Lækkun hlutabréfa í dag; er ekki betra að þrauka en selja?

 

urvalsvisitalan
 

 

Bloggarinn skilur ekki hvers vegna hlutabréf hafa snarlækkað strax við opnun í dag. Finnst það vera mjög seint um rassinn gripið að vera að selja núna í stað þess að þrauka.  Eitthvað undarlegt og óvenjulegt er í gangi.   Eitthvað sem enginn skilur.  Getur verið að skýringin sé einhver af eftirfarandi, eða sambland af mörgum?

 

1) Stórir erlendir aðilar séu að "shorta" í stórum stíl. Aðilar sem hafa fengið hlutabréf að láni séu að innleysa hagnaðinn núna. (Short selling eða shorting hefur verið þýtt sem skortsala á Íslensku).

2) Er ástæðan panik og hjarðhegðun óviturra Íslendinga?

3) Er ástæðan hin gríðarlega samtenging á íslenska fjármálamarkaðnum þar sem fyrirtækin eiga hvert í öðru?

4) Er ástæðan sú að margir hafa veðsett eignir til að fjárfesta í hlutabréfum og eru nú komnir í þrot? 

5) Eitthvað annað sem þú veist betur en ég?

 

Hvað sem öðru líður, er ekki arfavitlaust fyrir almenna eigendur hlutabréfa að vera að selja núna. Er ekki miklu viturlegra að þrauka?

 


mbl.is Mikil verðlækkun á hlutabréfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir þetta, Ágúst. Mínar svör:

1) Það var viðbúið að þau fyrirtæki sem reyndu að halda andliti fyrir áramótauppgjörin þyrftu síðan að horfast í augu við raunveruleikann á nýju ári.

2) Hjarðhegðunin var öllu meiri í hina áttina í sumar. Nú eru flestir loksins að bregðast við.

3) Já, blessuð úrvalsvísitalan okkar samanstendur yfir 90% af fjármálageiranum ásamt FL Group, þannig að þetta er ein súpa.

4) Veðsettar eignir eru æ minna virði en áður og veðköllin verða ágengari, þar sem hærri upphæða er krafist í auknu flökti og falli. Flestir sem fengu lánað fyrir hlutabréfakaupum hljóta að vera dottnir út eða eru á leiðinni út.

5) Nei, ég veit ekki betur. Enginn hefur rétt fyrir sér fyrr en eftir á!

Ívar Pálsson, 9.1.2008 kl. 12:12

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir þetta Ívar.

Ágúst H Bjarnason, 9.1.2008 kl. 12:22

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Skyldi þessi frétt Mbl. í dag vera ein af ástæðunum?

"Gnúpur fjárfestingafélag hefur náð samkomulagi við lánardrottna um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins sem felur í sér að stór hluti eigna hefur verið seldur, dregið hefur verið úr skuldsetningu og rekstur dreginn saman.

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu,  að samhliða hafi náðst samkomulag um endurfjármögnun eftirstandandi skulda félagsins hjá viðskiptabönkum og samið um aðrar skuldir. Aðgerðirnar hafi tryggt félaginu fjárhagslegan sveigjanleika til að mæta erfiðum markaðsaðstæðum áfram".

Ágúst H Bjarnason, 9.1.2008 kl. 15:49

4 Smámynd: Púkinn

Gnúpur var væntanlega neyddur til að selja þau bréf sem þeir höfðu keypt fyrir lánsfé, þar sem bréfin stóðu ekki lengur undir þessu.

Það má vera að slík þvinguð sala hafi valdið meiri verðlækkun en var réttlætanleg....vel hugsanlegt að það verði þokkaleg verðhækkun á morgun. 

Púkinn, 9.1.2008 kl. 18:04

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er nú einfaldlega svo heppin að hafa ekki efni á að kaupa hlutabréf svo ég er áhyggjulaus um það hvort ég tapa einhverju. En þetta kemur kannski til með að bitna á okkur í einhverju öðru formi.  Veit ekki.  Kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 9.1.2008 kl. 22:06

6 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Nú er bara að þrauka Ágúst minn. Þú tapar ekki fyrr en þú selur.

Kolbrún Baldursdóttir, 9.1.2008 kl. 22:15

7 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Það er líklega tvennt sem veldur  (eflaust margt fleira líka)

Annarsvegar eru menn ekkert spurðir lengur hvort þeir vilja selja, bréfin eru bara tekin af þeim. Þetta er á spekingamáli kallað veðköll.

Hins vegar er það bara að renna upp fyrir fólki að verðmatið var langt frá raunveruleikanum þegar það var í toppi. Matið á verðgildi fyrirtækjanna var bara þvæla.

Spáiði í SPRON. Hvernig getur fyrirtæki eins og það sem gerði matið á SPRON í sumar áður en þeir fóru á markað, litið kinnroðalaust framan í fólk og þá heldur birt heilsíðu auglýsingar um fjármálanámskeið í blöðum. SPRON hefur fallið um rúm 60% síðan það kom á markað.

Svo hlýtur það að vekja grunsemdir, þegar bankarnir kalla inn hlutabréfin og krefja "eigendurna" um að selja, að ekki er trú þeirra sjálfra á að ástandið fari að lagast, mikil.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 9.1.2008 kl. 23:27

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Það kom fram í fréttum kvöldsins að um þriðjungur íslenskra hlutabréfa væri keyptur fyrir lánsfé. Það er óeðlilega hátt hlutfall, kannski má kalla þessa niðursveiflu nokkurs konar "afruglara" á ofurbjartsýni síðustu missera sem getur orðið mörgum harður skóli því fólk sem ekki hefur efni á að kaupa hlutabréf og þarf að taka lán fyrir þeim, á einfaldlega ekki að vera að höndla með þau.

Marta B Helgadóttir, 9.1.2008 kl. 23:30

9 identicon

Það er e-h hjarðhegðun í gangi.  Til samanburðar þá hefur markaðurinn á Íslandi lækkað meira á árinu en í  Kenýa sem n.b. er á barmi borgarstyrjaldar/þjóðhreinsunnar.

 How do you like them apples?

Kalllinn (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 23:31

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Já Gnúpur var ríkur í haust, átti milljarðatugi. Hann innleysti ekki meðan gengið var hátt. Sá ekki þróunina fyrir. Var bara ekki forspár eins og Snorri Goði var í gamla daga.  

 Nú eru nauðasamningar í gangi hjá Gnúpi og raunar fleirum og salan á  andlaginu núna farin að hafa áhrif á hlutabréfaverðið niður á við.   Hvað skyldi menn á þeim bæjum setja traust sitt á að muni hækka  til að borga samningana í dag ? Og eru líka ekki bankarnir núna að semja sjálfa sig frá vondum lánveitingum sínum með því að ýta málunum á undan sér ? Betra að afskrifa vitleysurnar hægar?

Maður hélt að þessir kallar kynnu að spila. Ef þeir kunnu þetta ekki betur þá er það viðvörun til okkar hinna. Reyndur maður sagði við mig að kúnstin væri að kunna að selja á réttum tíma,-ekki endilega að kaupa.

Það er hættulítið til lengri tíma að eiga hlutabréf.EN það er hættulegt að eiga þau ekki sjálfur heldur skulda þau. Menn hoppuðu unnvörpum útum glugga á Wall Street 1929 þó að allt væri svo komið í lag nokkrum árum seinna.Sá sem á miljónkall er óendanlega sælli en sá sem skuldar rukkaranum milljónkall. Aðeins pólitíkusinn getur stolið peningnum undir óeigingjörnu yfirskyni, eins og  kvótinn í fiskinum og Mogginn vill núna alltíeinu koma á í flestum auðlindatengdum atvinnugreinum landsmanna.   

Þetta er líka skýringin á því hversvegna Bandaríkjamönnum er skítsama um það hvernig Dabbi skráir dollarann hér heima. Hjá þeim er hann bara 100 cent eins og verið hefur. Við fáum ekkert fleiri cent fyrir pundið í blokkinni. Ef menn sitja þétt á sínu þá hækkar verðið smátt og smátt. Ekki láta blekkast af hjalinu um hugsjónir stjórnmálamanna. Þeir eru flestir aðeins á höttunum eftir æti  fyrir sig og sína.

That´s the name of the game !

Halldór Jónsson, 9.1.2008 kl. 23:32

11 Smámynd: Júlíus Valsson

Þeir einföldu selja og öfugt.

Júlíus Valsson, 9.1.2008 kl. 23:50

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég hef altaf átt mjög erfitt með að skilja þessar sveiflur í verðmæti hlutabréfa hér á landi. Það er með miklum ólíkindum hve margir taka lán til að kaupa hlutabréf, og þá líklega oftast þegar þau eru í hæstu hæðum.

Stundum er eins og verðmæti þeirra sé talað upp. Ekkert verður til úr engu. Það er engu líkara en margir telji að hlutabréf séu eins konar eilífðarvél sem ekki þarf orku. Líklega er þetta rétt hjá Mörtu að um sé að ræða afruglara á ofurbjartsýni landans. Afruglunarvélin snýst hratt þessa dagana, því margir hafa verið vel ruglaðir undanfarin misseri.

Ágúst H Bjarnason, 9.1.2008 kl. 23:58

13 Smámynd: haraldurhar

    Það eru tvö hugtök, sem lýsa fjarfestum á hlutabréfamarkaði, sem eru hræðsla og græðgi.  Nú erum við í hræðslufarsanum, og gætum verið í honum nokkurn tíma því það einning lögmál, að hlutabréf falla undir eingin þunga. Sveiflurnar verða alltaf öfgakenndar.  Mitt mat er að nú eigi að halda, og jafnvel kaupa.   Uppbygging á hlutafjársafni krefst þess að kaupa inn jafnt á uppsveiflu sem og niðursveiflu.  

    'Islenski markaðurinn er afar grunnur, og hafði hækkað mun meira á sl. árum en aðrir markaðir ´nágrannalanda okkar.  Dómínoáhrifin eru einnig mjög sterk í honum.  Einning má geta þess að flestir stærri kaupendur á hlutafjármarkaðnum fyrir utan lífeyrissjóðina hafa skuldsett sig í erl. mynnt, og flestir telja að hún leiðrétti sig mjög hratt á næstu vikum, jafnvel Davíð geti ekki haldið verði hennar uppi með okurvöxtum mikið lengur.   

haraldurhar, 10.1.2008 kl. 00:37

14 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Verðmæti hlutabréfa og þá um leið verðmæti viðkomandi fyrirtækis, byggist að miklu leyti og kannski ekki síst á væntingum, á tiltrú manna á möguleikum til árangurs í þeim verkefnum sem fyrirtækið er að starfa við. Væntingar er hægt að tala upp og stundum er þar um óraunhæfar væntingar að ræða sbr Decode... Einhverntímann hefði þótt gulltryggð eign að eiga bréf í Eimskip eða Flugleiðum. Annað kom á daginn með bæði þessi fyrirtæki þegar fram liðu stundir. 

Það eiga margir fleiri en þú Ágúst, erfitt með að skilja sveiflur í verðmæti hlutabréfa og þær sveiflur eru ekki afmarkað fyrirbæri hér á landi. Til þess að skilja slíkar gengissveiflur þarf fólk að vita hvað hlutabréf eru. Þau eruekki samskonar eign eins og peningur í banka. 

Marta B Helgadóttir, 10.1.2008 kl. 00:39

15 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það sem mér hefur alltaf fundist varðandi hlutabréf á Íslenskum markaði er að verðmæti þeirra mótast fyrst og fremst af væntingum sem talaðar eru upp annað slagið. Verðmæti bréfanna verður oft mjög óraunhæft, en þá er eins og fólk hafi tilhneigingu til að kaupa, jafnvel meðan verð bréfanna er í hámarki.

Öfugt gerist þegar verðmæti bréfanna á markaði fara að falla, þá fara dominoáhrifin að koma í ljós. Mjög margir fara þá að selja, og halda áfram að selja fram í rauðan dauðann frekan en að halda að sér höndum og bíða.

Það sem mér kemur einna mest á óvart hve margir virðast vera að selja ennþá þessa dagana í stað þess að reyna að þrauka og halda sjó. Það kann að vera erfitt að standast freistinguna að flýja af hólmi þegar svona hremmingar verða og selja, en sá tími hlýtur að fara að koma að það borgi sig að fyrir t.d. lífeyrissjóðina að kaupa.

Nú vantar smá bjartsýni í stað svartsýninnar sem ríkir. Örfáum mínútum fyrir lokun markaðarins í gær hækkaði úrvalsvísitalan skyndilega úr 5335 í 5468 stig. Vonandi er það jákvæð vísbending.

Hlutabréf eru langtímafjárfesting og mikilvægt að líta á þau sem slík. Þau eru ekki eins og peningar í banka sem hægt er að ganga að hvenær sem er. Þar veit maður yfirleitt hvað maður á.

Ágúst H Bjarnason, 10.1.2008 kl. 07:44

16 Smámynd: Júlíus Valsson

Gengi hlutabréfa, sama hvað þau heita, segir ávallt til um þær væntingar sem keupendur (fjárfestar) gera til þeirra, ekkert annað. Verð þeirra byggist því ávalls á eins konar draumsýn.

Júlíus Valsson, 10.1.2008 kl. 09:11

17 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það er greinilegt að dagurinn í dag byrjar með meiri bjartsýni en gærdagurinn.

Sjá www.m5.is

Ágúst H Bjarnason, 10.1.2008 kl. 10:52

18 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það verður gaman að fylgjast með þessu hjá þér Erlingur.

Ágúst H Bjarnason, 10.1.2008 kl. 17:12

19 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það virðist sem fyrsta tilgáta bloggarans hafi við rök að styðjast. Þar sténdur "1) Stórir erlendir aðilar séu að "shorta" í stórum stíl. Aðilar sem hafa fengið hlutabréf að láni séu að innleysa hagnaðinn núna". "Shorta eða shorting er þýtt sem skortsala á Íslensku.

Sjá http://m5.is/?gluggi=frett&id=4124

Þar stendur: í fyrirsögn "

Skortur á bréfum til skortsölu

- skortsala talin hafa haft töluverð áhrif til lækkunar hlutabréfa á síðasta ári

Tvennum sögum fer af því hvort hina miklu lækkun á gengi hlutabréfa síðustu daga megi rekja til skortsölu. Flestir viðmælendur Viðskiptablaðsins úr stétt verðbréfamiðlara segja að e.t.v. hafi skortsala haft töluverð áhrif til lækkunar hlutabréfa í upphafi niðursveiflunnar, þegar stórir erlendir aðilar hafi stundað slík viðskipti af hörku. ... ...
:::

 

Ágúst H Bjarnason, 11.1.2008 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband