Refur á ferli í Garðabæ

refur1Ég varð heldur betur hissa í þegar refur í vetrarbúningi hljóp yfir götuna fyrir framan bílinn í morgun. Datt fyrst í hug köttur, síðan hundur, en ekki fór á milli mála að þarna var lágfóta á ferð, enda hef ég oft séð hana utanbæjar.

Ég var að aka klukkan hálftíu suður eftir Reykjanesbrautinni í Garðabæ. Um hundrað metrum fyrir norðan brúna á móts við Ikea rölti refur í austurátt þvert yfir veginn. Það var enginn sérstakur asi á honum og staldraði hann smástund við þegar yfir veginn var komið um leið og ég ók fram hjá.

Hvort hann heldur til þarna í hrauninu eða hafi bara verið að koma af fjöllum í fylgd jólasveina veit ég ekki, en fallegur var rebbi.

Í uppsveitum þar sem bloggarinn á landskika hefur refnum farið fjölgandi síðustu ár. Hann sést þar allt árið, og að vetri til sjást oft spor í snjónum. Hann virðist ekki mjög styggur. Á sama tíma og refnum hefur fjölgað er nokkuð ljóst að fuglum hefur fækkað, enda þarf tófan auðvitað að nærast á einhverju.

Ég þykist vita að einn tryggur lesandi bloggsíðunnar er vanur að sjá ref í garðinum heima hjá sér, en hann býr í úthverfi London. Refurinn er þar að gramsa í leit að æti. Hér á landi er refurinn ekki ennþá svo heimakær, en hver veit hvað verður. Megum við búast við að hann fari í auknum mæli að sækja í þéttbýli til að leita sér að æti, eins og hann gerir erlendis? Það er ljóst að ref hefur fjölgað mjög hér á landi á undanförnum árum og æti fyrir hann í náttúrunni ekki ótakmarkað.

 

Nú væri gaman að vita. Hafa fleiri orðið varir við ref á höfuðborgarsvæðinu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Síðasta hvíta tófa sem ég sá var 1968.  Kær kveðja.

Ásdís Sigurðardóttir, 5.12.2007 kl. 21:48

2 Smámynd: Björg Árnadóttir

Ekki kannski á höfuðborgarsvæðinu, en hún sést nokkuð oft á rölti við Reykjanesbrautina nálægt álverinu og suður fyrir Kúagerði. Ég hef séð eina mjallhvíta rölta yfir brautina rétt við sjóinn hjá Staumi. Mjög falleg.

Björg Árnadóttir, 5.12.2007 kl. 22:08

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Eitt sem ég sakna mjög frá englandi en það eru refirinir. Þeir komu oft á kvöldin og þvældust um göturnar í leit að æti og um nætur mátti heyra þá arga í skógunum allt um kring. Suma morgna var ekki fagurt um að litast ef þeir fundu leið í ruslapokana...en ég gat nú alltaf fyrirgefið þeim atganginn. Falleg dýr refirnir.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 6.12.2007 kl. 08:53

4 Smámynd: haraldurhar

Eg sá ref þarna á þessum slóðum fyrir nokkrum árum, og hagaði hún alveg eins og er þú lýsir, fór yfir veginn og tók sér sæti og horfði út á brautinn.

Eg álít að séu að minnsta kosti tvö greni neðalega í Heiðmörkinni, og annað einungis um 5oo metar frá innkeyrslunnni í Heiðmörk, og hitt nálægt rafmagnslínunni rétt hjá skátaskálanum.  Undanfarinn ár hafa verið nokkar tófur með yrðlinga á golfvellinum hjá oddf.  Eg veit að þar hafa nokkrir refir verið skotinr á hverju ári.

haraldurhar, 6.12.2007 kl. 17:21

5 Smámynd: Marta smarta

Ekki ref á fjórum fótum, en þeir eru margir  tvífættu"refirnir" og til þeirra sést á hverjum degi, a.m.k. í umferðinni

Marta smarta, 6.12.2007 kl. 18:01

6 Smámynd: Ragnar Ágústsson

Einhvertímann heyrði ég að það væru u.þ.b. 10.000 rauðir rebbar í London. Ég get vel trúað því þar sem ég sé yfirleitt a.m.k. einn ref á leiðinni í vinnuna á morgnanna. Þetta eru yfirleitt vænstu grey en eiga það til að vekja mann upp með andkvölum þegar tilhugalífið er í fullum gangi í janúar-febrúar óhljóðin eru með ólíkindum

Ég held að það sé ekki skipulega verið að halda fjölda þeirra í skefjum, bílarnir sjá um það... 

Ragnar Ágústsson, 6.12.2007 kl. 20:16

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Já refirnir eru falleg dýr og gaman að rekast á þá úti í náttúrinni.

Ágúst H Bjarnason, 6.12.2007 kl. 21:32

8 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Katrín og Ragnar. Það er gaman að lesa frásögn ykkar af refunum í þéttbýli á Englandi.

Björg. Ég hef oftar en einu sinni séð ref við Reykjanesbrautina einhvers staðar á svipuðum slóðum og þú nefnir.  Það var þó nokkuð fjarri Hafnarfirði og alls ekki í þéttbýli.

Haraldur. Takk fyrir þessar fróðlegu upplýsingar.

Það er alveg óþarfi að hafa áhyggjur af refnum þarna, jafnvel bara gaman að vita af honum og sjá hann annað slagið. Í þéttbýli í Englandi er hugsanlega heldur mikið af honum, sérstaklega nærri skóglendi, en fólk virðist ekki hafa miklar áhyggjur.

Ágúst H Bjarnason, 7.12.2007 kl. 07:47

9 identicon

Það var eitt vorið/sumarið þegar við vorum að vinna við dælustöðina að Fitjum að við sáum eitthvað hvítt útundan okkur. Þegar betur var að gáð var þar á ferð rebbi, kominn í sumargalla en skottið hvítt.

Sverrir Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 14:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 11
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 84
  • Frá upphafi: 761784

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband