Einstaklega skýr stefnumál frambjóðanda til stjórnlagaþings - Hver er maðurinn...?

 

fjallkonan.jpg

 

Stefnumálin eins frambjóðanda til Stjórnlagaþingsins þykja mér mjög skynsamleg og skýr, og tek ég mér því bessaleyfi afrita þau af vefsíðu hans og birta hér fyrir neðan.

 

Hver þessi frambjóðandi er kemur fram neðst á síðunni, en stefnumál hans hefjast á þessum orðum:

 

"Ef menn vilja móta sér stefnu til að hafa áhrif á eitthvað sem betur má fara, ber fyrst að athuga hverjir þeir þættir eru sem þarf að bæta.      Síðan hvernig má gera það..."

 



Stefnumál

"Ef menn vilja móta sér stefnu til að hafa áhrif á eitthvað sem betur má fara, ber fyrst að athuga hverjir þeir þættir eru sem þarf að bæta. Síðan hvernig má gera það. Þá er rétt að byrja a því að íhuga hvað það er sem stór hluti almennings a Íslandi er óánægður með í íslensku stjórnarfari. Það þarf ekki vísindalega skoðanakönnun til að skynja óánægju almennings með íslenska stjórnsýslu. Þættirnir sem fólk er óánægt með virðast einkum eftirfarandi:

  • Flokksræði og endalaus flokkstryggð þingmanna.
  • Kosningar byggðar á flokkslistum, ekki hægt að kjósa úr fleiri en einum flokki 
  • Eilíft karp á þingi, oft frumvörp og deilur um minniháttar mál meðan stórmál bíða.
  • Stöðuveitingar á pólitískum frekar en faglegum grundvelli.
  • Ónægur aðskilnaður framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds.
  • Ójafnt vægi atkvæða eftir landshlutum.
  • Margir vilja færri þingmenn.

Jafn atkvæðisréttur- tvær leiðir
Þá er að athuga hvernig breyta þarf stjórnsýslunni, og þá stjórnarskránni, til að lagfæra þetta. Rétt er að byrja a byrjuninni, kosningu þingmanna, fulltrúa okkar.

Landið eitt kjördæmi
Það má jafna atkvæðisrétt manna einfaldlega með því að gera landið að einu kjördæmi. Einn hængur er á þessu samt og það er að hætt er við að flestir frambjóðendur kæmu úr þéttbýlustu svæðunum og þau strjálbýlu yrðu afskipt í pólitískum áhrifum vegna fámennis.

Einmenningskjördæmi byggð á fólksfjölda
Svo er hægt að hafa einmenningskjördæmi, en þau þurfa að byggjast á fólksfjölda fremur en flatarmáli til að fyrirbyggja misvægi. Þannig mætti til dæmis hafa 33 kjördæmi fyrir alls 33 þingmenn sem myndi þýða um það bil 10.000 manns a bak við hvern kjörinn þingmann. Á fjögurra ára fresti mætti svo endurskipuleggja kjördæmin til að vega upp a móti fólksflutningum sem kynnu að raska fjölda kjósenda að baki hverjum kjörnum þingmanni.

Í báðum þessum dæmum, það er landið sem eitt kjördæmi eða fleiri einmenningskjördæmi með jafnan fólksfjölda að baki, gætu allir sem hefðu einhver lágmarksstuðning boðið sig fram hvort sem væri á vegum stjórnmálaflokks eður ei. Í báðum tilfellum myndi þetta væntanlega stuðla að betri blöndun sjónarmiða a þingi heldur en gerist þegar kosið er um flokkslista i kjördæmunum sem flokksforystur hafa raðað upp.

Kjósa fólk úr mismunandi flokkum
Í öllum flokkum má finna góða menn og ennfremur miður góða. Því gæti önnur endurbót falist i því að kjósendur mættu kjósa milli flokka, ef eitthvað flokkslistafyrirkomulag verður áfram. Þannig gæti kjósandi valið einn góðan mann af einum lista og annan góðan af öðrum og sniðgengið skussana sem kynnu að vera á listunum.

Reyndar mætti nota  báðar aðferðirnar, kjördæmakosningu til þings en landið eitt kjördæmi er kosinn væri forseti eða forsætisráðherra  (ef sú leið væri valin).

Ráðherraræði
Íslenska stjórnarskráin er arfleifð þeirrar dönsku sem var mótuð um miðja nítjándu öld. Síðan þá hafa Danir breytt henni oftar í tímans rás, en íslendingar hafa gert. Danska stjórnarskráin færði stóran hluta af valdi konungs til ráðherranna. Segja má að vald ráðherra a Íslandi sé að sumu leyti leifar af gömlu konungsvaldi. Frumvörp eru samin í ráðuneytum, ráðherra tryggir sér stuðning allra dyggra flokksfélaga sem sitja á þingi, semur við samstarfsflokk á sama grundvelli og greiðir svo sjálfur atkvæði með frumvarpinu a Alþingi. Stjórnarskráin eins og hún er í dag veitir líka ráðherra víðtæk völd til að ráða í störf og embætti á vegum hins opinbera þar sem pólitík þess sem ráðinn er ræður meiru heldur en fagmennska hans.

Þrískipting valds
Ef völd ráðherra og þar með framkvæmdavaldsins leiða til vandamála sem meðal annars felast i ofurvaldi framkvæmdavaldsins gagnvart Alþingi og sé hægt að minnka þessi vandamál með breytingu á stjórnarskránni, þá er augljósast að utanþingsstjórn sé æskilegur kostur. Þingmenn gætu ekki verið  ráðherrar né ráðherrar á þingi. Þingið yrði þó að samþykkja ráðherrana, hvern og einn, og þeir yrðu þá valdir af kjörnum forseta eða forsætisráðherra. (Kjörinn forsætisráðherra þyrfti að sjálfsögðu ekki samþykki!). Um dómsvaldið er það að segja að til að draga úr líkum á að minnsta kosti hæstaréttardómarar séu ekki skipaðir af of pólitískum grundvelli, þá sé rétt að skipun þeirra hljóti einnig staðfestingu þingsins.

Neitunarvald forseta
Verði forsetaembættið áfram hluti af íslenskri stjórnskipan, en líklega munu flestir landsmenn vera því hlynntir, þá væri það eftir sem áður æskilegt að forseti gæti neitað að samþykkja lög, telji hann meinbugi þar á. Hinsvegar eru einum manni falin mikil völd til að tefja löggjöf ef að hann gerir það af pólitískum ástæðum eða honum hreinlega skjátlast.  Því væri rétt að hafa varnagla á með því að neiti forseti að staðfesta lög fari þau aftur í þingumræðu og þurfi þá aukinn meirihluta (2/3 hluta atkvæða) til að öðlast gildi. Náist það ekki, geti forseti vísað þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mannréttindi
Mannréttindi hafa almennt verið vel virt á Íslandi, sem betur fer. Það má þó ekki taka þeim sem gefnum og ber að verja þau vel í stjórnarskrá. Þau hafa verið stjórnarskrárbundin á seinni tímum. Auk þess hafa Íslendingar samþykkt Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og fleiri alþjóðlegra samtaka. Í stjórnarskrá eru ýmsir hópar tilteknir sem hafa í gegnum tíðina verið beittir misrétti, og tekið fram að þeir séu jafn réttháir öðrum gagnvart lögum. Töluvert hefur verið rætt um að stjórnarskrárbinda eigi rétt fólks óháð kynhneigð. Ég er sammála því. Minna hefur borið á umræðu um að stjórnarskrárbinda rétt fólks óháð fötlun. Á því þarf líka að gera bót. Mikilvægi mannréttinda ætti að skipa þeim í fyrirrúm í nýrri stjórnarskrá.

Öryggismál
Flestar þjóðir álíta höfuðverkefni sinna stjórnvalda að tryggja sem best öryggi landsmanna fyrir utanaðkomandi hernaðarvá. Íslendingar hafa verið blessunarlega lausir við að þurfa að hugsa um slíkt, fyrst vegna einangrunar landsins i margar aldir og fjarlægðar frá átakasvæðum allt fram til annarrar heimstyrjaldar, síðar vegna þess að Bretland og Bandaríkin sáu sér hag í að verja landið gegn óvinveittum öflum.

Ísland er i NATO og nýtur samningsbundinnar verndar þess, en sú vernd er ekki eins traust og hún var á meðan ekki var hægt að hertaka landið án þess að lenda i vopnuðum átökum við bandaríkjaher. Ný stjórnarskrá þarf að leggja einhverjar skyldur a stjórnvöld um að hyggja að öryggismálum. Sagan sýnir að það er engin vörn í að vera með yfirlýst ævarandi hlutleysi og enga tryggingu um hervernd. Þetta sönnuðu bæði Jörundur hundadagakonungur á sínum tíma og breska herstjórnin í maí 1940. Langflestir íslendingar vörpuðu öndinni léttar er þeir sáu að það var breskur en ekki þýskur her sem gekk hér á land. Herlaust hlutlaust land utan herverndar öflugri ríkja eða bandalaga getur hvaða herveldi sem er tekið hvenær sem er. Ef til hernaðarátaka kemur engu að síður sem geta valdið skaða á Íslandi er nauðsynlegt að hér sé sá viðbunaður til almannavarna sem við höfum efni á og viljum kosta til. Sá viðbunaður kemur einnig að miklu leyti að gagni í náttúruhamförum en þar hafa almannavarnir og hjálparsveitir staðið sig einstaklega vel. Sem betur fer hafa einungis hamfarir af völdum náttúrunnar en ekki hernaðar valdið íslendingum búsifjum undanfarna áratugi, en ekki má gleyma því að á skammri stundu geta umskipti orðið í alþjóðamálum.  Svo má heldur ekki gleyma því að ógn sem aldrei þurfti að gera ráð fyrir áður er nú ekki óhugsandi en það eru hugsanleg hryðjuverk.

Eignarhald auðlinda
Að lokum er rétt að minnast á hvort beri að stjórnarskrábinda eignarétt Íslendinga yfir auðlindum landsins. Nú er það svo að þegar vatnsorku er breytt i rafmagn fara um það bil 90% af kostnaðinum við virkjunina í vexti afborganir af stofnkostnaðinum og þá um 90% af rafmagnsverðinu i þessar greiðslur. Þegar búið er að borga upp virkjunina, venjulega a 40-60 árum hefur eigandi virkjunarinnar hagnast um það sem hún kostaði. Virkjunin endist trúlega meir en eina öld. Hugmyndin um afskriftir fjárfestinga byggðist upphaflega á því að þegar framkvæmdin eða mannvirkið sem fjarfestingin séu úr sér gengið sé upphaflega fjárfestingin fengin til baka ásamt vöxtum.

Endist framkvæmdin eða mannvirkið lengur og séu tekjurnar sem skapast óbreyttar stóreykst hagnaðurinn sem skilar sér út endingatímabilið. Endurnýjanlegar auðlindir endast um aldir ef ekki til eilífðar og mala þá eigendum sínum gull um langa framtíð. Ein skilgreining á sjálfbærri þróun er að núlifandi kynslóð skili ekki rýrari afkomu til komandi kynslóða heldur en að hún sjálf nýtur. Ef við viljum að afrakstur endurnýjanlegra auðlinda okkar skili sér til fulls til afkomenda okkar, er áríðandi að ganga þannig frá eignaraðild auðlindanna að arðurinn af nýtingu þeirra skili sér til landsmanna. Því er mikilvægt að fyrirkomulag þar að lútandi, á einn eða annan hátt sé tryggt . Því væri stjórnarskráratriði þar að lútandi mikilvægt. Sjá grein."

 

 

50514_104322192968689_2364870_n.jpgSá sem þessi orð ritar er Ágúst Valfells verkfræðingur.  

Hann er með doktorspróf í verkfræði og starfaði lengi sem prófessor í kjarnorkuverkfræði við háskóla í Bandaríkjunum. Hann hefur einnig starfað alllengi hér á landi m.a. sem forstöðumaður Almannavarna, sérfræðingur hjá Raunvísindastofnun Háskólans og kennari við HÍ. Auk þess hefur hann m.a. setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja og starfað sem ráðgefandi verkfræðingur.

 

 


Vefsíða Ágústar Valfells er www.agustvalfells.is

Facebook er hér.

Æviágrip eru hér.

 

 

>

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband