Orkuver 6 í Svartsengi - Til hamingju HS !

 


 

"Orkuver sex" í Svartsengi verður formlega gangsett í dag 3. apríl.  Þetta er 30 megawatta gufuaflsvirkjun af mjög sérstakri gerð þar sem verið er að virkja háþrýsta, milliþrýsta og lágþrýsta gufu með sama hverflinum.

Fyrsta skóflustunga að virkjuninni var tekin 31. mars 2006 og síðan hefur verið unnið hörðum höndum að framkvæmdinni.  Í orkuverinu er 30 MW gufuhverfill smíðaður af Fuji í Japan.  Hverfillinn er sérstakur að því leyti að hann er með þrjú gufuinntök.  Hægt er að keyra hann á 16 bar þrýsting, 6 bar og 0,6 bar og er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum.  Fékk hann vinnuheitið Kolkrabbinn eða Octopus og hefur það nafn fest við hann. Tako heitir kolkrabbinn á japönsku. Inn á hverfilinn tengjast nefnilega átta sver gufurör sem gera hann mjög óvenjulegan.

Orkuverið var raunar gangsett í desember síðastliðnum, en undanfarnar vikur hefur verið unnið að ýmisskonar frágangi. Hönnun virkjunarinnar hófst í janúar 2006, þannig að innan við tvö ár liðu frá fyrsta blýantsstrikinu að gangsetningu.

Orkuverin í Svartsengi eru sex talsins og var hið fyrsta tekið í notkun árið 1978. Gufuhverflar eru samtals 12, og eru 10 þeirra enn í notkun. Á Reykjanesi er nýtt orkuver með tveim 50 megawatta hverfilsamstæðum.

Kolkrabbinn í "Orkuveri Sex" er rauða kvikindið á myndinni. Smella tvisvar á myndina til að stækka hana.

 

Hönnuðir voru:

Fjarhitun, VTR verkfræðingar, Verkfræðistofa Suðurnesja, Landark og Arkitektastofan OG.

 

Til hamingju starfsmenn Hitaveitu Suðurnesja og félagar í hönnunarhópnum Wizard

HShf_1a
Kolkrabbinn1000w

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Björg Ágústsdóttir

Til hamingju með daginn! :)

María Björg Ágústsdóttir, 3.4.2008 kl. 20:55

2 Smámynd: haraldurhar

   Til hamingju með áfangan.  Ágúst hver er orkunýting í honum til raforkuframleiðslu, og hver er orkunýting í gufuaflsvirkjunum allmennt hér á landi. Þá á ég til raforkuvinnslu, og svo hver hún er þegar hluti eða allt kælivatnið er nýtt?

haraldurhar, 3.4.2008 kl. 22:11

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Tek undir hamingjuóskir  og takk fyrir fallegar kveðjur til mín Beating Heart  Beating Heart 

Ásdís Sigurðardóttir, 3.4.2008 kl. 22:32

4 identicon

Sæll Ágúst.  Til hamingju með vel unnið verk. Þú munt vera einn hönnuðanna er ekki svo? Það væri gaman að fá stutta útlistun á því hvers vegna þörf er á hverfli með svona mismunandi þrýstisviði. Er keyrt á mismunandi þrýstingi eftir því hver framleiðsluþörfin er eða er það vegna einhverra aðstæðna á jarðhitasvæðinu og/eða samnýtingar með öðrum virkjunum á svæðinu? Forvitinn!!!.

                  Kv. Þorvaldur Ágústsson. 

Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 23:23

5 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Til hamingju með þennan merka áfanga

Rúna Guðfinnsdóttir, 4.4.2008 kl. 08:11

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þorvaldur.

Í Svartsengi háttar þannig til að þar eru tvö mismunandi svæði, annað er með blöndu af gufu og jarðsjó og er jarðhitalögurinn leiddur þaðan að skiljustöð þar sem gufa og jarðsjór eru aðskilin. Þar verður eftir gufa með þrýstingnum 5,5 bör. Jarðsjórinn yljar ferðamönnum í Bláa lóninu.  Hitt svæðið er þurrt og þar er þrýstingurinn hár, eða nærri 20 börum. Það hefði verið möguleiki á að fella þennan þrýsting yfir loka og nýta ásamt 5,5 bara gufunni inn á hverfil, en það er kannski ekki mjög sniðugt. Síðan eru í Svartsengi sjö tvívökva hverflar (Ormat) sem nýta gufu sem er aðeins 1,2 bör.

Hugmyndin var sú að nýta þessa "afgangs" gufu sem var hér og þar í kerfinu, svo maður einfaldi aðeins málið. Geir Þórólfsson vélaverkfræðingur hjá HS er einn helsti reynslubolti landsins á sviði jarðgufuvirkjana. Hann lagðist yfir málið og fékk þessa hugmynd að hanna vél sem gæti nýtt þrenns konar gufu. Hann hafði samband við Fuji Electric sem leist í fyrstu ekkert á þessa delluhugmynd Íslendingsins, en eftir að þeir komust að raun um að mönnum var full alvara með svona fjölþrýstivél fengu þeir áhuga. Svona vél gæti nefnilega hentað víða í heiminum og aukið nýtni og sveigjanleika við jarðhitavinnslu. Verkefnið tókst mætavel og gekk mjög vel að gangsetja þessa flóknu samstæðu. Fuji lagði til vélasamstæðu ásamt grunnstjórnkerfi, en allt annað var hannað innanlands. Hitaveita Suðurnesja og Fuji hafa átt áralanga samvinnu og unnið að sameiginlegri þróun og rannsóknum í því skyni að hanna hverfilsamstæður sem henta erfiðum aðstæðum.  Árangurinn af þessu samstarfi HS og Fuji er einstakur.

Ágúst H Bjarnason, 4.4.2008 kl. 10:33

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Haraldur. Þú spyrð um orkunýtingu í gufuaflsvirkjunum hér á landi, bæði þar sem eingöngu er framleitt rafmagn og einnig þar sem einnig er framleitt heitt vatn. Þar sem ég er rafmagnsmaður þekki ég svarið ekki vel.  Ég ræddi málið við Geir Þórólfsson vélaverkfræðing sl. haust og fékk hálftíma fyrirlestur sem endaði á því að um málið mætti skrifa heila masters-ritgerð .   Ég ætla nú samt að grennslast betur fyrir um þetta hjá mér fróðari mönnum þannig að ég geti svarað af einhverju viti.  Ég veit þó að í fyrrnefnda tilvikinu er nýtnin mjög lág, etv. 12%? Ég held að málið sé mun flóknara þegar farið er að nýta varmann úr kælivatninu eða skiljuvatninu til heitavatnsframleiðslu eða jafnvel rafmagnsframleiðslu með tvívökva (binary) hverflum. Þegar framleitt er heitt vatn líka er ljóst að nýtnin er töluvert meiri en þegar rafmagn er framleitt eingöngu.

Auðvitað væri fróðlegt að fá hér innlegg frá þeim sem þekkja varmafræðina vel. 

Ágúst H Bjarnason, 4.4.2008 kl. 10:45

8 Smámynd: Ragnar Ágústsson

Til hamingju með þetta, kolkrabbinn ber nafn með rentu

Ragnar Ágústsson, 4.4.2008 kl. 16:59

9 Smámynd: haraldurhar

   Ágúst þakka þér fyrir svarið, ég bíð spenntur  eftir frekari upplýsingum. Spurning mín er tilkominn því ég hef lengi haft þá trú, en ekki vitneskju, að orkunýting væri alveg skelfilega lág í gufuaflsvirkjunum.

haraldurhar, 4.4.2008 kl. 22:24

10 identicon

   Ágúst, kærar þakkir fyrir greinargóð svör við spurningum mínum. Þessi frásögn þín skerpir þá skoðun mína að Íslenskir vísindamenn og verkfræðingar á þessu sviði séu i fremstu röð í heiminum. Ég minnist þess ekki að fjölmiðlar hafi fjallað um þessar stórmerku framkvæmdir ( gæti þó hafa farið framhjá mér ) það er full ástæða til að miðla fréttum og upplýsingum um svona framkvæmdir og margt annað sem unnið er að í landinu og er brautryðjendastarf eins og þessi framkvæmd virðist vera eftir frásögn þinni. Gallinn er kannski sá að mennirnir sem að þessu vinna eru hljóðir og hógværir og trana sér ekki fram og falla í skuggann af ýmsum oft ómerkilegum dægurmálum.

             kv. Þorvaldur Ágústsson.

Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 22:49

11 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Haraldur. Við sjáum til hvaða upplýsingar við getum fundið. Það er reginmunur á að breyta varmaorku í vinnu og á því að nota varmaorkuna beint, t.d. til húshitunar. Í fyrra tilvikinu setur Carnot okkur takmörkun, en fræðilega er hámarks nýtnin háð muninum á hitastigi inn og út. Þetta á við um allar vélar, ekki síst vélina í bílnum okkar. Þar er nýtnin í reynd etv. um 20%, en fræðilega er ekki hægt að ná meiri nýtni en um 40% (gróft) vegna Carnot. Í jarðvarmaorkuverum erum við að vinna með mun minni hitamun en í brunahreyflum og af þeim sökum er nýtnin enn lægri.  Það gæti verið fróðlegt fyrir þig að setja carnot site:is í Google, því þá munt þú finna ýmsan fróðleik á íslensku.

Carnot er ekki hægt að plata, en það er hægt að nýta varmann sem til fellur og færi annars óbeislaður út í náttúruna. Hér eru aðstæður mjög mismunandi. Stundum erum við með mikinn varma í ónýttu skiljuvatni sem kemur frá gufuskiljum. Þar gætum við nýtt varmann til að hita ferskt vatn til húshitunar, eða notað tvívökva (binary, Kalina, ORC) hverfla til að framleiða rafmagn úr þessu heita skiljuvatni. Ef einhverjir kaupendur eru að heitu vatni nálægt orkuverinu, þá er auðvitað miklu betra að framleiða heitt vatn úr afgansvarmanum en rafmagn. Nú, stundum er hitastigið á vatninu frá raforkuverinu það lágt að það borgar sig varla að nýta varmann. Í kæliturnum orkuvera eins og á Nesjavöllum og Svartsengi er gufan kæld niður í um 50 gráður, en í tvívökva hverflum jafnvel niður í 25 gráður. Ekki er þó öll von úti. Í Svartsengi er t.d. virkjuð gufa í nokkrum tvívökva hverflum, en  kælingin fer fram með því að forhita vatn úr um 10 gráðum í 25 gráður. Varmaskiptar eru síðan notaðir til að hita vatnið enn frekar áður en það fer inn á dreifikerfi hitaveiunnar.

Sem sagt, svona ferill getur verið býsna flókinn og þess vegna erfitt að koma með  ákveðin svör. Það fer mikið eftir aðstæðum á hverjum stað hvernig hægt er að nýta jarðhitasvæðið sem best. Það væri samt fróðlegt að geta slegið fram einhverjum þumalputtatölum um heildarnýtni mismunandi kerfa.

Hér gildir örugglega: Allt orkar tvímælis þá gert er. 

Ágúst H Bjarnason, 5.4.2008 kl. 11:18

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þorvaldur.

Þú hefðir örugglega gaman af því að lesa um Auðlindagarðana Svartsengi-Reykjanes. Orkuverið Jörð. Sjá hér á vef Landverndar. Þetta er fyrirlestur sem Albert Albertsson vélaverkfræðingur og aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja hélt um þetta áhugaverða mál. Sjá einnig grein Árna Sigfússonar bæjarstjóra Nýting og verndun Reykjanesskaga hér

Það er ótvírætt að Auðlindagarðurinn Svartsengi-Reykjanes er miklu margslungnari og áhugaverðari en margir gætu haldið.

Ágúst H Bjarnason, 5.4.2008 kl. 11:56

13 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Áhugavert efni. Ertu með einhverja vefslóð þar sem hægt er að fræðast nánar um kolkrabbann? (Þ.e. hvernig hann virkar.)

Sumarliði Einar Daðason, 5.4.2008 kl. 14:58

14 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sumarliði. Ég veit ekki um neina vefslóð að upplýsingum um þennan ákveðna gufuhverfil.

Ágúst H Bjarnason, 5.4.2008 kl. 18:55

15 Smámynd: haraldurhar

   Þakka þér svörin, þar sem ég er nær kunnáttulaus um orkunýtingu, en það sem vakti fyrir mér var frekari nýting hitaorkunar til raforkuframleiðslu, td með að láta hana sjóða við lægra hitastig eins og ég held að ormat sé notað til, og einning hvort væru notuð tæki til eimingar með undirþrýsingi, eins og gert var í soðeimingartækjumun í fiskmjölsverksm.  Einnig hélt ég að væri hægt að nota varmadælur.   Nú ætla ég reyna stauta mig fram úr því sem þú nefnir Carnot, sem ég hafði nú aldrei heyrt nefnt fyrr en í svari þínu.

haraldurhar, 6.4.2008 kl. 01:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband