Vindstig eða m/s: Hvort skilur almenningur betur...?

 

 

 

haraldur-2.jpg


 


 

Getur verið að margir (flestir) hafi litla sem enga tilfinningu fyrir vindstyrk sem gefinn er upp í metrum á sekúndu?  Getur verið að flestir skilji mun betur gömlu góðu vindstigin?  Getur verið að fæstir geri sér grein fyrir að eyðileggingamáttur vindsins vex mjög hratt með vindhraðanum, miklu hraðar en tölurnar gefa í skyn?   Getur verið veðurfréttir, þar sem vindhraðinn er gefinn upp sem sekúndumetrar fari meira og minna fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum og það bjóði hættunni heim?

Í fersku minni er óveðrið í byrjun september síðastliðinn.  Ýmsir, þar á meðal einn ráðherra, töldu að ekki hefði verið varað við veðrinu. Það hafði þó verið gert, en svo virðist sem þær aðvaranir hafi ekki komist til skila. Hvernig stendur á því?

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur kom fram í sjónvarpinu eftir að í ljós kom að Ögmundur ráðherra hafði ekki skilið veðurfréttirnar.  Hann birti veðurkort sem sýnt var í veðurfréttum Sjónvarpsins 8. september.  Þar mátti sjá að spáð var um 25 m/s vindhraða skammt norður af landinu.   Veðurfræðingurinn tók fram að það jafngilti 10 vindstigum og við þann vindstyrk rifnuðu tré upp með rótum.    Um leið og hann nefndi 10 vindstig kviknaði ljós hjá mörgum.  Nú loks var talað mannamál í veðurfréttunum, en það hafði ekki verið gert árum saman.  - Loksins.

Það er nefnilega svo að við eigum mjög góðan skala yfir vindstyrk, skala sem er miklu meira lýsandi fyrir áhrif vindsins en sekúndumetrarnir sem í  hugum flestra eru bara einhverjar tölur, kannski álíka tölur og hitastigin á kortinu.  

Það eru í raun fáir sem gera sér grein fyrir hve eyðileggingamáttur vindsins vex hratt með vindhraðanum.  Það eru fáir sem vita að við tvöföldun á vindhraða áttfaldast aflið í vindinum. Vindrafstöðvar framleiða t.d. áttfalt meira afl ef vindhraðinn tvöfaldast, 27 sinnum meira ef hann þrefaldast.     Með öðrum orðum, þá er aflið í vindi sem er 24 m/s næstum 30 sinnum meira en aflið í vindi sem er aðeins 8 m/s.

Ég gæti vel trúað því að veðurfréttir kæmust mun betur til skila hjá flestum ef veðurfræðingar og veðurfréttamenn temdu sér að nota vindstig frekar en sekúndumetra.   Eða öllu heldur, nota gömlu góðu veðurheitin í stað þeirra þriggja orða sem núorðið heyrast nánast eingöngu í veðurfréttum, þ.e. logn, strekkingsvindur og stormur.  Veðurfréttamenn, að minnsta kost þeir sem komnir eru til vits og ára, hljóta að þekkja hin gömlu góðu heiti. Til upprifjunar birti ég hér töflu sem fengin er að láni hér hjá Trausta Jónssyni.

 


Mat vindhraða eftir Beaufort-kvarða


StigHeitim/sÁhrif á landi
0Logn0-0,2Logn, reyk leggur beint upp.
1Andvari0,3-1,5Vindstefnu má sjá af reyk, flögg hreyfast ekki.
2Kul1,6-3,3Vindblær finnst á andliti, skrjáfar í laufi, lítil flögg bærast.
3Gola3,4-5,4Breiðir úr léttum flöggum, lauf og smágreinar titra.
4Stinningsgola5,5-7,9Laust ryk og pappírssneplar taka að fjúka, litlar trjágreinar bærast. Lausamjöll byrjar að hreyfast.
5Kaldi8,0-10,7Lítil lauftré taka að sveigjast. Freyðandi bárur á stöðuvötnum. Lausamjöll hreyfist.
6Stinningskaldi10,8-13,8Stórar greinar svigna. Hvín í línum. Erfitt að nota regnhlífar. Lágarenningur viðvarandi.
7Allhvass vindur13,9-17,1Stór tré sveigjast til. Þreytandi að ganga á móti vindi. Skyggni slæmt í snjókomu. 
 8Hvassviðri17,2-20,7 Trjágreinar brotna. Erfitt að ganga á móti vindinum. Menn baksa á móti vindi. Skyggni í snjókomu verður lítið sem ekkert. 
 9Stormur20,8-24,4 Lítilsháttar skemmdir á mannvirkjum. Varla hægt að ráða sér á bersvæði. Glórulaus bylur ef snjóar.  
 10Rok24,5-28,4 Fremur sjaldgæft í innsveitum. Tré rifna upp með rótum, talsverðar skemmdir á mannvirkjum.  
 11Ofsaveður28,5-32,6 Miklar skemmdir á mannvirkjum. Útivera á bersvæði hættuleg. Rýfur hjarn, lyftir möl og grjóti.  
 12Fárviðri >= 32,7  Allt lauslegt fýkur, þar á meðal möl og jafnvel stórir steinar. Kyrrstæðir bílar geta oltið eða fokið. Heil þök tekur af húsum. Skyggni oftast takmarkað, jafnvel í þurru veðri.

 

Munur á 20 m/s og 30 m/s hljómar ekki mikill (50%), en það er samt gríðarlegur munur á hvassviðri (20 m/s, 8 vindstig) og ofsaveðri (30 m/s, 11 vindstig).     Líklega er það nokkuð sem fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir.

 

 

Þess má geta að Trausti minnist hér á Jón Ólafsson langafa bloggarans:

Jón ritstjóri Ólafsson

Þegar sendingar veðurskeyta hófust héðan árið 1906 fór fréttablaðið Reykjavík (undir ritstjórn Jóns Ólafssonar) fljótlega að birta veðurskeyti frá nokkrum veðurstöðvum. Þar fylgdu með nöfn á hinum 13 stigum Beaufort-kvarðans. Líklegt er að Jón hafi sjálfur raðað nöfnunum á kvarðann:

  • 0 Logn (logn)
  • 1 Andvari (andvari)
  • 2 Kul (kul)
  • 3 Gola (gola)
  • 4 Kaldi (stinningsgola, blástur)
  • 5 Stinningsgola (kaldi)
  • 6 Stinnings kaldi (stinningskaldi)
  • 7 Snarpur vindur (allhvass vindur)
  • 8 Hvassviðri (hvassviðri)
  • 9 Stormur (stormur)
  • 10 Rokstormur (rok)
  • 11 Ofsaveður (ofsaveður)
  • 12 Fárviðri (fárviðri)

Eru hér að mestu komin sömu nöfnin og Veðurstofan notaði síðar í veðurspám, þau má sjá í sviganum í töflunni. Fyrstu stigin þrjú, frá logni til kuls, eru gjarnan kölluð hægviðri og reyndin var sú að orðið gola var oftast notað sem samheiti á 3 til 4 vindstigum eins og í töflu Jóns Eyþórssonar, svo sem áður var getið.

 

 

Mikið yrði ég þakklátur ef veðurfræðingar og veðurfréttamenn færu aftur að nota gömlu góðu vindstigin í veðurfréttunum Joyful

 

Í fyrirsögn pistilsins var spurt  "Vindstig eða m/s:  Hvort skilur almenningur betur?"

Sjálfur skil ég vindstigin og samsvarandi heiti betur, miklu betur Cool

 

  ---

 

Smá fróðleikur um vindrafstöðvar:

Mesta virkjanlegt afl í vindinum fæst með þessari jöfnu:

 

 P = 1/2  ξ  ρ  x  A  x  v3      

þar sem

P = afl (Wött)

ξ  = nýtnistuðull

ρ = þéttleiki lofts (kg/m3)

A = flöturinn sem vindurinn fer um (m2)

v = vindhraði (m/s)

 

Sem sagt, aflið mælt í wöttum fylgir vindhraðanum í þriðja veldi (v3).  Sjá hér.

 


 

 

 


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Einn mælikvarði ber af í þessu efni og hann er svo einfaldur: Kílómetrar á klukkustund. Allt nútímafólk horfir á farartæki á mismunandi hraða dag eftir dag eða er um borð í farartækjum og er fyrir löngu búið að móta sér hugmynd um til dæmis mismuninum á 72ja kílómetra hraða eða 108 kílómetra hraða.

En 72ja kílómetra hraði eru 20metrar á sekúndu og 108 km hraði eru 30 metrar á sekúndu.

Og fárviðri eða 12 vindstig eru 118 kílómetrar á klukkustund eða 33 metrar á sekúndu.  

Ómar Ragnarsson, 12.11.2012 kl. 00:04

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sæll Ágúst. Eins og þú sást þá var ég á dögunum með smá léttúð að ýja að því sama og þú gerir hér þannig að ég er nokkuð sammála þér. En það er líka annað atriði sem kemur fram á veðurkortinu sem hér fylgir en það er hvernig úrkoman er sýnt. Samkvæmt kortinu mætti ætla að litlu öðru en smá snjóflökti eða stöku dropum sé spáð þarna fyrir norðan en það er í engu samræmi við úrkomuákefðina sem átti eftir að verða. Það var kannski ekki allt betra í gamla daga en í gömlu sjónvarpsveðurkortunum hefði úrkoman verið teiknuð inn mun meira áberandi, enda voru regnsvæði gjarnan þykk skástrik og snjókorn mun stærri. Á vindörvunum voru líka fleiri strik eftir því sem vindurinn var meiri þannig að í heildina voru kortin yfirleitt mun skrautlegri eftir því sem veðrið var verra.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.11.2012 kl. 00:18

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er orðinn vanur metrunum en verð þó að segja að 25 m.sek. finnst mér meira en 10 vindstig, svona í huganum

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.11.2012 kl. 02:19

4 identicon

Þegar vindstigin hurfu úr veðurfréttunum þá átti í byrjun ég  svolítið erfitt með að tengja  hvað x metra vindur  á sekúnduþýddi í veðri ( þ.e a.s vindstigum =  veðurmark sem ég hafði einhverja tilfinnigu fyrir) , og af því ég þurfti stundum ( vinnutengt ) að hafa þokkalega hugmynd við hverju var að búast  í x m/sek ,  skáldaði ég saman einfalda jöfnu  sem auðvelt var að muna til að breyta x-inu í vindstig , hún leit svona út vindstig = 0.7 + x(1-x/100)/2 , þar sem x er sekundumetratalan, og notaði hana til að snúa sekúndumetrunum í vindstig í huganum, þegar ég tók veðrið. Þessiar hugaræfingar leiddu svo til þess ar nokkra mánuði eða kannski eitt ár eða svo þurfti ég ekki lengur á þeim að halda , því ég var kominn með ágæta tilfinninu fyrir hvað sekúndumetraskalinn þýddi í veðri, svo að í dag breytast  t.d 11-13 m/s  sjálfvirkt í "aha  kaldaskítur!" (=  stinningskaldi ) og  16-17 metrarnir í " uhumm allhvass!"  o.s.frv  í hausnum á mér. Ég er sem sé svona privat að nota gömlu  nöfnin ennþá þó vindkvarðinn sé annar, einhvers konar íhaldssemi þarna á ferðinni þarna geri ég ráð fyrir.  

Sigurbjörn Ólafsson (IP-tala skráð) 12.11.2012 kl. 03:16

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það er ekki svo einfalt að erfiðara sé að skilja metra á sekúndu en kílómetra á klukkustund. Það venst fljótt. Einfalda minnisreglan sem Ómar nefnir er góð.  Það vefst aftur á móti fyrir mönnum fyrir mönnum að eyðileggingamáttur vindsins fylgir vindhraðanum mjög ólínulega. 

Munur á 20 m/s og 30 m/s hljómar ekki mikill (50%), en það er samt gríðarlegur munur á hvassviðri (20 m/s, 8 vindstig) og ofsaveðri (30 m/s, 11 vindstig).  Sjá lýsinguna í töflunni hér að ofan í pistlinum.  

Þetta er það sem getur platað fólk.

Ágúst H Bjarnason, 12.11.2012 kl. 06:32

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ágúst.

Þetta er nokkuð skemmtilegur pistill hjá þér og um margt fróðlegur. Hvert nafn þess skala er sem notaður er, eða hvaða viðmiðun er notuð skiptir kannski ekki meginmáli, heldur hitt að ekki sé verið að hræra með þau viðmið.

Það var vissulega erfitt í fyrstu að átta sig á m/s, eftir að hafa verið alinn upp við vindstig. Það sama ætti sjálfsagt við um þá sem hafa nú verið aldir upp við m/s ef skipt yrði aftur yfir í vindstigin.

Þér er tíðrætt um að munur á milli 20 m/s og 30 m/s sé ekki svo mikill, einungis 50%. Munur milli 8 vindstiga og 11, er nokkurn veginn sá sami. Það er ekki fyrr en skýringar eru lesnar að munurinn verður talsverður, eða frá hvassviðri í ofsaveður. Þessar skýringar, í tengslum við m/s, er hægt að nálgast víða, m.a. á heimasíð Veðurstofunnar. Fyrir þann sem fylgist með veðurfréttum og veðri, er enginn munur á m/s og vindstigum hvað þetta varðar, jafn mikill munur á 20 m/s og 30 m/s og milli 8 vindstiga og 11.

Það er hinsvegar sennilega rétt hjá þér að margir hafa litla tilfinningu fyrir vindstyrk, sama hver mælikvarðinn er. Það vandamál verður ekki leyst með einföldum hætti.

Hugmynd Ómars, að nota km/klst er hins vegar ekki galin, enda mælikvarði sem er nær fólki í daglegu lífi. Það leysir þó ekki vanda þeirra sem ekki skilja vindinn og hans afl.

Gunnar Heiðarsson, 12.11.2012 kl. 08:18

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Gunnar.

Það er rétt, Beufort skalinn er ekki mælieining og ekki má líta á vindstigs-töluna sem slíka. Þaðan af síður getum við leyft okkur að reikna hlutfallið milli þessara talna í prósentum.

Beufort skalinn lýsir áhrifum vinds á umhverfið og mannvirki, og það er það sem skiptir flesta máli.   


Ágúst H Bjarnason, 12.11.2012 kl. 08:37

8 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það mætti kannski bæta því við, að jafnvel þó að menn haldi sig við þá nýju venju að birta aðeins m/s á veðurkortunum, þá held ég að það væri til mikilla bóta að veðurfréttamenn notuðu okkar ágætu íslensku nöfn vindstiganna meira þegar þeir kynna veðurspána.  Tala um   stinningskalda   þegar vindhraðinn er um 12 m/s, allhvassan vind   þegar vindhraðinn er um 15 m/s, o.s.frv.     (Hvað er annars strekkingsvindur sem oft heyrist hjá veðurfréttamönnum?).

Ég man alls ekki hvernig óveðrið í september var kynnt í veðurspám, en hefðu veðurspámenn sagt "búist er við 11 vindstigum eða ofsaveðri"   þar sem Haraldur bendir á kortið efst á þessari síðu, þá hefði það ekki farið fram hjá neinum.   Það segir mér a.m.k. miklu meira en  25 m/s.



Ágúst H Bjarnason, 12.11.2012 kl. 09:26

9 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það gleymist alltaf að fyrir sjómenn og fólk í kring um strendur landsins þá var horft á sjóinn hve úfinn hann var sem var í beinu samhengi við vindstigin. Við hofðum ekki tækifæri á að horfa á tré rifna upp með rotum en sjórin/öldurót var okkar merki. Ég hefði verið sáttur við vindhraða í kílómetrum en ég held að þetta hafi verið í lagi eins og það var með vindstigin. Það er eingin söguleg tilfinning í þessum M/S og fólk bað um að þessu yrði ekki breitt á sínum tíma en háskólamenntaða fólkið vildi metranna.

Valdimar Samúelsson, 12.11.2012 kl. 15:07

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Valdimar, þú hefur kannski gaman af því að skoða töfluna sem er á þessari Wikipedia síðu: http://en.wikipedia.org/wiki/Beaufort_scale

Þar er sérstakur dálkur sem sýnir áhrif vinds á sjóinn, "Sea conditions".   Þarna er líka fjallað um sögu Beufort skalans frá árinu 1805 er Sir Francis Beufort gerði hann vegna þarfa sjómanna.

Það er kostur við vindstigin að auðvelt er að meta gróflega vindstyrkinn með því að horfa í kring um sig og skoða áhrif vindsins á náttúruna, hvort sem það eru tré eða hafið.   Það er líka auðvelt að skiptast á upplýsingum um veðrið á mannamáli með því að nota nöfnin á vindstigunum.

Ágúst H Bjarnason, 12.11.2012 kl. 16:27

11 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ég er sammála því að nota frekar km/klst en m/sek í veðurspánni.  Að vísu er ég alin upp við gömlu vindstigin og skil þau yfirleitt - ennþá.

En hvenær sem spáð er (eða útskýrt eftirá) og nefndur er vindhraði 25+ m/sek, gríp ég til reiknivélarinnar og margfalda m/sek með 60 og svo aftur 60, deili með 1000  til þess að fá km/klst.  Er eflaust ekki ein um að vilja spara mér fyrirhöfnina.

Kolbrún Hilmars, 12.11.2012 kl. 17:02

12 Smámynd: Jón Þórhallsson

Við skulum halda okku við m/s eins og er nú í gangi.

>Fólk þarf að að muna að stormviðvörun er gefin út við 20 m/s.

og ef vindstigin fara yfir þá tölu að þá er betra að hafa varan á sér.

Gamli vindskalinn nær ekki að mæla hæstu vind-toppana.

Jón Þórhallsson, 12.11.2012 kl. 17:06

13 identicon

Ég tók eftir því sem sjómaður að eftir að m/s kerfið kom á þá fórum við mun sjaldnar í var en þegar vindstigin voru notuð.

Hver sem ástæðan er þá upplifði ég þessa breytingu með þessum hætti...kannski að 9-10 vindstig hafi hrætt skipstjórnarmenn meira en 25 m/s, gæti verið, en ég persónulega sakna vindstigana, þau sögðu mér einhverra hluta meira hvað í vændum var.

runar (IP-tala skráð) 12.11.2012 kl. 17:53

14 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ég velti því fyrir mér seinni partinn í dag, hvort ekki væri rétt að fá Siggu Kling til að spá veðrinu, miðað við allar aðvarar dagsins? Sem greinilega var lítið að marka. Það var líka lítið að marka "ósagðar aðvaranir" fyrir síðasta hvell!

Er þetta allt saman marklaust bull? Ég skil ekki svona spár! Held ég hætti að taka mark á þeim.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 12.11.2012 kl. 19:06

15 Smámynd: Hörður Þórðarson

Ég er þér alveg innilega sammála, Ágúst. Það er greinilegt að þú skilur vindstigakvarðann:

"Það er rétt, Beufort skalinn er ekki mælieining og ekki má líta á vindstigs-töluna sem slíka. Þaðan af síður getum við leyft okkur að reikna hlutfallið milli þessara talna í prósentum.

Beufort skalinn lýsir áhrifum vinds á umhverfið og mannvirki, og það er það sem skiptir flesta máli."

Ein ástæða þess að hætt var að nota vindstig er sú að sumir misskildu þau. Þessi spurning kom stundum upp; "Hversu mörg vindstig voru í verstu hviðunum?" Þessi spurning lýsir skilningsleysi á vindstigahvarðanum vegna þess að hann lýsir áhrifum vinds en ekki vind hraða. Samkvæmt kvarðanum sem þú birtir hér að ofan, þá eru 7 vindstig um 14 til 17 metrar á sekúndu. Þetta er meðalvindhraðinn í 7 vindstigum en það gætu vel verið hviður upp í 20 metra á sekúndu en það eru samt 7 vindstig. Önnur ástæða fyrir að nota ekki vindstig er einmitt sú að vindstigin lýsa ekki hraða í verstu hviðunum. Verstu hviðurnar eru þær sem valda tjóni svo það er mikilvægt að koma til skila hversu mikill vindhraðinn er í þeim. 

Sjálfum fyndist mér réttast að nota vindstig í veðurspám vegna þess að auðvelt er að sjá samhengið milli vindstiganna og áhrifa vinds. Í þeim tilfellum þegar búist er við sérstaklega byljóttum vindi, það er þegar hviður eru miklu sterkari en meðalvindhraðinn má taka það fram með því að segja til dæmis: Byljótt norðan átt, 9 vindstig en 30 metrar á sekúndu í hviðunum.

Þar sem ég starfa er vindhraða á landi lýst með kvarða sem er svipaður Beaufort (light,  fresh,  strong,  gale). Þegar búist er við sérstaklega sterkum vindi er farið að tala um hraða í hviðum. Til dæmis: "Northwest gale, severe gusting 130 km/h in exposed places". 

 http://en.wikipedia.org/wiki/Beaufort_scale

Hörður Þórðarson, 12.11.2012 kl. 19:32

16 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Í athugasemd #8 hér að ofan varpa ég fram spurningu innan sviga "Hvað er annars strekkingsvindur sem oft heyrist hjá veðurfréttamönnum?"

Á vef Veðurstofunnar fann ég töflu á síðu sem heitir Vindhraði Þar stendur við 6 vindstig  stinningskaldi (strekkingur), þ.e. við um 12 m/s. Væntanlega á veðurfréttamaðurinn því við stinningskalda þegar hann talar um strekkingsvind í veðurlýsingunni.

Sjá http://m.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/349

Ágúst H Bjarnason, 14.11.2012 kl. 05:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband