Gagnaver lítt áhugaverð á Íslandi...

 

 

 

 

Datacenter

 

Margir telja að mjög áhugavert sé að gagnaver rísi á Íslandi, þetta séu merkilegar stofnanir sem veiti fjölda vel menntaðra vinnu við hæfi. Er það svo?

Svarið er einfaldlega: Nei.

Í raun eru þetta lítið annað en kæligeymslur sem hýsa ótrúlegan fjölda netþjóna sem eru ekkert annað en tölvur með stórum diskageymslum. Þessar tölvur eru knúnar rafmagni sem fyrst og fremst umbreytist í hita sem þarf að losna við. Þess vegna er kælibúnaðurinn mjög fyrirferðamikill. Hvinurinn í viftunum ærandi.

Þarna starfar fólk sem sinnir eftirlitsstörfum og fyrirbyggjandi viðhaldi. Sérþjálfað fólk sinnir einhæfu starfi við að skipta út einingum í endalausum skáparöðum. Bilaðar einingar eru settar í kassa og sendar úr landi, og nýjar einingar teknar úr kössum. Þarna starfar enginn við skapandi störf. Engöngu rútínuvinnu við að sinna fyrirbyggjandi viðhaldi og bíða eftir að eitthvað bili. Sama verkið dag eftir dag. Dag eftir dag. Árið um kring. Dag og nótt...

Starfa einhverjir tölvunarfræðingar, tæknifræðingar, verkfræðingar o.s.frv. á svona stað? Það er lítil þörf á þeim, og ef einhverjir slysast til þess, þá sinna þeir ekki skapandi störfum. Taka þátt í ótrúlega einhæfu og leiðinlegu viðhaldi. Allur tölvubúnaðurinn kemur til landsins tilbúinn í skápum sem raðað er saman, eða jafnvel heilu gámunum sem einfaldlega er staflað upp í kæligeymslunni stóru.

Svo er öllu auðvitað fjarstýrt frá útlöndum.

Auðvitað starfar þarna líka fólk við að hella upp á kaffið sem nauðsynlegt er til að halda starfsfólkinu vakandi. Líklega eru þó sjálfvirkar kaffivélar notaðar.  Þarna starfa væntanlega húsverðir og öryggisverðir sem gæta þess að óvikomandi komi ekki nærri búnaðinum og þarna starfar fólk sem sópar ryki af gólfi.

Eftirsóknarverður staður til að starfa? Varla.

Veita gagnaver mörgum störf:  Eru 30 margir?  Sumum finnst það. En 50 manns?

Hvað er þá svona merkilegt við gagnaver?  Jú, margir halda að þau séu einstaklega merkileg. Það er jú merkilegt í sjálfu sér.

Svo þurfa þau mikla raforku sem fer í ekkert annað er að knýja tölvurnar og hörðu diskana ógnarstóru og svo auðvitað kæla þær því þær hitna ógurlega. Kælikerfin og blásararnir gleypa mikla orku. Það merkilega er að öll þessi raforka fer bara í að hita rafeindabúnað og kæla hann aftur. Engin vinna er framkvæmd. Engin afurð. Öll raforkan, segjum 30 MW, endar í umhverfi gagnaversins, sem er auðvitað notalegt fyrir fugla himinsins. 

Stórmerkilegt...

Má ég þá heldur biðja um eitthvað annað. Eitthvað sem skapar störf fyrir viti borið fólk...

 

 --- --- ---

Svo er það hin hliðin á málinu: Ef gagnaver er langt frá notendum verður svartíminn of langur. Ísland er langt frá Ameríku og meginlandi Evrópu. Það gerir staðsetningu gagnavera á Íslandi minna áhugaverð fyrir eigendur þeirra.

 

---

Hér fyrir neðan má sjá mynd sem tekin er í risa gagnaveri Microsoft.  Öllu komið fyrir í gámaeiningum sem staflað er í kæligeymslu.

Inside Windows Azure's data center, one of world's largest

http://www.neowin.net/news/inside-windows-azures-data-center-one-of-worlds-largest

Microsoft_DC1

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Sæll og blessaður, þetta er hárrétt greining hjá þér og ekki víst að aðrir en þeir sem hafa menntun og eða þekkingu þessu sviði skilji þetta, það er mikilvægt að almenningur sé upplýstur um þessi mál til að koma í veg fyrir að pólítískir lobbyistar séu ekki að breiða út ósannleik um hvers konar vinnustaður Gagnaver er í raun og hversu margir og með hvaða menntun komi til að vinna þar.   

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 28.2.2015 kl. 15:09

2 Smámynd: Hörður Þórðarson

" Eitthvað sem skapar störf fyrir viti borið fólk..."

Ekki vera svona mikill elítisti, Ágúst. Þeir sem hafa minna vit þurfa líka að hafa einhverja vinnu.

Hörður Þórðarson, 28.2.2015 kl. 18:44

3 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Sammála, það eina sem nota mætti til að réttlæta þessi gagnaver væri áhættudreifing í viðskiptavinum fyrir orku. Ekki sýnist mér að verðið fyrir orkuna geti það. Orka seld um sæstreng finnst mér hljóma betur vegna mun hærra verðs sem hún skilar.

Finnur Hrafn Jónsson, 28.2.2015 kl. 19:53

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, þú biður um "eitthvað annað". Óheppinn, -  meira skammaryrði í augum ráðandi afla hér á landi gastu varla nefnt, því að í hálfa öld hefur "orkufrekur iðnaður" verið gerður að eingyðistrú og "eitthvað annað" verið úthrópað og talað niður, þótt það gefi reyndar minnst 96% af vinnuaflinu störf.    

Ómar Ragnarsson, 28.2.2015 kl. 22:45

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ómar. Lítur þú á gagnaver sem orkufrekan iðnað?  Það geri ég ekki. Gagnaver flokkast ekki undir iðnað í mínum huga. Mér er til efs að nokkrum sem skilur hvernig gagnaver eru uppbyggð og hvernig þau starfa detti það í hug.

Reyndar er til hópur manna, þar með talið ýmsir stjórnmálamenn, sem halda að svona kæligeymslur flokkist undir hátækniiðnað. Halda að þau séu eftirsóknarverð af þeim sökum.

Þess vegna skrifaði ég:  "Má ég þá heldur biðja um eitthvað annað. Eitthvað sem skapar störf fyrir viti borið fólk..."



Ágúst H Bjarnason, 1.3.2015 kl. 03:42

6 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Sammála - umræðan um þessi ver er bara áminning um að elítan hefur engin tengsl við veruleikann.

Guðjón E. Hreinberg, 1.3.2015 kl. 05:06

7 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Finnur, ef þú vilt margfalda orkuverð til Íslenskra neytenda þá er sæstrengurinn málið, fyrir mínar sakir kýs ég langtum frekar gagnaver frekar en sæstreng.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 1.3.2015 kl. 08:53

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er nú eðlilegt að maður sem heldur að hlýnun jarðar sé samsæri skilji þetta ekki.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.3.2015 kl. 10:33

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Svona getur gagnaver litið út.  Skápum með netþjónum er raðað í gámana erlendis og gengið frá öllum innri tengingum. Gámnum er komið fyrir í kæligeymslunni, tengt við kæliloft, rafmagn og ljósleiðara. Þarna er gámunum staflað eins og pláss leyfir.

Þegar komið er inn í svona gagnaver dettur manni lítið annað í hug en vörugeymsla.

Svo eru auðvitað til gagnaver þar sem gámunum er sleppt en rökkum eða skápum raðað hlið við hlið á gólfi salarins.

 

 

Ágúst H Bjarnason, 1.3.2015 kl. 10:54

11 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Gagnaver er ekki sama og gagnaver. Þarna lýsir þú einföldustu mynd gagnavera eða netþjónabúa. En til eru gagnaver sem krefjast mikillar þekkingar og skapa hátæknistörf.  

Kosturinn við gagnaver  er að þau eru tilbúin að greiða margfalt hærra verð en málmbræðslur, sjá: Netþjónabú skapa fjölda atvinnutækifæra.

http://www.si.is/starfsgreinahopar/upplysingataekni/frettir-og-greinar/nr/3569

"Allt að 2,4 bein störf gætu myndast fyrir hvert Megawatt af raforku til móts við eitt í áliðnaði. Tæplega tvö bein störf skapast í járnblendi og eitt og hálft við kísilvinnslu. Séu afleidd störf tekin með í reikninginn skapast tvö störf aukalega á hvert Megawatt í áliðnaði."

En vilja menn selja orkuna úr landi í gagnum sæstreng. T.d. til Skotlands. Láta þá svo um að selja hana á margfalt hærra verði til Apple, eins og Danir gerðu. Hví ekki að halda virðisaukanum í landi.

Sigurpáll Ingibergsson, 1.3.2015 kl. 11:32

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Sigurpáll. Þú vitnar í næstum sjö ára gamalt svar iðnaðarráðherra (frá 2008) . Mér sýnist starfsmannafjöldinn rími við það sem ég nefndi (30-50), en seg þú mér, við hvað munu allir þessir háskólamenntuðu starfsmenn, sem ráðherran talaði um, starfa?

Og einnig, hvernig eru þau gagnaver sem krefjast mikillar þekkingar starfsmanna og skapa hátæknistörf?

Þó ég hafi starfað í áratugi sem rafmagnsverkfræðingur átta ég mig ekki á því.

Er eitthvað þeirra gagnavera sem hér hafa risið eða eru í farvatninu þannig að þau krefjist mikillar þekkingar starfsmanna, frumkvæðis í starfi og frjórrar hugsunar?

Ágúst H Bjarnason, 1.3.2015 kl. 12:17

13 Smámynd: Mofi

Hvers konar rugl er þetta?  Ef að við getum búið til störf fyrir 30-50 manns og selt orku fyrir örugglega eitthvað meira en álverin borga, hvað er að því?  Kannski óþarfi að láta líta sem svo út að um einhverja himnasendingu sé að ræða en aukin vinna og peningar ættu alltaf að vera boðin velkomin til klakans.

Mofi, 1.3.2015 kl. 12:52

14 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Mofi.  Sumum liði örugglega vel á svona vinnustað.   Örugglega ekki mér.   En upp úr stendur, þetta eru ekki hátæknistörf sem eru í boði. 

Ágúst H Bjarnason, 1.3.2015 kl. 12:59

15 Smámynd: Hörður Þórðarson

"Sumum liði örugglega vel á svona vinnustað." Hvað í ósköpunum er þá að þessu? Þurfa allir vinnustaðir að bjóða upp á hátæknistörf þar sem hágáfuðum spekingum liði vel?

Sú ranghugmynd að allir eigi að fara í háskóla og snúa sér síðan að hátæknistörfum hefur leitt af sér ýmis vandamál. Það er allt of mikið af hámenntuðu fólki sem fær enga vinnu við hæfi og það vantar fólk í ýmsar starfsgreinar þar sem ekki er þörf á háskólamenntun.

Allir þurfa einhvern vinnustað, og mér finnst það ekki stórmannlegt að vera að rakka niður vinnustaði sem ekki hæfa hámmentuðum fræðingum. Það mun enginn neyða neinn til að vinna þarna, frekar en nokkur er neyddur til að vinna við störf eins og ræstingar og sorphirðu.

Hörður Þórðarson, 1.3.2015 kl. 18:09

16 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hörður.

Það er hægt að gera svo margt annað en reka gagnaver á Íslandi. Því miður er hugmyndaflugið hjá okkur svo lítið að við erum sífellt að leita að töfralausnum. Ein af þessum töfralausnum er gagnaver. 

Það ætti að vera hægt að gera svo margt annað. Af einhverju ástæðum virðist það samt vera óskaplega erfitt hjá okkur Íslendingum að byggja upp iðnað og hlúa að honum svo hann fái að vaxa og dafna. Hér er verkmenning lítils metin. Annað má segja um nágranna okkar á meginlandinu, þar er handverkið, verkmenning og verksvitið mikils metið. Þar er byggður upp iðnaður, m.a. hátækniiðnaður, hjá þjóðum sem eru fátækar af náttúruauðlindum eins og orku og fiskimiðum. Þar eru stór iðnfyrirtæki og smá. Þar blómstrar mannlífið og menningin.

Við eigum ekki að einblína á töfralausnir. Við eigum ekki að vera það hugmyndasnauð að álíta að það þurfi um 1 MW raforku fyrir hvert starf sem skapað er. Þar sem ég starfa eru starfsmenn um 300. Helmingur verkefnanna kemur erlendis frá. Það aflar því gjaaldeyris. Við þurfum engin 300 MW til að reka það fyrirtæki. Sjálfsagt minna en 1/1000 af því afli. 

.

Hvaða arði skila gagnageymslur til samfélagsins?

- Af launum ca 30 manna er greiddur skattur. Það er ljóst.

- Hve mikil fasteignagjöld eru greidd? Gagnaverin eru auðvitað dýr, en umbúðirnar þ.e. húsnæðið ódýrt. Fasteignagjöld greiðast aðeins af húsnæðinu, ekki búnaðinum.

- Hve miklar útflutningstekjur og gjaldeyri skapar afurðin?  Nú vandast málið. Hvað er verið að framleiða? Eru gjaldeyristekjur nokkrar?

.

Við eigum ekki að horfa á gagnageymslur sem skila ekki öðrum arði en vegna raforkunnar sem orkuveitan selur þeim auk skatta sem starfsmenn greiða og lágmarks fasteignagjalda.

Við eigum aftur á móti að leggja metnað okkar í að byggja upp alvöru iðnað og selja framleiðsluna. Við eigum alvöru fyrirtæki í fiskiðnaðinum, við höfum byggt upp fyrirtæki eins og Marel og Össur. Hér er rekið flugfélag á heimsmælikvarða, Hér eru rekin hugbúnaðarfyrirtæki með hundruðum starfsmanna og hér eru reknar verkfræðistofur með hundruðum starfsmanna. Ferðaiðnaðurinn blómstrar um þessar mundir. Svo starfa hér einnig stóriðjur, en munurinn á þeim og gagnaverum er að við höfum af þeim útflutningstekjur.   Nokkur kísilver eru í farvatninu. Hvert um sig notar álíka orku og eitt gagnaver notar til að knýja tölvur og kæla, en þau munu þó væntanlega skapa útflutningstekjur og gjaldeyrisstreymi til landsins.

Allt styður þetta þó hvert annað. Því má ekki gleyma. 

Úti um allt land er fjöldinn allur af fólki sem er með snjallar hugmyndir. Margir eru einmitt að vinna að því að koma þeim í framkvæmd. Við eigum að hlúa að þessum frumkvöðlum. Það er mjög áríðandi.

Gagnaver eru ekki nein töfralausn. Því miður. Við þurfum heldur ekki neinar töfralausnir. 

Það sem stendur okkur fyrir þrifum er eilíft þras um allt og ekkert. Ekki síst meðal þeirra sem eiga að vinna fyrir okkur á Alþingi. Við eigum að hætta þrasi, fara að ræða saman af skynsemi og vera samtaka.

Ágúst H Bjarnason, 1.3.2015 kl. 20:16

17 Smámynd: Steinarr Kr.

Á meðan góða og gáfaða fólkinu bíður eftir að fá eitthvað annað eru drifandi menn búnir að byggja og eru að reka hér gagnaver.  Er það ekki bara gott að svoleiðis sé líka til hér á landi, þó leiðinlegt sé?

Steinarr Kr. , 1.3.2015 kl. 20:58

18 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Alveg meinlaust...

Ágúst H Bjarnason, 1.3.2015 kl. 21:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband