Góð grein Vilhjálms Lúðvíkssonar: Til varnar líffjölbreytni á Íslandi...

 

Vilhjálmur Lúðvíksson efnaverkfræðingur skrifaði nýlega mjög fróðlegar greinar í Fréttablaðið. 

Vilhjálmur er doktor í efnaverkfræði, starfaði lengi sem framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs, hefur verið stjórnarmaður Skógræktarfélags Íslands, er formaður Garðyrkjufélagsins... Hann hefur fjallað um náttúruvernd í ræðu og riti, og sjálfur starfað að uppgræðslu og skógrækt í eigin landi.

Það er full ástæða til að halda þessari grein til haga. Ég leyfði mér að breyta leturgerð á nokkrum stöðum.

 



 


 

Til varnar líffjölbreytni á Íslandi - fyrri grein

Fréttablaðið 28. ágúst 2010.

Vilhjálmur Lúðvíksson áhugamaður um náttúru Íslands, sjálfbæra ræktun og aukna líffjölbreytni í landinu

vilhjalmur_lu_viksson.jpgNúverandi umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur að undanförnu boðað herferð gegn nokkrum tegundum lífvera á Íslandi, lúpínu og skógarkerfli, sem uppræta skal með verkfærum eða eitra fyrir eftir því sem við á.

Rökin fyrir þessum útrýmingaraðgerðum eru þau að umræddar tegundir ógni því sem kallað er ,,líffræðilegur fjölbreytileiki" eða „líffræðileg fjölbreytni" á Íslandi og að Ísland sé skuldbundið af alþjóðlegum sáttmála (Ríó-sáttmála) til þess að berjast gegn ,,ágengum framandi lífverum" sem ógni þeirri fjölbreytni. Auk þess þurfum við ,,að virða leikreglur á þessu sviði og taka mið af alþjóðlegri reynslu, ekki síst vegna þess að vistkerfi einangraðra eyja eru viðkvæm fyrir innflutningi og dreifingu framandi lífvera og er Ísland þar engin undantekning".



Hugmyndafræðilega lituð túlkun Ríó-sáttmála

Í þessari röksemdafærslu er mörgu snúið á hvolf. Látið er í veðri vaka að ,,líffræðileg fjölbreytni" sé hugtak sem nái yfir tiltekna stöðu lífríkisins á hverjum stað og að á Íslandi sé sérstök ,,líffræðileg fjölbreytni" sem þurfi að vernda fyrir ,,ágengum, framandi" tegundum samkvæmt alþjóðlegum samningi þar um.

Þetta er allt rangtúlkun sem snýst um hugmyndafræði en ekki vísindi og leiðir til misskilnings á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Hugtakið ,,líffræðileg fjölbreytni" er reyndar vond þýðing á enska orðinu biodiversity sem er hlutlaust hugtak um fjölbreytileika lífsins og nær til allra flokka lífríkisins og erfðafræðilegs fjölbreytileika þess - óháð stað og aðstæðum. Það nær bæði til fjölbreytni tegunda, erfðaefnis og lífsamfélaga, og ber ekki í sér neina hugmyndafræðilega eða tilfinningalega afstöðu til æskilegra eða óæskilegra lífvera - innlendra, framandi, eða ágengra. Betra væri að tala um líffjölbreytni en ,,líffræðilega" fjölbreytni því fjölbreytnin er eiginleiki lífsins en ekki fræðanna sem um það fjalla þótt einstakar fræðigreinar virðist gefa þeim mismunandi gildishlaðna merkingu.

Skuldbindingar þær sem Ísland undirgekkst með svonefndum Ríó-sáttmála snúast um að taka þátt í alþjóðlegri viðleitni til að koma í veg fyrir að tegundir lífvera og lífsamfélög fari forgörðum vegna sívaxandi umsvifa mannsins á jörðinni. Sérstaklega snúast þær um fjölbreytni lífsins í regnskógum hitabeltisins og áhyggjur manna af ótæpilegri eyðingu þeirra. Einnig er viðurkennt að líka þurfi að huga að tegundum í útrýmingarhættu annarsstaðar á jörðinni. Athyglisvert er að Ríó-sáttmálinn byggir mjög á því að fjölbreytni lífsins sé manninum mikilvæg sem uppspretta verðmæta til framtíðar - auðlinda framtíðarinnar.

 

Hver er raunveruleikinn á Íslandi?

Lífríki Íslands er óvenju fátækt af lífverum og lífræn framleiðsla eða afkastageta landsins afar lítil miðað við náttúruskilyrðin svo sem hnattstöðu, veðurfar og jarðveg. Þurrlendið ber þess merki að hafa verið einangrað frá meginlöndunum og tegundir sem hér ættu að lifa góðu lífi hafi ekki enn borist hingað. Þetta á sérstaklega við plönturíkið. Ef hægt er að tala um jafnvægi í þessu sambandi má segja að Ísland sé gróðurfarslega úr jafnvægi við gróðurfar grannlandanna og annarra landa sem búa við hliðstæð gróðurskilyrði. Af því leiðir einnig fábreytni annarra tegunda sem fylgja framleiðslugetu gróðurlendisins. Af þessu leiðir líka að þegar einangrun hefur verið rofin fjölgar lífverutegundum hér hratt.

Landnám Íslands og þeir nýtingarhættir sem fylgdu landnámsmönnum æ síðan leiddu til stórfelldrar gróður- og jarðvegseyðingar sem staðið hefur fram á okkar daga. Landinu sem var að stórum hluta viði vaxið var breytt í örfoka land, berangursmela eða í besta falli mosaþembur og lyngmóa þar sem engar afkastamiklar og lostætar plöntur eins og belgjurtir og ungar trjáplöntur þrifust vegna þrotlausrar beitar. Íslendingar hafa því valdið gífurlegu líffræðilegu umhverfisslysi líkt og aðrar þjóðir sem búið hafa við hjarðmennsku t.d. í Asíu, Afríku. Þessu hefur verið marglýst og staðfest með vísindarannsóknum hér á landi og merkin getur hver sem er séð sem er með augun opin.

En það er eins og margir vilji breiða yfir og afneita þessu. Það er jafnvel farið að lofsyngja berangursholtin og lyngmóann sem hin náttúrulegu íslensku gróðursamfélög með sína dýrmætu ,,líffræðilegu fjölbreytni". Og nú er farið að berjast gegn viðleitni til að endurheimta hin löngu glötuðu gróðursæld og lífframleiðslu sem henni fylgir - og þeirri stofnun falið að hefja eyðingu gróðurs sem þó hefur náð mestum árangri í baráttunni við gróðureyðinguna.

Sem betur fer hefur gróðureyðingu fyrri ára nú að mestu verið snúið við og gróðurlendi Íslands tekur örum stakkaskiptum. Þar kemur margt til. Skógræktar- og landgræðslustarf hefur skilað miklum árangri og mjög hefur dregið úr beitarálagi sauðfjár. Stór svæði eru nú friðuð fyrir beit. Á síðustu tveimur áratugum hefur veðurfar einnig orðið gróðri hagstæðara en var lengst af. Nýjar tegundir bæði svarðplöntur, runnar og tré, sem fluttar hafa verið til landsins, breiðast nú hratt út ásamt innlendum tegundum - s.s. víði, birki og ýmsum belgjurtum - jafnvel tegundum sem verið hafa á válista Náttúrufræðistofnunar. Nærtækt er fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins að horfa yfir heiðarnar ofan við Reykjavík og sjá breytingarnar sem eru að verða og að þær eru til góðs bæði fyrir mannlíf og aðrar lífverur í landinu. Að halda öðru fram er einfaldlega rangt.

Sannleikurinn er sá að í samhengi við Ríó-sáttmálann um verndun líffjölbreytni er engri innlendri tegund bráð hætta búin. Þvert á móti eru ýmsar þær sem hafa verið á válista eða friðaðar nú í útbreiðslu og auðvelt að fjölga mörgum þeirra ef menn vilja. Einu lífsamfélögin sem eru e.t.v. að dragast saman vegna gróðurútbreiðslunnar eru þau sem mynduðust í kjölfar gróður- og jarðvegseyðingarinnar, foksvæðin, holtin og melarnir, sem búskaparhættir landsmanna mynduðu í samspili við eldgos og langvarandi kuldaskeið frá lokum 13. aldar. Í þessu samhengi þarf að ræða skuldbindingar Íslands en ekki í samhengi við eyðingu skóga í hitabeltinu.

Líffjölbreytni á Íslandi í skilningi Río-sáttmála hefur þannig verið að aukast hröðum skrefum á síðustu árum og engri tegund er í rauninni hætta búin af manna völdum. Engar vísindarannsóknir hafa heldur sýnt fram á neitt slíkt. Þvert á móti eru margar nýjar tegundir skordýra, fugla, örvera að nema hér land auk þeirra plantna sem menn flytja til landsins bæði af ásetningi manna eða óviljandi með margvíslegum aðföngum - m.a. til landbúnaðar. Sumar tegundir sem hingað koma óboðnar eru ekkert sérstaklega æskilegar í augum okkar, svo sem 4-5 tegundir geitunga, köngulær, asparglitta og Spánarsnigill að maður ekki tali um margvíslegar tegundir sveppa sem leggjast á tré og garðagróður. En þrátt fyrir leiðindin sem þessum tegundum fylgja fyrir okkur mennina tekur lífríkið sjálft enga sérstaka siðferðilega afstöðu til þessara nýbúa. Þeir munu finna sinn stað í íslenskri náttúru eins og aðrar tegundir sem hingað komu á undan, hvort sem mannfólkinu líkar betur eða ver. - En þær geta verið bæði ,,ágengar og framandi" í lífi þeirra sem fyrir eru. Það þarf hins vegar mikið ,,líffræðilegt lögregluríki" til að stjórna þeirri umferð og litlar forsendur eru til að standa undir þeim kostnaði hér á landi.

 

maple_leaf.gif

 

 

Til varnar líffjölbreytni á Íslandi - síðari grein

Fréttablaðið 2. september 2010.

 

Í fyrri grein höfundar var bent á að beitt væri hugmyndfræðilega litaðri og óvísindalegri túlkun á hugtakinu "líffræðilegum fjölbreytileika" í Ríó-sáttmála Sameinuðu þjóðanna til að réttlæta herferð gegn svokölluðum "ágengum framandi lífverum", aðallega lúpínu og skógarkerfli. Dregið var í efa að aðstæður hér á landi kölluðu á aðgerðir í skilningi Ríó-sáttmála þar sem hér á landi vex líffjölbreytileiki og ekki hefur verið sýnt fram á að neinni tegund eða lífsamfélagi sé hætta búin. Líklega má með hliðstæðum hugmyndafræðilegum rökum réttlæta herferð gegn fleiri tegundum sem telja má "ágengar og framandi" að mati einhvers hóps. Hér er fjallað um réttmæti þess að stjórnvöld grípi yfirleitt til aðgerða á þessu sviði .

 

Mikilvirk, sjálfbær landgræðsluplanta

Alaskalúpínan er einn afkastamesti frumherjinn í þessu efni og hefur þegar skipt sköpum í því uppgræðslustarfi sem hér hefur verið stundað. Hún breiðist út þar sem áður var örfoka eða rofið land og gæðir jarðveginn frjósemi sem áður var eytt. Upp rís nýtt lífríki með jarðvegsörverum og jarðvegsdýrum sem búa í haginn fyrir nýtt gróðurlendi með innlendum og aðfluttum tegundum - allt eftir aðstæðum og ásetningi manna. Og ný lífsamfélög eru líka að verða til m.a. með aðstoð lúpínunnar. Skógurinn er nú að breiðast út sjálfkrafa (sjálfbær) á landinu sem lúpínan hefur forunnið. Hann laðar að sér margar indælar tegundir fugla bæði "innlendar" eins og músarindil, hrossagauk, auðnutitling og skógarþröst sem fjölgar óðum og svo "framandi" nýbúa eins og glókoll, svartþröst og krossnef. Reyndar fer útbreiðslan fram að hluta með hjálp þeirra tegunda sem nýta hið nýja gróðurlendi. Skógarþröstur er þar mikilvirkur að dreifa fræjum. Þar sem nýtur birtu í skóginum vex upp fjölbreyttur svarðgróður og berjarunnar vaxnir af fræi bornu af fuglum. Niturbindandi innlendar tegundir eins og umfeðmingur, giljaflækja og fuglaertur breiðast hratt út. Niturneytandi tegundir fylgja svo í kjölfarið bæði innlendar tegundir á borð við ætihvönn, sigurskúf sem og reyni, birki, víði og einnig aðfluttar tegundir eins og rifs, sólber, hindber, yllir og fleiri berjarunnar ásamt skógarkerfli, Spánarkerfli og geitkáli og fleiri tegundum.

Sumar þessara tegunda, bæði innlendar og framandi, geta um tíma orðið hvimleiðar meðan þær þekja landið og gera það erfitt yfirferðar eða þær komast í garðlönd þar sem menn vilja rækta aðrar tegundir til fegurðar og yndisauka. Það réttlætir þó ekki herferð gegn þeim kostaða af opinberu fé.

Það getur verið að sú "líffræðilega fjölbreytni" í örfoka gróðurlendum, holtum og melum sem nokkrir grasafræðingar hafa reynt að skrá með því að telja fjölda viðurkenndra, villtra íslenskra háplantna bíði einhvern hnekki. Ég mótmæli hins vegar slíkum einhliða mælikvarða á "líffræðilega fjölbreytni" sem hugmyndafræðilega litaðri og óvísindalegri túlkun á Ríó-sáttmálanum. Ég lít svo á að sú þröngsýni í túlkun sé út í hött á tímum þegar hraðfara loftslagsbreytingar ganga yfir, samgöngur eru jafn greiðar milli Íslands og raun ber vitni og líftegundum fjölgar hratt - bæði þeim sem við teljum æskilegar og þeim sem við erum ekkert sérstaklega hrifin af.

 

Vaxandi fjölbreytni lífríkisins - óraunhæf og óþörf herferð

Ísland er ekki lengur líffræðilega einangruð eyja. Fjölbreytni lífríkisins á Íslandi vex nánast með degi hverjum bæði með og án tilverknaðar mannsins. Á heildina litið verður það til góðs þótt einstakar tegundir örvera, jurta og skordýra geti valdið okkur einhverjum tímabundnum skráveifum. Minna hefur orðið úr faröldrum undanfarinna ára en fræðingar spáðu þótt orðið hafi staðbundnir og tímabundnir skaðar. Það þekki ég af eigin reynslu.

Allar jurtir geta orðið illgresi í garðinum okkar þegar þær vaxa á stöðum þar sem við viljum láta aðrar plöntur vaxa. En útrýmingarherferð gegn einstökum tegundum á kostnað almennings á engan rétt á sér. Slíkar útrýmingartilraunir skila litlum árangri. Eiturherferðir og upprót skaðar miklu fleiri lífverur en tilgangurinn var að uppræta og fræbanki er þegar orðið til í jarðveginum. Það sem raunverulega á sér stað er að verið er að tefja náttúrulega gróðurframvindu. Raunar er það siðferðilega umhugsunarvert hvernig opinberum aðilum kemur slíkt til hugar án þess að fram fari yfirvegaðar rannsóknir á meintri skaðsemi viðkomandi tegundum. Engar marktækar rannsóknir hafa farið fram á slíkri meintri skaðsemi sem reyndar er afar illa skilgreind. Hér er út í hött að vísa til hinna sögulegu fordæma um eyðingu refa og minka enda hafa sömu yfirvöld dregið úr viðleitni til að halda þeim tegundum í skefjum. Þar er þó um þekkt áhrif á landsnytjar og búskap að ræða. Ekki hefur verið sýnt fram á nein slík efnahagsleg áhrif lúpínu eða skógarkerfils á landsnytjar - nema síður sé.

Ég mótmæli því áformum umhverfisráðherra og lít á það sem gróflega sóun á almannafé verði farið út í kostnaðarsamar aðgerðir af opinberri hálfu til að útrýma eða hefta útbreiðslu þessara tegunda. Það hljóta að vera önnur brýnni verkefni í þágu þjóðarinnar sem kalla á almannafé um þessar mundir. Ég mótmæli einnig þeirri hugmyndafræði sem býr að baki þessum áformum ráðherra.

 

 


 

Ítarefni:

Um eituráhrif Roundup (Glyphosate)  illgresiseyðisins sem Landgræðslan notar til að eyða gróðri á Íslandi:

 Pesticide Action Network Aotearoa NZ (PANANZ)


 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er nú erfitt að verjast þeirri hugsun að eina " ágenga framandi tegundin" sem "ógnar líffræðilegri fjölbreytni" í landins sé af tegundinni "consilio" undirtegund "amplexor"  eða á nútíma íslensku "ráðsmaður umhverfis(-mála)" ´, því væntanlega falla eiturefnaárasir á lífríkið undir  skilgreiningu Río-sáttmálans eðahvað?. En þetta ber samt ekki að túlka þannig að ég mælist til að umræddri tegund verði útrýmt, né heldur úthýst til eigin heimaplánetu (hvar svo em hún kanna að vera staðsett.). En það getur varla talist  ósanngjarnt  skynsemin sé tekin fram yfir ideólógíuna í málum sem þessum.

Bjössi (IP-tala skráð) 3.9.2010 kl. 20:47

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Líffræðilegt lögregluríki"   

Það er það sem "umhverfisfólkið" vill og ekki leiðist kommunum sá stjórnunarstíll.

Snilldar grein hjá Vilhjálmi. Sammála hverju orði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.9.2010 kl. 05:33

3 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Ekki eru allir á sama máli og við Ágúst og Gunnar, um skrif Vilhjálms Lúðvíkssonar í Fréttablaðið undanfarna daga.

Snorri Baldursson, þjóðgarðsvörður og fyrrum háklerkur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, grípur til trúarraka til þess að undirstrika fordæmingu sína á skrifum Vilhjálms. Álítur hann skrif verkfræðingsins Vilhjálms bera vott um þvílíkt dramb gagnvart almáttugum skapara himins og jarðar að það jaðri við guðlast ("endurspegla djúpstæða löngun til að breyta landinu eftir eigin höfði - verkfræðingur í glímu við Guð?" - Fréttablaðið 4. sept. 2010:
http://epaper.visir.is/media/201009040000/pdf_online/1_20.pdf)

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 6.9.2010 kl. 23:19

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir að benda á þessa grein, Aðalsteinn.

Ég er eiginlega orðlaus eftir að hafa lesið þessa vitleysu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.9.2010 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 762141

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband