Hjarðhugsun manna eða Groupthink...

 

group-think-hjardhugsun_600w-c.jpg

 

Hjarðhegðun í dýraríkinu þekkja flestir og margir eru farnir að greina svipaða hegðun meðal manna, en það þarf ekki að koma á óvart því auðvitað tilheyra menn (konur eru líka menn) dýraríkinu.

Leiðtoginn, forystusauðurinn, leggur línurnar og þeir sem tilheyra hjörðinni samsinna öllu sem hann segir. Það er ekki endilega vísvitandi, heldur hrífast menn með andrúmsloftinu kringum hann, oftar en ekki hugsunarlaust og ómeðvitað. Eitthvað fyrirbæri ræður ríkjum sem límir saman hugsanir og gerðir manna.

Menn í hjörð eru löngu hættir að hugsa á gagnrýninn hátt, og hirð leiðtogans gætir þess vel að þeir sem fara út af sporinu og spyrja spurninga séu yfirgnæfðir með ýmsum ráðum. Oft er beitt árásum á viðkomandi persónu í stað þess að ræða málstaðinn. Argumentum ad hominem. Þetta þekkja menn vel úr stjórnmálum og jafnvel vísindaheiminum. Þar kallast hóphugsunin hinu fína nafni scientific concensus. Jafnvel virðast sumar opinberar stofnanir bera merki hjarðhegðunar innanhúss, en það þarf ekki að undra. Forystusauðir eru jú einnig í fjárhúsum.

Sem betur fer eru til sjálfstæðir einstaklingar sem þrífast illa í hjörð. Það þekkjum við úr íslenskum stjórnmálum og alþjóðlegum vísindum. Einstaklingar sem láta eigin sannfæringu ráða. Oftar en ekki verða þetta brautryðjendur á nýjum sviðum framfara og hugsunar. Hjörðin situr eftir öllum gleymd.

Hjarðhugsun kallast Groupthink á ensku. Hugsanlega mætti einnig nota orðið hóphugsun, en ritaranum þykir fyrra orðið berta. Hugtakið Groupthink er nánast orðið alþjóðlegt og hafa um það verið skrifaðar lærðar greinar, enda er um að ræða stórvarsamt fyrirbæri. Þekktastar eru e.t.v. rannsóknir Irving Janis hjá Yale háskóla.  Groupthink  er eiginlega hugarfar innan mjög samstæðs hóps þar sem meðlimir reyna eftir megni að forðast árekstra og komast að samdóma áliti án þess að beita gagnrýnni hugsun, greiningu og skoðun á hugmyndum.

 

Hér fyrir neðan eru meginatriði hjarðhugsunar sem oft veldur hjarðhegðun dregin saman.

 

 

Hjarðhugsun - Groupthink

Hjarðhugsun eða Groupthink er hugtak sem vísar til rangrar ákvörðunartöku innan hóps. Hópar þar sem hjarðhegðun eða groupthink viðgengst skoðar ekki alla möguleika og meiri áhersla er lögð á samdóma álit en gæði ákvörðunar.  Niðurstaðan verður oftar en ekki röng. Í sumum tilvikum geta afleiðingarnar orðið skelfilegar.

Það er öllum hollt að hugsa um þessi mál og reyna að skilja fyrirbærið og hvað megi gera til að forðast það. Líta í kringum sig og reyna að sjá merki hjarðhegðunar. Hvernig er ástandið í þjóðfélaginu, stjórnmálunum, fjármálaheiminum, vísindaheiminum, vinnustaðnum... ?  Greina, spyrja og ræða...  Taka jafnvel dæmi úr dýraríkinu og gleyma því ekki að við tilheyrum því.   Reyna síðan að láta skynsemina verða hjarðeðlinu yfirsterkari og brjótast út úr hjörðinni. Verða sjálfstæður í hugsun og öðlast þannig virðingu, í stað þess að vera ósýnilegur í stóði.

 

Hagstæð skilyrði til að hjörð myndist:

  • Hætta er á hjarðhugsun þegar meðlimir hóps eru mjög samrýmdir og þeir eru undir miklu álagi að taka ákvörðun um mikilvæg mál. Að hugsa sem hjörð verður þægilegast fyrir alla meðlimi hjarðarinnar.

 

Neikvæð hegðun í hóp þar sem hjarðhugsun viðgengst:

  1. Fáir möguleikar skoðaðir.
  2. Hugmyndir sem koma fram eru hvorki rýndar né ræddar.
  3. Aðrir kostir en varpað hefur verið fram eru ekki skoðaðir.
  4. Slegið er á viðleitni til sjálfstæðrar hugsunar.
  5. Reynsla annarra eða sjálfs hópsins af eldri svipuðum málum ekki skoðuð.
  6. Ekki leitað álits sérfræðinga.
  7. Ekki er reynt að fá utanaðkomandi álit.
  8. Litið er niður til þeirra sem tilheyra ekki hópnum.
  9. Gagnaöflun hlutdræg.
  10. Ekki reiknað með að þörf sé á varaáætlun.

 

Einkenni hjarðhugsunar:

  1. Trú á eigin óskeikulleika.
  2. Trú á eigin siðgæði.
  3. Rangar ákvarðanir réttlættar.
  4. Einföldun vandamála ræður ákvörðun.
  5. Hræðsla við að vera öðru vísi en aðrir í hópnum.
  6. Einstaklingsbundin álit kveðin niður.
  7. Talað niður til þeirra sem ekki tilheyra hjörðinni.
  8. Ad hominem eða persónuníði beitt þegar rök þrýtur.
  9. Hræðsla við að láta raunverulegt álit sitt í ljós ef það er á skjön við samdóma álit hjarðarinnar.
  10. Gefið í skyn að álitið sé samdóma.
  11. Hugsanagæslumenn notaðir til að verja hjörðina frá óheppilegum upplýsingum.

 

Úrbætur til að koma í veg fyrir hjarðhegðun í hóp eru meðal annars:

  1. Fá álit minni hópa eða nefnda sem gefur stærri hóp álit.
  2. Deila stórum hóp í smærri hópa til að ræða sama málefni.
  3. Leiðtogar minni og stærri hópa verða að vera hlutlausir og forðast að gefa út álit.
  4. Nota mismunandi hópa fyrir mismunandi verkhluta.
  5. Skoða alla hugsanlega möguleika.
  6. Leita til sérfræðinga innan hóps og utan og fá þá til að ræða málin á fundum.
  7. Fá einhvern í öllum hópum eða nefndum til að reyna að finna álitinu allt til foráttu og bera fram erfiðar spurningar. Devil‘s advocate aðferðin við gagnrýni virkar vel.
  8. Muna að það ber vott um skynsemi og sjálfsstjórn að geta skipt um skoðun og gengið á móti straumnum.
  9. Sofa vel á álitinu áður en það er gefið út. Halda síðan fund til að leyfa hugsanlega ferskum forsendum og nýrri hugsun að koma fram. Hika þá ekki við að breyta um stefnu ef með þarf.

 

 

groupthink-3.jpg

 Hjarðhegðun-hóphugsun-groupthink er stórvarasamt fyrirbæri

 

 

Hvaða dæmi þekkir þú um hjarðhegðun í samfélaginu, vísindaheiminum eða annars staðar, fyrr á tímum eða nú á dögum?

 

 

 

 

Amazon: Irving L Janis; Groupthink.

Á netinu má finna mikið efni um Groupthink. Smella hér

Power Point skyggnur með mörgum dæmum.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur: Hugsanir á dósum. Myndbönd. Fyrri hluti. Seinni hluti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Dæmi um hjarðhegðun í vísindaheiminum eru fjölmörg. Ástæðan fyrir slíkri hegðun geta verið fjölmargar og ein þeirra eru "beinir hagsmunir" vísindamannanna.

Að kynda undir umræður um "vá", hverskonar, er oft notuð sem "tæki" til að afla fjármuna úr opinberum sjóðum. Stjórnmálamenn láta stjórnast af fjölmiðlaþrýstingi og fjölmiðlar "selja" fréttir. Hvernig fréttir seljast best?

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.2.2011 kl. 13:41

2 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góður pistill Ágúst.

 Takk fyrir mig.

Marta B Helgadóttir, 6.2.2011 kl. 14:46

3 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Mjög þarfur og góður pistill. Slík hjarðhyggja er ekki aðeins ríkjandi meðal svonefndra „loftslagsvísindamanna“, heldur gætir mjög hvarvetna í „háskólasamfélaginu“, ekki síst þegar minnsti efi um hina opinberu kenningu skarast á við „pólitíska rétthugsun“. Ekki síst gætir þessa mjög innan mannfræðinnar. Til dæmis getur hver sá mannfræðingur sem bendir á að kynþættir mannanna eru alveg jafn ólíkir og kynþættir og undirtegundir í dýra- og jurtaríkinu átt von á öllu illu. Samkvæmt ríkjandi rétttrúnaði eru Pólverjar og Papúar, indíánar og Ástralíu- frumbyggjar, Danir og dverg- svertingjar nefnilega allir alveg nákvæmlega eins. Hver sá sem efast, má búast við að verða stimplaður „rasisti“ og þar með útskúfaður úr „fræðasamfélaginu“.

Svipað gildir t.d.um hvern þann sem efast um öll „vísindin“ hvað varðar „óbeinar reykingar“ og margt fleira sem hver étur upp eftir öðrum. Maðurinn er, svipað og t.d. úlfar. læmingjar eða sauðkindur, hópdýr. Það er visst öryggi í hjörðinni. Gallinn er þó þessi: Forystusauðurinn í hjörðinni er líka sauður. Hann er ekkert vitrari eða merkilegri en hinir sauðirnir. Það eina sem hann hefur fram yfir þá er frekjan.

Vilhjálmur Eyþórsson, 6.2.2011 kl. 16:37

4 Smámynd: Halldór Sverrisson

Góður pistill og þarft umhugsunarefni. Sem vísindamaður þekki ég mörg þeirra einkenna sem þú lýsir. Og það hættulegasta í þessu sambandi er að maður sér einkennin oft betur hjá öðrum en hjá sjálfum sér og sínum skoðanabræðrum!

Halldór Sverrisson, 6.2.2011 kl. 22:44

5 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Með hin 11 einkenni hjarðhugsunar til hliðsjónar, bið ég ykkur að bera einkennin saman við yfirlýsingar frá hjörð sem nefnir sig "Vistfræðifélag Íslands".

http://www.visir.is/agengar-framandi-lifverur-eru-umhverfisvandamal/article/2011166359909

http://www.visir.is/var-rangt-af-mer-ad-sleppa-kaninu-i-esjuhlidum-/article/2011772098635

http://www.visir.is/af-natturuvernd--er-varud-ofgafull-/article/2011469804052

http://www.visir.is/vistfraedingar-fagna-tillogum-um-natturuverndarlog/article/2011834447538

Bendi ykkur á að lesa í leiðinni álit annarra um sama mál:

http://odg.cc/umsagnir/

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 6.2.2011 kl. 23:36

6 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Þessi svargrein var að birtast á Vísi.is:

Misnotkun talna um framandi tegundir

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 7.2.2011 kl. 11:42

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þetta er einstaklega góð grein í Vísi og makalaust hve ranglega er hægt að fara með tölur.

Ætli það sé vegna þess að menn séu hugsunarlaust að apa hver eftir öðrum, eða getur verið að einhver hugsun leynist bak við svona rangfærslur?

Þetta er eiginlega skyldulesning:

 Misnotkun talna um framandi tegundir

Ágúst H Bjarnason, 7.2.2011 kl. 11:55

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Þótt alltaf megi finna skiptar skoðanir meðal vísindamanna, má fullyrða að meðal vistfræðinga hérlendis sem erlendis er það viðhorf ríkjandi að útbreiðsla ágengra framandi lífvera geti haft mjög róttækar líffræðilegar afleiðingar. Þessi skilningur er alls ekki bundinn við þröngan hóp vísindamanna heldur er hann almennt viðurkenndur í samskiptum ríkja á alþjóðavettvangi." (úr efsta pistlinum sem Aðalsteinn vísar í. Undirstrikun mín.)

Oft hefur maður séð svona röksemdarfærslur. Er þetta staðlað form?

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.2.2011 kl. 02:30

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Gunnar. Þú býrð minnir mig á Austurlandi.  Þar er mikið af fyrirferðarmiklum framandi lífverum sem fluttar voru til landsins á sínum tíma.  Eru þessar framandi lífverur ekki öllum til mikilla ama?

Þessar framandi lífverur eru auðvitað hreindýr.

Hvernig var það annars. Höfðu ekki vistfræðingar eða aðrir vísindamenn miklar áhyggjur af áhrifum virkjunarinnar fyrir austan á þessi framandi dýr?  

 Annars er meira af ábendingum um svipað málefni hér.

Ágúst H Bjarnason, 8.2.2011 kl. 07:17

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jú, mikið rétt Ágúst, ég bý á Reyðarfirði.

Það stendur ekki steinn yfir steini í fullyrðingum þeirra sem harðast börðust gegn virkjunarframkvæmdum eystra. Hreindýrin áttu að missa sitt helsta kjörlendi í lónsstæðinu við Kárahnjúka og þ.a.l. átti hreindýrastofninn að skaðast stórlega. Sömuleiðis átti heiðargæsastofninn, sem hefur verið í sögulegu hámarki undanfarin ár, að skaðast stórlega við virkjunina.

Að þessu viðbættu áttu lóu og spóastofninn að vera í hættu niðri á láglendi, vegna þess að "Jökla" var færð úr farvegi sínum. Selastofninn í Héraðsflóa var sömuleiðis í hættu, að ógleymdu lífríkinu í sjónum. Fuglategundirnar sem áttu að vera í hættu vegna þessa, eru kjói, skúmur og lómur.  Mátti skilja "fræðingana" svo, að fiskgengd og viðkoma nytjafiska á austfjarðamiðum væri í hættu, ef af virkjuninni yrði.

Allt var þetta þó orðað á varfærnislegan hátt af fræðingunum og gjarnan sagt, svona í leiðinni, að náttúran ætti að fá að njóta vafans.

Lífríkið á áhrifasvæði virkjunarinnar hefur verið vaktað frá upphafi framkvæmdanna og sumt mun fyrr. Niðurstöður þeirrar vinnu er ekki að vænta fyrr en (að mig minnir) 10 árum eftir verklok. Ég hef þó fengið að kíkja aðeins í bráðabirgðaniðurstöður og er bara nokkuð bjartsýnn fyrir hönd lífríkisins á svæðinu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.2.2011 kl. 10:01

11 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Gunnar spyr: „Er þetta staðlað form?“

Svarið hlýtur að vera: , þetta er staðlað svar þeirra sem slá sér á brjóst með kjörorðið „Vér einir vitum!“ að leiðarljósi.

Tvær rökvillur felast í ofangreindri tilvitnun Gunnars, þar sem vistfræðingarnir 14 fullyrða að almennt séu vistfræðingar í heiminum sammála um að mikil ógn stafi af framandi lífverum og fyrir því hljóti ógnin að vera mikil. Þar er vísað til fjöldans, þ.e. ef einhver hópur manna heldur eitthvað, þá hlýtur það að vera rétt. Einnig er vísað til þekkingarvalds, þ.e. ef SÉRFRÆÐINGARNIR telja það (jafnvel þeir sem ekkert hafa hirt um að rannsaka það né kanna heimildir ofan í kjölinn), þá hlýtur það að vera rétt. Þessar rökvillur eru svo algengar og gamalkunnar frá tímum skólaspeki miðalda að þær hafa fengið nöfn á latínu; argumentum ad populorum og argumentum ad verecundiam. Hvort tveggja eru þetta þekktar leiðir til að komast hjá því að bera fram staðreyndir eða rök máli sínu til stuðnings.

Í yfirlýsingunni allri ganga síðan tvær aðrar rökvillur eins og rauður þráður í gegnum allan texta yfirlýsingarinnar: hringrök/hringsönnun (að gefa sér fyrirfram í rökræðunni það sem rökræðunni er ætlað að leiða fram) og ógnarrök (sem er svipað og að „mála skrattann á vegginn“; að allt muni fara á versta veg, ef e-m hugkvæmist hinn minnsti fræðilegi og fráleiti möguleiki á að e-ð geti farið á versta veg).

Staðhæfingunni um að „ágengar framandi lífverur [valda] gríðarlegu fjárhagslegu tjóni um allan heim en áætlað hefur verið að það nemi meira en 5% af vergri heimsframleiðslu“ byggist á villandi framsetningu tölulegra gagna sem hefur verið leiðrétt hér. Hvort sú framsetning 14-menninganna stafi af fákunnáttu, barnaskap eða einbeittum brotavilja skal ósagt látið.

Á meðal 14-menninganna sem setja nafn sitt undir yfirlýsinguna er að finna prófessora í vistfræði við Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Sumir meðlimir þessa sjálfskipaða þekkingarvalds hafa þegið doktorsnafnbætur sínar frá virtum, erlendum háskólum, jafnvel „Ivy league“-háskóla á austurströnd BNA. Þrátt fyrir langa setu sumra þeirra á skólabekk sýnist mér sem þjálfun þeirra í rökvísi, gagnrýnni hugsun og góðum siðum við vísindalega aðferðafræði teljist í mörgu ábótavant; 101-kúrs í rökfræði eða heimspekilegum forspjallsvísindum hefði e.t.v. bætt þar nokkuð úr.

Svo geta þeir látið duga að fletta upp í Vísindavef Háskóla Íslands.

Þeim rökum vistfræðinganna 14, að flestum ógnandi lífverum verði bægt frá Íslands ströndum með setningu nýrra, gerræðislegra og íþyngjandi laga sem fela í sér mikla skriffinsku og kostnað fyrir ræktendur á Ísland („Þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem finna má í núverandi drögum að frumvarpi um breytingu á lögum um náttúruvernd munu að áliti Vistfræðifélagsins draga verulega úr þeirri áhættu sem fylgir innflutningi og dreifingu framandi lífvera, íslenskri náttúru og skattborgurum í hag.“) bíða birtingar á síðum Fréttablaðsins, vonandi á allra næstu dögum.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 8.2.2011 kl. 11:20

12 Smámynd: Arnar Pálsson

Athyglisverður pistill um hjarðhugsun.

En hvað hefur þú fyrir þér í því að það sé meiri hjarðhugsun hjá vistfræðingum en hjá skógræktarfólki?

Arnar Pálsson, 8.2.2011 kl. 12:20

13 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Arnar

Ég er ekki alveg viss um að ég hafi fullyrt að meiri hjarðhugsun sé hjá vistfræðingum en skógræktarfólki.  Sjá athugasemdir mínar #7 og #9.

Það er annað mál að hjarðhugsun er til víða og ekki bundin við neina eina vísindagrein eða stofnun.   Eða eins og Halldór bendir á hér að ofan í #4 "Og það hættulegasta í þessu sambandi er að maður sér einkennin oft betur hjá öðrum en hjá sjálfum sér og sínum skoðanabræðrum!"

Svona hjarðhugsun er nokkuð sem allir geta fallið í, -og gera sjálfsagt stundum. Þess vegna er gott að hugleiða einkennin og reyna að sjá merki um slíkt í umhverfinu til að læra af. Skógræktarmenn (eins og ég er smávegis) eru auðvitað ekki undanskildir.   Öll erum við mannleg þó svo við tilheyrum dýraríkinu og líður stundum best í hjörð.

Ágúst H Bjarnason, 8.2.2011 kl. 12:46

14 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Arnar Pálsson:

Ágúst minntist ekki einu orði á vistfræðinga né skógræktarfólk í pistli sínum um hjarðhugsun. Þaðan af síður reyndi hann að gera samanburðarmat á alvarleika hjarðhugsunar hjá þessum tveimur hópum (sem vel að merkja er að hluta sniðmengi). Hér ert þú að gera tilraun til að slá ÁHB af laginu og drepa málefninu á dreif með útúrsnúningi og smjörklípum (lat. Ignoratio Elenchi). Einnig ert þú með vísun til hræsni (et tu quoqe) að reyna að bæta böl og berja í bresti vistfræðinganna með því að benda á eitthvað annað.

Mér finnst þetta einkar leitt í ljósi þess að mér hefur til þessa þótt þú meðal hinna málefnalegustu og greindustu allra íslenskra bloggara.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 8.2.2011 kl. 13:31

15 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Ágúst

Það sló aðeins saman hjá mér, ég ruglaði saman þér og Aðalsteini (hvernig sem það nú er hægt). Spurningu minni er þá beint til Aðalsteins en ekki þín.

Mér finnst pistillinn góður og margar athugasemdirnar einnig. Gallinn er bara sá að við höfum tilhneygingu (eins og þú áréttar svo vel), að sjá frekar einkennin hjá öðrum en okkur sjálfum, og því skorta gagnrýni á okkar eigin röksemdir og þankagang. Aðalsteinn sér bara hjarðhugsun hjá vistfræðingunum en enga hjá skógræktarfólkinu sínu.

Aðalsteinn.

Vonandi sérð þú þér fært að draga stóryrðin í land, því þessari spurningu var einfaldlega beint í ranga átt. Þú gætir líka svarað spurningunni, sem væri fínt skref í átt að uppbyggilegri umræðu.

Arnar Pálsson, 8.2.2011 kl. 17:10

16 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Arnar:

Því hefur aldrei verið haldið fram af minni hálfu að hjarðhugsun sé bundin við vistfræðasamfélagið né hefi ég nokkru sinni haldið því fram að skógræktarfólk sé laust við þann sam-mannlega eiginleika, fremur en annað fólk. Ég myndi heldur ekki vilja útiloka (og geri raunar fastlega ráð fyrir) að í flokki vistfræðinga sé að finna einsama varga (e. lone wolf) líkt og í flokki skógræktarfólks sé að finna villuráfandi sauði sem fylgja straumnum í hjörðinni. Alhæfingar eiga sjaldnast við, því veröldin er ekki svart-hvít.

Ég vil þvert á móti taka undir með Ágústi H. Bjarnason og Halldóri Sverrissyni, að  "maður sér einkennin oft betur hjá öðrum en hjá sjálfum sér og sínum skoðanabræðrum". 

Ég mun ekki draga nein "stóryrði" í land, enda var ég að fjalla um og greina rök og skoðanir þröngs hóps vistfræðinga (14 talsins) sem fram kom í rituðu áliti þeirra í víðlesnasta dagblaði landsmanna, þar sem þessi hópur þóttist tala í nafni gjörvalls fræðasamfélagsins. Ég var ekki að fjalla um né níðast á persónum þessara 14-menninga. Hefði þessi hópur viljað forðast að skoðanir og rök þeirra væru gagnrýnd og fengi hugsanlega neikvæðar viðtökur hjá e-m, hefði þeim verið hollast að geyma álitið á stað þar sem það kæmi ekki fyrir almenningssjónir.

Svo að lokum, Arnar: Ég get ekki svarað spurningu þinni, því hún er mér óskiljanleg.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 8.2.2011 kl. 17:34

17 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Höskuldur Búi Jónsson:

Þú verður að fyrirgefa. Þessi pistill fjallar ekki um loftslagsmál. Hin langa ritgerð þín um þau mál verður því ekki birt.

Með kveðju.

Ágúst H Bjarnason, 8.2.2011 kl. 21:52

18 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ágúst, þú hefur nú þegar gefið skotleyfi á loftslagsvísindin í athugasemd Vilhjálms hér að ofan - án frekari athugasemda að þinni hálfu. Hitt er svo annað mál að ég sé ekki beina tengingu pistilsins við vistfræði eða skógfræði, en þó hefur þú ekki gert neinar athugasemdir við langar og jafnframt fróðlegar umræður um þau mál. Er þetta ekki einhver tvískinnungur hjá þér Ágúst? - Svar Höskuldar má sjá, Svar: Hjarðhugsun Ágústar

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.2.2011 kl. 22:25

19 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Fyndið að þú skulir ritskoða athugasemdina, svona miðað við að færslan fjallar um hjarðhugsun - talandi um að gefa mönnum ekki færi á að hugsa öðruvísi en þú og hafa aðra skoðun en þú.

Höskuldur Búi Jónsson, 8.2.2011 kl. 22:32

20 identicon

Athyglisverð grein um hjarðhegðun, og verðugt umhugsunarefni. Það er þó skrýtið að sjá hvernig hún verður Aðalsteini Sigurgeirssyni tilefni til heiftarlegrar árásar á Vistfræðifélagið og talsmenn þess. Hann gerir lítið úr þeim með því að kalla þá "hjörð sem nefnir sig Vistfræðifélagið", auk þess sem hann vegur að þeim einstaklingum sem eru talsmenn félagsins, ásakar þá um að vera "sjálfskipaðir sérfræðingar", og staðhæfir að þá skorti þjálfun í rökvísi, gagnrýnni hugsun og vísindalegri aðferðafræði. Hann vegur sérstaklega að starfsheiðri þeirra prófessora við Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands eru meðal talsmanna Vistfræðifélagsins. Þetta eru alvarlegar ásakanir, og umhugsunarvert að þær komi frá manni sem veitir ríkisstofnun forstöðu (Rannsóknarstöð Skógræktar Ríkisins).   

Hver er þá glæpur 14-menninganna sem Aðalsteinn Sigurgeirsson kennir við "Vistfræðifélagshjörðina"? Jú, þeir hafa í fjölmiðlum lýst skoðunum sínum á drögum til endurskoðunar náttúruverndarlaga. Slíkt hafa fjölmargir aðilar gert, þar á meðal skógræktarfélög um land allt. Það hefur vart farið framhjá neinum sem fylgist með þessari umræðu að talsmenn skógræktarfélaga hafa í fjölmiðlum lýst drögunum til endurskoðunar laga um náttúruvernd sem gerræðislegum og ómögulegum í alla staði.  Allt er þetta hluti af lýðræðislegri umræðu og skoðanaskiptum, og skógræktarfélög hafa fullan rétt á því að vera þessarar skoðunnar.  Vistfræðifélagið hefur aðrar skoðanir á innihaldi draganna til nýrra náttúruverndarlaga en Aðalsteinn Sigurgeirsson og félagar hans í skógrækt hafa. Slíkt er eðlilegt í lýðræðissamfélagi og ætti ekki að vera tilefni til gífuryrða eða persónulegra aðdróttanna. Einstaklingar og félagasamtök eiga rétt á því að fá að leggja sitt til málanna, án þess að þeim sé sendur tónninn eða að þeim vegið og reynt að eyðileggja trúverðuleika þeirra. Er einhver leið betri en að treysta hinu lýðræðislega ferli til að leiða til endurskoðunar á náttúruverndarlögum sem sátt geti náðst um í samfélaginu?

Ólafur Ingólfsson (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 23:06

21 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Í pistlinum hér að ofan er fjallað um fyrirbæri sem kallað hefur verið hjarðhugsun á íslensku, sem er þýðing á orðinu groupthinkÍ pistlinum er líst einkennum hjarðhegðunar og úrbótum, en þar er stuðst við hina þekktu umfjöllun Irving Janis hjá Yale háskóla. Spurt er "Hvernig er ástandið í þjóðfélaginu, stjórnmálunum, fjármálaheiminum, vísindaheiminum, vinnustaðnum... ?".  Ekki eru tekin nein ákveðin dæmi.  Í mínum huga er alvarlegasta dæmið um hóphugsun aðdragandi fjármálahrunsins, og þá ekki síst hér á landi. Það dæmi þekkja allir og er óþarfi að útskýra það nánar. Flestir kannast væntanlega við fjölmörg önnur dæmi úr stjórnmálum og vísindum, bæði fyrr og tímum og undanfarið.

Af einhverjum ástæðum leiðast umræður á þessu bloggsvæði oft út í loftslagsmál, jafnvel þó svo að hvergi sé minnst á þau. Vissulega hefur oft verið fjallað um þau mál á gagnrýninn hátt í pistlum hér og reynt að taka stöðu advocatus diaboli eða devil's advocate í rökræðum. Það er ekki á skjön við það  sem talið er að minnkað geti líkur á að hjarðhugsun blómgist, og er aðferð sem beitt hefur verið í árhundruð.

Í apríl í fyrra birti ég pistil þar sem ég lagði línurnar um þá ritstjórnarstefnu sem gildir á þessu bloggsvæði sem ég er ábyrgur fyrir. Sjá hér. Þar stendur meðal annars eftirfarandi:

"Ritstjórnarstefna þessa bloggsvæðis hefur verið mjög einföld og frjálsleg hingað til, enda yfirleitt ekki fjallað um mjög eldfim málefni. Það hefur gengið vel og verið án meiriháttar vandræða.

Stundum hefur þó verið fjallað um málefni eru af einhverjum ástæðum hitamál. Þá kemur fyrir að athugasemdir jaðri við að fara úr böndum og endi út um víðan völl. Komið hefur fyrir að athugasemdir vegna eins pistils hafi  skipt tugum og jafnvel farið yfir hundrað. Bloggarinn hefur ekki tíma til að sinna slíku og þykir stundum nóg um. Stöku sinnum er jafnvel um að ræða innbyrðis deilur milli þeirra sem heimsækja bloggsvæðið. Bloggarinn hefur því ákveðið eftirfarandi sem tekur þegar gildi:

Athugasemdakerfið verður stillt þannig að umsjónamaður bloggsins mun þurfa að samþykkja athugasemdir áður en þær birtast. Þess vegna má því miður búast við allnokkrum töfum.  Munu þá gilda hliðstæðar reglur og hjá ritstjórn blaða; aðeins athugasemdir sem sá sem er ábyrgur fyrir þessu bloggsvæði telur málefnalegar og eiga erindi verða birtar. 

Álit þeirra sem skrifa undir fullu nafni verður metið áhugaverðara en þeirra sem skrifa undir dulnefni eða eingöngu fornafni, og athugasemdir nafnleysingja að jafnaði ekki birtar.

Persónuníð (Ad hominem) eða illt umtal verður ekki undir nokkrum kringumstæðum liðið.

Að jafnaði verða aðeins athugasemdir sem eiga við efni viðkomandi pistils birtar". 

 

Það er ekkert undarlegt  við það að mörgum mislíkar slíkt, og ekkert við því að gera. Það er mín ákvörðun að hafa þessar reglur. Reglur sem eru í samræmi við það sem tíðkast hjá fjölmiðlum.

-

Í fræðunum um groupthink er fjallað um hugsanagæslumenn (mind guards) sem gæta þess að hjörðinni berist ekki óheppilegar upplýsingar, persónuárásir (ad hominem) sem notað er þegar rök þrýtur, og sitthvað fleira sem einkenni hóphugsunar eða groupthink. 

Nú hefur mér öðlast sá mikli heiður að á Sveinn Atli Gunnarsson (Svatli) og Höskuldur Búi Jónsson (Höski Búi)  hafa skrifað heilan pistil um mig á velþekktu bloggsvæði sínu loftslag.blog.is. Pistillinn nefnist hvorki meira né minna en Hjarðhugsun Ágústar. 

Vil ég nú eindregið hvetja alla lesendur þessa pistils að fara á  loftslag.blog.is og lesa nýjasta pistilinn. Gjarnan skrifa komment þar ef menn telja ástæðu til og vísa til þessarar athugasemdar, en það mun ég ekki gera sjálfur.

Sjálfur vil ég gjarnan mega þakka félögunum Svatla og Höska fyrir að koma með dæmi sem passar einstaklega vel við umræðuefni þessa pistils sem er "Hjarðhugsun manna eða Groupthink" eins og fyrirsögnin bendir til. Það er ekki á hverjum degi sem svonalagað smellpassar við umræðuefnið.

Takk enn og aftur fyrir aðstoðina Höski Búi og Svatli .   Ég mun ekki eiga við ykkur orðastað um þessi mál eða loftslagsmál í framtíðinni...  Þeim kafla er lokið.

---

Ég vil ítreka að reglum þessa bloggsvæðis, sem birtust í pistlinum Ritstjórnarstefna bloggsins  frá 4. apríl 2010 og eru enn í fullu gildi, verður framvegis sem hingað til beitt ef sá sem ber ábyrgð á þessu bloggsvæði telur ástæðu til, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Aðeins málefnalegar athugasemdir sem skrifaðar eru án skætings og án neikvæðni í garð annarra, svo og undir fullu nafni verða birtar.

Hvers vegna eru svona margir sauðir í hjörðinni?

 

Ágúst H Bjarnason, 9.2.2011 kl. 06:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband