Spurningar sem fá verður svar við áður en rætt verður um langtímaleigu á Grímsstöðum á Fjöllum...

 

 

grodurkort.jpg

 

 

Áður en Grímsstaðir á Fjöllum verða leigðir útlendingi til 40 ára, eða 99 ára eins og hann vill sjálfur, þurfa nokkur atriði að liggja skýrt fyrir.  Þarna er um 300 ferkílómetra af landsvæði í jaðri hálendisins að ræða, þannig að þetta er mál sem snertir alla Íslendinga.  
300 ferkílómetrar eru 30 þúsund hektarar.

Ég trúi ekki öðru en svör við neðangreindum spurningum liggi fyrir. Ég neita að trúa því að menn geti verið svo miklir kjánar að ana út í samninga án þess að skoða málið.   Því óska ég eftir að aðilar sem starfa fyrir okkur tímabundið við stjórn lands og sveitarfélaga upplýsi okkur nú þegar um það sem þeir vita.  Menn verða einnig að gera sér grein fyrir að munnlegir samningar við útlendinga um hvað til stendur að gera hafa ekkert gildi, þeir verða að vera skriflegir og liggja fyrir áður en rætt  er um langtímaleigu.

 

1)      Er vitað í hverju er ætlunin er að fjárfesta, en rætt hefur verið um 20 milljarða króna fjárfestingu?

2)      Óljósar fregnir eru af hóteli og golfvelli, en slíkt kostar ekki nema brot af 20 milljörðunum.

3)      Mun þessum fjármunum verða eytt hér innanlands, eða er að miklu leyti um að ræða fjármagn sem notað verður til að kaupa efni og vörur erlendis?

4)      Verða iðnaðarmenn, tæknimenn og verkamenn, sem starfa munu við framkvæmdina,  að stærstum hluta íslenskir, eða verða þeir að mestu útlendingar?

5)      Verða starfsmenn hótelsins, golfvallarins og alls hins sem koma skal, Íslendingar, eða verða þeir flestir fluttir inn?

6)      Verði starfsmennirnir kínverskir, hve margir verða þeir?

7)      Hvernig munu starfmennirnir búa? Verður reist þorp á svæðinu fyrir þá eða háhýsi/íbúðablokk?

8)      Heyrst hefur að reiknað sé með flugvelli á Grímsstöðum, væntanlega til að flytja ferðamenn til og frá landinu. Er það rétt?

9)      Ef  flugvöllur verður gerður í tengslum við hóelsamstæðuna, hver mun þá sinna tollgæslu og landamæraeftirliti, þ.á.m. Schengen eftirliti? Hver mun kosta það?

10)   Er hætta á að þessi hugsanlegi flugvöllur trufli öræfakyrrð hálendisins?

11)   Þurfa framkvæmdir á þessum 30.000 hektara lands að fara í umhverfismat?

12)   Hefur Umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun ekki þungar áhyggjur af þessu máli sem fylgja munu lítt afturkræfar framkvæmdir á jaðri hálendisins?

13)   Hafa Náttúruverndarsamtök ekki áhyggjur af þróun mála?  Landvernd?

14)   Er hætta á að leigutaki muni hindra umferð ferðamanna um þessa 30 þúsund hektara lands? Það væri þó væntanlega ólöglegt, en hvað kynni mönnum að detta í hug...

15)   Gerir væntanlegur leigutaki sér grein fyrir þeim reglum og skyldum sem gilda hér á landi m.a.  í jarða- og ábúðalögum, t.d. varðandi  smölun fjár og aðrar skyldur við samfélagið?

16)    Er hætta á gríðarlegu slysi eins og þegar kínverskir athafnamenn ætluðu sér stóra hluti í Kalmar í Svíþjóð árið 2006, en allt fór í vaskinn eins og hálfbyggð hús og opnir húsgrunnar bera ófagurt vitni um? (Sjá hér, hér, hér, hér, hér). Í Kalmar lærðu menn dýrkeypta lexíu, og gætum við lært mikið af reynslu Svía.  Í Sænska ríkissjónvarpinu var sýnd heimildarmynd um þetta furðulega mál, og er vonandi að RÚV sýnir þá mynd sem allra fyrst. Sjá Kineserna Kommer.

17)   Er þessi væntanlegi samningur um langtímaleigu fordæmisgefandi?

18)   Hafa menn lesið varnaðarorð Dr. Ágústs Valfells sem eitt sinn var forstöðumaður Almannavarna ríkisins og lengi prófessor í kjarnorkuverkfræði við bandarískan háskóla?  Hafa menn hugleitt innihald greinarinnar?  Grein hans nefnist Gangið hægt um gleðinnar dyr, og birtist 13. desember s.l.   Sjá hér.   

 

19)   Mun væntanlegur leigutaki krafinn um tryggingar fyrir því að í einu og öllu verði farið eftir þeim lögum, reglum og venjum sem gilda á Íslandi?

 

20)   Sjálfsagt hef ég gleymt einhverjum spurningum, - þeim má bæta við seinna...

 

 

 

Uppfært:

Viðbótarspurningar sem komið hafa fram í athugasemdum og víðar. (Ef til vill verður fleiri atriðum bætt við hér ef ástæða er til):

 21)   Hvað gerist að 40 (eða 99) árum liðnum eða þegar samningnum lýkur?  Hvernig verður með mannvirkin og allt raskið?  

Verður skilyrt í samningnum að leigutaki skili landinu í sama ástandi og hann tók við því?

Eða, þarf landeigandi etv. að leysa til sín öll mannvirkin og greiða fyrir?  Munum að þetta eru 20 milljarðar sem verið er að ræða um og landeigandinn (sveitarfélagið)  gæti þurft að borga.   Það þarf því að gæta sín þegar og ef samningur er gerður.

 

22)   Hver ber kostnað af vegagerð og gatnagerð, aðrennsli og frárennsli, rafmagni o.þ.h. Hvað um lögæslu ?  Er það ríkið eða sveitarfélög sem sem tekur þann hluta að sér eins og oftast er gert ráð fyrir?


23) það er ljóst að fjölda starfsmanna þarf til að starfa við hótel, golfvelli o.fl. sem tilheyra 20 milljarða fjárfestingunni á Grímsstöðum. Væntanlega munu flestir búa á staðnum, sérstaklega í ljósi þess að samgöngur í þessum landshluta geta verið erfiðar að vetri til. Hver mun reka grunnþjónustu við íbúana, svo sem leikskóla, grunnskóla, heilsugæslu...?  Læknisþjónusta við hótelgesti?  Lendir þetta allt á sveitarfélaginu?  - Eða er reiknað með að þetta verði allt saman kínverskt þorp, eins konar Chinatown?

 

24) Vetur eru harðir á þessum slóðum.  Munu koma fram auknar kröfur um að vegakerfinu sé haldið opnu?  Hver mun bera kostnað af því?

 

25) Hefur utanríkisráðuneytið látið kanna hvort íslenskum athafnamönnum standi til boða að taka á leigu eða kaupa 0,3% af Kína?

 

 

 

 

 

 

Nú getur auðvitað vel verið að allar hliðar þessa máls hafi verið skoðaðar og skjalfestar, og að allt sé í lagi. Ef svo er, þá ber viðkomandi yfirvöldum að sjálfsögðu skylda að upplýsa okkur um það.

 

 

Ef svar við öllum þessum spurningum liggur ekki fyrir, þá verður að afla þeirra skriflega áður en rætt verður um langtímaleigu á hinu 30.000 hektara landi Grímsstöðum á Fjöllum.

Um það hljóta allir sannir Íslendingar að vera sammála.

 

Hitt er svo annað mál að það getur verið erfitt að taka "rétta" ákvörðun í svona flóknu máli. Það eru þó til aðferðir sem auðvelda slíkt, en í þessum bloggpistlum hafa einmitt tvær slíkar aðferðir verið kynntar.

Önnur aðferðin nefist á íslensku  nefnist aðferðin SVÓT greining.     (Styrkur, Veikleiki, Ógnun, Tækifæri), en á ensku  Ensku SWOT analysis.   (Strength, Weakness, Opportunity, Threat). Þessi einfalda aðferði var kynnt í þessum bloggpistli um Icesave málið.

Svo er til enn öflugri áhættugreining sem kynnt var í öðrum bloggpistli um Icesave málið á sínum tíma.  Þessi aðferðafræði getur nýst öllum vel þegar þeir standa frammi fyrir ákvarðanatöku þar sem málið er snúið og áhættur margar og mismunandi. Sama hvort það er í fjármálum, framkvæmdum eða stjórnmálum. Sama hvort það er í þjóðfélaginu, vinnustaðnum eða einkalífinu. Hún er notuð við stórframkvæmdir og jafnvel notuð af þinginu og ráðuneytum í Ástralíu.

Báðar þessar aðferðir gætu nýst vel þeim sem þurfa að fjalla um framkvæmdir eins og þær sem komið hafa til greina á Grímsstöðum. 

 


 

gangid-haegt-haegt-um-gledinnar-dyr---agust-valfells----crop.jpg

 


 Tví- eða þrísmellið á mynd til að stækka og lesa grein.
 
Gangið hægt um gleðinnar dyr.

Það er fyrir öllu!
 

 
 

 


mbl.is Huang fagni ekki of snemma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Allt góðar spurningar sem þarf að svara. Ég þykist þó geta svarað fyrir þig spurningu #13:

 "Jú" 

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.5.2012 kl. 18:08

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hver ber kostnað af vegagerð og gatnagerð, aðrennsli og frárennsli, rafmagni o.þ.h. Hvað um lögæslu ?  Er það ríkið sem tekur þann hluta að sér eins og oftast er gert ráð fyrir.  Og Gunnar: Fyrst þú segir "Jú" viltu ekki benda á ítarleg gögn varðandi þetta sem þú "þykist" vita?

Jón Steinar Ragnarsson, 5.5.2012 kl. 20:28

3 identicon

Ég ætla svo sem ekki vera með neina sérstaka tortryggni en mér finnst að það ætti að upplýsa okkur um önnur fjárfestingaverkefni téðs Núpós á erlendri grundu, einhverra hluta vegna finnst mér að þau hafi ekki gengið eftir.

Alfreð Dan (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 21:46

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Reynslan, Jón, reynslan. Það er alveg sama hvað framkvæmt, ef það er utan Reykjavíkur. þá fara náttúruverndarsamtök á límingunum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.5.2012 kl. 22:04

5 Smámynd: Björn Geir Leifsson

Sniðugir þessir kínverjar... Ekki hægt að kaupa landið, þá kaupir maður bara sveitarstjórnina og þannig óbeint eigandann. Jafngildir eignarhaldi. Minnir á það þegar kaupsýslumenn ræna banka. Þeir brjótast ekki inn, þeir bara kaupa hann.

Svo er ekki fyrr búið að rétta fram litlafingur áður en kallinn fer að káfa upp handlegginn og kría út 99 ára samning sem jafngildir bókstaflega eignarhaldi.

Ég tek undir hvert atriðiÁgúst.

Kynnti mér fyrir nokkru þetta með ævintýri kínverja í hér í Svíþjóð og maður fyllist bara skelfingu. Ég held að sveitavargurinn hafi ekki hugmynd um hvað þeir eru að kalla yfir sig. Það má nánast ganga út frá því að ef af einhverjum framkvæmdum verður þá séu forsendurnar svipaðar og reynslan hefur sýnt annars staðar. Það fyllist allt af skáeygum undirborguðum og illa með förnum verkamönnum. Allar mögulegar reglur og staðlar verða brotnir. Upp rísa meira og minna ónýt hús sem aumingja byggingarfulltrúarnir hafa ekki við að setja út á og svo rúllar allt á hliðina og skattgreiðendur þurfa að kosta rif og hreinsun eins og hér varð raunin.

Er einhver í stakk búinn að koma viti fyrir viðvaningana í sveitarstjórninni?

Björn Geir Leifsson, 5.5.2012 kl. 22:24

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það voru ekki náttúruverndarsamtök sem höfnuðu ósk Bandaríkjamanna um að taka land á leigu fyrir þrjár herstöðvar 1945 til 99 ára, Gunnar.

Ómar Ragnarsson, 6.5.2012 kl. 05:39

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason




Fyrir réttu ári var ég við störf í Kenía.  Það var áberandi hve mikil áhrif Kínverja eru þar.  Á jarðhitasvæði einu sá ég 5 stóra gufujarðbora. Hugsanlega voru þeir fleiri.  Allir voru kínverskir og starfsmenn sömuleiðis.  Ungur maður ók mér rúma hundrað kílómetra að flugvellinum í Nairobi og spjölluðum við á leiðinni. Hann var með masters próf í tölvunarfræði, átti konu og börn, en fékk enga vinnu við sitt hæfi.  Lifði á því að snattast með útlendinga.  Hann sýndi mér m.a. framkvæmdir við vegagerð, þar á meðal mislæg gatnamót. Hann sagði mér að verktakarnir frá sama landi og voru að bora hefðu þann hátt á að flytja með sér nánast  alla starfsmenn.  Þeir réðu aðeins þá sem ynnu með skóflu og ættu hana helst sjálfir. Það var fólkið sem lifði við mikinn skort og lét sér nægja lág laun til að eiga fyrir mat.  Hinn vel menntaði bílstjóri var greinilega sár. Mjög sár.  Í Kenía eru margar vinnufúsar hendur og þykir íbúum þessa fallega lands þetta mjög blóðugt upp á að horfa.   

Víða í Kenía er unnið við vegagerð og aðrar framkvæmdir á þennan hátt. Mér þykir líklegt að það sé einnig raunin í öðrum löndum Afríku.


Kenía er einstaklega fallegt land sem minnir um margt á Ísland. Innfæddir  eru þægilegir í viðkynningu og greinilegt að þar býr gott fólk sem er stolt og ber höfuðið hátt. Þar er mikill jarðhiti og sums staðar má sjá hraun sem runnið hefur fyrir tiltölulega skömmu. Þar er gríðarmikill sigdalur á hásléttunni (East African Rift) sem minnir nokkuð á landslagið við Þingvelli, enda má víða sjá klettabelti eins og í okkar þjóðgarði. Það er örugglega auðvelt að verða ástfanginn af þessu landi og þjóð.  Loftslag er einstaklega gott og þægilegt þrátt fyrir að landið sé við miðbaug, og hjálpar það til hve það liggur víða hátt.


Fátækt er mikil og víða mjög sár en þar býr einnig vel menntað fólk.  Það er því skiljanlegt að íbúum skuli sárna að horfa upp á útlendinga flytja vinnuafl með sér inn í landið og ekki nota þær vinnufúsu hendur sem þar eru fyrir.  Það óttast ég að verði einnig raunin hér, bæði meðan á framkvæmdum stendur og einnig eftir það.   Hver verður arðurinn þá?

Ágúst H Bjarnason, 6.5.2012 kl. 06:54

8 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Kærar þakkir fyrir þennan pistil herra Ágúst H. Bjarnason.

Mjög þarfar spurningar sem hljóta að koma svör við frá viðkomandi ráðuneytum.

Allt þarf að vera uppi á borðinu.

Hér er talað um áratugir og gríðarlega stórt landssvæði. 

Þörf sveitarfélagsins fyrir fé í kassann er skiljanleg, en þeir sem aðeins standa fjær eiga að hafa langtímahugsun að leiðarljósi.

Ég endurtek þakkir til þín og þeirra sem fylgja málinu eftir eins skelegglega.

Bið samt alla að tala um málefnið á virðulegum nótum og ekki nota orð eins og "sveitavargur", "skáeygum" og fleira í slíkum dúr. Það gerir ekkert annað en að setja málið á lægra plan en það verðskuldar.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 6.5.2012 kl. 09:58

9 Smámynd: Gústaf Níelsson

Í þessu skrítna máli sannast hið fornkveðna Ágúst, að engir borgarmúrar eru svo háir að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir þá.

Gústaf Níelsson, 6.5.2012 kl. 17:08

10 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Hafi ég tekið rétt eftir fréttum, þá á íslenska ríkið (þjóðin) 30% Grímsstaðalandsins að óskiptu. Er ríkið aðili að þessum samningum við Huang?

Þórhallur Birgir Jósepsson, 6.5.2012 kl. 22:57

11 Smámynd: Björn Geir Leifsson

Í tilefni af virðingarverðri umvöndun S.A.H.:

Ég bið hina góðu Kínversku þjóð afsökunar á að hafa í fljótfærinni umræðu nýtt mér eitt af sameinandi útlitseinkennum þeirra, hina sérstæðu augnumgerð.

Hins vegar tel ég þá aðila sem hér eru að láta gullkálfinn teyma sig, vel eiga skilið umrætt kjarnyrði. Það hefur iðullega komið fyrir í íslenskum bókmenntum síðustu áratuga og á þess vegna sinn sess. Ég er hræddur um að umræddir aðilar séu að vinna til þess. Það á reyndar eftir að koma betur í ljós hver á virðingu skilið eða ekki í þessu máli en þegar ég skoða umfjöllun og myndir af því hvernig Kinverskir kaupsýslumenn hafa farið að ráði sinu í hliðstæðum verkefnum hér úti, þá fer um mig.

Björn Geir Leifsson, 7.5.2012 kl. 04:40

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir athugasemdina Björn Geir.   Þar sem þú starfar sem læknir í Svíþjóð er mikilvægt það sem þú skrifar um skelfilega reynslu Svía í þessum málum. Við verðum rétt að vona að við íslendingar séum ekki svo bláeygðir (rímar óvart við ská...) að láta slíkt endurtaka sig hér á landi. Okkur er þó alveg trúandi til slíks ef ég þekki okkur rétt...

Svo er það ein spurning til viðbótar:

Hvað gerist að 40 (eða 99) árum liðnum eða þegar samningnum lýkur?  Hvernig verður með mannvirkin og allt raskið?  

Verður skilyrt í samningnum að leigutaki skili landinu í sama ástandi og hann tók við því?

Eða, þarf landeigandi etv. að leysa til sín öll mannvirkin og greiða fyrir?  Munum að þetta eru 20 milljarðar sem verið er að ræða um og landeigandinn (sveitarfélagið)  gæti þurft að borga.   Það þarf því að gæta sín þegar og ef samningur er gerður.

Ágúst H Bjarnason, 7.5.2012 kl. 06:55

13 identicon

73.000 gistinætur á ári á 5* hóteli á Fjöllum, þar sem golfvöllurinn er bara opinn í 2 mánuði?  Ef kallinn hefði beðið um lóð undir álver eða ólíhreinsunarstöð eða minnkarækt eða..., þá hefði maður kannski trúað þessu.  Hvað hafa þeir sem hafa reynt að reka sjoppu á staðnum um þessi áform að segja?    Mig grunar að það sé bæði óhreint mjöl og köttur í sekknum, svo maður nefni ekki annað sem bannað er að segja á dögum pólítísks rétttrúnaðar. 

Gunnlaugur Johnson (IP-tala skráð) 7.5.2012 kl. 11:13

14 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Í Heimskringlu er frásögn af því að Ólafur Haraldsson Noregskonungur sendi hirðmann sinn, Þórarin Nefjólfsson, til að biðja Norðlendinga að gefa sér Grímsey. En Einar Eyjólfsson Þveræingur kom í veg fyrir það með ræðu sem hefur lengi verið í minnum höfð.


„En um Grimsey er þat at ræða, ef þaðan er engi hlutr flutr, sá er til matfanga er, þá má þar fæða her manns, ok ef þar er útlendr herr, ok fari þeir með langskipum þaðan, þá ætla ek mörgum kotbúöndunum muni þykkja verða þröngt fyrir durum.“

„Ok þegar er Einar hafði þetta mælt ok innt allan útveg þenna, þá var öll alþýða snúin með einu samþykki, at þetta skyldi eigi fást. Sá Þórarinn þá erindislok sín um þetta mál.“

Nú vantar okkur sárlega Einar Þveræing...

Ágúst H Bjarnason, 7.5.2012 kl. 13:07

15 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Holl lesning af gefnu tilefni:

Heimskringla.
Ólafs saga helga.




Ólafur konungur sendi þetta sumar Þórarin Nefjólfsson til Íslands með erindum sínum og hélt Þórarinn skipi sínu þá út úr Þrándheimi er konungur fór og fylgdi honum suður á Mæri.

Sigldi Þórarinn þá á haf út og fékk svo mikið hraðbyri að hann sigldi á átta dægrum til þess er hann tók Eyrar á Íslandi og fór þegar til alþingis og kom þar er menn voru að Lögbergi, gekk þegar til Lögbergs.

En er menn höfðu þar mælt lögskil þá tók Þórarinn til máls Nefjólfsson: „Eg skildist fyrir fjórum nóttum við Ólaf konung Haraldsson. Sendi hann kveðju hingað til lands öllum höfðingjum og landstjórnarmönnum og þar með allri alþýðu karla og kvinna, ungum manni og gömlum, sælum og veslum, guðs og sína, og það með að hann vill vera yðar drottinn ef þér viljið vera hans þegnar en hvorir annarra vinir og fulltingsmenn til allra góðra hluta.“

Menn svöruðu vel máli hans. Kváðust allir það fegnir vilja að vera vinir konungs ef hann væri vinur hérlandsmanna.

Þá tók Þórarinn til máls: „Það fylgir kveðjusending konungs að hann vill þess beiðast í vináttu af Norðlendingum að þeir gefi honum ey eða útsker er liggur fyrir Eyjafirði er menn kalla Grímsey, vill þar í mót leggja þau gæði af sínu landi er menn kunna honum til að segja en sendi orð Guðmundi á Möðruvöllum til að flytja þetta mál því að hann hefir það spurt að Guðmundur ræður þar mestu.“

Guðmundur svarar: „Fús em eg til vináttu Ólafs konungs og ætla eg mér það til gagns miklu meira en útsker það er hann beiðist til. En þó hefir konungur það eigi rétt spurt að eg eigi meira vald á því en aðrir því að það er nú að almenning gert. Nú munum vér eiga stefnu að vor á milli, þeir menn er mest hafa gagn af eyjunni.“

Ganga menn síðan til búða. Eftir það eiga Norðlendingar stefnu milli sín og ræða þetta mál. Lagði þá hver til slíkt er sýndist. Var Guðmundur flytjandi þessa máls og sneru þar margir aðrir eftir því.

Þá spurðu menn hví Einar bróðir hans ræddi ekki um. „Þykir oss hann kunna,“ segja þeir, „flest glöggst að sjá.“

Þá svarar Einar: „Því em eg fáræðinn um þetta mál að engi hefir mig að kvatt. En ef eg skal segja mína ætlan þá hygg eg að sá muni til vera hérlandsmönnum að ganga eigi undir skattgjafir við Ólaf konung og allar álögur hér, þvílíkar sem hann hefir við menn í Noregi. Og munum vér eigi það ófrelsi gera einum oss til handa heldur bæði oss og sonum vorum og allri ætt vorri þeirri er þetta land byggir og mun ánauð sú aldregi ganga eða hverfa af þessu landi. En þótt konungur sjá sé góður maður, sem eg trúi vel að sé, þá mun það fara héðan frá sem hingað til þá er konungaskipti verður að þeir eru ójafnir, sumir góðir en sumir illir. En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu því er þeir hafa haft síðan er land þetta byggðist þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér né um það að gjalda héðan ákveðnar skuldir þær er til lýðskyldu megi metast. En hitt kalla eg vel fallið að menn sendi konungi vingjafir, þeir er það vilja, hauka eða hesta, tjöld eða segl eða aðra þá hluti er sendilegir eru. Er því þá vel varið ef vinátta kemur í mót. En um Grímsey er það að ræða ef þaðan er engi hlutur fluttur sá er til matfanga er þá má þar fæða her manns. Og ef þar er útlendur her og fari þeir með langskipum þaðan þá ætla eg mörgum kotbóndunum muni þykja verða þröngt fyrir durum.“

Og þegar er Einar hafði þetta mælt og innt allan útveg þenna þá var öll alþýða snúin með einu samþykki að þetta skyldi eigi fást. Sá Þórarinn þá erindislok sín um þetta mál.

Ágúst H Bjarnason, 7.5.2012 kl. 13:16

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér finnst óttinn við Huang Nupo og áform hans á grímsstöðum vera hysteríukennd. Hann telur sig geta flutt inn fjölda ferðamanna frá Kína á þennan stað. Þetta er væntanlega vel ígrundað hjá honum og ég skil ekki áhyggjur manna um að þetta sé óraunhæft. Mætti halda að íslenska þjóðin væri að hætta eigin peningum í fjárfestinguna.

Maðurinn þekkir inn á markaðinn í Kína og hefur þar sambönd. Slakið á.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.5.2012 kl. 23:38

17 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

Það sem mér skylst, er að þetta svæði sé rokraskat. Af hverju að planta þar golfvelli og flugvelli ?

Af hverju ætti honum að takast betur en okkur sjálfum, að fá landsmenn sína hingað í meira mæli en nú er ? Vilja þeir vera þarna í roki og kulda þó 20 milljarða hótel verði glæsilegt ? 

Og svo skil ég ekki áform hans um að það taki hátt í 20 ár að byggja hótel þarna og fleira. Næstum 20 ár. Það tekur ekki slíkan tíma fyrir mann með fulla vasa fjár. En hvar fékk hann peningana, þegar mest allt er í ríkiseigu í Kína og erfitt fyrir menn að fjárfesta þar, þó þeir séu þaðan. 

En ef þetta verður, þá eigum við að skilyrða að allir sem starfi þarna komi af ESB svæðinu, enda er okkur ekki skylt að veita öðrum en eim atvinnuleyfi hér. Við högnumst ekki neitt á því ef þetta verður ríki í ríki sínu. Ekki neitt, sennilegast töpum á því ef við þurfum að sjá um eftirlit og fleira vegna flugvallar. 

Man ekki betur en bandaríski herinn hafi sloppið við að skila landinu eins og það var og enn eru restar eftir þá víða, m.a á Hólmsfjalli á Bolungarvík ( æji, ekki svo alltof sleip í fjallanöfnum;)), þrátt fyrir að skriflegir samningar hafi kveðið á um að landinu yrði skilað hreinu. Og svo fengu nokkrir klíkuvinir að nánast eiga allar byggingar þar....

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 8.5.2012 kl. 13:17

18 identicon

Hvað er málið með að landsbyggðar fólk lítur alltaf svo á að borgarbúar megi ekki tjá sig um umhverfismál? er landið eitthvað minna okkar en þeirra?

Gummi (IP-tala skráð) 8.5.2012 kl. 19:15

19 identicon

Hvernig er tad, må hver sem er byggja flugvøll hvar sem er . Jeg var ad spekulera ad kaupa/leigja land i Kina. kv frå Norge

einar olafsson (IP-tala skráð) 8.5.2012 kl. 19:16

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hann er ekki að fara að byggja neinn flugvöll þarna. Þeir sem eru með kúkinn í buxunum af hræðslu við þennan voðalega Kínverja, eru að reyna að troða þessari hugmynd inn hjá fólki. Tóm vitleysa og hystería.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.5.2012 kl. 21:50

21 Smámynd: Ágúst H Bjarnason


Ég vona innilega að þeir sem fjalla um þessi mál beri gæfu til að skoða vel allar hliðar málsins, vega og meta af skynsemi, áður en ákvörðun veður tekin, hver sem sú ákvörðun verður.   Í raun þyrfti formlegt áhættumat að fara fram, eins og gert er til dæmis vegna stærri framkvæmda, og er jafnvel krafa á ástralska þinginu.  Það er góð aðferðafræði til að forðast hættur og mistök.

Í svona máli má ekki láta stjórnast af tilfinningum eða hjarðhegðun. Ískalt mat verður að ráða. Við megum ekki láta dollaraglampa í augum villa okkur sýn.

Það hefur verið sagt að Kínverjar hugsi í öldum.  Oft virðist sem við íslendingar náum ekki að hugsa meir en vikur fram í tímann. Öll vitum við hvernig þá fer.
   Einar Þveræingur var skynsamur maður sem kunni að hugsa í öldum.   Hann komst að niðurstöðu sem okkur þykir skynsamleg, mörgum öldum síðar. Þá var það Grímsey, nú eru það Grímsstaðir.  Vonandi fá íslenskir ráðamenn góðan dóm sögunnar þegar þar að kemur.

Ágúst H Bjarnason, 9.5.2012 kl. 07:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband