Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Hvers vegna er hlaupár?

LeapYearBall_1884_LondonNews-BAp, jún, sept, nóv þrjátíu hver,
einn til hinir kjósa sér.
Febrúar tvenna fjórtán ber
frekar einn þá hlaupár er.

Hlaupár er það kallað þegar almanaksárið er einum degi lengra en venjulegt ár, þ.e. 366 dagar en ekki 365. Tilgangurinn er að samræma lengd almanaksársins og árstíðaársins, sem ræðst af gangi jarðar um sólu. Almanaksárið er að meðaltali 365 dagar 5 stundir 49 mínútur og 12 sekúndur eftir þessa leiðréttingu.

Í svokölluðum nýja stíl (gregoríanska tímatalinu) er hlaupár þegar talan fjórir gengur upp í ártalinu. Undanskilin reglunni eru aldamótaár, en þau eru ekki hlaupár nema talan 400 gangi upp í ártalinu.

Gregoríanska tímatalið eða "nýi stíll" er kennt við Gregoríus páfa 13. sem innleiddi það í Róm árið 1582.

Heitið hlaupár er talið dregið af því að margir merkisdagar í árinu eftir hlaupársdag hlaupa yfir einn vikudag.

Rætur hlaupársdagsins er hægt að rekja til ársins 46. f. Kr.  Í Bókinni Saga daganna eftir Árna Björnsson kemur fram að hlaupársdagurinn hjá Rómverjum var “...eiginlega 24. febrúar, því honum var skotið inn daginn eftir vorhátíð sem nefndist Terminalia. Eins og nafnið bendir til var þetta einskonar missiraskiptahátíð og að vissu leyti sambærileg við sumardaginn fyrsta hjá okkur. Munurinn er sá að Rómverjar virðast á ákveðnu skeiði hafa skipt árinu í þrennt. Var gömul venja að rétta tímatalið af með innskotum á þessum tíma, í lok vetrartímabilsins, og því þótti þeim Sesari eðlilegast að hlaupársdagurinn fengi þar inni” (bls 520)

Hvernig ætli það sé að vera fæddur á hlaupársdegi og eiga bara afmæli fjórða hvert ár? Halo

Hver er höfundur vísunnar góðu sem allir kunna  "Ap, jún, sept, nóv þrjátíu hver..." ? Errm

Næsti hlaupársdagur verður ekki fyrr en árið 2012. Njótum því dagsins í dag vel. Wizard

 

jcaesar_coin

 

Júlíus Cesar kom á hlaupárdsdegi 24. febrúar árið 46 f.Kr.

Lífrænir OLED flatskjáir eru betri en LCD og Plasma!

113193Allir þekkja flatskjána vinsælu, ýmist Plasma eða LCD. Þeir þykja ofur glæsilegir, enda ekki nema nokkrir sentímetrar á þykkt. Getur verið að þeir séu að vera úreltir? Líklega.

Ný tækni er að ryðja sér til rúms. Í skjáinn eru notaðar "lífrænar" ljósdíóður  svokallaða OLED = Organic Light Emitting Diode. Sjónvörp sem nota þessa tækni kallast því OLED-TV, eða "sjónvörp með lífrænum ljósdíóðum".

Kostir: Lítil til aflnotkun, björt mynd, kontrast-hlutfall 1.000.000 : 1, (1000 sinnum meira en LCD), og sjónarhorn er miklu víðara en á venjulegum flatskjám. Þeir eru næfurþunnir, svo þunnir að jafnvel má rúlla þeim upp, eins og sjá má á myndinni. Þeir eru um 10 sinnum þynnri en hefðbundnir flatskjár, þ.e. þegar þeir eru komnir bak við gler í ramma.  Upplausn á að geta verið þrefalt betri en á LCD skjám, þeir eru hraðvirkari og þeir eru ódýrari í framleiðslu. 

flex1Líftími OLED hefur verið vandamál, en nú eru menn vonandi að ná tökum á því. Þess vegna megum við búast við að sjá þessa nýju tækni bráðlega í farsímum, fartölvum og næfurþunnum sjónvörpum. Á sýningunni International CES 2008 mátti sjá nokkra raunverulega flatskjái sem frumgerðir (sjá myndskeið hér fyrir neðan) sem fara vonandi í framleiðslu innan skamms.

Mun bók framtíðarinnar líta út eins og á myndinni hér til hliðar? OLED skjánum er rúllað af hólknum sem inniheldur þúsundir bókatitla í minni sínu? Papyrus kefli Egypta hinna fornu koma óneitanlega í hugann... Þau voru vissulega lífræn Wink

 

Nú er það spurning. Er rétt að bíða? Eitt er víst, OLED sjónvörp eru að koma á markaðinn. Sjálfsagt líða fáein ár þar til verðið verður samkeppnishæft við LCD  skjái, en tíminn er undur fljótur að líða. Gefum okkur 5 ár þar til þau koma á markaðinn í ýmsum stærðum og önnur 5 þar til þau verða ódýrari en þau sem við þekkjum í dag....

Gamla feita góða Grundig 28" sjónvarp bloggarans verður látið duga þar til OLED verður komið á markaðinn og verðið viðráðanlegt.... 

Við lifum svo sannarlega á spennandi tímum. Lífræn sjónvörp, sem eru miklu betri en LCD og Plasma, verða stöðutáknið innan fárra ára ... Smile

 

Hér er tækninni lýst.


123
 
27" flatskjárinn er ekki nema 3 mm á þykkt! Frá sýningunni CES 2008.
 
 
 
 
Cnet júní 2007 (spáir 3-6 ára bið): Should you wait for an OLED TV? 
 
 
 

Stjórnklefinn í Airbus A380 og Batman

 

 Skrifstofan í Airbus A380 er hlaðin tölvubúnaði. En hvar eru hefðbundnu stjórntækin?
 

Í þessum pistli eru borin saman tvenns konar flug, flug með einni fullkomnustur flugvél nútíamns og  flug nútíma mannlegra leðurblaka, svokallaðra mannblaka ........ W00t

Í Airbus A380 notar flugmaðurinn stýripinnann til að senda boð til stjórntölvunnar. Tölvan metur boðin og sendir skeyti til útstöðva sem eru í vængjum og stéli. Þaðan fara svo boðin til rafmótora sem framkvæma þær hreyfingar á vængbörðum sem tölvan ákveður með hliðsjón af óskum flugmannsins. Það er sem sagt tölvan sem flýgur flugvélinni.

Á bernskudögum Airbus áttu þær til að taka völdin af flugmönnunum og reyna loftfimleika.  Flugmennirnir voru þá nánst bara áhorfendur og sáu jafnvel stýripinnann og bensíngjöfina hreyfast eins og ósýnileg hendi héldi þar um.  Svo segir sagan, en er hún sönn? Þetta eiginlega ekki flugvél heldur flugtölva.  Þetta er víst framtíðin. Öllu stjórnað af gervigreind með silikon heilum í tölvum, og silikon fylltar flugfreyjur, eða silikonur, stjana við okkur farþegana. Ætli það sé langt þar til stjórnklefinn verður mannlaus?  ...  "This is your pilot speaking. My name is IBM ..."


 

Algjör andstaða við þennan tölvuvædda stjórnklefa er flug mannblakana Devil sem Ragnar Ágústsson kallar svo á bloggsíðu sinni, og er þá líklega með leðurblökur í huga.  Þessir menn geta varla verið með fullum fimm, eða hvað finnst þér? Úff...Pinch






Batman eða Mannblaka á flugi ?
 
  

Má bjóða þér inn í stjórnklefann í Airbus A380?

Hér er frábær panoramamynd af stjórnklefanum. Notið stjórntækin neðst á myndinni til að færa til myndavélina; upp, niður og allt um kring.

 

Hvort skyldi vera meira spennandi; sitja við tölvuskjáinn í A380 eða skjótast í leðurblökulíki meðfram klettaveggjunum?

Hvorir eru meiri flugmenn, flugstjórar Airbus eða mannblökurnar? 

 

 

Ítarefni um Airbus A380 fyrir tæknisinnaða:

Airbus Fly-by-Wire aircraft at a glance.   


 

Nauðsynlegt tæki fyrir bankastofnanir og bloggara...

Bloggarinn frétti á skotspónum að fjármálastofnun ein sé að fjárfesta í svona tækjum fyrir starfsmenn sína til að halda þeim í góðri líkamlegri þjálfun. Þetta kvað vera hugsað til að mæta hinu gríðarlega álagi á starfsmennina sem þróunin á fjármálamörkuðum hefur valdið undanfarið. Kemur í veg fyrir að þeir sofni í vinnunni eftir andvökunætur þar sem þá dreymir skuldatryggingaálag, stýrivexti og verðbólgudrauginn. Viðskiptavinir munu taka eftir að starfsmennirnir verða mun líflegri og starfssemin mun iða öll eftir að þessi nýja tækni verður tekin í notkun. 

Af samkeppnisástæðum má að sjálfsögðu ekki upplýsa meira um málið, en þetta ætti allavega að hrissssta aðeins upp í fólki. 

Er þinn vinnustaður að hugleiða fjárfestingu í svona búnaði?  

Svo væri auðvitað gráupplagt fyrir bloggara að ná sér í svona heilsuræktartæki Wink

Nánari upplýsingar um undratækið eru hér.  Kostar $290.   Ég yrði nú örugglega fljótt sjóveikur Shocking

 

 
Fyrst hélt ég þetta hlyti að vera grín, en svo virðist ekki vera Tounge
 
 
 
Það er allavega ekkert grín að sitja í svona stól Shocking

Tunglmyrkvinn aðfararnótt fimmtudagsins 21. febrúar

Tunglmyrkvi
 
 Ótrúleg litadýrð.
Takið eftir hvernig tunglið er greinilega hnattlaga en ekki bara flöt skífa eins og venjulega. Það virðist svífa um meðal stjarnanna sem ekki sjást að jafnaði vegna glýju.
 
 
Nú styttist í almyrkva á tungli, en þann 21. febrúar verður tunglmyrkvi sem mun sjást um miðja nótt frá Íslandi.
 
Almyrkvinn verður á milli kl. 3:01 og 3:51 aðfararnótt fimmtudagsins, eða "mjög seint á miðvikudagskvöld". Tunglið byrjar að ganga inn í alskugga jarðar kl. 1:43 og hefst þá deildarmyrkvi. Smám saman breytist deildarmyrkvinn í almyrkva eins og sést á myndinni neðst á síðunni.
 
Almyrkvi á tungli getur verið mikið sjónarspil ef vel viðrar. Með hefðbundnum handsjónauka nýtur maður hans mun betur en með berum augum, en hann getur verið mjög tilkomumikill jafnvel þó maður hafi ekki sjónauka við hendina.
 
Við almyrkvann tekur tunglið á sig undarlegan roða. Litbrigðin geta verið undurfögur, og ásýnd mánans virðist breytast frá því að vera hringlaga flöt skífa á himninum yfir í þrívíða dimmrauða kúlu sem svífur á milli stjarnanna. Stjörnur, sem áður voru ósýnilegar vegna glýju frá tunglinu, koma í ljós og tindra umhverfis fylgihnött jarðar sem skartar sínu fegusta og svífur um himinfestinguna í allri sinni dýrð.  Myndin hér fyrir ofan gefur vonandi hugmynd um hvað í vændum er.
 
Hugsum okkur að við verðum stödd á tunglinu aðfaranótt fimmtudagsins. Þar eru engin ský sem geta byrgt útsýnið og þar er engin ljósmengun. Hvernig myndum við þá upplifa myrkvann?  Það sést á neðri myndinni, sem er reyndar samsett úr mynd sem tekin var af jörðinni frá tunglinu og mynd af sólmyrkva. Auðvitað er þetta sólmyrkvi sem karlinn í tunglinu sér ásamt okkur ef við værum í fylgd hans, því jörðin skyggir á sólina. Meira um þessa mynd á vefsiðunni Astronomical Picture of the Day.

 

Solmyrkvi_a_tunglinu
 
Karlinn í tunglinu sér ægifagran sólmyrkva sem líkist demantshring.
Það er ljósbrotið í lofthjúp jarðar, sem myndar krans umhverfis jörðina, sem lýsir upp tunglið meðan á almyrkvanum stendur. Það má því segja að það sé baðað í geislum sólar sem er undir sjóndeildarhringnum.
En hvers vegna er hann rauður? Svarið kemur á óvart: Rauði litur mánans stafar af því að allir morgunroðar og kvöldroðar jarðar lýsa hann upp samtímis !   Rómantískara gæti það ekki verið
InLove
 
Þegar rétt sést í sólina, eins og á myndinni, er talað um demantshring. Svona undurfagran demantshring er bara hægt að sjá þegar sólmyrkvi er, en ekki tunglmyrkvi. Nánar hér.
 
 TLE2008Feb21-GMT copy
 
  Hér má sjá hvernig tunglið gengur inn í skugga jarðar
 
  • Deildarmyrkvi hefst: 1:43

  • Almyrkvi hefst: 3:01

  • Miður myrkvi: 3:26

  • Almyrkva lýkur: 3:51

  • Deildarmyrkva lýkur: 5:09

 
Meira um tunglmyrkvann: 
 
 

Paganini: Kaprísa No 24, Shlomo Mintz & Alison Balsom. Töfrum líkast.

paganiniHér eru tvö myndbönd með frábærum tónlistarmönnum sem leika Kaprísu #24 eftir Nikkoló Paganini.

Hinn heimsþekkti fiðluleikari Shlomo Mintz leikur á fiðlu, en Alison Balsom leikur þetta erfiða verk af einstakri snilld á trompet.

Það er gaman að hlusta á þessa tvo snillinga flytja þetta stórfenglega verk. Auðvitað er frábært að hlusta á fiðluleikinn, en þegar verkið er leikið á trompet verður maður einfaldlega heillaður.

 

Shlomo Mintz er einn þekktasti fiðluleikari heims í dag. Hann stundaði nám m.a. hjá Isaac Stern og hóf einleikaraferil sinn 11 ára gamall með Fílharmóníusveitinni í Ísrael og stuttu síðar var hann beðinn um að hlaupa í skarðið fyrir Itzhak Perlman í Paganini Fiðlukonserti nr. 1  undir stjórn Zubin Metha.  Hann hefur nú í fjóra áratugi ferðast vítt og breytt um heiminn bæði sem hljómsveitarstjóri og fiðluleikari og haldið ótal tónleika í öllum þekktustu tónleikasölum heims.

Í tilefni fimmtugsafmælis síns þann 30. október á síðasta ári ákvað hann að fara í tónleikaferð um heiminn með Kaprísur Paganinis í farteskinu, en hann hélt tónleika hér á landi fyrir skömmu. (Af vef Midi.is).

 

Breski trompetleikarinn Alison Balsom er sannarlega ein af rísandi stjörnum hins klassíska tónlistarheims. Hún stundaði nám við Guildhall tónlistarskólann og Konservatoríið í París, auk þess sem hún sótti einkatíma hjá hinum þekkta sænska trompetleikara  Håkan Hardenberger. Árið 2006 hlaut hún titilinn „besti breski tónlistarmaður ársins“ á klassísku Brit-Awards verðlaunahátíðinni og sama ár fékk hún hlustendaverðlaun Klassísku FM-stöðvarinnar á Gramophone verðlaunaafhendingunni. Hún komst í úrslit keppninnar „Ungur einleikari ársins“ árið 1998 og kom í kjölfarið fram með öllum hljómsveitum BBC. Hún hlaut verðlaunin „Rísandi stjarna ársins“ á Echo Klassik-hátíðinni 2007.

Alison Balsom hefur m.a. komið fram sem einleikari með Fílharmóníuhljómsveitinni í Los Angeles, Parísarhljómsveitinni og Ensku kammerhljómsveitinni. Árið 2006 lék hún á lokakvöldi Proms-tónlistarhátíðarinnar sem þykir mikill heiður. Balsom er á samningi við EMI útgáfufyrirtækið og hefur leikið inn á þrjár geislaplötur og fengið afar lofsamlega dóma fyrir leik sinn. Hún var nýlega skipuð gestaprófessor í trompetleik við Guildhall-tónlistarskólann í Lundúnum.  Hún lék með Sinfóníuhljómsveitinni 25. október síðastliðinn. (Af vef Sinfó).

 

Blogg um tónleikana frá 26. október s.l.  Alison Balsom trompetleikari með Sinfóníuhljómsveitinni.

Nokkur myndbönd með Alison Balsom á blóggsíðunni hér


 
Fiðluleikarinn Shlomo Mintz ungur að árum. Gamalt VHS myndband.
 
 

 

 

 
Trompetleikarinn Alison Balsom.

Snögg kólnun jarðar í janúar

London 1814.
 
Hefðbundnar mælingar á meðalhita lofthjúps jarðar sýna að janúar hefur verið mjög kaldur. Skýrir það væntanlega kuldakastið sem frést hefur af víða um heim.  Kaldasti mánuður síðan 1995. Ferillinn hér fyrir neðan er teiknaður samkvæmt þessum gögnum frá NASA GISS. Sama er upp á teningnum þegar mæligögn frá gervihnöttum eru skoðuð. Myndin sýnir mánaðameðaltöl frá árinu 1978.
 
Takið eftir hvernig ferillinn steypist niður við hægri jaðar myndarinnar.  Fróðlegt verður að sjá hvernig framhaldið verður. Vafalítið stafar þetta hitafall af fyrirbærinu La Niña í Kyrrahafinu. Frá árinu 1995, þegar kaldari mánuður en sl. janúar mældist, hafa verið þrjú La Niña tímabil; 1995-1996, 1998-2000 og 2000-2001.
 
Vonandi er þetta ekki fyrirboði þess að langtíma kólnun sé framundan. Það er eðli El Níño og La Niña fyrirbæranna að þau geta ekki staðið yfir nema tiltölulega fáeina mánuði (eða sárafá ár) í senn. Til eru náttúrulegar sveiflur í hitafari jarðar sem standa yfir í mörg ár eða áratugi. Vel þekkt eru kuldatímabil sem komu á meðan á "Litlu ísöldinni" stóð og eru tvö þeirra kennd við lágmörk í virkni sólar sem nefnd eru Maunder minimum (1645-1715) og Dalton minimum (1790-1830).  Myndin efst á síðunni er einmitt frá London meðan á Dalton minimum kuldatímabilinu stóð.
 
Þegar er farið að spá svona lágmarki í virkni sólar á næstu áratugum og hafa sumir tímastett lágmarkið árið 2030. Þetta eru auðvitað fyrst og fremst stjarneðlisfræðingar sem telja sig þekkja dynti sólar. Þeim kemur þó ekki saman um hvort því muni svipa til Maunder eða Dalton, en mun kaldara var meðan á því fyrrnefnda stóð.
 
Sólsveifla #24 er um það bil að sjá dagsins ljós. Þó ekki byrjuð. Sólin er búin að vera undur friðsæl undanfarið og lengd sólsveiflu #23 þegar komin ár fram yfir meðaltalið sem 10,7 ár. Miðað við söguna getur það bent til hratt minnkandi virkni sólar á næstu árum. Enginn veit þó hvað verður, en einn þeira sem spáði fyrir um lágmark árið 2030, Dr. Theodor Landscheidt (1927-2004) sagði aðspurður í tölvupósti til undirritaðs um aldamótin að væntanlega yrðum við orðin vör við kólnun áður en þessi áratugur er liðinn. Sjá vangaveltur hér og hér. Sumir eru virkilega farnir að hafa áhyggjur. Sjá hér.
 
 
Við skulum vona að þetta sé bara La Niña í Kyrrahafinu sem er að stríða okkur. Það er lang líklegast.
 
 
GISSglobal-jan2008-600w
 Hitaferill GISS frá desember 1978 til janúar 2008.
Takið eftir hitafallinu lengst til hægri. 
 
 
 
Willie Soon og  Steven H Yaskell: Year Without a Summer. Góð grein.
 
David Archibald: The Past and Future of Climate. PowerPoint. 
 

Aðferð til að losna við truflandi auglýsingar

UptownHeraldAd_small-BÁ ýmsum vefsíðum, sérstaklega fréttasíðum, er mikill fjöldi blikkandi auglýsinga til ama. Auðvitað eru auglýsingar nauðsynlegar og óþarfi að amast við þeim, en þær verða þá að vera þannig úr garði gerðar að þær trufli ekki viðkomandi. Hugsið ykkur hvernig dagblöðin væru ef önnur hver auglýsing þar væri blikkandi og á sífelldu iði. Margumrædd auglýsing á bloggsíðunni stuðar mig lítið þar sem ég get einfaldlega mjókkað gluggann þannig að auglýsingin hverfi, ef mér sýnist svo.

 Ég hef um alllangt skeið notað forritið Adblock Plus sem hægt er að tengja Firefox vafranum. Það er hægt að kenna forritinu að þekkja auglýsingarnar og fjarlægja þær, en þar sem nýjar auglýsingar birtast daglega þarf sífellt að endurþjálfa Adblock Plus, og vafasamt hvort maður nenni að standa í því.

Leiðbeiningarnar hér fyrir neðan tók ég saman um daginn fyrir fjölskyldumeðlim. Þó svo að í dæminu sé minnst á fréttasíðu Morgunblaðsins, þá er það alls ekki illa meint og hef ég fullan skilning á nauðsyn auglýsinga í nútímaþjóðfélagi. Það er þó þetta sífellda blikk sem angrar mig stundum og gerir það að verkum að ég reyni að forðast að líta á þannig auglýsingar. Trúlega er það misskilningur hjá auglýsendum að telja að blikkandi  auglýsingar séu betri. Ég held að því sé öfugt farið.

Hér eru tvær aðferðir sem hægt er að prófa: 

---

Microsoft Internet Explorer (Ekki er mælt með þessari aðferð þar sem hún truflar t.d. YouTube):

Fara í Tools og síðan  Manage- Add-ons, þar næst  Enable/Disable Add-ons þá er hægt að finna Shockwave Flash Object. Í listanum.   Merkja það með því að smella á Shockwave Flash Object og velja síðan Disable.

Nú ættu blikkandi Flash auglýsingar eins og xxxx að hverfa.

 

Þetta  virkar  Microsoft Internet Explorer en ég hef ekki enn fundið samsvarandi fyrir Firefox.

---

Firefox:

Setja inn forritið Adblock Plus sem slekkur á auglýsingunni í Firefox. Ekki bara Flash auglýsingum.

Forritið er ókeypis hér http://adblockplus.org/en/installation

Það slekkur bara á auglýsingum sem búið er að kenna forritinu að slökkva á. Það er hægt að kenna því að slökkva á öllum auglýsingum, þannig að t.d. www.mbl.is verður miklu læsilegra.

Þegar forritið er komið inn í Firefox sét rauður ikon efst til hægri: (ABP).  Þegar smellt er á hann opnast gluggi neðst með lista yfir allar síðueiningarnar. Þar á meðal eru leiðinlegu auglýsingarnar.

Auglýsingarnar má þekkja á því að inni í nafninu stendur  …/ augl /… eða að nafnið endar á .swf.   Til dæmis:

http://www.lbm.is/ augl /files/85/ad_8529_4346.swf

Hægri-smella á þennan textastreng og velja "Block this item". Gera þetta við allar auglýsingarnar og velja síðan [Apply] í glugganum sem opnast.

Auglýsingarnar ættu að hverfa. Þessu þarf að halda aðeins við ef nýjar auglýsingar birtast.

---

Reynsla mín af þessu fikti með AdblockPlus er að maður nennir varla að standa í þessu stússi að vera sífellt að endurþjálfa forritið.  Reynir bara að láta blikkið ekki pirra sig. Til lengdar er það besta aðferðin.

13.2.2008: Ýmsar gagnlegar upplýsingar hafa komið fram í athugasemdunum. Ég er nú með tvo filtera í Adblock Plus:   */augl/*   og   *visir.is/ads/*  .   Nú er allt "sjálfvirkt". Ekkert stúss við endurþjálfun.   Filterinn er hægt að setja inn með því að smella á litlu píluna hægra megin við rauða (ABP) íkonið efst til hægri í glugganum. Velja þar Preferences og síðan Add Filter.


Sökktu sólblettir Titanic? Grein á vef NOAA - Bandarísku haf- og loftslags- stofnunarinnar.

sunclimate_4Fyrirsögnin  hljómar vissulega fáránlega, en eins og allir vita þá sökk Titanic vegna áreksturs við hafís. En hvernig stóð á hafís á þessum suðlægu slóðum? Grein á vef hinnar þekktu rannsóknarstofnunar NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration)  ber nafnið The Sun-Climate Connection - Did Sunspots Sink the Titanic?

Þar er vísað til þeirrar staðreyndar að hafís var á siglingaleið Titanic á sama tíma og sólblettir voru í lágmarki. Hafís hefur ekki sést þar eftir að virkni sólar fór að aukast og sólblettum að fjölga.   Þessi áhugaverða og auðlesna grein er hér.

Greinin hefst á umfjöllun um hlýnun andrúmslofts á síðustu öld, en hlýnumin er talin vera bæði af völdum náttúrunnar og af mannavöldum. Tveim spurningum er varpað fram:

1)      Af hve miklu leyti er hlýnunin af mannavöldum?

2)      Hvernig hefðu loftslagsbreytingar orðið hefði maðurinn hvergi komið þar nærri?

Til þess að geta svarað fyrri spurningunni verða vísindamenn að hafa svar við seinni spurningunni, segir í greininni.

 

Þar sem sólin er eini hitagjafi jarðar (fyrir utan jarðhitann sem er hverfandi) er augum beint að breytingum í sólinni. Bent er á að yfir eina 11 ára sólsveiflu breytist heildarútgeislun sólar um aðeins 0,1%, en frá 17. öld um 0,5%. (Nú skulum við hafa í huga að sólin hitar jörðina frá alkuli upp í +15° að meðaltali, eða um tæpar 300°. Lítil breyting í orkustreymi frá sólinni getur því haft allnokkur áhrif á hita lofthjúpsins).

sunclimate_2Í greininni kemur einnig fram að þessi 0,1% - 0,5% breyting er miðuð við heildarútgeislun frá sólinni, en miklu meiri breytingar í útgeislun verða í útfjólubláa hluta litrófsins. Þar getur útgeislunin breyst 100 til 1000 falt yfir eina sólsveiflu !   Útfjólubláa ljósið hefur fyrst og fremst áhrif á efstu lög lofthjúpsins.   Sjá myndina hér til hliðar, en hún sýnir hvernig ásýnd sólar breytist á sex ára tímabili þegar hún er skoðuð með myndavél sem er næm er fyrir útfjólubláu ljósi.

Þar sem greinin er skrifuð árið 2001 er ekki fjallað um hinar nýju kenningar Henriks Svensmark um  samspil breytilegrar virkni sólar, geimgeisla, skýja og þar með hitafars. (Sjá bloggið "Byltingarkennd kenning dansks vísindamanns skekur vísindaheiminn....")

 

 

sunclimate_3bÍ greininni frá NOAA er mynd sem sýnir samsvörun milli fjölda sólbletta og hitastigs á síðustu öld. Samsvörunin er sláandi, eins og sést á myndinni hér til hliðar. Rauði ferillinn er fjöldi sólbletta, en blái ferillinn hitastig við yfirborð jarðar.

 

Nú, síðan eftir þessa kynningu víkur sögunni aftur að Titanic árið 1912, en eins og kunnugt er rakst skemmtiferðaskipið á ísjaka sem var á siglingaleiðinni milli Evrópu og Bandaríkjanna. Á þessum árum mátti oft sjá ís á þessum suðlægu slóðum, en hann var mjög varasamur skipum, sérstaklega að nóttu til, því skip voru auðvitað ekki með ratsjá á þeim tíma.

Að sjálfsögðu voru það ekki sólblettirnir sem sökktu Titanic, en líklegt er að rekja megi hina köldu veðráttu sem ríkti þegar Titanic rakst á borgarísjakann langt suður í höfum til lítillar virkni sólar, en fáir sólblettir eru einmitt til marks um það. Með hlýnandi loftslagi (og fjölgandi sólblettum) hætti ís reka þangað suðureftir.

 

Lesendum þessa pistils er eindregið bent á að lesa greinina sem er á vef NOAA hér. Þar er auðvitað fjallað mun betur um málið en í þessari stuttu kynningu.

 Krækjur:

The Sun-Climate Connection - Did Sunspots Sink the Titanic?

NOAA Research 


Íslenska Eldflaugafélagið mun skjóta á loft 2ja þrepa eldflaug í sumar

AIR-203Félagið AIR eða  Amateur Icelandic  Rocketry   stefnir að því að skjóta á loft tveggja þrepa eldflaug síðar á árinu.  Flaugin mun fara  í allt að 5000 metra hæð og ná  allt að  1500 km/klst hraða, sem er vel yfir hljóðhraða.

Fyrir rúmu ári, eða 18. nóvember 2006 var fyrstu eldflaug félagsins skotið á loft á Vigdísarvöllum. Flaugin var 203 cm á hæð og vóg 5,1 kg. Hún fór í 1080 metra hæð og náði 590 km/klst hraða.  

Í samstarfi við félagið hefur Háskólinn í Reykjavík sett á laggirnar nám í eldflaugafræðum.  Þetta er sex eininga kúrs á vorönn sem endar væntanlega á að skotið verður á loft eldflaug sem nemendur og kennarar eru að hanna.

 

Fréttablað félagsins var að koma út. Þetta áhugaverða blað er prýtt fjölda ljósmynda  og er hægt að nálgast það ókeypis hér. Þar er mikinn fróðleik að finna um þetta áhugaverða félag, eldflaugarnar, eldsneyti þeirra, námið í eldflaugafræðum, fyrirhugað eldflaugaskot, o.fl.

 

Félagið er með tvær vefsíður, íslenska www.eldflaug.com og enska www.AIRrocketry.com

 

Að félaginu standa Magnús Már Guðnason og Smári Freyr Smárason. 

 
Árin 1964 og 1965 voru hér á landi franskir vísindamenn sem skutu nokkrum eldflaugum  út í geim, eða í yfir 400 km hæð. Myndir af þeim atburði eru hér.


Næsta síða »

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.12.): 8
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 68
  • Frá upphafi: 764725

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband