Einkavæðing orkuveitanna gæti haft alvarlegar afleiðingar um alla framtíð.

Haspennulinur-Ljósmyndari MBHRaunveruleg hætta er á því að orkuveitur þjóðarinnar verði einkavæddar. Er það æskilegt? Viljum við það? Kemur það okkur við? Hverjar gætu afleiðingarnar orðið? Er það afturkræf breyting ef illa tekst til?

Margar spurningar vakna, svo margar að ástæða er til að staldra við og velta hlutunum aðeins fyrir sér. Nú á dögum gerast atburðirnir svo hratt að við náum ekki að fylgjast með. Við höfum enga hugmynd um það sem verið er að gera bakvið tjöldin. Við vöknum stundum upp við það að búið er að ráðstafa eignum þjóðarinnar, án þess að eigandinn hafi nokkuð verið spurður um leyfi. Eignarhaldið gæti jafnvel verið komið til fyrirtækja sem við töldum íslensk, en eru skráð á kóralrifi í Karabíska hafinu. Viljum við að málin þróist á þennan hátt, eða viljum við sporna við?

Fjársterkir aðilar svífast stundum einskis. Það er ekki þeirra starf að hugsa um þjóðarhag. Þeirra starf er að ávaxta sína eign eins vel og kostur er.

Ég held að flestir sem til þekkja séu því sammála að þessi sjónarmið verði ráðandi eftir einkavæðingu á orkuveitum. Það er eðli málsins samkvæmt að eigendur vilji hafa sem mestan hagnað af sinni fjárfestingu og mjólka því fyrirtækin eins og hægt er. Það kemur niður á neytendum og almenningi.


Okkur ber skylda til að hugsa um hag komandi kynslóða.  Börn okkar og barnabörn hljóta að eiga það skilið af okkur,  að við sem þjóð glutrum ekki öllum okkar málum útum gluggann vegna skammtímasjónarmiða og peningagræðgi.

Hverju hefur einkavæðing orkuveitna erlendis skilað?

Verð á raforku hefur hækkað, því samkeppnin virkar ekki eins og til var ætlast.

Viðhald á stjórn- og verndarbúnaði er í lágmarki, þannig að afleiðingar tiltölulega einfaldra rafmagnsbilana geta orðið mjög miklar og breiðst út um stór svæði vegna keðjuverkana. Dæmi um slíkt eru vel þekkt t.d. frá Bandaríkjunum. Langan tíma getur tekið að koma rafmagni aftur á við slíkar aðstæður. Ýktustu dæmin eru milljónaborgir í Bandaríkjunum þar sem myrkvun er næstum orðin fastur liður og fyrirtæki hafa þurft að koma sér upp sínum eigin lausnum til að tryggja  nauðsynlega raforku.

Sem sagt, hærra verð, lélegri þjónusta og ótryggara kerfi er líkleg afleiðing einkavæðingar orkuveitna, sérstaklega ef einkafyrirtæki eiga ráðandi hlut.



Svo er það auðvitað annað mál að margar orkuveitur selja ekki bara rafmagn, heldur einnig heitt og kalt vatn. Reka jafnvel fráveitur.  Þar er ekki hægt að koma við neinni samkeppni eins og ætti að vera hægt á raforkumarkaðnum, en virkar þar illa eða alls ekki.

Málið er miklu flóknara en þetta. Orkuveitunum fylgja auðlindir sem fjársterkir aðilar girnast.  Þessar auðlindir eru þjóðareign sem okkur ber að varðveita sem slíkar fyrir komandi kynslóðir.

Er ekki kominn tími til að staldra við og setja upp girðingar, slá varnagla og byrgja brunna?  

 

 

Sjá færsluna:  Það skulum við vona að okkur takist að halda orkuveitum þjóðarinnar utan einkavæðingar

Ljósmynd: Marta Helgadóttir.  Myndin er frá Reyðarfirði og sýnir raflínuna frá Kárahnjúkum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll, Ágúst !

Þakka þér; árvökul skrif og eftirtektarverð. Þú ert einn þeirra ármanna Íslands; hverjir láta sig skipta hag og heill afkomenda okkar, inn í komandi tíma.

Mættum eiga meira, af þínum líkum; meðal okkar. 

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 21:59

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir kveðjurna Óskar Helgi     

Ágúst H Bjarnason, 23.9.2007 kl. 22:18

3 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Ekki er að sjá að betur hafi tekist til við ríkiseignarhald á orkuframleiðslunni. Sjáið útreikninga hagfræðistofnunar þar sem sýnt er fram á að hvert heimili í landinu er að greiða árlega 25-30.000 kr. umfram það sem þau væru að greiða ef stóriðjan hefði greitt alþjóðlegt samkeppnisverð. Þarna er ekki verið að hugsa um eyri ekkjunbnar, hann er hrifsaður af henni. Sjáðu Don Alfredo hvernig hann í forystu OR gleypti upp vesalar veitur sem gerðu ekki annað en að tapa peningum, allt í því sjónarmiði að auka flatarmál keisaraveldis síns sjálfs á kostnað okkar borgaranna í hærra veituverði, sem getum ekki snúið okkur annað þó við vildum. Ekki hræðast erlent eignarhald, ég veit ekki betur en Björgólfsfeðgarnir séu búsettir í Bretlandi og eiga skúffufyrirtæki á Cayman kannski sem aftur eiga banka hér o.s.frv.   Þegar öllu er á botninn hvolft þá hagnast almenningur á samkeppni hvaðan sem hún kemur og fyrirtækin greiða öll í sama ríkiskassann.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 24.9.2007 kl. 00:57

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Þessi útreikningur hagfræðistofnunar á einungis við um kostnað okkar vegna Kárahnjúkavirkjunar, alveg ótalið hvað allar hinar vitleysurnar hafa kostað okkur.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 24.9.2007 kl. 01:09

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Einkavæðing er að sjálfsögðu rangnefni ef við teljum að einkavæðing sé jafn réttur borgara til að eignast opinberan rekstur. Öfugmæli raunar.  Hér fer þetta á fáar og fyrirséðar hendur þeirra , sem þegar sitja með obbann af aulindum landsins í höndum auk annarrar verslunar og þjónustu.  Hér er á ferðinni samsæri á hærri stöðum, um að ræna okkur réttmætri sameign og leggja að veði, sjálfstæði þjóðarinnar.  Almúgasauðurinn  sér ekki lengra nefi sér og því ekki hið stærra samhengi þessa og það vita landráðamennirnir.  Þetta samsæri hefur staðið í áratugi nú og er svo klókindalega útfært að við munum sennilega ekki átta okkur fyrr en við stöndum úti á götu, eignalausir þrælar einhvers erlends lénsveldis.

Þetta er staðreynd og mættu lærðari menn, setja þetta samhengi upp, svo fólk skilji.

Fyrir mér, sem fæddist í sjálfstðu landi, eru þetta síðustu tímar lýðveldisins og sjálfstæðisins.  Hér ræður lýðurinn ekki lengur og fjöregg okkar er í höndum erlendra lánadrottna.  Þetta er þagað í hel af fjölmiðlunum, sem eru jú í eigu, lénsherranna.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.9.2007 kl. 07:22

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég vil benda á ágætis heimildamynd um einkavæðingu orkulinda, sem heitir "The smartest guys in the room." og fjallar um ENRON skandalann.  Hana má finna á netinu. yri

Ég vil minna á að þessar fjárfestingar eru gerðar með erlendu lánsfe, sem er aðgengilegt hér vegna hárra stýivaxta.  Hér eru um 700 milljarðar í kerfinu af skammtímafjárfestingum spékúlanta, sem munu innkalla þær um leið og vextir lækka. Þá mun verð hrun og landið fara á uppboð. Að ríkistjórn eða seðlabanki ráði hér er því ímyndun ein.  Hér er ekki hægt að lækka vexti nema með skelfilegum afleiðingum.  Þetta er ekkert svartagallsraus heldur staðreynd, sem ekki má afneita öllu lengur. Annars heyrir sjálfstæði okkar sögunni til.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.9.2007 kl. 07:33

7 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Athyglisverð grein hjá þér.  Las einu frétt fyrir nokkrum árum þar sem sagði frá því að brauðrist hefði slegið út rafmagninu á austurströnd Bandaríkjanna en þar var barn að fá sér ristað brauð í Boston.   Það kom í ljós  að einkavædd fyrirtæki sem áttu rafmagnskerfið á svæðinu höfðu ekki sinnt því sem skyldi en voru dugleg að innheimta reikninga.   Svolítið skrumskælt af mér.

ps.  Flott mynd.  Hvar tókstu þessa mynd? 

Marinó Már Marinósson, 24.9.2007 kl. 09:30

8 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Sæll Ágúst. þú segir,hærra verð lélegri þjónusta,og ótryggara kerfi er líkleg afleiðung einkavæðingar orkuveitna,sérstaklega ef einkafyrirtæki eigi ráðandi hlut,því er ég sammála og bendi jafnframt á að þetta er þegar komið á daginn,og á tvímælalaust eftir að versna.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 24.9.2007 kl. 14:38

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jón Steinar, Þú nefndir hér almúgasauðina! það er mikið réttnefni. Hér á blogginu sem og víðar í samfélagi okkar taka fylgjendur stærsta pólitíska flokks í þessu landi til máls innblásnir. Þeir segjast munu fylgja þessum flokki út yfir gröf og dauða vegna þess að hann sé eini flokkurinn sem boði trúna á "frelsi einstaklingsins!"

Það er líklegt að gamli trillukarlinn sem horfir á happafleyið sitt fúna í nausti gleðjist yfir þessu marglofaða frelsi einstaklingsins á meðan hann hjálpar til við löndun úr frystitogurum Samherja.

Árni Gunnarsson, 24.9.2007 kl. 16:57

10 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Það er með ólíkindum að það er ekki einu sinni litið á óræk dæmin sem eru lögð fyrir þá sem hér hafa ritað um hve alþýðan hefur verið arðrænd af ríki og sveitarfélögum í gegn um illa rekin orkufyrirtæki. Þeir sem hér hafa ritað hafa komið fram með fullyrðingar án þess að hirða um stöðuna eins og hún raunverulega er, taka engin rök inn í umræðuma sem liggja fyrir um staðreyndir þessa máls. Einna mest kemur mér á óvart eigandi þessarar síðu, þar sem hann hefur í flestu því sem hann hefur ritað á bloggsvæði sínu farið fram með rökum í málflutningi sínum og sýnt af sér óvenju góða dómgreind og skrif með rökum, sem má teljast of lítið af meðal bloggverja almennt.

En það mun víst vera í lagi að vera arðrændur samkvæmt því sem hér kemur fram bara ef það eru illa inréttaðir stjórnmálamenn sem sjá um það í gegn um ríkisfyrirtæki sem þeir hafa hvorki vit né burði til að reka

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.9.2007 kl. 06:03

11 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Marinó. Stundum þarf ekki mikið til að keðjuverkun fari af stað, en brauðrist er kanski í minna lagi . Hugsanlega tilviljun, en það er aldrei að vita ...

Myndina fékk ég lánaða, en hún er tekin á Austurlandi og sýnir línuna frá Kárahnjúkum.

Ágúst H Bjarnason, 26.9.2007 kl. 13:22

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll prédikari. Nú veit ég ekki hver það er sem leynist undir hempunni, en hér er stutt svar:

Ég vil alls ekki frábitinn einkaframtakinu, nema síður sé. Ég tel aftur á móti að farsælast sé að varðveita orkuveiturnar og auðlindir landsins sem þjóðareign. Það er kjarni málsins í minni grein.

Ég er ekki sammála því að öll orkufyrirtæki sem rekin hafa verið af opinberum eða hálf-opinberum sveitarfélögum séu illa rekin. Sem dæmi um mjög vel rekna orkuveitu vil ég nefna Hitaveitu Suðurnesja.



Ágúst H Bjarnason, 26.9.2007 kl. 14:09

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Einkavæðing raforkugeirans erlendis hefur eflaust tekist misvel. Það er þá eitthvað fyrir okkur að læra af. Hægt er að einkavæða með skilyrðum og þetta er mál sem alls ekki má ana út í án mikillar yfirvegunnar. Ef einkavæðing kemur ríkissjóði til gagns þá má raforkuverð hækka svo fremi sem skattar lækka meira á móti.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.10.2007 kl. 17:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband