Er "endurheimt votlendis" oft tilgangslítil...?

 

 

 

Forsetaskurdur

 

Hve lengi losar mýri sem hefur verið þurrkuð koltvísýring eða CO2? Að því hlýtur að koma, að órotnuðu jurtaleyfarnar í fyrrum mýrinni hafi að mestu rotnað og breyst í frjósama gróðurmold. Það tekur ekki mjög langan tíma. Eftir það er losunin ekki meiri en frá venjulegum úthaga og þörfin fyrir að endurheimta votlendið til að minnka losun á CO2 þá engin.

Hver þessi tími er virðast fáir vita, ef þá nokkur.

Hugsum okkur skurð sem opnaður var fyrir 100 árum.  Jarðvegurinn er fyrir löngu orðinn þurr og hefur breyst í frjósama gróðurmold. Rotnun jurtaleyfanna sem hófst skömu eftir að skurðurinn var opnaður hefur að mestu stöðvast. Losun koltvísýrings frá þessu þurra landi er orðin óveruleg. Þetta skilja allir sem vilja.

Að bleyta upp land sem breyst hefur úr mýrarjarðvegi í frjósaman jarðveg hefur því ef til vill ekki nokkurn tilgang. Það hjálpar auðvitað ekkert að stöðva losun sem af náttúrulegum ástæðum er orðin lítil sem engin.

Ef fjósama landið þar sem áður var mýri er notað til að rækta skóg, þá næst árangur við að binda CO2. Það er ekki sjálfgefið að það skili nokkrum árangri að fylla í skurði sem grafnir voru fyrir nokkrum áratugum.

Flestir efnaferlar varðandi niðurbrot fylgja veldisfalli. Sama gildir um fjölmörg fyrirbæri í náttúrunni. Losun CO2 úr framræstu mýrlendi fylgir væntanlega einnig veldisferli. Losunin er mest í byrjun, en fellur síðan nokkuð hratt. Eftir fáeina áratugi gæti hún verið orðin óveruleg. 

Helmingunartími er skilgreindur sem tíminn þar til losun á tímaeiningu (t.d. á ári) er komin niður í helming af því sem hún var í byrjun. Ef helmingunartíminn varðandi losun á CO2 úr framræstri mýri er 10 ár, þá er árleg losun komin niður í fjórðung eftir 20 ár, 12% eftir 30 ár og 6% eftir 40 ár.

Sem sagt, eftir fáeina áratugi er árleg losun orðin óvera miðað við að helmingunartíminn sé t.d. 10 ár.

Það er því ekki nóg að áætla augnabliksgildið á losun CO2 úr framræstum mýrum. Við þurfum að þekkja það sem fall af tíma og þar með helmingunartímann (eða tímastuðulinn ef það hentar betur) við dæmigerðar íslenskar aðstæður. Þá fyrst getum við farið að ræða af viti um það hvort vit sé í að bleyta upp framræst land.

 

Helmingunartími

 

 

Svo má ekki gleyma því, að þó að blautar mýrar losi ekki nema takamarkað af CO2, þá losa þær metan. Metan er um 25 sinnum virkara gróðurhúsagas en koltvísýringur, svo það kann að vera að fara úr öskunni í eldinn að bleyta upp land til að endurheimta votlendi!

Nokkrar spurningar sem menn ættu að kunna svar við:

  • Hve mikil er árleg losun CO2 pr. hektara fyrst eftir skurðgröft miðað við dæmigerða mýri?
  • Hvað ætli árleg losun CO2 sé eftir 10 ár?  20 ár? 30 ár?
  • Eftir hve langan tíma frá því skurðir voru grafnir er losun á CO2 orðin óveruleg miðað við það sem hún var fljótlega eftir skurðgröft?
  • Hve mikið minnkar losun CO2 eftir bleytingu?
  • Hve mikið bindur skógur pr. ha. sem plantað er í þurrkað land?
  • Er víst að bleyting eða endurheimt votlendis sé árangursríkari en skógrækt á sama stað?   
  • Hver mikil eru áhrif útstreymis metans frá blautum mýrum á hlýnun miðað við útstreymi CO2 frá nokkurra áratuga gömlum þurrkuðum mýrum?
  • Getur verið, að þegar landi sem þurrkað hefur verið upp fyrir nokkrum áratugum er breytt í mýri aftur, að þá fari í gang losun metans sem er skæðari valdur hlýnunar en útstreymi koltvísýrings sem var orðið lítið? (Sem sagt, farið úr öskunni í eldinn).

 

Fáir eða enginn virðist kunna svar við þessum spurningum, sem þó eru grundvallaratriði í umræðunni um loftslagsmál.

 

Endurheimt-votlendis

 

 

Oft hefur mér komið til hugar að “endurheimt votlendis” með því að fylla í skurði sé ekki endilega rétt aðferð til að minnka losun koltvísýrings.

Annar möguleiki til að binda kolefni, og jafnvel betri, er að rækta skóg á landinu, eða einfaldlega friða það og leyfa sjálfsáðum trjáplöntum að vaxa.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá hvernig fyrrum votlendi hefur gerbreytt um svip á fáum áratugum. Þarna var landið ræst með mörgum skurðum, en hefur lengi verið laust við ágang hesta og kinda. Svona skógur er væntanlega duglegur að binda koltvísýring og auðvitað miklu fallegri en einhver dýjamýri. Þarna hefur engu verið plantað. Allt er sjálfsáð. Landið er ofarlega í uppsveitum og er alllangt síðan það var þurrkað með skurðgreftri. Fræ hefur meðal annars borist frá skóginum í fjallinu.

Til þess að flýta fyrir að skógur vaxi upp nánast af sjálfdáðum mætti planta fáeinum birkiplöntum hér og þar, jafnvel aðeins 100 stk. í hvern hektara, þ.e. um 10 metrar milli pantnanna. Eftir nokkur ár fara þessi tré að bera fræ og verða frælindir. Sjálfsáðar plöntur fara að skjóta upp kollinum vítt og breitt. Á fáeinum áratugum verður birkiskógurinn þéttur og fallegur. Þetta kostar lítið sem ekkert, eða þrjá bakka af birkiplöntum í hvern hektara. Um 15.000 krónur kosta plönturnar samtals. Auðvitað verður einnig að girða landið fjárheldri girðingu. Tíminn vinnur með okkur.

Að sjálfsögðu má planta þéttar, nota fleiri tegundir en birki og jafnvel stunda formlega skógrækt. En til að koma til meira og minna sjálfsáðum skógi þarf litla fyrirhöfn. Fyrst og fremst þarf að friða landið og girða, og tryggja að frælindir skorti ekki.

Síðan er auðvitað einfalt að flétta svona birkiskóg við votlendissvæði með því að fylla í skurði í hluta landsins. Þannig má fara bil beggja og tryggja fjölbreytt fugla- og plöntulíf ásamt skjólgóðum skógi.

 

 

 

Endurheimt_votlendis1

 Hvað skyldi skurðurinn sem fólkið er að moka ofan í vera gamall?  Líklega mjög gamall, enda greinlega nánast uppgróinn. Hver mikil ætli árleg losun per hektara landsins þarna sé? Varla mikil.

 

 

Myndin efst á síðunni er fengin að láni af vefsíðu Ríkisútvarpssins hér.

Myndin neðst á síðunni er fengin að láni af vef Garðabæjar hér.

 

 


mbl.is Vantar vísindin við endurheimt mýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ágúst;

Þú vekur hér máls á afar þörfu máli.  Eins og vant er, þurfa aðgerðir að vera reistar á þekkingu; annars er ver farið en heima setið.  Skógræktin hefur haldið úti mælingum á nettó kolefnisbindingu nýskógar austur á Héraði og e.t.v. víðar.  Að meðaltali mun binding CO2 nema um 5 t/ha í mólendi, og sumar tegundir binda enn meira.  Ég hygg, að Skógræktin hafi svör við spurningunum, sem þú varpar fram.  Hefur þú leitað til upplýsingafulltrúa Skógræktarinnar ?  Það er mjög forvitnilegt að fylgjast með framvindu slíkrar fyrirspurnar.

Með góðri kveðju /  

Bjarni Jónsson, 26.11.2016 kl. 18:06

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Bjarni.

Þessi mál hafa stundum komið til tals á Facebook. Þar eru tvær síður sem ég fylgist vel með og gjamma stundum: Áhugafólk um landgræðslu og Skógareigendur. Þar eru bæði lærðir og leikmenn. Þar hefur stundum verið fjallað um þessi votlendismál af skynsemi.

Ég hef fylgst með þessum málum af áhuga í nokkur ár og er oft í nábýli við  þurrlendi, mýrlendi og þurrkað land sem er nú að breytast í skóglendi með sjálfsáðum trjám. Ég er sjálfur ekki í nokkrum vafa að ég tel skógrækt á þurrkuðu landi besta kostinn.

Hér eru nokkrar krækjur sem ég var með í tölvunni minni. Sjálfsagt er til mun meira og áhugaverðara lesefni.

Skógrækt notuð við endurheimt votlendis
www.ruv.is/frett/skograekt-notud-vid-endurheimt-votlendis

Mýrviður
Rannsóknarverkefni um kolefnisbúskap í framræstum mýrum
www.skogur.is/um-skograekt-rikisins/frettir/nr/2170

MÝRVIÐUR – loftslagsáhrif skógræktar á framræstu mýrlendi
www.skogur.is/media/2014/Fylgiskjal-A.docx

 

http://www.bbl.is/frettir/umhverfismal-og-landbunadur/hve-mikilvaeg-er-kolefnisbinding/15051/

http://www.ruv.is/frett/skograekt-notud-vid-endurheimt-votlendis

 


MYNDBAND:
Sandlækjarmýri, Mýrviður, Árlegur vöxtur


Í Sandlækjamýri í Gnúpverjahreppi (ísland) hefur komið í ljós að asparskógrækt hentar vel í framræsta mýri, betur en flestir vildu meina hér áður. Þar fer fram rannsókn á kolefnisbindingu í asparskógrækt í framræstri mýri. Áætlað er að rannsókninni verði lokið sumarið 2017. Þetta er samstarfsverkefni LBHI (Landbúnaðarháskóli Íslands), HA (Háskóli Akureyrar) og SR Skógrækt ríkisins)

 

 https://www.youtube.com/watch?v=K05IJL-LQyA

 

MYNDBAND:
Sandlækjarmýri, Mýrviður, sýnatökur

Í Sandlækjamýri í Gnúpverjahreppi (ísland) fer fram rannsókn á kolefnisbindingu í asparskógrækt í framræstri mýri. Áætlað er að rannsókninni verði lokið sumarið 2017. Þetta er samstarfsverkefni LBHI (Landbúnaðarháskóli Íslands), HA (Háskóli Akureyrar) og SR Skógrækt ríkisins).


https://www.youtube.com/watch?v=boXowfPfe9s

 

 Með kveðju,


 

Ágúst H Bjarnason, 26.11.2016 kl. 20:26

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Allt er þetta áhugavert efni.  Það er hins vegar hvergi gerð grein fyrir meginspurningu þinni, sem er ferli myndunar gróðurhúsalofttegunda, eftir að skurðgreftri lýkur á viðkomandi svæði.  Ég hygg, að tilgáta þín sé nálægt réttu lagi, en um það geta sérfræðingar dæmt, sem rannsakað hafa efnahvörfin og jafnvel fylgzt með þróun myndunar gróðurhúsalofttegundanna, sem mér er þó ókunnugt um.  Ég hygg, að 2 meginferlar fari í gang við upphaf þurrkunar.  Í fyrsta lagi eykst fjöldi súrefniskærra baktería, sem valda niðurbroti gróðurs og myndun CO2.  Í öðru lagi minnkar súrefnissnauð rotnun gróðurs í mýrlendinu, sem veldur myndun CH4.  Okkur vantar tímafastann í þessum báðum ferlum til að geta dæmt um það, hvort áhrifin af "endurheimt votlendis" á lofthjúpinn eru útblásin.  Ef svo er, er það saga til næsta bæjar, því að "endurheimtin" er alþjóðlega viðurkennd aðferð. 

Bjarni Jónsson, 26.11.2016 kl. 22:40

4 identicon

Sæll Ágúst

 

Endurheimt votlendis á Íslandi til að draga úr losun koltvísýrings er kannski tilgangslítil aðgerð ein og sér á grundvelli þeirra röksemda sem þú réttilega bendir á. Hins vegar vill oft gleymast í þessari umræðu að votlendi er mikilvægt vistsvæði fugla, smádýra, plantna og skordýra. Tegundum sem eru háðar votlendi mun fara fækkandi með minnkuðu votlendi. Fjölbreytt lífríki er allra hagur og bara þess vegna ber að endurheimta votlendi að einhverju leyti. Lítil ástæða er kannski til að endurheimta allt fyrrum votlendi vegna kostnaðar við slíka aðgerð og því vel hægt að hugsa sér skógrækt sem valkost á hluta þess lands sem áður var votlendi.

Magnús Guðnason (IP-tala skráð) 27.11.2016 kl. 14:35

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Magnús.

Takk fyrir ábendinguna.

Þessi pistill minn er reyndar að miklu leyti afrit af öðrum pistli sem er á annarri vefsiðu. Aftast stendur þar setning sem láðist að afrita:

„Síðan er auðvitað einfalt að flétta svona birkiskóg við votlendissvæði með því að fylla í skurði í hluta landsins. Þannig má fara bil beggja og tryggja fjölbreytt fugla- og plöntulíf ásamt skjólgóðum skógi“.

Þetta nær a hluta því sem þú bentir á.

Ég ætla að bæta þessu inn hér fyrir ofan.   Þakka þér enn og aftur.

Sjá hina síðuna hér.

Með góðri kveðju,

Ágúst H Bjarnason, 27.11.2016 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband