Evrópusambandið: Að hrökkva eða stökkva...

Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur skrifaði mjög athyglisverða grein í Morgunblaðið 16. apríl. Bloggarinn telur þessa grein eiga brýnt erindi til allra og leyfir sér því að birta hana í heild hér fyrir neðan.

Í greininni kemur ótvírætt fram að nú sé mjög mikilvægt að vera fljótur að hugsa og taka ákvarðanir. Mikið er i húfi.

 

Benedikt spyr:  "Hvað gerist ef þjóðin sækir ekki um aðild að Evrópusambandinu?"

... og svarar:

   1.  Stórfyrirtæki flytja höfuðstöðvar sínar úr landi

   2.  Útlendingar þora ekki að fjárfesta á Íslandi

   3.  Fáir vilja lána Íslendingum peninga

   4.  Þeir sem vilja lána þjóðinni gera það gegn okurvöxtum

   5.  Atvinnuleysi, vaxtaokur og gjaldþrot verða viðvarandi

   6.  Þjóðin missir af Evrópulestinni næstu tíu ár

   7.  Íslendingar verða áfram fátæk þjóð í hafti

 

Greinin er mjög vel skrifuð og rökföst og óþarfi að hafa um hana fleiri orð. 

Vonandi verður grein Benedikts til þess að farið verði að ræða málin af alvöru. Það er ekki seinna vænna, hver sem niðurstaðan verður... Er svar Benedikts við spurningunni "Hvað gerist ef þjóðin sækir ekki um aðild að Evrópusambandinu?" rétt? Til þess að menn geti tekið afstöðu er nauðsynlegt að vita afdráttarlaust um kosti þess og galla að sækja um aðild.

(Leturbreytingar í greininni eru á ábyrgð bloggarans).

 --- --- ---


Benedikt Jóhannesson í Mbl 16. apríl 2006:
 

benedikt_johannesson.jpgStefna stjórnmálaflokkarnir að nýju hruni?

EFTIR nokkra daga verður kosið til Alþingis. Því miður virðist sem stjórnmálaflokkarnir geri sér enga grein fyrir því, að ef ekki er gripið til ráðstafana nú þegar er líklegt að yfir þjóðina dynji annað stóráfall og þjóðin verði um langa framtíð föst í fátæktargildru.

 

Erlendir loddarar tala um að Íslendingar eigi að gefa skít í umheiminn og neita að borga skuldir sínar. Margir virðast telja að slík leið sé vænleg. Enginn stjórnmálamaður talar um það að landið hefur misst lánstraustið og mun ekki endurvinna það fyrr en við sýnum að okkur er alvara með því að vinna með samfélagi þjóðanna.

 

Fjárhættuspil

Forráðamenn og eigendur bankanna lögðu mikið undir í útrásarveðmálinu. Þjóðin var sett að veði án þess að nokkur bæði hana leyfis. Gagnrýnisraddir voru fáar og þeir sem vöruðu við hættunni voru nánast taldir landráðamenn eða kjánar. Árum saman var bent á það að með sjálfstæðum gjaldmiðli væri gífurleg áhætta tekin. Krónan hefur lengi verið rangt skráð. Á velmegunarárunum var hún svo sterk að hér fylltist allt af jeppum og flatskjám, nú er hún svo veik að Austur-Evrópumenn vilja ekki lengur vinna fyrir þau laun sem hér bjóðast.

 

Atvinnuleysi eykst dag frá degi, gengi krónunnar hrapar, vextir eru miklu hærri hér á landi en í samkeppnislöndum og bankarnir eru vanmegnugir. Ríkið þarf að taka mjög há lán og fyrirsjáanlegt er að vaxtagreiðslur verða stór hluti af útgjöldum þess næstu árin. Í ljósi alls þessa er mikilvægt að leitað verði allra leiða til þess að bæta hag íslenskra heimila og fyrirtækja og koma jafnframt í veg fyrir að ástandið versni enn frá því sem nú er.

 

Almenningur á erfitt með að skilja hvert stefnir. Peningar eru hagkerfinu jafnnauðsynlegir og súrefni líkamanum. Nú vilja fáir lána þjóðinni peninga og þeir peningar sem fást eru þá á afarkjörum. Hin einfalda aðgerð »að hætta að borga skuldir óreiðumanna« hefur lamað hagkerfið allt. Í fréttum hefur komið fram að sterkt fyrirtæki eins og Landsvirkjun þarf að endurfjármagna lán innan tveggja ára. Tekst sú endurfjármögnun og verður það á vöxtum sem fyrirtækið ræður við? Hvaða stjórnmálamaður vill stefna framtíð þessa fyrirtækis í hættu?

 

Þjóðin geldur nú fyrir það dýru verði að hafa haldið í gjaldmiðil sem komið hefur heimilum og fyrirtækjum landsins í glötun og leitt til einangrunar. Ráðamenn skelltu áður skollaeyrum við aðvörunum. Ætla þeir að endurtaka leikinn núna?

 

Evran og Evrópusambandið

Með því að Ísland láti reyna á umsókn um aðild að Evrópusambandinu er líklegt að trú umheimsins á landinu vaxi á ný. Nú eru víðtæk höft í gjaldeyrisviðskiptum. Lánstraust íslenskra aðila er mjög lítið.

 

Íslensk fyrirtæki fá ekki afgreiddar vörur erlendis nema gegn staðgreiðslu og erlendir aðilar vilja ekki koma að fjármögnun íslenskra framkvæmda. Allt er ótryggt varðandi endurfjármögnun erlendra lána, eins og margir Íslendingar hafa fengið að reyna að undanförnu. Stór íslensk fyrirtæki íhuga nú, eða hafa þegar ákveðið, að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi til þess að fá traustara rekstrarumhverfi. Ísland er nær vonlaus fjárfestingarkostur meðan ekki hefur verið mótuð nein framtíðarstefna í peningamálum og almennu efnahagsumhverfi. Þessu þarf að breyta og Íslendingar mega ekki hrekja bestu fyrirtæki landsins til útlanda. Nú er þörf á að fjölga störfum en ekki fækka.

 

Sveiflur á gengi krónunnar og hið mikla fall hennar hafa komið mjög illa við bæði almenning og fyrirtæki á Íslandi. Innganga í ES, þar sem stefnt yrði að þátttöku Íslands í evrópska myntsamstarfinu svo fljótt sem auðið er, myndi draga úr óvissu í efnahagsmálum.

 

Síðustu forvöð

Það er ekki bara fyrirsjáanlegt "seinna hrun" sem gerir það að verkum að brýnt er að sækja um aðild að ES. Mjög margt bendir til þess að ef ekki verður gengið til viðræðna þar um á næstu mánuðum geti þjóðin misst af lestinni í allmörg ár. Forsvarsmenn sambandsins hafa lýst því yfir að nú beri að hægja á stækkun þess. Þó er talið að Króatía eigi möguleika á því að komast inn í sambandið áður en lokað verður á inngöngu annarra um skeið og er talið líklegt að bærist umsókn frá Íslandi yrði hún afgreidd á sama tíma. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að á seinni hluta árs 2009 verður Svíþjóð í forsvari í Evrópusambandinu, en líklegt verður að telja að Norðurlandaþjóð myndi styðja hratt umsóknarferli Íslands. Auk þess hefur stækkunarstjóri ES, Olli Rehn, lýst yfir miklum velvilja í garð Íslendinga og sagt að umsókn frá Íslandi yrði afgreidd hratt. Því er brýnt að hefja viðræður meðan viðmælendur hafa ríkan skilning á stöðu Íslands.

 

Sjávarútvegsstefna ES er til endurskoðunar og skal henni lokið fyrir árið 2012. Um leið og Íslendingar lýsa vilja til að hefja aðildarviðræður, verður þeim auðveldara að koma sjónarmiðum sínum um sjávarútvegsstefnuna að. Næsta endurskoðun verður ekki fyrr en árið 2022, þannig að stefnan sem nú verður mótuð mun gilda í 10 ár. Það er ábyrgðarhluti að Íslendingar sitji af sér tækifæri til þess að hafa áhrif í svo miklu hagsmunamáli.

Raunvextir á Íslandi eru nú 10-15% meðan nágrannalöndin hafa fikrað sig nær núllinu við hverja vaxtaákvörðun. Því er staða íslenskra fyrirtækja afar slæm gagnvart erlendum samkeppnisaðilum.

 

Skuldir ríkisins stefna nú í 1.500 milljarða króna. Hvert prósentustig í vöxtum jafngildir 15 milljörðum króna. Ef vaxtaálag lækkar um 3% við það að ganga í Evrópusambandið, eins og ráða má af kjörum lána til ES-ríkja sem eru nú í vanda, sparar það 45 milljarða króna vaxtagjöld á ári. Það er um það bil þriðjungur af fjárlagahalla þjóðarinnar. Hvort telja stjórnmálamenn skynsamlegra að taka upp evru og lækka vexti eða beita sársaukafullum niðurskurði ríkisútgjalda á enn fleiri sviðum en ella?

 

Ekki má gleyma því að í Evrópusambandinu eru okkar helstu bandalags- og vinaþjóðir sem Íslendingar hafa árum saman haft samstarf við innan Atlantshafsbandalagsins, EFTA og EES. Til samningaviðræðna við þessa aðila gengi þjóðin með fullri reisn, fullbúin að láta á það reyna hvað samningaviðræðurnar færðu henni. Það er ábyrgðarhluti að bíða með það, þegar við blasir að slíkt getur leitt til verri vaxtakjara, minni atvinnu, lakara lánstrausts og almennrar vantrúar á þjóðinni, einmitt á tímum þegar trausts er þörf.

 

Hvað gerist ef þjóðin sækir ekki um aðild að Evrópusambandinu?

 

   1.  Stórfyrirtæki flytja höfuðstöðvar sínar úr landi

 

   2.  Útlendingar þora ekki að fjárfesta á Íslandi

 

   3.  Fáir vilja lána Íslendingum peninga

 

   4.  Þeir sem vilja lána þjóðinni gera það gegn okurvöxtum

 

   5.  Atvinnuleysi, vaxtaokur og gjaldþrot verða viðvarandi

 

   6.  Þjóðin missir af Evrópulestinni næstu tíu ár

 

   7.  Íslendingar verða áfram fátæk þjóð í hafti

 

 

Samfylkingin er eini flokkurinn sem vill sækja um aðild að Evrópusambandinu án skilyrða. En loforð stjórnmálamanna hafa reynst haldlítil þegar á reynir. Aðrir flokkar draga lappirnar og setja þannig framtíð þjóðarinnar í stórhættu. Ólíklegt virðist að eftir kosningar verði sótt um aðild tafarlaust eins og þó er lífsnauðsyn.

 

Síðastliðið haust var aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eina haldreipi þjóðarinnar til skamms tíma. Sumir töldu að þjóðinni væri meiri sæmd að því að sökkva en grípa þann bjarghring. Sem betur fer var farið að viturra manna ráðum í því efni. Þeir sem hafna nú Evrópusambandsaðild hafa ekki bent á neina aðra leið úr rústum bankahrunsins.

 

Eina úrræði þjóðarinnar er að taka málin í sínar hendur og krefjast þess að stjórnmálamenn setji málið á dagskrá. Það geta menn gert með því að undirrita áskorun til stjórnvalda á vefsvæðinu   www.sammala.is   þar sem þeir taka saman höndum sem eru sammála um að ríkisstjórnin, sem tekur við völdum að loknum kosningum 25. apríl, eigi að hafa það eitt af sínum forgangsverkefnum að skilgreina samningsmarkmið og sækja um aðild að Evrópusambandinu.


>> Þeir sem hafna nú Evrópusambandsaðild hafa ekki bent á neina aðra leið úr rústum bankahrunsins.

 --- --- ---

 

Dr. Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur stofnaði Talnakönnun árið 1984 og hefur stjórnað fyrirtækinu síðan. Árið 1988 var Talnakönnun breytt í hlutafélag og árið 2000 var Útgáfufélagið Heimur hf. stofnað. Benedikt hefur starfað sem ráðgjafi, einkum í tölfræðilegum og tryggingafræðilegum verkefnum. Hann hefur stýrt Vísbendingu öðru hvoru allt frá árinu 1995. Hann hefur einnig verið ritstjóri blaðsins Issues and Images og Skýja (ásamt Jóni G. Haukssyni).

 

Leiðari Morgunblaðins um grein Benedikts er hér.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég hef ekki enn skilið þennan ótrúlega ótta sem ræðu för hjá þeim sem eru á móti ES. Hræðsluáróðurinn er sterkur og bullið er yfirgengilegt. Grein Benedikts er stórgóð og það mun verða þungur róður fyrir hræðslumeistaranna að andmæla henni með rökum. Enda verður það ekki reynt.

Hjálmtýr V Heiðdal, 18.4.2009 kl. 14:13

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Hvað gerist ef við sækjum ekki um aðild að Evrópusambandinu?

Við verðum bara áfram frjáls og fullvalda þjóð í eigin landi, hér eftir sem hingað til. Það gekk bara prýðilega þar til nokkrir fjárglæframenn settu allt á hliðina á aðeins 5 árum. Og það getur hæglega orðið mjög fínt aftur, menn mega ekki láta þetta áfall byrgja sér sýn.

"Fáir vilja lána Íslendingum peninga" segir Benedikt. Gildir það ekki um alla, alls staðar? Það er kreppa um heim allan og enginn vill/getur lánað neinum peninga. Og að segja að við verðum "fátæk þjóð í hafti" ef við göngum ekki í ESB er fullyrðing sem er ekki svaraverð.

Kíktu á verðið á aðgöngumiðum sem Samfylkingin er tilbúin að greiða. Allt fyrir velferðarbrú til Brussel. 

Haraldur Hansson, 18.4.2009 kl. 17:23

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Gerum kosningarnar að þjóðaratkvæðagreiðslu og kjósum Samfylkinguna. Eini flokkurinn sem hefur götts!

Gísli Ingvarsson, 18.4.2009 kl. 17:31

4 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Haraldur - verðum við ekki frjáls og fullvalda þjóð eftir inngönguna í ES?

Eru Danir ekki frjáls og fullvalda þjóð? Ráða Danir sínum auðlindum? Er Dönum fjarstýrt frá Brussel? Eru vextir lægri í ESB? Er vöruverð lægra í ESB?

Er betra fyrir Íslendinga að vera utan ESB en taka við reglugerðum án þess að hafa minnstu möguleika á að hafa áhrif á gerð þeirra?

Er Evran traustari gjaldmiðill en ísl. krónan? Hafa Íslendingar kannað stöðuna og möguleikana með aðildarviðræðum?

Er andstaða þín,Haraldur, byggð á ofurtúa á íslensku lýðræði, íslenskum stjórnmálavitringum?, íslenskum efnahagssnillingum?, íslenskum útrásarvíkingum (lesist: fjárglæframönnum)?

Hvað kostar aðgöngumiðinn sem þú vísar til?

Hjálmtýr V Heiðdal, 18.4.2009 kl. 18:08

5 Smámynd: Haraldur Hansson

Hjálmtýr: Nei, við verðum ekki fullvalda þjóð eftir inngöngu í ESB. Ekki í þeim skilningi að hafa fullt vald yfir eigin velferð. Það er þess vegna sem það þarf að breyta stjórnarskránni. Það er ekki upp á grín, heldur til að gefa heimild til að framselja valdið til yfirþjóðlegrar stjórnar í Brussel.

Danir eru frjáls þjóð, vissulega. Þeir eru það í þeim skilningi að þeir eiga landið sitt, tala dönsku, flagga danska fánanum, spila landsleiki í íþróttum o.s.frv. o.s.frv. Það verður aldrei tekið af þeim og ekki heldur menning þeirra eða saga, ekki frekar en af öðrum þjóðum innan ESB. En þeir eru ekki fullvalda.

Einu málaflokkarnir sem Danir hafa (næstum) fullt vald yfir eru utanríkis- og varnarmál, skattamál og dómsmál (criminal justice). Með tilkomu Lissabon samningsins breytist þetta varðandi utanríkis- og varnarmál. Og það eru sterk teikn um að "samræming" í skattamálum sé á næsta leiti, með tilheyrandi tilfærslu valds til Brussel. Á sama hátt og að nú á að flytja löggjöf á sviði orkumála frá aðildarríkjunum til Brussel. Valdið þar eykst, hægt og bítandi.

Fyrir sum lönd kann að vera góður kostur að "deila fullveldi sínu" eins og það er kallað, á sínum forsendum. T.d. Pólverja og Finna í ljósi hernaðarsögunnar. Fyrir okkur er það ekki.

Það er beinlínis rangt hjá þér að við séum að "taka við reglugerðum án þess að hafa minnstu möguleika á að hafa áhrif á gerð þeirra".  Kannaðu afgreiðsluferlið. Fyrst hina þriggja þrepa afgreiðslu EFTA, síðan sameiginlegu EES nefndina. Þetta er áður en þau hljóta afgreiðslu á Evrópuþinginu. Síðan afgreiðsla Alþingis að því loknu. Ég dreg stórlega í efa að aðild að ESB færði okkur betri stöðu þó sæti í ráðherraráðinu væri vissulega stór plús. 

Það má deila um hversu góður gjaldmiðill evran er. Hún er ekki að gera sig fyrri margar af evru-þjóðunum þessa stundina. En hún er án efa "sterkari" en íslenska krónan. En hún mun alltaf taka mið af efnahag fjölmennra iðnríkja og ekki henta vel fyrir Ísland, fámenna þjóð þar sem fiskveiðar verða þungamiðjan í fyrirsjáanlegri framtíð. Ekkert frekar en að norska "olíu-krónan" passi fyrir okkur.

Ég hef ekki "ofurtrú" á neinu. En ég hef trú á Íslandi, á lýðræðinu, á landsins gæðum, á því að við getum endurreist gott þjóðfélag. Þó að "stjórnmálavitringar" hafi ekki staðið sig vel síðasta áratuginn eða lengur, þá bætum við ekki úr því með því að flýja í fang erlendra stjórnmálavitringa í Brussel. Ekki láta þér detta það í hug að þeir séu skárri. Það er mun gæfulegra að hafa trú á því að við getum lært af reynslunni og gert betur. Þeirri trú má aldrei týna. Hún er það fyrsta sem týnist ef við göngum í Evrópusambandið.

Aðgöngumiðinn sem ég nefndi heitir IceSave. Held að þú þekkir það dæmi.

Það versta sem við getum gert í þessari kreppu er að gefast upp. Innganga í ESB er eitruð blanda af uppgjöf og úrræðaleysi. Hún mun alltaf leiða til tjóns. Kannski ekki strax, en hún mun gera það.

Haraldur Hansson, 18.4.2009 kl. 18:54

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

ESB eru samtök frjálsra og  fullvalda ríkja. Það er morgunljóst hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að ef við viljum áfram teljast til frjálsra og fullvalda ríkja, þá er það okkar eini færi kostur að sækja um aðild að ESB, laga okkur að þeirri peningastefnu sem þar er framfylgt, fara inn í þeirra regluverk og taka upp þeirra gjaldmiðil. Ég er algjörlega samfærð um að umsókn um ESB er leiðin sem við eigum að fara og við förum hana, sannið þið til.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.4.2009 kl. 20:05

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ágúst vissulega gott að fá þessa grein hér inn og ég er sammála þér með þessi grein hlýtur að vekja til alvöru umræðna

Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.4.2009 kl. 20:12

8 identicon

Ég sé nú ekki að mikil rök séu að baki greininni.  Liðirnir sem hann tiltekur 1-7 eru aðallega ágiskanir.  Hann virðist telja að hrunið stafi af krónunni.  Ég hélt að það stafaði af mjög mörgu öðru.  Getum þó með sanni sagt að við komumst í þá stöðu að verða ein ríkasta þjóð í heimi með þennan litla gjaldmiðil.  Sveiflur í efnahagslífinu hljóta að stafa af einhæfu atvinnulífi og sveigjanlegur gjaldmiðill tekur höggin.  Betra að mínu mati en að atvinnuleysi verði mælikvarði á sveiflur.  Hvort við eigum að greiða skuldir eða ekki snýst um hvort við getum það eða ekki.  Lánstraust yfirveðsetts skuldara er lítið.  Lán fá þeir sem geta greitt.  Þetta er eins og gengur og gerist.  Sá sem lendir í að þurfa að semja niður skuldir síinar getur gerst traustur lántakandi síðar.  Sá sem er þrautpíndur til að greiða skuldir sem hann ræður ekki við fær aldrei lán aftur.  Það að nú séu dyr að lokast og muni ekki opnast aftur um langa hríð er dæmigerður hræðsluáróður.  ESB mun að sjálfsögðu vilja hvenær sem er komast yfir okkar miklu auðlindir, fiskinn, jarðhitann, vatnið, staðsetningu við dyr norðurleiðar, olíumöguleika o.fl.

Ég ætla ekki að reikna mig inn eða út gagnvart þessu sambandi.  Finnst ekki að málið snúist um skammtímahagsmuni í krónum og aurum.  Hef einfaldlega ekki áhuga á þessu regluverki embættismanna og vil ekki vera búsettur á hjara Evrópuríkis.  Þetta byggist á því að ég trúi því að við getum mjög vel náð toppárangri á eigin forsendum og þess lands sem við byggjum rétt eins og við höfum gert á skemmri tíma en flestar aðrar þjóðir.  

Elvar E (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 23:18

9 Smámynd: Sturla Snorrason

Það má vel vera að ESB aðild auðveldi fjárglæframönnum lífið, en fyrir þjóðina í heild yrði hún stór mínus!

Skrítin tilviljum að Samfylkingin skuli vera óð í ESB aðild.

Sturla Snorrason, 20.4.2009 kl. 23:01

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Í greininni varpar Benedikt fram einni spurningu:  "Hvað gerist ef þjóðin sækir ekki um aðild að Evrópusambandinu?" og svarar henni í 7 liðum.   Ég hefði átt von á að einhverjir svöruðu þessari spurningu og gagnrýndu með rökum svör Benedikts, lið fyrir lið. Það hefði skýrt málið og verið gagnlegt. 

Því miður eru umræður um aðild að ESB mjög ómarkvissar og lítið um að þau séu rædd af alvöru. Ég hefði viljað sjá ítarleg rökstudd svör við báðum spurningunum, og síðan rökræður:

  1)  "Hvað gerist ef þjóðin sækir ekki um aðild að Evrópusambandinu?"

  2) "Hvað gerist ef þjóðin sækir um aðild að Evrópusambandinu?"

Ágúst H Bjarnason, 21.4.2009 kl. 07:22

11 identicon

Ég er ansi hræddur um að enginn viti hvað gerist, hver afleiðingin raunverulega verðurhvor leiðin sem verður farin.

"The law of unintended consequences" -Hagfræðilögmálið um hinar ófyrirséðu afleiðingar (http://en.wikipedia.org/wiki/Unintended_consequence) segir okkur að það seu alltaf hætta á að ráðstöfun eða ákvörun í stóru og flóknu máli eins og þessu, geti haft gríðarlegar, ófyrirséðar afleiðingar.

Flækjustigið er svo mikið að enginn getur nákvæmlega spáðum útkomuna. Við komum aldrei til með að geta spáð um afleiðingarnar því við vitum ekki allar forsendur og ýmislegt getur gerst annars staðar sem leiðir til breytinga á aðstæðum og afleiðingum. Dæmi sem gjarnan er notað er Versalasamningurinn. Ef hann hefði ekki lagt svo miklar byrðar á Þjóðverja á hefði önnur heimstyrjöldin aldrei farið af stað á þann hátt sem hún gerði og útkoman orðið önnur. Því má segja að

Versalasamningurinn hafi haft þessa ófyrirséðu afleiðingu.

Skýrasta sönnun þess að enginn(!) getur spáð með nægilegri vissu um útkomuna varðandi aðld Íslands að EB er hversu misvísandi skoðanir eru ráðandi jafnvel innan fagstétta. Benedikt skrifar ágætlega og ærlega en af tilfinningahita og grein hans er eins "áróðurskennd" og hver önnur, úr hvorri skoðanaáttinni sem er.

Ákvarðanatöku sem þessa á að mínu áliti að byggja á sameiginlegri vinnu færustu sérfræðingum sem beðnir eru um, faglega bestu niðurstöðu ("consensus").

Það þýðir ekkert að hlusta á endalausan tilfinningaþrunginn koddaslag misviturra pólítíkusa og einstakra sérfræðinga sem hver í sínu lagi hafa mikið til síns máls að sjálfsögðu. Þjóðin er ráðvillt og illa upplýst.

Stofna mætti (ætti!) til fjölþjóðlegrar ráðstefnu sérfræðinga, svipað og gert er við loftslagsmálin (úff...) og fela fjölbreyttum "panel" að komast að niðurstöðu sem lögð verði sem ráðlegging til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. Auðvitað er hægt að gagnrýna slíka leið og segja eins og afi minn í vísunni hér fyrir neðan, en þetta tel ég vera einu skynsömu leiðina til þess að þjóðin fái haldgóða ráðleggingu um hvert skútunni ætti að stýra.

Illa bítur orða stálið

algengast er það

að halda fund'og hugsa málið

og hafast ekkert að

Afi minn (Geir Gunnlaugsson bóndi) var nokkuð hagmæltur fór oft með þessa frábæru vísu og ég held ég geti fullyrt að hún sé eftir hann. Mér finnst hún eiga vel við og kasta henni því fram

með bestu kveðjum

Björn Geir

PS. Ég hef tamið mér að lesa ekki inlegg sem ekki eru undir fullu nafni. Reynslan er að maður missir ekki af neinu.

Björn Geir Leifsson (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 08:57

12 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Óstjórn undanfarinna ára hefur leitt til þess að við höfum ekkert val lengur. Við neyðumst til að fara inn í ESB.

Mér finnst að einn stærsti kosturinn við aðild að ESB gleymist í umræðunni. Með aðild myndu völd íslenskra stjórnmálamanna minnka. Í ljós reynslu undanfarinna ára hlýtur það að teljast kostur.

Finnur Hrafn Jónsson, 21.4.2009 kl. 11:24

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Óstjórn undanfarinna ára hefur leitt til þess að við höfum ekkert val lengur. Við neyðumst til að fara EKKI inn í ESB".

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.4.2009 kl. 11:50

14 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Björn Geir.

Ég held að ég hljóti að vera þér sammála. Svarið við þessum einföldu spurningum
 
  1)  "Hvað gerist ef þjóðin sækir ekki um aðild að Evrópusambandinu?"

  2)  "Hvað gerist ef þjóðin sækir um aðild að Evrópusambandinu?"

er ótrúlega flókið, það flókið að ekki er hægt að ætlast til þess að venjulegt fólk geti svarað þeim. Pólitíkusar hafa alls ekki meiri möguleika til að svara af einhverju viti, þó þeir láti í það skína að þeir viti svarið. Að gefa til kynna að svarið sé einfalt gefur fyrst og fremst til kynna að viðkomandi viti ekki svarið.  Sjálfum finnst mér ég vera algerlega í lausu lofti varðandi þetta stórmál.

Þetta er auðvitað miklu flóknara en að meta kosti þess og galla að sameina fyrirtæki eins og ég þurfti að gera á nýliðnu ári. Þá var stillt upp fjölmörgum atriðum og reynt að meta hvert fyrir sig og gefin einkunn. Meðaleinkunnin gaf þá einhverja hugmynd um við hverju mætti búast. Aðferðafræðin reyndist góð, því þá var það ekki bara hjartað eða brjóstvitið sem réði. Síðan fengum við góða sérfræðinga til að meta fyrirtækin, o.s.frv.

Ég hlýt að vera sammála því sem þú segir:

"Ákvarðanatöku sem þessa á að mínu áliti að byggja á sameiginlegri vinnu færustu sérfræðingum sem beðnir eru um faglega bestu niðurstöðu...Stofna mætti (ætti!) til fjölþjóðlegrar ráðstefnu sérfræðinga, ... og fela fjölbreyttum "panel" að komast að niðurstöðu sem lögð verði sem ráðlegging til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu.   Þannig gæti líka almenningur betur gert upp hug sinn af einhverju viti þegar til þess kemur að greiða atkvæði".

---

Það er gaman að vita um ætt þína Björn Geir.  Spjalla við þig um hana seinna :-) 

Sammála þér varðandi nafnlausu innleggin. Mér leiðast þau.

Ágúst H Bjarnason, 21.4.2009 kl. 12:13

15 Smámynd: Haraldur Hansson

Þetta eru orðin hin ágætustu skoðanaskipti. Ég svaraði stuttlega fyrri spurningunni í athugasemd númer 2 og í lok þeirrar númer 5.

En ég vil gera smá athugasemd við það sem Finnur Hrafn segir (14):
Óstjórn hefur leitt til þess að við neyðumst til að fara í ESB. Stærsti kosturinn er að þar með myndu völd íslenskra stjórnmálamanna minnka.

Þetta er hættulegur hugsunarháttur. Stórhættulegur. Því miður skiljanlegur samt í ljósi umræðunnar síðustu mánuði. Það þarf að hafa í huga hversu gríðarlega stór ákvörðun þetta er. Innganga í ESB er ekki eins og að gera verslunarsamning eða sameina fyrirtæki. Með henni er verið að færa löggjafarvald og forræði á ýmsum (flestum) málum úr landi. Það að tilteknir stjórnmálamenn hafi staðið sig illa dugir ekki til að réttlæta það.

Um leið og valdið er komið langt frá þegnunum minnkum við áhrif á eigin velferð og örlög. Þó það líti sakleysislega út fyrstu árin, jafnvel áratuginn, mun það koma í bakið á okkur á endanum. Einhvern tímann, þegar kreppan er búin og gleymd, munum við finna fyrir að inngangan snýst um annað og meira en evruna og fiskimiðin. Hún er hápólitísk. Þá getur verið orðið of seint að bakka út aftur. Besta vörnin er að ganga aldrei þarna inn.

Haraldur Hansson, 21.4.2009 kl. 12:50

16 identicon

Það er rétt að taka áskorun gestgjafans og svara spurningunum.  Athugið að ég er enginn sérstakur áhugamaður um að taka svona ákvörðun sem varðar mjög langan tíma á skammtíma reikningslegum forsendum.  Finnst það alls ekki rétt og byggi mína skoðun á því að okkur hefur gengið mjög vel hingað til þrátt fyrir núverandi vandræði.  Á ennþá eftir að sjá neyðina sem rekur okkur.

1.  Hvað gerist ef þjóðin sækir ekki um?  Mín skoðun er sú að við munum vera í lægð um tíma.  Þurfum að semja okkur út úr Jöklabréfum og losna við þau.  Á meðan verður gengi krónunnar lágt og gjaldeyrishöft við lýði.  Vegna lágs gengis krónunnar verður hagkvæmara að vinna ýmis störf innanlands.  Störf sem hafa farið út á undanförnum árum.  Erlendar vörur verða dýrar og þjóðin sparar og framleiðir.  Þannig mun hún ná sér hratt á strik greiða niður skuldir og með tímanum styrkist krónan og allir njóta þess.  Á meðan fáir stórir atvinnuvegir ráða ferðinni verður alltaf hætta á sveiflum í afkomu þjóðarinnar.  Krónan mun taka þær sveiflur og verða óvinsæl af og til.  Krafturinn í samfélaginu og tækifærin blómstra í kreppum vegna hennar.  Við munum setja okkar eigin lög og reglur að miklu leyti, semja við aðrar þjóðir um viðskipti.  Áfram mun verða hér dafnandi þjóð sem þarf að standa ölduna á úthafinu saman og samtaka.

2.  Hvað gerist ef við sækjum um og fáum aðild?   Held að fyrsta setningin sé mjög svipuð og að ofan.  Kanski fáum við einhvern ímyndarlegan styrk við að fara í ferlið.  Munum áfram búa við Krónu og hún mun vinna sitt gagn á lágu gengi.  Til lengri tíma litið óttast ég að sveiflur hinna ráðandi atvinnuvega muni hafa mikil áhrif.  Með Evru munu niðursveiflur valda atvinnuleysi í þeim greinum sem í þeim lenda auk ýmisrar þjónustu í kringum þær.  Þar sem gjaldmiðillinn bregst ekki við og höfuðstöðvarnar í Evrópu koma ekki færandi hendi með úrræði (eins og sést um þessar mundir t.d. Spánn o.fl) þá verður atvinnuleysið mun langvinnara og hittir ákveðna hópa og landshluta illa.  Tækifærin sem áður birtust með gengissveiflunum láta á sér standa þar sem samkeppnishæfnin lagast ekkert í kreppunum.  Margir munu sjá hag sínum betur borgið í stórborgum Evrópu þar sem er þægilegra að vera á atvinnuleysisbótum.  Viss stöðugleiki kemur líka og það er auðvitað kostur.  Honum fylgja tækifæri sem ég er reyndar ekki viss um að eigi þá heima hér frekar en úti í Evrópu.  Náttúruauðlindir okkar munu þó veita tækifæri eftir sem áður, en spurning hver ræður yfir þeim þegar Evrópa verður orðið að Bandaríkjum Evrópu eins og víða er stefnt að.

Íslendingar munu una yfirþjóðlegu valdi illa.  Þeir munu kvarta yfir áhuga- og skilningsleysi einhverra Evrópuþingmanna sem valta yfir okkar fáu og smáu þingpeð á Evrópuþinginu.  Ósveigjanlegt og vaxandi regluverk, samið af vanþekkingu á aðstæðum verður okkur þyrnir í augum og þetta verður hundleiðinlegt.

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 21:12

17 identicon

Mig langar að benda á þessar þrjár greinar.  

Fyrst þessa

http://vald.org/greinar/090411.html

frá Vilhjálmi Árnasyni og hann bendir á þessar tvær;

http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/862

og

http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/862

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 09:50

18 Smámynd: Steinn Hafliðason

Svo ég svari lið nr 5 um atvinnuleysi. Á Íslandi hefur atvinnuleysi verið umtalsvert minna en í meðaltal evrópusambandsríkja í gegnum tíðina. Þrátt fyrir að við séum með þetta mikla atvinnuleysi er það í kringum meðaltal evruríkjanna. Það vekur reyndar sérstaka athygli mína að það virðist vera meira atvinnuleysi meðal evruríkjanna en annara ESB ríkja.

Ég veit ekki af hverju atvinnuleysi ætti ekki að minnka á komandi árum þegar við förum að vinna okkur út úr kreppunni eins og mun væntanlega gerast í flestum eða öllum evrópuríkjum, það hefur alltaf gert á Íslandi eftir niðursveiflur. Lítið atvinnuleysi er eitt af einkennum okkar litla og sveigjanlega hagkerfis.

Mér finnst þessi grein og fullyrðingar um afleiðingar þess að ganga ekki í ESB vera mikill hræðsluáróður og ekki eiga mikið erindi sem akamedískar túlkanir á staðreyndum.

Steinn Hafliðason, 22.4.2009 kl. 15:02

19 Smámynd: Anna

Benedikt segir vikilega mart med viti.

En Kiktu 'a tetta http://uk.news.yahoo.com/18/20090422/tsc-scientists-find-most-earth-like-exop-50a9c9d.html

'Eg vona ad tu getir opnad tennan link.

Anna , 22.4.2009 kl. 18:51

20 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir athugasemdirnar öll sömul.  Vonandi berum við gæfu til að taka rétta ákvörðun og vinna vel úr okkar málum. Það er ljóst að ástandið er gríðarlega alvarlegt og að við þolum engin mistök. Hvert skref sem við tökum verður að vera vel ígrundað af færustu sérfræðingum, ekki pólitíkusum.

Ágúst H Bjarnason, 23.4.2009 kl. 21:28

21 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég hef ekki tekið afstöðu í þessu máli. En þetta eru bara fullyrðingar hjá Benedikt sem hann rökstiður ekki vandlega eins væri nauðsynlegt með jafn alvarlegar staðhæfingar. Það er því nokkuð til í því að greinina megi fremur flokka sem áróður en rökgrreining, sem sé hræðsluáróður.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.4.2009 kl. 10:20

22 Smámynd: Magnús Jónsson

Ágúst: mér sýnist men vera að setja hlutina upp á undarlegan hátt.

1. stóru fyrirtækin fara frá landinu?, hvers vegna, skattar eru tiltölulega lágir hér og launakostnaður hefur hrapað að undanförnu, það sem er að í augnablikinu eru tímabundin gjaldeyrishöft, til að koma í veg fyrir óðagot fjármagnseigenda.

2. Erlend fyrirtæki þora ekki að fjárfesta hér á landi?, með hvaða fjármagni eiga erlend fyrirtæki að fjárfesta hér, það er ríkjandi upplausn á alþjóða peningamarkaði, allir verðbréfamarkaðir heimsins haf fallið um meira en helming, neyðarfundir hafa verið haldnir hjá öllum stærstu þjóðum heims, og svo koma svona spekingar og tal eins og Ísland sé eina landið sem orðið hefur fyrir hnekki.

3. fáir vilja lána?, maðurinn hlýtur að vera að grínast, sárafáir geta lánað er það sem er að gerast, alþjóðagjaldeiðissjóðurinn gengur betlandi á milli stórþjóðanna meðal annars.

4. engin vil lána nema með okurvöxtum?, hér er einfaldlega í gangi lögmál markaðarins, framboð og eftirspurn ráða vöxtum, mikil eftirspurn + takmarkað fé fjallháir vextir, en auðvitað vita sprenglærðir men þetta eða hvað.

5. atvinnuleysi, vaxtaokur, gjaldþrot?, atvinnuleysi fylgir óumflíanlega svona hamförum eins og við erum að fara í gegnum, samt er það svo að við erum ennþá með meirihlutann af þeim útlendingum í vinnu sem við fluttum inn til að vinna það sem við eru of fín til að gera, vaxtaokur stafar af óstjórn í fjármálum og því sem bent var á í lið 3 og 4, Gjaldþrot eru óumflanlegur fylgifiskur þess að lána mönnum fé sem kunna ekki með það að fara, talað er um að þúsundir fyrirtækja fari á hausinn, en hve mörg þúsund fyrirtæki voru stofnuð án raunverulegs rekstrargrundvallar.

6. missum af ESB lestinni næstu tíu árin?, og hvað með það? sitt sýnist nú hverjum um það ágæta samband, ákvörðun um aðild að slíku þarf að taka af yfirlögðu ráði en ekki með æðibunugangi eða hreinu ofríki, það eitt er alveg víst að aðild að ESB breyti nánast engu fyrir okkur í þeim hremmingum sem við stöndum  í hér og nú.

7. verðum áfram fátæk þjóð????, Ísland er ein af ríkustu þjóðum heims, jafnvel eftir allt sem á undan er gengið, og nánast allir þeir erlendu sérfræðingar sem hingað hafa komið, segja að það taki okkur hugsanlega skemmri tíma en aðrar þjóðir að  rétta úr kútnum, og tala þá gjarnan um 2 til 3 ár, einmitt vegna þess hve landið er auðugt, við eru langt frá því að vera fátæk svo mikið er víst.

það sem mér finnst verst er það að varla hefur verið hægt að toga upp úr ESB sinnum, hvað það er í raun sem við fáum í staðin fyrir okkar framlag, annað en að við mundum öðlast traust? á alþjóðavettvangi?, ekki get ég skorpið á bílnum mínum til Pólands að versla í matinn, við erum eyja út í miðju Atlantshafi, innganga í ESB breytir því ekki, og ef við erum svo smá að við þurfum að ganga til liðs við ríkjabandalag má þá ekki alveg eins sækja um að verða fylki í USA, eða Hérað í Kína, svo eitthvað sé nefnt.

Magnús Jónsson, 24.4.2009 kl. 12:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband