Er ný ísöld yfirvofandi? - Kenning Milankovitch...

 

milankovitch.jpgÞað getur verið fróðlegt að skoða hvaða hugmyndir menn hafa um veðurfar fyrir óralöngu, og hvernig menn hafa reynt að skýra ástæður fyrir gríðarmiklum loftslagsbeytingum sem valdið hafa ísöldum og hlýskeiðum á víxl.

(Þó svo að losun manna á CO2 og meint hnatthlýnum af völdum þess sé mikið hitamál, þá fjallar þessi pistill alls ekki um slíkt. Lesendur eru beðnir um að hafa það í huga).

Fyrir um 12 árum, árið 1998,  "bloggaði" pistilshöfundur um áhrif sólar o.fl. á veðurfar. Þessi langi pistill "CO2 - Er jörðin að hitna? - Ekki er allt sem sýnist"  byrjar hér. og heldur síðan áfram á 9. síðum alls.  Einn kaflinn nefnist "Áhrif innbyrðis afstöðu jarðar og sólar á hitastig. Ísaldir og önnur óáran. Rannsóknir á Grænlandsjökli"  og er hægt að komast inn á hann hér. Það sem hér er birt er hluti þess kafla.   Hafa verður í huga að þessum gamla pistli hefur lítið sem ekkert verið breytt í rúman áratug, þannig að margar vefkrækjur eru óvirkar.

Hér á eftir er styttur  útdráttur úr þessum kafla vefsíðunnar sem m.a. fjallar um kenningar Milankowitch. Gamli textinn er með brúnum lit.

Allur kaflinn um Milankowitch er hér.


Myndin hér að ofan er af Milutin Milankovitch (1879-1958) sem var serbneskur verkfræðingur og jarðeðlisfræðingur. (Hann er reyndar stundum titlaður stærðfræðingur eða stjörnufræðingur). Hann er þekktastur fyrir kenningar sínar um orsakir mikilla kuldaskeiða sem koma með um 100 þúsund ára millibili. 

(Það er svo annað mál, að það er dálítil ónákvæmni að tala um þessar ísaldir, því eiginlega lifum við á hlýskeiði alvöru ísaldar, eða meginísaldar (Sjá Icehouse/Hothouse eða Icehouse/Greenhouse), sem skiptist í um 100.000 ára kuldaskeið og 10.000 ára hlýskeið. Kuldaskeiðin, sem við leyfum okkur að kalla meginísaldir, eru því  ástand sem varir í kannsk í 100 milljónir ára eða svo. Í þessum pistli látum við orðið "ísöld" standa fyrir 100.000 ára kuldaskeiðin eins og í gamla pistlinum, enda er það í samræmi við hefð).

 

---

Gamli pistillinn frá 1998 (styttur):

 

Áhrif innbyrðis afstöðu jarðar og sólar á hitastig.
Ísaldir og önnur óáran
Rannsóknir á Grænlandsjökli.

(Síðasti hlutinn er aðeins í frumtextanum)


Árið 1941 setti stærðfræðingurinn Milutin Milankovitch fram kenningu sem skýrt getur hvers vegna mikil kólnun verður með tiltölulega löngu millibili. Hann reiknaði út samanlögð áhrif breytinga á möndulhalla (obliquity, 41.000 ára sveifla), möndulveltu (precession, sbr. skopparakringlu, 19-21.000 ára sveifla) og sporöskjulögun brautar jarðar umhverfis sólu (eccentricity, 100.000 ára sveifla).

Niðurstaðan sýnir hvenær líkur eru á köldum og heitum tímabilum, og að á kuldaskeiðum fá staðir á 60°N aðeins sama varma frá sólinni (insolation) og staðir á 80°N fá nú!

Áhrif möndulveltu og möndulhalla gera það að verkum, að annað slagið hallar jörðin lítið móti sólu að sumri til, og verður sumarhitinn [á norðurslóðum] því lágur.

Síðari rannsóknir sýna að fjöldi smærri áhrifa hefur áhrif á heildarmyndina, en kenning Milankovitch er samt sem áður mjög áhugaverð og vel þekkt.

 

 

Kenning Milankowitch:

 

milankowitch-ahb_edited-1_954529.jpg
Ferillinn á myndinni nær 200.000 ár aftur í tímann og 100.000 ár fram í tímann


Kenning Milutin Milankovitch um ástæður ísalda er vel þekkt. Með útreikningum er hægt að finna mismunandi hitunaráhrif sólar á norðurhvel jarðar. Möndulhalli, möndulvelta og braut jarðar breytast með tímanum.

Á myndinni hér að ofan sjáum við hvernig þessir þrír þættir leggjast saman og mynda samsetta ferilinn sem er neðst. Tímaskalinn nær 200.000 ár aftur í tímann og 100.000 ár fram í tímann. (Lóðrétti ásinn er merktur: Wött á fermetra á 60°N)

Jæja, hvenær megum við eiga von á næstu ísöld samkvæmt þessari kenningu?

Eins og mörgum er kunnugt, þá virðist sem ísaldir hafi skollið á með litlum fyrirvara á aðeins nokkrum áratugum. Rannsóknir á borkjörnum frá Grænlandsjökli hafa leitt þetta í ljós. Getur verið að sólin hafi komið þar nærri og hjálpað til við að setja ferlið af stað með langvarandi kuldakasti á sama tíma og afstaða jarðar og sólar var óhagstæð samkvæmt líkani Milankovitch?

 
Hvað ber framtíðin í skauti sér, hlýnun eða kólnun?....
Náttúrulegar breytingar, sem eru vel þekktar, hafa vafalaust ekki stöðvast. Við þekkjum vel hagstæð tímabil í jarðsögunni, með smávægilegum hitasveiflum upp á við og köldum tímabilum þess á milli. Við þekkjum einnig miklar ísaldir, sem koma með nokkuð reglulegu millibili.

Fyrir um 1000 árum var mikið góðæri í heiminum. Það stóð aðeins í tiltölulega stuttan tíma (~200 ár). Síðan tók við langt tímabil með nokkuð köldu veðurfari; "Litla ísöldin". Rannsóknir á sólstjörnum, sem líkjast okkar sól, gefa til kynna að tímabil þar sem sólin er í lægð ("Maunder minimum"), eru algeng fyrirbæri. Stjarneðlisfræðingar hafa í alvöru varað við því að nýtt "Maunder minimum" geti hafist í okkar sól hvenær sem er, jafnvel á næstu öld. Það þýðir nýtt kuldakast og mikinn hafís umhverfis Ísland. Þá mundi aukið magn CO2 í andrúmsloftinu hafa kærkomin áhrif á hitastig til að vinna á móti þessu. Það er að segja, ef áhrif CO2 til hækkunar hitastigs reynast nægileg.

Raunverulegar ísaldir koma með nokkuð reglulegu millibili. Við þessu getum við ekkert gert. Bara beðið eftir næstu ísöld!
Sé litið til lengri tíma er víst að ný ísöld komi og landið hverfi undir ís. Svo virðist sem hlýindaskeið, eins og nú ríkir, séu fremur undantekning, og að ísöld sé eðlilegra ástand. Við sjáum það á ferlinum, sem nær yfir 900.000 ár, að hitastigið er yfirleitt lægra en nú á dögum (lárétta línan), og oft miklu lægra.

Vel getur verið að við séum að nálgast lok núverandi hlýindaskeiðs, sem þegar hefur staðið yfir í um 10.000 ár. Ef til vill eru ekki nema nokkrar aldir til næstu ísaldar. Ef til vill fáein þúsund ár.

 

 

(Á neðsta ferilinn vantar síðstu áratugina og ætti ferillinn að rísa þar. Við erum að skoða tímabil
sem nær yfir  næstum milljón ár, svo það skiptir litlu máli. Við höfum hér áhuga á megindráttunum, en ekki smáatriðum. Ferillinn er uphaflega frá IPCC 1990).

 

Myndin sýnir í stórum dráttum hitafar síðustu 900.000 ára. Strikaða viðmiðunarlínan er sett á hitastig, sem var um 1900. Oftast hefur verið mun kaldara en þá. Takið eftir, að hitasveiflurnar eru miklu meiri en virðist við fyrstu sýn. Hitaskalinn nær yfir aðeins 2 gráður á neðsta ferlinum, en 7-8 gráður á efri ferlunum.

Þegar á allt er litið, getum við ekki annað en verið þakklát náttúrunni fyrir það hve mjúkum höndum hún fer um okkur þessa áratugina.

 --- --- ---

 

Meira hér: www.agust.net/sol/sol-milankovitch.htm

Myndirnar sem fylgja pistlinum voru fengnar einhvers staðar að láni og textinn á þeim þýddur 1998. Upphaflega myndin er mun eldri.

 

 

 

 

Áhrif innbyrðis afstöðu jarðar og sólar á hitastig.
Ísaldir og önnur óáran. Rannsóknir á Grænlandsjökli

 

 CO2 - Er jörðin að hitna? - Ekki er allt sem sýnist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Grafið sem þú sýnir í miðjunni er ekki aðeins alrangt, heldur gjörsamlega út í hött. Samkvæmt því ætti hiti á tímabilinu 2000 f. Kr.til Krists burðar að vera lægri en nú. Það er hins vegar staðreynd, að á þessum tíma voru jöklar á Íslandi margir lítið annað en snjóskaflar, sem m.a. má sjá á myndinnni frá um 500 f. Kr. sem ég stal af síðunni þinni og er nú í grein á minni síðu. En ekki nóg með það. Geysimiklar ritaðar heimildir frá fornöld eru til um þetta tímabil, en þá var allt Miðjaðrarhafssvæði miklu grænna og grónara en nú. Til dæmi höfðu Forn- Grikkir þá nægan skipavið, því landið var skógi vaxið og þeir byggðu á fyrsta árþúsundi f. Kr. tíu borgir (Dekapolis) í Kyrenaiku í Austur Líbýu, þar sem nú eru sandöldur einar. Fornleifar sanna, að í Norður- Svíþjóð mikil og þétt byggð á þessum tíma, en þegar "lítil ísöld" hófst um 500 f. Kr. lagðist þessi byggð í eyði. Það hafa nefnilega komið fleiri "litlar ísaldir" en sú sem oftast er talað um, a.m.k. þrjár eða fjórar. Þessi  um Krists burð var miklu hlýrri en sú síðasta, en jafnframt því að byggð lagðist af á norðurslóðum skrælnuðu gresjur Mið- Asíu verulega og breyttust í eyðimerkur, t.d. Taklamakan, þar sem fundist hafa þorp og borgir í sandinum, sem vitna um miklu hlýrra og þar með úrkomusamara veðurfar. Þessi kólnun og þornun veðurfars  átti vafalaust verulegan þátt í að hrinda af stað þjóðflutningunum miklu. En þegar talað er um veður á fyrri öldum er eins og allt stoppi við landnámsöld og það sæmilega hlýja tímabil sem þá var. Samt var miklu, miklu kaldara á fyrri hluta miðalda (landnámsöld) en verið hafði á tímabilinu sem þú sýnir sem kalt. Hvar grefur þú upp þessa vitleysu?

Vilhjálmur Eyþórsson, 24.1.2010 kl. 15:53

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir athugasemdina Vilhjálmur.

Ég man ekki hvaðan þessir ferlar eru upphaflega, en ég snaraði þeim á íslensku árið  1998.  Þar sem þetta er nánast afrit af pistli frá þeim tíma vildi ég hafa sömu myndir.  Pstillinn fjallar jú fyrst og fremst um Milakowitch kenninguna.

Neðsti ferillinn er aftur á móti greinilega ættaður úr skýrslu IPCC frá 1995, þar sem þessi ferill er:

 http://2.bp.blogspot.com/_udSTgadqhFc/SaByCEDLBbI/AAAAAAAAAMI/lv518QjB6SQ/s320/IPCC+1995+Fig22.jpg

Hugsanlega rifjast það upp hjá mér hvaðan hinir ferlarnir eru ættaðir.  Það er reyndar eftirtektarvert að á þessari IPCC mynd sjást vel miðaldahlýindin.

Ágúst H Bjarnason, 24.1.2010 kl. 16:15

3 identicon

Má ómenntaður maður koma með smá innskot? Var að velta því fyrir mér, hvort verið gæti að þegar kuldatíða ("lítil ísöld") er hér norðarlega, þá færist úrkomusvæðin, sem núna eru um miðja Evrópu, suður til Norður-Afríku o.s.frv. og þá verði meiri gróðursæld á þeim breiddargráðum?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 16:28

4 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Það er alveg þveröfugt. Þegar kólnar minnkar úrkoman. Á þessu er ofureinföld skýring. Minna gufar upp úr höfunum og ekki síður hitt, að kalt loft getur ekki tekið til sín jafn mikinn raka (vatnsgufu) og hlýtt. Á jökulskeiðum núverandi meginísaldar (jökulskeiðin eru oft ranglega kölluð "ísaldir") var úrkoma því hvarvetna miklu minni en nú og Sahara og aðrar eyðimerkur miklu stærri og þurrari. Sunnan jökulsins og við Miðjarðarhafið var veður líka þurrviðrasamt, en þó dálítil úrkoma og sæmilega lífvænlegt. Þegar nýtt jökulskeið hefst eftir einhverjar aldir eða fáeinar árþúsundir mun því ekki duga að flytja suður til Sahara. Það verður að fara allt suður í það, sem eftir verður af hitabeltinu.  Hitabeltið var raunar miklu minna á jökulskeiðum en nú en það hefur samt aldrei horfið alveg, það sanna allar þær tegunir sem þar lifa og ekki þola kulda.

Vilhjálmur Eyþórsson, 24.1.2010 kl. 17:12

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það hefur nú margt gerst í þessum rannsóknum á hlýindunum á miðöldum síðan 1995, sjá t.d. hér, þannig að þessi mynd sem þú vitnar í frá IPCC er ekki notuð lengur þar sem nýrri rannsóknir sýna fram á annað. Sjá myndina hér að neðan. Annars eru sveiflur Milankovitch fróðlegar og hægt er að lesa lítilega um það hér, Orsakir fyrri loftslagsbreytinga.

 Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008). Hann sýnir hitastig síðustu 1800 ár. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar (proxý) í ýmsum litum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.1.2010 kl. 17:15

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Öll neðri myndin í pistlinum (hitaferlarnir) er fengin úr skýrslu IPCC 1990.  Ég hef dundað við að lita hana og íslenska á sínum tíma.

Um myndina og heimildir sem eru að baki hennar má lesa hér:

Where did IPCC 1990 Figure 7c Come From?

 http://climateaudit.org/2008/05/09/where-did-ipcc-1990-figure-7c-come-from-httpwwwclimateauditorgp3072previewtrue/

 

Ágúst H Bjarnason, 24.1.2010 kl. 17:21

7 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þökk fyrir ábendinguna. Á síðunni sem þú nefnir kemur ýmislegt í ljós um hvernig IPCC "hagræðir" staðreyndum til að fá "rétta niðurstöðu. Gott dæmi er einmitt grafið sem ég talaði áður um. Til hliðar við það er sýnd yfirlitsmynd frá British Antarctic Survey sem er nærri réttu lagi um hitastig á fyrri árþúsundum eins og menn hafa vitað í meginatriðum í meira en hundrað ár. Grafið frá IPCC frá 1990 sýnir hins vegar eitthvað allt allt annað, án þess að í ljós komi hvað hér er um að ræða, né hvernig það er fengið. Þar er hið afar heita, raka tímavil frá því um 2000 f. Kr. til Krists burðar allt í einu orðið kaldra en á landnámsöld!

En ekkert kemur lengur á óvart þegar IPCC og gróðurhúsa- gengið er annars vegar.

Vilhjálmur Eyþórsson, 24.1.2010 kl. 20:33

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vilhjálmur: Hérundir er texti af heimasíðu NOAA Paleoclimatology um hitastigið á tímabilinu fyrir u.þ.b. 6000 árum síðan: 

In summary, the mid-Holocene, roughly 6,000 years ago, was generally warmer than today, but only in summer and only in the northern hemisphere. More over, we clearly know the cause of this natural warming, and know without doubt that this proven "astronomical" climate forcing mechanism cannot be responsible for the warming over the last 100 years.
Sú staðreynd að loftslagsbreytingar hafa átt sér stað áður (þar sem hitastig hefur jafnvel verið hærra en í dag) útilokar ekki að hitastig geti verið að hækka vegna aukningar gróðurhúsalofttegunda í dag, eins og vísindamenn almennt telja.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.1.2010 kl. 21:32

9 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Það er skrýtin og skringileg staðhæfing atarna! Fyrst veðrið var svona kalt, hvers vegna voru þá engir jöklar á Íslandi? Hvers vegna er það óumdeilanleg og auðsannanleg staðreynd að skógur óx á þessum tíma allt að 900 metrum hærra upp í fjöll í Skandinavíu en í dag? 

Mikil er trú þín! 

Vilhjálmur Eyþórsson, 24.1.2010 kl. 22:01

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það hefur hugsanlega einhver áhuga á þessari síðu hjá Loftslagsvísindadeild Arizona-háskóla:

http://www.atmo.arizona.edu/students/courselinks/fall04/atmo336/lectures.html

Sjá t.d. fyrirlesturinn 24. nóvember.

Ágúst H Bjarnason, 24.1.2010 kl. 22:08

11 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég verð nú að segja að ég skil þig ekki Vilhjálmur. Það er engin að tala um að það hafi verið kalt... prófaðu að lesa athugasemd mína aftur.

Það er verið að tala um að þrátt fyrir að hitastig hafi áður verið svipað og í dag (eða jafnvel hærra fyrir 6000 árum) þá útilokar það ekki að hitastig geti verið að hækka vegna aukins styrks gróðurhúsalofttegunda í dag.

S.s. hitastig í dag getur vel verið að hækka vegna aukins styrks gróðurhúsalofttegunda, þó svo hitastig hafi verið hærra áður. Enda er það svo að hitastig hefur, í jarðsögunni, verið hærra en það er í dag og það er engin að neita því að loftslagsbreytingar hafi átt sér stað áður, enda hafa fleiri þættir en styrkur gróðurhúsalofttegunda áhrif á hitastig jarðar, þar má t.d. nefna sveiflur Milankovitch, sem Ágúst nefnir í pistli sínum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.1.2010 kl. 22:23

12 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæll frændi,

Hversu mikil er hornhreyfingin í presession jarðarinnar ? Sbara svona til að skilja breytinguna á sólarhæð á Íslandi.Hver er períóðan? Hvernig rímar þetta við Tjörneslögin eða voru aðrar ástæður þá ?

Halldór Jónsson, 24.1.2010 kl. 22:26

13 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Tjörneslögin urðu til á tertíertíma fyrir allt frá þremur og upp í 20 milljónum, ekki þúsundum ára. Ég hef hér að ofan verið að tala um mannkynssögu, ekki jarðsögu, árþúsundir ekki ármilljónir. En þegar Ísland reis úr hafi seint á tertíertíma fyrir eitthvað um 20 milljónum ára hafði veður verið svipað og afar heitt í um 40 milljónir ára, þ.e.allan tertíertímann, en hann hófst eftir að risaeðlurnar dóu út fyrir eitthvað um 60 milljónum ára. Þegar Tjörneslögin urðu til var loftslag hér svipað eða hlýrra en nú er í Norður- Kaliforníu, t.d. óx hér mikið af risafuru. Ísöldin mikla, eða kvartertíminn, það tímabil sem ég hef hér verið að tala um hófst hins vegar fyrir um þrem milljónum ára eftir að veður hafði farið kólnandi og þornandi um all langt skeið. Það er aðeins á kvartertíma sem þessar gífurlegu hitasveiflur verða þar sem skiptast á afar köld jökulskeið sem vara í um eða yfir hundrað þúsund ár og stutt hlýskeið eins og nú er, en þau vara aðeins í ca. 8-15 þúsund ár og hafa sum hver verið miklu heitari en það sem nú ríkir, t.d. það sem ríkti fyrir um hundrað þúsund árum, en frá þeim tíma hafa m.a. fundist leifar af nashyrningum, krókódílum og flóðhestum í sjálfri Thames- á við London.

Vilhjálmur Eyþórsson, 24.1.2010 kl. 22:55

14 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Samkvæmt þessum Milancocitc sveiflum þá verða hlýskeiðin á milli ísalda þegar norðurhvelið nýtur mestrar sólgeislunar að sumarlagi eins og kemur fram hér í pistlinum. Jörðin nýtur þó nánast sömu sólgeislunar í heild sinni yfir árið sama hvernig staðan er á þessum sveiflum. Suðurhvelið virðist þó vera ónæmt fyrir þessum sveiflum því þar eru úthöf ríkjandi og engir flöktandi hafstraumar samanber Golfstrauminn. Einnig hef ég séð hugmyndir um að Beringssundið skipti miklu máli um framgang jökulskeiða því þegar jökulmyndun eykst þá myndast þar landbrú sem lokar fyrir innstreymi Kyrrahafssjávar inn á Norður-Íshafið.

Því er spurning hvort núna væri ekki jökulskeið á Suðurhveli ef sömu landshættir væru þar og eru hér á norðurhveli. Hitafar á suðurhveli virðist annars fylgja norðurhvelinu, því kuldinn sem fylgir jökulskeiðum í norðri smitar út frá sér um allan hnöttinn. Kannski má þó segja að stöðugt jökulskeið sé ríkjandi á suðurhveli.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.1.2010 kl. 11:23

15 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Eða öllu heldur: Milankovitch-sveiflum

Emil Hannes Valgeirsson, 25.1.2010 kl. 11:25

16 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Sæll Ágúst, vonandi er þér sama þó ég birti hér afrit af svari til Haraldar Sigurðssonar, sem er að pæla í svipuðu efni og þú.

Útreikningar sýna að höfuðástæða kulda og hlýskeiða ísaldar eru svokallaðar Milankovitch sveiflur eins og þú bendir réttilega á - aftur á móti hafa menn reiknað það einnig út að þær sveiflur einar og sér duga ekki til að steypa jörðinni inn í kuldaskeið (eða út úr kuldaskeiði) - heldur þarf eitthvað að magna upp hitastig (eða kuldann) og þar eru fremst í flokki breytingar í CO2 og endurkasti sólarljóss frá jörðinni (snjór, ís og jöklar). Þessar smástigu breytingar í inngeislun sólarinnar á mjög löngum tíma, gera það semsagt að verkum að hafið losar CO2 (eða tekur til sín allt eftir hvort við erum á leið inn í hlýskeið eða kuldaskeið) sem að magna upp þær breytingar sem þá eru að verða - eins með endurkastið.

Það er nokkuð ljóst að eftir iðnbyltinguna þá var hægfara kólnun af völdum Milankovitch sveifla afstýrt og því engin hætta lengur af því að við séum á leið inn í kuldaskeið ísaldar (allavega ekki næstu árþúsundin).

Nú er aukning CO2 ekki af völdum náttúrulegra þátta, en áhrifin verða þau sömu - þ.e. hiti jarðar mun aukast af völdum CO2 (og minnkandi hafís, snjóa og jökla), nema það mun gerast mun hraðar. 

Við stefnum eitthvert allt annað en náttúrulegir þættir leiddu okkur og það er nú þegar farið að hafa áhrif á lífríki jarðar, sem að mun eiga erfitt með að halda í við þær breytingar sem eru að verða. Jafnhitalínur á yfirborði jarðar eru að færast til aukinnar breiddargráða um tugi kílómetra á áratug - á sama tíma og þau dýr sem að eiga auðveldast með að færa sig um set hafa fært sig um nokkra kílómetra á áratug.

Svona breytingar hafa ekki orðið síðan á PETM (fyrir sirka 55 milljónum árum) - þær gerðust þó á mun lengri tíma en nú er að gerast og allavega tókst landdýrum töluvert að afstýra útdauða sínum - en töluverður útdauði varð hjá sjávardýrum (líklega bæði af völdum hlýnunar og súrnun sjávar).

Það sem er kannski uggvænlegast við þetta - er að ofan á hlýnun af mannavöldum getur bæst við PETM event - þannig að hættan er mikil.

Ég mæli með lestri þessarar greinar sem ég vísa hér fyrir neðan til frekari útskýringa (ég held að hún dekki þetta nokkuð - þó ég hafi bara skoðað hana enn sem komið er), en þar er meðal annars farið yfir jarðsöguna síðustu 65 milljón ár og hvaða þættir hafa helst haft áhrif á loftslag þess tíma - en um leið reynt að finna tölu fyrir magn CO2 sem talin er nokkuð örugg: Hansen o.fl 2008 - Target Atmospheric CO2: Where Should Humanity Aim?

Einnig er hérna skemmtilegur fyrirlestur sem fjallar um jarðsöguna og áhrif CO2 á hitastig hennar: The biggest control knob

Höskuldur Búi Jónsson, 25.1.2010 kl. 23:29

17 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Það er orðið lang síðan ég hef lesið aðra eins steypu og þetta nýjasta innlegg Höska Búa. Manni bókstaflega svelgist á. Ég veit eiginlega ekki hvar á að byrja. Það er kannski best að þegja. 

Vilhjálmur Eyþórsson, 25.1.2010 kl. 23:37

18 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Plís...ekki fara að deila um losun manna á CO2.   Það er komið miklu meira en nóg af slíku á þessu bloggsvæði. Reynum heldur að halda okkur við kenningar Milankowitch og svipuð mál    .

Ágúst H Bjarnason, 26.1.2010 kl. 06:48

19 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Kenning Milankovich er vissulega athyglisverð og má vel vera að hún skýri þessar sveiflur að verulegu leyti. Hún skýrir hins vegar ekki hvers vegna bæði kuldaskeiðin og hlýskeiðin eru mislöng. Þau ættu alltafa að vera álíka löng, ef um sveifur í sporbaug jarðar væri að ræða, en svo er ekki. Hitt er líka athugavert, að breytingar á möndulhalla og sporbaug jarðar gerast afar hægt, eru nánast ómerkjanlegar, en hlýskeiðin hefjast nánast eins og hendi væri veifað. Hiti hækkar gífurlega á örskömmum tíma og jökulskildirnir bráðna á augabragði. Þetta ætti að gerast hægt og hægt ef kenningin væri rétt. Þótt ég vilji ekki afskrifa þessa kenningu finnst mér alls ekki ólíklegt að a.m.k. hluta skýringarinnar sé að leita í langtímasveiflum í geislun sólar. Vitað er að um verulegar skammtímasveiflur er að ræða, en um sveiflur sem taka þúsundir, tugþúsundir hundruðir þúsunda eða enn lengri tíma er ekkert vitað, því ekki hefur verið fylgst með sólinni nægilega lengi. Það er alls ekki óhugsandi að sólin fari skyndilega yfir í styrkari fasa á um hundrað þúsund ára fresti, en síðan dragi aftur úr eftir nokkur þúsund ár.

Vilhjálmur Eyþórsson, 26.1.2010 kl. 22:13

20 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Á gömlu vefsíðunni frá 1998 http://www.agust.net/sol/sol-milankovitch.htm eru þessar vangaveltur um geimryk. Þetta er kafli sem sleppt var í pistlinum hér fyrir framan. Sjá kaflann um halastjörnur::

"Halastjörnur og aðrar kenningar....
Sveinn Valfells, sem er mikill áhugamaður um stjarneðlisfræði og vel fróður um þau mál, benti höfundi vefsíðunnar á eftirfarandi kenningar:

1: Braut jarðar í kringum sólu skera brautir halastjarna.
Halastjörnur eiga sína lífdaga og gufa smásaman upp eins og halinn sýnir eða beinlínis sundrast fyrir áhrif þyngdarkrafta frá sólu sem plánetum. Talið er að stjörnuhrapaskúrin í Taurus tengist halastjörnunni Encke, og smástirnunum Hephaistos og Oljato. Þessi þrjú hafa svipaðar brautir um sólu og fara einn hring um hana á ca. 3,2 árum. Sýnt hefur verið fram á að Encke og Hephaistos voru á sama stað í rúminu fyrir um 9.000- árum Ekki er ólíklegt að þetta séu leifar risa halastjörnu sem hefur sundrast og aðrir hlutar hennar geta verið á sveimi eftir öðrum brautum.

Leifar halastjörnu dreifast misjafnt um sporbraut hennar og mynda geimryk misjafnlega þétt í braut hennar. Geimrykið er aðalega vatn og falla þúsundir tonna af því á dag á jörðina við venjulegar aðstæður. Þegar braut jarðar og braut sundraðar halastjörnu skarast og eykst rykið í háloftunum. T.d. eru hinir árlegu stjörnuhrapaskúrir (meteor showers) eins og t.d. sá sem kenndur er við Nautið (Taurus) af þessum orsökum. Lendi jörðin í óvenju þykku skýi getur það gert tvennt:

— Minna ljós frá sólu nær til jarðar vegna endurkasts geimryksins í geimnum eins og bílljós í þoku.

— Einnig veldur meira ryk í háloftunum meira endurkasti frá jörðu.

Talið er að þetta geti valdið reglubundum hitasveiflum mismunandi löngum eins og varð þegar snögg kólnaði á tímabili fyrir 5000 árum. Ekki er ólíklegt að þar hafi Taurus verið um að kenna.
Ef kólnunin verður það mikil að það valdi mikilli ísingu í hálofunum getur það leitt til "positífs feedbacks". Meiri ísing, meira endurkast, meiri kólnun, meiri ísing. Ríkjandi hitastig geti verið þannig í óstabílu jafnvægi á sérhverjum tíma eins og ískjarnar úr Grænlandsjökli benda til.

 

2: Ein kenning um orsakir ísalda, er sú að norðurpóllin er í landluktu innhafi sem hlýir hafstraumar ná ekki til. Einnig er land á suðurskautinu, sem kaldur hringstraumur umlykur, auk þess að það er mjög hálent. Talið er að ís hafi farið að safnast á Suðurskautslandinu er það rofnaði frá Suður Ameríku og hringstraumurinn myndaðist sem bægði hlýrri sjó frá.

Þetta ástand með norður- og suðurpól er nýtt í jarðsögunni. Kannski hefur myndun Íslands sem hófst fyrir 15 milljón árum hjálpað til að hindra hlýsjávarflæðið.
Þar að auki hefur mikið koldíoxíð fallið út í gegnum ármilljónirnar einkum í formi kalksteins og lítillega sem kol og olía. Við erum því að skila örlitlum hluta þess til baka. Kannski tefur það næsta ísskeið eitthvað?

---

Margar kenningar eru um ástæður ísalda, eða öllu heldur ástæður hlýindaskeiða eins og við njótum nú, milli ísalda. Ef til verða þessum kenningum gerð berti skil síðar".

 --- --- ---      (Tilvitnun í gamla pistilinn lokið)   --- --- ---

Sjá  til dæmis þessa grein:

 http://articles.adsabs.harvard.edu/cgi-bin/nph-iarticle_query?1985Metic..20..545L&data_type=PDF_HIGH&whole_paper=YES&type=PRINTER&filetype=.pdf

 The ADS is Operated by the Smithsonian Astrophysical Observatory under NASA Grant NNX09AB39G

Abstract

Evidence of high cosmic dust concentrations in late Pleistocene polar ice (20,000-14,000 years BP)

Meteoritics (ISSN 0026-1114), vol. 20, Sept. 30, 1985, p. 545-558. Research supported by the University of Missouri, Reed College, and DOE.
The cosmic dust concentration in the solar system during the last ice age was investigated by means of eight samples from 1215-1279 m depth in the Camp Century ice core. Neutron activation analysis was applied to measure the Ir and Ni concentrations. The study was carried out to test the hypothesis that sudden cosmic dust enrichments in the solar system may have attenuated sunlight sufficiently to cause the ice ages. The cosmic dust concentrations were compared to concentrations up in ocean core samples from the same epoch. The data indicate that five instances of several orders of magnitude increases in the cosmic dust abundance occurred during the period 20,000-14,000 BP. The particles were small enough to have caused, in dispersion, significant alterations in the amount of sunlight reaching the earth.
Keywords: ABUNDANCE, CLIMATE, COSMIC DUST, ICE, INTERPLANETARY MEDIUM, SOLAR SYSTEM, CHEMICAL ANALYSIS, LIGHT SCATTERING
 
---

Svona rykský í geimnum gætu útskýrt hvers vegna ísaldir skella skyndilega á og hverfa síðan jafn skyndilega.   Milankowitch, Sólin, eða halastjörnur ???   Gaman að láta hugann reika.    -  Það er ekki alltaf allt sem sýnist  .

Ágúst H Bjarnason, 26.1.2010 kl. 22:42

21 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Meira um geimryk:

 New Scientist

 http://www.newscientist.com/article/mg14820072.800-does-spacedust-make-the-earth-blow-hot-and-cold.html

Does spacedust make the Earth blow hot and cold?

CHANGES in the amount of cosmic dust raining onto the Earth could help explain why the climate has for the past million years been alternating between ice ages and warmer interglacial periods. For years, researchers have suspected that ice ages happen because of variations in the Earth's orbit which move us slightly farther from the Sun every 100 000 years or so. But the reduction in the amount of solar radiation reaching the Earth as a result is not, by itself, enough to plunge the planet into an ice age.

Kenneth Farley and Desmond Patterson of the California Institute of Technology in Pasadena have now found that the amount of cosmic dust arriving at the seafloor also varies on a 100 000-year cycle - exactly corresponding to the cycle of ice ages and interglacials.

The idea that cosmic dust might periodically cause the planet to cool was suggested in September by Richard Muller of the University of California at Berkeley and Gordon MacDonald of the University of California, San Diego, in a short note published in Nature (vol 378, p 107).

Farley and Patterson decided to test the theory by looking at the amount of helium-3 in ocean sediments dating from 250 000 to 450 000 years ago. The Earth does not make helium-3, and its primordial reservoir of the isotope is long gone. "The Earth's own helium-3 has been on a one-way trip out to space," says Farley. Cosmic dust, however, contains plenty of helium-3. So the amount of the isotope in deep ocean sediments - which do not get disturbed by erosion like those on land - can be a sensitive measure of how much dust has fallen onto the Earth in the past. When Farley and Patterson looked at an ocean core from the mid-Atlantic ridge, they found clear signs of a 100 000-year cycle in the influx of cosmic dust (Nature, vol 378, p 600). Strangely, however, a larger influx of dust correlates with a warmer climate. The researchers had expected the relationship to be the other way round, as dust could cause cooling by reflecting sunlight. They are still at a loss to explain their results, although one possibility is that changes in dust influx and climate are both triggered by some other, as yet unknown, driving force.

Farley says that the cycles in dust influx could be caused by a tilting in the plane of the Earth's orbit, which also occurs on a 100 000-year cycle. The tilting could change the amount of dust captured by the Earth, he says. So far, however, attempts by other researchers to model the amount of dust reaching the Earth from the asteroid belt and a dusty region of the inner Solar System called the zodiacal cloud have failed to explain the 100 000-year cycle.

Farley believes that his findings could also explain why the cycling between ice ages and interglacials began in the first place. From an ocean core that gives a longer record, Farley has found that the influx of cosmic dust increased suddenly about 1 million years ago, just when the ice ages began. One possibility is that a collision in the asteroid belt created a large dust cloud, which somehow triggered the first ice age.

Ágúst H Bjarnason, 26.1.2010 kl. 22:49

22 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Kenningin um geimryk gæti skýrt "litlu ísaldirnar", sem orðið hafa með nokkuð jöfnu millibili á núverandi hlýskeiði, hver annari kaldari og er sú sem stóð frá um 1300 til  um 1900 þeirra frægust. Hún skýrir þó varla þær gífurlegu langtíma hitasveiflur sem verða þegar jökulskeið breytist í hlýskeið og öfugt.

Vilhjálmur Eyþórsson, 26.1.2010 kl. 22:51

23 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Vilhjálmur: Milankovitch sveiflurnar eru þrjár og gerast ekki alltaf á sama tíma - því eru kulda og hlýskeiðin mislöng og missterk.

Skoðaðu greinina sem ég benti á hér fyrir ofan: Hansen o.fl 2008 - Target Atmospheric CO2: Where Should Humanity Aim? Þú þarft ekki einu sinni að lesa greinina, því þar eru góðar skýringarmyndir, bæði í aðalefni greinarinnar sem sýnir hvað það er sem magnar upp hlýnunina og kólnunina síðustu rúmlega fjögur hundruð ár. Einnig er í viðauka mynd sem sýnir reiknuð áhrif Milankovitch sveiflanna á inngeislun sólarinnar.

Höskuldur Búi Jónsson, 26.1.2010 kl. 22:54

24 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Er ekki réttara að orða það þannig að Milankovitch sveiflan sé ein, mynduð með "superposition" úr þrem grunnþáttum eins og útskýrt er í myndinni hér að ofan. Superpositin er það kallað þegar sveiflur eru lagðar saman línulega. Milankovitch sveiflan er þá sveiflan sem lítur út sem sveifla með hárri tíðni og styrkmótuð með lægri tíðnum. Eins og neðsti ferillinn af fjórum í efri myndinni í pistlinum.

Varðandi "superposition" sem er vel þekkt úr eðlisfræðinni: http://paws.kettering.edu/~drussell/Demos/superposition/superposition.html

Ágúst H Bjarnason, 26.1.2010 kl. 23:05

25 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ef þú vilt hafa það þannig Ágúst... en hvernig finnst þér greinin sem ég benti á - hún útskýrir að miklu leiti sveiflurnar milli kuldaskeiða og hlýskeiða ísaldar. Hún er líka nýleg, frá árinu 2008.

Höskuldur Búi Jónsson, 26.1.2010 kl. 23:16

26 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Höski Búi: Ég hef ekki áhuga á fleira frá rugludallinum James Hansen. Þessi stjarneðlisfræðingur, sem vill ákæra og helst fangelsa andstæðinga sína er búinn að vinna vísindunum gífurlegt tjón með framferði sínu og það er ekki aðeins mín prívatskoðun. Ýmsir fyrrverandi samverkamenn hans, gjarnan alvöru veður- og loftslagsfræðingar eru sömu skoðunar. Það er, þegar allt hefur verið lagt saman og dregið frá, ósannað með öllu að koldíoxíð komi nokkru máli við í þessu dæmi, hvað sem Hansen og IPCC segja.

Vilhjálmur Eyþórsson, 26.1.2010 kl. 23:32

27 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Höskuldur

Almennt sagt finnst mér fengur í öllum hugmyndum og rangt að hafna þeim strax, jafnvel þó þær virðist vera fjarstæðukenndar við fyrstu sýn. Stundum leynist í þeim sannleikskjarni, eða að þær fá mann til að hugsa upp á nýtt. Alltaf að skoða nýjar hugmyndir með opnum hug, og þá ekki síst ef þær eru ferskar og jafnvel byltinagkenndar. Smám saman skýrist málið betur og betur.  Oft er það líka þannig að orsakavaldar geta verið fleiri en einn, eða jafnvel fleiri en tveir. Þá getur verið erfitt að greina á milli og átta sig á hvaða þáttur er áhrifamestur.  Svo er það líka auðvitað þannig að enginn  veit  neitt í þessum málum, þó svo að sumir telji að eitthvað sé réttara en annað...

Ég hef því miður ekki haft tíma til að skoða vel greinina sem þú vísaðir á, hún er það löng.  Kannski ég hafi betri tíma síðar, en þangað til get auðvitað ekki verið annað en hlutlaus.

Ágúst H Bjarnason, 27.1.2010 kl. 10:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband