Veiðimaðurinn Óríon eða Aurvandill er meðal fegurstu stjörnumerkjanna...

 

Aurvandill

 

Eitt glæsilegasta stjörnumerki himinsins fer að verða meira og meira áberandi á kvöldhimninum á næstu vikum. Nú þegar er farið að glitta í kollinn á veiðimanninum á miðju kvöldi, en innan skamms mun Aurvandill gnæfa yfir landi og þjóð á suðurhimninum. (Smella þrisvar á mynd til að stækka).

Í grísku goðafræðinni var Óríon hinn mikli veiðimaður og sonur Póseidons og Eruyale drottningar. Að öllum líkindum er þetta stjörnumerkið sem fornmenn nefndu Aurvandil og kemur fyrir í Snorra-Eddu. Aurvandill er sá sem ferðast um með björtu skini.

BetelgásTvær stjörnur í Óríon bera af. Það eru Rígel og Betelgás. Skoðum myndina sem er efst á síðunni.

Neðst til hægri í Óríon er bláleita stjarnan Rígel, bjartasta stjarna merkisins. Hún er 60 þúsund sinnum bjartari en sólin okkar, hún er mun heitari en sólin og í 900 ljósára fjarlægð. Er Rigel Aurvandilstá sem getið er um í Snorra-Eddu?

Næst bjartasta stjarna merkisins er hin gyllta Betelgás, efst í horninu vinstra megin. Betelgás er svokallaður rauður risi og er í um 600 ljósára fjarlægð og er þvermál hennar um 1000 sinnum meira en þvermál sólar. Samt er hún ekki nema um 20 sinnum efnismeiri. Væri Betalgás stödd þar sem sólin er, þá næði hún út fyrir braut Mars. Jörðin væri sem sagt langt inni í iðrum hennar.  Það er undarlegt til þess að hugsa að þéttleiki hennar er aðeins einn milljónasti þéttleika vatns.  Ef við reyndum að snerta á henni yrðum við einskins vör!

 

Í miðju merkisins eru þrjár stjörnur sem mynda belti Óríons. Þetta eru stjörnurnar Alnítak, Alnílam og Mintaka og hafa þær verið nefndar fjósakonurnar þrjár.

Sverðþokan

 

Í sverði Óríons er Sverðþokan fræga sem á máli stjörnufræðinga kallast M42. Þessar stjörnur í sverðinu hafa verið nefndar fjósakarlarnir. Demanturinn í sverðinu leynir sér ekki á myndinni efst á síðunni. Þetta er auðvitað sverðþokan fræga og ægifagra. Sjá myndina hér til hliðar.

Vel má greina þessa stjörnuþoku með venjulegum handsjónauka, og með góðum vilja jafnvel með berum augum þegar skyggni er gott og ljósmengun lítil.

Það sakar ekki að smella þrisvar á myndirnar af sverðþokunni og Óríon til að stækka þær.

 

 

 

 

Úr skáldskaparmálum Snorra-Eddu:

Þórr fór heim til Þrúðvanga, ok stóð heinin í hôfði honum. Þá kom til vôlva sá, er Gróa hét, kona Aurvandils ins frækna. Hon gól galdra sína yfir Þór, til þess er heinin losnaði. En er Þórr fann þat ok þótti þá ván, at braut myndi ná heininni, þá vildi hann launa Gró lækninguna ok gera hana fegna, sagði henni þau tíðendi, at hann hafði vaðit norðan yfir Élivága ok hafði borit í meis á baki sér Aurvandil norðan úr Jôtunheimum, ok þat til jartegna, at ein rá hans hafði staðit úr meisinum, ok var sú frerin, svá at Þórr braut af ok kastaði upp á himin ok gerði af stjôrnu þá, er heitir Aurvandilstá. Þórr sagði, at eigi myndi langt til, at Aurvandill myndi heim koma, en Gróa varð svá fegin, at hon mundi enga galdra, ok varð heinin eigi lausari ok stendr enn í hôfði Þór, ok er þar boðit til varnanar at kasta hein of gólf þvert, því at þá hrærist heinin í hôfði Þór. Eftir þessi sôgu hefir ort Þjóðólfr hvinverski í Haustlông.


 

Myndin hér fyrir neðan er fengin að láni úr grein um Óríon eftir Sævar Helga Bragason á Vísindavefnum.

 

orion_190803.jpg

 

 

Næstu vikur skulum við fylgjast með veiðimanninum Óríon eða Aurvandli vini okkar á kvöldin. Fylgjast með hvernig hann ferðast yfir stjörnuhimininn.  Þessa dagana er hann byrjaður að sjást á suðausturhimninum síðla kvölds, en eftir nokkrar vikur fer hann að sjást hærra og hærra á lofti á suðurhimninum. Þá verður hann tignarlegur í meira lagi. Hann verður í hásuðri um níuleytið á kvöldin um miðjan febrúar.

Það er einhvernvegin þannig að við njótum stjörnuhiminsins miklu betur ef við þekkjum hann aðeins.

 

 

Aurvandill?

 

Aurvandill?

 

 

 

Krækjur: 

Hvað getið þið sagt mér um stjörnumerkið Óríon? Sævar Helgi Bragason á Vísindavefnum.

Viking Age Star and Constellation Names

Norse Constellations

Stjörnufræðivefurinn

Ljósmengun

 

 

Lifandi kort: Stjörnuhimininn yfir Íslandi þessa stundina

Kortið uppfærist sjálfvirkt í hvert sinn sem þessi síða er opnuð

Kortið hér fyrir neðan er fengið að láni hjá Stjörnufræðivefnum, www.stjornuskodun.is

Kortið er einnig hægt að finna hjá www.astroviewer.com

Austur er til vinstri og norður upp. Óríon fer að sjást á suð-austur hluta kortsins (neðarlega vinstra megin) á miðju kvöldi nú í byrjun desember. Síðan færist hann á suðurhimininn ...  Muna eftir að smella á "Refresh" eða takkann F5 til að fá ferska útgáfu af kortinu. Dagsetning og tími sést efst til hægri.

 

 

"We are all in the gutter, but some of us are looking at the stars" - Oscar Wilde


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Þetta er skemmtilegur pistill hjá þér Ágúst. Það er alltaf jafnáhrifamikil stund þegar ég sé Óríon í fyrsta sinn á haustin.

Sverrir

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 5.12.2008 kl. 13:28

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir fróðleikinn á Stjörnufræðivefnum þínum, Sverrir.

Ágúst H Bjarnason, 5.12.2008 kl. 14:02

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir fróðleikinn, Ágúst

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.12.2008 kl. 00:24

4 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Takk fyrir notalega samúðarkveðjuna 

Marta B Helgadóttir, 6.12.2008 kl. 15:58

5 identicon

Sæll Ágúst. Gaman að sjá þig aftur á þessum slóðum með skemmtilegan pistil. Það er gott að hvíla hugann frá þessari yfirþyrmandi efnahags- og kreppu umræðu. Þá er fróðlegt á heiðskíru vetrarkvöldi að virða fyrir sér smíði Borssona en í Gylfaginningu segir svo frá að þegar þeir höfðu drepið Ymi jötunn þá gerðu þeir haus hans að himni yfir jörðinni með fjórum skautum og undir hverju skauti stóð dvergur. Þeir heita svo, Austri, Vestri, Norðri, Suðri. Úr Múspellsheimi tóku þeir siur og gneista, sem lausir voru og settu í mitt Ginnungagap til að lýsa himin og jörð en Alföður sendi Nótt Nörfadóttur og Dag son hennar hvort með sinn hest og kerru að ríða á tveimur dægrum umhverfis jörðina. Í þessari frásögn felst augsýnilega að fornmenn vissu að jörðin væri hnöttótt, annars væri varla hægt að ríða umhverfis hana. Það má líka velta því fyrir sér hvort að tunglinu hafi í árdaga fylgt litlir hnettir eða kannski stórir loftsteinar vegna þess að í frásögninni af Mána segir að hann hafi tekið tvö börn af jörðinni, sem heita Bil og Hjúki. " Þessi börn fylgja Mána, svo sem sjá má af jörðu." Ég held að í mörgum þessum gömlu frásögnum felist miklu meiri þekking fornmanna á gangvirki heimsins en margir geri sér grein fyrir. Gaman væri að heyra þína skoðun á þessu.

                  Bestu kveðjur.   Þorvaldur Ágústsson

Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 01:06

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Þorvaldur


Það var vissulega komið meira en nóg af kreppubloggi og svartsýni. Við Íslendingar höfum séð það svartara áður og vitum að það birtir upp um síðir. Þangað til eigum við að njóta þess að vera til.


Þakka þér kærlega fyrir fróðleikinn um smíði Borssona í miðju Ginnungapi.  Það kemur manni oft á óvart hve mikð fornmenn viðast hafa vitað um náttúruna.  Þeir hafa örugglega haft betri skilning á henni en margan grunar.


Varðandi það hvort Hjúki og Bil hafi verið fylgihnettir tunglsins finnst mér það ótrúlegt. Hvers vegna væru þeir þá ekki enn til staðar? Mér datt fyrst í hug að ævintýrið um systkinin hefði spunnist út frá eins konar Gíl og Úlfi sem sjást oft á undan og eftir sól. Svipað ljósbrot í Ískristöllum sést stundum nærri tunglinu við ákveðin skilyrði. Er þetta mynd af Hjúka og Bil hér fyrir neðan? (Fann þessa mynd af tunglinu á netinu).


 Photobucket

Annars er fróðlegt að lesa um Hjúka og Bil hér á Wikipedia.  Þar eru ýmsar kenningar um uppruna þeirra. Þar kemur m.a fram að barnagælan Jack and Jill geti verið skyld frásögninni af Hjúka og Bil og að bærinn Bilsby í Englandi heiti hugsanlega eftir Bil.  Það er ótrúlega margt fjallað um þessi börn á netinu. Það er fróðlegt að Googla orðin Bil Hjúki. Um 1300 tilvísanir finnast.

 Fleiri myndir af tunglinu og "moon dogs":

 

 http://www.lorenzbeyeler.com/images/moondogs.jpg

 

Ágúst H Bjarnason, 7.12.2008 kl. 10:30

7 identicon

    Ágúst.   Þessi tilgáta þín um Gíl og Úlf er líkleg skýring. Þegar ég skrifaði athugasemdina þá mundi ég ekki eftir þessu fyrirbæri og hefi þó oft séð það. Tilgátan á Wikipedia síðunni, sem þú vísar á um að Bil og Hjúki merki minnkandi og vaxandi tungl er líka athyglisverð.Hér í Árnessýslu voru Gíll og Úlfur með sólu tákn um veðrabreytingar ef þeir sáust með sólu. Ljósbrotið á undan sólu heitir Gíll og ef hann sást einn þá var von á versnandi veðurfari. Væru hinsvegar bæði Gíll og Úlfur á lofti þá boðaði það gott veðurfar. Um þetta var oft haft máltækið; sjaldan er Gíll fyrir góðu nema Úlfur á eftir renni og í vestri skíni.Ljósbrot, sem myndar hring umhverfis tunglið er kallaður rosabaugur og var talinn boða rysjótt veður. Fyrir daga veðurfrétta voru margir afar naskir að spá fyrir um veður eftir skýjafari og ýmsum öðrum teiknum á himni og jörðu.

                Kveðja. Þorvaldur Ágústsson

Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 20:51

8 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Alltaf jafn gaman að lesa þennan fróðleiksbrunn hjá þér Ágúst.   Meiriháttar.

Marinó Már Marinósson, 9.12.2008 kl. 21:22

9 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Það er engin kreppa í Alheimnum, öðru nær. Stöðug þensla og allt á „fúll svíng“ :)

Annars var áhugavert að rekast á þessa frétt í gær.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 10.12.2008 kl. 18:58

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Þakka þér fyrir þennan pistil um hann Aurvandil góða. Aldrei lít ég svo til stjörnuhimins að ég leiti ekki fyrst að Orion,  þessum konungi stjörnumerkja, sem faðir minn heitinn kenndi mér að þekkja í gegnum síma eitt vetrarkvöld. En þá hafði ég þekkt neitt nema pólstjörnuna uppaf Karlsvagninum og hafði hann líka kennt mér það árum fyrr.

Hvað er vitað um þá stóru steina, sem sagðir hafa þotið hafa nálægt jörð og jafnvel á milli jarðar og mána mönnum að óvörum ?  Svona "near-misses" .  Sumir segja að það hafi legið við stórslysum hér á jörð án þess að menn hafi búist við því.

Í fyrirlestri um Hallgrím Pétursson í Skálholtskirkju hafði fyrirlesarinn upplýsingar um það, að sr.Hallgrímur vissi um tilvist Einstein-effektsins. Það var sem sagt vitað á hans dögum að ljósið beygði í þyngdarsviði. Veistu meira um hvenær menn gerðu sér þetta ljóst fyrir áður en þetta var mælt held ég 1919.  

Þessi pistill þinn er uppörvandi í öllu krepputalinu og síbyljunni. 

Ekki skildi ég mikið í Persson hinum sænska,  sem krafðist þess í fyrirlestri, að íslenzk stjórnvöld gerðu sitt ítrasta til að dýpka kreppuna með samdrætti og niðurskurði. Mér finnst alveg öfugt um þetta. Mér finnst að stjórnvöld verði að reyna að örva atvinnulífið með peningaprentun í einhverjum mæli, ríkistryggðum skuldabréfum til sveitarfélaga sem lífeyrissjóðir gætu keypt osfrv. Hönnun, mannfrekt viðhald  opinberra mannvirkja, bygging fangelsa og rekstur þeirra, allt dæmi um nauðsynlegar framkvæmdir, sérstaklega í kreppu. Ég gef lítið fyrir þennan Persson og klappið fyrir honum. Okkar vantar ekki  meiri eymd.

Halldór Jónsson, 10.12.2008 kl. 21:17

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hér eru einnig skemmtilega geim-pælingar, þó annars eðlis séu

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.12.2008 kl. 22:19

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ásgeir. Takk fyrir krækjuna. Það er gaman að sjá að menn eru farnir að mæla koltvísýring á reikistjörnum í öðrum sólkerfum.  

Ágúst H Bjarnason, 11.12.2008 kl. 07:36

13 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Halldór. Stundum koma þessir stóru loftsteinar alveg óvænt, en oftast sleppum við með skrekkinn. Svo eru aðrir, yfirleitt mun stærri, sem þjóta skammt frá okkur. Þetta er vissulega ógnvekjandi enda hafa margir áhyggjur af svona NEO eða Near Earth Object. Hér er vefsíða hjá NASA um NEO. Sjá líka hér á Wikipedia. Hér hjá írsku stjörnuathugunarstöðinni í Armagh.

Halldór. Því miður veit ég lítið  um "Einstein áhrifin" fyrir 1919.  Ég man það þó að margir höfðu fjallað um þessi mál á undan Einstein og byggði hann kenningar sínar á þeim rannsóknum. Lorentz kemur t.d. í hugann.

Ágúst H Bjarnason, 11.12.2008 kl. 07:50

14 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þetta eru skemmtilega pælingar sem þú vísar á Gunnar!

Ágúst H Bjarnason, 11.12.2008 kl. 07:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband