Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Einn maður fær lánað andvirði 8 Kárahnjúkavirkjana !!!

 

 

Ég veit ekki hvort mig sé að dreyma eða hvort Ísland hafi breyst í Undraland, svo margt er öfugsnúið. Getur það vikilega verið að einn maður hafi fengið lánaða 1000 milljarða króna frá íslensku bönkunum?

Hve há upphæð er 1000 milljarðar, eða 1.000.000.000.000 krónur? Öðru nafni 1000 gigakrónur eða ein terakróna, ef einhver skilur það betur þannig.

Ekki er fjarri lagi að Kárahnjúkavirkjun með öllu hafi kostað 130 milljarða króna. Maðurinn hefur því bara sí svona fengið lánað andvirði næstum 8 Kárahnúkavirkjana, með 57 ferkílómetra uppistöðulóni og 72 km af jarðgöngum. Átta virkjanir með samtals 600 km af jarðgöngum, 500 ferkílómetra af uppistöðulónum, 8 risastíflum, .....!

Reykjanesvirkjun kostaði um 15 milljarða. Virkjunin er með stærstu jargufuvirkjunum á Íslandi.  Maðurinn hefur fengið lánað andvirði 70 slíkra virkjana með borholum, háspennulínum og öllu tilheyrandi.

Fyrir 1000 milljarða er hægt að reisa  raforkuver sem er 7000 megawött.  Raforkuver á íslandi framleiða samtals um 2500 megawött. Maðurinn hefur því fengið lánað hátt í þrefalt andvirði allra virkjana á Íslandi.

Þetta getur einfaldlega ekki verið. Mig er örugglega að dreyma. Hver ætti þessi huldumaður annars að vera, og hvernig gæti hann hafa komist yfir allt þetta fé án þess að fara í greiðslumat eins og við hin. Þetta hlýtur að vera algjört ofurmenni. Er það maðurinn með pípuhattinn sem situr til borðs með Lísu á myndinni?

Segjum svo að mig sé ekki að dreyma. Hvað gerði maðurinn við alla þessa peninga? Hvar eru þeir niðurkomnir? 

Nú veit maður ekkert um hvaða lánskjör hafa verið í boði. Segjum að lánið sé til 30 ára, sé verðtryggt og beri 5% vexti. Árleg afborgun ásamt vöxtum ætti þá að vera því sem næst 30 milljarðar plús 50 milljarðar, eða um 80 milljarðar. Halo

 

Nú er best að fá sér sterkt kaffi og reyna að vakna. Þetta hlýtur að hafa verið undarlegur draumur. Þetta er svo ofvaxið mínum skilningi. Jafnvel Lísa í Undralandi hefði orðið hissa. 

 

"Af hverju hefur það ekki verið upplýst að einn aðili skuldaði eitt þúsund milljarða í íslenska bankakerfinu og þá er eingöngu verið að tala um viðskiptabankana þrjá, ekki sparisjóðina, lífeyrissjóðina eða ýmsa aðra aðila, sem viðkomandi skuldaði né erlendar skuldir sama aðila.... Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst? Hvaða heljartök hafði viðkomandi á bönkunum og öllu kerfinu" Svo mælti Davíð í gær.

 


Glapræði að ganga í ESB. Beinum sjónum okkar að Kanada...

ESB

Atburðir undanfarna daga hafa sýnt okkur svo ekki verður um villst að við eigum fáa vini innan Evrópusambandsins. Þeir hafa reynt að kúga okkur til hlýðni og Bretar hafa gert hryðjuverkaáras á íslenskt efnahagskerfi.  ESB hikar ekki við að hneppa ókomnar kynslóðir Íslendinga í skuldafjötra. Andvirði sjö Kárahjúkavirkjana vill ESB fá. Hve mikið fellur á okkur? Hægt væri að komast hjá því, eins og kynnt er hér.

Það er deginum ljósara að við munum ekki hafa nein áhrif innan sambandsins með einn fulltrúa af 27. Þvert á móti yrði traðkað á okkur.  Það liði ekki á löngu áður en við misstum frá okkur að öllu leyti og um alla framtíð yfirráð yfir auðlindum okkar, þ.e. fiskimiðum og orkulindum.

Við megum ekki flana að neinu. Verðum að hugsa okkur oftar en tvisvar um.  Bjarni Jónsson verkfræðingur skrifaði  í gær skynsamlegan pistil um gjaldmiðilinn, EES og IMF sem hann nefnir Forgangsröðun og lesa má hér.

 

 

Betri kostur?

Fáni KanadaHvers vegna hefur engum málsmetandi manni hugkvæmst að taka upp nánari tengsl við Kanada? Þar býr fjöldi Vestur-Íslendinga og afkomendur þeirra, hugsanlega ekki mikið færri en við hér í gamla landinu. Þeir urðu að flýja kröpp kjör hér á landi og fluttust til vesturheims. Þeir hafa komið sér mjög vel fyrir í Kanada, eru þar víða í áhrifastöðum og njóta trausts og virðingar. Eru vel kynntir sem góðir þjóðfélagsþegnar.

Upp hafa komið hugmyndir um að taka einhliða upp Evru. Það líst flestum illa á. Það er ljóst að við uppfyllum á engan hátt  Mastricht skilyrðin og munum ekki geta það næstu áratugina vegna skulda ríkisins sem verið er að stofna til. Það er því tóm vitleysa að vera að hugsa um Evruna.

Ýmsir hafa bent á að mun auðveldara gæti verið að taka upp Bandaríkjadal en Evru. Ekki er ólíklegt að Seðlabanki Bandaríkjanna samþykkti það, en væri það ekki að sækja vatnið yfir lækinn? Við vitum vel að ástandið i Bandaríkjunum er ekki upp á marga fiska og fer hratt versnandi. Ærin vandamál heimafyrir og á alþjóðavettvangi. Stríðið í Írak hefur reynst þeim dýrkeypt.

Hvers vegna í ósköpunum beinum við ekki sjónum okkar til Kanada, Nýja-Íslands í vesturheimi þar sem við eigum frændur og vini? Þjóðfélag á norðurslóðum þar sem spilling er lítil og gott fólk býr. Fólk sem sem býr við svipaðar aðstæður og við. Hvernig væri að leita eftir samvinnu við Kanadamenn og jafnvel taka upp Kanadadollar sem gjaldmiðil í fullri samvinnu við Seðlabanka þeirra?

 

Hugsum okkur tvisvar um. Helst þrisvar.

Við viljum ekki tengjast nánar þjóðum sem vilja traðka á okkur eins og flugum. Vill einhver það virkilega? Ekki ég.

 

Sjá: Tilllaga um raunhæfa aðferð til að semja um ICESAVE án þess að það verði íþyngjandi...

 

Úr Morgunblaðinu 13. nóv. 2008:

"Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa íslensk stjórnvöld verið undir miklum þrýstingi frá aðildarríkjum og stofnunum Evrópusambandsins að ná samningum. Því hefur verið komið á framfæri að það sé sameiginleg afstaða allra ESB-ríkjanna 27 að leggjast gegn því að Ísland fái aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nema fyrst verði samið um Icesave-skuldirnar".


Tilllaga um raunhæfa aðferð til að semja um ICESAVE án þess að það verði íþyngjandi...

icesave2.jpgEf það er virkilega ætlun ráðamanna að semja við Breta og Hollendinga um Icesave-málið þá verður að gæta þess að það sé gert án þess að það verði íþyngjandi fyrir okkur Íslendinga um alla framtíð. Það er vel hægt eins og hér verður kynnt.

 

Líklega eru þetta fjármagn meira og minna allt í kerfinu. Það hefur verið lánað ýmsum aðilum og er sumt  til langs tíma. Það ætti þó að seytla inn. Þetta eru eignir. Því er spurning hvort ekki sé á einhvern hátt hægt að nota þetta fé til að greiða innistæðueigendum hjá Icesave skuldir Landsbankans gamla, og það án þess að það verði á nokkurn hátt íþyngjandi fyrir okkur?  Það er ekki flókið mál.

Ef þessir eignir eru raunverulega til, eins og stjórnendur gamla Landsbankans fullyrða, og peningar koma til með að innheimtast á næstu árum, er þá ekki hægt að stilla upp einhverju aðgerðarplani í samráði við Breta og Hollendinga þannig að hluti þess sem kemur inn renni jafnóðum, beint eða óbeint, til Icesave innistæðueigenda? Væri ekki hægt að ná sáttum á einhverjum svona forsendum, þannig að það verði ekki of íþyngjandi fyrir okkur?

Í frétt Mbl. segir: "Hins vegar mun líka hafa verið gefið í skyn af hálfu ESB, að viðurkenni Ísland á annað borð kröfur Breta og Hollendinga muni aðildarríkin hlutast til um að skilmálar verði með þeim hætti að skuldsetning og endurgreiðslubyrði verði ekki of íþyngjandi fyrir Ísland".

Tillaga mín er að ESB hlutist til um að stofnaður verði sjóður í traustum  banka í viðkomandi landi. Innistæður þeirra sem áttu peninga á Icesave reikningum verði fluttar í bankann.  Bankinn greiðir öllum Icesave eigendum sem vilja út innistæðu sína, en innistæða annarra verði varðveitt í traustu umhverfi. Það sem kemur inn smám saman fyrir eignir gamla Landsbankans renni beint í sjóðinn, enda verði litið á kröfur Icesave innistæðueigenda sem forgangskröfur. Þannig ættu allir að fá sitt.

Líklegt er að margir sparifjáreigendur kjósi að halda áfram að varðveita fé sitt í viðkomandi banka, þannig að ekki er víst að útstreymi fjármagns þurfi að vera mikið. Í reynd yrði sjóðurinn fyrst og fremt bakhjarl til að skapa traust.

Aðalatriðið er að ábyrgð íslensku þjóðarinnar takmarkist við eignir gamla Landsbankans. Komi í ljós einhvern tíman að eignir Landsbankans nægi ekki alveg reynir á bakhjarlinn. Ekki okkur. Trikkið er að reyna að reyna að koma því þannig fyrir að innistæður gömlu Icesave reikningseigendanna verði sem lengst óhreyfðar í trausta bankanaum. Eignir Landsbankans skila sér hægt og því þarf sjóðurinn væntanlega að vinna sem stuðpúði (buffer fund). Það mun að jafnaði lítið reyna á sjóðinn og hann ávaxtar sig vel.

Á þennan hátt ættu allir að geta orðið sáttir. Menn gætu farið að tala saman af skynsemi og við endurheimt eitthvað af virðingu okkar erlendis. Við gætum borið höfuðið hátt. Líka Bretar. Þetta þyrfti heldur ekki að kosta okkur neitt.

Lykilatriðið er auðvitað að ef fyrrverandi Icesave innistæðueigendur treysta viðkomandi banka, þá má reikna með að flestir sjái ekki ástæðu til að taka út sparifé sitt næstu mánuði eða ár. Þannig þyrfti framlag ESB (eða þess sem lánar fé til þessara aðgerða) í reynd ekki að vera miklu meira en til að greiða þeim sem endilega vilja taka út sína innistæðu strax. Væntanlega þarf ekki mikið fé að koma til. Fyrst og fremst þarf traustvekjandi bakhjarl.

Það er því nauðsynlegt að vanda vel valið á viðkomandi bankastofnum, annarri í Bretlandi og hinni í Hollandi. Þær þurfa að vera traustar. Ekki er verra að yfirlýsing fylgi um að þessar innistæður séu tryggðar að fullu, og einnig mætti hafa stighækkandi vexti eftir því hve innistæðan er lengi óhreyfð. Jafnvel greiða fórnarlömbunum hærri vexti en fást annars staðar.  Á þann hátt er ekki ólíklegt að það sem kemur inn vegna útistandandi eigna gamla Landsbankans á næstu árum nægi til að greiða þeim sem taka út fé.

 

Nú er bara að bretta upp ermarnar og hefjast handa!


mbl.is Samningar um Icesave eina leiðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varð um peningana sem komu inn hjá Icesave? Einhvers staðar hljóta þeir að vera...

Ég er ekki enn búinn að átta mig á því hvað varð um peningana sem komu inn hjá Icesave. Gufuðu þeir bara rétt sí svona upp, eða voru þeir lánaðir aftur út?

Hafi þeir verið lánaðir, þá hljóta lántakendur að þurfa að greiða lán sín til baka, nema þá að þeir hafi allir með tölu farið á hausinn, sem mér finnst mjög ólíklegt. Megnið ætti því að koma til baka með vöxtum eftir einhvern tíma. Þannig væri hægt að greiða innistæðueigendum Icesave án vandamála, þó það taki einhvern tíma.

Einhvers staðar hlýtur þetta fé að vera niðurkomið, er það ekki? Varla allt glatað? Hvernig mætti það vera? Þetta finnst mér vera grundvallarspurning sem verður að fá svar við strax.

Hefur þessi spurning ekki vaknað hjá fleirum en mér? Fjármálaeftirlitið sem hefur umsjón með gömlu bönkunum hlýtur að vita svarið. Peningar gufa bara ekki sí svona upp.

Mér finnst þetta fé hljóti að vera bundið einhvers staðar í útlánum gömlu bankanna og ætti því að skila sér til baka með tíð og tíma. 

 

Líklega eru þetta fjármagn meira og minna allt í kerfinu. Það hefur verið lánað ýmsum aðilum og er sumt  til langs tíma. Það ætti þó að seytla inn. Þetta eru eignir. Því er spurning hvort ekki sé á einhvern hátt hægt að nota þetta fé til að greiða innistæðueigendum hjá Icesave skuldir Landsbankans gamla? Vandamálið er ef til vill að nú er verið að selja eignir á brunaútsölu þannig að lítið situr eftir.  - En, er það virkilega nauðsynlegt? Er ekki hægt að standa öðruvísi að verki?   Errm     

Eru menn ekki að flýta sér allt allt of mikið?

 

Ef þessir eignir eru raunverulega til, og peningar koma til með að innheimtast á næstu árum, er þá ekki hægt að stilla upp einhverju aðgerðarplani í samráði við breta og Hollendinga þannig að hluti þess sem kemur inn renni jafnóðum, beint eða óbeint, til Icesave innustæðueigenda? Væri ekki hægt að ná sáttum á einhverjum svona forsendum, þannig að það verði ekki of íþyngjandi fyrir okkur?

---

Peningavélin:

Ég hef heyrt að bankarnir láni út nífalda upphæðina sem kemur inn. Lengi vel skildi ég þetta ekki. Komi milljón í kassann um Icesave þá láni þeir út 9 milljónir. Einhvers konar sjónhverfingar.  En ef svo er, þá ætti gamli bankinn að eiga gríðarlega fjármuni útistandandi. Jafnvel þó stór hluti lántakenda hafi farið á hausinn, þá ætti að vera nóg eftir...

Hvernig virka svona sjónhverfingar? Sjá umfjöllun um Fractional-reserve Banking á Wikipedia hér.  Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig 100 dollara innlögn getur orðið að 1000 dollurum eftir nokkrar hringferðir í bankakerfinu. ("Hringferðir í kerfinu", hljómar það ekki kunnuglega?). Blái ferillinn (10% lausafjárskylda)   sýnir þetta. Er þetta hluti af skýringunni?

Árið 2003 setti Seðlabankinn viðskiptabönkunum aðeins 2% bindiskyldu. Margföldunarstuðullinn er þá ekki 10, heldur 50. Einn milljarður verður að 50 milljörðum, eða þannig ... Kerfið verður væntanlega óstöðugt við þessa mögnun og hrynur að lokum. Öll kerfi sem eiga að finna sjálf sitt jafnvægi (reglunarkerfi eða feedabck control system) verða sveiflukennd og hrynja að lokum ef mögnunin fer yfir ákveðin mörk. Peninagvélin er ekki undanþegin. Svo einfalt er það.  Bandit

 

fractional-reserve_banking_with_varying_reserve_requirements.gif

 

"The expansion of $100 through fractional-reserve banking with varying reserve requirements. Each curve approaches a limit. This limit is the value that the money multiplier calculates".

 

Ítarefni:

 Sjá Vísindvefinn: Hvernig eykst magn peninga í umferð í heiminum?

Þar stendur m.a:  "...Nú setur Seðlabankinn seðla að andvirði 100 milljónir króna í umferð,....... Þannig heldur ferlið áfram og í hverjum hring eykst peningamagn um 90% af því, sem það jókst um í næsta hring á undan. Hægt er að sýna fram á að á endanum hefur peningamagn aukist um einn milljarð.  Heildaraukningin fæst með því að deila upp í upprunalegu peningamagnsaukninguna, 100 milljónir, með bindiskylduhlutfallinu, 10% eða 0,1, samanber: 100.000.000/0,1 = 1.000.000.000"

 ---

Í athugasemdunum (#8) bendir GuSi á að vel geti verið um að ræða  klassíska Ponzi-svikamyllu. Sjá Wikipedia hér. Það er spurning hvort við eigum eftir að komst á listann sem er á síðunni "Notable Ponzi schemes".

Splunkunýtt dæmi af vefsíðunni: "In Slovakia, the so called non-banking institutions collected appx. 25 bil. SKK ($1 billion) from 300-350 thousand people. There were around 30 of these companies, such as BMG Invest and Horizont Slovakia, Drukos, AGW, 1. dôchodková, Sporoinvest and SaS. Mr. Fruni, the owner and director of both BMG and Horizont will sit 115 years in prison, according to the Court's judgement from April 2008".

 

You Ain't Seen Nothing Yet

 


Ekki bíða, skiptið út krónunni strax, segir forstöðumaður Centre for European Policy Studies í Brussel... Varar einnig við lántökum ...

 

"Ég er algjörlega sammála meginrökum greinarinnar," segir Daniel Gros um grein þeirra Heiðars Más Guðjónssonar og Ársæls Valfells sem birtist í Fréttablaðinu  laugardaginn 8. nóv. Þar lögðu þeir til að í stað þess að taka sex milljarða króna lán verði gjaldeyrisforði Íslendinga notaður til að taka einhliða upp aðra mynt sem lögmynt hér á landi.
 
Dr. Gros er forstöðumaður Centre for European Policy Studies í Brussel og aðstoðaði hann Svartfellinga við einhliða upptöku á evru.
 

"Sérstaklega er ég sammála þeim viðvörunum að þessi lán, sem ríkisstjórnin hyggst taka, muni leggja þungar byrðar á heilar kynslóðir. Hjá þessu verður að komast með öllum tiltækum ráðum."

Alls er verið að leita eftir sex milljarða dollara láni til að styrkja krónuna. Þar af myndu um tveir milljarðar koma frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en fjórir milljarðar dollara kæmu frá hópi ríkja. Þar af hafa lánsloforð þegar fengist frá Noregi, Færeyjum og Póllandi.

Gros segir að besti kosturinn fyrir Ísland nú sé að taka upp evruna. "Ég myndi ekki bíða fram í janúar til að skipta um gjaldmiðil. Það getur gerst nánast strax."

Hann segir að þá þurfi einhliða upptaka evru ekki að tákna pólitískar deilur við Evrópusambandið "ef Ísland útskýrir að þetta sé neyðarráðstöfun og að Ísland hafi fullkominn skilning á að það muni þurfa að uppfylla Maastricht-skilyrðin að einhverjum tíma liðnum, ef landið vill taka þátt í evrumarkaðnum, eftir að það hefur gengið í Evrópusambandið."- (Fréttablaðið 9. nóvember).

 
---
 
Í Silfri Egils var sunnudaginn 9. nóvember mjög áhugavert viðtal við Ársæl Valfells  það sem hann skýrir frá því að hægt sé að skipta út íslensku krónunni á skömmum tíma þegar neyðarástand ríkir. Hér ríkir neyðarástand eins og allir vita þannig að rétt er að gefa þessari hugmynd gaum.
 
Horfa má á viðtal Egils við hagfræðingana Ársæl Valfells og Þórólf Matthíasson með því að smella hér.
 
---
 
Viðtal við Hreiðar Má Guðjónsson í þættinum  Ísland í dag má sjá hér.
 
---
 

Í Fréttablaðið skrifuðu hagfræðingarnir Ársæll Valfells og Heiðar Már Guðjónsson laugardaginn 8. nóvember grein þar sem fjallað er um sama mál.
 
Þar segir m.a: "Íslandsvinirnir Daniel Gros og Manuel Hinds hafa báðir komið hingað til lands og lýst hvernig slík skipti fara fram. Daniel framkvæmdi upptöku á evrum í Svartfjallalandi að beiðni forseta landsins. Manuel stýrði upptöku á dollar fyrir El Salvador þegar hann var fjármálaráðherra þess. Ferlið var einfalt."
 
 
 
Valmöguleikar eru fyrir hendi í gengismálum
 

Í núverandi árferði er mikilvægt að búa til festu.  Hún fæst ekki með óbreyttu gengisfyrirkomulagi. Ætlun Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) er að setja krónuna aftur á flot, en til þess þurfa þeir að stórefla gjaldeyrisforðann. Í því skyni er ætlunin að Seðlabankinn fái sex milljarða dollara lán. Ekki hefur komið fram til hve langs tíma lánið er. Lán þarf að endurgreiða. Í ætlun Seðlabankans og IMF felst ákveðin áhætta. Áhættan felst í því að ef ekki tekst að endurvekja traust á krónunni munu þeir, sem eiga krónur, reyna að skipta þeim eins hratt og mögulegt er fyrir gjaldeyri en ekki vilja skipta gjaldeyri aftur yfir í krónur. Þá sæti ríkið eftir skuldsett og áfram með ótrúverðugan gjaldmiðil.

Önnur leið

Einn valkostur er þó til staðar í núverandi stöðu. Það er einhliða upptaka á mynt. Þá leið er hægt að framkvæma með mun minni gjaldeyrisforða. Sá forði sem nú er í Seðlabankanum er um það bil tveir milljarðar evra (gert er ráð fyrir tapi af láni til Kaupþings með veði í FIH í Danmörku og svo útstreymi síðustu vikna). Sá forði ætti að duga vel fyrir skiptunum. Að framansögðu gefnu myndi við skiptin jafnvel losna um dágóða fjárhæð, gróft áætlað um 100 milljarða íslenskra króna, sem sæti eftir í kassa ríkissjóðs.

Fordæmi fyrir einhliða upptöku

Einhliða upptöku annars gjaldmiðils er oft ruglað saman við fastgengisstefnu (currency board). Með fastgengisstefnu er átt við að þjóðríkið viðhaldi eigin gjaldmiðli áfram og miði verðmæti gjaldmiðilsins við gjaldeyrisforða. Sú leið var farin í Argentínu og árangur hennar umdeildur. Með upptöku gjaldmiðils felst aftur á móti afnám gengisstefnu með öllu og afsal stjórnar peningamála til annars seðlabanka. Útgáfu innlendrar myntar er þar með hætt. Sú leið var farin í El Salvador og Ekvador árið 2000-2001. Í heild eru það níu sjálfstæð ríki í heiminum sem nota bandaríkjadollar sem lögeyri. Þess má einnig geta að utan Evrópusambandsins eru sex smáríki sem nota evru sem sinn gjaldmiðil.

Fræðilega má segja að á Íslandi sé til fordæmi fyrir því að skipta út öllum seðlum og mynt í umferð. Það var gert þegar slegin voru af þrjú núll í byrjun níunda áratugarins. Það var mun flóknari aðgerð en sem felst í einhliða upptöku á gjaldmiðli. Ástæðan er að íslenskt fjármálakerfi er mjög rafvætt og lítið af seðlum og mynt í umferð. Íslenska bankakerfið og fjármálakerfið er mjög sjálfvirkt og sumir hagfræðingar hafa rætt þann möguleika að sleppa pappír og mynt í kerfinu með öllu.

Hvernig eru skiptin framkvæmd?

Íslandsvinirnir Daniel Gros og Manuel Hinds hafa báðir komið hingað til lands og lýst hvernig slík skipti fara fram. Daniel framkvæmdi upptöku á evrum í Svartfjallalandi að beiðni forseta landsins. Manuel stýrði upptöku á dollar fyrir El Salvador þegar hann var fjármálaráðherra þess. Ferlið var einfalt.

Fyrst þurfti að sjá til þess að nóg framboð væri af seðlum og mynt í hinum nýja gjaldmiðli. Að lokum var haft samband við IMF og honum tilkynnt um skiptin. Þetta var undirbúningsferlið og tók nokkrar vikur. Síðan var ákveðinn dagur og stund. Eftir þann tíma yrði allt bankakerfið skipt yfir í hina nýju mynt á föstu gengi. Fast gengi var ákveðið út frá því að það væri hagstætt framleiðslu og útflutingsgreinum. Síðan var ákveðið að skuldaviðurkenningar til skamms tíma (t.d. ávísanir) yrðu gildar í 3 mánuði frá skiptunum í hinni eldri mynt en seðlar og aurar í allt að 6 mánuði. Lögskipað var að öll verð í landinu væru birt í nýju og gömlu myntinni í 6 mánuði eftir að skiptin hófust. Bankar fengu 3ja mánaða frest til að laga vaxtatöflur sínar að hinni nýju grunnmynt og vaxtastigi hennar.

En hvað kosta skiptin?

Í umræðu um upptöku gjaldmiðils er oft nefnt að kaupa þurfi svo mikið af hinni nýju mynt að það skapi vandamál. Hið rétta er að flestir seðlabankar heims eiga miklum mun meira af gjaldeyrisforða en nemur grunnmynt samfélagsins. Í tilfelli Íslands er það svo að seðlar og mynt í umferð eru lítið brot af gjaldeyrisforða Seðlabankans. Grunninnstæður eru aðeins um helmingur af gjaldeyrisforða Seðlabankans. Skv. útreikningum Manuel Hinds í október 2007, hefði Seðlabanki Íslands átt eftir um 700 milljónir evra af forða sínum eftir að hafa skipt út öllum seðlum og mynt og grunninnistæðum bankakerfisins. Grunninnistæður skipta hér einungis máli því bankakerfi viðkomandi lands sér um að margfalda peningana í umferð. Til útskýringar:

Einstaklingur A leggur inn í banka 100 evrur sem bankinn lánar einstaklingi B.

Einstaklingur B kaupir eitthvað fyrir 100 evrur af einstaklingi C.

Einstaklingur C leggur inn 100 evrur sem bankinn lánar einstaklingi D.

Einstaklingur D kaupir eitthvað fyrir 100 evrur af einstaklingi E

o.s.frv.

Það þarf því ekki að skipta út heildarumsvifum bankakerfisins, heldur aðeins grunninum, því margföldunin á sér stað með framangreindum hætti.

Skiptin á Íslandi kalla því ekki á 6 milljarða dollara lán heldur skila í raun afgangi af núverandi gjaldeyrisforða eins og Hinds bendir á.

Pólitísk viðbrögð

Í EES-samningnum er einungis kveðið á um að ríkin skuli halda hvert öðru upplýstu um breytingar á peningamálastefnu sinni en í næstu grein er sérstaklega tiltekið að slík mál falli utan samningsins. Einhliða upptaka annars gjaldmiðls brýtur því ekki EES-samninginn. Betra er þó að hafa IMF og viðeigandi seðlabanka með í ráðum. Formlegt samþykki þeirra er ekki nauðsynlegt því að gjaldeyrir sem íslenska ríkið hefur keypt á markaði er eign þess. Enginn getur bannað Íslendingum að nota hann í viðskiptum innan landsins.

Hagfræðikenningar í fortíð og nútíð

Þegar hagfræðingar ræða kosti þess að hafa sjálfstæða peningastefnu, eru oftast þrjár ástæður gefnar. Í fyrsta lagi viðskiptalegar, þ.e. hægt er að hafa áhrif á gengi gjaldmiðils til að hygla útflutningi og hamla innflutningi og þannig tempra hagsveiflur út af ytri áföllum. Í öðru lagi eru fjármálalegar ástæður og þá helst möguleiki Seðlabanka til að prenta peninga og ákveða sjálfur verð þeirra. Peningaprentun býr til tekjur fyrir ríkið (verðbólguskattur) samkvæmt þessum kenningum en á einnig að tryggja greiðsluhæfi fjármálakerfisins innanlands ef snögglega dregur fyrir fjárstreymi erlendis frá. Með þessu getur seðlabanki viðkomandi lands orðið verndari fjármálakerfisins (lender of last resort) og leyst úr lausafjárvanda innlendra fjármálastofnana.

Margar hagfræðikenningar sem enn er stuðst við í peningamálum, svo sem þær sem minnst er á hér að ofan, eiga oft upptök sín hjá Keynes eða eru eignaðar honum. Á tíma Keynes voru viðskipti með gjaldeyri nánast eingöngu vegna vöruviðskipta. Þá þurfti mikið að hafa fyrir gjaldeyrisviðskiptum og höft ríktu í milliríkjaviðskiptum. Engar alþjóðlegar fjármálastofnanir, eins og við þekkjum í dag, voru þá til.

Eftir seinna stríð var reynt að einfalda og samræma gjaldeyrismarkað og voru peningar bundnir við gull í svokölluðu Bretton Woods samstarfi. Það samstarf leið undir lok í forsetatíð Richard Nixon, því verðmæti bandaríkjadals gagnvart gulli féll þegar Bandaríkin prentuðu seðla til að fjármagna Vietnam stríðsreksturinn.

Við tók að gjaldeyrir var keyptur og seldur á mörkuðum og verðmæti hans ákvarðað af markaðsaðilum. Vöxtur fjármálakerfisins og framþróun í tölvu- og upplýsingatækni jók umfang viðskipta með gjaldeyri og viðskiptakostnaður hefur lækkað stórkostlega. Nú geta flestir átt viðskipti með gjaldeyri, skuldsett sig í mismunandi myntum og fjárfest óháð myntum. Hraði þessara viðskipta hefur margfaldast með tilkomu rafrænna viðskipta. Í dag er agnarsmár hluti af 3200 milljarða dollara daglegri veltu á gjaldeyrismörkuðum tengdur vöruviðskiptum, ólíkt því sem áður var. Eðli markaðarins hefur því breyst.

En hver hefur reyndin verið á núverandi fyrirkomulagi gjaldeyrisviðskipta í ljósi framangreindra hagfræðikenninga? Fyrstu rökin, um að með gengisfellingu væri hægt að rétta úr hagkerfinu eftir ytri áföll, hafa verið gagnrýnd. Gagnrýnin felst í því að í nútíma hagkerfi eru fjármálakerfi mun þýðingarmeiri en áður var. Gengisfellingar hafa vissulega áhrif á einstaklinga og fyrirtæki viðkomandi lands, en áhrifin sem gengisfellingar hafa á fjármálakerfið eru enn meiri. Ávinningur gengisfellinga í sögulegu ljósi er því mjög takmarkaður og mögulegt tap fjármálakerfisins er meira en ávinningur útflutningsgreina. Gengissveiflur búi ennfremur til kostnað vegna þess að með gengissveiflum verði áætlanir erfiðari. Gengissveiflur geta einnig dregið úr vilja fjármálastofnana til að veita lánsfé til langs tíma.

Seinni rökin, um að seðlabanki viðkomandi lands gæti varið landið fjármálakreppum með prentun seðla, hafa einnig sætt gagnrýni. Vegna alþjóðavæðingar fjármálakerfisins eru bankar, fyrirtæki og einstaklingar með skuldbindingar og eignir í öðrum myntum og því er erfiðara að bjarga þeim með innlendri peningaprentun. Svo lengi sem fyrirtæki og stofnanir viðkomandi lands geta ekki fjármagnað sig alþjóðlega í eigin mynt er hætta á óstöðugleika sem innlend seðlaprentun getur ekki bjargað.

Þriðju rökin, sem snúa að skattheimtu ríkisins af peningaprentun, mega sín lítils í dag. Þessi skattheimta er alla jafna brot úr prósenti af landsframleiðslu hvers árs. Skattheimta af útlendingum sem nota peningana er léttvæg nema þegar um stærstu myntir heims er að ræða.

En hvað með hagstærðirnar?

Með upptöku annars gjaldmiðils er verið að tengja land inn á efnahagssvæði gjaldmiðilsins. Verðbólga og viðskiptahalli skipta stjórnvöld þá ekki lengur máli því þau stýra ekki lengur peningamagni í umferð og bera enga ábyrgð á verðlagi. Til skýringar þá kemur engum til hugar að velta því fyrir sér hvort Selfoss sé með jákvæðan eða neikvæðan viðskiptahalla innan efnahagssvæðisins Íslands.

Klassískar hagfræðikenningar um gjaldmiðla sem smíðaðar voru í hálflokuðum kerfum fortíðar hafa sætt gagnrýni fyrir að lýsa illa opnum hagkerfum nútímans. Nóbelsverðlaunahafinn Robert Mundell hefur velt þeirri spurningu upp hvort hagkvæmasta framtíðarskipan gjaldmiðla felist í því að í heiminum verði einungis til þrír gjaldmiðlar, Asíumiðill, Ameríkumiðill og evrumiðill.

Hvort sem lán fæst hjá IMF eður ei er upptaka gjaldmiðils einfaldur, ódýr og raunhæfur kostur sem hafa ber í huga við núverandi aðstæður.

 

Höfundar eru framkvæmdastjóri hjá Novator og lektor við viðskipta- og hagfræðideild HÍ.

 

--- --- ---

 

Það er ljóst að við verðum að hugsa okkur vel um og velja besta og skynsamlegasta kostinn. Er þetta sá kostur sem bestur er í stöðunni? Innganga í ESB og upptaka Evru á formlegan hátt tekur langan tíma. Mörg ár. Það er langt í land að við getum uppfyllt inntökuskilyrðin. Svo er það líka umráðarétturinn yfir auðlindum okkar... 

Við þurfum að gera eitthvað strax. Tilraun til að bjarga krónunni gæti orðið okkur dýr. Gæti kostað okkur offjár ef hún mistekst. Við höfum gert nóg af mistökum.

Væri ráð að huga frekar að myntbreytingu í dollar en evru eins og Jón Bjarnason þingmaður VG bendir á?  Eða norska krónu?  Hugsanlega mun einfaldara í framkvæmd en að taka einhliða upp evru.

 

Hvað vinnst með þessari aðferð?

  • Tekur skamma stund, aðeins fáeina mánuði...
  • Ríkið þarf ekki íþyngjandi erlend lán...  Ekki verið að leggja byrðar á komandi kynslóðir...
  • Vextir munu verða skaplegir, ekki lengur okurvextir...
  • Ekki þörf á verðtryggingu lána. Hóflegir vextir nægja til að tryggja verðmæti...
  • Myntbreyting var síðast á Íslandi 1981 þegar tvö núll voru tekin af krónunni. Fordæmi...
  • Innganga í ESB gæti eftir sem áður verið langtímaverkefni, ef við viljum...

 

Svo er það spurningar:

  1. Hverjir eru ókostirnir við þessa aðferð?
  2. Er til vænlegri lausn?
  3. Við hvaða gengi ætti að miða við skiptin? Hvaða meðalhóf milli hagsmuna almennings og atvinnuvega er best?
  4. Er slæmt að negla gengið fast? Hentar það betur íslensku þjóðfélagi að að vera með breytilegt gengi til að jafna byrðarnar þegar áföll verða? Væri ekki annað ávísun á atvinnuleysi á erfiðleikatímum?
  5. Evra, dollar eða norsk króna?

 

--- --- ---

 

Pistill Halldórs Jónssonar verkfræðings: Ný mynt strax?   "En af hverju er þetta ekki hægt ? Mig vantar að finna þau rök?" spyr Halldór í lok pistilsins.

Pistill Jóns Bjarnasonar þingmanns VG: Einhliða myntskipting - Valkostur fyrir Íslendinga?  "Einhliða upptaka annarrar myntar í krafti neyðarréttar  í stað krónunnar er alla vega  valkostur sem ber þegar í stað  að skoða mjög vandlega og af alvöru".


Hvernig styðja má við frumkvöðla og sprotafyrirtæki...

innovation.jpgÞar sem bloggarinn er alinn upp í litlu frumkvöðla- eða sprotafyrirtæki vill hann leggja fáein orð í belg í umræðuna um hvað gera má til að reisa við íslenska hagkerfið og skýra frá eigin reynslu.

Nokkrir bloggarar eins og t.d. Kjartan Pétur Sigurðsson hafa safnað fjölmörgum hugmyndum sem vinna má úr. Þannig hugmyndir eru mjög verðmætar á þeim erfiðu tímum sem eru framundan.

Reynsla fyrrverandi sprotafyrirtækis: Fyrirtækið Rafagnatækni, sem nú heitir RT ehf, var stofnað árið 1961. Ef til vill fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi. Það hóf starfssemi sína á að þróa búnað fyrir jarðeðlisfræðirannsóknir, svo sem segulmæla fyrir berg, geislamæla, jarðviðnámsmæla o.fl.   Þróaður var búnaður til að mæla ísskrið í ám, fjargæslu og fjarstýribúnaður til nota á hálendinu, vatnshæðarmælar fyrir ár og vötn, laxateljarar, hitaritar fyrir fiskiðnaðinn, ferskleikamælar fyrir fisk,  stöðuleikavakt fyrir skip, o.m.fl. Mest af framleiðslunni var fyrir innanlandsmarkað, en allnokkuð var flutt út. Smám saman breyttust áherslurnar. Meiri áhersla var lögð á hefðbundna verkfræðiþjónustu hin síðari ár, en fyrritækið hefur m.a. hannað og forritað mestallt stjórnkerfi virkjanana í Svartsengi og á Reykjanesi...

Sjá má sögu fyrirtækisins í hnotskurn hér, en þetta er gömul grein sem bloggarinn skrifaði fyrir allmörgum árum í tilefni fertugsafmælis fyrirtækisins og varðveitt er á vefsíðu RT-Rafagnatækni www.rt.is

 

Helstu erfiðleikarnir sem við var að etja voru þessir:

1) Kostnaður við markaðssetningu. Markaðssetning er mjög tímafrek og dýr. Ofviða litlum fyrirtækjum. Þessi þáttur er oft verulega vanmetinn. Líklega er þetta það sem mikilvægast er að bæta.

2) Lítill innanlandsmarkaður. Það er mjög gott að hafa sæmilega stóran markað í næsta nágrenni meðan verið er að þróa vöruna. Þróun tekur tíma og þá er mjög gott að vera í nánum tengslum við viðskiptavinina. 

3) Fjarlægð frá hinum stóra heimi þar sem hugsanlegir kaupendur eru í þúsundavís, en ekki bara í tugavís eins og hér. Markaðssetning getur því verið erfið og dýr.

4) Fjármagnið var ekki á lausu á árum áður. Yfirleitt varð að kosta þróun með því að reyna að tryggja sölu fyrirfram, eða nota eigið fé.

 

 

Hvað væri til úrbóta?

Aðeins neðar á síðunni er minnst á nokkra aðila sem veita frumkvöðlum og nýsköpunarfyrritækjum stuðning þannig að töluvert hefur þegar verið gert í þessum málum á Íslandi.

1) Við gætum örugglega lært mikið af þjóðum eins og Finnum sem lentu í kreppunni miklu um 1992 og náðu sér furðufljótt á strik aftur. Þess vegna gæti verið mjög ráðlegt að fá hingað til lands til skrafs og ráðagerða einhvern sem gjörþekkir málið og getur skýrt okkur frá því hvað tókst vel, og einnig og ekki síður, hvað tókst miður vel. Hugsa og skipuleggja áður en hafist er handa. 

2) Koma þarf upp öflugri stofnun sem aðstoðar fyrirtæki við markaðssetningu. Það er til lítils að framleiða vöru ef hún selst ekki. Markaðssetning er flókin og kostnaðarsöm og oft vanmetin. Nota þarf góða blöndu af fagfólki sem bæði kann markaðssetningu og einnig fólki þem þekkir vel vöruna sem verið er að markaðssetja og getur rætt á traustvekjandi hátt við mögulega viðskiptavini.

3) Koma upp tæknigörðum sem aðstoða við vöruþróun. Þeir mega gjarnan vera í góðum tengslum við háskóla.

4) Opinber og hálfopinber fyrirtæki og stofnanir þurfa að vera tilbúnar að gefa innlendum fyrirtækjum tækifæri til að koma með lausnir. Ekki kaupa allt frá útlöndum. Gefa mönnum tækifæri til að þróa og síðan endurbæta. Hugarfari innlendra aðila þarf að breyta; fyrsta val á að vera íslenskt!

5) Aðstoð við fjármögnun þarf að vera til staðar. Þörf er á "þolinmóðu" fjármagni því arður skilar sér seint. Stundum alls ekki.

6) Mikilvægt er að taka vel á móti öllum hugmyndum og vinna úr þeim. Notagildið blasir ekki alltaf við við fyrstu sýn. 

7) Vefurinn er allra góðra gjalda verður, en ekki má treysta of mikið á hann þar sem vefsíður í dag skipta jafnvel hundruðum milljóna. Vefsíður þurfa fyrst og fremst að hafa upplýsingagildi, vera aðgengilegar og skýrar.

8) Auðvitað kostar svona aðstoð mikið fé. Þetta fé þarf að miklu leyti að koma frá hinu opinbera og þar mega menn ekki vera nískir. Verið er að byggja upp nýja Ísland.

9) Muna að þeir fiska sem róa. Ekki aðrir. Ekki gefast upp þó á móti blási um tíma.

 

 

En...,   ýmislegt er þegar fyrir hendi, meira en margir vita af:

 

  • Nýsköpunarmiðstöð Íslands er með vefsíðuna www.nmi.is
  • Impra  er miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og lítil fyrirtæki. Impra er deild innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hefur skrifstofur í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði og Vestmannaeyjum. Hjá Impru er á einum stað hægt að leita aðstoðar um allt sem við kemur viðskiptahugmyndum og almennum rekstri fyrirtækja. Hægt er að leita til sérfræðinga á ýmsum sviðum um leiðsögn og upplýsingar varðandi mismunandi þætti hugmynda og reksturs. Jafnframt eru gefin út leiðbeiningarit og fylgst náið með því sem er að gerast hérlendis og erlendis fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. (Af vefsíðu Impru). Sjá hér.
  • Innovit er sjálfstætt starfandi nýsköpunar- og frumkvöðlasetur fyrir kraftmikið og metnaðarfullt fólk með góðar viðskiptahugmyndir. Megináhersla er lögð á að styðja við háskólamenntaða frumkvöðla og sprotafyrirtæki sem verða til innan íslenskra háskóla. Í því skyni hefur Innovit gert samstarfs- og þjónustusamninga við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst sem tryggir nemendum skólanna aðgang að þjónustu Innovit endurgjaldslaust, allt frá því að nám hefst og þar til fimm árum eftir útskrift. (Af vefsíðu Innovit). Innovit er með vefsíðuna www.innovit.is
  • Sprotafyrirtæki innan Samtaka iðanaðains. Sjá www.si.is  Hjá Samtökum iðnaðarins eru nokkrir starfsgreinahópar. Einn þeirra nefnist Sprotafyrirtæki. Hægt er að tengjast vefsíðu Sprotafyrirtækjahópsins hér.
  • Klak - Nýsköðunarmiðstöð atvinnulífsins er með vefsíðuna www.klak.is
  • Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er með vefsíðuna www.nsa.is.
  • Frumkvöðlasetur Austurlands er með þessa vefsíðu.
  • Frumkvöðlasetur Norðurlands er með þessa vefsíðu.
  • Frumkvöðlasetur Vesturlands er með þessa vefsíðu.

Fleiri ... ?

 

Undanfarið hefur oft verið minnst á "finnsku leiðina".  Á Íslandi erum við miklu betur undirbúin en Finnar voru á sínum tíma. Við eigum mörg stuðningsfyrirtæki og stofnanir, en það þarf að veita þeim meiri styrk og kraft án tafar. Þannig gætum við lyft Grettistaki á skömmum tíma.

 

 samsett_mynd1-_lit-_bla.gif

 

 

Hálfrar aldar gamalt sprotafyrirtæki:

Anticoincidence Scaler. Vandaður geislamælir.Hugsanlega vill einhver skoða sögu gamla frumkvöðla- eða sprotaftrirtækisins RT-Rafagnatækni sem er hér. Þar kemur fram hvað menn hafa verið að bralla á Íslandi í hartnær hálfa öld, þ.e. á sviði rafeindatækninnar. Þar kemur einnig fram hvernig svona fyrirtæki getur þróast með tímanum.

 Litla myndin: "Fyrsta verkefnið (1961) var framleiðsla á mjög vönduðum geislamælum (Anticoincidence Counter), líklega þeim nákvæmustu sem völ var á í heiminum, en þeir gerðu greinarmun á geislum frá sýninu og truflandi geimgeislum..."    Meira úr sögu fyrirtækisins hér.

Bloggarinn biðst forláts á hve textinn er tæknilegur sums staðar og þess ekki alltaf gætt að nota góða íslensku. Hann ber þess merki að vera að mestu afrit af erindi sem haldið var á 40 ára afmæli fyrirtækisins með myndasýningu.

 

Sagan sýnir hvað hægt var að gera fyrir hartnær hálfri öld. Nú er allt miklu auðveldara og því eru tækifærin mörg. Stuðningur við sprotafyrirtæki er töluverður, eins og fram kemur hér að ofan.

Framtíðin er björt ef við vinnum úr málum okkar af skynsemi. Munum bara að sígandi lukka er best og að bjartsýni er bráðnauðsynleg Smile

Sýnum nú hug, djörfung og dug....

    

--- --- ---

 

Marel hefur einbeitt sér að hátæknibúnaði fyrir  matvælaiðnaðinn.  Saga Marels.

 

Verum bjartsýn!




Auðlind sem má nýta til að komast úr kreppunni ...

 

Islenskur orkuidnadur  Urklippa 4 nov 08

 

 

Nú skiptir öllu máli að leita leiða til að reisa við efnahag þjóðarinnar á sem skemmstum tíma. Við þurfum að hlúa að gömlum og nýjum iðngreinum, hlúa að sprotafyrirtækjum og styrkja frumkvöðla til dáða. Allt tekur þetta tíma og er ekki raunhæft að búast við að árangur skili sér fyrr en með tíð og tíma. Á meðan er mikil hætta á verulegu atvinnuleysi og landflótta sem leiðir til fólksfækkunar. Hættan er sú að okkar bestu iðnaðarmenn og sérfræðingar flytjist úr landi. Sumir varanlega.

Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 4. nóvember var áhugaverð grein eftir Eyjólf Árna Rafnsson framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar Mannvits og Svein I. Ólafsson framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar VST-Rafteikningar.

Í greininni  benda þeir á að margir hafi lagt til að flýtt verði framkvæmdum við orkuiðnaðinn, en það kosti mikinn undirbúning sem taki mörg ár. Þörf sé á samstilltu átaki allra hlutaðeigandi aðila ef framkvæmdir í orkuiðnaðinum eiga að vera burðarás í verklegum fjárfestingum atvinnulífsins á næstu árum.

Þeir leggja áherslu á að ekki verði slakað á í umhverfismálum, fjalla um þær framkvæmdir sem eru í burðarliðnum, svo sem álver, netþjónabú og aflþynnuverksmiðju, og benda á aðra möguleika í framtíðinni.

Í greininni er síðan fjallað um mögulega nýtingu orkulinda Íslendinga næstu 8 árin og  kynnt hvernig framkvæmdir geti dreifst á tímabilið. Tekið er fram að fjárfestingar í orkuiðnaðinum sem hlutfall af landsframleiðslu geti þó tæplega orðið nema helmingur á við það sem var þegar þær voru mestar.

Niðurstaða þessarar áhugaverðu greinar er að mikilvægur þáttur þess að verja lífskjörin á Íslandi á næstu árum sé að fjárfesting, sem eykur atvinnu hérlendis og útflutning, stöðvist ekki. Því þurfi að halda áfram hóflegri nýtingu orkulinda landsins. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Það þurfi samstillt átak allra innlendra aðila sem eiga hlut að máli.

 

Greinina má lesa með því að smella þrisvar á myndina sem er efst á síðunni. Betra er þó að sækja hana sem pdf skjal hér, eða jpg mynd hér.

 

Það er ljóst, að með skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda okkar, án þess þó að slakað verði á í umhverfismálum, höfum við möguleika á að vinna okkur tiltölulega hratt út úr kreppunni. Á sama tíma verðum við að nýta tímann vel til að hlúa að ýmiss konar iðnaði og þjónustu, frumkvöðla- og sprotafyrirtækjum, sem geta tekið við eftir áratug eða svo.

 

Við verðum að nýta tímann vel. Við megum engan tíma missa. Strax þarf samstilltar aðgerðir. Nú stefnir í 15-20.000 manna atvinnuleysi innan skamms ef ekkert verður að gert.

Við eigum auðlindir og við eigum mannauð. Hvort tveggja þarf að virkja.

 


Fjármálafræði fyrr á öldum

 

 


...Speculum regale...


 

Úr Konungsskuggsjá frá um 1260:


"En ef fé þitt tekur vöxt mikinn í kaupferðum, þá skiptu því til félags í aðra staði, þangað sem þú fer eigi sjálfur, og ver þó vandur að félagsmönnum. Jafnan skaltu Guð almáttkan og hina helgu Maríu láta eiga nokkuð í félagi með þér og þann helgan mann, er þú heitir oftast á þér til árnaðarorðs. Og gæt þess fjár rækilega, er helgir menn eiga með þér og fær það jafnan trygglega til þeirra staða, er það var til heitið í öndverðu.

En ef þú átt allmikið fé í kaupferðum, þá skipt því í þrjá hluti. Legg einn þriðjung í félagsgerð með þeim mönnum, er jafnan sitja í góðum kaupstöðum og sé þeir tryggir og kunni vel við kaup. En tveim hlutum skipt þú í ýmislega staði og kaupferðir. Þá er sízt von, að allt verði senn fyrir tjónum, ef í mörgum stöðum er fé þitt senn, og er þá helzt von, að í nokkrum stöðum haldist, þó að fjár háskar kunni oft að að berast.

En ef þú sér, að alhugað tekur fé þitt stórum að vaxa í kaupförum, þá tak þú af tvo hluti og legg í góðar jarðir, því að sá eyrir þykir oftast vís vera, hvort er manni er heldur auðið sjálfum að njóta eða frændum hans. En þá máttu gera, hvort er þér sýnist við hinn þriðja hlut, að hafa í kaupferðum lengur eða viltu allt í jarðir leggja."

 

Svei mér þá ef það er ekki meira vit í þessu en komið hefur fram hjá ráðamönnum banka- og fjármálastofnana undanfarið.  Wink

 

 

Um Konungsskuggsjá á Vísindavefnum.

 


Hefur verð á áli náð botninum?

Er ástæða til smá bjartsýni?

Á ferlinum hér fyrir neðan virðist sem álverð hafi náð botninum. Það var lægst síðari hluta október, en hefur farið aðeins hækkandi síðan.

Efri ferillinn sýnir þróun álverðs síðustu 6 mánuði en neðri ferillinn siðustu 10 ár. Báðir ferlarnir eru beintengdir við www.infomine.com og uppfærast daglega.

Verð á hráefni eins og áli gefur hugmynd um stöðu efnahagsmála í heiminum. Er það versta afstaðið? Sjálfsagt á verðið eftir að sveiflast nokkuð á næstunni, en vonandi er þetta jákvæð vísbending.

 

 

 

 Hér er þróunin síðustu 6 mánuði þannig að auðvelt er að fylgjast með þróun síðustu daga.

 (Athugið að verð á lóðrétta ásnum er í dollurum x 1000 / tonn).

 

 

Þróun álverðs síðastliðin 10 ár. Takið eftir verðinu um það bil sem ákveðið var að ráðast í álver í Hvalfirði og á Austurlandi. Ætli það hafi ekki verið um 2002-2003. Þá var verð á áli töluvert lægra en í dag.

Þrátt fyrir dýfuna undanfarið getur álverðið ekki talist mjög lágt.

 

Heimild: www.infomine.com  Efri ferilin má sjá hér.


Nú er mjög mikilvægt fyrir þjóðarbúið að álversframkvæmdum í Helguvík verði ekki slegið á frest.

Nú skiptir miklu máli fyrir þjóðarbúið að staðið verði nokkurn vegin við áætlanir um framkvæmdir í Helguvík meðan það versta er að ganga yfir í efnahagsmálum þjóðarinnar.  Verði framkvæmdum slegið á frest um óákveðinn tíma munu afleiðingarnar verða mjög slæmar. Ráðamenn þjóðarinnar ættu því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða framkvæmdaaðila við að halda fyrri áætlun.

Fyrirsjáanlegt er gríðarlegt atvinnuleysi meðal  iðnaðarmanna, verkamanna og tæknimanna, og næstum öruggt að stór hluti þeirra mun leita sér starfa erlendis. Óvíst er að þeir sem fundið hafa atvinnuöryggi erlendis snúi aftur. Við vitum einnig að menning og listir verða illa fyrir barðinu á samdrætti.  Styrkir til menningarmála eru með því fyrsta sem fyrirtæki og einstaklingar spara. Þjóðin koðnar niður. Heilbrigðis- og menntakerfið er í hættu nú þegar þúsundir munu líklega missa vinnuna innan fárra vikna og mánaða.

Það er deginum ljósara að framkvæmdir, sem þegar eru hafnar vegna álvers í Helguvík og tilheyrandi orkuver, hefðu gríðarlega  jákvæð  áhrif á efnahag þjóðarinnar. Þetta er þó það lítill áfangi og óverulegur í samanburði við Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði að engin hætta er á ofþenslu.  Þetta er ekki meiri framkvæmd en svo að óþarfi er að flytja inn erlenda verkamenn. Íslendingar færu létt með að sjá um framkvæmdir sjálfir.

Þessar framkvæmdir, álver og orkuver,  gætu veitt vel yfir  1000 manns vinnu meðan á þeim stendur. Hönnuðum, iðnaðarmönnum og verkamönnum. Síðan skapast verðmæt störf til lengri tíma eftir að framkvæmdum lýkur. Margfeldisáhrifin eru veruleg.

Íslenskir tæknimenn eru fullfærir um að sjá um alla hönnun. Þeir hafa áður komið að slíkum verkum og staðið sig vel. Þeir fara létt með að hanna mannvirki, vélbúnað, rafkerfi og forrita öll stjórnkerfi. Hafa gert allt áður. Íslenskir iðnaðarmenn eru frábærir verkmenn, svo og almennir verkamenn. Líklega betri en þeir erlendu sem starfað hafa hér í uppsveiflunni.

Auðvitað hefur álverð snarlækkað á undanförnum vikum. Lækkað um því sem næst 35%. Það er þó enn hærra en fyrir nokkrum árum þegar menn voru að hefjast handa við að reisa álver í Hvalfirði og á Austurlandi. (Sjá myndina hér fyrir neðan). Á móti kemur að aðföng sem þarf til að reisa virkjanir og álver hafa einnig snarlækkað. Til dæmis hefur stál lækkað um 70% og kopar um 50%. Íslenskt vinnuafl hefur aldrei verið ódýrara og vinnufúsar hendur aldrei eins margar. Nú er því lag að reisa ódýr og hagkvæm mannvirki. Ólíklegt er að álverð haldi áfram að síga um ókomna mánuði og ár þrátt fyrir snögga dýfu. Öll él birtir upp um síðir. Töluverður viðsnúningur gæti hafa átt sér stað eftir 2-3 ár þegar framkvæmdum lyki.

Nokkur viðsnúningur í efnahagskerfi þjóðanna gæti hafist innan fárra vikna eða mánaða. Það er því mjög óráðalegt að  fresta framkvæmdum strax en viturlegra að fylgjast vel með hvernig málin þróast og nota vel tímann á meðan til að leita úrræða.

Auðvitað eru hugmyndir manna um álver mismunandi. Þau eru dýr og skapa ekki mörg störf til lengri tíma litið miðað við tilkostnað. Sumir vilja helst ekki vita af þeim, en nú er svo gríðarlega mikið í húfi að við verðum að sameina krafta okkar og gera allt sem í valdi okkar stendur til að tryggja að þessar framkvæmdir tefjist ekki. Núna má líkja álveri í Helguvík við blóðgjöf á gjörgæsludeild. Síðan tekur við endurhæfing og bati. Fái sjúklingurinn ekki rétta meðhöndlun í byrjun verður batinn hægur. Án blóðgjafarinnar er óvíst að sjúklingurinn héldi lífi. Endurhæfingin felst í því að byggja upp þjóðfélagið á nýjan leik með öðrum áherslum. Það tekur þó tíma því nauðsynlegt er að vanda til verka. Tækifærin eru mörg eins og t.d. Kjartan Pétur bendir á hér. Frumkvöðla þarf til, en þeir mega ekki hrökklast úr landi á næstu vikum og mánuðum. Í því liggur hættan.

Nú þegar verða ráðamenn þjóðarinnar að kalla saman nefnd vísra manna til að ráðgast við þá sem hyggjast standa að framkvæmd álvera og orkuvera. Leita þarf ráða til að hægt sé að fjármagna reksturinn eftir að bankarnir sem búið var að semja við um fjármögnun komust í þrot. Ríkisstjórnin þarf að beita áhrifum sínum til að liðka fyrir um lánveitingar.

 

Oft var þörf, en nú er virkilega nauðsyn.      Engan tíma má missa.

 

 

 

 

Þróun álverðs síðastliðin 10 ár. Takið eftir verðinu um það bil sem ákveðið var að ráðast í álver í Hvalfirði og á Austurlandi. Ætli það hafi ekki verið um 2002-2003. Heimild www.infomine.com

Þrátt fyrir dýfuna undanfarið getur álverðið ekki talist mjög lágt.

 

 

 

Hér er þróunin síðustu 6 mánuði þannig að auðvelt er að fylgjast með þróun síðustu daga.

Báðir ferlarnir uppfærast sjálfvirkt daglega. Sjá hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 209
  • Frá upphafi: 762366

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 65
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband