Stríð og friður - góð grein Péturs Stefánssonar verkfræðings um ástandið á Íslandi samborið við eftirstríðsárin í Þýskalandi...

 

 

"Aldrei á mínum 70 árum hef ég upplifað jafn neikvæða þjóðfélagsumræðu, reiði og persónulega óvild eins og mér finnst ég skynja í þjóðfélaginu í dag"...  

Þannig skrifar Pétur Stefánsson í grein í Morgunblaðinu í dag 13. apríl.  Ég er svo innilega sammála Pétri að ég tek mér besssaleyfi og birti grein Péturs hér í heild sinni.

 

 

petur-stefansson.jpg"Mér hefur síðustu misserin orðið tíðhugsað til námsáranna í München eftir stríðið. Ég kom til Þýskalands þegar 13 ár voru liðin frá stríðslokum. Uppbyggingin var þá hafin af krafti en menn voru enn að brjóta niður ónýt hús og hreinsa rústir. Ég bjó um tíma hjá gamalli ekkju sem misst hafði bæði eiginmanninn og einkasoninn í stríðinu. Hún kvartaði ekki. Það kvartaði enginn. Umferð var lítil og vöruúrval var lítið, þó svalt held ég enginn. Þjóðin var sakbitin. Enginn minntist á stríðið. Það ríkti þögul þrá eftir nýrri framtíð.

 

»Þýska efnahagsundrið«

Það var sérstaklega eftirminnilegt að fylgjast með stjórnmálunum. Tveir menn voru áberandi, Konrad Adenauer kanslari og Ludwig Erhard efnahagsmálaráðherra. Adenauer talaði kjark í þjóðina og sinnti einkum hinu víðara samhengi í Evrópu. Ludwig Erhard, sem síðar hefur verið nefndur faðir þýska efnahagsundursins, hafði forystu um endurreisn efnahags landsins. En hver var þessi Ludwig Erhard og hver var hans galdur. Erhard var sonur smákaupmanns í Fürth. Hann gekk í verslunarháskóla en nam síðan hagfræði og félagsfræði og lauk doktorsprófi. Árið 1948 varð hann forstöðumaður efnahagsráðs hernámsstjórnarinnar og afnam sem slíkur verðlagshöft og opinbera framleiðslustýringu samhliða upptöku þýska marksins. Ári síðar varð Erhard þingmaður CDU (nú flokkur Angelu Merkel) og efnahagsmálaráðherra til 14 ára. Erhard var þó aldrei flokksbundinn og að mínu mati aldrei fulltrúi neins nema þýsku þjóðarinnar. Ludwig Erhard lagði þunga áherslu á frjálst efnahagslíf (»die freie Wirtschaft«) en hann lagði jafnframt áherslu á félagslegt réttlæti (»die soziale Gerechtigkeit«). Þetta var mikil jafnvægislist. Hann vissi að hann mátti ekki lama dráttarklára atvinnulífsins en hann stóð líka dyggan vörð um grundvallarmannréttindi. Allir áttu rétt á að lifa mannsæmandi lífi og njóta hæfileika sinna. »Wohlstand für alle«, velferð fyrir alla, var kjörorð hans og raunar heiti á bók þeirri er hann síðar gaf út. Það sérstaka afbrigði kapítalisma sem þróaðist í Þýskalandi á þessum árum (og ríkir í meginatriðum enn) hefur verið nefnt »Ordokapitalismus«, væntanlega, án þess ég viti það, skylt þýska orðinu Ordnung (regla).

Þegar ég hélt heim frá námi sex árum síðar voru rústirnar að mestu horfnar, vöruúrval orðið fjölbreytt í verslunum og menningarlíf tekið að blómstra á ný. Á einum aldarfjórðungi byggðu Þjóðverjar öflugasta iðnríki álfunnar undir öruggri leiðsögn Ludwigs Erhards og eftirmanna hans.

 

Ólíkt höfumst við að

Við Íslendingar lentum líka í stríði, stríði við eigin breyskleika og hömluleysi og eigum líka um sárt að binda. Við settum kíkinn fyrir blinda augað og biðum lægri hlut.

Þegar ég hins vegar ber ástandið hér heima saman við ástandið í Þýskalandi eftir stríðið verð ég hugsi. Aldrei á mínum 70 árum hef ég upplifað jafn neikvæða þjóðfélagsumræðu, reiði og persónulega óvild eins og mér finnst ég skynja í þjóðfélaginu í dag. Af hverju erum við svona reið? Tókum við ekki flest einhvern þátt í dansinum, mishratt að vísu. Vissulega urðum við fyrir áfalli og vissulega töpuðum við nokkrum fjármunum. Þannig tapaði undirritaður t.d. 30-40% af lífeyrisréttindunum sínum til æviloka og eignir hans lækkuðu í verði eins og eignir annarra. Hann ætti því samkvæmt formúlunni að vera bæði sár og reiður. Því fer þó fjarri. Ég er bæði glaður og þakklátur. Glaður yfir því að húsin okkar eru heil, brýrnar okkar heilar, framleiðslutækin heil og ríkisfjármálin alveg þokkaleg í alþjóðlegum samanburði. Ég er líka þakklátur þeim sem brugðust við þegar á reið, þakklátur þeim sem settu neyðarlögin, Þakklátur Indefence-hópnum fyrir öfluga málsvörn og þakklátur forseta Íslands sem með fyrra málskoti sínu líklega bjargaði börnum okkar frá áralöngum skuldaklafa. Þótt margar fjölskyldur eigi vafalaust enn í erfiðleikum vegna atvinnumissis og greiðsluörðugleika tel ég að á heildina litið sé lítil innistæða fyrir allri þeirri neikvæðu umræðu sem á okkur dynur í netheimum og fjölmiðlum. Þvert á móti tel ég að við eigum með okkar vel menntuðu æsku og ríku auðlindir til lands og sjávar alla möguleika á að endurheimta hér »velferð fyrir alla« ef við einungis berum gæfu til að þroska okkar stjórnmálalíf, móta okkur skýra framtíðarsýn og láta af öfgum til hægri og vinstri. Traust þjóðarinnar til Alþingis Íslendinga virðist því miður vera í sögulegu lágmarki. Ég hef áður lýst efasemdum mínum um ágæti hinna opnu prófkjara og hvernig þau hafa að mínu mati fælt vel menntað og reynslumikið fólk frá þátttöku í stjórnmálum. Það er, ef rétt er, mikið áhyggjuefni. Stjórnmálaflokkarnir verða nú þegar nálgast kosningar að átta sig á því að traust fylgir ekki stjórnmálaflokkum, traust fylgir einstaklingum. Það á ekki bara við um núverandi stjórnarflokka, það á líka við um þann flokk sem ég hef jafnan stutt í gegnum árin".

 

Ég held það sé varla tilviljun, en á svipuðum nótum og Pétur hef ég sjálfur ítrekað hugsað undanfarið.   Síðustu vikur er ég var staddur erlendis með fjölskyldu minni varð mér einmitt tíðrætt um þessa "neikvæðu þjóðfélagsumræðu, reiði og persónulegu óvild",  svo ekki sé minnst á tilhneigingu margra ráðamanna til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tefja fyrir uppbyggingu hér á landi eftir hrunið.  Ég tapaði eins og Pétur 30-40% af lífeyrisréttindum mínum, en er á sama hátt og Pétur þakklátur þeim sem gerðu það sem í þeirra valdi stóð til að forða okkur og börnum okkar frá algjöri hruni. Við Pétur erum nánast jafnaldrar, munar kannski hálfum áratug, og kollegar, og kannski er það þess vegna að við höfum svipaða sýn á málin. Ég hef þó grun um að flestallir góðir og sannir Íslendingar geti tekið heils hugar undir þessi ágætu skrif Péturs.

 

 



 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Þetta er mjög góð grein hjá Pétri og þörf áminning.

Sigurjón Jónsson, 13.4.2012 kl. 09:49

2 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góð grein.

Marta B Helgadóttir, 13.4.2012 kl. 10:49

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Get alveg tekið undir þetta, hef séð það sjálf þegar ég dvel erlendis og kem svo heim hve umræðan er svarthvít.  Ég sjálf er svo sem ekkert betri.  Faðir minn sem var ríkur maður dó svo til eignalaus af því hann treysti þeim sem ætluðu að ávaxta peningana hans en stálu þeim sjálfir. 

Ég er samt ekki reið út af því, heldur ástandinu í samfélaginu óréttlætinu, fyrirhyggjuleysi stjórnvalda og stjórnarandstöðu og hvernig fjármálaöflin halda sínu, en fólki látið blæða.  Þegar einmitt var kjörið tækifæri til að breyta þessu öllu. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.4.2012 kl. 16:32

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Reyndar á ég góða vini í Dietlingen sem er einn kjarni út frá Phorsheim, sem einmitt var bomberuð niður eftir að stríðinu lauk af bandamönnum, þar létust á einni nóttu 17.000 saklausir borgarar, en stjórnvöld borgarinnar vissu af þessu, kusu að þegja og flutti sitt fólk burtu. Þetta situr í borgarbúum og ég skynja enn þann dag í dag reiði fólks út í þau stjórnvöld sem kusu að bjarga sínum en ekki bænum sínum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.4.2012 kl. 16:34

5 Smámynd: Hörður Þórðarson

Þetta er ágæt grein en ég held að við þurfum að skilja að þetta "tap" sem um er rætt er ekki raunverulegt. Fólk hélt að það ætti verðmæti eða réttindi sem á einhvern undraverðan hátt ruku upp í verðu fyrir hrunið, án þess að nokkuð raunverulegt lægji þar að baki. Í ljós kom, eftir hið svokallaða hrun að verðmætin eru miklu minni en áður var talið. Þetta er ekki frekar tap, heldur en að þegar einhver telur sig ganga með 10.000 krónur í vasanum en í ljós kemur að hann er bara með þúsundkall. Tapaði hann 9.000 krónum? Nei, en að sjálfsögðu er ekkert gaman að komast að raun að eigurnar eru minni en áður var talið.

Hörður Þórðarson, 13.4.2012 kl. 19:20

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Tek undir, en vil samt benda mönnum á að aldrei fyrr í íslandssögunni (nema kannski eftir árið 1000 e.kr) hefur slík eignaskipting og svik eigin landsmanna við eigin þjóð átt sér stað. Það skiptir máli.

xD hamrar jú alltaf á því að eingin rannsóknarskýrsla útskýri efnahagshrun Íslands. Held að landsmenn væru auðmýkri ef einhver íslendingur væri ábyrgur (annar en innherjasvikarinn Baldur) fyrir hruni og stríði án brotinna turna, heldur en hinn "vondi heimur!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.4.2012 kl. 19:36

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þessi grein er ágætlega skrifuð og hægt væri að taka undir innihaldið ef þeir sem leiddu þjóðina fram af brúninni væru ábyrgir.

Staðreyndin er sú að á Íslandi  eftir hrun, nýtur "náhirðin" eftirlaunanna, "landsliðið í kúlu" afskrifar lánin sín á fullu kaupi hjá skattgreiðendum, á meðan "helferðarhyskið" sér um að innheimta kostnaðinn. 

Það er ekki verið að endurreisa nýtt og betra Ísland framtíðarinnar, það er verið að fullkomna fasismann.

Magnús Sigurðsson, 13.4.2012 kl. 20:58

8 identicon

Takktu þetta ekki illa upp, en að líkja Íslandi saman við Þýskaland er alger frásinna.  Að telja að Íslendingar eigi um eitthvað álíka sárt að binda og þjóðverjar, er hreinn og beinn afglabaháttur.

Enginn í þýskalandi talar um hlutina, vegna þess að þeir verða að kíngja þessu með þögninni.  Þeir voru hernuminn þjóð, og eru enn. 

En að halda því fram að Íslendingar eigi eitthvað skilið við þá þjóð, sem var og er, fremst meðal gáfumanna heimsins er dæmi um að Íslendingar eru á því stigi að vera þver-öfugt.  Öll sú tækni sem við búum við, má rekja til þjóðverja á einn eða annan hátt ... og hver þekkir ekki að bandaríkjamenn tóku sína, bretar sína, og rússar sína ... þýsku vísindamenn, sem voru síðan grundvöllur að tækni framförum sem varð.  NASA liftði á hugsjónum Brauns.

Ísland, sem hreikti sér að vera í herferð um heiminn ... sem "útrásar víkingar".  Sem lifðu góðsærislífi í alsnæktum, hreikti sér á háum steini og hrækti á fátæklinga erlendis, hæddi þá og níddist á þeim.  Gömlum konum, og fötluðum syni þeirra.  Þjóðin sem grét og sárt um bindur, vegna þess að ölið þraut.  Þjóðin sem neitaði að standa við skuldbindingar við erlenda aðila, en brosti og þótti fínt að leifa innlendum ríkisbubbum leika "Hafskips" leikinn, strika út allar sínar skuldir og leggja á skattborgarana.

Þessi þjóð á EKKERT gott skilið, og enn síður eitthvað sameiginlegt með þeim mönnum sem lögðu grundvöllinn að þeirri iðnaðarþjóð sem þekkt er fyrir gæða hönnum.

Nei, ef Ísland á eitthvað sameiginlegt með þjóðverjum þá er það ekki með gáfumönnunum.  Heldur með hinum, sem voru þar fyrir stríð ... köstuðu steinum í rúður þeirra sem villdu ekki hafa heima.  Sögðu við þá "Farið heim, þýskaland er ekki fyrir ykkur".  Þekkið þið þessi orð? Ég hef heirt þau rómuð í áratugi af fólki, sem segir það sama "farðu heim til þín".  Fólk sem brenni merkir einstaklinga, níðist á þeim, svívirðir á ... og leggur síðan sektina á herðar saklausu fólki, sem þeir síðan leggja í einelti fyrir.

Þetta eru ekki bara Íslendingar, heldur norðurlandabúar í sniðinu.

Og þetta eru ekki hugvitsmenn á við Einstein, Braun og fleiri sem lagt hafa grundvöll að þeim heimsauði sem gerir fólki kleift að lifa sæmilegu lífi, þrátt fyrir efnahagshrunið.

Á Íslandi er Jóhanna Sigurðardóttir við stjórn ... og Þýskaland nútḿans, sem er á barmi hruns sjálft ... hefur Merkel við stjórn.  Tímamót ....

og dyrinn að nýju tímabili þar sem fólk gengur ekki frjálst.  Hugsanafrelsi, ekki lefit ... fylgst er með þér, dag og nótt ... 

Einhvers staðar í Biblíunni stóð, "þú þekkir þá á gerðum þeirra" ...

Og hvar eru þessir gáfnamenn á Íslandi, sem eru tilbúnir að leggja allt undir, til að berjast fyrir betri heimi? Uppteknir við að nýða gamlar konur og fatlaða syni þeirra? eða við það að setja hryðjuverkalög, sem leifir þeim að níðast á skattborgurum?

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 14.4.2012 kl. 08:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 11
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 761796

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband