Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Nýjasta Gangverk fréttablað Verkís á afmælisári komið út - Fæst ókeypis hér :-)

 

 

 

logo-upphleypt-liggjandi-verkfraedistofa.png

 

 

Verkfræðistofan Verkís er langelsta verkfræðistofan á Íslandi og varð 80 ára á þessu ári, en árið 1932 stofnaði Sigurður Thoroddsen verkfræðistofu sína sem síðan varð einn af máttarstólpum Verkís...
Af því tilefni er sérstaklega vandað til fréttablaðsins Gangverk. Annað tölublað afmælisársins var að koma út og má nálgast það ókeypis á netinu. 


Meðal efnis aprílblaðsins er áhugavert viðtal við einn af frumkvöðlum verkfræðistofunnar Verkís, Egil Skúla Ingibergsson, sem um tíma var borgarstjóri Reykjavíkur, en hann stofnaði verkfræðistofuna Rafteikningu, sem er meðal fimm öflugra máttarstólpa Verkís.

Í blaðinu er einnig fjallað um nýjar virkjanir á norðurlandi, mývarginn mikla sem gerði mönnum lífið leitt meðan á virkjanaframkvæmdum við Sogið stóð og notkun DDT í baráttunni við hann, verkfræðingaverkföllin um miðja síðustu öld sem áttu eftir að hafa jákvæðar afleiðingar, o.m.fl. 

 

Á afmælisárinu eru þegar komin út tvö blöð, en þau verða væntanlega um fimm alls.

Öll eintök Gangverks, 21 að tölu, má nálgast hér á vefsíðu Verkís, en síðustu 5 hér fyrir neðan.

 

Það getur hentað vel að hægrismella á krækjurnar og nota Save Link As  til að vista blaðið sem pdf, og lesa það síðan með hjálp Acrobat. Stundum er auðveldara að lesa þannig en beint í vefskoðaranum.

 

 

Forsida-Gangverk-Apr-2012

Apríl 2012.  Smella hér: 2.tbl 2012

Greinar:

  • Lýsing á húsnæði og tré í tilefni afmælis.
  • Viðtal við Egil Skúla Ingibergsson stofnanda. Rafteikningar og fyrrum borgarstjóra.
  • Jarðgufuvirkjanir á Norðausturlandi.
  • Varnarefnið DDT og mývargur í Sogi.
  • Hús verkfræðingsins.
  • Frá hinu opinbera inn á stofurnar.
  • Fréttamolar.
Forsida Gangverk 1 tbl 2012

Febrúar 2012. Smella hér:  1.tbl 2012

Greinar:

  • Fyrstu ár Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen.
  • Viðtal við Björn Kristinsson stofnanda Rafagnatækni og prófessor emeritus.
  • Byggingarævintýri Viðlagasjóðshúsanna.
  • Jarðvarmaverkefni í Kenía.
Forsida Gangverk Des 2011

Desember 2011. Smella hér: 2.tbl 2011

Greinar:

  • Umhverfisstjórnun hjá Verkís.
  • Lífsferilsgreiningar.
  • Almenningshjólaleigur.
  • Vistvæn hönnun og vottanir.
  • Díoxín í umhverfinu.
  • Búorka.
  • Sjávarfallavirkjanir.
  • Vistbyggðaráð.
  • Hvers vegna að spá í skólp?
  • Húsasótt - hvað og hvers vegna?
Forsida Gangverk febrúar 2011

Febrúar 2011. Smella hér: 1.tbl 2011

Greinar:

  • Flokkun jarðhitasvæða.
  • Hitaveita á höfuðborgarsvæðinu.
  • Hellisheiðarvirkjun og hellisheiðaræð.
  • Jarðhitavirkjanir á Reykjanesi.
  • Auðlindagarðurinn Svartsengi.
  • Snjóbræðslukerfi í Reykjavík.
Gangverk_vor_2010-1

Vor 2010. Smella hér: 1.tbl 2010

Greinar:

  • Fyrirtækjamenning og starfsandi í sameiningu.
  • Björgunarstarf á Haíti.
  • Verkís um allan heim.
  • Ráðgjafasamningi Kárahnjúkavirkjunar lýkur.
  • Verkís á Grænlandi.
  • Engin diskókúla.
  • Andblær - loftræstikerfi.
  • Ljósgæði - Lífsgæði.
  • Vatnaflsvirkjun í Georgíu.
 
 
Fimm gamalgrónar verkfræðistofur runnu saman í eina undir nafninu Verkís árið 2008.
Fjöldi starfsmanna er 320.
 
VST - Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen (1932)
RT - Rafagnatækni (1961)
Fjarhitun (1962)
Rafteikning (1962)
Fjölhönnun (1970)

 
 
 
afmaelismerki-upphleypt-liggjandi-consulting_1149181.png
 
 
 
 

 

1932 – 2012

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Stríð og friður - góð grein Péturs Stefánssonar verkfræðings um ástandið á Íslandi samborið við eftirstríðsárin í Þýskalandi...

 

 

"Aldrei á mínum 70 árum hef ég upplifað jafn neikvæða þjóðfélagsumræðu, reiði og persónulega óvild eins og mér finnst ég skynja í þjóðfélaginu í dag"...  

Þannig skrifar Pétur Stefánsson í grein í Morgunblaðinu í dag 13. apríl.  Ég er svo innilega sammála Pétri að ég tek mér besssaleyfi og birti grein Péturs hér í heild sinni.

 

 

petur-stefansson.jpg"Mér hefur síðustu misserin orðið tíðhugsað til námsáranna í München eftir stríðið. Ég kom til Þýskalands þegar 13 ár voru liðin frá stríðslokum. Uppbyggingin var þá hafin af krafti en menn voru enn að brjóta niður ónýt hús og hreinsa rústir. Ég bjó um tíma hjá gamalli ekkju sem misst hafði bæði eiginmanninn og einkasoninn í stríðinu. Hún kvartaði ekki. Það kvartaði enginn. Umferð var lítil og vöruúrval var lítið, þó svalt held ég enginn. Þjóðin var sakbitin. Enginn minntist á stríðið. Það ríkti þögul þrá eftir nýrri framtíð.

 

»Þýska efnahagsundrið«

Það var sérstaklega eftirminnilegt að fylgjast með stjórnmálunum. Tveir menn voru áberandi, Konrad Adenauer kanslari og Ludwig Erhard efnahagsmálaráðherra. Adenauer talaði kjark í þjóðina og sinnti einkum hinu víðara samhengi í Evrópu. Ludwig Erhard, sem síðar hefur verið nefndur faðir þýska efnahagsundursins, hafði forystu um endurreisn efnahags landsins. En hver var þessi Ludwig Erhard og hver var hans galdur. Erhard var sonur smákaupmanns í Fürth. Hann gekk í verslunarháskóla en nam síðan hagfræði og félagsfræði og lauk doktorsprófi. Árið 1948 varð hann forstöðumaður efnahagsráðs hernámsstjórnarinnar og afnam sem slíkur verðlagshöft og opinbera framleiðslustýringu samhliða upptöku þýska marksins. Ári síðar varð Erhard þingmaður CDU (nú flokkur Angelu Merkel) og efnahagsmálaráðherra til 14 ára. Erhard var þó aldrei flokksbundinn og að mínu mati aldrei fulltrúi neins nema þýsku þjóðarinnar. Ludwig Erhard lagði þunga áherslu á frjálst efnahagslíf (»die freie Wirtschaft«) en hann lagði jafnframt áherslu á félagslegt réttlæti (»die soziale Gerechtigkeit«). Þetta var mikil jafnvægislist. Hann vissi að hann mátti ekki lama dráttarklára atvinnulífsins en hann stóð líka dyggan vörð um grundvallarmannréttindi. Allir áttu rétt á að lifa mannsæmandi lífi og njóta hæfileika sinna. »Wohlstand für alle«, velferð fyrir alla, var kjörorð hans og raunar heiti á bók þeirri er hann síðar gaf út. Það sérstaka afbrigði kapítalisma sem þróaðist í Þýskalandi á þessum árum (og ríkir í meginatriðum enn) hefur verið nefnt »Ordokapitalismus«, væntanlega, án þess ég viti það, skylt þýska orðinu Ordnung (regla).

Þegar ég hélt heim frá námi sex árum síðar voru rústirnar að mestu horfnar, vöruúrval orðið fjölbreytt í verslunum og menningarlíf tekið að blómstra á ný. Á einum aldarfjórðungi byggðu Þjóðverjar öflugasta iðnríki álfunnar undir öruggri leiðsögn Ludwigs Erhards og eftirmanna hans.

 

Ólíkt höfumst við að

Við Íslendingar lentum líka í stríði, stríði við eigin breyskleika og hömluleysi og eigum líka um sárt að binda. Við settum kíkinn fyrir blinda augað og biðum lægri hlut.

Þegar ég hins vegar ber ástandið hér heima saman við ástandið í Þýskalandi eftir stríðið verð ég hugsi. Aldrei á mínum 70 árum hef ég upplifað jafn neikvæða þjóðfélagsumræðu, reiði og persónulega óvild eins og mér finnst ég skynja í þjóðfélaginu í dag. Af hverju erum við svona reið? Tókum við ekki flest einhvern þátt í dansinum, mishratt að vísu. Vissulega urðum við fyrir áfalli og vissulega töpuðum við nokkrum fjármunum. Þannig tapaði undirritaður t.d. 30-40% af lífeyrisréttindunum sínum til æviloka og eignir hans lækkuðu í verði eins og eignir annarra. Hann ætti því samkvæmt formúlunni að vera bæði sár og reiður. Því fer þó fjarri. Ég er bæði glaður og þakklátur. Glaður yfir því að húsin okkar eru heil, brýrnar okkar heilar, framleiðslutækin heil og ríkisfjármálin alveg þokkaleg í alþjóðlegum samanburði. Ég er líka þakklátur þeim sem brugðust við þegar á reið, þakklátur þeim sem settu neyðarlögin, Þakklátur Indefence-hópnum fyrir öfluga málsvörn og þakklátur forseta Íslands sem með fyrra málskoti sínu líklega bjargaði börnum okkar frá áralöngum skuldaklafa. Þótt margar fjölskyldur eigi vafalaust enn í erfiðleikum vegna atvinnumissis og greiðsluörðugleika tel ég að á heildina litið sé lítil innistæða fyrir allri þeirri neikvæðu umræðu sem á okkur dynur í netheimum og fjölmiðlum. Þvert á móti tel ég að við eigum með okkar vel menntuðu æsku og ríku auðlindir til lands og sjávar alla möguleika á að endurheimta hér »velferð fyrir alla« ef við einungis berum gæfu til að þroska okkar stjórnmálalíf, móta okkur skýra framtíðarsýn og láta af öfgum til hægri og vinstri. Traust þjóðarinnar til Alþingis Íslendinga virðist því miður vera í sögulegu lágmarki. Ég hef áður lýst efasemdum mínum um ágæti hinna opnu prófkjara og hvernig þau hafa að mínu mati fælt vel menntað og reynslumikið fólk frá þátttöku í stjórnmálum. Það er, ef rétt er, mikið áhyggjuefni. Stjórnmálaflokkarnir verða nú þegar nálgast kosningar að átta sig á því að traust fylgir ekki stjórnmálaflokkum, traust fylgir einstaklingum. Það á ekki bara við um núverandi stjórnarflokka, það á líka við um þann flokk sem ég hef jafnan stutt í gegnum árin".

 

Ég held það sé varla tilviljun, en á svipuðum nótum og Pétur hef ég sjálfur ítrekað hugsað undanfarið.   Síðustu vikur er ég var staddur erlendis með fjölskyldu minni varð mér einmitt tíðrætt um þessa "neikvæðu þjóðfélagsumræðu, reiði og persónulegu óvild",  svo ekki sé minnst á tilhneigingu margra ráðamanna til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tefja fyrir uppbyggingu hér á landi eftir hrunið.  Ég tapaði eins og Pétur 30-40% af lífeyrisréttindum mínum, en er á sama hátt og Pétur þakklátur þeim sem gerðu það sem í þeirra valdi stóð til að forða okkur og börnum okkar frá algjöri hruni. Við Pétur erum nánast jafnaldrar, munar kannski hálfum áratug, og kollegar, og kannski er það þess vegna að við höfum svipaða sýn á málin. Ég hef þó grun um að flestallir góðir og sannir Íslendingar geti tekið heils hugar undir þessi ágætu skrif Péturs.

 

 



 


Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 30
  • Sl. sólarhring: 120
  • Sl. viku: 253
  • Frá upphafi: 761650

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 228
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband