Um síðustu helgi skrapp ég upp á Haukadalsheiði og tók nokkrar myndir af Alaskalúpínunni þar. Haukadalsheiði er fáeina kílómetra fyrir norðan Geysi.
Lúpínan er jurt sem margir hrífast af. Hún er með eindæmum duglegur landnemi á hrjóstrugu landi og hentar vel til að græða upp örfoka mela eins og á Haukadalsheiði.
Á Haukadalsheiði var áður fyrr gróið land og jafnvel skógi vaxið eins og allnokkrar
kolagrafir sem
fundist hafa bera vitni um, svo og stöku rofabörð sem gnæfa mannhæð upp úr örfoka melunum. Allt þetta land hefur nú fokið burt vegna þess að menn eyddu skóginum og ofbeittu landið. Köld ár Litlu ísaldarinnar svokölluðu hafa sjálfsagt ráðið úrslitum.
Fyrir nokkrum áratugum mátti sjá gríðarlegt moldrok leggjast yfir uppsveitirnar í norðanátt, en sem betur fer hefur það minnkað mjög verulega, en það er fyrst og fremst að þakka Lúpínunni. Vissulega hefur melgresi einnig verið sáð, duglegir menn og konur hafa stungið niður þau fáu rofabörð sem eftir eru, og flutt gamalt hey á melana til að reyna að hefta sandfokið, en án Lúpínunnar er lítil von til þess að snúa megi vörn í sókn.
Að koma á Haukadalsheiði meðan lúpínan er í blóma er mikil upplifun. Maður fyllist bjartsýni og von. Ég man vel eftir því hvernig heiðin leit út fyrir hálfri öld. Þvílíkur munur :-)
Vissulega sjá sumir rautt þegar þeir horfa yfir fagurbláar lúpínubreiðurnar og fyllast hatri gagnvart þessari einstöku jurt. Það þykir þeim sem þessar línur ritar mjög undarlegt og finnur til með þeim sem þannig hugsa. Vissulega er hún ágeng og á ekki heima alls staðar. En illgresi er hún ekki. Hún er dugleg og eiginlega eina vopn okkar í baráttunni við uppblásturinn. Við verðum þó að nota hana rétt og ekki dreifa hvar sem er.
Hvað er það sem gerir Lúpínuna svona einstaka? Lúpínan er belgjurt eins og til dæmis Baunagras og Hvítsmári. Hún hefur rótarhnýðisbakteríur sem vinna nitur (köfnunarefni) úr andrúmsloftinu, og geta jafnvel losað um bundinn fosfór í jarðveginum. Bæði þessi efni eru áburður fyrir Lúpínuna og aðrar plöntur sem vaxa á sama stað. Lúpínan hefur því eins og aðrar belgjurtir innbyggða áburðarverksmiðju í rótarkerfinu. Rætur liggja djúpt og sinumyndun er mikil, þannig að á undaraskömmum tíma breytist ófrjósamur örfoka jarðvegur í frjósamt land.
Eftir allnokkra áratugi fer Lúpínan síðan smátt og smátt að hörfa og annar gróður sem nýtur góðs af frjósömum jarðveginum kemur í staðinn. Einfaldasta ráðið til að flýta þessu ferli er hæfileg beit. Þannig má nýta þjóðarblómið til að framleiaða gómsætar kótilettur, þegar það hefur unnið sitt verk við að græða upp landið. Ekki amaleg tilhugsun...
(Stækka má myndir með því að tvísmella á þær).
Lúpínan hefur unnið kraftaverk á Haukadalsheiði.
Smám saman vinnur blessuð lúpínan á.
Hér má glöggt sjá hve mikið hefur fokið burt. Rofabarðið er sjálfsagt rúmlega mannhæð. Fyrst og fremst er þetta afleiðing ofbeitar.
Hér stendur uppi eitt rofabarð eins og minnismerki um forna frægð.
Þessi bleika Lúpína skar sig úr. Vildi víst vera öðruvísi en hinar.
Eru þær ekki fallegar?
Nei, þessi mynd er ekki frá Tunglinu :-) Myndina tók skrásetjarinn fyrir hálfri öld á Haukadalsheiði, þ.e. árið 1960 þegar hann vann við að planta skógi þar örlítið sunnar. Þá var Haukadalsheiðin eyðimörk. Nú er hún að vakna til lífsins aftur. Þökk sé Lúpínunni og dugnaði Tungnamanna.
Það er erfitt að ímynda sér að hér hafi land eitt sinn verið skógi vaxið.
Er virkilega einhver sem vill að landið líti svona út?
Kvæði eftir Margréti Guðjónsdóttur í Dalsmynni.
Alaskalúpína er öndvegisjurt
sem ætti að lofa og prísa
en umhverfisverndarmenn vilja hana burt
og vanþóknun mikilli lýsa.
Þó gerir hún örfoka eyðisand
og urðir að frjósömum reitum
undirbýr vel okkar ágæta land
til átaka í hrjóstugum sveitum.
Hún er líka ágætur íslenskur þegn
með alveg magnaðar rætur,
í auðninni er henni ekki um megn
að annast jarðvegsins bætur.
Mestallt sumar er grænt hennar glit
þó geti það valdið fári
að hún ber himinsins heiðbláa lit
hálfan mánuð á ári.
Auðvelt er að komast á Haukadalsheiði með því að aka sem leið liggur frá Geysi um skógræktargirðinguna í Haukadal. Ekið er framhjá kirkjunni og síðan í norðurátt um mjög fallegt skóglendi. Skógurinn nær langleiðina upp á heiðina.
Krækjur:
Ný klæði á land í tötrum, eftir Hauk Ragnarsson
Vinir Lúpínunnar á Fésbók Umræður og krækjur í nýlegar greinar.
Vísindvefurinn (Sigmundur Guðbjarnason): Hvaða lækningagildi hefur lúpínan?