Hvað veldur þessu 10 ára hiki á hnatthlýnun? - Hvað svo...?

 

 

allcompared_globalmonthlytempsince1979-b_1192796.jpg

 

Svarið við spurningunni í fyrirsögninni er einfalt. Ég veit það ekki og væntanlega veit það enginn með vissu... Margir hafa þó ákveðnar grunsemdir og kenningar...

Samkvæmt mælingum hefur ekki hlýnað undanfarið 10 ár, jafnvel ekki tölfræðilega marktækt í 15 ár samkvæmt sumum mæligögnum.

Þessi pistill fjallar því aðeins um það að skoða hitaferla en ekki er dregin nein ályktun um framtíðina, enda er það ekki hægt... Það er þó full ástæða til að fylgjast með framvindu mála næstu árin.

 

Myndin hér að ofan er nokkuð fróðleg. Hún er samsett úr öllum helstu hitamæliferlum, tveim sem unnir eru úr mæligögnum frá gervihnöttum (UAH MSU, RSS MSU) og þrem sem unnir eru úr hefðbundnum mæligögnum (GISS, NCDC, HadCRUT4). Ferlarnir ná frá árinu 1979 og út janúar 2013.

Ferlarnir ná aftur til ársins 1979 en þá hófust mælingar frá gervihnöttum.  Hér hafa ferlarnir verið stilltir saman miðað við meðaltal fyrstu 10 ára tímabilsins.  Þeir virðast falla vel saman allt tímabilið sem eykur trúverðugleika þeirra.

Svarti þykki ferillinn er 37 mánaða (3ja ára) meðaltal. Ferlarnir ná til loka desember 2012.  Ferlarnir sýna frávik frá viðmiðunargildi, en ekki raunverulegt hitastig, en meðalhiti yfirborðslofthita jarðar er nálægt 15 gráðum Celcíus.  Stækka má mynd með því að tvísmella á hana.

 

Nú er hægt að skoða þetta ferlaknippi á mismunandi hátt, en auðvitað verður að varast að taka það of bókstaflega. Við tökum kannski eftir að að svo virðist sem skipta megi ferlinum sjónrænt gróflega í þrjú tímabil:

 

1979-1993: Tiltölulega lítil hækkun hitastigs.

1992-2002: Ör hækkun hitastigs.

2002-2013: Engin hækkun hitastigs.

 

Svo má auðvitað skipta ferlinum í færri eða fleiri tímabil ef einhver vill, og skoða á ýmsan hátt, en allt er það sér til gamans gert...

 

 -

 

Til að gæta  alls velsæmis er rétt að skoða hitaferil (HadCRUT3) fyrir meðalhita jarðar sem nær alveg aftur til 1850 og endar í janúar 2011.  Ferillinn sem er efst á síðunni nær aðeins aftur til ársins 1979, eða yfir það svæði sem merkt er með rauðu [Satellites].

Við sjáum þar að hitinn síðustu ár hefur verið hár miðað við allt 160 ára tímabilið.

Við tökum einnig eftir að hækkun hitastigs hefur verið álíka hröð tvisvar á þessu 160 ára tímabili, þ.e. því sem næst 1910-1940 og 1985-2000.

 

hadcrut3_globalmonthlytempsince1850_withsatelliteperiod.jpg

 

Myndirnar hér á síðunni eru fengnar að láni hjá vefsíðunni www.climate4you.com sem Ole Humlum prófessor við Oslóarháskóla sér um.  Á efri myndinni var bætt við lóðréttum línum við árin 1998 og 2003,  (10 og 15 ár frá 2013).

 

Nú vakna auðvitað nokkrar spurningar:

  •    Hvað veldur þessu hiki eða stöðnun sem staðið hefur a.m.k. í áratug?
  •    Hve  lengi mun  þessi stöðnun standa yfir?
  •    Mun hlýnunin sem var á síðasta áratug 20. aldar fara aftur af stað eftir þetta hik? 
  •    Er hlýnunin í hámarki um þessar mundir og mun svo fara að kólna eftir þetta hik? 

 

Hér verður ekki gerð nein tilraun til að svara þessum spurningum, enda veit enginn svarið. Við getum lítið annað gert en beðið og dundað okkur við að fylgjast með þróuninni næsta áratug eða lengur.

Það er þó væntanlega í lagi að benda á að um geti verið að ræða þrenns konar fyrirbæri sem veldur breytingum á hitafari undanfarina áratugi og árhundruð:

 

  1. Ytri sveiflur sem væru þá helst breytingar í sólinni.

  2. Innri sveiflur svo sem breytingar í hafstraumum og breytingar í hafís/endurskini eins og Páll Bergþórsson hefur bent á.

  3. Stígandi sem stafar af sífelt meiri losun á koltvísýringi

 

Þetta er semsagt flókið samspil náttúrulegra fyrirbæra og áhrifa losunar manna á koltvísýringi. Hve mikið hver þessara þriggja þátta vegur er ómögulegt að segja.  Við getum þess vegna til einföldunar og bráðabirgða sagt er hver þáttur valdi svo sem þriðjungi, en auðvitað er það bara órökstudd ágiskun þar til við vitum betur...

 

Við vitum að virkni sólar hefur farið hratt minnkandi undanfarið svo óneitanlega liggur hún undir grun.   Nú gefst því kjörið tækifæri til að reyna að meta þátt sólar í breytingum á hnattrænum lofthita.    Kannski verðum við eitthvað fróðari  um málið eftir nokkur ár.  Þetta er þó aðeins einn þáttur þeirra þriggja sem getið var um hér að ofan. Um allnokkurt skeið hafa menn spáð minnkandi virkni til ársins 2030 eða svo, en viðsnúningi eftir það...   Hvað svo?  

 

 

frettabladir_1_mars-b.jpg

Í Fréttablaðinu í dag föstudaginn 1. mars er viðtal við Pál Bergþórsson um reglubundnar sveiflur sem stafar geta af hafísnum og enduskini sólar af honum.  Það er einn þáttur innri sveiflna í kerfinu.  "Hlýindaskeiðið er við að ná hámarki sínu". stendur í fyrirsögn viðtalsins við Pál.

Viðtalið má lesa með því að smella tvisvar eða þrisvar á myndina, eða með því að skoða alla blaðsíðu fréttablaðsins hér, sem er jafnvel betra en að skoða myndina.

Viðtlið hefst svona:

„Yfirstandandi skeið hlýinda hér á landi og á norðurhjara
er um það bil að ná hámarki, að sögn Páls Bergþórssonar, veðurfræðings og fyrrverandi veðurstofustjóra.
Síðan segir hann að fari kólnandi á ný og við taki kuldaskeið
sem ætla megi að vari í um þrjá áratugi...“
.

 

Mun hlýna á næstu árum, mun hitinn standa í stað eins og undanfarinn áratug, eða mun  kólna á næstu árum og áratugum.  Hvað gerist svo eftir það? 

Tíminn mun leiða það í ljós, en áhugavert verður að fylgjast með.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ágúst,  viðtalið við Pál var fróðlegt að því leyti að hann virðist búast við annarri  þróun en margir aðrir.  Páll miðar eingöngu við eigin reynslu og fræðimennsku hvað varðar hitasveiflur á okkar norrænu slóðum - ekki endilega hnattrænt.

Taflan sem þú settir inn hér að ofan mælir "global  temperature".  Sennilega eru flestir mælarnir staðsettir í fjölmenni, í eða í nánd við milljónaþéttbýli og ekki við öðru að búast en þeir sýni reglulega og samfellda hækkun í takt við íbúafjölgun.  Þó er greinilegt að frá aldamótum er "global" kúrfan á niðurleið.  

Gæti verið að Páll hafi rétt fyrir sér - að hlýindaskeiðinu sé að ljúka?

Kolbrún Hilmars, 1.3.2013 kl. 18:45

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Svefnlausar nætur hjá "alarmistum"?

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.3.2013 kl. 20:21

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Djö... mig sárvantar meira af þessari hlýnun. Svona, út með kolagrillið! (Þeir segja að það virki... en þeir segja ansi margt.)

Ásgrímur Hartmannsson, 1.3.2013 kl. 23:08

4 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Ágúst

Línuritið hjá þér sýnir væntanlega lofthita, þ.e.a.s. mælt hitastig í andrúmslofti (þótt það komi ekki fram). Mælingarnar eru verulega nákvæmar og línuritið mjög áreiðanlegt, ég hef séð þetta sama línurit mörgum sinnum. Margar mælinganna eru gerðar með gervihnöttum, auk þess er safnað gögnum mjög víða að - alls ekki, eins og Kolbrún segir, að hér sé mest verið að mæla í þéttbýli. Það er annars ágætis skýring á staðbundinni hlýnun, eftir því sem þéttbýli eykst þá hækkar hitastig staðbundið.

Þú óskar eftir skýringum og vissulega er enginn sem getur svarað með 100% vissu hvers vegna hitastigið hækkar stundum og stundum ekki. Langsamlega líklegasta skýringin á hlýnun er aukning koltvísýrings í andrúmslofti, engin önnur skýring hefur vísindalegan stuðning þótt ýmsar hafi verið settar fram. Sólin er í frekar köldum fasa núna en hún var það líka þegar hlýnaði hvað hraðast í lok 10. áratugarins.

En svo má auðvitað spyrja hvort mæling á lofthita sé nóg til að sýna fram á hlýnun/ekki hlýnun jarðar. En ef um hlýnun er að ræða vegna auknings koltvísýrings þá má samkvæmt eðlisfræðilögmálum gera ráð fyrir að yfirgnæfandi meirihluti varmaorkunnar fari í að hita upp heimshöfin - massi þeirra er einfaldlega svo miklu meiri en andrúmsloftsins auk þess sem þau hitna beint af orku sólar (og þekja um 2/3 yfirborðs) en andrúmsloftið hitnar vegna geislunar frá yfirborði.

Yfirborð sjávar hlýnar á daginn en kólnar á nóttunni. Gróðurhúsalofttegundir grípa hluta af varmageisluninni frá hafinu (og einnig auðvitað yfirborði þurrlendis) og andrúmsloftið hlýnar. Hluti varmaorkunnar endurvarpast síðan frá gróðurhúsalofttegundum og niður á við, þ.a. því meira magn gróðurhúsalofttegunda, því hægar kólnar á nóttunni. Auk þess stjórnast hraði kólnunar af hitamismun, ef yfirborð sjávar hitnar í 20 gráður á daginn en næturhiti andrúmslofts er 10 gráður þá kólnar yfirborð sjávar hraðar en ef næturhiti væri 11 gráður.

Yfirborð sjávar nær niður á nokkurra metra dýpi öfugt við þurrlendi þar sem yfirborðið sem nær að hlýna á daginn er mjög þunnt og varmarýmdin verulega háð varmaleiðni efnisins - raki leiðir varma vel og hefur ágætis varmarýmd, grjót og sandur leiðir varma afskaplega illa enda verður kalt í eyðimörkum á nóttunni. Straumar hafsins bera síðan eitthvað af varmanum niður á meira dýpi. Þessi varmahringrás heimshafanna er vel þekkt, Golfstraumurinn er ágætis dæmi um varmatilfærslu frá yfirborði niður til neðri laga sjávar.

Einn stærstur slíkra varmaflutningsstrauma liggur um Kyrrahaf (sem er enda langstærsti hafið). Sum ár er varmaflutningurinn þannig að Kyrrahafsstraumar kæla andrúmsloftið. Þetta er almennt kallað La Nina ástand. Í slíkum árum fjarlægir hafið í rauninni varma frá andrúmslofti. Á öðrum tímum á sér stað öfugur varmaflutningur, svokallaður El Nino. Þá losnar varmi aftur frá hafinu og andrúmsloftið hlýnar umfram það sem annars myndi vera. El Nino ár eru jafnan mjög hlý, þannig var t.d. 2010, 2005 og sérstaklega 1997/1998 El Nino ár enda slá þau öll hitamet. Árið 1998 var einstaklega heitt, 2005 slær því við og árið 2010 ívið hlýrra en 1998. Langhlýjasta 12 mánaða tímabil sem mælst hefur var miðju ári 2009 til mitt árs 2010, nokkru hlýrra en 2010 sjálft.

En nettó varmatilflutningur áranna 1998 - 2012 er verulega niður á við - La Nina áhrifin hafa verið mun sterkari en El Nino áhrifin. Þarna gæti verið komið svarið við spurningu þinni - hiti í andrúmslofti getur staðið í stað þrátt yrir hnattræna hlýnun ef heimshöfin taka til sín umfram varmann.

En er hægt að vita hvort svo sé? Bein og mælanleg afleiðing af hlýnun heimshafanna er að þau þenjast út og yfirborð þeirra hækkar. Mæld hækkun á yfirborði sjávar er um 3 - 3,5 mm á ári frá 1998 og hefur ekki hægt á sér. Línurit á Wikipedia sýnir vel þróunina, þar má einnig sjá El Nino (rauð) og La Nina (blá) tímabil. Á La Nina tímabilum er mun meiri úrkoma (einkum monsúnrigningar yfir Asíu) sem leiðir til minni hækkunar (eða jafnvel lækkunar) sjávarborðs, á El Nino tímabilum er þurrara og hærri sjávarstaða.

Yfir 90% af auknum varma vegna gróðurhúsalofttegunda fer í að hita höfin. Á meðan höfin flytja varmann niður á við (sem hefur verið ríkjandi að meðaltali síðastu 14 árin) má búast við að hitastig í andrúmslofti standi í stað eða jafnvel lækki. Fyrr eða síðar skila höfin varmanum frá sér í El Nino árum. Það gerist varla á þessu ári, stuttu fyrir áramót virtist El Nino vera í uppsiglingu en ekkert varð af. En El Nino kemur fyrr eða síðar og eins og sjá má á þessu línuriti á Wikipedia  þá má fastlega reikna með hitameti þegar það gerist. Línuritið sýnir vel áhrifin af El Nino/La Nina. Þannig má sjá að flest síðustu 10 ár hafa verið La Nina eða hlutlaus - og þau eru samt miklu hlýrri en samsvarand ár fyrr á tímum. El Nino árin hafa verið tvö þar af var 2010 heitasta ár nokkurn tímann og 2005 aðeins lægri en samt miklu hlýrri en öll El Nino ár fram að því að 1998 undanskildu.

Það er því varla hægt að tala um að hnattræn hlýnun hafi stöðvast - allt bendir til þess að hún haldi áfram og bæti heldur í en hitt. Hvort hlýnun andrúmslofts verði áberandi á næsta áratug veit enginn, kannski halda höfin áfram að sanka að sér þar til þau ná jafnvægisástandi og byrji að skila varma af fullum krafti út í andrúmsloftið. Trúlegra er þó að þetta sé sveiflum háð, sveiflum sem geti teygt sig yfir nokkra áratugi. Andrúmsloftið gæti því tekið annað stökk, svipað og gerðist á 10. áratugnum, og svo haldist í sama farinu í önnur tíu ár.

Brynjólfur Þorvarðsson, 2.3.2013 kl. 17:11

5 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Mig langaði aðeins að bæta við eftir að hafa lesið viðtalið við Pál. Hann dregur ekki í efa hnattræna hlýnun vegna gróðurhúsalofttegunda. En hann bendir á að sveiflur í hafís geti valdið skeiðum sem séu hlýrri og kaldari en meðaltal hlýnunarinnar. Komandi kuldaskeið skv. Páli verður því ekki eins kalt og það síðasta, og næsta hlýskeið verði hlýrra en núverandi.

Páll er mikill vísindamaður eins og uppgötvun hans á NAO sveiflunni sannaði rækilega. Vel má vera að hann hafi eitthvað til síns máls, að hafísinn hafi með einhverjum hætti áhrif á stefnu varmaflutningsins í höfunum. En þetta er auðvitað eitthvað sem tíminn mun leiða í ljós.

Brynjólfur Þorvarðsson, 2.3.2013 kl. 17:32

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæl Kolbrún.

Fyrirgefðu hvað ég svara seint, en ég var að koma í bæinn fyrir klukkustund.

Kenning Páls er mjög áhugaverð og auðvitað gott innlegg í umræðuna um þessi flóknu mál. Öll umræða og vangaveltur eru af hinu góða. Það getur meira en verið að kenning Páls muni eiga við rök að styðjast, en vandamálið er að þessi fræði eru það flókin að erfitt er að greina hvað eru náttúrulegar sveiflur og hvað gæti stafað af losun á koltvísýringi.  Það auðveldar ekki málið að náttúrulegu sveifluvaldarnir geta verið margir og því í mörg horn að líta.

Sjálfur hef ég haft mestan áhuga á einum þætti  náttúrulegra breytinga sem gætu haft áhrif á langtíma veðurfars- eða loftslagsbreytingar hér á jörðu, en það eru breytingar í sólinni, þ.e. breytingar í heildarútgeislun, útgeislun á hörðum útfjólubláum geislum, sólvindinum, segulsviði, o.þ.h. Við búum í nábýli við þessa stjörnu og "loft"hjúpur hennar umlykur jörðina, eins og við verðum vör við þegar norðurljósin dansa á himinhvelfingunni.  Það kemur auðvitað til að áhuga mínum á himingeimnum sem ég hef haft lengi, að ég líti til áhrifa sólari, en það má væntanlega sjá af þessu pistlayfirliti.   Auðvitað geta áhrifavaldar verið miklu fleiri, þ.á.m. sveiflur í hafstraumum.  Aðalatriðið er að hafa ánægju af þessu grúski :-)

Áhrif af staðsetningu hitamæla í þéttbýli hafa vissulega verið til staðar, en ég held að núorðið séu menn farnir að sigta frá þær mælistöðvar sem eru illa staðsettar. Miðað við hvað ferlarnir efst á síðunni falla vel saman virðist það takast mætavel. Tveir ferlanna, blái og svarti, eru mælingar frá gervihnöttum, en þar er beitt aðferð sem nemur örbylgjuklið frá súrefni í mismunandi hæð. Þessar mælingar eru óháðar þéttbýlisáhrifum (urban heat island effect) sem truflað geta hefðbundnar mælingar.

Þú spyrð hvort Páll geti haft rétt fyrir sér þegar hann segir að hlýskeiðið sé að ná hámarki og að kólnun sé framundan, að minnsta kosti tímabundið.  Það virðist ýmisleg benda til þess gæti ég trúað. Auðvitað getum við ekki gert annað en fylgst með framvindu mála.  Hvað það er sem veldur þessu hiki í hlýnum síðastliðin áratug eða aðeins meir, er erfitt að segja. Það kann að vera tilviljun að hratt hefur dregið úr virkni sólar undanfarið.

Ágúst H Bjarnason, 2.3.2013 kl. 21:57

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Gunnar, það er ástæðulaust að vera svefnlaus ef maður hefur áhyggjur af hlýnun.  Meðan hitinn stendur í stað ættu menn að sofa betur.  Svo eru sumir sem hafa áhyggjur af hugsanlegri kólnun, og getur vel verið að þeir sofi illa .

Ásgrímur. Auðvitað höfum við notið þess hér á landi hve hlýnað hefur undanfarið.  Gróðurinn og mannlífið hefur dafnað vel.

Ágúst H Bjarnason, 2.3.2013 kl. 22:03

8 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll aftur Ágúst

Þar sem nánasta öll varmaorka andrúmslofts og sjávar kemur frá sólinni er auðvitað nærtækast að líta þangað þegar leitað er skýringa á hitasveiflum jarðar, hvort sem um er að ræða breytingar á útgeislun sólarinnar sjálfrar eða breytingar á afstöðu jarðar til sólar. Síðastnefndi þátturinn er auðreiknanlegur og hefur m.a. gefið ágætis skýringu á sveiflum milli jökulskeiða og hlýskeiða á núverandi ísöld (Milankovich sveiflur).

Útgeislun sólar er flóknara dæmi og ekki alltaf auðvelt að mæla beint. Einnig er erfitt að reikna sig aftur í tímann þar sem sveiflurnar eru ekki reglulegar og væntanlega sumar þeirra jafnvel óreiðukenndar.

Mig langar að benda þér á fræðilega umfjöllun um áhrif sólarinnar á vefsíðunni Skeptical Science (sem Gunnar myndi eflaust flokkka undir alarmista). Það má vel vera að þú þekkir þessa umræðu sem þar kemur fram, ekki ætla ég að þykjast skilja allar vangaveltur í þesssu samhengi. Ef þú ferð inn á þessa síðu  um sólina þá er umfjöllunin mjög vísindaleg en enn og aftur rétt að benda á að hún er ekki hlutlaus!

Sjálfur hef ég fylgst grannt með umræðunni um hnattræna hlýnun í tvo áratugi eða svo, og hvert sinn sem ég sé einhvern koma fram með trúverðuga skýringu sem ekki byggir á koltvísýringi í andrúmslofti hef ég reynt að setja mig inn í málið eftir bestu getu. Enn hef ég ekki séð neina kenningu sem skýrir núverandi hlýnun aðra en þá að hún sé orsökkuð af aukningu koltvísýrings í andrúmslofti.

Persónulega er ég viss um að mannkyn mun ekki gera neitt til að koma í veg fyrir hugsanlega hlýnun. Vísindin eru einfaldlega ekki í stakk búin til að sanna með óyggjandi hætti hvað er á ferðinni og málið er orðið allt of pólítískt til að nokkuð verði gert án slíkra sannana. Án hlýnunar af manna völdum myndum við væntanlega vera á hægfara leið inn í næstu ísöld, hitastig væri núna sjálfsagt einni til tveimur gráðum lægra en nú er og færi hægt lækkandi fram að vendipunkti þar sem ísöld tæki við frekar hratt (vendipunkturinn er hugsanlega 1000 til 20.000 ár framundan og kemur væntanlega fyrr eða síðar óháð núverandi hlýnun - nema okkur takist hreinlega að stjórna hnattrænu hitastigi!)

Ég tel að mannkyn mun að mestu leyti geta leyst úr þeim vandamálum sem koma upp með tækniþekkingu sinni og aðlögunarhæfni. En það getur orðið erfitt fyrir marga og hugsanlega valdið hörmungum víða. Langstærsta vandamálið er matvælaframleiðsla, menning okkar og mannfjöldi í nútíma byggir á ótrúlega stöðugu loftslagi síðustu 10.000 ár, langstöðugasta tímaskeiðið frá því homo sapiens tók sín fyrstu skref. Landbúnaður er undirstaða menningarinnar og heldur þessum 7 milljörðum jarðarbúa á lífi í dag.

Hitasveiflur á jarðsögulegum tíma hafa margar verið miklu stærri en það sem við núna stöndum (hugsanlega) frammi fyrir. Sumar þeirra hafa jafnvel verið hraðskreiðari en núverandi hlýnun. Og í mjög mörgum tilfellum er ekki hægt að sýna fram á orsakasamhengi, hvort sem það er breyting á sólinni eða legu heimsálfa, nú eða samsetningu andrúmslofts. En allar þessar sveiflur urðu án menningar og án 7 milljarða manna sem bókstaflega hafa lifibrauð sitt af landbúnaði.

Brynjólfur Þorvarðsson, 3.3.2013 kl. 10:49

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Brynjólfur og bestu þakkir fyrir athugasemdirnar.  Það er gaman að sjá hve mikinn áhuga þú hefur á þessum málum.  Minn áhugi hófst fyrir um 15 árum  og reyndi ég þá að setja mig vel inn í áhrif sólar á hitafar jarðar.  Ég setti hugleiðingar mínar á vefsíðu sem er í nokkrum köflum og er fyrsta síðan hér. Þetta var árið 1998 og hef ég ekki uppfært síðuna í áratug þannig að margar krækjur þar eru óvirkar, og margt hefur breyst síðan. Vefsíðan er vistuð í Synology stöð heimilisins. 

Oft hafa menn eingöngu litið til heildarútgeislunar sólar (TSI), en nýverið (8.jan.) birti NASA athyglisverða frétt: Solar Variability and Terrestial Climate. Þar segir í inngangi: "Jan. 8, 2013:  In the galactic scheme of things, the Sun is a remarkably constant star.  While some stars exhibit dramatic pulsations, wildly yo-yoing in size and brightness, and sometimes even exploding, the luminosity of our own sun varies a measly 0.1% over the course of the 11-year solar cycle. 

There is, however, a dawning realization among researchers that even these apparently tiny variations can have a significant effect on terrestrial climate. A new report issued by the National Research Council (NRC), "The Effects of Solar Variability on Earth's Climate," lays out some of the surprisingly complex ways that solar activity can make itself felt on our planet.

Understanding the sun-climate connection requires a breadth of expertise in fields such as plasma physics, solar activity, atmospheric chemistry and fluid dynamics, energetic particle physics, and even terrestrial history. No single researcher has the full range of knowledge required to solve the problem.  To make progress, the NRC had to assemble dozens of experts from many fields at a single workshop.  The report summarizes their combined efforts to frame the problem in a truly multi-disciplinary context. ..."

Sjá vef NASA um málið hér, og bloggpistil minn um það sama hér.

Þetta hik í hækkun hitastigs jarðar, sem staðið hefur í áratug hefur valdið vísindamönnum heilabrotum.  Víða hefur verið fjallað um málið og því erfitt að benda á ákveðna grein. Vefurinn Fabius Maximus, sem fjallar ekki oft um loftslagsmál, var þó með umfjöllun í október síðastliðinn, sem er fróðleg að því leyti að þar er yfirlit með tilvísun í slíkar umræður. Sjá  Still good news: global temperatures remain stable, at least for now.

Þetta hik í hlýnum hefur einnig komið fram í hitastigi sjávar undanfarin ár. Það sést berlega á ferlinum sem er á vefsíðu NOAA hér.  Þar má sjá frávik í vermi  eða heat content í sjónum niður á 700 metra dýpi. Þarna hefur eitthvað breyst eftir 2003 þegar ferillinn verður nánast láréttur.   Með nýja Argo kerfinu eru þessar mælingar framkvæmdar um öll heimsins höf. 

Vefurinn Wood for Trees http://www.woodfortrees.org er áhugaverður. Þar er hægt að teikna ýmsa ferla beint úr gagnagrunnum þeirra stofnana sem halda utan um mæligögn. Það á meðal eru hitamæligögn.  Hægt er að láta kerfið teikna leitnilínur (skv. summu minnstu kvaðrata) og finna þannig tilhneiginguna yfir ákveðið tímabil. T.d. má gera það við lofthita.  Sem dæmi um svona æfingar má skoða þetta spaghettí af hitaferlum og leitnilínum.  Lengd línanna sýnir nokkurn vegin það tímabil sem viðkomandi hik nær yfir.  Sjá dæmið hér.  Hér má fikta að vild :-)

Annars var ætlunin að pistillinn fjallaði um hikið (hiatus eða standstill, eru orð sem hafa verið notuð), en ekki orsakir hnatthlýnunar. Kannski er þó erfitt að skilja þetta að.    Látum þetta nægja að sinni .


Ágúst H Bjarnason, 3.3.2013 kl. 11:49

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Eitthvað virka krækjur illa.  Reyni að lagfæra það sem feitletrað er.

Sjá vef NASA um málið hér, og bloggpistil minn um það sama hér.


Still good news: global temperatures remain stable, at least for now.
 http://fabiusmaximus.com/2012/10/14/climate-global-warming-44028/

Ágúst H Bjarnason, 3.3.2013 kl. 11:57

11 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sæll Ágúst. Já það er ekki um að villast að hitinn á jörðinni hefur að mestu staðið í stað undanfarin ár. Það gæti vissulega verið vísbending um að hlýnun jarðar sé ekki eins mikið bráðatilfelli og talið var fyrir nokkrum árum en samt alls ekki þar með með sagt að ekki muni hlýna meir á jörðinni vegna aukins koltvísýrings. Spár um hinar miklu ört vaxandi hlýnun gætu hafa verið litaðar af þeirri miklu hlýnun sem varð undir lok síðustu aldar en margt bendir hinsvegar til þess að sú hlýnun hafi fengið aðstoð frá náttúrulegum, innri eða ytri uppsveiflum.

Eins og ég hef gjarnan minnst á þá hef ég sjálfur mikla trú á áhrifum hafana í stíl við það sem Brynjólfur kemur inn á. það sem gerist í Kyrrahafinu skiptir afar miklu máli en austurhluti þess er stór uppspretta kaldsjávar úr undirdjúpunum sem berst til yfirborðs vegna ríkjandi vinda. Á hlýjum El Nino árum dregur úr þessu kalda uppstreymi en það eykst á kaldari La Nina árum. Þar á ofan eru hugmyndir uppi um áratugasveiflur í þessu þannig að við gætum núna verið í 20-40 ára tímabili þar sem kalt La Nina ástand er oftar ríkjandi en hlýji El Nino fasinn, en umbreytingin hefur þá átt sér stað í kjölfar ofur-El Nino 1998.

Svo er það Norður-Atlantshafið og Norður-Íshafið. Þar virðast líka vera áratugasveiflur sem tengjast því sem Páll Berþórs kemur inn á, en hvort hafísinn sé þar grundvallarástæðan er ekki endilega víst en alls ekki ólíklegt. Hér hjá okkur skiptir sjávarhiti miklu en hann sveiflast til eftir því hversu mikið af suðlægum yfirborðssjó berst hingað norður en ekki hversu mikið lofthitinn hitar sjóinn enda ekki miklum lofthita til að dreifa. Þetta er því eiginlega öfugt ástand miðað við það sem gerist við miðbaugssvæði Kyrrahaf því hér einkennast aðstæður af hlýsjó sem sekkur og myndar kaldan djúpsjó. Þegar þetta hlýja aðstreymi minnkar tímabundið vegna áratugasveiflna þá ætti að kólna hér á ný og ísinn að aukast á Norður-íshafi. En við erum núna í miðjum hlýjum fasa hér í Norðurhluta Atlantshfafsins og ef það snýst við á sama tíma og Kyrrahafið er einnig í köldum fasa þá má velta fyrir sér hvort það dugi til að snúa hitafari jarðar í átt til tímabundinnar kólnunar.

Jæja þetta var nú frekar löng athugasemd í stíl Brynjólfs. Það má velta þessu lengi fyrir sér og auðvitað eru þetta vangaveltur. "Global warming" þarf ekki að vera úr sögunni þó ekki hlýni tímabundið, mín skoðun er sú að langtímahlýnunin þoli nokkuð löng stöðnunartímabil og jafnvel bakslög. Hlýnun gerist á lengra tímabili en talað hefur verið um vegna þess hve mikið af hlýnuninni fer í að hita undirdjúpin. En um þátt sólarinnar hef ég ekki mikið að segja, en útiloka þó ekkert. Hún er samt alltaf pannan sem hitar pottinn en gróðurhúsaáhirfin geta þá verið pottlokið.

Emil Hannes Valgeirsson, 3.3.2013 kl. 12:48

12 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Takk fyrir greinargott yfirlit Ágúst. Ég er einn þeirra sem held einhvern veginn að sólin hafi mikil áhrif á hitastig jarðar og CO2 hins vegar miklu minni en látið er í veðri vaka. Ég er líka hrifinn af kenningu Henrik Svensmark um geimgeisla, skýjamyndun og áhrif þess á hitastig jarðar.

Magnús Óskar Ingvarsson, 3.3.2013 kl. 12:48

13 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Allt er þetta mjög athyglisvert og víst að það er erfitt að gera sér grein fyrir áhrifum sólar. Hins vegar er eðlisfræðin bak við áhrif koltvísýrings vel skilin og samkvæmt henni ætti að hlýna við vaxandi magn koltvísýrings. Það hefur einnig sýnt sig ef tekið er meðaltal síðustu 150 ára að hitastig hefir stigið í samræmi við aukningu koltvísýrings. Orsakasamhengið sem sagt bæði vel skilgreint eðlisfræðilega og vel staðfest með athugunum.

Þörfin til að leita annarra skýringa er auðvitað til komin vegna þess að mörgum finnst erfitt að viðurkenna hlýnun vegna koltvísýrings. Þar kemur margt til, m.a. tilhneiging margra til að vera á öndverðu máli við meirihlutann (þar myndi ég sjálfur skilgreina mig), sektarkennd vegna ábyrgðar mannkyns, ótti við ófyrirsjáanlegar afleiðingar, andstaða við efnahagsleg áhrif mótaðgerða, og síðast en ekki síst, ótti mjög margra við að afsala pólítísk völd til vísindamanna. En tillögur "alarmista" eins og Gunnar kallar þá ganga oftar en ekki út á einhvers konar umhverfiskommúnisma sem er ekki sérlega vinsæll pólítískt séð.

En snúum okkur að hikinu sem þú nefnir. Fyrsti pistill minn snérist í raun um það að benda á að hikið sé ekki raunverulegt heldur einungis sýndarhik vegna áhrifa sjávar. Þú bendir á að hlýnun niður að 700 metrum virðist hafa hægt á sér síðan 2003, það er í samræmi við áhrif KIyrrahafsstrauma sem einmitt flytja varmaorku enn neðar. Mælingar á 700 - 2000 metra dýpi hafa enda sýnt áframhaldandi og hratt vaxandi hlýnun.

Það er afskaplega erfitt að mæla varmainnihald heimshafanna beint. Mælingar eru strjálar og eiga sér fyrst og fremst stað við og nálægt yfirborði, en miklu síður á meira dýpi eða á þeim slóðum þar sem mest hefur hlýna, þ.e.a.s. Norður Íshafi.

En ein bein mæling á varmainnihaldi er mæling á útþenslu efnisins. Reyndar eru nánast allir hitamælar byggðir á þeirri einföldu eðilsfræðistaðreynd að efni þenst út þegar það hitnar (þó ekki nýjustu gerðir rafrænna mæla).

Og heimshöfin eru að þenjast út, um það er ekki hægt að efast. Það finnst engin önnur skýring á langmestum hluta þessarar þenslu önnur en varmaþensla. Höfin eru sinn eiginn hitamælir og sá mælir sýnir svo ekki er um villst að höfin fara hlýnandi. Þar sem yfir 90% af varmaaukningu vegna gróðurhúsalofttegunda fer í að hita heimshöfin þá er ekki hægt að tala um "hik" þótt andrúmsloftið sýni tímabundið óbreytt loftsslag á meðan heimshöfin halda áfram að þenjast út.

Aðrar vísbendingar um hraða hlýnun á síðasta áratug er stóraukning á bráðnun jökla. Bráðnun Grænlandsjökuls hefur aldrei verið meiri en núna og massatapið eykst hratt ár frá ári. Sama má segja um Suðurskautslandið og flesta aðra jökla. Þessir hitamælar náttúrunnar sýna ekki "hik" í hlýnun jarðar.

Þú nefnir í pistlinum að einhverjar efasemdir séu um hvort hlýnunin sé tölfræðilega markverð. Þú ert hugsanlega að vísa til viðtals á BBC við Phil Jones árið 2010 þar sem hann viðurkenndi að tölfræðilega séð væri hlýnunin 1995 - 2009 ekki yfir 95% mörkunum sem þarf til að segja að hún væri tölfræðilega markverð. Eins og hann benti á þá lá "markverðnin" um 93% mörkin. Eða með öðrum orðum, árið 2010 voru 93% líkur samkvæmt tölfræðinni á að heimurinn hefði hlýnað á 15 ára tímabili frá 1995. (Tímabilið 1994-2008 lá yfir 95% mörkunum).

Strax árið eftir benti Phil Jones á að tímabilið frá 1995 (16 ár í þessu tilfelli) væri núna yfir 95% mörkunum sem tölfræðingar setja sem viðmið. Eða með öðrum orðum, árið 2011 var ljóst að tölfræðilega markverð hlýnun hefði átt sér stað frá 1995 til 2010. Þetta er ekki í samræmi við að "hik" hafi orðið á hlýnuninni.

Brynjólfur Þorvarðsson, 3.3.2013 kl. 14:26

14 Smámynd: Ágúst H Bjarnason



Sæll Emil

Það er alveg klárt að höfin hafa mikil áhrif á breytingar í hitastigi lofthjúpsins, og flokkast það undir innri sveiflur í upptalningunni í pistlinum. Það rifjast upp að ég fjallaði aðeins um þennan þátt fyrir 15 árum þegar ég var að spá í þessi mál:  http://www.agust.net/sol/#hafsins

Í pistlinum hér að ofan skrifaði ég:

"Það er þó væntanlega í lagi að benda á að um geti verið að ræða þrenns konar fyrirbæri sem veldur breytingum á hitafari undanfarna áratugi og árhundruð:

 1)   Ytri sveiflur sem væru þá helst breytingar í sólinni.

 2)   Innri sveiflur svo sem breytingar í hafstraumum og breytingar í hafís/endurskini eins og Páll Bergþórsson hefur bent á.

 3)   Stígandi sem stafar af sífellt meiri losun á koltvísýringi.


Þetta er semsagt flókið samspil náttúrulegra fyrirbæra og áhrifa losunar manna á koltvísýringi. Hve mikið hver þessara þriggja þátta vegur er ómögulegt að segja.  Við getum þess vegna til einföldunar og bráðabirgða sagt er hver þáttur valdi svo sem þriðjungi, en auðvitað er það bara órökstudd ágiskun þar til við vitum betur..."

Hér leyfði ég mér að gefa þessum þrem þáttum sama vægi, en það er auðvitað fyrst og fremst til bráðabirgða meðan við vitum ekki betur.

Það er ekki nóg að samspil og vægi þessara þátta sé flókið mál, heldur er hver þáttur æði snúinn. Rýnum aðeins í þessa þætti hvern fyrir sig:

 1)   Ytri sveiflur sem væru þá helst breytingar í sólinni.
Þetta er sá þáttur sem ég hef haft mestan áhuga á, enda tengist hann öðru áhugamáli sem er himingeimurinn. Ég vitnaði í greinarstúf á vefsíðu NASA í annarri athugasemd, en klúðraði krækjunum. Því ætla ég að sýna alla vefslóðina hér á eftir. Það er greinilegt að menn eru farnir að átta sig á að þessi áhrif geta verið allnokkur.

Solar Variability and Terrestial Climate: http://science.nasa.gov/science-news/science-at-nasa/2013/08jan_sunclimate/

Skýrsla sérfræðinganefndar um þessi mál: http://agbjarn.blog.is/users/fa/agbjarn/files/the_effects_of_solar_variability_on_earth_s_climate_0.pdf

Bloggpistill minn: Nýtt frá NASA / NRC: Áhrif sólar á loftslag jarðar geta verið meiri og flóknari en áður var talið...: http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1276240/



 2)   Innri sveiflur svo sem breytingar í hafstraumum og breytingar í hafís/endurskini eins og Páll Bergþórsson hefur bent á.
Hér koma hafstraumar og Enso fyrirbæri sterklega við sögu og beina margir sjónum að þessum þætti. Það er örugglega mikil hjálp í mælinetinu mikla sem samanstendur af fjölda mælibauja sem fljóta um öll heimsins höf og mæla niður á allt niður á 2000 metra dýpi. Í dag eru þessar baujur 3562 talsins. Hvar þær eru staddar í dag má sjá á "lifandi" korti sem er í þessum bloggpistli um ARGO kerfið. Pistillinn er frá því mars 2008 og því ekki alveg nýr og ýmislegt hefur breyst síðan þá: http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/480123/
Ein afurð þessa ARGO kerfis er ferillinn á vefsíðu NOAA: http://oceans.pmel.noaa.gov/



 3)   Stígandi sem stafar af sífellt meiri losun á koltvísýringi.
Þetta er sá þáttur sem mestu púðri hefur verið eytt í. Menn eru almennt sammála um að hver tvöföldun á styrk CO2 valdi hækkun hitastigs um 1,1°C EF ekkert annað kemur til. Þetta "annað" er til dæmis rakastig loftsins og skýjafar. Hér kemur til hugtakið sem kallast feedback á enskri tungu en ég hef vanist að nefna afturverkun.  Það er með hjálp þessarar afturverkunar sem sumir álíta að hækkun hitastigs geti magnast jafnvel þrefalt og verið  þá 3°C fyrir hverja tvöföldun í styrk CO2.

Hér deila menn hart og mikið. Sumir telja þessi áhrif mun minni, og þeir eru til sem álíta að afturverkunin magni ekki upp heldur dragi úr hitahækkun. Þessu hef ég gaman af því hér er ég á heimavelli, en ég kenndi reglunartækni (Feedback and control systems) í nokkur ár við HÍ. Til að kynnast hvað liggur að baki þessara fræða þar sem allt snýst um afturverkun eða feedbak er kjörið að skoða þetta skjal frá HR: Prófdæmi.  Hér er mikil stærðfræði notuð.   Einnig má skoða smá ágrip á síðu Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Control_theory

Ég hef grun um að margir þeirra sem fjalla um afturverkun í loftslagsfræðum mættu gjarnan kunna meira fyrir sér í þessum fræðum þar sem fjallað er um afturverkun, stöðugleika kerfa, o.m.fl., því stundum verður umfjöllunin dálítið skrautleg.

Jæja, ég ætlaði ekki að hafa þetta svona langt, en þetta eru vissulega skemmtileg fræði og áhugaverð, sérstaklega vegna þess að þau eru ekki beinlínis einföld og auðskilin. Það er auðvelt að gleyma sér.

Ágúst H Bjarnason, 3.3.2013 kl. 16:26

15 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Góðan pistil um málið má sjá á loftslag.is: Sérvalið og síendurtekið efni “efasemdamanna”

Höskuldur Búi Jónsson, 5.3.2013 kl. 13:41

16 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll aftur Brynjólfur.

Ég held þú hafir misskilið mig þegar þú skrifar í lok síðustu athugasemdar þinnar: "Þú nefnir í pistlinum að einhverjar efasemdir séu um hvort hlýnunin sé tölfræðilega markverð. Þú ert hugsanlega að vísa til viðtals á BBC við Phil Jones árið 2010 þar sem hann..."

Hér ertu væntanlega að vitna til þess sem ég skrifaði í þriðju línu pistilsins:  "Samkvæmt mælingum hefur ekki hlýnað undanfarin 10 ár, jafnvel ekki tölfræðilega marktækt í 15 ár samkvæmt sumum mæligögnum."

Hér hefur þú misskilið mig. Kannski ég hafi ekki verið nógu nákvæmur í orðavali og biðst þá afsökunar. 

Ég er að vísa til þess að mér finnst það vera á mörkum þess að vera tölfræðilega marktækt að tala um að ekki hafi hlýnað í 15 ár.  Ég var alls ekki með Phil Jones eða annan í huga, heldur það að þegar talað er um 15 ár eru menn að teygja sig alveg til ársins 1998, þ.e.a.s. yfir hitatoppinn árið 1998 og hitalægðina þar strax á eftir. Vissulega er hægt að slétta hæðina út yfir lægðina og fá þannig út enga  hækkun hitastigs í 15 ár (sumir segja 16 ár), en það finnst mér ekki rétt og varla tölfræðilega marktækt. 

Þegar ég tala um tölfræðilega marktækar breytinga þá er ég með í huga að öllum mælingum fylgir ákveðin óvissa sem stafar af ýmsum ástæðum. Því miður kemur þessi óvissa sjaldan fram í hitaferlum sem birtir eru, en ef hún er af stærðargráðunni +/- 0,1 °C  þá verðum við að gæta okkar vel áður en við fullyrðum eitthvað.  Brjóstvitið segir mér að fara verði sérstaklega varlega þegar útslagið er eins mikið og árið 2008.  Einnig: „...samkvæmt sumum mæligögnum...“ vísar til þess að þetta 15 ára hik sést  ekki í öllum hitamæligögnum.

Þetta er einfaldlega það sem ég var með í huga þega ér skrifaði "Samkvæmt mælingum hefur ekki hlýnað undanfarin 10 ár, jafnvel ekki tölfræðilega marktækt í 15 ár samkvæmt sumum mæligögnum".

Ég undirstrikaði töluna 15 og setti þar krækju í pistil sem sýnir hvernig umræðurnar hafa verið undanfarið. Þessi pistill er á vefsíðu sem sjaldan fjallar um loftslagsmál en er kennd við Fabius Maximus sem bjargaði Róm frá Hannibal á sínum tíma: http://fabiusmaximus.com/2012/10/14/climate-global-warming-44028/
Þarna er einmitt vísað í nokkar umræður um þetta hik. 

Viljandi forðaðist ég að kalla þetta stöðnun og notaði freka orðið hik.   Fyrirsögn viðtalsins við Pál Bergþórsson, "Hlýindaskeiðið er við að ná hámarki sínu" finnst mér reyndar nokkuð afgerandi.

Í viðtalinu stendur í byrjun:

„Yfirstandandi skeið hlýinda hér á landi og á norðurhjara
er um það bil að ná hámarki, að sögn Páls Bergþórssonar, veðurfræðings
og fyrrverandi veðurstofustjóra.
Síðan segir hann að fari kólnandi á ný og við taki kuldaskeið
sem ætla megi að vari í um þrjá áratugi...“.

(og aftast):


„"...En áhrif íssins virðast vera þýðingarmeiri þáttur
en menn hafa áður gert sér grein fyrir,"
segir Páll, sem undirbýr vísindagrein um efnið“.


Páll er með mjög athyglisverða kenningu, aðrir beina sjónum að hafinu, og enn aðrir að sólinni.  Allar svona kenningar eru af hinu góða og nauðsynlegt er að gefa þeim öllum gaum, auk þess að skoða áhrif aukningar á koltvísýringi.


---

Nú, í pistlinum er ég með hitaferil sem nær aftur til 1860 og bendi á að hitinn undanfarið hafi verið hár miðað við allt 160 ára tímabilið, og hafi hækkað hratt tvisvar á tímabilinu. Einnig skrifa ég eftirfarandi þar sem ég leyfi mér að flokka áhrifavaldana í þrennt  "3) Stígandi sem stafar af sífellt meiri losun á koltvísýringi". Í framhaldinu leyfi ég mér reyndar að skrifa "Þetta er semsagt flókið samspil náttúrulegra fyrirbæra og áhrifa losunar manna á koltvísýringi. Hve mikið hver þessara þriggja þátta vegur er ómögulegt að segja.  Við getum þess vegna til einföldunar og bráðabirgða sagt er hver þáttur valdi svo sem þriðjungi, en auðvitað er það bara órökstudd ágiskun þar til við vitum betur...".

Í pistlinum er hvergi efast um að hlýnað hafi á síðustu öld, heldur beinlínis bent á það.

---

Ég var að vona að umræður takmörkuðust við efni pistilsins, sérstaklega spurninguna sem er í fyrirsögninni: „Hvað veldur þessu 10 ára hiki á hnatthlýnun? - Hvað svo...?“.   Páll Bergþórsson býst við tímabundinni kólnun og það gera fleiri.


Ég held það sé fyllsta ástæða til að fylgjast með framvindu mála næstu árin. Þekking okkar á orsakavöldum breytinga í hitastigi lofthjúps jarðar og hafinu á eftir að aukast á næstu árum og þá getum við betur metið hve mikið þessir þrír þættir sem ég taldi upp vega, þ.e. ytri sveiflur, innri sveiflur og aukning koltvísýrings.

Að lokum:

Ég vona innilega að við berum gæfu til að ræða þessi mál í bróðerni og forðast neikvæðni. Við skulum forðast að nota orð eins og alarmista, afneitunarsinna o.s.frv.  Reyndar finnst mér orðið efasemdarmaður jákvætt og hef ekkert á móti því, því í vísindum er efinn nauðsynlegur drifkraftur
.

Með góðri kveðju,


Ágúst H Bjarnason, 5.3.2013 kl. 18:24

17 identicon

Brynjólfur það eru nokkur atriði sem þú lítur fram hjá , eitt er t.d. að innrauð geislun hitar ekki upp höfin nema að sáralitlu leyti , hún nær aðeins að hita upp nokkra míkrómetra í yfirborðinu sem getur í mesta lagi valdið örlítið hraðari uppgufun, varmaflutningur frá andrúmsloftinu  ef hiti þess er hærri en sjávarhiti  í höfin verður því að fara fram í gegnum snertingu sjávar og lofts (lvarmleiðni) og blöndun sem er killli óskilvirkari. Langstærsti hluti varmatilfærslu  í höfin kemur í gegnum útfjólubláu geislunina frá sólinni hún er ekki háð sömu annmörkum og sú innrauða og getur auðveldlega flutt orku tugi metara undir yfirborðið, hugsanlega eru einhver orkutilfærsla í þau frá neðansjávargosum  en það er að öllum líkindum mjög svo lítill hluti í heildardæminu. Annað atriði er að þegar litið er lengra aftur með tilliti til hækkunar á yfirborði  þá ekki annað en að sjá en það hafi verið í gangi allar götur síðan ísöld lauk, þá aððalega vegna varmaútþenslu þegr hlýnaði og landlyftingar. eitthvað littillega hefur herti á því eftir kuldaskeiðinu  á 16-19 öldinni lauk um miðja 19 öldina en það er erfitt að greina hvort bætt hefur í seinustu áratugini, gerfihnattamælingaranar sem gefa til kynna 3 mm/ári með +/-0.8 mm nákvæmi ,  ná ekki yfir mjög langan tíma , en stikumælingar virðast hinsvegar gefa til kynna 2 mm/ári alveg síðan um 1900, það er þó hlutfallslega mikil ónákvmni í þess háttar mælingum fram að miðri 20 öldinni, en eftir það er eða frá um 1960 er nákvæmnin á svipuðum nótum og  hún er í gerfihnnattamæligunni og það er athyglisvert það það vantar enn aðeins (~1/2 mm/ári ) upp á að stikurnar sýni sama meðalmál og gerfihnettirnir, en hvortveggja er þó á sama róli innan óvissumarka. Og  eins er rétt að muna eftir því að það það er  enn sem komið er a.m.k efitt að greina að  aukið magn  gróðurhúslaofttegunda hafi önnur áhrif en á lofthitastigið en þau sem eru beint mælanleg í glerpípu á rannsóknarsofu, þ.e. bein áhrif án mögnunar(e.  no-feedback).   

Sigurbjörn Ólafsson (IP-tala skráð) 8.3.2013 kl. 10:27

18 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Út er komin skýrsla sem ef til vill varpar einhverju ljósi á þetta.

Höfundur er Dr. David Whitehouse.

Formála ritar Lord Turnbull.

The Global Warming Standstill

http://www.thegwpf.org/content/uploads/2013/03/Whitehouse-GT_Standstill.pdf

Skýrslan er rúmlega 60 bls. löng.

Ágúst H Bjarnason, 15.3.2013 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband