Jón Daníelsson og Kári Sigurðsson: Mistök íslensku samninganefndarinnar...

"Svo illa hefur tekist til að samninganefndin hefur aukið skuldbindingar Íslands um tugi milljarða króna. Greining á greiðsluþoli Íslands sýnir að líkur á þjóðargjaldþroti eru mun meiri er yfirvöld vilja vera láta"

(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 11 júlí og er eftir Dr. Jón Daníelsson prófessor við London School of Economics og Dr. Kára Sigurðsson við Háskólinn í Reykjavík. Í greininni koma fram nokkur mjög alvarleg atriði sem bloggaranum þykir rétt að halda til haga og íhuga vel, enda gríðarmikið í húfi. 

Nú er bráðnauðsynlegt fyrir alla að staldra við og flana ekki að neinu. Mistök á mistök ofan hafa verið gerð alla tíð frá bankahruninu, en mistök nú geta riðið þjóðinni að fullu. Hvaða sannur Íslendingur vill eiga þátt í slíku? Okkur ber skylda til að nýta okkur þekkingu og reynslu færustu innlendra sem erlendra sérfræðinga í þessu erfiðasta máli íslandssögunnar).

 

 

 jon-danielsson.jpgkari-sigur_sson.jpg

Dr. Jón Daníelsson
London School of Economics

 

 Dr. Kári Sigurðsson
Háskólinn í Reykjavík

 

 

 

 

 

 

Mistök íslensku samninganefndarinnar                 

"GREINARGERÐ og fylgiskjöl með Icesave-samningnum virðast sýna að íslensku samninganefndinni yfirsáust þýðingarmikil atriði Íslandi til hagsbóta í deilunni við Breta og Hollendinga. Samningarnir taka ekki »tillit til hinnar fordæmalausu stöðu Íslands« eins og haldið er fram í greinargerðinni. Þvert á móti er Íslandi gert að kyngja nánast öllum kröfum Breta og Hollendinga ásamt því að greiða kostnað þessara landa af deilunum.

 

Rök Íslands sem ekki koma fram
Hér verður ekki dvalið við hvort krafan á íslenska ríkið vegna Icesave-reikninganna sé réttmæt eða ekki enda var samninganefndinni fyrirskipað af stjórnvöldum að ganga að því sem gefnu. Nefndinni virðast hins vegar hafa yfirsést eftirfarandi lykilatriði:

1. Það er gríðarlega mikilvægt að neyðarlögin sem sett voru af Alþingi síðastliðið haust standist. Annars eiga mun fleiri kröfur í þrotabú Landsbankans og Ísland fær miklu lægri upphæð greidda úr búinu. Standist lögin ekki má áætla á grundvelli gagna frá Landsbanka að Ísland endurheimti 29% í stað 75% af kröfum á bankann. Mælt í krónum fengjust því aðeins 314 milljarðar króna, ekki 814 milljarðar eins og gert ráð fyrir í greinargerðinni. Icesave-samningurinn ætti að hafa skýr endurskoðunarákvæði ef í ljós kemur að neyðarlögin halda ekki.

2. Samkvæmt íslenskum lögum getur Tryggingasjóður dregið í allt að eitt ár að borga út vegna innistæðutrygginga. Vegna aðstæðna heima fyrir ákváðu Bretar og Hollendingar að borga innistæðueigendum strax í desember síðastliðnum að Íslendingum forspurðum. Nú krefjast þeir vaxta frá desember uppá 30 milljarða króna þrátt fyrir að Ísland hefði getað frestað greiðslum fram til október á þessu ári. Samninganefndin hefði átt að hafna þessum vöxtum afdráttarlaust.

3. Icesave-samningurinn er í evrum og sterlingspundum. Samkvæmt neyðarlögunum á Tryggingasjóður rétt á að greiða innistæðutryggingu hvort sem er í erlendum gjaldeyri eða íslenskum krónum. Gengi krónunnar ætti að miðast við 6. október í fyrra, daginn sem FME notaði í staðfestingu á greiðsluþroti Landsbankans, en þá var gengið sterkara en það er í dag. Með Icesave-samningnum er þessi réttur gefinn upp á bátinn og miðað við núverandi gengi krónunnar er tap Íslands vegna þessa a.m.k. 43 milljarðar króna. Samkvæmt heimasíðu skilanefndar Landsbanka má sjá að rúm 11% af eignunum eru í íslenskum krónum og því til viðbótar er greiðsla frá NBI, nýja Landsbankanum, áætluð 284 milljarðar króna sem líklegt er að verði í greitt krónum. Það er því rangt sem formaður samninganefndarinnar hélt fram í Morgunblaðsviðtali að »allar eignir Landsbankans [væru] í erlendum gjaldeyri«.

4. Samkvæmt greinargerð með Icesave-frumvarpinu eru Icesave-lánin skráð á Tryggingasjóð svo þau teljist ekki með skuldum ríkissjóðs næstu sjö árin. Hugmyndin virðist vera sú að lánshæfismatsfyrirtækin S&P og Moody's líti framhjá Icesave-lánunum þegar þau veita ríkinu lánshæfismat. Þessi hugmynd byggist á mikilli vankunnáttu á matsaðferðum þessara fyrirtækja því þau greina allar skuldbindingar ríkisins, beinar og óbeinar.

5. Til að verja stöðu Íslands næstu árin væri það lykilatriði að binda afborganir og/eða vexti af Icesave-samningnum við verga landsframleiðslu eða útflutningsverðmæti. Þannig væri tekið tillit til »fordæmalausrar aðstöðu Íslands«, lánshæfismat landsins varið og grunnurinn lagður að endurreisn hagkerfisins. Þetta er líka mikið hagsmunamál Breta og Hollendinga því þeir græða ekkert á að rukka landið um hærri fjárhæðir en það getur staðið undir.

 

»Kaffiboð með skyldumætingu«
Samningurinn inniheldur endurskoðunarákvæði sem á að veita Íslendingum vörn ef mál þróast illa í framtíðinni. Venjulega þýða slík ákvæði að samningur verður ógildur og aðilar semja á ný sín á milli. Í Icesave-samningnum segir hins vegar að við ákveðnar aðstæður »verði efnt til fundar og staðan rædd og íhugað hvort, og þá hvernig, breyta skuli samningi«.

Það hvílir því engin skylda á Bretum eða Hollendingum að breyta samningnum, bara að mæta á fund. Sérfræðingur erlendis sem við bárum þetta undir kallaði ákvæðið »kaffiboð með skyldumætingu«.

 

Kostnaður fellur á Ísland
Í greinargerðinni er tekið fram að »sanngjarnt væri að byrðin af því að [regluverk Evrópuríkja um innistæðutryggingar] hefði brugðist yrði borin sameiginlega«. Í lánasamningnum við Breta segir að Íslandi beri að bæta breska tryggingasjóðnum »kostnað sem þegar er fallinn til og mun falla til«. Samsvarandi ákvæði er að finna í hollenska samningnum. Kostnaðurinn er ekki skilgreindur nánar en ekki verður annað skilið en Ísland ber allan kostnað landanna þriggja við úrlausn þessarar deilu. Hann hlýtur að hlaupa á hundruðum milljóna króna miðað við þá lögfræðivinnu, ferðalög og fundi út um alla Evrópu sem Icesave-deilurnar hafa valdið. Það ætti að vera krafa Íslands að hvert land beri eigin kostnað.

 

Greiðslugeta Íslands óljós
Greinargerð frumvarpsins fylgir snubbótt greining á greiðslugetu Íslands. Þar er gert ráð fyrir að fari allt á versta veg verði skuldabyrði vegna Icesave 26% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2016. Greiningin gerir ráð fyrir að árlegur vöxtur VLF frá 2009 til 2016 verði 4,6% sem er vægast sagt mjög bjartsýnt mat. Engin gjaldeyrisáhætta er tekin með í reikninginn heldur reiknað með stöðugu gengi krónunnar allan þennan tíma. Við höfum sett saman raunhæfari áætlun sem birt er í fylgiskjali á vefsíðunni risk.lse.ac.uk/icesave um þróun VLF og gengis og þá fer skuldabyrðin auðveldlega upp í 47% af VLF og ef neyðarlögin halda ekki í 68%, þ.e. rúmlega helmingi meira en verstu áætlanir í greinargerðinni gera ráð fyrir. Þá á enn eftir að skoða aðrar skuldir ríkissjóðs en þær stefna í 76% af VLF í lok þessa árs ef frá eru talin lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og áætlað eiginfjárframlag til nýju bankanna.

Í greinargerðinni er skuldastaða Íslands borin saman við tíu ríkustu þjóðir G20-landanna og ályktað að »skuldastaða ríkissjóðs [sé] vel viðunandi«. Hér er verið að bera Ísland saman við milljónaþjóðir með gríðarlegar auðlindir, pólitísk ítök á alþjóðavettvangi, aðgang að ódýru lánsfjármagni og skuldir í eigin gjaldmiðlum sem eru gjaldgengir á alþjóðamörkuðum - allt þjóðir sem hafa komist hjá kerfishruni og njóta trausts hjá viðskiptaþjóðum sínum. Þessi samanburður er marklaus.

Það verður að krefjast þess að greiðslubyrðin sé skoðuð út frá þeim hagstærðum sem ríkja í landinu í fiskveiðum, raforkusölu til stóriðju, ferðaþjónustu, innflutningi, velferðarkerfinu og skuldastöðu ríkis og þjóðar. Niðurstöður slíkrar greiningar þarf að kynna Alþingi og þjóðinni í stað þeirrar ónákvæmu myndar sem gefin er í greinargerðinni.

 

Höfnun Alþingis eina leiðin
Íslensku samninganefndinni bar skylda til að tefla fram öllum þeim rökum sem studdu málstað landsins. Af málflutningi og fylgiskjölum verður ekki séð að svo hafi verið. Svo illa hefur tekist til að samninganefndin hefur meira að segja aukið skuldbindingar landsins um tugi milljarða króna. Greining á greiðsluþoli Íslands sem fylgir frumvarpinu sýnir að líkur á þjóðargjaldþroti eru enn óljósar en þó mun meiri er yfirvöld vilja vera láta.

Hugsanlega hlustuðu viðsemjendur ekki á rök samninganefndar Íslands heldur stilltu henni upp við vegg. En þá er óheiðarlegt að láta þess ekki getið í greinargerð samningsins. Formaður nefndarinnar heldur því fram að samningurinn sé »stórkostleg niðurstaða« og »leið út úr fátækt og ánauð«. Þjóðin á rétt á að vita sannleikann: Þessi samningur er hvorki réttlátur né sanngjarn. Honum verður að hafna og senda hæfari samninganefnd til fundar við Breta og Hollendinga.

Ítarlegar tilvísanir í lög, greinar og aðrar upplýsingar ásamt útreikningum er hægt að nálgast á vefsíðunni risk.lse.ac.uk/icesave".

 

Jón Daníelsson, London School of Economics
Kári Sigurðsson, Háskólinn í Reykjavík
Fylgiskjöl vegna icesave greinar
í Morgunblaðinu, 11 júlí, 2009:

(Smella á krækjur)



---  --- ---

(Leturbreytingar eru á ábyrgð bloggarans)

 

Svo mörg voru þau orð hagfræðinganna Jóns Daníelssonar og Kára Sigurðssonar. Þarna eru gríðarlega alvarlegar ábendingar og viðvaranir sem nauðsynlegt er að gefa góðan gaum og íhuga vel.  Með greininni fylgir viðauki með útreikningum, bæði sem texti og Excel skjal. Þetta eru fagmannleg vinnubrögð.

Er einhver möguleiki á því að finna einhverja leið út úr þessum ógöngum sem við virðumst hafa komið okkur í með síendurteknum mistökum alla tíð frá hruninu?

Er ástæðan fyrir þessum mistökum m.a. sú að við notfærðum okkur ekki þekkingu og reynslu okkar færustu sérfræðinga í samningum við útlendinga og þaðan af síður erlendra sérfræðinga sem kunna til verka, heldur sendum hóp manna sem hafa litla sem enga reynslu af slíkum máum til að semja við hákarla stórþjóðanna? "Sendum knattspyrnufélagið Gróttu til að spila við Manchester United".

 

Alþingismenn og ráðherrar:  

Ábyrgð ykkar er mikil. Hættið að rífast eins og  krakkar, reynið heldur að vinna saman að lausn þessa alvarlega máls. Flanið ekki að neinu. Alls ekki má taka neina áhættu. Notfærið ykkur menntun og reynslu okkar allra hæfustu sérfræðinga og samningamanna. Sendið ekki aðra á fund erlendu hörkutólanna.  Notið menn sem hafa fullkomið vald á enskri tungu og kunna til verka, jafnvel erlenda sérfræðinga ef með þarf.

 

Tillaga um lausn:

Hvernig væri að Alþingi Íslendinga samþykkti Icesave samningsdrögin með nauðsynlegum fyrirvörum til að tryggja hagsmuni okkar eins og kostur er, og taka þá tillit til þeirra ábendinga sem komið hafa fram, m.a í grein Jóns og Kára. Að minnsta kosti eins og í lið 5: "Til að verja stöðu Íslands næstu árin væri það lykilatriði að binda afborganir og/eða vexti af Icesave-samningnum við verga landsframleiðslu eða útflutningsverðmæti". 

Ef við samþykkjum samninginn á þann hátt er ólíklegt að allt yrði vitlaust, eins og hætta er á að gerðist ef við höfnum honum algerlega. Í mesta lagi kæmi fýlusvipur á Englendinga og Hollendinga.

Alþingi hlýtur að vera heimilt að samþykkja samninginn með fyrirvörum. Annað er fjarstæðukennt.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Það virðist vera til nóg af hæfu fólki, sem kann það sem stjórnmálamenn okkar og skussaembættismenn kunna ekki og skilja ekki. Líklegast er allsherjar uppstokkun í íslenska kerfinu nauðsynlegri en ESB-aðild.

Íslendingar eru orðnir aðal aðhlátursefni þjóðanna, hirðfífl heimsins: sjá http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/912304/

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 12.7.2009 kl. 09:22

2 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Ég held að það sé orðið nokkuð ljóst að þessi samningur er hvorki réttlátur né sanngjarn. Samþykkt hans er slæmur kostur en ennþá verra er að hafna honum.

Þá má búast við margra mánaða ef ekki ára samningsþrefi þar sem samskipti við nágrannalönd verða í frosti. Viðsemjendur okkar, Bretar og Hollendingar með stuðningi annarra ESB þjóða hafa kosið að líta á þetta má í stærra samhengi en lagatæknilegu. Það er einfaldlega eitthvað sem við getum ekki breytt. Við getum ekki heldur breytt því að að íslensk stjórnvöld studdu íslensku bankanna gagnvart útlöndum næstum því fram á síðasta dag.

Svo má ekki gleyma því í þessari umræðu að við erum ekki í minnstu vandræðum með að borga þetta ef við nýtum meira af ónýttum auðlindum okkar í jarðvarma og vatnsorku.

Finnur Hrafn Jónsson, 12.7.2009 kl. 13:11

3 identicon

Ekki samþykkja neitt, nema að við viljum geiða, það sem okkur ber að greiða.

Bankahrunið 2008

http://www.ismennt.is/not/jonasg/jg/jg06/bankahrunid-2008/bankahrunid-2008.html

Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 18:53

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Finnur

Hvernig væri að Alþingi Íslendinga samþykkti Icesave samningsdrögin með nauðsynlegum fyrirvörum til að tryggja hagsmuni okkar eins og kostur er, og taka þá tillit til þeirra ábendinga sem komið hafa fram, m.a.  í grein Jóns og Kára. Að minnsta kosti eins og í lið 5: "Til að verja stöðu Íslands næstu árin væri það lykilatriði að binda afborganir og/eða vexti af Icesave-samningnum við verga landsframleiðslu eða útflutningsverðmæti".

Ef við samþykkjum samninginn á þann hátt er ólíklegt að allt yrði vitlaust, eins og hætta er á að gerðist ef við höfnum honum algerlega. Í mesta lagi kæmi fýlusvipur á Englendinga og Hollendinga. Ég vona að ráðamenn séu að hugsa á þessum nótum.

Svo er það auðvitað rétt Finnur að við verðum að bretta upp ermarnar strax á næstu mánuðum og nýta hluta af auðlindum okkar til að ná okkur upp úr efnahagslægðinni.

Ágúst H Bjarnason, 13.7.2009 kl. 14:38

5 identicon

Árið 2016 verður Icesave lánið á gjaldaga, ef það verður samþykkt í þinginu.

Sama ár er gjalddagi annars lítils láns sem tekið var 1981 af ríkistjórn Gunnars Thoroddsen.

Það lán er upp á 35 milljónir punda á 13% (!!) vöxtum og er kúlulán (ekki borgað neitt af því fyrr en allt er gert upp á gjaldaga í lokin).

Þá var Ragnar Arnalds fjármálaráðherra en hann er sem kunnugt er góður og gegn vinstrikempa og mun vera virkur enn innan VG.

Ætli hann sé búinn að gleyma þessu? Sennilega ekki.

Hvernig ætli gangi að endurfjármagna þetta kúlulán þegar þar að kemur? Ætli AGS viti af þessu litla neysluláni allabalaráðherrans í breska bankanum?

Nafngiftin mun hafa komið til vegna þess að í þá daga var talað um að börnin mundu borga þetta.

Ef ég skil kjörin rétt og reikna rétt þá verður skuldin orðin:

£160.993.392

sem er að núvirði:

kr.33.856.910.319

Þetta er fjárhæð sem borga á alla í einu eftir 7 (góð?) ár, til viðbótar Icesave skuldinni.

Ojæja...

Ef þið trúið mér ekki þá leitið bara að "Barnalánið" á Islensku Wikipedíunni

Björn Geir Leifsson (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 17:43

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Björn Geir

Sjá hér

"Á núvernadi gengi og með 13% vöxtum verða 35 milljónir punda orðnar að 35.000.000*210*1,13 ^35 = 529.703.522.529 eða tæplega 530 milljörðum króna"

 ???

Ágúst H Bjarnason, 13.7.2009 kl. 20:06

7 identicon

Það er eitthvað á reiki hvernig kjörin raunverulega voru á þessu láni. Sumir segja að það hafi verið greiddir vextir af því jafnóðum. Nú er ég ekki sterkur í vaxtareikningi og hafði fengið út sömu ótrúlegu vaxta-vaxtaupphæð en valdi að nota enska "mortgage" reiknivél sem gaf mun lægri upphæð miðað við forsendurnar eins og þær líta helst út. (35 millj. á 35 árum með 13% ársvöxtum)

Ég hef það nú ekki eftir áreiðanlegum heimildum og nenni ekki að grafa í því en mér skilst að þetta sé ekki eina "barnalánið" frá þessu tímabili.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi furðulegu neyslulán þeirra allaballa koma út,

Björn Geir Leifsson (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 20:23

8 identicon

Þetta kemur meðal annars upp í Google-trollinu:

http://eyjan.is/silfuregils/2009/04/28/ragnar-og-barnalanid/

björn Geir Leifsson (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 20:34

9 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Er ekki eitthvað málum blandið með þetta "barnalán". Getur verið að þetta lán hafi gleymst þegar okkur var sagt í fyrra að ríkissjóður væri nánast skuldlaus við útlönd?

Ef hægt er að finna einhverja leið til að setja fyrirvara við IceSave samninginn t.d. um greiðslubyrði án þess að setja allt í uppnám finnst mér að það megi skoða það. Varla getur það verið sérstakt markmið Breta eða Hollendinga að ganga það nærri okkur að við getum ekki náð okkur á strik aftur.

Finnur Hrafn Jónsson, 14.7.2009 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband