China Town á Grímsstöðum...

 

2306189245_eda298ca1c.jpg

 

Í byrjun maí s.l. var hér varpað fram 25 spurningum vegna fyrirhugaðrar langtímaleigu Kínverja á 30.000 hekturum lands.  Ekki hafa nein svör borist.

Sjá pistilinn Spurningar sem fá verður svar við áður en rætt verður um langtímaleigu á Grímsstöðum á Fjöllum...

Nú er þó ljóst að þarna mun rísa kínverskt þorp með 100 glæsihýsum fyrir auðmenn, með öllu sem slíku tilheyrir,  þjónustuliði (væntanlega kínversku) o.s.frv.  Þarna mun einnig verða lagður flugvöllur, fyrir "svifflug" samkvæmt fréttinni.

Er þetta virkilega það sem við viljum?

   Lítilla sanda
   lítilla sæva
   lítil eru geð guma. 

-

Í Heimskringlu er frásögn af því að Ólafur Haraldsson Noregskonungur sendi hirðmann sinn, Þórarin Nefjólfsson, til að biðja Norðlendinga að gefa sér Grímsey. En Einar Eyjólfsson Þveræingur kom í veg fyrir það með ræðu sem hefur lengi verið í minnum höfð:


„En um Grimsey er þat at ræða, ef þaðan er engi hlutr flutr, sá er til matfanga er, þá má þar fæða her manns, ok ef þar er útlendr herr, ok fari þeir með langskipum þaðan, þá ætla ek mörgum kotbúöndunum muni þykkja verða þröngt fyrir durum.“

„Ok þegar er Einar hafði þetta mælt ok innt allan útveg þenna, þá var öll alþýða snúin með einu samþykki, at þetta skyldi eigi fást. Sá Þórarinn þá erindislok sín um þetta mál.“


Nú vantar okkur sárlega Einar Þveræing...

 

 

 

Er öllum virkilega sama?    Einnig náttúruverndarfólki?  Eru menn kannski með einhverja dollaraglýju í augunum?

 

Bloomberg 17. júlí:
Chinese Billionaire Huang To Revive Iceland Deal After Rejection


 

 


mbl.is Huang segir samkomulag í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitin að Guðseindinni ber árangur...

 

higgs-2.jpg


Frétt Morgunblaðsins í dag hefst á þessum orðum:

"Bandarískir eðlisfræðingar segjast hafa fundið sterkar vísbendingar um tilvist svonefndrar Higgs-bóseindar, sem gefi öreindunum massa. En hún er einnig kölluð Guðseindin...".

 

Það er því tilefni til að rifja upp gamlan pistil frá árinu 2008:

Miklahvells-vélin og leitin að Guðseindinni hjá CERN

 

 

 


mbl.is Vísbendingar um tilvist Guðseindarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningar og svör um brennisteinsvetni...

 

 

kleifarvatn_april_2011_ahb--2.jpg

 



Undanfarið hafa verið nokkrar umræður um brennisteinsvetni frá jarðgufuvirkjunum, sérstaklega Hellisheiðarvirkjun.  Ýmsar spurningar hafa vaknað og af því tilefni hefur Orkuveita Reykjavíkur tekið saman upplýsingar um málið.

Sá sem ritar þennan pistil hefur komið að hönnun jarðgufuvirkjana í næstum fjóra áratugi og er því nokkuð kunnugur vandamálinu, sérstaklega hvað varðar áhrif brennisteinsvetnis á rafbúnað. 

Í upplýsingum Orkuveitunnar hér fyrir neðan og í reglugerðum er notuð mælieiningin  µg/m3 eða míkrógrömm í rúmmetra. Margir eru þó vanari að nota PPB eða Parts Per Billion, þar sem billjón er amerísk billjón eða milljarður. 1 PPB er því sama og 1/1.000.000.000.  Til að breyta milli PPB og µg/m3 og þegar um er að ræða brennisteinsvetni má nota sambandið 
1 ppb = 1,4 µg/m3
.    Því jafngilda heilsuverndarmörkin 50 µg/m3 um það bil 36 ppb.  Þess má geta að í stjórn- og rafbúnaðarherbergjum jarðvarmavirkjana er leitast við að halda styrk brennisteinsvetnis í lægra gildi en 3 ppb eða 4 µg/m3.

-

Áður en lengra er haldið er rétt að það komi fram að Orkuveitan hefur varið um 350 milljónum króna  í rannsóknir og tilraunir til hreinsunar á brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun og tekist  að dæla brennisteinsvetni niður með affallsvatni stöðvarinnar.   Notuð er tilraunastöð þannig að fullum afköstum hefur ekki verið náð, en tilraunin lofar góðu.

Til eru aðferðir sem notaðar eru erlendis til að hreinsa brennisteinsvetni  sem fellur til í t.d. olíuiðnaði. Afurðin er þá brennisteinn eða brennisteinssýra, en verð á því er lágt, markaðir langt í burtu, og förgun tiltölulega dýr.  Það er ástæðan fyrir því að menn eru að leita ódýrari lausna.  

Mestar vonir eru því bundnar við verkefni þar sem brennisteinsvetninu er blandað í vatn og dælt niður í berglög. Þá binst brennisteinsvetnið aftur í steintegundir sem það kom upphaflega úr og binst til framtíðar. Í glópagulli sem margir þekkja er til dæmis mikið af brennisteini.  Ljóst er að þessi tækni lofar góðu og líklegt að hveralyktin frá jarðvarmavirkjunum heyri brátt sögunni til.

 

Hér má sjá styrk brennisteinsvetnis beint frá mælistað. Fróðlegt er að sjá hvernig mæliniðurstöður eru samanborið við heilsuverndarmörkin.

Mælistöð við Hellisheiðarvirkjun

Mælistöð í Norðlingaholt
i

Mælistöð í Hveragerði

 

Myndina efst á síðunni tók höfundur bloggsins í apríl 2011 af hver í Kleifarvatni.



orkuveitumerki.jpg

Birt með leyfi Eiríks Hjálmarssonar upplýsingafulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur.

Spurningar og svör um brennisteinsvetni

1         Hvað er brennisteinsvetni?

Brennisteinsvetni, auðkennt sem H2S í efnafræðinni, er jarðhitalofttegund sem berst upp á yfirborðið frá jarðhitasvæðum og sérstaklega við nýtingu háhitasvæða. H-ið stendur fyrir vetni og S-ið fyrir brennistein. Sameind efnisins er því mynduð úr tveimur vetnisfrumeindum á móti einni brennisteinsfrumeind. Brennisteinsvetnið er lofttegundin sem hveralyktin er af. Styrkur þess í jarðhitavökva er mismunandi frá einu jarðhitasvæði til annars. Af þeim háhitasvæðum, sem nýtt eru á Íslandi, er styrkurinn lægstur á Reykjanesskaganum.

h2s.png

Á lághitasvæðum er styrkur þess gjarna minni en á háhitasvæðunum þar sem lægri hiti leysir minna af jarðefnum úr berggrunninum. Vatn frá lághitasvæðum með brennisteinsvetni hefur verið nýtt í hitaveituna í Reykjavík frá árinu 1928. Við framleiðslu á hitaveituvatni í virkjununum á háhitasvæðunum er kalt vatn hitað upp en örlitlu brennisteinsvetni er blandað í það til að hreinsa úr vatninu súrefni, sem veldur tæringu í lögnum veitunnar og viðskiptavina. Þannig berst hveralykt með öllu hitaveituvatni Orkuveitu Reykjavíkur.

Í miklum styrk er brennisteinsvetni hættulegt. Dæmi eru um að við jökulhlaup tengd jarðhita undir jökli hafi vísindamenn verið hætt komnir við upptök hlaupanna og starfsfólk virkjana líka og þarf að gæta sérstakrar varúðar, ekki síst í lokuðum rýmum þar sem lofttegundin getur safnast fyrir.

2         Af hverju er meiri lykt stundum?

Framleiðsla jarðgufuvirkjananna er nokkuð stöðug og því er magn brennisteinsvetnis, sem frá þeim kemur, einnig nokkuð jafnt. Vísbendingar eru þó um að það dragi úr styrk þess í jarðhitavökvanum eftir því sem viðkomandi jarðhitasvæði hefur verið nýtt lengur.

Veður og vindar ráða mestu um það hvort brennisteinsvetnið berst frá jarðgufuvirkjununum til byggða. Mestar líkur eru á að lykt finnist í hægum vindi í svölu veðri, t.d. í vetrarstillum. Við þær aðstæður blandast brennisteinsvetnið minna andrúmslofti og stígur lægra upp í loftið frá virkjununum. Algengast er að hveralyktin finnist á höfuðborgarsvæðinu í svölum og hægum austanáttum og austan Hellisheiðar í svölum, norðvestlægum vindáttum.

3         Hvað er Orkuveitan að gera til að draga úr menguninni?

Hreinsun brennisteinsvetnis úr útblæstri jarðgufuvirkjana hefur verið í umræðu hjá starfsfólki Orkuveitunnar allt frá því Nesjavallavirkjun var tekin í notkun, árið 1990. Skoðaðar voru aðferðir við hreinsun þess og hugmyndir skutu upp kollinum í vísindasamfélaginu um hagnýtingu þess. Þannig hefur prótínframleiðsla úr hitakærum örverum, sem nærast á brennisteinsvetni, verið á tilraunastigi um árabil. Gallinn við þá aðferð er að örverurnar kæra sig ekki um brennisteininn, sem þá verður eftir og þarf að farga honum eða koma honum í verð. Það er offramboð af brennisteini í heiminum og verð lágt.

Eftir að Hellisheiðarvirkjun var gangsett, haustið 2006, fór að bera meira á hveralykt á höfuðborgarsvæðinu. Var þá farið að leita leiða til hreinsunar með markvissari hætti en áður. Leiddi það til þess að afráðið var að rannsaka með tilraunum hvort fært sé að skilja brennisteinsvetnið frá vatnsgufunni og dæla því niður í berggrunninn aftur með affallsvatni frá virkjuninni. Niðurdæling affallsvatnsins niður í berggrunninn að nýju þjónar þeim tilgangi að auka sjálfbærni jarðhitanýtingarinnar og koma í veg fyrir að það dreifist um yfirborðið. Með því að blanda brennisteinsvetninu saman við þetta vatn er vonast til að unnt sé að losna samhliða við óþægindi tengd hveralyktinni.

Ráðist var í hönnun og smíði tilraunastöðvar sem á að skilja jarðhitalofttegundirnar frá vatnsgufunni. Eftir margháttaðar tilraunir tókst að dæla brennisteinsvetni niður með affallsvatninu í rúma viku í desember 2011. Þá gripu veðurguðirnir í taumana og raki í hreinsibúnaði, sem rekja mátti til vetrarríkisins á svæðinu, stöðvaði frekari tilraunir í bili. Aftur var dælt niður um skeið í kringum páskana og niðurdæling hefur nú staðið frá í byrjun júní.

Í töflunni má sjá hvaða fjármunum Orkuveitan hefur varið til hreinsunar á brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun:

2008

2009

2010

2011

Samtals

38 mkr

125 mkr

131 mkr

55 mkr

349 mkr

Þá hefur Orkuveitan ráðist í umfangsmikla vöktun á magni brennisteinsvetnis í lofti. Um áramótin 2009 og 2010 voru settar upp þrjár nýjar síritandi mælistöðvar, sem reknar eru í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Þær eru í Norðlingaholti, í Hveragerði og við Hellisheiðarvirkjun. Hægt er að fylgjast með mæligildum frá stöðvunum í rauntíma á vef Orkuveitunnar og Heilbrigðiseftirlitsins. Heilbrigðiseftirlit á höfuðborgarsvæðinu hafa rekið loftgæðamælistöðvar um nokkurra ára skeið til að fylgjast með loftgæðum, og er svifrykið þar mest í umræðu auk brennisteinsvetnisins.

4         Af hverju er Orkuveitan ekki farin að beita þeim aðferðum sem notaðar eru annarsstaðar til að hreinsa brennisteinsvetnið?

Orkuveitan hefur kynnt sér aðferðir sem beitt er þar sem brennisteinsvetni fellur til í iðnaði. Skoðunin bendir til að niðurdæling brennisteinsvetnis ofan í jarðlög að nýju sé ekki bara ódýrari en hefðbundnar aðgerðir heldur einnig miklu heppilegri frá sjónarmiði umhverfisins. Ástæðan er sú að allar iðnaðarlausnirnar eru því marki brenndar að annaðhvort fellur til brennisteinn eða brennisteinssýra, sem afurð. Hvorttveggja er markaðsvara en verðið lágt og flutningskostnaður mikill frá Íslandi á þekkta markaði. Líklega yrði því að urða brennisteininn með tilheyrandi áhrifum á umhverfið. Því eru þessi þekktu ferli við hreinsun einungis tilflutningur á viðfangsefninu, ekki lausn.

Þá er sú leið einnig þekkt að leiða útblásturinn upp í háf í því augnamiði að dreifing hans verði meiri. Það dregur ekki úr magni brennisteinsvetnisins, en með meiri blöndun við loftið, dregur úr styrk þess. Sú lausn virðist ekki vera óhóflega dýr og virðist geta lækkað toppa í styrk brennisteinsvetnis.

5         Er óhætt að fara nálægt virkjununum?

Já og Orkuveitan hefur hvatt til útivistar á jarðhitasvæðunum, sem fyrirtækið nýtir með útgáfu gönguleiðakorta og stikun göngustíga. Hægt er fylgjast með styrk brennisteinsvetnis í lofti við Hellisheiðarvirkjun á vef fyrirtækisins og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.

6         Er brennisteinsvetnið hættulegt heilsunni?

Í því magni, sem nú mælist í byggð er það ekki talið hættulegt. Nýleg íslensk rannsókn gefur þó vísbendingar um að brennisteinsvetni, ásamt öðrum loftmengunarþáttum, geti haft áhrif á öndunarfæri þeirra sem viðkvæmastir eru. Orkuveitan hefur ákveðið að styrkja frekari rannsóknir á þessu. Styrkur svifryks í andrúmslofti í Reykjavík hefur farið yfir mörk 15 til 29 daga á ári frá 2008. Styrkur brennisteinsvetnis fór þrisvar yfir viðmiðunarmörk í Hveragerði árið 2011 en var alltaf undir mörkum í Norðlingaholti.

Erlendar rannsóknir, þar sem leitað hefur verið langtímaáhrifa af brennisteinsvetni í litlu magni á fólk, hafa gefið misvísandi niðurstöður, sem erfitt hefur reynst að draga ályktanir af. Ákvarðanir um umhverfismörk brennisteinsvetnis, hér á landi og erlendis, eru ekki byggðar á faraldsfræðilegum rannsóknum eins og gert hefur verið fyrir svifryk, óson og brennisteinsoxíð.

Í miklum styrk er brennisteinsvetni stórhættulegt og ber því að gæta fyllstu varúðar þar sem það getur safnast saman. Það getur t.d. gerst inni í borholuhúsum, stöðvarhúsum eða öðrum mannvirkjum jarðgufuvirkjana og getur einnig orðið í náttúrunni svo sem við jökulhlaup eða eldgos.

Taflan hér að neðan sýnir áhrif brennisteinsvetnis á mannslíkamann við mismunandi styrk þess, mælt í míkrógrömmum á rúmmetra. Inn í töfluna eru feitletruð reglugerðarmörk hér á landi. Hún er byggð á samantekt Kristins Tómassonar og Friðriks Daníelssonar, sérfræðinga hjá Vinnueftirlitinu.

Neðri mörk µg/m3

Efri mörk
µg/m3

Áhrif - umhverfismörk

1

190

Lyktarskynsmörk (fólk byrjar að finna lykt en það er misnæmt fyrir lyktinni)

5

Leyfilegt ársmeðaltal

50

Hámark daglegs hlaupandi 24 stunda meðaltals

150

Sólarhringsmeðaltal heilsuverndarviðmiðs Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar

1.400

7.100

Óþægileg lykt, mögulega ógleði eða höfuðverkur eftir lengri viðveru

14.000

Hámark 8 klst. viðvera skv. vinnuverndarreglugerð

21.000

Hámark 15 mínútna viðvera skv. vinnuverndarreglugerð.

29.000

71.000

Erting í nefi, hálsi og lungum, meltingarónot, lystarleysi, lyktarskyn dofnar og verður ekki lengur öruggt merki um mengunina.

143.000

286.000

Veruleg óþægindi frá nefi, hálsi og lungum, lyktarskyn hverfur alveg.

357.000

714.000

Mögulega banvænt. Lungnabjúgur myndast, sérlega við lengra álag, jafnvel án miðtaugakerfiseinkenna, s.s. Höfuðverks, ógleði og svima

714.000

Mikil lungnaeinkenni, spenna í líkama, höfuðverkur, svimi, óstöðugleiki, yfirlið. Meðvitundarleysi og dauði innan 4-8 klukkustunda. Minnistruflanir.

714.000

1.429.000

Öndunarlömun, óreglulegur hjartsláttur, dauði. Einkenni lungnabjúgs, brjóstverkir og andnauð, geta komið fram eftir allt að48 klukkustundir eftir að einstaklingur hefur lent í mengun.

7         Er brennisteinsvetnið hættulegt tækjum?

Brennisteinsvetni veldur því að það fellur á málma, t.d. silfur og kopar. Fólk í austari hluta borgarinnar hefur sagst telja að það falli hraðar á silfur eftir að Hellisheiðarvirkjun tók til starfa. Þá þarf að verja rafbúnað, sem inniheldur kopar, fyrir áhrifum brennisteinsvetnisins þar sem það er í háum styrk eins og í virkjununum sjálfum.

8         Get ég losnað við hveralyktina úr kranavatninu heima hjá mér?

Já, það er hægt með því að setja upp varmaskipti fyrir þann hluta heita vatnsins sem ekki fer á ofnana heldur inn á neysluvatnskerfið, þ.e. í krana, baðkör o.s.frv. Í nýrri byggingareglugerð er að finna ákvæði um varmaskipti eða uppblöndunarloka á heitavatnskerfinu. Þar er ákvæðið til þess að koma í veg fyrir að of heitt vatn komi úr krönum með tilheyrandi slysahættu. Sé varmaskiptir notaður í þessum tilgangi kemur upphitað kalt neysluvatn úr heitu krönunum. Komi fólk sér upp slíkum búnaði þarf að huga sérstaklega vel að því að lagnaefni þoli súrefnið í upphitaða vatninu.

9         Stafar starfsfólki OR hætta af brennisteinsvetninu?

Já, það þarf að viðhafa sérstakar ráðstafanir á vinnustöðum á borð við jarðgufuvirkjanirnar til að draga úr líkum á slysum vegna brennisteinsvetnis í háum styrk. Starfsmenn bera mæla á sér sem gera viðvart fari styrkur upp í vinnuverndarmörk. Sérstakur kafli er í öryggishandbók Orkuveitunnar þar sem starfsfólki er leiðbeint um hvernig umgangast eigi þessa hættu. Orkuveitan hefur ekki ástæðu til að ætla að við eðlilegar aðstæður sé vinnuumhverfið starfsmönnum skaðlegt. Engu að síður hefur fyrirtækið ákveðið að fylgjast sérstaklega með heilsufari starfsmanna sem vinna í brennisteinsríku umhverfi.

10      Verður útblástur Hverahlíðarvirkjunar hreinsaður að fullu?

Þegar unnið var að mati á umhverfisáhrifum Hverahlíðarvirkjunar, á árunum 2006 til 2008, lýsti Orkuveitan því yfir að brennisteinsvetni yrði hreinsað að langmestu leyti úr útblæstrinum. Á árinu 2010 var sett reglugerð nr. 514/2010 um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Leyfilegur styrkur samkvæmt reglugerðinni er fremur lágur, eða um þriðjungur leiðbeinandi marka Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Vinna Orkuveitunnar miðar nú að því að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar og er þá litið til allra virkjana á Hengilssvæðinu, ekki bara Hverahlíðarvirkjunar. Í yfirstandandi viðræðum um fjármögnun og byggingu Hverahlíðarvirkjunar er það forsenda af hálfu Orkuveitunnar að áður en ráðist verði í virkjun liggi fyrir hvernig brennisteinsmál og niðurrennsli affallsvatns verða leyst.

11      Verður útblástur allra virkjananna hreinsaður að fullu?

Alger hreinsun brennisteinsvetnisins er líklega ekki raunhæf. Markmið Orkuveitunnar er að uppfylla ákvæði reglugerðar 514/2010. Samkvæmt henni taka hert ákvæði gildi um mitt ár 2014. Orkuveitan sér ekki fram á að vera tilbúin með lausn á iðnaðarskala fyrir þennan tíma. Þess vegna mun fyrirtækið, í samstarfi við önnur orkufyrirtæki, fara þess á leit að gildistöku hertra ákvæða verði frestað.

Umhverfismörk

Viðmiðunartími

Mörk
μg/m3

Fjöldi skipta á ári sem má fara yfir mörk

Gildir frá

Heilsuverndarmörk

Hámark daglegra hlaupandi 24 stunda meðaltala

50

5

1.6.2010

Heilsuverndarmörk

Hámark daglegra hlaupandi 24 stunda meðaltala

50

0

1.7.2014

Heilsuverndarmörk

Ár

5

 

1.6.2010

Tilkynningarmörk

Samfellt í 3 klst

>150

 

1.6.2010

Tilkynningarmörk

Samfellt í 3 klst

>50

 

1.7.2014

12      Má búast við að orkuverðið hækki vegna hreinsunar brennisteinsvetnis?

Ef þær lausnir, sem verða ofan á við hreinsun brennisteinsvetnisins, verða mjög kostnaðarsamar, má búast við að sá kostnaður komi fram í verði til neytenda.

 

Nýlega hafa HS-Orka, Landsvirkjun og Orkuveita Rekjavíkur auglýst sameiginlega eftirverkefnastjóra til að stýra sameiginlegu verkefni sem hefur það markmið að draga úr styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti við jarðvarmavirkjanir. Það er því ljóst að málið er nú tekið föstum tökum.

 

 

Spurningar og svör um brennisteinsvetni frá OR má nálgast sem pdf með því að smella á krækjuna neðst á síðunni.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hveralyktin góða í Hveragerði...

 

 




hveragerdi.jpg

 

Brennisteinsvetni (H2S) er lofttegund sem oftast gengur einfaldlega undir nafninu „hveralykt", en þannig lykt þekkja flestir Íslendingar. Þessa lykt má finna nánast alls staðar á hverasvæðum og þar sem jarðhitinn er virkjaður, í mismiklu magni þó.  Lykt af brennisteinsvetni má finna af eggjum og jökulárhlaupum.

Hveragerði er fallegur bær sem dregur nafn sitt af fjölda hvera inni í bænum og umhverfis hann. Íbúar hafa lengi notað gufu og heitt vatn til að hita upp gróðurhús sín og íbúðarhús. Ferðamenn koma til að njóta hins fallega umhverfis og þefa af hveralykt. Kort þar sem sjá má m.a. hverina í bænum er að finna hérInni í miðjum bænum er jafnvel Hveragarður eða Geothermal Park þar sem má sjá ýmsar gerðir hvera, heitt vatn sjóða og hvæsandi gufu streyma. Sjá myndir hér. (Myndin efst á síðunni er fengin þar að láni). Um Hveragarðinn í Hveragerði má lesa hér á Virtual Tourist.

Á vef Hveragerðisbæjar www.hveragerði.is  er nábýlinu við hverina lýst. Þar stendur meðal annars:

„Fá bæjarfélög á Íslandi hafa upp á jafn fjölbreytta möguleika til útivistar að bjóða og Hveragerði. Í bænum sjálfum eru einstakar náttúruperlur á borð við hverasvæðið þar sem fræðast má um mismunandi tegundir hvera, og Varmá sem liðast í gegnum miðbæinn..."

„Reykjadalurinn er sannkölluð útivistarperla en þarna er ein sú flottasta gönguleiðin í Hveragerði. Volgar laugar og litrík hverasvæði gera landsvæðið að einstakri náttúruperlu sem enginn útivistarmaður ætti að láta fram hjá sér fara. Sundföt eru nauðsynleg með í för en heiti lækurinn er helsta aðdráttaraflið í dalnum en hægt er að baða sig í læknum, tekur u.þ.b 1 1/2 - 2 klukkustundir að ganga að honum. Gönguleiðin er vel merkt og má sjá falleg hitasvæði á leiðinni en varast má að fara ekki útaf af gönguleiðinni."

 

Mjög fróðleg grein um hverina í Hveragerði og hverasvæðið í miðbænum er á vef Lands og sögu, sjá hér.

 ---

Það kemur bloggaranum því ekki á óvart að hveralykt eða lykt af brennisteinsvetni finnist í Hveragerði. Svo hefur alltaf verið og verður vonandi áfram um ókomna tíð. Án hveranna fallegu væri bærinn ekki svipur hjá sjón. Það eru ekki margir bæir í veröldinni sem státað geta af Hveragarði eða Geothermal Park með sjóðandi vatni, hvæsandi gufu og yndislegri hveralykt inni í miðjum bænum.  Svo ekki sé minnst á alla hverina í fjallshlíðunum umhverfis, blásandi borholur og gufuskiljur þar sem jarðvarminn er virkjaður til húshitunar og matvælaframleiðslu. Allt þetta hlýtur að hafa áhrif á mælingar, hvort sem þær eru skynrænar gerðar með nefinu eða með dýrum mælibúnaði.

 

 


mbl.is Fólkið verði ekki tilraunadýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar..."

 

 

 atlantic_cod-2.jpg

 

 "Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.

Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum...

Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um..."

 

Gjört í Reykjavík, 10. ágúst 2006.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Einar K. Guðfinnsson.

 

 

Úr gildandi lögum um stjórn fiskveiða sem lesa má hér í Stjórnartíðindum.

 

Vonandi hefur enginn veðsett "sameign íslensku þjóðarinnar" fyrir láni, og vonandi hefur engin fjármálastofnun verið svo vitlaus að taka slíkt veð gilt.  Það væri aldeilis slæmt fyrir viðkomandi fjármálastofnun því þannig veð er marklaust og einskis virði.

 

 

 

 

 


mbl.is Ekki annað eins í 32 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir frá þvergöngu Venusar í gær...

 

 

P1010037-1

 

Eins og margir aðrir fylgdist ég með þvergöngu Venusar í gærkvöld og tók fáeinar myndir á Panasonic Lumix  FZ150 myndavél, en vélin er með linsu sem jafngildir 25-600mm.  Ég var ýmist með mylar filmu eða rafsuðugler til að deyfa ofurbjart sólarljósið. Þegar sólin er rétt lýst, þá verður umhverfið nánast svart á myndunum.

Ég er ekki búinn að fara yfir myndasafnið, en hér eru sýnishorn. Ef til vill bæti ég við fleiri myndum seinna.

 

 P1000919-1

 

 

p1010011-001--b.jpg

 

P1010057-----C-1 

Á efri myndinni má greina sólblett #1494 rétt fyrir neðan miðju (smella tvisvar á mynd til að stækka), en hann má sjá á "lifandi" mynd hér eða hér.

 

 

 


mbl.is Þverganga Venusar var í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þverganga Venusar. Mynd sem ég tók 2004...


 

 

Þverganga Venusar
 
 
 
 
Myndina sem birtist með fréttinni í Morgunblaðinu tók ég fyrir átta árum. Myndin sýnir Venus fyrir framan sólina kl. 07:45, 11. júní 2004.
 
Myndin er tekin með Canon 300D. Linsa Tamron 28-300mm (jafngildir 45 - 480mm á þessari myndavél). Ljósnæmi 100 ISO. Hraði 1/4000 sek. Ljósop f36.
 
Sólfilterinn minn var ekki á sínum stað svo nú voru góð ráð dýr.  Birtan frá sólinni var alltof mikil til þess að hægt væri að ná mynd.  Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst.  Skýjabakki kom siglandi og sveif fyrir sólina.  Ég lét slag standa og smelli af myndum með myndavélina stillta á minnsta ljósæmi, minnst ljósop og mestan hraða.  Það tókst að ná rétt lýstri mynd með þessari hjálp...
 
Það er alls ekki hægt að mæla með svona aðferð við myndatöku því það er stórvarasamt að horfa í sólina. Það er sérstaklega varasamt að með svona myndavélum (SLR eða DSLR) horfir maður í gegn um linsukerfið beint í sólina.
 
 
venus-transit-ahb---obreytt-2.jpg
 
 
 
 
Umfjöllun Stjörnufræðivefsins um þvergöngu Venusar er hér.
 

 

 

 

 
 
 

mbl.is Stjörnuáhugamenn verða víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Catalína snýr aftur...

 

 

 

 

 Catalina

 

Hefur einhver séð Catlínu nýlega? Það hef ég gert og meira segja strokið henni blíðlega, enda fátt fegurra á jörðu hér. Þeir sem kynnst hafa Catalínu gleyma henni seint... :-)

Hver er þessi einstaka Catalína sem margir hafa elskað? Fullu nafni heitir hún Cosolidated PBY5A Catalina og hefur stundum verið kennd við Vestfirði. Nú vakna öugglega góðar minningar hjá mörgum. Já, hún Kata, auðvitað. Hver man ekki eftir Kötunni...

 

tf-rvg.jpg

 

Myndin hér að ofan er tekin á Reykjavíkurflugvelli snemma á sjötta áratug síðustu aldar, en myndin efst á síðunni er tekin á svipuðum slóðum fyrir fáeinum árum. Báðar eru myndirnar af Vestfirðingi TF-RVG, en munurinn er sá að Sturla Snorrason smíðaði þá sem litmyndin er af.

 

 

Catalina-flugbátar voru notaðir á Íslandi um tuttugu ára skeið hjá Flugfélagi Íslands, Loftleiðum og Landhelgisgæslunni. Þetta var á árunum frá 1944 til 1963

Fyrsti Catalina-bátur Íslendinga var TF-ISP Gamli-Pétur Flugfélags Íslands. Flugvélin var keypt frá Bandaríkjunum árið 1944 og varð fyrsta íslenska flugvélin til þess að fljúga milli landa þegar Örn Ó. Johnson flugstjóri, Smári Karlsson flugmaður og Sigurður Ingólfsson flugvélstjóri flugu vélinni frá New York í október 1944 ásamt tveimur Bandaríkjamönnum. Gamli-Pétur flaug fyrsta millilandaflug Flugfélags Íslands sumarið 1945.

Catalina flugbátar Flugfélags Íslands, Gamli-Pétur, Sæfaxi og Skýfaxi, og Loftleiða, Vestfirðingur og Dynjandi, áttu mikinn þátt í uppbyggingu innanlandsflugsins á árunum 1944 til 1961. Þá voru flugvellir fáir og samgöngur á landi erfiðar og var því mikill kostur að geta lent á sjó.

TF-RÁN var síðasti Catalina flugbáturinn í notkun hérlendis, en það var flugvél Lanhelgisgæslunnar sem var í notkun hérlendis 1954 til 1963. TF-RÁN kom mikið við sögu í þorskastríðinu

 

Sturla Snorrason er mikill smiður. Hann hannaði og smíðaði forláta líkan af Vestfirðingi sem sjá má efst á síðunni og á myndbandinu hér fyrir neðan þar sem Sturla flýgur Vestfirðingi á Tungubökum í Mosfellssveit árið 2001. Það er gaman að fylgjast með gamla Catalinu flugstjóranum Smára Karlssyni sem greinilega yngist um nokkra áratugi þegar minningarnar streyma fram...

Þetta líkan af gamla Vestfirðingi er einstakt. Smíðin er návæm, uppdraganleg hjólastell og uppdraganleg flot á vængendum. Flugmennirnir í stjórnklefanum hreyfa sig  og svo getur líkanið flogið og hefur svipaða flugeininleika og fyrirmyndin.

Sturla selur smíðateikningar, uppdraganleg hjólastell og fleira sem sjá má hér, og hér.  Grein á ensku um þennan forláta grip má lesa með því að smella á hlekkina sem finna má hér. Vestfirðingur verður til sýnis í Flugskýli 1 á flugsýningunni annan í Hvítasunnu.

 

 

 

 
 
 
 
 
 
 
 

 

 Til að fræðast meira um smíði og flug véla eins og þeirrar sem Sturla smíðaði:

www.frettavefur.net


 


Styrktartónleikar píanósnillingsins Martins Berkofsky í Hörpu 26. maí 2012.

 

  martin-berkofsky-600w.jpg

 



 


Martin Berkofsky, Íslandsvinur og heimsþekktur listamaður, heldur tónleika í Hörpu laugardaginn 26. maí. 

Takmarkað miðaframboð því mikil nálægð verður við listamanninn. 

Miða má nálgast á www.harpa.is

 

 

Martin Berkofsky leikur á tónleikum til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands í Norðurljósi í Hörpu laugardaginn 26. maí. Martin hefur sjálfur háð hetjulega baráttu við krabbamein undanfarin tíu ár og hefur haldið hundruð tónleika til styrktar krabbameinsfélögum. Nú kemur hann til Íslands til að gera slíkt hið sama. Martin mun leika lög eftir Franz Liszt en fáir núlifandi listamenn túlka þennan risa píanósins jafn vel og Martin Berkofsky.

Um Martin Berkofsky 

- texti eftir félaga í Samtökum um tónlistarhús

Martin Berkofsky kom inn í íslenskt tónlistarlíf eins og hvirfilbylur upp úr 1980 og var þá þegar ljóst að þar fór stór maður í listsköpun sinni. Martin var undrabarn og spilaði fyrst sjö ára gamall með sinfóníuhljómsveit Chicagoborgar, píanókonsert eftir Mozart. Hans stóra áhugamál í lífinu hefur ætíð verið Franz Liszt og hann fann ýmis verk eftir þann snilling sem áður höfðu legið gleymd víðs vegar í Evrópu. Hann varð síðan nokkurs konar sendiherra Bandaríkjanna og spilaði víða á vegum Bandaríkjastjórnar, þar til hann sendi gamla Bush bréf um að hann væri ekki sáttur við árásarstefnu Bandaríkjanna. Þá var hann strikaður út af sendiherralistanum og honum allar leiðir lokaðar.  

Fljótlega eftir að Martin kom til Íslands, en ást á konu leiddi hann þangað, lenti hann í hrikalegu slysi á mótorhjóli sínu og mölbraut á sér handlegginn, fjórtán brot. Honum var sagt að hann gæti aldrei spilað aftur en þökk sé ótrúlegum baráttuvilja og að hans mati lækningu að handan, tókst honum að komast aftur að sínu hljóðfæri. 

Þegar veruleg hreyfing komst á að byggja tónlistinni hús á Íslandi um 1983 gerðist hann strax ötull baráttumaður fyrir þeirri hugmynd með þeim eina hætti sem hann kunni, að spila stuðningstónleika. Hann tók þátt í tónleikum í Austurbæjarbíói og hélt sjálfstæða tónleika í Þjóðleikhúsinu fyrir troðfullu húsi, spilaði út um land og hann spilaði í Harvard í Bandaríkjunum málinu til framdráttar. Hann gaf út snældu málinu til stuðnings – þá voru geisladiskarnir ekki komir – sem seldist ótrúlega vel.

Martin hélt upp á sextugsafmælið sitt með því að hlaupa 1400 kílómetra í Bandaríkunum og halda tónleika á hverju kvöldi eftir hlaup dagsins. Þannig safnaði hann yfir 10 milljónum króna sem runnu til þeirra sem voru með krabbamein á hverjum stað. Hann hefur spilað mikið í Austurlöndum nær, enda armenskur gyðingur að uppruna, og á Ítalíu síðustu ár allt til stuðnings baráttunni við krabbamein. Sjálfur hefur hann aldrei haft neinn áhuga á peningum.

Félagar í Samtökum um tónlistarhús, í samstarfi við Krabbameinsfélag Ísland, eru að fá Martin hingað til lands til að halda styrktartónleika í Hörpu, en til þeirrar byggingar lagði hann mikilsverðan skerf. Hann mun flytja verk Liszts sem enn á erindi við okkur með tónlist sinni, enda þótt liðnar séu þrjár aldir síðan hann fæddist. 
 
 ---
 

 

 

Efnisskrá:

Öll verkin eru eftir Franz Liszt (1811-1886)

1. Pater Noster /Faðir vor…

 

   Pater noster, qui es in coelis, sanctificetur nomen tuum;

   adveniat regnum tuum;

   fiat voluntas tua sicut in coelo et in terra.

   Panem nostrum quotidianum da nobis hodie,

   et dimitte nobis debita nostra,

   sicut et nos dimittimus debitoribus nostris.

   Et ne nos inducas in tentationem.

   Sed libera nos a malo.

   Amen.

 

2. Il Festo Transfigurationis nostri Jesu Christi

 

3. Légende: St. François d'Assise. La prédication aux oiseaux

(Lausl. þýð.: Þjóðsaga: St. François d'Assise. Spádómur fuglanna

 

4. Miserere d´Après Palestrina /Miskunnarbæn skv. Palestrina

 

   Miserere mei Deus secundum magnam misericordiam tuam

   Et secundum miserationem tuam

   Dele iniquitatem meam.

 

5. Valhalla (Aus Der Ring des Nibelungen) /

    (Úr Niflungahringnum)                                        

    (Wagner-Liszt-Berkofsky)

 

HLÉ

 

6. Les Morts-Oraison* /Dauðinn  

 

   Ils ont aussi passé sur cette terre; ils ont descendu le

   fleuve du temps; on entendit leur voix sur ses bords,

   et puis l'on n'entendit plus rien.

   Ou sont-ils? Qui nous le dira? 

   Heureux les morts qui meurent dans le Seigneur!

    (Lausl. þýð.:)

    Þeir hafa og verið á þessari jörð; þeir hafa fylgt tímans straumi;

    Rödd þeirra heyrðist við árbakkann og þagnaði síðan.

    Hvar eru þeir, hver mun upplýsa okkur?

    Lánsamir eru þeir látnu sem deyja í drottins nafni!

 

  *(Verkið er leikið í minningu um Edward Parker Evans,

      f. 31. janúar 1942  d. 31. desember 2010).

 

7. Légende: St. François de Paule marchant sur les flots /

    (Lausl. þýð.:)  Þjóðsaga: heilags François de Paule, gangandi á vatninu

 

8. Hungarian Rhapsody No. 12 / Ungversk rapsódía No. 12

 
 
 ---
 
Áður hefur verið fjallað um hinn margbrotna tónlistarsnilling á þessu bloggsvæði:
 

Viðtal Voice of America við Martin Berkofsky.  Ísland kemur við sögu...

American classical pianist Martin Berkofsky has long impressed music critics around the world with his firebrand virtuosity. But as VOA's Irina Robertson learned when she met recently with Berkovsky, he stopped playing for personal fame 25 years ago and began performing for charitable causes. Scot Riddlesburger narrates the story.    


 

 merki-harpa-tonlistarhus.jpg

        


 

Harpa 26. maí 2012

 

 

 

 

 

Spurningar sem fá verður svar við áður en rætt verður um langtímaleigu á Grímsstöðum á Fjöllum...

 

 

grodurkort.jpg

 

 

Áður en Grímsstaðir á Fjöllum verða leigðir útlendingi til 40 ára, eða 99 ára eins og hann vill sjálfur, þurfa nokkur atriði að liggja skýrt fyrir.  Þarna er um 300 ferkílómetra af landsvæði í jaðri hálendisins að ræða, þannig að þetta er mál sem snertir alla Íslendinga.  
300 ferkílómetrar eru 30 þúsund hektarar.

Ég trúi ekki öðru en svör við neðangreindum spurningum liggi fyrir. Ég neita að trúa því að menn geti verið svo miklir kjánar að ana út í samninga án þess að skoða málið.   Því óska ég eftir að aðilar sem starfa fyrir okkur tímabundið við stjórn lands og sveitarfélaga upplýsi okkur nú þegar um það sem þeir vita.  Menn verða einnig að gera sér grein fyrir að munnlegir samningar við útlendinga um hvað til stendur að gera hafa ekkert gildi, þeir verða að vera skriflegir og liggja fyrir áður en rætt  er um langtímaleigu.

 

1)      Er vitað í hverju er ætlunin er að fjárfesta, en rætt hefur verið um 20 milljarða króna fjárfestingu?

2)      Óljósar fregnir eru af hóteli og golfvelli, en slíkt kostar ekki nema brot af 20 milljörðunum.

3)      Mun þessum fjármunum verða eytt hér innanlands, eða er að miklu leyti um að ræða fjármagn sem notað verður til að kaupa efni og vörur erlendis?

4)      Verða iðnaðarmenn, tæknimenn og verkamenn, sem starfa munu við framkvæmdina,  að stærstum hluta íslenskir, eða verða þeir að mestu útlendingar?

5)      Verða starfsmenn hótelsins, golfvallarins og alls hins sem koma skal, Íslendingar, eða verða þeir flestir fluttir inn?

6)      Verði starfsmennirnir kínverskir, hve margir verða þeir?

7)      Hvernig munu starfmennirnir búa? Verður reist þorp á svæðinu fyrir þá eða háhýsi/íbúðablokk?

8)      Heyrst hefur að reiknað sé með flugvelli á Grímsstöðum, væntanlega til að flytja ferðamenn til og frá landinu. Er það rétt?

9)      Ef  flugvöllur verður gerður í tengslum við hóelsamstæðuna, hver mun þá sinna tollgæslu og landamæraeftirliti, þ.á.m. Schengen eftirliti? Hver mun kosta það?

10)   Er hætta á að þessi hugsanlegi flugvöllur trufli öræfakyrrð hálendisins?

11)   Þurfa framkvæmdir á þessum 30.000 hektara lands að fara í umhverfismat?

12)   Hefur Umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun ekki þungar áhyggjur af þessu máli sem fylgja munu lítt afturkræfar framkvæmdir á jaðri hálendisins?

13)   Hafa Náttúruverndarsamtök ekki áhyggjur af þróun mála?  Landvernd?

14)   Er hætta á að leigutaki muni hindra umferð ferðamanna um þessa 30 þúsund hektara lands? Það væri þó væntanlega ólöglegt, en hvað kynni mönnum að detta í hug...

15)   Gerir væntanlegur leigutaki sér grein fyrir þeim reglum og skyldum sem gilda hér á landi m.a.  í jarða- og ábúðalögum, t.d. varðandi  smölun fjár og aðrar skyldur við samfélagið?

16)    Er hætta á gríðarlegu slysi eins og þegar kínverskir athafnamenn ætluðu sér stóra hluti í Kalmar í Svíþjóð árið 2006, en allt fór í vaskinn eins og hálfbyggð hús og opnir húsgrunnar bera ófagurt vitni um? (Sjá hér, hér, hér, hér, hér). Í Kalmar lærðu menn dýrkeypta lexíu, og gætum við lært mikið af reynslu Svía.  Í Sænska ríkissjónvarpinu var sýnd heimildarmynd um þetta furðulega mál, og er vonandi að RÚV sýnir þá mynd sem allra fyrst. Sjá Kineserna Kommer.

17)   Er þessi væntanlegi samningur um langtímaleigu fordæmisgefandi?

18)   Hafa menn lesið varnaðarorð Dr. Ágústs Valfells sem eitt sinn var forstöðumaður Almannavarna ríkisins og lengi prófessor í kjarnorkuverkfræði við bandarískan háskóla?  Hafa menn hugleitt innihald greinarinnar?  Grein hans nefnist Gangið hægt um gleðinnar dyr, og birtist 13. desember s.l.   Sjá hér.   

 

19)   Mun væntanlegur leigutaki krafinn um tryggingar fyrir því að í einu og öllu verði farið eftir þeim lögum, reglum og venjum sem gilda á Íslandi?

 

20)   Sjálfsagt hef ég gleymt einhverjum spurningum, - þeim má bæta við seinna...

 

 

 

Uppfært:

Viðbótarspurningar sem komið hafa fram í athugasemdum og víðar. (Ef til vill verður fleiri atriðum bætt við hér ef ástæða er til):

 21)   Hvað gerist að 40 (eða 99) árum liðnum eða þegar samningnum lýkur?  Hvernig verður með mannvirkin og allt raskið?  

Verður skilyrt í samningnum að leigutaki skili landinu í sama ástandi og hann tók við því?

Eða, þarf landeigandi etv. að leysa til sín öll mannvirkin og greiða fyrir?  Munum að þetta eru 20 milljarðar sem verið er að ræða um og landeigandinn (sveitarfélagið)  gæti þurft að borga.   Það þarf því að gæta sín þegar og ef samningur er gerður.

 

22)   Hver ber kostnað af vegagerð og gatnagerð, aðrennsli og frárennsli, rafmagni o.þ.h. Hvað um lögæslu ?  Er það ríkið eða sveitarfélög sem sem tekur þann hluta að sér eins og oftast er gert ráð fyrir?


23) það er ljóst að fjölda starfsmanna þarf til að starfa við hótel, golfvelli o.fl. sem tilheyra 20 milljarða fjárfestingunni á Grímsstöðum. Væntanlega munu flestir búa á staðnum, sérstaklega í ljósi þess að samgöngur í þessum landshluta geta verið erfiðar að vetri til. Hver mun reka grunnþjónustu við íbúana, svo sem leikskóla, grunnskóla, heilsugæslu...?  Læknisþjónusta við hótelgesti?  Lendir þetta allt á sveitarfélaginu?  - Eða er reiknað með að þetta verði allt saman kínverskt þorp, eins konar Chinatown?

 

24) Vetur eru harðir á þessum slóðum.  Munu koma fram auknar kröfur um að vegakerfinu sé haldið opnu?  Hver mun bera kostnað af því?

 

25) Hefur utanríkisráðuneytið látið kanna hvort íslenskum athafnamönnum standi til boða að taka á leigu eða kaupa 0,3% af Kína?

 

 

 

 

 

 

Nú getur auðvitað vel verið að allar hliðar þessa máls hafi verið skoðaðar og skjalfestar, og að allt sé í lagi. Ef svo er, þá ber viðkomandi yfirvöldum að sjálfsögðu skylda að upplýsa okkur um það.

 

 

Ef svar við öllum þessum spurningum liggur ekki fyrir, þá verður að afla þeirra skriflega áður en rætt verður um langtímaleigu á hinu 30.000 hektara landi Grímsstöðum á Fjöllum.

Um það hljóta allir sannir Íslendingar að vera sammála.

 

Hitt er svo annað mál að það getur verið erfitt að taka "rétta" ákvörðun í svona flóknu máli. Það eru þó til aðferðir sem auðvelda slíkt, en í þessum bloggpistlum hafa einmitt tvær slíkar aðferðir verið kynntar.

Önnur aðferðin nefist á íslensku  nefnist aðferðin SVÓT greining.     (Styrkur, Veikleiki, Ógnun, Tækifæri), en á ensku  Ensku SWOT analysis.   (Strength, Weakness, Opportunity, Threat). Þessi einfalda aðferði var kynnt í þessum bloggpistli um Icesave málið.

Svo er til enn öflugri áhættugreining sem kynnt var í öðrum bloggpistli um Icesave málið á sínum tíma.  Þessi aðferðafræði getur nýst öllum vel þegar þeir standa frammi fyrir ákvarðanatöku þar sem málið er snúið og áhættur margar og mismunandi. Sama hvort það er í fjármálum, framkvæmdum eða stjórnmálum. Sama hvort það er í þjóðfélaginu, vinnustaðnum eða einkalífinu. Hún er notuð við stórframkvæmdir og jafnvel notuð af þinginu og ráðuneytum í Ástralíu.

Báðar þessar aðferðir gætu nýst vel þeim sem þurfa að fjalla um framkvæmdir eins og þær sem komið hafa til greina á Grímsstöðum. 

 


 

gangid-haegt-haegt-um-gledinnar-dyr---agust-valfells----crop.jpg

 


 Tví- eða þrísmellið á mynd til að stækka og lesa grein.
 
Gangið hægt um gleðinnar dyr.

Það er fyrir öllu!
 

 
 

 


mbl.is Huang fagni ekki of snemma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýjasta Gangverk fréttablað Verkís á afmælisári komið út - Fæst ókeypis hér :-)

 

 

 

logo-upphleypt-liggjandi-verkfraedistofa.png

 

 

Verkfræðistofan Verkís er langelsta verkfræðistofan á Íslandi og varð 80 ára á þessu ári, en árið 1932 stofnaði Sigurður Thoroddsen verkfræðistofu sína sem síðan varð einn af máttarstólpum Verkís...
Af því tilefni er sérstaklega vandað til fréttablaðsins Gangverk. Annað tölublað afmælisársins var að koma út og má nálgast það ókeypis á netinu. 


Meðal efnis aprílblaðsins er áhugavert viðtal við einn af frumkvöðlum verkfræðistofunnar Verkís, Egil Skúla Ingibergsson, sem um tíma var borgarstjóri Reykjavíkur, en hann stofnaði verkfræðistofuna Rafteikningu, sem er meðal fimm öflugra máttarstólpa Verkís.

Í blaðinu er einnig fjallað um nýjar virkjanir á norðurlandi, mývarginn mikla sem gerði mönnum lífið leitt meðan á virkjanaframkvæmdum við Sogið stóð og notkun DDT í baráttunni við hann, verkfræðingaverkföllin um miðja síðustu öld sem áttu eftir að hafa jákvæðar afleiðingar, o.m.fl. 

 

Á afmælisárinu eru þegar komin út tvö blöð, en þau verða væntanlega um fimm alls.

Öll eintök Gangverks, 21 að tölu, má nálgast hér á vefsíðu Verkís, en síðustu 5 hér fyrir neðan.

 

Það getur hentað vel að hægrismella á krækjurnar og nota Save Link As  til að vista blaðið sem pdf, og lesa það síðan með hjálp Acrobat. Stundum er auðveldara að lesa þannig en beint í vefskoðaranum.

 

 

Forsida-Gangverk-Apr-2012

Apríl 2012.  Smella hér: 2.tbl 2012

Greinar:

  • Lýsing á húsnæði og tré í tilefni afmælis.
  • Viðtal við Egil Skúla Ingibergsson stofnanda. Rafteikningar og fyrrum borgarstjóra.
  • Jarðgufuvirkjanir á Norðausturlandi.
  • Varnarefnið DDT og mývargur í Sogi.
  • Hús verkfræðingsins.
  • Frá hinu opinbera inn á stofurnar.
  • Fréttamolar.
Forsida Gangverk 1 tbl 2012

Febrúar 2012. Smella hér:  1.tbl 2012

Greinar:

  • Fyrstu ár Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen.
  • Viðtal við Björn Kristinsson stofnanda Rafagnatækni og prófessor emeritus.
  • Byggingarævintýri Viðlagasjóðshúsanna.
  • Jarðvarmaverkefni í Kenía.
Forsida Gangverk Des 2011

Desember 2011. Smella hér: 2.tbl 2011

Greinar:

  • Umhverfisstjórnun hjá Verkís.
  • Lífsferilsgreiningar.
  • Almenningshjólaleigur.
  • Vistvæn hönnun og vottanir.
  • Díoxín í umhverfinu.
  • Búorka.
  • Sjávarfallavirkjanir.
  • Vistbyggðaráð.
  • Hvers vegna að spá í skólp?
  • Húsasótt - hvað og hvers vegna?
Forsida Gangverk febrúar 2011

Febrúar 2011. Smella hér: 1.tbl 2011

Greinar:

  • Flokkun jarðhitasvæða.
  • Hitaveita á höfuðborgarsvæðinu.
  • Hellisheiðarvirkjun og hellisheiðaræð.
  • Jarðhitavirkjanir á Reykjanesi.
  • Auðlindagarðurinn Svartsengi.
  • Snjóbræðslukerfi í Reykjavík.
Gangverk_vor_2010-1

Vor 2010. Smella hér: 1.tbl 2010

Greinar:

  • Fyrirtækjamenning og starfsandi í sameiningu.
  • Björgunarstarf á Haíti.
  • Verkís um allan heim.
  • Ráðgjafasamningi Kárahnjúkavirkjunar lýkur.
  • Verkís á Grænlandi.
  • Engin diskókúla.
  • Andblær - loftræstikerfi.
  • Ljósgæði - Lífsgæði.
  • Vatnaflsvirkjun í Georgíu.
 
 
Fimm gamalgrónar verkfræðistofur runnu saman í eina undir nafninu Verkís árið 2008.
Fjöldi starfsmanna er 320.
 
VST - Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen (1932)
RT - Rafagnatækni (1961)
Fjarhitun (1962)
Rafteikning (1962)
Fjölhönnun (1970)

 
 
 
afmaelismerki-upphleypt-liggjandi-consulting_1149181.png
 
 
 
 

 

1932 – 2012

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Stríð og friður - góð grein Péturs Stefánssonar verkfræðings um ástandið á Íslandi samborið við eftirstríðsárin í Þýskalandi...

 

 

"Aldrei á mínum 70 árum hef ég upplifað jafn neikvæða þjóðfélagsumræðu, reiði og persónulega óvild eins og mér finnst ég skynja í þjóðfélaginu í dag"...  

Þannig skrifar Pétur Stefánsson í grein í Morgunblaðinu í dag 13. apríl.  Ég er svo innilega sammála Pétri að ég tek mér besssaleyfi og birti grein Péturs hér í heild sinni.

 

 

petur-stefansson.jpg"Mér hefur síðustu misserin orðið tíðhugsað til námsáranna í München eftir stríðið. Ég kom til Þýskalands þegar 13 ár voru liðin frá stríðslokum. Uppbyggingin var þá hafin af krafti en menn voru enn að brjóta niður ónýt hús og hreinsa rústir. Ég bjó um tíma hjá gamalli ekkju sem misst hafði bæði eiginmanninn og einkasoninn í stríðinu. Hún kvartaði ekki. Það kvartaði enginn. Umferð var lítil og vöruúrval var lítið, þó svalt held ég enginn. Þjóðin var sakbitin. Enginn minntist á stríðið. Það ríkti þögul þrá eftir nýrri framtíð.

 

»Þýska efnahagsundrið«

Það var sérstaklega eftirminnilegt að fylgjast með stjórnmálunum. Tveir menn voru áberandi, Konrad Adenauer kanslari og Ludwig Erhard efnahagsmálaráðherra. Adenauer talaði kjark í þjóðina og sinnti einkum hinu víðara samhengi í Evrópu. Ludwig Erhard, sem síðar hefur verið nefndur faðir þýska efnahagsundursins, hafði forystu um endurreisn efnahags landsins. En hver var þessi Ludwig Erhard og hver var hans galdur. Erhard var sonur smákaupmanns í Fürth. Hann gekk í verslunarháskóla en nam síðan hagfræði og félagsfræði og lauk doktorsprófi. Árið 1948 varð hann forstöðumaður efnahagsráðs hernámsstjórnarinnar og afnam sem slíkur verðlagshöft og opinbera framleiðslustýringu samhliða upptöku þýska marksins. Ári síðar varð Erhard þingmaður CDU (nú flokkur Angelu Merkel) og efnahagsmálaráðherra til 14 ára. Erhard var þó aldrei flokksbundinn og að mínu mati aldrei fulltrúi neins nema þýsku þjóðarinnar. Ludwig Erhard lagði þunga áherslu á frjálst efnahagslíf (»die freie Wirtschaft«) en hann lagði jafnframt áherslu á félagslegt réttlæti (»die soziale Gerechtigkeit«). Þetta var mikil jafnvægislist. Hann vissi að hann mátti ekki lama dráttarklára atvinnulífsins en hann stóð líka dyggan vörð um grundvallarmannréttindi. Allir áttu rétt á að lifa mannsæmandi lífi og njóta hæfileika sinna. »Wohlstand für alle«, velferð fyrir alla, var kjörorð hans og raunar heiti á bók þeirri er hann síðar gaf út. Það sérstaka afbrigði kapítalisma sem þróaðist í Þýskalandi á þessum árum (og ríkir í meginatriðum enn) hefur verið nefnt »Ordokapitalismus«, væntanlega, án þess ég viti það, skylt þýska orðinu Ordnung (regla).

Þegar ég hélt heim frá námi sex árum síðar voru rústirnar að mestu horfnar, vöruúrval orðið fjölbreytt í verslunum og menningarlíf tekið að blómstra á ný. Á einum aldarfjórðungi byggðu Þjóðverjar öflugasta iðnríki álfunnar undir öruggri leiðsögn Ludwigs Erhards og eftirmanna hans.

 

Ólíkt höfumst við að

Við Íslendingar lentum líka í stríði, stríði við eigin breyskleika og hömluleysi og eigum líka um sárt að binda. Við settum kíkinn fyrir blinda augað og biðum lægri hlut.

Þegar ég hins vegar ber ástandið hér heima saman við ástandið í Þýskalandi eftir stríðið verð ég hugsi. Aldrei á mínum 70 árum hef ég upplifað jafn neikvæða þjóðfélagsumræðu, reiði og persónulega óvild eins og mér finnst ég skynja í þjóðfélaginu í dag. Af hverju erum við svona reið? Tókum við ekki flest einhvern þátt í dansinum, mishratt að vísu. Vissulega urðum við fyrir áfalli og vissulega töpuðum við nokkrum fjármunum. Þannig tapaði undirritaður t.d. 30-40% af lífeyrisréttindunum sínum til æviloka og eignir hans lækkuðu í verði eins og eignir annarra. Hann ætti því samkvæmt formúlunni að vera bæði sár og reiður. Því fer þó fjarri. Ég er bæði glaður og þakklátur. Glaður yfir því að húsin okkar eru heil, brýrnar okkar heilar, framleiðslutækin heil og ríkisfjármálin alveg þokkaleg í alþjóðlegum samanburði. Ég er líka þakklátur þeim sem brugðust við þegar á reið, þakklátur þeim sem settu neyðarlögin, Þakklátur Indefence-hópnum fyrir öfluga málsvörn og þakklátur forseta Íslands sem með fyrra málskoti sínu líklega bjargaði börnum okkar frá áralöngum skuldaklafa. Þótt margar fjölskyldur eigi vafalaust enn í erfiðleikum vegna atvinnumissis og greiðsluörðugleika tel ég að á heildina litið sé lítil innistæða fyrir allri þeirri neikvæðu umræðu sem á okkur dynur í netheimum og fjölmiðlum. Þvert á móti tel ég að við eigum með okkar vel menntuðu æsku og ríku auðlindir til lands og sjávar alla möguleika á að endurheimta hér »velferð fyrir alla« ef við einungis berum gæfu til að þroska okkar stjórnmálalíf, móta okkur skýra framtíðarsýn og láta af öfgum til hægri og vinstri. Traust þjóðarinnar til Alþingis Íslendinga virðist því miður vera í sögulegu lágmarki. Ég hef áður lýst efasemdum mínum um ágæti hinna opnu prófkjara og hvernig þau hafa að mínu mati fælt vel menntað og reynslumikið fólk frá þátttöku í stjórnmálum. Það er, ef rétt er, mikið áhyggjuefni. Stjórnmálaflokkarnir verða nú þegar nálgast kosningar að átta sig á því að traust fylgir ekki stjórnmálaflokkum, traust fylgir einstaklingum. Það á ekki bara við um núverandi stjórnarflokka, það á líka við um þann flokk sem ég hef jafnan stutt í gegnum árin".

 

Ég held það sé varla tilviljun, en á svipuðum nótum og Pétur hef ég sjálfur ítrekað hugsað undanfarið.   Síðustu vikur er ég var staddur erlendis með fjölskyldu minni varð mér einmitt tíðrætt um þessa "neikvæðu þjóðfélagsumræðu, reiði og persónulegu óvild",  svo ekki sé minnst á tilhneigingu margra ráðamanna til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tefja fyrir uppbyggingu hér á landi eftir hrunið.  Ég tapaði eins og Pétur 30-40% af lífeyrisréttindum mínum, en er á sama hátt og Pétur þakklátur þeim sem gerðu það sem í þeirra valdi stóð til að forða okkur og börnum okkar frá algjöri hruni. Við Pétur erum nánast jafnaldrar, munar kannski hálfum áratug, og kollegar, og kannski er það þess vegna að við höfum svipaða sýn á málin. Ég hef þó grun um að flestallir góðir og sannir Íslendingar geti tekið heils hugar undir þessi ágætu skrif Péturs.

 

 



 


Hafísinn í hámarki hámarki vetrarins, örlítið meiri en undanfarna vetur...

 

seaice-31mars2012-c.jpg

 

seaice-31mars2012-crop-b.jpg

Hvernig ætli ástand "landsins forna fjanda" sé um þessar mundir? Nú er hafísinn væntanlega í hámarki ársins. Hvernig er ástand hans miðað við undanfarin ár? Er hafísinn meiri eða minni? Svarið er, sýnist mér vera, aðeins meiri.  Auðvitað bara eðlilegar breytingar sem ekki geta talist miklar.

Myndin hér fyrir ofan sýnir útbreiðslu hans í dag 31. mars, en úrklippan er stækkuð mynd af ferlinum, þ.e. sýnir aðeins betur ástandið um þessar mundir. 

Takið eftir rauða ferlinum sem gildir fyrir árið sem er að líða. Forvitnilegt er að sjá hvernig hann hefur skotist upp fyrir ferla undanfarinna ára.

Í augnablikinu er útbreiðslan heldur meiri en á sama tíma árin 200720082009, 2010 og 2011, og er jafnvel kominn að meðaltali áranna1976-2006. Reyndar virðist 2012 ferillinn vera þessa dagana á sama róli og ferillinn komst hæst árið 2010.  Það gæti því ýmislegt breyst næstu daga...

Hér fyrir neðan er svo "lifandi" mynd sem á að uppfærast nokkuð reglulega (takið eftir dagsetningunni á myndinni).  Fróðlegt verður að fylgjast með þessari mynd næstu daga. Á rauði ferillinn eftir að fara yfir strikaða ferilinn sem sýnir meðaltal áranna 1979-2006? Errm


ssmi1-ice-ext

Ferlarnir eru fengnir hér:

arctic_roos_logo.jpg

www.arctic-roos.org

.

Til að fá heildarmyndina, þá er hér ferill sem sýnir heildarhafísinn samtals á norður- og suðurhveli, hafísinn á norðurhveli og hafísinn á suðurhveli. Ferillinn nær að nóvember 2011.

Dökkblái ferillinn er mánaðagildi. Rauði ferillinn er 13 mánaða meðaltal.  Græna lárétta línan er eingöngu til viðmiðunar fyrir augað...

seaice.jpg

Myndin er fengin að láni hér www.climate4you.com/SeaIce.htm, en skýringum var bætt inn á hana. Undir myndinni stendur eftirfarandi:

Graphs showing monthly Antarctic, Arctic and global sea ice extent since November 1978. The area covered by sea ice is defined as having at least 15% sea ice cover. Blue lines show monthly values, and red lines show the simple running 13 month average. Data kindly provided by the National Snow and Ice Data Center (NSIDC). Last month shown: November 2011. Latest diagram update: 8 December 2011.

 

 Svo er hér að lokum lifandi ferill frá Dönsku veðurstofunniHér er það sveri svarti ferlillinn sem byrjar vinstra megin sem áhugavert er að fylgjast með:http://ocean.dmi.dk/arctic/plots/icecover/icecover_current.png

 

 

Og svo enn einn lifandi ferill, nú frá National Snow and Ice Data Center (NSIDC).   Takið eftir hvernig blái ferillinn er kominn vel upp fyrir strikaða græna ferilinn, þétt að gilda gráa ferlinum sem sýnir meðaltal áranna 1979-2000.

 

 

Að lokum, hvað segir þetta okkur?  Svosem ekki neitt...   Við höfum ekki neinar áhyggjur af landsins forna frænda meðan hann gerist ekki nærgöngull. Sumir hafa reyndar meiri áhuga á útbreiðslunni í sumarlok, og eru þá með hugann við mögulega opnun siglingaleiða um norðurslóðir.

 

 

 


Ný sólblettaspá Dr. Hathaway hjá NASA...

 

 

ssn_predict_l-march_2011_1143354.gif

 

Í byrjun mars birtist á vefsíðunni NASA/Marshall Solar Physics ný spá. Í inngangi stendur:

"The current prediction for Sunspot Cycle 24 gives a smoothed sunspot number maximum of about 59 in early 2013. We are currently over three years into Cycle 24. The current predicted size makes this the smallest sunspot cycle in about 100 years".

Hér er því sem sagt spáð að sólsveiflan sem nú stendur yfir verði sú minnsta í 100 ár, og að hámarkis sólblettatalan verði aðeins 59.

Sjá nánar á vefsíðunni: http://solarscience.msfc.nasa.gov/predict.shtml   Myndin hér að ofan sést með því að smella á litlu myndina á síðunni. Á myndinni sést að verulegur munur er á síðustu sólsveiflu (#23) og núverandi (#24).

---

Ef fylgst er með breytingum frá degi til dags sést að eitthvað á blessuð sólin erfitt þessa dagana. Það er neðsti ferillinn sem við höfum áhuga á. Hann er uppfærður daglega:

 

Smellið hér til að sjá stærri mynd. Ef við teldum okkur ekki vita betur, þá gætum við fallið í þá freistni að telja að sólblettahámarkinu sé þegar náð. Vonandi nær sólin sér á strik innan skamms...   

Myndin er frá Leif Svalgaard.

 




Örstutt frétt af heilsufari sólarinnar...

 

 

 sunspots_feb_2012.jpg


Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan, þá hefur sólblettatalan fallið hratt þrjá mánuði í röð. Síðasti punkturinn er fyrir febrúarmánuð, en nú í mars sáust margir sólblossar með tilheyrandi norðurljósum, svo að líklegt er að ferillinn rísi aftur eitthvað næst þegar hann verður birtur. (Sjá mynd neðst á síðunni). Sólbletturinn sem stóð fyrir þessari sýningu er nú horfinn bak við sólina.

Myndin er fengin hér: http://www.swpc.noaa.gov/SolarCycle.

Á næstu mynd sjáum við hvernig sólin hefur hagað sér síðastliðna hálfa öld, og má sjá dýfuna undanfarið lengst til hægri.

 

Sólsveiflur
 
Myndin er fengin hér:  http://sidc.oma.be/sunspot-index-graphics/sidc_graphics.php


Næsta myndi sýnir svo segultruflanir, eða AP vísinn (Ap index).  Eins og sjá má þá hefur ferillinn verið á niðurleið undanfarinn áratug.

 

 

Ap index
 
  Myndin er fengin hér: http://www.swpc.noaa.gov/SolarCycle.
 
 
 
 

 

Hér að ofan má sjá mynd sem uppfærð er daglega. Myndin hér ætti einnig að gera það. Á myndinni má sjá að nú í mars hefur ferillinn stigið aðeins, en síðan fallið örlítið aftur.

Mynd í fullri stærð:  http://www.leif.org/research/TSI-SORCE-2008-now.png

Mynd í meiri upplausn: http://www.leif.org/research/TSI-SORCE-Latest.png

Myndin er fengin að láni úr geymslu Dr. Leif Svalgaard hjá Stanford háskóla, en Leifur er danskrar ættar.

 


 

 

Norðurljósaspá

 


Sólgosin og norðurljósin undanfarið...

 

 

 

 solblossi.jpg

 

 

Fréttir af sólblossanum mikla hafa sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum. Í framhaldinu urðu miklar segultruflanir og falleg norðurljós sáust víða um heim. Reyndar var blossinn ekki einn, heldur sex mis öflugir, og sást sá næstsíðasti snemma í gærmorgun 9. mars, og annar í dag 10. mars.  Frá sólblossanum berst kórónuskvetturnar með ógnarhraða og munu þær skella á jörðinni 11. mars um klukkan 7 að morgni (+/- 7 klukkustundir), og síðan 12. mars um klukkan 18. Það er mikið að gerast í sólblettinum AR1429!

3spaceweather-jonina3.jpgÁ hinni þekktu vefsíðu SpaceWeather.com prýddi mynd Jónínu Óskarsdóttur forsíðuna, en myndina tók hún á Fáskrúðsfirði. Mynd af síðunni, eins og hún leit út 9. mars, er hér til hliðar og má sjá hana betur með því að smella tvisvar á hana.

Því miður var að mestu skýjað á höfuðborgarsvæðinu og spáin fyrir næstu nætur ekki mjög hagstæð. Það er þó hægt að fylgjast nmeð segulstorminum á vefsíðu sem heitir því ófrumlega nafni Norðurljósaspá og má skoða hér. Þar er fjöldinn allur af beintengdum myndum sem nota má til að átta sig á því hvort norðurljós séu sýnileg eða hvort líkur séu á því að þau sjáist.

Hin frábæra og víðfræga mynd Jónínu  minnir pistlahöfund á fallega norðurljósakórónu sem birtist einn sinn skömmu fyrir eitt geimskot franskra vísindamanna sem skutu upp fjórum Dragon geimflaugum í 400 kílómetra hæð frá Mýrdalssandi og Skógasandi. Það var árin 1964 og 1965. Myndir og lýsingu af geimskotunum má sjá hér.

Svona sólblossar eru yfirleitt meinlausir, en þeir geta verið skæðir. Árið 1859 urðu menn varir við gríðarlega öflugan sólblossa sem kenndur er við Carrington. Þá var tæknin enn frekar frumstæð svo menn sluppu með skrekkinn, en í dag er næsta víst að afleiðingarnar hefðu orðið alvarlegar.  Svona "Carrington" sólblossi á næstum örugglega eftir að valda usla á jörðinni, en það er nánast bara spurning um hvenær. Fjallað hefur verið um málið í bloggpistlum, t.d. hér.

Lesið um sólblett AR1429 og mynd Jónínu á Universe Today.

 

 

 

 Einstaklega fallegt myndaband af norðurljósum:

 

 

 

Hlustið á höggbylgjurnar brjótast út frá sólinni með því að smella hér.

Thomas Ashcraft náði þessum hljóðum með því að hlusta á tíðnisviðum radíóamatöra, 21MHz og 28MHz.



 

 

 

 


mbl.is Augu heimsins á mynd frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkís hlýtur Gullmerki jafnlaunakönnunar PwC...

 

 

Verkís 80 ára

 

 

Verkís er fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem hlýtur Gullmerki í Jafnlaunaúttekt PwC.  Þessi úttekt greinir kynbundinn launamun innan fyrirtækja og metur hvort fyrirtæki greiði báðum kynjum sömu laun fyrir sambærileg störf.

Verkís fékk engar athugasemdir við úttektina og þurfti ekki að gera neinar úrbætur eða breytingar til þess að hljóta Gullmerkið.
 
GullmerkiJafnlaunaúttektin greinir upplýsingar úr launakerfum fyrirtækja samkvæmt viðurkenndri aðferðafræði og veitir upplýsingar um raunverulegan launamun kynjanna þegar tekið hefur verið tillit til þeirra þátta sem mest hafa áhrif á laun, s.s. menntunar, starfsaldurs, starfaflokks og vinnustunda. Til að hljóta Gullmerkið þurfa fyrirtæki að hafa 3,5% eða minni launamun en Verkís var með um 2% launamun sem er ekki skýrður með þeim þáttum sem hafa helst áhrif á laun. Þetta er langlægsta hlutfall sem PwC hefur séð hér á landi. Í niðurstöðum skýrslunnar er hlutfallið hjá Verkís talið óverulegt og ekki hægt að greina að Verkís sé að greiða kynjunum meðvitað mismunandi laun fyrir sambærileg störf.
 

 „Við erum mjög stolt af því að vera fyrsta fyrirtækið til að hljóta Gullmerkið og lítum á það sem viðurkenningu á þeirri jafnréttishugsun sem er hluti af menningu Verkís og endurspeglar gildi fyrirtækisins“, segir Sveinn Ingi Ólafsson framkvæmdastjóri.

 

 

VERKÍS er öflugt og framsækið ráðgjafarfyrirtæki sem býður fyrsta flokks þjónustu á öllum sviðum verkfræði.

Verkís rekur uppruna sinn til ársins 1932 og er því elsta verkfræðistofa landsins. Áratuga reynsla og þekking skilar sér í traustri og faglegri ráðgjöf og fjölbreyttum lausnum.

Hjá Verkís starfa yfir 300 starfsmenn að fjölbreyttum verkefnum á Íslandi og erlendis. Verkís leggur áherslu á að veita vandaða og faglega þjónustu sem er samkeppnisfær við það sem best þekkist í heiminum.


 www.Verkís.is

 

 


Krúttlegir knattspyrnumenn - Myndband...

 

 

...Eða eru þetta krúttlegar knattspyrnukonur? 
Það skiptir kannski ekki máli, því konur eru líka menn...

...En eru þetta menn, eða kannski bara vélmenni?

Hvað sem því líður þá eru þeir mannlegir og
erfitt að verjast hlátri þegar fylgst er með tilburðum þeirra.
LoL

 

Verða knattspyrnuhetjur framtíðarinnar svona?

 

 

 

 

Hvernig er þetta gert? 

 

 

 

 

 

 

upenn_engineering_1.jpg
 
 

 http://www.seas.upenn.edu

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 100
  • Frá upphafi: 762566

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband