Sunnudagur, 4. janúar 2009
Glöggt er gests augað: Áskorun þingmanns Evrópuþingsins til Íslendinga...
Bretinn Daniel Hannan er þingmaður á Evrópuþinginu. Hann hefur oft komið til Íslands síðastliðin 15 ár og þekkir vel til ESB. Það er því full ástæða til að hlusta á hvað þessi Íslandsvinur hefur til málanna að leggja varðandi Evrópusambandið.
Greinin birtist í Mbl. 3. janúar 2008, bls. 32. (Bloggarinn breytti lit í textanum til að gera hann auðlesnari á skjá).
Að sjálfsögðu þarf það sem hér fer á eftir ekki að vera skoðun bloggarans. Það er Daniel Hannan sem hefur orðið hér, en bloggarinn telur mjög mikilvægt að kynna sér sjónarmið manns sem gjörþekkir til innviða ESB. Sjálfsagt er að kynna sér allar hliðar þessa mikilvæga máls.
--- --- ---
KÆRU Íslendingar! Ég geri mér fulla grein fyrir því að þið standið nú frammi fyrir mjög erfiðum tímum - við stöndum raunar öll frammi fyrir mjög erfiðum tímum - en engir erfiðleikar eru svo miklir að aðild að Evrópusambandinu geti ekki gert þá verri. Ég skil vel að þið séuð í sárum og finnist þið standa ein á báti. Þið hafið fulla ástæðu til þess eftir ömurlega framkomu Gordons Browns í ykkar garð. En ef þið bregðist við með því að leggja niður lýðræðið ykkar og sjálfstæði þá festið þið ykkur í sömu vandamálum og þið eruð í núna um alla framtíð.
Innganga í ESB fæli í sér algera örvæntingu, rétt eins og raunin var í tilfelli okkar Breta. Við gerðumst aðilar að forvera sambandsins á hinum erfiðu árum þegar Edward Heath var forsætisráðherra, þegar verðbólga var í tveggja stafa tölu, allt logaði í verkföllum, lokað var reglulega fyrir orku til almennings og þjóðargjaldþrot blasti við. Það er erfitt að ímynda sér að við hefðum stutt aðild áratug áður eða þá áratug síðar. Það hefði einfaldlega ekki ríkt nógu mikil svartsýni og örvænting. Þegar komið var fram á 9. áratug síðustu aldar fór breskur almenningur að gera sér grein fyrir því hvað Evrópusamruninn væri í raun: kötturinn í sekknum. En þá varð einfaldlega ekki aftur snúið. Niðurnjörvaðir af reglugerðafargani frá Brussel glötuðum við samkeppnisforskoti okkar. Við gengum Evrópusamrunanum á hönd við erfiðar aðstæður og afleiðingin var sú að við festum þær aðstæður í sessi.
Ekki gera sömu mistökin og við gerðum. Þið þurfið þess ekki! Ég hef haft ómælda ánægju af því að ferðast reglulega til Íslands undanfarin 15 ár og á þeim tíma hef ég orðið vitni að ótrúlegum framförum. Slíkar breytingar eru oft augljósari í augum gesta sem annað slagið koma í heimsókn en þeirra sem hafa fasta búsetu á staðnum. Þegar ég kom fyrst til landsins höfðuð þið nýlega gerst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu sem veitti ykkur fullan aðgang að innri markaði ESB án þess að þurfa að taka á ykkur þann mikla kostnað sem fylgir aðild að sambandinu sjálfu.
Ímyndið ykkur að í tímabundnu vonleysi tækjuð þið þá ákvörðun að ganga í ESB og taka upp evruna. Hvað myndi gerast? Í fyrsta lagi yrði gengi gjaldmiðilsins ykkar fest til frambúðar við evruna á því gengi sem þá væri í gildi. Endurskoðun á genginu með tilliti til umbóta í efnahagslífi ykkar væri útilokuð. Að sama skapi yrði ekki lengur hægt að bregðast við efnahagsvandræðum í framtíðinni í gegnum gengið eða stýrivexti. Þess í stað myndu slíkar aðstæður leiða til mikils samdráttar í framleiðslu og fjöldaatvinnuleysis.
Það næsta sem þið stæðuð frammi fyrir væri það að fyrir inngönguna í ESB yrði að greiða hátt verð, fiskimiðin ykkar. Þessi mikilvægasta endurnýjanlega náttúruauðlind ykkar yrði hluti af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins.
Fljótlega mynduð þið þó átta ykkur á því að þið hefðuð afsalað ykkur einhverju margfalt dýrmætara en fiskimiðunum. Ykkar mesta auðlegð liggur nefnilega ekki í hafinu í kringum landið ykkar heldur í huga ykkar. Þið búið yfir einhverju best menntaða fólki í heiminum, frumkvöðlastarfsemi er mikil sem og öll framtakssemi. Þið hafið byggt árangur ykkar á minna regluverki, skattalækkunum og frjálsum viðskiptum. En þið mynduð reka ykkur á það að þið hefðuð gengið til liðs við fyrirbæri sem er fyrst og fremst skriffinnskubákn grundvallað á gríðarlegri miðstýringu á öllum sviðum og háum verndartollum í viðskiptum við ríki utan þess.
Ég get upplýst ykkur um þá sorglegu staðreynd að afstaðan til ykkar er ömurleg í Brussel. Það er litið niður á ykkur. Daginn sem það lá fyrir að allir bankarnir ykkar höfðu lent í erfiðleikum komu þrír Evrópusinnaðir þingmenn á Evrópuþinginu til mín glottandi hver í sínu lagi: "Jæja Hannan, Íslendingarnir þínir eru ekki beinlínis að gera það gott þessa dagana, ha? Þeir sem hafa viljað standa utan við ESB. Þeir hafa alltof lengi fengið að hafa hlutina eftir eigin höfði, þeir áttu þetta skilið!"
Tilvist ykkar ein og sér sem sjálfstæð og velmegandi þjóð hefur skapað öfund í Brussel. Ef 300 þúsund manna þjóðfélag norður við heimskautsbaug getur náð betri árangri en ESB þá er allur Evrópusamruninn í hættu að áliti ráðamanna sambandsins. Árangur ykkar gæti jafnvel orðið ríkjum sem þegar eru aðilar að ESB hvatning til þess að líta til ykkar sem fyrirmyndar. Það er fátt sem ráðamenn í Brussel vildu frekar en gleypa ykkur með húð og hári.
Þið hafið valið. Þið getið orðið útkjálki evrópsks stórríkis, minnsta héraðið innan þess, aðeins 0,002% af heildaríbúafjölda þess. Eða þið getið látið ykkar eigin drauma rætast, fylgt ykkar eigin markmiðum, skráð ykkar eigin sögu. Þið getið verið lifandi dæmi um þann árangur sem frjálst og dugandi fólk getur náð. Þið getið sýnt heiminum hvað það er að vera sjálfstæð þjóð, sjálfstæð í hugsun og athöfnum sem er það sem gerði ykkur kleift að ná þeim árangri sem þið hafið náð á undanförnum áratugum. Hugsið ykkur vandlega um áður en þið gefið það frá ykkur.
--- --- ---
Höfundurinn Daniel Hannan er þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu. Hann er með bloggsíðu á vef Daily Telegraph hér. Hann hefur skrifað átta bækur um Evrópumál og talar auk móðurmálsins frönsku og spænsku. Hann er með próf í sagnfræði frá Oxford. Meira um hann á Wikipedia.
Greinin á vef Morgunblaðsins: Áskorun til Íslendinga
Í Morgunblaðinu er að hefjast greinaflokkurinn Fréttaskýringar um ESB, Kostir og gallar aðildar.
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Viðskipti og fjármál, Vísindi og fræði, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:19 | Facebook
Um bloggið
Ginnungagap
Ýmislegt
Loftslag
Teljari
Álverð
Sólin í dag:
(Smella á mynd)
.
Olíuverðið í dag:
Nýjustu færslur
- Kínverskur loftbelgur yfir Ameríku, og Amerískur belgur yfir ...
- Vísindavefurinn: Getum við seinkað klukkunni á Íslandi og fen...
- Sjálfstæðisflokkurinn með tæplega 19% meira fylgi en Samfylki...
- Bjarni Sigurðsson harmonikkusnillingur frá Geysi. Fáein orð...
- Hvers vegna valdi Apple ekki Ísland fyrir gagnaver...?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 2
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 66
- Frá upphafi: 764863
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 38
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Tenglar
Ýmsar vefsíður
- Efnisyfirlit pistla
- Lofthiti - Sjávarstaða - Hafís - Sólvirkni... Beintengdir ferlar
- Club du Soleil Greinar um samaspil sólar og veðurfars
- Stjörnufræðivefurinn
- Astronomy Picture of the Day
- Climate4you
- Watts Up With That?
- World Climate Report
- CO2 Science
- The Reference Frame
- Climate-Audit
- ICECAP
- The Air Went
- Science Sceptical Blog
- Roy Spencer
- Friends of Sience
- Prometheus
- Öldur aldanna. Sjaldan er ein báran stök - einnig í veðurfari? (2003) Vefsíða ÁHB
- Gróðurhúsaáhrif eða eðlilegar sveiflur í virkni sólar? (Grein í Lesbók Mbl. 20. júní 1998) Höfundur Ágúst H. Bjarnason
- Er jörðin að hitna?-Ekki er allt sem sýnist (1998) Vefsíða ÁHB
Uppskriftir
Ýmsar mataruppskriftir
Myndaalbúm
Bloggvinir
- majab
- ragu
- amadeus
- andres08
- apalsson
- asabjorg
- askja
- astromix
- baldher
- biggibraga
- bjarkib
- bjarnijonsson
- bjarnimax
- bjorn-geir
- blindur
- bofs
- brandarar
- daliaa
- darwin
- duddi9
- ea
- egillsv
- einari
- einarstrand
- elinora
- elvira
- emilhannes
- esv
- eyjapeyji
- fhg
- finder
- finnur
- fjarki
- flinston
- frisk
- gattin
- geiragustsson
- gillimann
- gretaro
- gthg
- gudmbjo
- gudni-is
- gummibraga
- gun
- gutti
- haddi9001
- halldorjonsson
- halldors
- hlini
- hof
- hordurhalldorsson
- hreinsamviska
- hronnsig
- hugdettan
- icekeiko
- ingibjorgelsa
- jakobbjornsson
- jakobk
- johannesthor
- johnnyboy99
- jonaa
- jonasgunnar
- jonmagnusson
- jonpallv
- jonthorolafsson
- juliusvalsson
- karljg
- katrinsnaeholm
- kikka
- kje
- klarak
- kolbrunb
- krissiblo
- ksh
- kt
- lehamzdr
- liljabolla
- lillagud
- lindalea
- lucas
- maeglika
- maggij
- maggiraggi
- marinomm
- martasmarta
- marzibil
- mberg
- midborg
- minos
- morgunbladid
- mosi
- mullis
- naflaskodun
- nimbus
- nosejob
- omarbjarki
- ormurormur
- palmig
- perlaoghvolparnir
- peturmikli
- photo
- possi
- prakkarinn
- raggibjarna
- rattati
- ravenyonaz
- redlion
- rs1600
- rynir
- saemi7
- sesseljamaria
- sigfus
- sigurgeirorri
- sjalfstaedi
- sjerasigvaldi
- skari60
- skulablogg
- sleggjudomarinn
- stebbix
- steinibriem
- steinnhaf
- stinajohanns
- stjornuskodun
- storibjor
- straitjacket
- summi
- tannibowie
- thil
- thjodarskutan
- throsturg
- toro
- tryggvigunnarhansen
- valdimarjohannesson
- valdinn
- vefritid
- vey
- vidhorf
- vig
- visindin
- vulkan
- kristjan9
- arkimedes
- kliddi
- eliasbe
Eldri færslur
- Febrúar 2023
- Janúar 2019
- Maí 2018
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- Ágúst 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Hvort ætli geti nú gefið okkur marktækari ráð, Daniel Hannan eða Ingibjörg Sólrún? Ég ætla að taka mark á Hannan.
Margar af ræðum hans á Evrópuþinginu eru magnaðar og greinilegt að þar fer maður sem vill veg lýðræðis, réttlætis og góðra stjórnhátta sem mestan. Þá hluti er því miður ekki að finna í Evrópuríkinu.
Haraldur Hansson, 4.1.2009 kl. 16:44
Sæll kæri vinur. Við höfum týnst, best að tengjast á ný. Takk fyrir þennan frábæra pistil sem þú birtir hér, má ég stela honum? ég er rosalega á móti ESB og er að lesa mér til hér og þar. Kær kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 4.1.2009 kl. 18:01
Sæl Ásdís og gleðilegt ár.
Auðvitað er þér frjálst að nota pistilinn, ég nappaði honum sjálfur af Moggasíðunni
Ágúst H Bjarnason, 4.1.2009 kl. 18:15
Ágæta fólk ég hefði líka eindregið viljað benda ykkur á að lesa bókina "Váfugl" eftir Hall Hallsson blaðamann.
Þessi frábæra skáldsaga lýsir með sögulegu ívafi og á sterkan hátt ókostum Stórríkis Evrópu og þeirri spillingu valdsins gegn lýðræðinu sem þar tröllríður öllu.
Jafnframt niðurlægingu þjóðar sem varð aðeins útkjálka fylki í stórríkinu og síðar baráttu þjóðarinnar við að ná fullveldi sínu og sjálfstæði á ný.
Stórgóð bók sem á erindi við alla Íslendinga, ekki bara okkur ESB andstæðinga heldur ekki síst þá sem hafa verið afvegaleiddir af ESB trúboðinu á Íslandi.
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 19:50
Takk Ágúst, gott að tengjat þér aftur.
Ásdís Sigurðardóttir, 4.1.2009 kl. 20:10
Takk fyrir að benda mér á og staðfesta það sem ég taldi mig áður vita. Þessi síða verðskuldar að vera lesin og nýtt til skoðanaskipta.
Kærar þakkir.
Árni Gunnarsson, 4.1.2009 kl. 21:35
Þetta er góður pistill hjá Daniel Hannan. Ég held að það sé rétt hugleiða aðeins það sem hann bendir á með það að það skuli litið niður til Íslendinga í Brussel. Þetta held ég því miður að sé rétt og þá fyrst og fremst að það er litið niður á íslenska stjórnmálamenn og það ekki að ástæðulausu, eins og komið hefur í ljós. Þetta kom glögglega í ljós í atkvæðagreiðslu til Öryggisráðsins og þetta kom einnig verl fram í samskiptunum við Bandaríkin þegar þeir ákváðu að yfirgefa landið. Þá kom glöggleg í ljós hvað við vorum í raun lítils metin og við munum fá ámóta afgreiðslu í Evrópusambandinu. Sem betur fer líta þó flestir Evrópubúar á okkur sem jafningja, eða það gerðu þeir a.m.k. áður en útrásarvíkingarnir settu svartan blett á mannorð okkar. Það mun taka einhvern tíma fyrir íslenskt viðskiptalíf og bankamenn að þvo þetta af sér, en það tekst vonandi verði þeim haldið í hæfilegum skefjum.
Það væri frjóðlegt að fá fram hvað það yrðu margir íslendingar við störf í Brussel ef við gengjum í ESB og hvað það myndi kosta okkur að sækja alla þá fundi og sinna þeim nefndarstörfum sem við þyrftum að taka þá í, ef við gengjum ESB á hönd. Ég hef aðeins komið nálægt einni litilli nefnd varðandi reglur um gæði grjóts í brimvarnir, en hef ekki séð mér fært að sækja þar fundi þar sem ég er ekki opinber starfsmaður! Ég held að við höfum einfaldlega ekki mannskap til að sinna öllu því sem þarf að sinna innan ESB, en það yrði væntanlega griðastaður fyrir uppgjafa stjórnmálamenn og viðskiptajöfra og ég leyfi mér að efast um að þeir bæru hróður okkar víða.
Mér sýnist íslenskir stjórnmálamenn vera með ESB umræðu að reyna að koma sér undan þeim verkefnum sem þeir þurfa til að koma íslensku samfélagi á lappirnar aftur. Ég held að það væri skynsamlegra að snúa sér að því að leysa aðkallandi verkefni innanlands fyrst og síðan eftir 1 - 2 ár mætti kannski fara að huga að ESB málum og kanna hvað þar er að hafa og hvaða fórnir þarf að færa ef gengið er þarna inn.
Ómar Bjarki Smárason, 4.1.2009 kl. 22:05
Það yrði ömurlegt að ganga inn í sambandið á þessum erfiðum tímum í von um að það bjargaði okkur eitthvað. Þessi pistill styrkir mig í andstöðunni við ESB. Ég linka á þetta frá minni síðu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.1.2009 kl. 03:41
Eins og þú veist best er Daniel Hannan fyrst og fremst hreinræktað afbrigði af breskri heimsvaldastefnu og talsmaður þeirra sem vilja að bretar efli frekar hið 70 ríkja Breska samveldi fyrverandi nýlenda Breta í stað samvinnu við Evrópuríki. (Þessvegna tala þeir alltaf um að horfa útfyrir Evrópu það merkir Breska samveldið)
Íslendingar gleyma því svo oft að Bretar eru höfuð breska samveldisins sem á sér mikil og flókin bönd um allan heim - og að berskir íhaldsmenn vilja sumir allt til vinn að efla það fremur en ESB - Því þar eru það Bretar sem mestu ráða auk þess sem þar lifir minningin og vonin um heimsveldisdraumana.
Það er því svo sérlega fyndið og skemmtilega hlægilegt þegar menn uppá litla Íslandi kópera rök bresku heimsveldissinnanna - svo sem að „horfa annað en til Evrópu“, en þar merkir það að horfa í heimsveldisleyfarnar - Breska samveldið. „Heimssýn“ er skýrt í höfuð þessa sjónarmiðs breskra samvelsissinna.
Bersku Samveldis-/heimsveldissinnarnri eru í senn manna mest á móti ESB og mest á móti því að smáþjóðum fjölgi í ESB - því þeir eru jú heimsveldissinar og vilja ekki að smáþjóðir þvælist fyrir þeim í ESB.
Eitt enn sem menn gleyma um bretana er að þegar við háðum þorskastríðin börðust Bretar gegn lögsögum en fyrir hefðarrrétti til veiða - en þeir börðust of lengi því það þeirra eigin barátta og rök hitti þá sjálfa í ESB. Þeir höfðu ekki lokið sínu stríði hér þegar öll Evrópa hafði ákveðið að færa út lögsögu sína og rukkaði auðvitað breta sjálfa um Bresku hefðarréttarstefnu til að fá að veiða í bresku lögsögunni, tapa Breta á rétti yfir eigin lögsögu er því hrein og bein afleiðing af baráttu þeirra við Íslendinga. - Bretar töpuðu því tvöfalt á eigin stefnu. -
Hefðarréttarstefna Breta sjálfra varð ofaná í ESB en með því glötðuðu Bretar sinni eigin fiskveiðilögsögu þar og svo töpuðu þeir fyrir lögsögustefnu Íslendinga gagnvart öllum öðrum og voru því reknir frá Ameríku, Noregi og Íslandi. EN Nú er svo langt um liðið að enginn telst eiga hefðarrétt í íslenskri lögsögu eða íslenska ICES hólfinu nema Ísland.
Helgi Jóhann Hauksson, 5.1.2009 kl. 07:53
Ég held að það sé ekki viturlegt að sækja um aðild rétt á meðan Ísland er á brunaútsölu í hugum margra og þessi grein gott mótvægi við þá sem halda að innganga í ESB sé einhver töfralausn.
Marinó Már Marinósson, 5.1.2009 kl. 08:49
Helgi skrifar "Það er því svo sérlega fyndið og skemmtilega hlægilegt þegar menn uppá litla Íslandi kópera rök bresku heimsveldissinnanna"
Verra þykir mér þegar íslenskir stjórnmálamenn kópera mistök frændþjóðar okkar Svíþjóð. Það er bara ekkert hlægilegt og fyndið.
Hinn almenni svíi dauð sér eftir því að hafa gengið í ESB. Svíþjóð er gjörsamlega búið að glata einkennum sínum, hefðum og þjóðarstolti. Það er ekkert sem heitir að vera sænskur nema þá þegar orðið sænskur er notað sem háðsorð. Svíþjóð er ekkert annað en fjölþjóða samfélag innan ESB. Þökk sé socialdemokratarna = samfylkingar.
Við íslendingar skulum ekki halda að við komum til með að hafa einhvað að seigja til um innan þessarar glæpaklíku evrópu. Ísland yrði ekkert annað en lítið þorp. Hvað varðar Möltu svo ættu menn að rannsaka þeirra stöðu betur innan ESB í málum sem einhvað gildi hefur. Að bera saman Ísland og Möltu er eintóm vitleysa þar að auki. Að öllu mjög ólík lönd fyrir utan að vera smáþjóðir.
Mjög góður pistill.
Asbjörn (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 12:06
Las þessa ágætu grein í mogganum eftir Daniel og ný búinn að lesa bókina Váfugl eftir Hall Hallson hún er hin ágætasta lesning mjög spennandi á köflum,því miður er ég annsi hræddur um að margt í þeirri bók mundi rætast ef við látum glepjast af fagur gala ESB sinna.
Ragnar Gunnlaugsson, 5.1.2009 kl. 14:40
Takk fyrir að sýna mér þetta Gústi, ég missti af þessu í blaðinu. Ég er á móti ESB aðild svo mjög að ég tel að það þurfi nýjan jafnaðarsinnaðan stjórnmálaflokk til að passa upp á sjálfstæði okkar í næstu kosningum.
Eins og staðan er í dag þorir enginn flokkur að lýsa beinni andstöðu við ESB aðild og vilja leyfa meirihluta þjóðarinnar að ráða því með þjóðaratkvæðagreiðslu. Það finnst mér óásættanleg og óábyrg afstaða stjórnmálamanna sem stjórnast bara af óttanum um atkvæðamissi. Auk þess er ljóst að ESB muna neyta aflsmunar með fjárfrekri áróðursstarfsemi hérlendis til að hafa sitt fram. Það verður mjög erfitt að vinna þessa sjálfstæðisbaráttu þegar ESB verður farið að beita sér til fulls í þessu máli.
Haukur Nikulásson, 5.1.2009 kl. 15:09
Ásbjörn, staða Luxemborgar sem verið hefur í ESB frá upphafi er skýrasti lærdómu okkar, engin þjóð er til sem hefur janf mikli áhrif á hvern íbúa og Lúxemborg og hvergi er hagsæld meiri. Malta sýnir okkur svo að jafnvel strax eftir örsutta þátttöku í ESB er sú smáþjóð líka orðin miklu áhrifameiri en áður.
Helgi Jóhann Hauksson, 5.1.2009 kl. 16:47
Helgi. Ég vildi gjarnan trúa því að Ísland myndi ná slíkum áhrifum sem Luxemborg, en það geri ég ekki. Að trúa því er jú blekking ein.
Það er með öllu ómögulegt að bera saman Ísland við Luxemborg. Allt sem þarf til er heilbrigð skynsemi. Ekki stjórnmálalegir draumórar.
Ásbjörn (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 22:10
Höfum í huga að þessi umræða er ekki í tómarúmi séð frá ESB.
Skoðið þessa grein sem Gunnar Rögnvaldsson birtir á heimasíðu sinni um auglýsingakostnað ESB, sem er hærri upphæð en Coca Cola eyðir á heimsvísu.
Ég vill taka það skýrt fram frá mínu sjónarhorni að ég tel með öllu útilokað að nokkur maður á Íslandi fái staka krónu, nei sorry staka Evru, frá ESB til kynningar og ALLS EKKI menn eins og Eiríkur Bergmann, sem eru hreinir hugsjónamenn. Hann myndi ALDREI þiggja neitt. Auk þess er ESB svo mikið hugsjónabandalag að það myndi aldrei greiða mönnum fyrir svoleiðis kynningar. Auðvitað kemur fyrir að ég hafi rangt fyrir mér...en ALLS EKKI um þetta !
Dettur annars einhverjum í hug að ESB sitji á hækjum sér og láti þessa umræðu á Íslandi afskiptalausa ?
Haraldur Baldursson, 6.1.2009 kl. 13:57
Ég er dálítið hiss á að þú endurbirtir þennan pistil. Í honum er mikið um upphrópanir og slagorð en lítið um staðreyndir. Hef litið á þig sem mann staðreynda og leitar að sannleika.
Helsta vandamálið við ESB umræðuna er hvað hún litast af fordómum, í beinni merkingu orðsins. Fordómum sem kryddaðir eru með trúaarlegri sannfæringu. Þetta sést vel í athugasemdunum hér að ofan. ESB leysir allt eða ESB er af hinu illa. Bara finna fleiri upphrópanir til að sanna það. Vitna í fleiri sem segja þetta og sönnunin verður sterkari.
Umræðan virðist því í mörgu vera á sömu nótum og umræðan um hitnun jarðar af mannavöldum. Líklega erum við sammála um oft skortir á gæði umræðunnar þar.
Magnús Waage (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 15:19
Sæll Magnús.
Líklega hefur þú lesið það sem stendur í upphafi pistilsins. Þar stendur:
"Að sjálfsögðu þarf það sem hér fer á eftir ekki að vera skoðun bloggarans. Það er Daniel Hannan sem hefur orðið hér, en bloggarinn telur mjög mikilvægt að kynna sér sjónarmið manns sem gjörþekkir til innviða ESB. Sjálfsagt er að kynna sér allar hliðar þessa mikilvæga máls".
Í lok pistilsins er vísað á nýja greinaflokkinn sem er að hefjast í Morgunblaðinu Fréttaskýringar um ESB, Kostir og gallar aðildar.
Mér er meinilla við einhliða umræður um þessi mál og sérskaklega þegar beinlínis er agnúast við að menn reyni að ræða þau af skynsemi. Umræður virðast oft enda í skætingi. Einnig hve lítið er af efni sem lýsir kostum og göllum við aðild. Þess vegna benti ég á greinaflokkinn í Mogganum sem mér sýnist fara vel af stað.
Ég vildi gjarnan sjá einfalda samantekt á töfluformi þar sem hinir ýmsu þættir eru vegnir og metnir. Hugsa mætti sér að þannig tafla liti einhvern vegin svona út:
(Þetta er auðvitað mjög einfaldað og erfitt að skýra þetta út í athugasemdunum. Ætla samt að reyna...).
# Atriði Núverandi ástand (ESS/Schengen) Aðild að ESB Vægi Einkunn
1) Matvælaverð: Hátt 10% lægra
2) Aðgangur að skólum á ESB svæði: Óbreytt Óbreytt
3) Áhrif á landbúnað: bla..bla.. bla..bla..
4) Áhrif á auðlindir: bla..bla.. bla..bla..
4) Áhrif á sjávarútveg: bla..bla.. bla..bla..
5) Upptaka gjaldmiðils einhliða bla..bla.. bla..bla..
6) Upptaka gjaldmiðils formlega bla..bla.. bla..bla..
7) o.s.frv. ...
Það sem ég er með í huga er einfölduð samantekt á málinu þannig að auðveldara sé að fá yfirsýn, vega og meta.
Það mætti hafa sérstakan dálk þar sem hægt er að setja inn einkunn og annan fyrir það vægi sem maður telur viðkomandi atriði hafa.
Líklega væri einfaldast að stilla þessu upp í Excel sem síðan reiknaði út heildareinkunn fyrir þessa tvo kosti, áðild eða óbreytt ástand, miðað við manns eigin forsendur. Þetta er aðferðafræði sem maður notar stundum í vinnunni þegar verið er að meta kosti og galla í flóknu verkefni.
Ágúst H Bjarnason, 6.1.2009 kl. 16:18
Takk fyrir svarið. Þarna bendir þú á nálgun sem gæti hjálpað.
Einnig þarf að velta fyrir sér hlutum sem erfiðara er að mæla.
Hver er raunveruleg staða smáþjóðar inni í ESB ? Það ætti að vera auðvelt að tala við víðsýnt frólk frá þeim smáþjóðum sem eru þarna inni.
Eru til einhver mælanleg gögn um hvernig þjóðum farnast eftir inngöngu ? Meiri/minni nýsköpun ? Áhrif á þjóðtungu ? Áhrif á stjórnmálaþáttöku ? Áhrif á sjálfsmat þjóða (t.d. í ánægjukönnununm frægu) ? Fjölgar/fækkar smáum og meðalstórum fyrirtækjum ? Fjölgar/fækkar öryrkjum ?
Þá mætti velta fyrir sér hvort einstaklingum farnast betur við nærstjórn eða fjærstjórn. Kostur við nærstjórn er þekking stjórnenda en gallinn að ákvarðanirnar eru oft sértækar. Kosturinn við fjærstjórn er að ákvarðanirnar eru oftast almennar og vel grundaðar en gallinn að þær byggjast á hagsmunum stóra hópsins. O.s.frv. Hafa ákvarðanir (og ákvarðanaleysi) íslenskra stjórnvalda verið þannig að reynslan kalli á meira eða er þeim betur skorin heldur þrengri stakkur ?
Svo má ekki gleyma pólitísku spurningunni. Eigum við að leggja lóð á vogarskálanar í að reyna að byggja upp svona samband. Reyna að hafa áhrif til hins betra. Eða erum við of smá til að hafa áhrif og því best að reyna að spila sóló.
Spurningarnar eru óteljandi og það þarf að reyna að nálgast svörin með opnum huga.
Magnús Waage (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 17:32
Vextirnir yrðu væntanlega lægri
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.1.2009 kl. 19:03
Haraldur, ég hef hvergi séð neinn sérstakan áhuga ESB á okkur eða aðild okkar ef undanskyldir eru Finnar og Norðurlandabúar sem vilja efla sitt lið innan ESB.
-Flestir fulltrúar stærri þjóðanna vilja okkur ekki inn vegna þess að við erum smáþjóð og þeir kvarta undan valdi og áhrifum smáþjóðanna - lang flestir þeirra myndu segja við okkur að EES sé alveg nóg fyrir Ísland einmitt vegna þess að þannig ráða þeir kvað mestu hér án þess að við ráðum neinu þar, þeir senda okkur bara reglur í áskrift sem við höfum engin áhrf á.
- ÞAð eru engin rök til fyrir því að ESB sem heild hafi einhvern sérstakan áhuga á aðild Íslands. - Hvað þá að ESB hafi eitthvað lagt á sig til að fá umsókn frá Íslandi.
- Við eigum hinsvegar bæði rétt og kröfu á aðild að ESB sem Evrópuþjóð og bandamenn okkar meðal Norðurlandbúa og væntnalega þeirra sem líta til okkar sem skoðanabræðra um gildi og áherslur vilja gjarnan hafa okkur með. - Mikilvægustu rök okkar við samningaborðið eru síðan eigin rök og meginreglur ESB í ýmsum fordæmismálum. - Og svo munu þeir ekki nenna að eyða löngum tíma í okkur.
Helgi Jóhann Hauksson, 6.1.2009 kl. 20:52
Sæll Helgi.
Þó við séum bara þorp í þeirra huga, þá er ýmislegt hér að sækja. Landið gefur þó enn all nokkuð af sér. Það er fært um að framleiða all vel og greiða vel í sameiginlega sjóði ESB.
-hér er enn ríkidæmi á ESB'íska vísu.
-er t.d. nokkuð það land evrópskt sem að hefur jafn sterkt lífeysisjóðakerfi, sem að síðast þegar ég gáði eru enn peningar í.
-hér er næg orka virkjuð, sem og óbeisluð...eitthvað er að hafa þaðan.
-fiskur : Bretar, Spðanverjar, Írar, Skotar...þeir hefðu allir áhuga
-landrými : Sumarbústaðir, laxveiðiár,....það eru nóg til af vel stæðum evrópumönnum, sem gætu hugsað sér að eiga einn eða tvo dali á Íslandi.
Svo er líka rúsína í þessari pylsu sem eru mun sterkari líkur á að Norðmenn standi ekki utan ESB án okkar. Þó önnur rök hyrfu þá er sú rúsína ansi safarík.
Haraldur Baldursson, 6.1.2009 kl. 23:05
Taflan sem ég minntist á að gera mætti í Excel í athugasemd númer 20 gæti t.d. litð út eins og á myndinni hér fyrir neðan. Stærri mynd er hér. Taflan reiknar út heildarstig fyrir báða valkostina, og gefur þeim þannig einkunn. Þetta er bara prufa.
Svona yfirlit gæti e.t.v. hjálpað manni til að mynda sér skoðun.
Ágúst H Bjarnason, 7.1.2009 kl. 20:33
Vilji einhver prófa að fikta með Excel skjalið þá ætti það að vera hér.
Ágúst H Bjarnason, 7.1.2009 kl. 20:41
Hér er slóð á annan breskan þingmann sem er í því að afhjúpa spillinguna í EB.
Jón Kristjánsson, 8.1.2009 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.