Norskur prófessor: "Sólin boðar kaldari áratug"...

 

 

Sólsveiflan-spá

 

Þessi pistill fjallar um merkilega grein eftir Jan-Erik Solheim prófessor við Oslóarháskóla, en fyrst örstuttur inngangur:

Hugsanlega muna einhverjir eftir bloggpistlinum Hnattkólnun í kjölfar hnatthlýnunar? sem birtist hér 30. júní 2008.  Að stofni til var efnið grein sem birtist þá um sumarið í tímaritinu Þjóðmál. Þar birtist meðal annars mynd sem sýnir sambandið milli hitastigs við Armagh stjörnurannsóknarstöðina á Norður-Írlandi og lengd sólsveiflunnar frá 1796 til 1992. Myndin hér fyrir neðan er uppfærð miðað við að lengd síðustu sólsveiflu reyndist verða 12,6 ár, þ.e. henni lauk í desember 2008.

Taki maður sambandið milli lengdar sólsveiflunnar og lofthita trúanlegt, þá má því miður búast við verulegri kólnun á næstu árum. 

 

Armagh-temperature-solarcycle

 

Í pistlinum Hnattkólnun í kjölfar hnatthlýnunar? stendur við þessa mynd:

 Við stjörnuathugunarstöðina Armagh á Norður-Írlandi hefur lofthiti verið skráður samviskusamlega frá árinu 1796. Hin fræga 11 ára sólblettasveifla nær sjaldnast yfir 11 ár heldur er hún breytileg; hún er frá um 9,5 árum til 12,5 ára. Það er vel þekkt að sólin er virkari en venjulega þegar sólsveiflan er stutt en síður virk þegar hún er löng. Það er einnig vitað að lengd sólsveiflu er vísbending um hve virk næsta sólsveifla verður. Stjörnufræðingar við Armagh teiknuðu upphaflega línuritið en höfundur pistilsins endurteiknaði það. Lóðrétti ásinn er hitastig við Armagh, sá lárétti lengd sólsveiflunnar. Rauða línan er útreiknuð og sýnir eiginlega meðaltal legu punktanna (regression). Hver einstakur punktur á línuritinu sýnir lengd sólsveiflu og meðalhita meðan á næstu sólsveiflu stóð (áratug síðar). Þetta er vegna tregðu lofthjúps jarðar til að svara breytingum frá inngeislun sólar en vegna þess hve sjórinn er mikill varmageymir tekur um áratug þar til breyting í inngeislun skilar sér sem breyting í lofthita. Það fer ekki á milli mála að töluverð fylgni er á milli lengdar sólsveiflunnar og meðalhita næsta áratugar; jafnframt að meðalhiti getur samkvæmt línuritinu lækkað um það bil 1,4°C við það að lengd sólsveiflunnar breytist frá 9,5 árum til 12,5 ára. Það er ekki lítið miðað við að hitastig lofthjúpsins er talið hafa hækkað um 0,7°C síðastliðin 150 ár. Hliðstæðir ferlar hafa verið gerðir sem sýna samsvörun milli meðalhita lofthjúps jarðar og lengdar sólsveiflunnar.

 

(Myndin hér að ofan er frábrugðin myndum  sem Jan-Erik Solheim teiknaði og eru neðst á síðunni  að því leyti að á henni eru vangaveltur um hvort nota megi hana til að meta hver mikil áhrif losun á CO2 hefur á hitastigið. Myndin gæti því verið eins konar mælitæki, þó ekki fyrr en eftir að minnsta kosti áratug).

 

archibald_norway_solar_cover.pngNýlega skrifaði Jan-Erik Solheim prófessor emeritus í stjarneðlisfræði við Oslóarháskóla grein í norska tímaritið Astronomi. Greinina má lesa með því að smella hér. Greinin, sem nefnist Sólin boðar kaldri áratug,  er ekki löng og er auðlesin. Þess vegna verður hér látið nægja að skrifa örstutta kynningu á efni hennar.

Það sem Jan-Erik Solheim hefur gert er að teikna ferla eins og sést hér fyrir ofan fyrir 10 mismunandi staði í Noregi. Niðurstöðuna má sjá á stóru myndinni hér fyrir neðan. Hann hefur einnig teiknað inn ellipsu sem sýnir líklega legu næsta punkts, en hringurinn efst til vinstri táknar ástandið meðan á síðasta sólblettatímabili (#23) stóð.

Takið eftir að á öllum ferlunum, bæði þeim sem er hér fyrir ofan, og þeim sem eru neðst á síðunni, er verið  að bera saman hitastigið um áratug eftir mælingu á lengd sólsveiflunnar, eins og fram kemur í skýringunum undir myndinni hér að ofan. Reyni maður að teikna svona ferla fyrir hitastigið sem mælist meðan á ákveðinni sólsveiflu stendur, þá kemur lítil samsvörun fram. Það er af þessum sökum sem við verðum að bíða í áratug til að komast að raun um hvort spáin reynist rétt, og njóta hlýindanna á meðan.

Við sjáum á myndinni, að ef ekki kemur annað til, svosem hlýnun af völdum losunar manna á CO2, þá stefnir í verulega kólnun. Það er auðvitað ef þetta er ekki allt saman einhver merkileg tilviljun.

Þetta er ekki nein smá lækkun hitastigs sem ferlarnir benda til. Lækkunin er svipuð og  spáð var fyrir um í greininni Hnattkólnun í kjölfar hnatthlýnunar?, en þar var spáð 1,4 gráðu lækkun miðað við hitastigið á Norður-Írlandi. Þetta er um það bil tvöföld sú hækkun sem mælst hefur síðastliðna öld.

Gangi þessi spá eftir, þá erum við í mjög vondum málum.  Við verðum því að vona að hún rætist ekki, en eins og Jan-Erik Solheim bendir á í grein sinni, þá getur hver og einn auðveldlega teiknað svona feril með hjálp töflunnar um lengd sólsveiflunnar sem fylgir greininni, og einhverjum langtímahitaferli. Fróðlegt væri ef einhver prófaði að teika svona feril fyrir hitastigið á Stykkishólmi, en það er lengsti samfelldi hitaferill á Íslandi.

Vonandi gengur þessi spá ekki eftir.  Vonandi mun haldast vel hlýtt eins og undanfarinn áratug. Við getum ekki annað en vonað, því kólnun er miklu verri en hlýnun Pinch.


Menn hafa ekki hugmynd um hvernig á þessari samsvörun stendur. Kannski bara furðuleg tilviljun. 
Jan-Erik Solheim minnist á hugsanlega skýringu í lok greinar sinnar.

 

Vonandi á þessi ljóta spá ekki eftir að rætast.  Hafi losun manna á CO2 veruleg áhrif á hitafar, þá gæti hitalækkunin orðið minni. Kannski engin. - Nú, ef til vill er þetta bara tilviljun. 

 

Enn og aftur: Orsakasamhengið þekkja menn ekki. Suma grunar kannski eitthvað, en ekkert hefur verið staðfest. Þess vegna skulum við bíða róleg og sjá til. Við getum nefnilega ekkert annað.

 

archibald_norway_solar.png

"Rauðu punktarnir sýna mælt hitastig á 10 stöðum í Noregi (meðaltal yfir heila sólsveiflu, Y-ásinn), og  lengd næstu sólsveiflu þar á undan (X-ásinn). Svarta ellipsan sýnir meðalhitastigið sem búast má við næstu 11 ár, en hitastigið meðan á sólsveiflu 23 (1996-2008) stóð er teiknað með hring".

 

 

 

 

Lesið greinina: Solen varsler et kaldere tiår.

Bloggpistill frá 30. júní 2010: Hnattkólnun í kjölfar hnatthlýnunar?

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Í nýrri grein sem birtist í Geophysical Research Letters er velt upp þeirri spurningu hvaða áhrif það myndi hafa á loftslag ef sólin færi yfir í tímabil lítillar virkni, líkt og gerði á sautjándu öld og hafði áhrif til kólnunar (ásamt öðrum þáttum) á svokallaðri Litlu Ísöld. Samkvæmt höfundum þá hefði sambærilegt skeið á næstu áratugum og öld, væg áhrif til mótvægis við hlýnun jarðar.

Virkni sólar hefur farið minnkandi undanfarna áratugi og þó það sé ólíklegt að sólin fari í sambærilega niðursveiflu og á sautjándu öldinni, þá velta höfundar greinarinnar upp þeim möguleika . Höfundar greinarinnar beittu fyrir sér loftslagslíkönum til að skoða áhrif þess ef virknin minnkar enn frekar. Þeir gerðu ráð fyrir því að virkni sólar yrði sambærileg við það sem gerðist á Maunder lágmarkinu, en á því tímabili varð vart við fyrrnefnda kólnun Litlu Ísaldar, sem talið er að hafi byrjað um miðja sautjándu öld (fer eftir skilgreiningu, kólnunin byrjaði t.d. fyrr hér á landi). Útkoman var sú að fyrir árið 2100 yrði hitastig jarðar einungis um 0,3°C lægri þá í samanburði við útreikninga þar sem sólvirknin yrði eins og í dag.

Niðurstaðan er því sú að sólvirkni sambærileg við Maunder lágmarkið myndi að öllum líkindum aðeins minnka hlýnunina lítillega og að auki að sú minnkun myndi líklega aðeins vara í nokkra áratugi.

Sjá nánar um heimildir og ítarefni á loftslag.is, Við minni virkni sólar

Sveinn Atli Gunnarsson, 14.7.2010 kl. 12:25

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Kærar þakkir Svatli fyrir að hughreysta okkur.

Vonandi verða áhrif CO2 náttúrunni yfirsterkari. Veruleg kólnun frá núverandi hitastigi gæti haft mjög slæmar afleiðingar fyrir okkur hér á Fróni...

Vonum hið besta...  .

Ágúst H Bjarnason, 14.7.2010 kl. 12:32

3 Smámynd: SeeingRed

Úff, já, ekki viljum við að það kólni takk fyrir.

SeeingRed, 14.7.2010 kl. 12:54

4 Smámynd: Vendetta

Er þetta ekki sönnun fyrir því, að það er sólin er aðalvaldur hnattrænnar hlýnunar, en ekki útleiðsla mannkynsins á CO2?

Annars er ég sammála því að ég vilji ekki fá harðindaveturna aftur, sem ég man ennþá eftir úr æsku minni með hryllingi.

Vendetta, 14.7.2010 kl. 22:01

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vendetta, þú virðist ætlast til þess að nær ómögulega miklar "sannanir" séu lagðar fram fyrir utan þau ósköp af gögnum sem vísindamenn búa yfir varðandi tengingu loftslagsbreytinga við hækkandi hitastigs af völdum aukins styrks gróðurhúsalofttegunda...en þegar kemur að "hinni hliðinni" þá virðist þér duga aðsend blaðagrein í norsku dagblaði til að þú teljir að búið sé að leggja fram sannanir fyrir því að sólin sé aðalvaldur þeirrar hnattrænu hlýnunar sem nú er í gangi...er ekki eitthvað rangt við þessa nálgun hjá þér?

Ágúst, ef ég mætti vinsamlega spyrja þig að einu: Hver er skilgreining þín á því að spá Jan-Erik Solheim verði staðfest og að við getum sagt að það hafi orðið kaldara í næstu sólsveiflu en þeirri síðustu. Er t.d. nóg að sá áratugur sem fer að byrja verði kaldari á heimsvísu en sá nýliðni? Eða er einhver önnur skilgreining sem hægt er að notast við? Hefurðu spáð í hvenær þetta "kuldaskeið" þarf að byrja, svo vangaveltur Solheim geti talist "sannaðar". Eru einhver mörk á lækkun hitastigs, sem verður að vera, til þess að nú getum við sagt að þetta hafi gengið eftir? Ég er aðeins að velta þessu fyrir mér, af því að nefnd er hitastigslækkun upp á 1,4°C í pistlinum, það fyllir mig allavega efasemdum um að spáin eigi eftir að rætast. Hvert er þitt álit á þessu Ágúst?

Sveinn Atli Gunnarsson, 15.7.2010 kl. 00:34

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Svatli.

Eins og þú veist að þá er ekki hægt að sanna vísindalega neinar kenningar, hvort sem kenningarnar eru hluti af trúarbrögðum eða vísindalegar kenningar, til dæmis lögmál varmafræðinnar eða kenningar Einsteins. Það er aðeins í stærðfræði sem hugtakið "sönnun" hefur þá merkingu sem margir vilja eigna öllum vísindum.

Um loftslagsvísindin gildir auðvitað sama og í öðrum vísindum; menn setja fram kenningu og framkvæma síðan tilraunir til að staðfesta þær eða ekki. Taki nú af einhverjum ástæðum upp á að kólna, þá sannar það nákvæmlega ekkert að sólin eigi þar  hlut að máli. Ástæðan gæti verið einhver önnur.

Ástæðan fyrir breytingum í lofthita geta verið nokkrar. Við getum flokkað þær á ýmsan hátt. Til dæmis svona:

1) Losun manna á CO2.
 
2) Losun manna á loftbornum ögnum (areosols).
 
3) Áhrif sem koma utanfrá. Þar er sólin líklegasti áhrifavaldurinn. Gæti hugsanlega einnig verið eitthvað annað, t.d. skyndileg breyting í styrk geimgeisla, þ.e. breyting sem stafar ekki af áhrifum sólar (supernova?). Þetta eru ytri áhrifavaldar.

4) Langtíma sveiflur í hafinu, þ.e. sveiflur sem ná yfir nokkra áratugi. Lengri sveiflur en t.d. El-Nino. Þetta eru innri sveiflur í kerfinu.

5) Ýmsar skammtíma sveiflur sem stafa að skammtímafyrirbærum eins og eldgosum, El-Nino/La-Nina, ...

Allar þessar sveiflur leggjast síðan saman. Sumar til hækkunar hitastigs og aðrar til lækkunar. Afturverkun af ýmsum toga flækir málið svo enn meira. Auk þess getur verið samspil milli fyrirbæranna, þó svo þau virðist óháð við fyrstu sýn. Við getum t.d. hugsað okkur að áratugasveiflur í sólinni séu í svipuðum takti og áratugasveiflur í hafinu. Sólin gæti þá örvað sveifluvakann í hafinu, en samsvarandi fyrirbæri eru vel þekkt.

Þetta þýðir að hvort sem það hlýnar, kólnar, eða þá að hitinn stendur að mestu í stað á næstu áratugum, þá getum við enn sem komið er ekki sagt með nokkurri vissu hver orsakavaldurinn er. Líklegast er  hann eitthvað flókið sambland af þessu öllu saman.

Taki nú upp á að kólna eitthvað á næstu áratugum, og ef virkni sólar verður áfram í þeirri lægð sem hún núna er, og ef þetta verður þrátt fyrir aukna losun manna á CO2, þá verður það ef til vill til þess að menn beini sjónum sínum í meira magni að öðrum þáttum eins og virkni sólar, áratugasveiflum í hafinu, o.s.frv.

Það sem stendur upp úr, finnst mér, er að nú er að gefast gullið tækifæri til að kanna hve  mikill þáttur sólar er miðað við aðra áhrifavalda, þ.e. CO2, hafsins, og etv. fleiri. Stóra ellipsan á myndinni með íslenska textanum átti að gefa þetta til kynna. Lendi punkturinn vegna meðalhita næsta áratugar ofarlega í ellipsunni, þá gætum við ályktað að áhrif CO2 séu mikil, en lendi punkturinn neðarlega gætum við ályktað að þáttur sólar (etv. ásamt innri breytingum í kerfinu) sé töluverður miðað við áhrif CO2. Við getum bara ályktað, ekki verið viss.

Þetta eru þó allt vangaveltur sem sanna ekki neitt, enda er ekki hægt að sanna neitt í vísindum. Við getum þó leyft okkur að draga ályktanir, vega og meta. Smám saman á þó vonandi skilningur okkar á þessu mjög flókna samhengi eftir að aukast. Þess vegna er mjög mikilvægt að skoða alla þætti málsins með opnum hug, forðast fordóma og vinna saman. Eyða ekki kröftum og þreki í tilgangslausar deilur og hártoganir, eins  og því miður raunin hefur verið í loftslagsmálunum. Það kemur að því að mönnum fer að leiðast ógurlega og nenna ekki að standa í þessu lengur. Finna sér annan vettvang. Það kemur auðvitað niður á vísindunum.

---

Ég veit að þetta svarar ekki beint spurningu þinni, en ég ætla bara að vera hógvær og segja að ég viti ekki svarið.

Ég get þó leyft mér að vona að þessar vísbendingar sem fjallað er um í pistlinum reynist ekki eiga við rök að styðjast. Ég vona að hitalækkunin verði óveruleg, ef hún verður einhver.  - Ég óttast þó innst inni að kólnunin geti orðið allnokkur, einfaldlega vegna þess að ég tel að þekking manna á þessum málum er mjög takmörkuð enn sem komið er.

Sem sagt, ég veit ekkert um málið, og fyrirgefið langlokuna .

Ágúst H Bjarnason, 15.7.2010 kl. 08:49

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það er alveg rétt hjá þér, Ágúst, að það er flókið samspil þátta sem hefur áhrif á loftslagið. Þess vegna stunda margir vísindamenn rannsóknir á þessu sviði og mikið af ritrýndum greinum og öðrum gögnum er til í dag sem hefur leitt til þess að loftslagsvísindamenn (all flestir) telja að núverandi hnattræn hlýnun sé ekki af völdum sólarinnar. Telja þeir að ein aðalástæðan sé einmitt aukin styrkur CO2 í andrúmsloftinu, ég held að það sé engin sérstök ástæða til að bíða með að minnka losun CO2 í lofthjúpin, af því að sólin gæti hugsanlega eða hugsanlega ekki farið í mikla ládeyðu sem hugsanlega gæti verið í líkingu við það sem var á Maunderskeiðinu. Eins og er, er hitastigið hátt sögulega séð, t.d. er fyrri helmingur þessa árs, hlýjasti fyrsti helmingur árs sem mælst hefur frá því mælingar hófust á heimsvísu, þó svo sólin sé ekki sérlega virk.

Sveinn Atli Gunnarsson, 15.7.2010 kl. 09:10

8 Smámynd: Einar Þór Strand

Ein spurning Svatli varðandi umræðu um loftslagsmál og hún er hvers vegna virðist ritrýni á greinum um þessi efni líkjast helst ritskoðun?  Og hvers vegna má enginn efast um þessi mál án þess að þú dróttir að mönnum að þeir eigi ekki rétt á að ræða málið þar sem þín skoðun sé sú eina rétta?

Einar Þór Strand, 15.7.2010 kl. 23:16

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Má ég ekki segja mína skoðun Einar Þór, ég er ekki að segja að mín skoðun sé sú eina rétta eða einhver stóri sannleikur (en mín skoðun byggist þó á því sem ég hef lesið um fræðin og hvað vísindin hafa um málið að segja). Ég hef ekki bannað mönnum að segja sína skoðun hér né annarsstaðar, en hef þó verið duglegur að koma minni á framfæri (er það ekki hluti af okkar málfrelsi). Einnig hef ég spurt aðila gagnrýnina spurninga um heimildir og gögn, sem hlýtur að teljast málefnaleg nálgun á umræðuna.

Ritrýni er ein af þeim aðferðum sem eru notaðar í vísindum til m.a. að birta niðurstöður rannsókna og henta ágætlega til síns brúgs. Það getur verið erfitt að fá birt efni slíka leið (það á við um flesta), enda standardinn yfirleitt hár (þó finna megi undantekningar). Það getur þó vel verið að fundin verði betri leið síðar, ég skal ekki um það segja, enda vísindin í stöðugri þróun.

Sveinn Atli Gunnarsson, 16.7.2010 kl. 00:33

10 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég vil þakka Ágústi sérstaklega fyrir „langlokuna“ sem hann nefnir svo. Þetta er einhver besta skilgreining á því sem hér er um að ræða sem ég hef séð í langan tíma.

Vilhjálmur Eyþórsson, 16.7.2010 kl. 15:52

11 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Það er tvennt sem mér finnst athugavert hér, í pistlinum og í athugasemdum.

Í fyrsta lagi að hér er verið að kynna vægast sagt jaðarvísindi sem 99 % vísindamanna í loftslagsfræðum myndu ekki taka undir og í öðru lagi er sagt í athugasemdum af nokkrum að hlýnun væri bara góð, en þar eru menn greinilega að halda því fram að fyrst að möguleiki sé á að það hlýni hér á landi þá sé það bara gott.

Ég spyr því ykkur sem finnst hlýnunin jákvæð, hvað með aðra jarðarbúa og afleiðingar hlýnunar fyrir þá - kemur það okkur ekki við? Hvað með afleiðingar fyrir lífríki lands og sjávar um allan heim?

Höskuldur Búi Jónsson, 16.7.2010 kl. 16:10

12 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Það er stundum dálítið þreytandi að eiga við Svatla og Höska Búa. Til dæmis tala þeir alltaf um „hlýnun“ ekki „endurhlýnun“ eins og rétt er. Þeir tala líka eins og hér sé farið út í einhvers konar óvissu, sem er alrangt, því menn vita prýðilega hvernig umhvorfs var á jörðinni fyrir fáeinum öldum og árþúsundum þegar loftslag var miklu hlýrra en nú. Þetta er endurtekið efni,þ.e. ef í rauninni er að hlýna aftur til lengri tíma, sem fátt bendir til. Ef t.d. mundi hlýna aftur um ca. tvær gráður mundum við hverfa til loftlags á dögum Grikkja og Rómverja. Eyðimerkur hvarvetna mundu aftur gróa upp að stórum hluta, t.d. Sahara og skilyðri til landbúnaðar mundu stórbatna hvarvetna. Jöklar á Íslandi og annars staðar (sem flestir eru nýjar myndarnir) mundu aftur dragast mikið saman. Yfirborð sjávar mundi lítið sem ekkert breytast, það sýna m.a. gröf frá Loftslag.is sem sýna sáralitla breytingu sjávarborðs undanfarnar árþúsundir.

Vilhjálmur Eyþórsson, 16.7.2010 kl. 18:03

13 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nú er það svo að sveiflan í heildarstyrk sólar er talin vera um 0,1%. Hiti jarðar er nálægt 300 gráðum á Kelvin sem þýðir að ef við metum bara þennan þátt einan og sér þá fáum við 0,3 gráðu sveiflu í hita jarðar.

Málin eru auðvitað flóknari en þetta en mér finnst þessi tala, 0,3 gráður, vera ágætis tala til viðmiðunar þegar meta á þátt sólar á hitafar jarðar.

Emil Hannes Valgeirsson, 16.7.2010 kl. 19:00

14 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Takk Ágúst fyrir áhugaverðustu langloku sem ég hef séð lengi

Emil: Það eru uppi kenningar um að áhrif sólar séu flóknari en svo að það dugi að horfa á beinan geislunarstyrk frá henni. T.d. það sem Svensmark og félagar sem halda því fram að breytingar í segulsviði sólar hafa áhrif á magn gammageisla sem berst til jarðar sem síðan hafi áhrif á skýjamyndun.

Hösku Búi: Má ég minna þig á að Galileo var jaðarvísindamaður á sínum tíma.

Finnur Hrafn Jónsson, 17.7.2010 kl. 13:15

15 Smámynd: SeeingRed

"Ég spyr því ykkur sem finnst hlýnunin jákvæð, hvað með aðra jarðarbúa og afleiðingar hlýnunar fyrir þá - kemur það okkur ekki við? Hvað með afleiðingar fyrir lífríki lands og sjávar um allan heim?"

Hafa hitasveiflur fyrri tíma ekki alltaf haft afleiðingar, mismunadi afdrifaríkar til góðs eða slæms eftir svæðum eftir aðstæðum? Sum svæði njóta góðs af hlýnandi veðurfari, fyrir önnur er það óheppilegra...rétt eins og ef að því er snúið við og veðurfar kólnar.

SeeingRed, 17.7.2010 kl. 14:46

16 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

SeeingRed, það er af því að sú hlýnun sem nú er í gangi er talin vera af völdum aukina gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum og það einnig yfir tiltölulega stutt tímabil (jarðfræðilega) og þ.a.l. er hætt við að við höfum ekki alveg stjórn á þeim afleiðingum sem geta orðið, eins og t.d. sjávarstöðubreytingar, breytt vistkerfi og súrnun sjávar svo eitthvað sé nefnt. Það hafa komið tilvik áður þar sem mikill útdauði lífvera varð, þær lífverur höfðu ekki yfir sömu tækni yfir að ráða og við til að reyna að koma í veg fyrir það (en kannski getum við reynt okkar besta til að draga úr afleiðingunum). Sjá einnig t.d. Útdauðinn fyrir 250 milljónum ára.

Það er að mínu mati engin ástæða til að draga fæturna við að huga að lausnum eða varðandi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til framtíðar, við vitum orðið það mikið um vandamálið með hjálp vísindanna, þó einhverjir vilji ekki koma auga á það.

Sveinn Atli Gunnarsson, 17.7.2010 kl. 17:31

17 Smámynd: Einar Þór Strand

Svatli þú mátt auðvitað hafa þína skoðun en það er hvernig þú setur hana fram sem er málið. Við vitum að það er að hlýna á jörðinni en það sem er málið er að þó svo að það séu upp kenningar um hvers vegna það sé þá hefur í raun engum tekist að sanna mál sitt.  Og þó svo að 99% loftslagsvísindamanna sé sammála þá er það ekkert annað en að það sé líkleg tilgáta og það sem gerir málið verra er að þetta eru orðin pólitísk trúarbrögð sem pólitíkusar nota til að upphefja sjálfan sig en vertu viss það er enginn þeirra sem hefur minnsta áhuga á að gera neitt í málinu sem myndi duga.  Og þá er ég að miða við að þú hafir rétt fyrir þér að hlýnunin sé 100% af mannavöldum og að það sé í raun hægt að gera eitthvað í henni.  Og ástæðan fyrir að það vill enginn gera neitt er einföld.  Það sem er aðal umhverfisvandamálið er að á síðustu 50 árum hefur mannkyninu fjölgað úr um 3 milljörðum í rúma 7 milljarða og sumir segja jafnvel 9 og það er enginn til í að taka á því vandamáli.  Samanber að menn taka því sem jákvæðu að okkur Íslendingum muni fjölga um 160.000 á næstu 50 árum eða um 50%.  Við komum ekki í veg fyrir hlýnun ef hún er af mannavöldum ef okkur heldur áfram að fjölga svona.

Einar Þór Strand, 17.7.2010 kl. 20:24

18 Smámynd: SeeingRed

Mengun lofts og láðar ber að minnka með öllum ráðum og er augljóst vandamál sem hamrað hefur verið lengi á, gróðureyðingu/eyðileggingu þarf að snúa við og bæta umgengni um móður Jörð. Mest liggur á ef á að minnka útblástur svo um munar að losa okkur við óværu þá er kallast "The Military Industrial Complex", ef að sá eiturspúandi púki á fjósbita sem blæs og tútnar út með hverju árinu sem líður verður ekki kveðinn niður í eitt skipti fyrir öll, þá mun annað brölt til að minnka mengun verða dropi í hafið. Hergagnaiðnaðurinn og afleiddur iðnaður, flutningar og endalaust stríðsbrölt, heldur hinsvegar áfram að bólgna út hraðar en við höfum séð áður, en raddir sem benda á þetta eru fáar og lítill hljómgrunnur fyrir dauða "The Militari Industrial Complex", einstaka stjórnmálamaður og fræðimenn eru þó óþreytandi við að benda þarna þarf að byrja og af krafti.

Samhliða því að endurvinna stríðstólin öll meira og minna í eitthvað gagnlegra fyrir mannkynið yrði vonandi jafnframt að koma fram ný tækni sem gerði það vonadi að mestu óþarft að sjúga úr æðum jarðar eldsneyti.

Það er hinsvegar ekkert á dagskrá að fara að leggja drápstólaframleiðslu af að mestu leyti og nýta fé og mannafla í eitthvað gáfulegra brölt, gróðinn er of svakalegur fyrir þá sem í komast til að það verði í bráð og menn hafa hugsað sér að græða vel á loftlagskvótum líka.

SeeingRed, 17.7.2010 kl. 20:52

19 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég get svo sem ekki gert að því að mín skoðun (byggð á því sem vísindin hafa um málið að segja) fari í pirrurnar á einhverjum hérna ;)

Annað er, að ef við ákveðum ekki að gera neitt í vandamálinu með tilvitnun í alls kyns öðrum málum eins og að vandamálið sé fólgið í miklu stríðsbrölti (sem ég tel að mætti minnka, væntanlega margir sammála því) eða af því að við séum að verða of mörg til að taka á vandanum eða öðrum þeim ástæðum sem okkur þóknast að finna til í hvert og eitt skipti, þá verður náttúrulega ekkert úr því að við förum að huga að raunverulegum lausnum. Ég er þó bjartsýnn á að það verði (og sé) farið að hugsa í lausnum í stað þess að vera með úrtölur í hvert skipti sem rætt er um málið :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 17.7.2010 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband