Tunglið tunglið taktu mig ... Nú er lag þvi tunglið er næst jörðu föstudaginn 12 des!

 

 

 

Á morgun er nokkuð merkilegur dagur, því föstudaginn 12. desember verður tunglið okkar óvenju stórt og óvenju nálægt jörðu. Líklega hefur fullt tungl ekki verið nær jörðu síðan 8. mars 1993 og verður ekki aftur fyrr en 14. nóvember 2016.  Föstudagurinn 12 des. er því dálítið merkilegur ...

Á myndinni má sjá muninn á stærð tunglsins þegar það er næst jörðu og fjærst. Munurinn er töluverður, en hefur einhver tekið eftir þessum stærðarmun? Hefur einhver tekið eftir því hve tunglið er óvenju stórt þessa dagana?

 

Hvers vegna er tunglið svona mis langt frá jörðu? 

moon_orbit_20030722142611.gifÞað er vegna þess að braut tunglsins umhverfis jörðu er ekki hringferill heldur sporöskjulaga ferill eða ellipsa. Reyndar alls ekki eins ýkt og á myndinni hér til hliðar. Munurinn á jarðfirð og jarðnánd er um 10%.

Þegar tunglið er lengst frá jörðu er það í svokallaðri jarðfirð eða apogee, en jarðnánd eða perigee þegar það er næst jörðu, eins og sést á myndinni.

moongames_lavedern080717_9416_747812.jpg

 

Hafið þið tekið eftir því að þegar tunglið er mjög lágt á himni virðist það vera miklu stærra en þegar það er hátt á himinhvolfinu.  Hvað veldur? Er það ljósbrot eða er tunglið kannski nær jörðu? Svarið kemur á óvart, því ástæðan er bara undarleg skynvilla. Við getum prófað að mæla tunglið með tommustokk, bæði þegar það er við sjóndeildarhringinn og hátt á himninum og þá kemur hið sanna í ljós. Við látum platast. Góð útskýring á þessari skynvillu er hér á Vísindavefnum.

 

 


Kveðskapur um tunglið ...

 

Jón Ólafsson ritsjóri, skáld,  og alþingismaður orti þetta um son sinn Ólaf sem síðar varð tannlæknir í Bandaríkjunum:

Tunglið má ekki taka hann Óla
til sín upp í himnarann,
þá fer hún mamma að gráta og góla
og gerir hann pabba sturlaðan.
 

 

Jón langafi bloggarans orti meira um tunglið. Flestir hafa sungið um mánann á Gamlársdag og á Þrettándanum:

Máninn hátt á himni skín,

hrímfölur og grár.

Líf og tími líður

og liðið er nú ár.

 

Bregðum blysum á loft,

bleika lýsum grund.

Glottir tungl og hrín við hrönn

og hratt flýr stund.

 

Kyndla vora hefjum hátt,

horfið kveðjum ár.

Dátt við dansinn stígum

dunar ísinn grár.

 

Bregðum blysum á loft,

bleika lýsum grund.

Glottir tungl og hrín við hrönn

og hratt flýr stund.

 

Nú er veður næsta frítt,

nóttin er svo blíð.

Blaktir blys í vindi

blaktir líf í tíð.

 

Bregðum blysum á loft,

bleika lýsum grund.

Glottir tungl og hrín við hrönn

og hratt flýr stund.


 

 

Þess má geta að Jón var upphafsmaður   Íslendingadagsins í Manitoba sem haldinn hefur verið árlega síðan 1874 er Jón var 24 ára ritstjóri Lögbergs.

 

 

Theodora Thoroddsen orti þessa skemmtilegu og   l ö n g u   þulu, en fyrirsögn bloggsins er auðvitað fengin þar að láni. Þulan er svo löng að hún ber mann auðveldlega hálfa leið í heimana nýja:

"Tunglið, tunglið taktu mig
og berðu mig upp til skýja".
Hugurinn ber mig hálfa leið
í heimana nýja.
Mun þar vera margt að sjá,
mörgu hefurðu sagt mér frá,
þegar þú leiðst um loftin blá
og leist til mín um rifinn skjá.
Komdu, litla lipurtá!
Langi þig að heyra,
hvað mig dreymdi, hvað ég sá
og kannski sitthvað fleira.
Ljáðu mér eyra.
Litla flónið, ljáðu mér snöggvast eyra:
Þar er siglt á silfurbát
með seglum þöndum,
rauðgull í rá og böndum,
rennir hann beint að ströndum,
rennir hann beint að björtum sólarströndum.
"Þar situr hún móðir mín"
í möttlinum græna,
hún er að spinna híalín
í hempu fyrir börnin sín.
"Og seinna, þegar sólin skín",
sendir hún þeim gullin fín,
mánasilfur og messuvín,
mörgu er úr að velja.
Hún á svo margt, sem enginn kann að telja.
"Þar sitja systur".
Sá sem verður fyrstur
að kyssa þeirra klæðafald,
og kveða um þeirra undravald,
honum gefa þær gullinn streng
á gígjuna sína.
"Ljúktu upp, Lína!"
Nú skal ég kveða ljúflingsljóð
um lokkana þína,
kveða og syngja ljóðin löng
um lokkana mjúku þína.
"Þar sitja bræður"
og brugga vél,
gakktu ekki í skóginn, þegar skyggir.
Þar situr hún María mey,
man ég, hvað hún söng:
Ég er að vinna í vorið
vetrar kvöldin löng.
Ef að þornar ullin vel
og ekki gerir stórfelld él
sendi ég þér um sumarmálin sóley í varpa.
Fögur er hún harpa.
Um messur færðu fleira,
fjólu og músareyra,
hlíðunum gef ég grænan kjól,
svo göngum við upp á Tindastól,
þá næturvökul sumarsól
"sveigir fyrir norðurpól",
en dvergar og tröll sér búa ból
í bergsins innstu leynum
og ljósálfar sér leika á hól
að lýsigulli og steinum.
Við skulum reyna að ræna frá þeim einum.
Börnunum gef ég gnótt af óskasteinum.
"Þá spretta laukar,
þá gala gaukar".
Þá syngja svanir í tjörnum,
segðu það börnum,


 

Krækjur:

Hvað er tunglið langt frá jörðu?

Fróðleikur um Tunglið á Stjörnufræðivefnum

December 12, 2008: Closest Full Moon in 23 Years

The Moon at Perigee and Apogee

Lunar Perigee and Apogee Calculator 

NASA: Biggest Full Moon of the Year

Wikipedia: Mikill fróðleikur um Tunglið.

 

 Svona leit tunglið út yfir Esjunni í ljósaskiptunum að kvöldi 13. desember 2008:

 

Tungl yfir Esju 13. des 2008

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Get bara ekki hætt að dáðst af þessum fróðleik hjá þér Ágúst.  Ég vísa krökkunum stundum á þessa pistla þína um alheiminn.   

Marinó Már Marinósson, 11.12.2008 kl. 08:45

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Einkar athyglisvert og aðgengilegt.

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 11.12.2008 kl. 08:59

3 identicon

Ég las það nú um daginn að tunglið fjarlægist jörðina 5 sentimetra á ári að meðaltali og að um síðir muni það hverfa út í geiminn, þó það sé nú langt þangað til.

Jón (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 14:07

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Jón.  Tunglið fjarlægist um tæpa 5 cm á ári (3,8 cm) vegna orkutapsins sem verður vegna flóð-fjöru áhrifa í sjónum og jafnvel jarðskorpunni (tidal effects). Það er jú fyrst og fremst tunglið sem veldur sjávarföllunum, þó svo að sólin hafi smá áhrif líka. Snúningur jarðar hægir á sér smávegis af sömu sökum.

"Apollo Laser Ranging Experiments Yield Results"

  "Ocean Tides and the Earth's Rotation"

Ágúst H Bjarnason, 11.12.2008 kl. 14:20

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Tunglið var fallegt í morgun þegar það sást lágt á lofti á norðvesturhimni. Það virtist vera beint fyrir ofan Örfirisey, mjög stórt, nánast fullt og gulleitt. Sólin ætti þá að hafa vera beint á móti í suðaustri, rétt fyrir neðan sjóndeildarhring. Spurning hvort viðrar til að sjá það aftur á morgun.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.12.2008 kl. 15:07

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir þetta, Ágúst. Þegar eitthvað gerist sjaldan er sagt á enskunni „Once on a blue moon“, gerist einu sinni í bláu tungli. Mig minnir að blátt tungl sé einmitt þetta, stórt fullt tungl, ekki satt?

Ívar Pálsson, 11.12.2008 kl. 16:40

7 identicon

Takk fyrir þetta og alla hina pistlana. Hef lesið bloggið þitt í nokkur ár. Einkum haft gaman af að sjá vangavelturnar um áhrif sólar á sveiflurnar í hita jarðar.  Langaði að benda þér á http://epw.senate.gov/public/index.cfm?Fus...f0-274616db87e6 

U.S. Senate Minority Report Update: More Than 650 International Scientists Dissent Over Man-Made Global Warming Claims
kveður.

Magnús Waage (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 01:20

8 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ívar  ég þekki þetta ekki, en leitaði á netinu.

Á Wikipedia stendur að Blue Moon sé haft yfir auka- fullt tungl sem sést á um 3ja ára fresti. Flest ár sjást 12 full tungl, en um 3ja hvert ár sjást 13 full tungl. Sjá hér.

Sjá líka hér.

Svo eru hér á Farmer's Almanac fleiri nöfn yfir fullt tungl.

Ágúst H Bjarnason, 12.12.2008 kl. 06:59

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir ábendinguna Magnús.

Það er hægt að nálgast alla skýrsluna hér sem pdf skjal. Þetta er löng skýrsla, eða um 230 blaðsíður, enda eru þar birt ummæli þessara 650 vísindamanna.

Ágúst H Bjarnason, 12.12.2008 kl. 07:09

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Nú er spurning hvernig viðrar í dag. Það er víst nákvæmlega klukkan 16:37 í dag sem tunglið er næst jörðu.

Myndin er tekin s.l. sumar skammt frá Geysi.

 http://agbjarn.blog.is/users/fa/agbjarn/img/img_0532.jpg

Ágúst H Bjarnason, 12.12.2008 kl. 07:32

11 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir að minnast langafa sem á Íslandsmet í því að segja af sér þingmennsku. Alls þremur sinnum held ég. Fæstir ná kjöri svo oft.

Mér finnst Jón hafa verið þjóðskáld þó hann hafi sjálfur ekki talið sig til þeirra stærri. En ljóð hans kunna margir enn, eins og þú tilfærir kvæðið um mánann. nefna má " Bí bí og blaka" og " Fljúga hvítu fiðrildin" sem flestir kunna. Hann gaf út stafrófskver í 16.000 eintökum um þarliðin aldamót og heil kynslóð landsmanna lærði á það kver, sem hann orti margt í.

Takk fyrir þennan pistil um mánann sem fjarlægist um 5 cm á ári.  Hefur verið reiknað út hvenær hann kveður ? 

Halldór Jónsson, 12.12.2008 kl. 20:34

12 Smámynd: Heimir Tómasson

Takk fyrir þessa frábæru pistla. Les þá alltaf af miklum áhuga.

Heimir Tómasson, 13.12.2008 kl. 10:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband