Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Tvær sláandi myndir af sólinni...

 

 

solblettir_2001.jpg

 

Það er ótrúlegur munur á þessum myndum. 

 

Efri myndin er tekin við sólblettahámarkið 2001.

 

Neðri myndin er tekin í dag 30. des. 2012, en sólsveiflan hefur

nánast aftur náð hámarki.

 

Hvers vegna er þessi munur?

 

Þrísmella á myndir til að sjá stærra eintak.

 

sunspots_dec_2012.jpg

 

 

 

solblettasamanburdur_des2012.gif

 

Hér er skýringin á þessum mun:

Neðsti ferillinn er núverandi sólsveifla sem er að nálgast hámark.
Rauði ferillinn er sveiflan sem var í hámarki 2001.

 

Sólvirknin fer minnkandi.

 

Sjá nýlegan pistil:

Sól ég sá, sanna dagstjörnu, drjúpa dynheimum í ---
Sólvirknin nálgast hámark sem er mun lægra en hið fyrra...

 

 


Einn áhrifamesti vísindamaður allra tíma hefði orðið 370 ára í dag - Hver er maðurinn...?

 


Newton

 


Isaac Newton fæddist á Englandi á jóladag árið 1642.  

Góð grein um Newton er á Vísindavefnum og er því óþarfi að hafa hér mörg orð um þennan merka mann sem flestir hafa heyrt eða lesið um.

Við látum nægja að óska okkur öllum til hamingju með daginn, því það er nokkuð víst að margt væri öðru vísi í dag hefði Ísak Newton ekki verið sá vísindamaður og frumkvöðull sem hann svo sannarlega var.

 

Vísindavefurinn: Hver var Sir Isaac Newton?

 

 
newton-samsett2.jpg
 
 
 

Sjónarspil á himni um jólin - og Álfadansinn...

 

 

Júpiter og tunglið á jóladag

 



 
Það sakar ekki að gjóa augum til himins að kvöldi jóladags.

Þar mun Karlinn í Tunglinu spóka sig með Júpiter sjálfum á suðaustur himninum.
 
Óríon verður skammt undan og tekur þátt í gleðskapnum ásamt Systrunum sjö.
 
Hver veit nema öll syngi þau saman Máninn hátt á himni skín, hrímfölur og grár...



 

Myndin er tekin úr tölvu-stjörnukortinu Starry Night Pro og sýnir hvernig afstaða Tunglsins og Júpiters verður klukkan 9 að kvöldi  25. desember. Máninn verður þar örskammt frá hinni björtu reikistjörnu.  Það sakar ekki að hafa með sér sjónauka, jafnvel venjulegan handsjónauka.

Nú er bara að vona að ekki verði skýjað...

Vefsíða NASA Christmas Sky Show.

 

 

 ...en þar sem við erum að fjalla um Mánann:

 

 

                                                             Álfadansinn

jon_olafsson_ritstjori.jpgNú er ekki nema vika til áramóta og allir kunna að syngja Máninn hátt á himni skín...   Hvernig varð Álfadansinn til?

Langafi minn, Jón Ólafsson ritstjóri, átti auðvelt með að yrkja og var fljótur að því. Eftirfarandi birtist í Iðunni - Tímarit til skemmtunar, nytsemdar og fróðleiks árið 1916 sem lesa má hér. Umfjöllunin um Jón Ólafsson hefst á blaðsíðu 82.

 

 

Eftirfarandi úrklippa er frá blaðsíðum 84-85, en þar er fjallað um Álfadansinn:

 

"... Piltar léku þá oft sjónleika um miðsvetrarleytið
og höfðu það til siðs að syngja eitthvert ný-ort kvæði
undan leiknum. í þetta sinn (1873) höfðu þeir fengið
loforð hjá Jóni um að yrkja kvæðið, en hann var
þá á einhverju slarki, og svo rann upp dagurinn,
að ekki fengu þeir kvæðið. Kristján Eldjárn og annar
maður til fóru þá heim til Jóns kl. 2 um daginn,
en hann bjó þá eins og síðar á horninu á Laugavegi
og Skólavörðustíg.

Þegar þeir koma inn til Jóns,
sefur hann svefni hinna réttlátu. Kristján veður þá
að honum, dregur hann harkalega fram á rúmstokk-
inn og heimtar af honum kvæðið; en Jón hafði
ekkert kvæði ort. Lofar samt að gera það svo tíman-
lega, að þeir geti sungið það um kvöldið, og það varð:


          Halló, halló!
     Á bylgjandi bárum
     nú beitið ei árum,
     en seglið pér greiðið,
     því gott er nú leiðið
og látum nú klofinn hinn löðrandi sjó,
því leiðið er inndælt. Halló!


-

Annað kvæði, sem Jón var að eins eina »matmáls-
stund« að yrkja, var hið þjóðkunna kvæði »Máninn
hátt á himni skín«
. Þeir höfðu komið sér saman um
það ungir mentamenn í bænum, ég held að undirlagi
Valdemars Briems, að halda álfadans á gamla-árs-
kvöld 1871.

Verkum var þannig skift niður, að Ólafur
sá, sem nefndur var »HvítaskáId« í skóla, síðar
prestur  að Ríp,   skyldi yrkja upphafskvæðið,   er álf-
arnir komu á svellið, Jón Ólafsson sjálfan álfadans-
inn og Valdemar Briem um brautförina af svellinu.

Jón varð hugfanginn af hugmyndinni og gekk um
kvöldið heim með Eiríki Briem, sem þá bjó í Hjalte-
steðshúsi. Þar var matur á borðum, hangikjöt og
annað góðgæti og bauð Eiríkur Jóni að borða. Sett-
ust þeir niður sinn hvoru megin við borðið, en Jón
sinti ekki matnum, heldur tók að yrkja, og það stóð
heima, þegar Eiríkur var búinn að borða, hafði Jón
lokið kvæðinu. Daginn eftir kom Valdemar Briem
svo sínu kvæði á hann líka, og hann var eittkvað
álíka fljótur að yrkja það..."

 

- - -


Álfadansinn  (Eins og hann birtist í Þjóðólfi 23. janúar 1872):

 

BLYSFARARDANS
[Sungið við „Álfadansinn" á Reykjavíkurtjörn (— með
færeyska Vikivaka-laginu: „Góða skemtan gjöra skal þars eg
geng í dans),  —   í blysför eðr við  blysburð   stúdenta og
skólapilta á gamlárskvöld 31. Desember 1871].

 

1.  Máninn hátt á himni skín
            hrímfölr og grár.
     Líf og tími Iíður,
           og liðið er nú ár.


K ó r : Bregðum blysum á lopt
           bleika lýsum grund;
           glottir tungl, en hrín við hrönn,
           og hraðfleig er stund.


2.  Kyndla vora hefjum hátt,
           horfið kveðjum ár.
     Dátt vér dansinn stigum,
           dunar ísinn grár.


Bregðum blysum á lopt o. s. frv.


3.  Nú er veðr næsta frítt
           nóttin er svo blíð.
     Blaktir blys í vindi,
           blaktir líf í tíð.


Bregðum blysum á lopt o. s. frv.


4.  Komi hver sem koma vill,
           komdu nyja ár.
     Dönsum dátt á svelli,
           dunar ísinn blár.


Bregðum blysum á lopt o. s. frv.


5. Færðu unað, yndi' og heill
           öllum vættum lands.
     Stutt er stund að líða,
           stígum þétt vorn dans.


Bregðum blysum á lopt o.s.frv.


6. Færðu bónda' í búið sitt
           björg og heyja-gnótt.
     Ljós í lopti blika,
           líðr fram á nótt.


Bregðum blysum á lopt o.s.frv.


7. Gæfðir veittu', en flýi frost,
           fiskinn rektu' á mið.
     Dunar dátt á svelli,
           dansinn stígum við.


Bregðum blysum á lopt O.s.frv.


8. Framför efldu, fjör og líf
           færðu til vors lands.
     Stutt er stund að líða,
           stígum þétt vorn dans.


Bregðum blysum á lopt o.s.frv.


9. Máninn hátt á himni skín
           hrímfölr og grár.
     Líf og tími líður,
           og liðið er nú ár.


           Bregðum blysum á lopt
           bleika lýsum grund.
           Glottir tungl, en hrín við hrönn
           og horfin er stund.

 

Jón var fæddur 1850 og því 21 árs þegar hann orti Álfadansinn eða Blysfarardansinn skömmu fyrir gamlársdag 1871.

 

 

 

Gleðileg  jól !

 
 

tungl.jpg

 

 

Hrímfölur og grár...

Gleymið ekki Tunglinu og Júpiter á jóladagskvöld.

Svona verður afstaðan um miðnætti.

Reynið að koma auga á tungl Júpiters með sjónauka!



Sól ég sá, sanna dagstjörnu, drjúpa dynheimum í --- Sólvirknin nálgast hámark sem er mun lægra en hið fyrra...

 

 



solarlag_des2012.jpg


Sól ég sá, sanna dagstjörnu, drjúpa dynheimum í...  Þannig byrjar eitt erindið af 83 í hinum fornu Sólarljóðum sem komu mér í hug fyrir skömmu þegar ég sá myndina sem myndavélin mín fangaði í uppsveitunum fyrir fáeinum dögum. Sólarljóðin eru eftir óþekktan höfund líklega frá því nokkru eftir árið 1200, en ljósop myndavélarinnar myndaði þessa fallegu stjörnu og bjó óbeðið til þessa fallegu sólargeisla.

Í dag á vetrarsólstöðum er sólin lægst á lofti. Hún rétt nær því að komast um 3 gráður yfir sjóndeildarhringinn á höfuðborgarsvæðinu um hádegisbil. Skammdegið er í hámarki, en á morgun fer daginn að lengja aftur, fyrst um eitt hænufet og síðan um tvö, og svo skref fyrir skref...

Í þessum sólarpistli er fjallað um fortíð, nútíð og framtíð...

Hin sanna dagstjarna, sólin, sem við búum í nábýli við og veitir okkur birtu og yl, er svokölluð breytistjarna. Við verðum ekki vör við það dags daglega, en þegar grannt er skoðað sjáum við að ásjóna hennar breytist nokkuð reglulega. Hún kætist og verður freknótt og spræk með um 11 ára millibili, og þá prýða sólblettir ásjónu hennar. Þess á milli hverfa blettirnir og sólin verður ekki eins virk. Með mælitækjum má sjá að birtan frá sólinni breytist örlítið á þessu tímabili, ekki mikið, en nóg til þess að hægt sé að nefna hana breytistjörnu eða "variable star".

Það er ekki nóg með að sólin breytist með svonefndri 11 ára sveiflu, heldur má greina lengri sveiflur, 90 ára, 200 ára, o.s.frv.  Það veldur því að fjöldi sólbletta í hámarki 11-ára sveiflunnar er breytilegur. Stundum stundum er sólblettatalan vel á annað hundað, stundum minna en hundrað og jafnvel hefur komið fyrir að nánast engir sólblettir hafa sést. Svo eru sveiflurnar mislangar, síðasta sólsveifla var óvenju löng eða 12,6 ár.

Við erum nú að nálgast hámark 11-ára sólsveiflu sem hefur raðnúmerið 24. David Hathaway hjá NASA gefur reglulega út spádóma þar sem hann reynir að spá fyrir um hæð sólsveiflunnar. Nú er hámarkinu næstum náð eins og sjá má á fallegu myndinni hér fyrir neðan sem fylgir nýjustu spá hans:

 

hathaway_sunspot_prediction_dec2012.gif

 

Eins og sjá má myndinni hér fyrir ofan, þá stefnir sólvirknin í hámark "11-ára sólsveiflunnar" á allra næstu mánuðum.   Sólblettatalan verður nú um 70 en var um 120 við síðasta hámark.  Það er töluverður munur, en það getur verið fróðlegt að bera þessa sólblettatölu við fyrri sólsveiflur.

 

 

sidc_dailysunspotnumbersince1900.gif

Hér sjáum við sólsveiflur aftur til ársins 1900 og blasir þá við að núverandi sólsveifla ætlar að verða sú veikasta í 100 ár. Aðeins sólsveiflan sem var í hámarki um það bil 1905 var lægri.

 

 

600px-solar_cycle.gif

 

Hér sjáum við sólsveiflur aftur til ársins 1600 er menn byrjuðu reglubundið að fylgjast með sólblettum, reyndar ekki kerfisbundið fyrr en síðar. Það var einmitt fyrir rúmum 400 árum þegar Galileo Galilei beindi sjónauka sínum til himins sem menn fóru að fylgjast með hinum furðulegu sólblettum af áhuga. Sólsveiflu 24, sem nú nálgast hámark, vantar á myndina.

En hvað gerist á tímabilinu 1650 til 1700, sjást engir sólblettir þá? Þeir voru víst sárafáir sem prýddu ásjónu sólar þá. Sólblettalausa tímabilið nefnist Maunder Minimum, eða Maunder lágmarkið í virkni sólar og er kennt við stjörnufræðinginn Edward Walter Maunder sem rannsakaði þetta tímabil, en af einhverjum ástæðum fellur það saman við kaldasta tímabil Litlu Ísaldarinnar. Þetta tímabil hefur einnig það virðulega nafn Grand Minimum.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá annað lítið virkt tímabil við sólsveiflur 5 og 6, en það kallast Dalton lágmarkið, en þá var líka af einhverjum ástæðum frekar svalt.  Við tökum einnig eftir að sólsveiflan sem var í hámarki 1905 og minnst var á fyrr í pistlinum hefur raðnúmerið 14.

Nú vaknar auðvitað áleitin spurning; heldur sólvirknin áfram að minnka? Er hætta á að sólvirknin stefni í annað Grand Minimum á næstu árum? Enginn veit neitt um það, en vísindamenn reyna auðvitað að sjá lengra en nef þeirra nær.

 

 

livingston_and_penn.png

Efri myndin: Birta sólbletta hefur farið vaxandi undanfarin ár. Þeir verða því ekki eins svartir og hverfa síðan að mestu ef heldur fram sem horfir.


Neðri myndin: Styrkur segulsiðs innan sólbletta hefur farið lækkand.

 

Myndin hér að ofan er fengin úr grein tveggja vísindamanna þeirra Livingston og Penn, sjá tilvísun í greinar neðst á síðunni. Reyndar er þetta uppfærð mynd sem inniheldur nýjustu mælingar, allt til þessa dags.  Þeir hafa um árabil fylgst með sólinni á óvenjulegan hátt. Þeir hafa nefnilega verið að fylgjast með því hvernig birta sólblettanna breytist með tímanum, svo og styrkur segulsviðsins inni í þeim. Það er auðvitað tiltölulega einfalt að mæla birtuna, en til þess að mæla segulsviðið hafa þeir notað svokölluð Zeeman hrif sem valda því að litrófslínur klofna í fleiri línur í segulsviði.

Á neðri myndinni sjáum við hvernig styrkur segulsviðsins í sólblettunum hefur farið minnkandi. Þeim félögum Livingston og Penn reiknast til, að þegar styrkurinn er kominn niður í 1500 Gauss að þá verði birtuskilin (contrast) milli sólblettanna og umhverfis þeirra orðinn svo lítil að blettirnir verða ósýnilegir og munu því hverfa sjónum okkar að mestu meðan þetta ástand varir. Er nýtt Grand Minimum á næsta leiti?  Daufa bláa línan sem sker lóðrétta ásinn við 1500 Gauss sýnir okkur þessi mörk og línan sem hallar niður til hægri sýnir okkur hver tilhneigingin er í dag.

Ef fram heldur sem horfir, þá munu þessar linur skerast eftir  fáein ár. Lesendur geta reynt að finna út hvenær það verður...

Auðvitað er ekki víst að ferillinn sem sýnir styrk segulsviðsins inni í sólblettunum haldi áfram að falla, en líklegt má telja að næsta sólsveifla, sólsveifla númer 25, muni verða öllu lægri en núverandi sem er sú lægsta í yfir 100 ár.

 

sunspots_earth_size_big-486w.jpg

 

                                                Sólblettur getur verið gríðarstór

 

Þessi minnkandi virkni sólar mun þó gefa okkur kærkomið tækifæri til að meta áhrif sólar á  hitafar jarðar. Ef þau áhrif eru óveruleg þá mun halda áfram að hlýna með auknum styrk koltvísýrings í loftinu, en hætti að hlýna og fari síðan að kólna...   -  Við Frónbúar skulum bara vona að ekki kólni, því það yrði fæstum okkar hér á klakanum kærkomið.

 

Hvað um það, hátíð fer í hönd og því tilefni til að enda þennan Sólarpistil á þeim hluta hinna merku  Sólarljóða sem ljóðin eru kennd við. Þetta eru erindi númer 39-45 af 83:

 

 





...

Sól ek sá,
sanna dagstjörnu,
drúpa dynheimum í;
en Heljar grind
heyrðak ek á annan veg
þjóta þungliga.

Sól ek sá
setta dreyrstöfum;
mjök var ek þá ór heimi hallr;
máttug hon leizk
á marga vegu
frá því sem fyrri var.

Sól ek sá,
svá þótti mér,
sem ek sæja göfgan guð;
henni ek laut
hinzta sinni
aldaheimi í.

Sól ek sá,
svá hon geislaði,
at ek þóttumk vættki vita;
en gylfar straumar
grenjuðu annan veg,
blandnir mjök við blóð.

Sól ek sá
á sjónum skjálfandi,
hræðslufullr ok hnipinn;
því at hjarta mitt
var harðla mjök
runnit sundr í sega.

Sól ek sá
sjaldan hryggvari;
mjök var ek þá ór heimi hallr;
tunga mín
var til trés metin,
ok kólnat at fyrir utan.

Sól ek sá
síðan aldregi
eftir þann dapra dag,
því at fjalla vötn
lukðusk fyrir mér saman,
en ek hvarf kallaðr frá kvölum.

...

 

Sólarljóð eru talin vera frá tímabilinu 1200-1250. Höfundur er óþekktur. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar stendur: „Sæmundur andaðist 1133, en með hverjum atburðum höfum vér eigi heyrt; þó segja menn, að hann þrídagaður hafi úr líkrekkjunni risið og þá kveðið þá drápu, er hans Ljóða-Eddu er vön að fylgja og kallast Sólarljóð".  Þessu  trúum við rétt mátulega, en þjóðsagan ekki verri fyrir það.

Í Sólarljóðum  birtist kristinn og heiðinn hugarheimur og þar birtist faðir syni sínum í draumi og ávarpar hann frá öðrum heimi.

Sólarljóð má t.d. lesa hér ásamt enskri þýðingu sem Benjamin Thorpe gerði 1866. Tilvísanir í þýðingar á önnur tungumál má finna hér.

Það er vel þess virði að lesa Sólarljóð í heild sinni.  

 

 
 
 
jkort2.jpg
 
 
 
 
 
Krækjur:
 
 
 
 
Livingston & Penn: Sunspots may vanish by 2015
 

Dr. Leif Svalgaard (fyrirlestur): Livingston & Penn Data and Findings so Far
 
 
 
 
 
 
 
 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

NASA fjallar um væntanlegan heimsendi - Myndband...

 

 

heimsendir-620.jpg

 

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum
að heimurinn á að farast á vetrarsólstöðum í ár.

En er það ekki bara bull?

NASA hefur séð ástæðu til að gera myndband um málið.

 

 


 

 

Vefsíða NASA um heimsendinn: 

Why the World Didn't End Yesterday

 

 

 

 - - -

Hér er vefsíða fyrir þá sem trúa á heimsendi:

www.december212012.com

 


Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.12.): 10
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 764727

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband