Ekki bíða, skiptið út krónunni strax, segir forstöðumaður Centre for European Policy Studies í Brussel... Varar einnig við lántökum ...

 

"Ég er algjörlega sammála meginrökum greinarinnar," segir Daniel Gros um grein þeirra Heiðars Más Guðjónssonar og Ársæls Valfells sem birtist í Fréttablaðinu  laugardaginn 8. nóv. Þar lögðu þeir til að í stað þess að taka sex milljarða króna lán verði gjaldeyrisforði Íslendinga notaður til að taka einhliða upp aðra mynt sem lögmynt hér á landi.
 
Dr. Gros er forstöðumaður Centre for European Policy Studies í Brussel og aðstoðaði hann Svartfellinga við einhliða upptöku á evru.
 

"Sérstaklega er ég sammála þeim viðvörunum að þessi lán, sem ríkisstjórnin hyggst taka, muni leggja þungar byrðar á heilar kynslóðir. Hjá þessu verður að komast með öllum tiltækum ráðum."

Alls er verið að leita eftir sex milljarða dollara láni til að styrkja krónuna. Þar af myndu um tveir milljarðar koma frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en fjórir milljarðar dollara kæmu frá hópi ríkja. Þar af hafa lánsloforð þegar fengist frá Noregi, Færeyjum og Póllandi.

Gros segir að besti kosturinn fyrir Ísland nú sé að taka upp evruna. "Ég myndi ekki bíða fram í janúar til að skipta um gjaldmiðil. Það getur gerst nánast strax."

Hann segir að þá þurfi einhliða upptaka evru ekki að tákna pólitískar deilur við Evrópusambandið "ef Ísland útskýrir að þetta sé neyðarráðstöfun og að Ísland hafi fullkominn skilning á að það muni þurfa að uppfylla Maastricht-skilyrðin að einhverjum tíma liðnum, ef landið vill taka þátt í evrumarkaðnum, eftir að það hefur gengið í Evrópusambandið."- (Fréttablaðið 9. nóvember).

 
---
 
Í Silfri Egils var sunnudaginn 9. nóvember mjög áhugavert viðtal við Ársæl Valfells  það sem hann skýrir frá því að hægt sé að skipta út íslensku krónunni á skömmum tíma þegar neyðarástand ríkir. Hér ríkir neyðarástand eins og allir vita þannig að rétt er að gefa þessari hugmynd gaum.
 
Horfa má á viðtal Egils við hagfræðingana Ársæl Valfells og Þórólf Matthíasson með því að smella hér.
 
---
 
Viðtal við Hreiðar Má Guðjónsson í þættinum  Ísland í dag má sjá hér.
 
---
 

Í Fréttablaðið skrifuðu hagfræðingarnir Ársæll Valfells og Heiðar Már Guðjónsson laugardaginn 8. nóvember grein þar sem fjallað er um sama mál.
 
Þar segir m.a: "Íslandsvinirnir Daniel Gros og Manuel Hinds hafa báðir komið hingað til lands og lýst hvernig slík skipti fara fram. Daniel framkvæmdi upptöku á evrum í Svartfjallalandi að beiðni forseta landsins. Manuel stýrði upptöku á dollar fyrir El Salvador þegar hann var fjármálaráðherra þess. Ferlið var einfalt."
 
 
 
Valmöguleikar eru fyrir hendi í gengismálum
 

Í núverandi árferði er mikilvægt að búa til festu.  Hún fæst ekki með óbreyttu gengisfyrirkomulagi. Ætlun Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) er að setja krónuna aftur á flot, en til þess þurfa þeir að stórefla gjaldeyrisforðann. Í því skyni er ætlunin að Seðlabankinn fái sex milljarða dollara lán. Ekki hefur komið fram til hve langs tíma lánið er. Lán þarf að endurgreiða. Í ætlun Seðlabankans og IMF felst ákveðin áhætta. Áhættan felst í því að ef ekki tekst að endurvekja traust á krónunni munu þeir, sem eiga krónur, reyna að skipta þeim eins hratt og mögulegt er fyrir gjaldeyri en ekki vilja skipta gjaldeyri aftur yfir í krónur. Þá sæti ríkið eftir skuldsett og áfram með ótrúverðugan gjaldmiðil.

Önnur leið

Einn valkostur er þó til staðar í núverandi stöðu. Það er einhliða upptaka á mynt. Þá leið er hægt að framkvæma með mun minni gjaldeyrisforða. Sá forði sem nú er í Seðlabankanum er um það bil tveir milljarðar evra (gert er ráð fyrir tapi af láni til Kaupþings með veði í FIH í Danmörku og svo útstreymi síðustu vikna). Sá forði ætti að duga vel fyrir skiptunum. Að framansögðu gefnu myndi við skiptin jafnvel losna um dágóða fjárhæð, gróft áætlað um 100 milljarða íslenskra króna, sem sæti eftir í kassa ríkissjóðs.

Fordæmi fyrir einhliða upptöku

Einhliða upptöku annars gjaldmiðils er oft ruglað saman við fastgengisstefnu (currency board). Með fastgengisstefnu er átt við að þjóðríkið viðhaldi eigin gjaldmiðli áfram og miði verðmæti gjaldmiðilsins við gjaldeyrisforða. Sú leið var farin í Argentínu og árangur hennar umdeildur. Með upptöku gjaldmiðils felst aftur á móti afnám gengisstefnu með öllu og afsal stjórnar peningamála til annars seðlabanka. Útgáfu innlendrar myntar er þar með hætt. Sú leið var farin í El Salvador og Ekvador árið 2000-2001. Í heild eru það níu sjálfstæð ríki í heiminum sem nota bandaríkjadollar sem lögeyri. Þess má einnig geta að utan Evrópusambandsins eru sex smáríki sem nota evru sem sinn gjaldmiðil.

Fræðilega má segja að á Íslandi sé til fordæmi fyrir því að skipta út öllum seðlum og mynt í umferð. Það var gert þegar slegin voru af þrjú núll í byrjun níunda áratugarins. Það var mun flóknari aðgerð en sem felst í einhliða upptöku á gjaldmiðli. Ástæðan er að íslenskt fjármálakerfi er mjög rafvætt og lítið af seðlum og mynt í umferð. Íslenska bankakerfið og fjármálakerfið er mjög sjálfvirkt og sumir hagfræðingar hafa rætt þann möguleika að sleppa pappír og mynt í kerfinu með öllu.

Hvernig eru skiptin framkvæmd?

Íslandsvinirnir Daniel Gros og Manuel Hinds hafa báðir komið hingað til lands og lýst hvernig slík skipti fara fram. Daniel framkvæmdi upptöku á evrum í Svartfjallalandi að beiðni forseta landsins. Manuel stýrði upptöku á dollar fyrir El Salvador þegar hann var fjármálaráðherra þess. Ferlið var einfalt.

Fyrst þurfti að sjá til þess að nóg framboð væri af seðlum og mynt í hinum nýja gjaldmiðli. Að lokum var haft samband við IMF og honum tilkynnt um skiptin. Þetta var undirbúningsferlið og tók nokkrar vikur. Síðan var ákveðinn dagur og stund. Eftir þann tíma yrði allt bankakerfið skipt yfir í hina nýju mynt á föstu gengi. Fast gengi var ákveðið út frá því að það væri hagstætt framleiðslu og útflutingsgreinum. Síðan var ákveðið að skuldaviðurkenningar til skamms tíma (t.d. ávísanir) yrðu gildar í 3 mánuði frá skiptunum í hinni eldri mynt en seðlar og aurar í allt að 6 mánuði. Lögskipað var að öll verð í landinu væru birt í nýju og gömlu myntinni í 6 mánuði eftir að skiptin hófust. Bankar fengu 3ja mánaða frest til að laga vaxtatöflur sínar að hinni nýju grunnmynt og vaxtastigi hennar.

En hvað kosta skiptin?

Í umræðu um upptöku gjaldmiðils er oft nefnt að kaupa þurfi svo mikið af hinni nýju mynt að það skapi vandamál. Hið rétta er að flestir seðlabankar heims eiga miklum mun meira af gjaldeyrisforða en nemur grunnmynt samfélagsins. Í tilfelli Íslands er það svo að seðlar og mynt í umferð eru lítið brot af gjaldeyrisforða Seðlabankans. Grunninnstæður eru aðeins um helmingur af gjaldeyrisforða Seðlabankans. Skv. útreikningum Manuel Hinds í október 2007, hefði Seðlabanki Íslands átt eftir um 700 milljónir evra af forða sínum eftir að hafa skipt út öllum seðlum og mynt og grunninnistæðum bankakerfisins. Grunninnistæður skipta hér einungis máli því bankakerfi viðkomandi lands sér um að margfalda peningana í umferð. Til útskýringar:

Einstaklingur A leggur inn í banka 100 evrur sem bankinn lánar einstaklingi B.

Einstaklingur B kaupir eitthvað fyrir 100 evrur af einstaklingi C.

Einstaklingur C leggur inn 100 evrur sem bankinn lánar einstaklingi D.

Einstaklingur D kaupir eitthvað fyrir 100 evrur af einstaklingi E

o.s.frv.

Það þarf því ekki að skipta út heildarumsvifum bankakerfisins, heldur aðeins grunninum, því margföldunin á sér stað með framangreindum hætti.

Skiptin á Íslandi kalla því ekki á 6 milljarða dollara lán heldur skila í raun afgangi af núverandi gjaldeyrisforða eins og Hinds bendir á.

Pólitísk viðbrögð

Í EES-samningnum er einungis kveðið á um að ríkin skuli halda hvert öðru upplýstu um breytingar á peningamálastefnu sinni en í næstu grein er sérstaklega tiltekið að slík mál falli utan samningsins. Einhliða upptaka annars gjaldmiðls brýtur því ekki EES-samninginn. Betra er þó að hafa IMF og viðeigandi seðlabanka með í ráðum. Formlegt samþykki þeirra er ekki nauðsynlegt því að gjaldeyrir sem íslenska ríkið hefur keypt á markaði er eign þess. Enginn getur bannað Íslendingum að nota hann í viðskiptum innan landsins.

Hagfræðikenningar í fortíð og nútíð

Þegar hagfræðingar ræða kosti þess að hafa sjálfstæða peningastefnu, eru oftast þrjár ástæður gefnar. Í fyrsta lagi viðskiptalegar, þ.e. hægt er að hafa áhrif á gengi gjaldmiðils til að hygla útflutningi og hamla innflutningi og þannig tempra hagsveiflur út af ytri áföllum. Í öðru lagi eru fjármálalegar ástæður og þá helst möguleiki Seðlabanka til að prenta peninga og ákveða sjálfur verð þeirra. Peningaprentun býr til tekjur fyrir ríkið (verðbólguskattur) samkvæmt þessum kenningum en á einnig að tryggja greiðsluhæfi fjármálakerfisins innanlands ef snögglega dregur fyrir fjárstreymi erlendis frá. Með þessu getur seðlabanki viðkomandi lands orðið verndari fjármálakerfisins (lender of last resort) og leyst úr lausafjárvanda innlendra fjármálastofnana.

Margar hagfræðikenningar sem enn er stuðst við í peningamálum, svo sem þær sem minnst er á hér að ofan, eiga oft upptök sín hjá Keynes eða eru eignaðar honum. Á tíma Keynes voru viðskipti með gjaldeyri nánast eingöngu vegna vöruviðskipta. Þá þurfti mikið að hafa fyrir gjaldeyrisviðskiptum og höft ríktu í milliríkjaviðskiptum. Engar alþjóðlegar fjármálastofnanir, eins og við þekkjum í dag, voru þá til.

Eftir seinna stríð var reynt að einfalda og samræma gjaldeyrismarkað og voru peningar bundnir við gull í svokölluðu Bretton Woods samstarfi. Það samstarf leið undir lok í forsetatíð Richard Nixon, því verðmæti bandaríkjadals gagnvart gulli féll þegar Bandaríkin prentuðu seðla til að fjármagna Vietnam stríðsreksturinn.

Við tók að gjaldeyrir var keyptur og seldur á mörkuðum og verðmæti hans ákvarðað af markaðsaðilum. Vöxtur fjármálakerfisins og framþróun í tölvu- og upplýsingatækni jók umfang viðskipta með gjaldeyri og viðskiptakostnaður hefur lækkað stórkostlega. Nú geta flestir átt viðskipti með gjaldeyri, skuldsett sig í mismunandi myntum og fjárfest óháð myntum. Hraði þessara viðskipta hefur margfaldast með tilkomu rafrænna viðskipta. Í dag er agnarsmár hluti af 3200 milljarða dollara daglegri veltu á gjaldeyrismörkuðum tengdur vöruviðskiptum, ólíkt því sem áður var. Eðli markaðarins hefur því breyst.

En hver hefur reyndin verið á núverandi fyrirkomulagi gjaldeyrisviðskipta í ljósi framangreindra hagfræðikenninga? Fyrstu rökin, um að með gengisfellingu væri hægt að rétta úr hagkerfinu eftir ytri áföll, hafa verið gagnrýnd. Gagnrýnin felst í því að í nútíma hagkerfi eru fjármálakerfi mun þýðingarmeiri en áður var. Gengisfellingar hafa vissulega áhrif á einstaklinga og fyrirtæki viðkomandi lands, en áhrifin sem gengisfellingar hafa á fjármálakerfið eru enn meiri. Ávinningur gengisfellinga í sögulegu ljósi er því mjög takmarkaður og mögulegt tap fjármálakerfisins er meira en ávinningur útflutningsgreina. Gengissveiflur búi ennfremur til kostnað vegna þess að með gengissveiflum verði áætlanir erfiðari. Gengissveiflur geta einnig dregið úr vilja fjármálastofnana til að veita lánsfé til langs tíma.

Seinni rökin, um að seðlabanki viðkomandi lands gæti varið landið fjármálakreppum með prentun seðla, hafa einnig sætt gagnrýni. Vegna alþjóðavæðingar fjármálakerfisins eru bankar, fyrirtæki og einstaklingar með skuldbindingar og eignir í öðrum myntum og því er erfiðara að bjarga þeim með innlendri peningaprentun. Svo lengi sem fyrirtæki og stofnanir viðkomandi lands geta ekki fjármagnað sig alþjóðlega í eigin mynt er hætta á óstöðugleika sem innlend seðlaprentun getur ekki bjargað.

Þriðju rökin, sem snúa að skattheimtu ríkisins af peningaprentun, mega sín lítils í dag. Þessi skattheimta er alla jafna brot úr prósenti af landsframleiðslu hvers árs. Skattheimta af útlendingum sem nota peningana er léttvæg nema þegar um stærstu myntir heims er að ræða.

En hvað með hagstærðirnar?

Með upptöku annars gjaldmiðils er verið að tengja land inn á efnahagssvæði gjaldmiðilsins. Verðbólga og viðskiptahalli skipta stjórnvöld þá ekki lengur máli því þau stýra ekki lengur peningamagni í umferð og bera enga ábyrgð á verðlagi. Til skýringar þá kemur engum til hugar að velta því fyrir sér hvort Selfoss sé með jákvæðan eða neikvæðan viðskiptahalla innan efnahagssvæðisins Íslands.

Klassískar hagfræðikenningar um gjaldmiðla sem smíðaðar voru í hálflokuðum kerfum fortíðar hafa sætt gagnrýni fyrir að lýsa illa opnum hagkerfum nútímans. Nóbelsverðlaunahafinn Robert Mundell hefur velt þeirri spurningu upp hvort hagkvæmasta framtíðarskipan gjaldmiðla felist í því að í heiminum verði einungis til þrír gjaldmiðlar, Asíumiðill, Ameríkumiðill og evrumiðill.

Hvort sem lán fæst hjá IMF eður ei er upptaka gjaldmiðils einfaldur, ódýr og raunhæfur kostur sem hafa ber í huga við núverandi aðstæður.

 

Höfundar eru framkvæmdastjóri hjá Novator og lektor við viðskipta- og hagfræðideild HÍ.

 

--- --- ---

 

Það er ljóst að við verðum að hugsa okkur vel um og velja besta og skynsamlegasta kostinn. Er þetta sá kostur sem bestur er í stöðunni? Innganga í ESB og upptaka Evru á formlegan hátt tekur langan tíma. Mörg ár. Það er langt í land að við getum uppfyllt inntökuskilyrðin. Svo er það líka umráðarétturinn yfir auðlindum okkar... 

Við þurfum að gera eitthvað strax. Tilraun til að bjarga krónunni gæti orðið okkur dýr. Gæti kostað okkur offjár ef hún mistekst. Við höfum gert nóg af mistökum.

Væri ráð að huga frekar að myntbreytingu í dollar en evru eins og Jón Bjarnason þingmaður VG bendir á?  Eða norska krónu?  Hugsanlega mun einfaldara í framkvæmd en að taka einhliða upp evru.

 

Hvað vinnst með þessari aðferð?

  • Tekur skamma stund, aðeins fáeina mánuði...
  • Ríkið þarf ekki íþyngjandi erlend lán...  Ekki verið að leggja byrðar á komandi kynslóðir...
  • Vextir munu verða skaplegir, ekki lengur okurvextir...
  • Ekki þörf á verðtryggingu lána. Hóflegir vextir nægja til að tryggja verðmæti...
  • Myntbreyting var síðast á Íslandi 1981 þegar tvö núll voru tekin af krónunni. Fordæmi...
  • Innganga í ESB gæti eftir sem áður verið langtímaverkefni, ef við viljum...

 

Svo er það spurningar:

  1. Hverjir eru ókostirnir við þessa aðferð?
  2. Er til vænlegri lausn?
  3. Við hvaða gengi ætti að miða við skiptin? Hvaða meðalhóf milli hagsmuna almennings og atvinnuvega er best?
  4. Er slæmt að negla gengið fast? Hentar það betur íslensku þjóðfélagi að að vera með breytilegt gengi til að jafna byrðarnar þegar áföll verða? Væri ekki annað ávísun á atvinnuleysi á erfiðleikatímum?
  5. Evra, dollar eða norsk króna?

 

--- --- ---

 

Pistill Halldórs Jónssonar verkfræðings: Ný mynt strax?   "En af hverju er þetta ekki hægt ? Mig vantar að finna þau rök?" spyr Halldór í lok pistilsins.

Pistill Jóns Bjarnasonar þingmanns VG: Einhliða myntskipting - Valkostur fyrir Íslendinga?  "Einhliða upptaka annarrar myntar í krafti neyðarréttar  í stað krónunnar er alla vega  valkostur sem ber þegar í stað  að skoða mjög vandlega og af alvöru".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna

Ég er einnig sammála, taka upp evru strax. Ríkissjóður er að demba okkur í aðra skuldasúpu. Glæsileg er það.

Anna , 10.11.2008 kl. 13:52

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Við eigum að fá þennan Daniel Gros hingað til landsins með það sama. Hann getur þá ráðlagt stjórnvöldum. Þessi leið að taka evruna upp einhliða hljómar mjög vel.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 10.11.2008 kl. 16:47

3 Smámynd: Anna

Svo skil ég ekki að hverju ekki að biðja Japana um lán. Við getum borgað þeim til baka með hvalkjöti.

Anna , 10.11.2008 kl. 17:07

4 identicon

Ég held að menn séu gersamlega að tapa sér í leitinni að patentlausn. Legg til að menn LESI hina margumtöluðu grein. Ekki bara fyrirsagnir og útdrátt heldur greinina alla. Hún er svo LÉLEG að helst minnir á verkefni sem unnið er í tímaþröng.

Patentlausn er ekki til. Evran er ekki sterkur gjaldmiðill, það eru blikur á lofti á evrusvæðinu og það er ekkert grín. Ef menn vilja losna við krónuna þarf að gera það af skynsemi. Því miður er skynsemi það sem vantar í umrædda grein og megnið af umfjölluninni um hana. Sorglegt að fylgjast með þessu.

Gestur H (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 17:08

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Gestur H.

Viltu gjöra svo vel að rökstyðja mál þitt aðeins. Hvað er óskynsamlegt við greinina?

Ef þú lest greinina, sem er óbreytt í pistlinum, þá sérðu að verið er að tala um skipti á gjaldmiðli.  Ekki endilega evru, þó svo minnst sé á evru í einu dæmi í miðjum pistlinum. Gjaldmiðillinn gæti þess vegna t.d. verið dollari eða norsk króna.

 Fullt nafn væri einnig vel þegið.

Ágúst H Bjarnason, 10.11.2008 kl. 17:26

6 identicon

Sæll Ágúst.

Ég skrifaði athugasemdir um vankanta á greininni við blogg í Vísi í gær. Til að spara mér að skrifa það allt aftur vona ég að þú sért sáttur við að ég bendi þér á þær. Slóðin er http://blogg.visir.is/bensi/ pistillinn heitir "EVRA í stað krónu fyrir jól" og athugasemd mín er númer þrjú.

Ég vil halda mig við að nota ekki fullt nafn. Það búa engar annarlegar ástæður þar að baki svo það ætti að vera öllum að meinalausu. Í umræddum athugasemdum lagði ég mig fram um að hafa þær málefnalegar, rökstuddar og án upphrópana.

Gestur H (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 17:52

7 identicon

Þetta er skymsamlegasta innlegg sem komið hefur í þessa umræðu. Íslenski gjaldmiðillinn er dauðasjúkur, illkynjað æxli í efnahagskerfinu, sem nema þarf burtu strax. Lyfjagjöf í formi risalána dugir ekki til bata. Því er upptaka nýs gjaldmiðils nauðsyn, og þá er  Evran  vænlegur kostur ef sjúklingurinn á að komast til heilsu sem fyrst

Stefán Lárus Pálsson (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 18:07

8 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir að sýna sem flesta kanta á þessum teningi svo að við getum kastað og fengið sexu, annan gjaldmiðil, ÁÐUR en farið yrði í fleytingu krónu sem kostar hálfan milljarð að ósekju.

Ívar Pálsson, 10.11.2008 kl. 18:23

9 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég vil benda á, að einhliða upptaka Evru eða Dollars er varanleg fastgengis-stefna. Í stað þess að prenta Krónur og ákveða fast gengi hennar gagnvart erlendri mynt, er einfaldlega verið að nota viðmiðunar-gjaldmiðilinn sjálfan og spara prentunarkostnað. Að vísu hangir margt fleirra á spýtunni.

Við vitum að allir gjaldmiðlar sveiflast. Það á vissulega við um Evru og Dollar. Þar með væri gjaldmiðill landsins farinn að sveiflast eftir öðrum hagsveiflum en okkur eigin. Þetta hefur lengi verið ein af megin-röksemdum okkar gegn aðild að ESB og Evru-landi.

Við höfum langa reynslu af misheppnaðri fastgengisstefnu. Við vitum einnig, að fasta gengið heldur ekki til frambúðar. Fella verður gengið þegar tekjuöflun þjóðarinnar verður fyrir áföllum. Þess vegna tókum við upp breytilegt gengi, eins og flestar aðrar þjóðir.

Breytilegt gengi er eina vitræna fyrirkomulag gjaldeyrismála. Forsendur fyrir upptöku þess hafa ekkert breytst við atlögu Breta og þjóðnýtingu bankanna. Hins vegar verðum við ljóslega, að sýna meiri aðgát en við höfum gert. Við verðum að safna gildum sjóðum, í stað þess að lifa á lánum. Við verðum að leggja af þann barnaskap, að halda að allir "vinir okkar og bandamenn" séu vinir í raun.

Þetta þýðir meðal annars að við verðum að hafa aðhaldssama stefnu í ríkisfjármálum og ekki síður að hafa hemil á erlendum lántökum sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga. Gullna reglan er að lifa ekki um efni fram !

Loftur Altice Þorsteinsson, 10.11.2008 kl. 22:56

10 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég legg til, að menn lesi nýustu færslu Gunnars Rögnvaldssonar,

hér: http://tilveran-i-esb.blog.is/blog/tilveran-i-esb/entry/705777/

Loftur Altice Þorsteinsson, 10.11.2008 kl. 23:20

11 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir Ívar.

Ég tek undir það sem þú segir í pistli þínum í gær ESB með klærnar í Drekanum?

Við verðum að gæta þess vel að semja ekki af okkur. Mér hugnast alls ekki aðild að Evópusambandinu. Þú leggur til í pistlinum að við skiptum yfir í norska krónu. Kannski er það skársti kosturinn.

Ágúst H Bjarnason, 11.11.2008 kl. 05:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband