36 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sælir ágætu skógarrefir.

Halldór Bergstaðabóndi og Sigvaldi:  Skömmu eftir að Halldór spurði um hve ofarlega lúpínan vex birtist vinur okkar Sigvaldi með einstaklega góða frásögn af því er hann umplantaði og sáði lúpínu þarna á heiðinni, hvar og hvenær. Ég er miklu fróðari núna. Kærar þakkir fyrir fróðleikinn Sigvaldi, þetta er einstök heimild sem gott væri að varðveita einhvers staðar á prenti. - Reyndar langar mig að skjótast aftur og skoða betur eftir að hafa lesið frásögn þína.

Ég var að lesa í gær Athugasemdir til umhverfisráðherra um skýrsluna "Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi:Útbreiðsla, varnir og nýting". Mæli eindregið með að áhugasamir lesi þessar umsagnir sérfræðinga Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Ísland um greinagerð Landgræðslunnar og Náttúrufræðistofnunar til Umhverfisráðherra; Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi: Útbreiðsla, varnir og nýting. Umsagnir skógræktarmannanna er einstaklega greinargóðar og fróðlegar.  (Fann  krækjurnar á www.skog.is).

Það væri gaman að vita eftirnafnið hans Gumma sem fræddi okkur um Maddömuna. Byrjar það á L...?  Ég man vel eftir Sigtryggi og Lása. Vann með Baldri og Greip í Haukadal, Agli Stardal og mörgum fleiri höfðingjum. Auðvitað réði Einar Sæm þá ríkjum í Fossvoginum, En Villa Sigtryggs unnum við mikið með... Það er gaman að rifja þennan góða tíma upp. 

Ágúst H Bjarnason, 3.7.2010 kl. 10:48

37 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Greipur og Maddaman í baksýn. Ég tók myndina í Haukadal fyrir 50 árum.

 http://agbjarn.blog.is/users/fa/agbjarn/img/02-greipur-2.jpg

Ágúst H Bjarnason, 3.7.2010 kl. 11:39

38 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég skrapp upp á heiði í kvöld. Var með fróðleikinn frá Sigvalda í huga þegar við ókum upp með Svartagili og síðan eftir veginum í hlíðinni í norðurátt. Ósköp er vegurinn orðinn lúinn, en það er eiginlega synd því útsýnið frá Melhól er einstakt. Á einum stað er vegurinn nánast ófær, þ.e. þar sem lækjarfarvegurinn er norðarlega. Sjálfsagt er ekki ætlast til þess að fólk aki þessa leið, en ...

Það er ljóst að lúpínan nær alveg upp á efstu brún Sandfells, en það er líka deginum ljósara að hún hefur hvergi farið inn á gróin svæði. Aðeins haldið sig í gróðurlausum giljum og uppblásnum svæðum. Það vakti athygli okkar að þar sem landgræðslugirðingin er nærri þjóðveginum fyrir norðan Gullfoss er lúpínan þétt innan girðingar, en melurinn gjörsamlega ber utan girðingar. Þarna eru þó sárafáar kindur. Það er því auðvelt að hafa hemil á lúpínunni með því að leyfa smá beit á landinu.

Ágúst H Bjarnason, 4.7.2010 kl. 00:59

39 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála góðu innleggi Sigvalda Ásgeirssonar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.7.2010 kl. 09:04

40 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Fallegar myndir og ég vil alls ekki að lúpínunni verði útrýmt, annað er að hafa smá aðgát.  Takk fyrir þetta allt.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.7.2010 kl. 12:17

41 identicon

Sæll Ágúst og þakka þér fyrir svörin.

Það er áhugavert að lesa innleggin hérna, nema hvað alltaf er leiðinlegt þegar fólk sér bara annað hvort svart eða hvítt. Lúpínan er bæði nytsamleg og ágeng, ég held að allir geti samþykkt það.

En ég hnaut um það í svörum þínum við innlegginu mínu er þó það að í báðum tilfellum hörfar lúpínan eftir að byrjað er að beita hana. Þetta er í raun eitthvað sem ég kannast við sjálfur, þ.e. að beit heldur lúpínu niðri. En það eru nefnilega staðir á Íslandi þar sem ekki er hægt að beita fé til að halda henni niðri, t.d. hér vestur á Ísafirði (þar sem sauðfé má ekki vera innan bæjarmarkanna) og ekki síður í Hornstrandafriðlandi þar sem lausaganga sauðfjár er bönnuð með öllu. Hvað er hægt að gera á þessum stöðum án þess að grípa til "drastískra" og kostnaðarsamra aðgerða eins og eitrunar eða sláttar/áburðargjafar?

Kv. Guðjón Torfi

Guðjón Torfi Sigurðsson (IP-tala skráð) 6.7.2010 kl. 11:18

42 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

@Guðjón Torfi Sigurðsson: 

 

Í umsögn Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands um „andlúpínuskýrslu“ Náttúrufræðistofnunar og Landgræðslu ríkisins er bent á umhverfisvæna leið sem hvorki felur í sér beit búfjár né eiturefnahernað:

 Besta leiðin til að losna við lúpínu er ekki nefnd í skýrslunni, en það er skógrækt. Lúpína er ljóselsk tegund og er fljót að hopa undan hávaxnari gróðri sem skyggir á hana. Auk þess stuðlar hún að hröðum vexti trjáplantna og því tekur það ekki langan tíma fyrir tré sem gróðursett eru í lúpínubreiður að skyggja út lúpínuna. Trjátegundin sem notuð er skiptir ekki máli. Aðferðir til að koma trjágróðri í lúpínubreiður eru vel þekktar og fela ýmist í sér jarðvinnslu eða slátt til undirbúnings gróðursetningar eða einfaldlega gróðursetningu trjáplantna sem eru hærri en lúpínan. Það eina sem þarf að huga að er að gróðursetningin sé jöfn yfir svæðið þannig að trén nái að skyggja á alla lúpínuna. Þessa aðferð hefði einnig mátt nota á Morsáraurum með birki úr Bæjarstaðaskógi, en ekki var áhugi á því, þar sem gróðursetning trjáa þykir ekki við hæfi í þjóðgörðum. 

Þó það sé ekki nefnt í umsögninni, má geta þess að sama ráð á við um skógarkerfil. Skógarkerfill er fremur ljóselskur og þrífst illa undir laufþaki trjáa. Besta og varanlegasta leiðin til þess að losna við eða fyrirbyggja landnám skógarkerfils er að rækta skóg á þeirri landsspildu þar sem menn vilja vera lausir við skógarkerfil (og á sama við um lúpínu). Sé skógurinn hæfilega grisjaður jafnt og þétt má viðhalda gróskumiklum berjalyngsbreiðum. Á þetta ekki síst við um aðalbláberjalyngið, enda er aðalbláberjalyng útbreiddasti undirgróður í furuskógum nágrannalanda okkar.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 7.7.2010 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 11
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 761796

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband