Meðalhiti lofthjúpsins heldur áfram að falla hratt ...

 

uah_may_08---700w

 Ferillinn er frá vefsíðu Antony Watt

Nú hafa verið birtar mæliniðurstöður sem sýna meðalhita lofthjúps jarðar í maí. Niðurstaðan er sláandi eins og sjá má á myndinni.  Hitinn fellur mjög hratt í maí eins og undanfarna mánuði.  Til samanburðar er talið að hiti lofthjúps jarðar hafi hækkað um því sem næst 0,7°C á síðastliðnum 100 árum.  Þetta þarf þó auðvitað ekki að tákna neitt sérstakt því við höfum áður séð svona sveiflur.

Veðurblíðan hefur leikið um okkur á Íslandi undanfarið. Þannig er því þó ekki farið víðast hvar, enda hafa borist fréttir af köldu árferði víða. Í Norður Ameríku hefur t.d. verið óvenju kalt vor.

 

MAY2008GLOBE--600w

Þróun síðustu 5 ára. Blái ferillinn (UAH MSU)er mæling frá gervihnetti. Rauði ferillinn (Hadley) er frá bresku veðurstofunni. Blái ferillinn er með mæliniðurstöður til loka maí, en sá rauði til loka apríl.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spekingarnir/Þverhausarnir munu bara segja að það kólni í fáein ár á undan hlýnuninni.

Ólafur B. Jónsson (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 15:53

2 Smámynd: Einar Þór Strand

Hafa alltaf haft það í bakhöndinni að einhversstaðar myndi kólna og hefur Ísland oft verið nefnt sem dæmi um stað sem ætti að kólna á í hlýnunninni.  En Ágúst er þetta línurit til lengra aftur í tímann?

Einar Þór Strand, 4.6.2008 kl. 16:52

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Einar.  Gervihnattamælingar hófust ekki fyrr en í desember 1978.  Flest línurit sem til eru er hægt að finna hér, en ferlarnir eru uppfærðir reglulega og heimilda getið.

Ágúst H Bjarnason, 4.6.2008 kl. 17:02

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Er á bloggrúntinum að reyna að gleyma mér yfir einhverju.  Kveðja frá skjáltasvæðinu.  Earthquake 

Ásdís Sigurðardóttir, 4.6.2008 kl. 18:25

5 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Hver mælingin á fætur annari bendir til hins sama, það er að segja kólnunar. Þetta er staðreynd, sem Al Gore og kumpánar hans munu eiga erfitt með að afsanna. Þeir eru samt við sama heygarshornið, samanber nýjar tillögur um að skattleggja framleiðslu lífsandans, hjá bifreiðaeigendum. Því miður er að kólna, því að ekkert getur aukið lífsgæði mannkyns og sérstaklega Íslendinga, eins og hlýnandi veðurfar.

Hvað ætla þessi flón að horfa lengi á kólnandi veðurfar, samfara stöðugt vaxandi lífsanda í andrúmi Jarðar og halda því jafnframt fram að lífsandinn (CO2) valdi hlýnandi veðurfari ? Hvað ætlar vísindasamfélagið í heild, að horfa lengi upp á vitleysinga rústa orðspori vísindanna ? Vitleysinga eins og þá sem ráða á Veðurstofu Íslands ?

Loftur Altice Þorsteinsson, 4.6.2008 kl. 19:52

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir þessar gagnmerku upplýsingar, Ágúst. Það verður samt á brattann að sækja fyrir þá loftslagsfræðinga sem taka þessi gögn alvarlega, því að skriðdrekasveitin mikla með peningamaskínuna og pólitíska valdið er komin á góðan skrið. Hún tæki skipun um að venda afar illa. Nú er svo komið að öfug sönnunarbyrði er komin á, þ.e. það þarf að sanna að co2 losun mannanna valdi ekki hitun jarðar! Skattlagningin er orðin að veruleika, en svona gögn frá alvöru aðilum gætu skipt máli til langs tíma.

Ívar Pálsson, 4.6.2008 kl. 20:41

7 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Takk fyrir

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 4.6.2008 kl. 22:36

8 Smámynd: Rauða Ljónið

 Sæll, Ágúst takk fyrir greinina.

Kólnun.

 Oft í hausinn  steininn slær,
sá er ekkert skilur.
Loftið kólnar  færist nær,
Vá er fyrir dyrum.

Svig.

Kv, Sigurjón Vigfússon 

 

Rauða Ljónið, 4.6.2008 kl. 23:17

9 Smámynd: Rauða Ljónið

Oft í hausinn  steininn slær,
sá er ekkert skilur.
Loftið kólnar  færist nær.
Vá er fyrir dyrum.

Rauða Ljónið, 4.6.2008 kl. 23:18

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það er vonandi að þessi kólnun sem mælst hefur sé bara tímabundin og gangi til baka. Nærtækasta skýringin á þessu hitafalli er La Nina í Kyrrahafinu sem hófst fyrir fáeinum mánuðum. La Nina virðist þó vera að hverfa um þessar mundir þannig að þar verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála næstu mánuði.

Það er samt athyglisvert að hitinn hefur verið að falla allt frá áramótum 2006/2007 ens og sjá má á ferlunum hér fyrir ofan og hér:

 [uah-msu.JPG]

Ágúst H Bjarnason, 5.6.2008 kl. 07:15

11 identicon

Hmmm... mér þykir þú oftúlka þetta graf.  Ef þú vilt raunverulega sjá hvað er í gangi, sýnir þú þetta graf og önnur, sem ná lengra aftur í tímann og nota aðrar mæliaðferðir.  Öðruvísi er ekki hægt að komast að rökréttri niðurstöðu.  Það vita allir vísindamenn, það þarf að sýna fram á hlutina með meira en einni aðferð til að hún teljist trúverðug.

 Þar að auki, ef þú skoðar grafið er nokkuð augljóst að þó hitinn sé í niðursveiflu akkúrat núna, þýðir það ekki neitt í raun og veru og sennilega ekki hægt að túlka þessa sveiflu fyrr en eftir nokkur ár.  Hitinn gæti haldið áfram að falla, en hann gæti líka sveflast upp aftur eins og svo margoft sést á þessu grafi.   Sveiflan niðrávið er til dæmis ekki orðin jafndjúp og hún varð rétt fyrir uppsveifluna sem toppaði 1998.

Vísindamenn í heiminum eru flestir á því að hnattræn hlýnun sé staðreynd.  En það sést reyndar ekki á svona gröfum sem ná svo stutt aftur í tímann.  Það sem við vitum ekki og menn deila um er hvort að þessi hlýnun sé af mannavöldum eða ekki.

Það hjálpar heldur ekki umræðunni þegar menn eins og þú taka hlutina úr samhengi eins og í þessari færslu.  Ég get lofað þér því að ef þetta væri svona klippt og skorið væri ekki deilt um þetta í vísindaheiminum.  Málið er mun flóknara og snýst ekki einungis um dogmatisma heldur vísindamenn sem reyna að túlka mjög flókin gögn sem unnin eru með margskonar mæliaðferðum.

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 5.6.2008 kl. 07:42

12 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Og ég sem var að vonast eftir að það myndi hlýna þannig að olíuverð myndi lækka eða hækka, færri drepast úr kulda eða úr hita, og að ég þyrfti ekki að kaupa Jörð í Afríku sem skýli í komandi ísöld. Einnig var ég að vonast eftir að það væri hægt að sannfæra Afríkubúa um að það sér vel hægt að reka nýjar stálverksmiðjur með hita frá umhverfisumræðum í London, og að þær járnbrautir sem toga 5.000 tonna þunga vagnana hlaðna stáli um slétturnar, geti vel ekið um á afgangsorku frá andaglasi þreyttra vesturlandabúa.

Þetta boðar bara alls ekki neitt gott, það getur ekki verið.

Hver er að græða á þessu ?

Gunnar Rögnvaldsson, 5.6.2008 kl. 08:25

13 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Erna:

Ég hef hvergi minnst á gróðurhúraáhrif eða hnatthlýnun af mannavöldum í þessum pistli né oftúlkað grafið að mínu viti. Þvert á móti segi ég í pistlinum orðrétt "Þetta þarf þó auðvitað ekki að tákna neitt sérstakt því við höfum áður séð svona sveiflur." og í athugasemdunum "Nærtækasta skýringin á þessu hitafalli er La Nina í Kyrrahafinu sem hófst fyrir fáeinum mánuðum. La Nina virðist þó vera að hverfa um þessar mundir þannig að þar verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála næstu mánuði.". Oftúlkun???

Þú skrifar: "Það hjálpar heldur ekki umræðunni þegar menn eins og þú taka hlutina úr samhengi eins og í þessari færslu.". Hvar í ósköpunum tók ég hlutina úr samhengi? Fyrir alla muni lestu pistilinn aftur og nú rólega.

Þú kvartar yfir því að ferillinn sé ekki nógu langur. Einnig kvartar þú yfir því að aðeins sé vitnað í eina mæliaðferð. Svarið við fyrri liðnum kom fram í athugasemd #4: " Gervihnattamælingar hófust ekki fyrr en í desember 1978. Flest línurit sem til eru er hægt að finna hér, en ferlarnir eru uppfærðir reglulega og heimilda getið". Á síðunni sem ég vísa til eru línurit sem sýna nánast allar mælingar sem til eru og gerðar eru með mismunandi aðferðum. Þar er óbeint svarið við seinni liðnum.

Seinni myndin í pistlinum sem nær aðeins yfir tíambilið frá 2002 er með tveim ferlum. Efri ferillinn er frá hinni virtu bresku stofnun Met Office Hadley Centre og sýnir mælingar gerðar með hefðbundnum aðferðum á jörðu niðri. Þar vantar gögn fyrir maímánuð, enda hafa þau ekki verið birt ennþá. Efri ferillinn er aftur á móti gerður með mæligum frá gervihnöttum. Þarna eru því tvær mæliaðferðir bornar saman.

Ég er sammála þér að loftslagsmálin eru flókin, en það er ekki þar með sagt að menn eigi að hætta að hugsa og hætta að velta þessum málum fyrir sér. Loftslagsfræðin eru mjög áhugaverð og er vel þess virði að kynna sér þau.

Enn og aftur: Í þessum pistli hef ég eingöngu minnst á náttúrulegar sveiflur. Hvergi minnst á hnatthlýnun af manna völdum. Það er með vilja gert.

Ágúst H Bjarnason, 5.6.2008 kl. 10:01

14 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Sæll Ágúst:

Það er alveg ljóst að þú ert afskaplega vel að þér í þessum málum, en ég hef oft á tilfinningunni að þú sért að reyna að fela skoðanir þínar á þessum málum. Titill þessa pistils er: "Meðalhiti lofthjúpsins heldur áfram að falla hratt ..." og ég spyr; "hvað með það, hver er þín túlkun?" Það er alveg ljóst að flestir sem hér kommentera án þess að þú mótmælir taka þetta sem rök gegn því að hnattræn hlýnun sé að eiga sér stað vegna losunar gróðurhúsaloftegunda. Þú passar þig vandlega að segja þetta aldrei og eins og þú segir sjálfur, þá er það "með vilja gert".

Ég ætla að leyfa mér að spyrja þig beint út:

1. Ert þú sammála eða ósammála meginniðurstöðum nýjustu skýrslu IPCC sem kemst að þeirri eindregnu niðurstöðu að hlýnun sé að eiga sér stað og að meginskýringin sé losun gróðurhúsalofttegunda?

2. Telur þú að það sé vísindalegt að horfa á sveiflur frá mánuðið til mánuðar þegar verið er að horfa langtímabreytingar á loftslagi?

3. Í eftirfarandi tenglum má sjá lofthita sl. rúmlega 30 ár. Í stað þess að horfa einvörðungu á sveiflur frá ári til árs þá hafa verið bættar inn bláar línur er sýna "trend" eða hitabreytingu fyrir lengri tíma, 7 ár, 8 ár eða 15 ár. Þetta er gert til að losna við ýmsar breytur sem mætti kalla truflun eða hávaða ("noise") í kerfinu. Þú virðist aftur á móti hafa sérstakan áhuga á þessari truflun eða "noise" og ég tel að það sé einfaldlega gert til að missa sjónar af aðalatriðinu sem er ótvíræð og hröð hitastigshækkun sem er hnattræn og stöðugt vaxandi.

Tölur með breskum mælingum - UK MEt Office (HadCru data) með 8 ára trend línum: http://www.realclimate.org/images/hadcru-8yr.jpg 

Tölur með Bandarískum mælingum - NASA, (GISS data) með 7 ára trend línum: http://www.realclimate.org/images/giss-7yr.jpg

Tölur með Bandarískum mælingum - NASA, (GISS data) með 15 ára trend línum: http://www.realclimate.org/images/giss-15yr.jpg

Hvernig túlkar þú þessi gröf? Finnst þér þau benda til þess að veðurfar sé að hlýna? 

4. Lokaspurning, finnast þér þau gögn sem þú ert núna að vekja athygli á benda til þess að hnattræn hlýnun sé ekki að eiga sér stað?

Mér finndist viðeigandi að þú svaraðir öllum þeim sem að mínu mati algerlega rangtúlka þín innslög (Spamsi, Ólafur B,. Jónsson, Loftur Altice, Ívar Pálsson) með sama þrótti og þú svarar Ernu, nema ef þú ert sammála þeirra túlkunum.

Magnús Karl Magnússon, 5.6.2008 kl. 11:31

15 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Magnús Karl. Ég skal svara hreint út:

1. Ert þú sammála eða ósammála meginniðurstöðum nýjustu skýrslu IPCC sem kemst að þeirri eindregnu niðurstöðu að hlýnun sé að eiga sér stað og að meginskýringin sé losun gróðurhúsalofttegunda?

Svar: Hlýnun hefur átt sér stað undanfarin hundrað ár, það vita allir. Eðlisfræðin segir okkur að CO2 í lofthjúpnum valdi gróðurhúsaáhrifum á sama hátt og vatnsgufa. Að mínu áliti er ekki hægt að skýra alla hlýnunina sem er um 0,7 gráður C með losun gróðurhúsalofttegunda. Oft hef ég sagt og skrifað að um "helming" hitahækkunar megi rekja til losunar á gróðurhúsalofttegunda og um "helming" til náttúrulegra sveifla. Síðan hef ég bætt við að orðið "helmingur" geti þýtt eitthvað á bilinu 20% til 80%. Ég treysti mér ekki til að vera nákvæmari. Ég er sem sagt sammála IPCC um að hlýnun hafi átt sér stað, en ekki sammála því að meginskýringin sé losun manna á gróðurhúsalofttegundum. Náttúruleg gróðurhúsaáhrif (vatnsgufa og CO2) valda um 30° hækkun hitastigs, en viðbótar gróðurhúsaáhrif af mannavöldum um helmingi af 0,7 gráðum, eða um 1% af náttúrulegum. (Segir IPCC einhvers staðar að meginskýringin sé losun gróðurhúsalofttegunda?)

2. Telur þú að það sé vísindalegt að horfa á sveiflur frá mánuðið til mánuðar þegar verið er að horfa langtímabreytingar á loftslagi?

Það hefur oft komið fram hjá mér að alls ekki megi líta á skammtímasveiflur. Að nokkru kemur það fram í pistlinum hér að ofan þar sem segir "Þetta þarf þó auðvitað ekki að tákna neitt sérstakt því við höfum áður séð svona sveiflur", og í athugasemd #11 þar sem segir "Það er vonandi að þessi kólnun sem mælst hefur sé bara tímabundin og gangi til baka. Nærtækasta skýringin á þessu hitafalli er La Nina í Kyrrahafinu sem hófst fyrir fáeinum mánuðum. La Nina virðist þó vera að hverfa um þessar mundir þannig að þar verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála næstu mánuði."

Allar stórar breytingar byrja þó smátt og útilokað að greina þær frá noise. Breytingar hljóta þó að vekja athygli manns og fá mann til að opna augun og reyna að finna skýringar. Ég benti á L-Nina fyrirbærið í Kyrrahafi sem hófst (minnir mig) um áramótin og veldur ótvírætt kólnun. Ef svo er, þá ætti þessi kólnun brátt að ganga til baka, því La-Nina er að ganga til baka. Ef aftur á móti kólnunin heldur áfram næstu mánuði, þá er full ástæða til að leita annarra skýringa.

3. Í eftirfarandi tenglum má sjá lofthita sl. rúmlega 30 ár. Í stað þess að horfa einvörðungu á sveiflur frá ári til árs þá hafa verið bættar inn bláar línur er sýna "trend" eða hitabreytingu fyrir lengri tíma, 7 ár, 8 ár eða 15 ár. Þetta er gert til að losna við ýmsar breytur sem mætti kalla truflun eða hávaða ("noise") í kerfinu. Þú virðist aftur á móti hafa sérstakan áhuga á þessari truflun eða "noise" og ég tel að það sé einfaldlega gert til að missa sjónar af aðalatriðinu sem er ótvíræð og hröð hitastigshækkun sem er hnattræn og stöðugt vaxandi......

Þegar ég hef sjálfur verið að plotta ferla úr gögnum sem ég hef sótt í gagnabanka (sjá t.d. ferlana hér) þá hef ég yfirleitt einnig teiknað langtíma meðaltal, einmitt í því skyni að losna við "noise". Enda er ekkert vit í öðru. Að öðru leyti vísa ég í fyrra svar mitt varðandi skammtíma breytingar.

Hér er dæmi um feril þar sem ég hef notað 10 ára meðaltal til að losna við "nose" . (Líklega teiknað 1998).

Stykkishólmur

Hvernig ég túlka þessi gröf sem þú vísar á?
Veðurfar hefur verið að hlýna fram að síðustu aldamótum, en ekki eftir það það. Það vekur áhuga minn á hvað geti legið að baki.

4. Lokaspurning, finnast þér þau gögn sem þú ert núna að vekja athygli á benda til þess að hnattræn hlýnun sé ekki að eiga sér stað?

Hnattræn hlýnun átti sér ótvírætt stað á síðustu öld, en hún þarf alls ekki öll að vera af mannavöldum eins og ég svaraði í spurningu #1.

Ég tel ekki útilokað að náttúrulegi þáttur hnatthlýnunar sé að ganga til baka um þessar mundir. Ef svo reynist vera, þá ætti að koma í ljós hver þáttur losuna manna á CO2 er.

Ágúst H Bjarnason, 5.6.2008 kl. 12:19

16 Smámynd: Einar Þór Strand

Því er viðbrugðið hversu menn leita til aðferða fasista til að kveða niður alla umræðu um hnattræna hlýnun.

1 Hún skal vera af mannavöldum þó svo að það sé í raun ekkert sem sanni það eða afsanni og auðvitað er eitthvað af henni okkur að kenna.

2 Vrikni sólar hefur lítil sem engin áhrif á hvort hlýnar hnattrænt, en hvernig má það vera þegar öll orka á jörðinn fyrir utan kjarnorku er sólarorka í einhverri mynd.

Það sem Ágúst er að benda á að það er að kólna á sama tíma og virkni sólar er að minnka og það er spennandi að sjá hvað gerist á næstu árum og áratugum heldur virkni sólar áfram að vera lítil og mun það valda kólnun eins og ég og Ágúst og margir fleiri lærðir og leikir halda eða hefur IPCC og Gore rétt fyrir sér og við stefnum á heimsendi.

En vandamálið ef IPCC og Gore hafa rétt fyrir sér þá er lítið hægt að gera því hörðustu aðgerðarsinnar í loftslagsmálum vita það innst inni að þær aðgerðir sem þarf til að minnka orkunotkun mannkyns stöðva hlýnun þannig munu láta Hitler og nasista líta út eins og engla.

Reyndar er sýnin ekkert skárri ef við erum að stefna í kólnun nema að hugsanlega höfum við lengri tíma til að aðlagast.

Hvers vegna er ég að segja þetta jú aðal vandamálið er offjölgun mannkyns sem hefur kallað á aukna framleiðslu á mat, aukið húsnæði, auknar samgöngur og bara yfirleitt aukna orkunotkun.  Ef við ætlum að minnka þessa orkunotkun þá verður það varla gert nema að fækka mennkyni því með minni orkunotkun verður minni möguleiki á að skaffa allan þann mat sem þarf. (Til að skaffa mannkyni kjöt sam svarar til eins hamborgara á dag þarf ca fjórar milljónir nautgripa á dag), þannig að hvernig sem fer þá erum við í slæmum málum ekki vegna þess að það hitnar eða kólnar það er í raun smá mál heldur vegna þess að við erum 8 milljarðar eða fleiri.  Og það er ekki til einn einasti stjórnmála eða vísindamaður með einhverja vikt sem þorir að ræða það vandmál.

Eiginlega er eina vonin sem við getum haft er að það kólni smá en ekki of mikið og það sé vegna áhrifa sólar, og að tíminn sem vinnst verði notaður til að koma böndum á fólksfjölgunina og fækka mannkyns hægt og rólega niður í 2 - 3 milljarða max nota bene á eðlilegan hátt með fækkun fæðinga.

Einar Þór Strand, 5.6.2008 kl. 12:58

17 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Sæll aftur Ágúst:

Varðandi punkt númer 1. Já, IPCC segir það mjög skýrt að meginskýringin á hitastigshækkun sl. áratuga (sérstaklega síðust áratugi 20 aldar) liggi í losun gróðurhúsalofttegunda. Hér er mynd sem sýnir þá þætti ("radiative forcing" er það kallað) sem hafa áhrif.

http://www.ipcc.ch/graphics/graphics/syr/fig2-4.jpg 

Sá eini náttúrlegi þáttur sem kemst á blað eru sveiflur í sólarvirkni (solar irradiance)og hefur sá þáttur hverfandi áhrif. Þessi mynd er úr smiðju IPCC og er ein af ástæðum þess að menn telja að meginskýringin á hitastigshækkun síðustu áratuga liggi í losun mannanna á gróðuhúsalofttegundum . Ágúst, þú segir "Náttúruleg gróðurhúsaáhrif (vatnsgufa og CO2) valda um 30° hækkun hitastigs, en viðbótar gróðurhúsaáhrif af mannavöldum um helmingi af 0,7 gráðum, eða um 1% af náttúrulegum". Þetta er algerlega marklaus setning í þessu samhengi, að mínum dómi. Auðvitað er það hárrétt að vatnsgufa hefur veruleg áhrif á lofthita. Náttúrulegar gróðurhúsalofttegundir vega mun þyngra en gróðurhúsalofttegundir frá mönnum í heildarhitastigi. Um það deilir enginn. Krítíska atriðið er hvort að breytingar séu að verða í hitastigi og hvað skýrir þær breytingar. Þetta gildir líka um algerlega marklausar setningar eins og Einar notaði hér að ofan "öll orka á jörðinn fyrir utan kjarnorku er sólarorka í einhverri mynd". Auðvitað er það sólin sem er að flytja orkuna hingað í sem síðan breytist í varma, en það styrkur gróðurhúsalofttegunda sem hefur veruleg áhrif á það hversu mikil orka verður eftir hér í formi varma og hversu mikið endurspeglast aftur út í himingeiminn.

Það er dálítið þreytandi þegar fólk eins og Einar talar um fasista og ásakanir um að kveða niður umræður þegar maður tekur þátt í umræðum. Ég er svo sannarlega ekki að kveða niður umræðu, ég vona aftur á móti að upplýst umræða geti kvaðið niður fáfræði og illa rökstuddar fullyrðingar. En ég skil þó ekki alveg punkta Einars, þannig að kannski er ég að misskilja hann eitthvað.

En að lokum Ágúst, ég skil ekki alveg af hverju þú áætlar að losun gróðurhúsalofttegunda skýri ca. helming (eða 20-80%) af hitastigshækkun á 20 öld. Á hverju er það byggt? Einhverjum "radiative forcing módelum" eða bara "gut-feeling". Útreikningar vísindamanna IPCC eru að sjálfsögðu byggð á mæligögnum og módelum ekki bara "gut-feeling".

Með kveðju,

Magnús Karl Magnússon, 5.6.2008 kl. 13:50

18 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þegar ég skrifa "Náttúruleg gróðurhúsaáhrif (vatnsgufa og CO2) valda um 30° hækkun hitastigs, en viðbótar gróðurhúsaáhrif af mannavöldum um helmingi af 0,7 gráðum, eða um 1% af náttúrulegum". Þá er það rétt fullyrðing. Án gróðurhúsaáhrifa væri meðalhiti jarðar um -18°C en er +15°C vegna þessara áhrifa. Þetta er ekki flókið að reikna út með hjálp eðlisfræðinnar. Sjá til dæmis hér. Það eru þessi náttúrulegu gróðurhúsaáhrif sem gera jörðina lífvænlega. 

Planetary greenhouse effect

Útreiknuð gildi gróðurhúsaáhrifa fyrir Venus, Jörðina og Mars. Þar kemur fram að þau valda 33 gráðu hækkun hitastigs á jörðinni, 505 gráðum á Venus og aðeins 2 gráðum á Mars. Sjá hér

Jafnvel þó ég sleppti því að segja  "um helmingi af 0,7 gráðum" og segði í þess stað "öllum 0,7 gráðunum" orsökuðu viðbótar gróðurhúsaáhriin um 2% á náttúrulegum í stað 1%.

Magnús. Þú skilur ekki hvers vegna ég áætli að  losun gróðurhúsalofttegunda skýri ca. helming (eða 20-80%) af hitastigshækkun á 20 öld. Ég veit að náttúrulegar sveiflur í hitafari voru gríðarmiklar fyrir iðnbyltinguna. Mér þykir þess vegna mjög undarlegt ef þær eru allt í einu óverulegar í dag. Mæligögnum trúi ég miklu betur en módelum.

Við vitum að álíka hlýtt var á jörðinni fyrir um 1000 árum og er í dag. Við vitum líka að á sautjándu öld ríkti víða í heiminum fimbulkuldi, meðal annars á Íslandi.  Þór Jakobsson vitnar til Þorvaldar Thoroddsens í erindi sem hann flutti á Oddastefnu í Þykkvabæ árið 1995. Erindið kallaði hann Um hafís fyrir Suðurlandi - frá landnámi til þessa dags. Á bls. 93 segir:

1695. Óvanalega miklir hafísar. Ís rak um veturinn upp að Norðurlandi og lá hann fram um þing, norðanveður ráku ísinn austur fyrir og svo suður, var hann kominn fyrir Þorlákshöfn fyrir sumarmál og sunnudaginn fyrstan í sumri (14. apríl) rak hann fyrir Reykjanes og Garð og inn á fiskileitir Seltirninga og að lokum að Hvalseyjum og í Hítarós, fór hann inn á hverja vík. Hafði ís ei komið fyrir Suðurnes innan 80 ára, þótti því mörgum nýstárlegt og undrum gegna um komu hans. Þá mátti ganga á ísum af Akranesi í Hólmakaupstað (Reykjavík) og var ísinn á Faxaflóa fram um vertíðarlok rúmlega, braut hann skip undan 6 mönnum fyrir Garði, en þeir gengu allir til lands.

Til eru mjög góðar myndir sem lýsa vel vetrarhörkunum á megnlandi Evrópu og á Englandi. Til dæmis þessi eftir Abraham Hondius sem sýnir ísilagða Thames árið  1677.

  Ísilögð Thames árið 1677

Vonandi á þetta ekki eftir að endurtaka sig, en margir kenna óvenju lítilli virkni sólar um þessi ósköp, en lægðin í virkni sólar kallast Maunder Minimum (1645-1715).  Við vitum líka að það var einnig óvenju kalt meðan á Dalton lámarkinu stóð (1790-1830). Kanski bara tilviljun?

  Sólsveiflur í tæp 400 ár

 Nú er bara að bíða í nokkur ár og sjá hvað verða vill varðandi náttúrulegar sveiflur...

Ég nenni alls ekki að standa í ritdeilum um gróðurhúsaáhrif af mannavöldum hér. Það var aldrei ætlunin með pistlinum. Slæ því botninn í þessa umfjöllun mína að sinni.

Ágúst H Bjarnason, 5.6.2008 kl. 14:38

19 Smámynd: Einar Þór Strand

Magnús ég er ekki að tala um þig, en það er staðreynd að fólk er látið vita að það sé ekki við hæfi að andmæla IPCC, og það þó svo að margir vísindamenn, sem áttu þar sæti, hafi ekki viljað leggja nafn sitt við þær niðurstöður og talið þær verulega einföldun á flóknumál.

Einar Þór Strand, 5.6.2008 kl. 15:14

20 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Sæll aftur Ágúst:

Þú hefur lokið þinni umfjöllun og því mun ég einnig slá minn lokapunkt með þessu innleggi. Ég stend í engum deilum við þig um að náttúrulegar gróðurhúsalofttegundir eru mun mikilvægari fyrir heildarhitastig - en þær (þ.e. þær náttúrulegu) skýra ósköp einfaldlega engan veginn BREYTINGAR á hitastigi sem við verðum nú vitni að.

Varðandi útskýringu þína á þætti náttúrlegra þátta í loftlagsbreytingum, þá því miður sýnist mér koma þar í ljós hjá þér allalvarlega rökvilla. Við erum nú að sjá breytingar á loftslagi og þurfum að útskýra þær.  Um það snýst væntanlega deilan. Þær útskýringar geta átt sér rætur í náttúrulegum þáttum eða þáttum sem komnir eru til vegna aðgerða okkar mannanna. Til að skýra þátt hverrar breytu (CO2, vatnsgufa metan, sólarvirkni, eldgos etc.....) þarf mæligögn og síðan er vegið og metið hvað vegur þyngst. Það hafa vísindamenn IPCC gert og komist að sínum niðurstöðum. Þú virðist aftur á móti fara fjallabaksleið að þínum ályktunum. Áður en maðurinn kom til (eða áður en maðurinn var jafnafkastmikill í að hafa áhrif á umhverfi sitt) hlutu náttúrlegir þættir að skýra veðurfarsbreytingar  (hinir mannlegu þættirnir komu ósköp einfaldlega ekki til álita). Þú segir síðan að að því að það hafa orðið breytingar á hitastigi í fyrndinni vegna náttúrulegra þátta þá hljóta þær einnig að spila stóra rullu núna. Slík rök ganga ósköp einfaldlega ekki upp. Sveiflur í náttúrulegum þáttum geta gengið í báðar áttir, hitnun eða kólnun. Við höfum ósköp einfaldlega enga hugmynd um þátt náttúrlegra eða mannlegra breyta í þessu reikningsdæmi nema við mælum þættina og vegum og metum hvern þeirra. Rök þín ganga því ekki upp nema þú sýnir að breytingar hafi orðið í þessum náttúrulegum breytum sem útskýra þetta. Ég veit ekki til að slík mæligögn séu til.

Þú segir síðar - "Mæligögnum trúi ég miklu betur en módelum". Önnur sérkennileg fullyrðing. Módelin byggja að sjálfsögðu á mæligögnum. Við höfum ýmis konar mæligögn og síðan er módelið notað til að reikna út hvernig þessa mæligögn hafa áhrif á reiknilíkanið. Reiknilíkanið í þessu tilfelli er að síðan meta þátt hverrar breytu í hitastigi jarðar á hverjum tíma. Þú virðist aftur á móti gefa þér að náttúrleg sveifla hljóti að skýra veðurfarsbreytingarnar sem við sjáum, hvað sem mæligögnin sýna. Slíkt þykja mér harla léleg rök, því miður.

Læt ég þá þessu lokið. Þakkir fyrir málefnalega umræðu og kveðja,

Magnús Karl Magnússon, 5.6.2008 kl. 15:54

21 Smámynd: Hólmgeir Guðmundsson

Módelin byggja að sjálfsögðu á mæligögnum. Við höfum ýmis konar mæligögn og síðan er módelið notað til að reikna út hvernig þessa mæligögn hafa áhrif á reiknilíkanið. Reiknilíkanið í þessu tilfelli er að síðan meta þátt hverrar breytu í hitastigi jarðar á hverjum tíma.

Ofangreinda klausu skil ég reyndar ekki, er ekki "módelið" og "líkanið" sama fyrirbærið ? Hins vegar þykist ég skilja það sem Ágúst er að benda á, að eins og hlýnunin frá (ca) 1970-2000 passaði vel við aukinn styrk CO2 í andrúmslofti þá passar jafnilla saman að áfram eykst CO2 en ekki hefur mælst hærri meðalhiti á jörðinni en var 1998. Kannski er það (tíföld) tilviljun en það er sem betur fer leyfilegt að efast um kenningarnar nú á tímum.

Hólmgeir Guðmundsson, 5.6.2008 kl. 23:47

22 identicon

Natturuleg sveifla gaeti allt eins hafa verid kolnun sidastlidin 100ar,

og hlynun af mannavoldum thvi meiri en 0.7C.

Thad er ekkert oliklegra en hitt.

Hermann Ingjaldsson (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 05:32

23 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég sagði hér fyrir ofan að ég treysti betur mælingum en módelum. Það er ekki að öllu leyti rétt. Ég á mjög erfitt með að treysta mæligögnum frá NASA, þ.e. gögnum frá hefðbundnum mælistöðvum á jörðu niðri. Er það bæði vegna sífelldara breytinga sem verið er að gera á eldri gögnum (sjá t.d. hér), skorti á mæligögnum frá ákveðnum heimshlutum (sjá sama stað) og illa umhirtum veðurstöðvum í Bandaríkjunum (sjá hér).

Aftur á móti treysti ég mun betur mæligögnum frá Hadley í Bretlandi og mælingum frá gervihnöttum, bæði UAH og RSS úrvinnslunni. Mæligögn frá þessum aðilum hafa fylgst nokkuð vel að.

Þar til annað kemur í ljós held ég að dýfuna sem lofthitinn tók síðustu mánuði megi rekja til La-Nina í Kyrrahafinu. Svona hitafall var viðbúið. (Sjá Aths #11).

Því er ekki að leyna að ég hef lúmskan grun um að náttúruleg sveifla valdi því að hitinn hefur því sem næst staðið í stað í áratug. Það er samt allt of snemmt að fullyrða nokkuð um það, en hugsanlega geta næstu ár orðið áhugaverð. Þá á ég auðvitað við þá staðreynd að virkni sólar hefur verið óvenju lítil undanfarið. Virðist fara hratt minnkandi miðað við undanfarin ár.  Ég bloggaði um það 14. mars hér.  Nú tæpum þrem mánuðum síðar hefur engin breyting orðið á sólinni og ekkert markvert  farið að bera á sólsveiflu #24. 

Ágúst H Bjarnason, 6.6.2008 kl. 07:18

24 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Hólmgeir Guðmundsson Segir: "Módelin byggja að sjálfsögðu á mæligögnum. Við höfum ýmis konar mæligögn og síðan er módelið notað til að reikna út hvernig þessa mæligögn hafa áhrif á reiknilíkanið. Reiknilíkanið í þessu tilfelli er að síðan meta þátt hverrar breytu í hitastigi jarðar á hverjum tíma.

Ofangreinda klausu skil ég reyndar ekki, er ekki "módelið" og "líkanið" sama fyrirbærið ? Hins vegar þykist ég skilja það sem Ágúst er að benda á, að eins og hlýnunin frá (ca) 1970-2000 passaði vel við aukinn styrk CO2 í andrúmslofti þá passar jafnilla saman að áfram eykst CO2 en ekki hefur mælst hærri meðalhiti á jörðinni en var 1998. Kannski er það (tíföld) tilviljun en það er sem betur fer leyfilegt að efast um kenningarnar nú á tímum."

Reiknilíkanið=modelið, það er rétt.

Hólmgeir gefur sér síðan að hitinn hafi ekkert hækkað frá 1998, sem er ekki rétt. Ef að þú tekur tímann frá 1970 til 2007 hefur hiti farið jafn og þétt hækkandi. Það er ósköp einfaldlega rökvilla að horfa á tímabilið frá 1998 og næstu ár á eftir að því að 1998 skar sig úr öðrum árum hvað hita varðar. Þetta er þannig "trix" þeirra sem villja halda því fram að hlýnunin sé hætt. Horfðu á þetta graf (sjá link: http://www.realclimate.org/images/hadcru-8yr.jpg ). Þessar tölur eru frá Bresku veðurstofunni og sýna global hitastig en í stað þess að fókusera á hitastigið ár frá ári eru þarna líka bláar línur sem hver um sig sýna hitabreytingu 8 aðliggjandi ára. Næstum allar línurnar sína það sama. Hiti á hverju átta ára tímabili fer hækkandi og sérstaklega má benda á að ALLAR LÍNUR frá árinu 1985 stefna í sömu átt. þ.e. upp á við.

Að lokum Hólmgeir, að sjálfsögðu má, og á, að efast. Það gera raunvísindamenn. En efi þarf að byggja á rökum. Efasemdarmaður sem hlustar ekki rök er því andstaða við hinn raunverulega efasemdarmann raunvísindanna, sem efast um allt þangað til gögnin sannfæra hann um annað. Ég hef lagt nokkuð á mig til að reyna að skilja helstu gögn veðurfarsvísindanna og eftir þá yfirlegu þá treyst ég þessum gögnum og túlkunum fræðimanna á þessu sviði vel. Ekki síður treysti ég vísndasamfélaginu almennt. T.d. treysti ég að afstæðiskenning Einsteins standist tímans tönn og sé í samræmi við hið "sanna", þetta er ekki vegna þess að ég skilji hana heldur vegna þess að fólk sem ég treysti og þekkir þau vísindi vel hafa talið mér trú um það. Það má aldrei trúa án efa í vísindum en það má heldur aldrei efast án þess að hafa lagt á sig að reyna að skilja fyrst hvað maður er að efast um. Þetta er ástæðan fyrir því að það er svo sannarlega þess virði að rökræða við Ágúst. Ágúst, ólíkt mörgum öðrum efasemdarmönnum á þessu sviði hefur kynnt sér gögnin en efast samt um túlkun þeirra. Ég ber virðingu fyrir slíkum efasemdarmönnum en mér leiðast aftur á móti óskaplega efasemdarmenn sem hafa ekkert kynnt sér hvað að baki fræðunum liggur en efast samt - AF ÞVÍ BARA!!

Magnús Karl Magnússon, 6.6.2008 kl. 13:52

25 Smámynd: Geir Ágústsson

Jahérna, greyið bloggsíðueigandi að voga sér að ýja að því að einhverjar breytingar í hitastigi lofthjúpsins séu að eiga sér stað niður á við þegar "allir helstu vísindamenn heims" voru, við útgáfu seinustu IPCC-skýrslu, sammála um að hitastigið væri á rjúkandi uppleið, að það ferli héldist í hendur við línulega vaxandi losun mannkyns á CO2, og að ferlið mætti stoppa með því að stinga tappa í útblástursrör og strompa heimsins.

Hitastigið er alltaf að sveiflast upp og niður - t.d. var Grænland Eiríks rauða mun hlýrra en Grænland dagsins í dag, á sama tíma var vínræktun í Norður-Englandi og Thames-áin í London fraus frá bakka til bakka fyrir lítilli öld síðan. Var frostaveturinn mikli á Íslandi ekki árið 1918? Hvar var CO2-losun mannkyns þá?

Batnandi lífskjör manna haldast í hendur við aukna orkuneyslu mannkyns, ríkt mannkyn á betur með að aðlagast breytilegum umhverfisaðstæðum en fátækt, og hitastigið er alltaf að sveiflast. Við getum því öll sofið róleg þótt bíllinn sé í lausagangi alla nóttina.

Geir Ágústsson, 6.6.2008 kl. 16:50

26 Smámynd: Hólmgeir Guðmundsson

Reiknilíkanið=modelið, það er rétt.

Segir Magnús. En því miður er hið tilvitnaða fimbulfamb jafn óskiljanlegt eftir sem áður. Og það er nærtækt að benda á þessa færslu sem við erum að skrifa athugasemdir við um hitamælingar sem styðja ekki þá fullyrðingu að hiti lofthjúpsins sé stöðugt að hækka.

Ég treysti líka "vísindasamfélaginu", svona yfirleitt. Þannig trúði ég því alveg þegar ég las um niðurstöður ráðstefnu veðurfræðinga sem haldin var á Loftleiðahótelinu upp úr 1970 á þá leið að allur þorri málsmetandi veðurfræðinga væri sammála um að veröldin stefndi hratt inn í kuldatímabil sem mannkynið þyrfti að bregðast við áður en það væri um seinan. En þegar upp er kominn öflug atvinnugrein aflátssölu sem krefst verulegrar skerðingar á lífskjörum manna út á þessa meiningu vísindasamfélagsins finnst mér rétt að staldra við og skoða Gore-hrifin. Og sem betur fer virðist mér að Magnús heimili slíkan efa, amk að vissu marki.

 Að lokum Magnús, vegna góðlátlegra ábendinga þinna um efann, þá langar mig að koma með góðlátlega ábendingu um stíl: Mærðarlegur umvöndunarstíll nýtur sín best í naumt rituðu máli.

Hólmgeir Guðmundsson, 6.6.2008 kl. 23:44

27 Smámynd: Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson

Takk fyrir góða og fróðlega umræðu, nema hvað mér leiðist að Erna Magnúsdóttir skuli tala af virðingarleysi og nánast niður til málshefjanda, vanhugsað og vonandi í fljótfærni gert.

Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 15.6.2008 kl. 04:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband