Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Spurningar og svör um brennisteinsvetni...

 

 

kleifarvatn_april_2011_ahb--2.jpg

 



Undanfarið hafa verið nokkrar umræður um brennisteinsvetni frá jarðgufuvirkjunum, sérstaklega Hellisheiðarvirkjun.  Ýmsar spurningar hafa vaknað og af því tilefni hefur Orkuveita Reykjavíkur tekið saman upplýsingar um málið.

Sá sem ritar þennan pistil hefur komið að hönnun jarðgufuvirkjana í næstum fjóra áratugi og er því nokkuð kunnugur vandamálinu, sérstaklega hvað varðar áhrif brennisteinsvetnis á rafbúnað. 

Í upplýsingum Orkuveitunnar hér fyrir neðan og í reglugerðum er notuð mælieiningin  µg/m3 eða míkrógrömm í rúmmetra. Margir eru þó vanari að nota PPB eða Parts Per Billion, þar sem billjón er amerísk billjón eða milljarður. 1 PPB er því sama og 1/1.000.000.000.  Til að breyta milli PPB og µg/m3 og þegar um er að ræða brennisteinsvetni má nota sambandið 
1 ppb = 1,4 µg/m3
.    Því jafngilda heilsuverndarmörkin 50 µg/m3 um það bil 36 ppb.  Þess má geta að í stjórn- og rafbúnaðarherbergjum jarðvarmavirkjana er leitast við að halda styrk brennisteinsvetnis í lægra gildi en 3 ppb eða 4 µg/m3.

-

Áður en lengra er haldið er rétt að það komi fram að Orkuveitan hefur varið um 350 milljónum króna  í rannsóknir og tilraunir til hreinsunar á brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun og tekist  að dæla brennisteinsvetni niður með affallsvatni stöðvarinnar.   Notuð er tilraunastöð þannig að fullum afköstum hefur ekki verið náð, en tilraunin lofar góðu.

Til eru aðferðir sem notaðar eru erlendis til að hreinsa brennisteinsvetni  sem fellur til í t.d. olíuiðnaði. Afurðin er þá brennisteinn eða brennisteinssýra, en verð á því er lágt, markaðir langt í burtu, og förgun tiltölulega dýr.  Það er ástæðan fyrir því að menn eru að leita ódýrari lausna.  

Mestar vonir eru því bundnar við verkefni þar sem brennisteinsvetninu er blandað í vatn og dælt niður í berglög. Þá binst brennisteinsvetnið aftur í steintegundir sem það kom upphaflega úr og binst til framtíðar. Í glópagulli sem margir þekkja er til dæmis mikið af brennisteini.  Ljóst er að þessi tækni lofar góðu og líklegt að hveralyktin frá jarðvarmavirkjunum heyri brátt sögunni til.

 

Hér má sjá styrk brennisteinsvetnis beint frá mælistað. Fróðlegt er að sjá hvernig mæliniðurstöður eru samanborið við heilsuverndarmörkin.

Mælistöð við Hellisheiðarvirkjun

Mælistöð í Norðlingaholt
i

Mælistöð í Hveragerði

 

Myndina efst á síðunni tók höfundur bloggsins í apríl 2011 af hver í Kleifarvatni.



orkuveitumerki.jpg

Birt með leyfi Eiríks Hjálmarssonar upplýsingafulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur.

Spurningar og svör um brennisteinsvetni

1         Hvað er brennisteinsvetni?

Brennisteinsvetni, auðkennt sem H2S í efnafræðinni, er jarðhitalofttegund sem berst upp á yfirborðið frá jarðhitasvæðum og sérstaklega við nýtingu háhitasvæða. H-ið stendur fyrir vetni og S-ið fyrir brennistein. Sameind efnisins er því mynduð úr tveimur vetnisfrumeindum á móti einni brennisteinsfrumeind. Brennisteinsvetnið er lofttegundin sem hveralyktin er af. Styrkur þess í jarðhitavökva er mismunandi frá einu jarðhitasvæði til annars. Af þeim háhitasvæðum, sem nýtt eru á Íslandi, er styrkurinn lægstur á Reykjanesskaganum.

h2s.png

Á lághitasvæðum er styrkur þess gjarna minni en á háhitasvæðunum þar sem lægri hiti leysir minna af jarðefnum úr berggrunninum. Vatn frá lághitasvæðum með brennisteinsvetni hefur verið nýtt í hitaveituna í Reykjavík frá árinu 1928. Við framleiðslu á hitaveituvatni í virkjununum á háhitasvæðunum er kalt vatn hitað upp en örlitlu brennisteinsvetni er blandað í það til að hreinsa úr vatninu súrefni, sem veldur tæringu í lögnum veitunnar og viðskiptavina. Þannig berst hveralykt með öllu hitaveituvatni Orkuveitu Reykjavíkur.

Í miklum styrk er brennisteinsvetni hættulegt. Dæmi eru um að við jökulhlaup tengd jarðhita undir jökli hafi vísindamenn verið hætt komnir við upptök hlaupanna og starfsfólk virkjana líka og þarf að gæta sérstakrar varúðar, ekki síst í lokuðum rýmum þar sem lofttegundin getur safnast fyrir.

2         Af hverju er meiri lykt stundum?

Framleiðsla jarðgufuvirkjananna er nokkuð stöðug og því er magn brennisteinsvetnis, sem frá þeim kemur, einnig nokkuð jafnt. Vísbendingar eru þó um að það dragi úr styrk þess í jarðhitavökvanum eftir því sem viðkomandi jarðhitasvæði hefur verið nýtt lengur.

Veður og vindar ráða mestu um það hvort brennisteinsvetnið berst frá jarðgufuvirkjununum til byggða. Mestar líkur eru á að lykt finnist í hægum vindi í svölu veðri, t.d. í vetrarstillum. Við þær aðstæður blandast brennisteinsvetnið minna andrúmslofti og stígur lægra upp í loftið frá virkjununum. Algengast er að hveralyktin finnist á höfuðborgarsvæðinu í svölum og hægum austanáttum og austan Hellisheiðar í svölum, norðvestlægum vindáttum.

3         Hvað er Orkuveitan að gera til að draga úr menguninni?

Hreinsun brennisteinsvetnis úr útblæstri jarðgufuvirkjana hefur verið í umræðu hjá starfsfólki Orkuveitunnar allt frá því Nesjavallavirkjun var tekin í notkun, árið 1990. Skoðaðar voru aðferðir við hreinsun þess og hugmyndir skutu upp kollinum í vísindasamfélaginu um hagnýtingu þess. Þannig hefur prótínframleiðsla úr hitakærum örverum, sem nærast á brennisteinsvetni, verið á tilraunastigi um árabil. Gallinn við þá aðferð er að örverurnar kæra sig ekki um brennisteininn, sem þá verður eftir og þarf að farga honum eða koma honum í verð. Það er offramboð af brennisteini í heiminum og verð lágt.

Eftir að Hellisheiðarvirkjun var gangsett, haustið 2006, fór að bera meira á hveralykt á höfuðborgarsvæðinu. Var þá farið að leita leiða til hreinsunar með markvissari hætti en áður. Leiddi það til þess að afráðið var að rannsaka með tilraunum hvort fært sé að skilja brennisteinsvetnið frá vatnsgufunni og dæla því niður í berggrunninn aftur með affallsvatni frá virkjuninni. Niðurdæling affallsvatnsins niður í berggrunninn að nýju þjónar þeim tilgangi að auka sjálfbærni jarðhitanýtingarinnar og koma í veg fyrir að það dreifist um yfirborðið. Með því að blanda brennisteinsvetninu saman við þetta vatn er vonast til að unnt sé að losna samhliða við óþægindi tengd hveralyktinni.

Ráðist var í hönnun og smíði tilraunastöðvar sem á að skilja jarðhitalofttegundirnar frá vatnsgufunni. Eftir margháttaðar tilraunir tókst að dæla brennisteinsvetni niður með affallsvatninu í rúma viku í desember 2011. Þá gripu veðurguðirnir í taumana og raki í hreinsibúnaði, sem rekja mátti til vetrarríkisins á svæðinu, stöðvaði frekari tilraunir í bili. Aftur var dælt niður um skeið í kringum páskana og niðurdæling hefur nú staðið frá í byrjun júní.

Í töflunni má sjá hvaða fjármunum Orkuveitan hefur varið til hreinsunar á brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun:

2008

2009

2010

2011

Samtals

38 mkr

125 mkr

131 mkr

55 mkr

349 mkr

Þá hefur Orkuveitan ráðist í umfangsmikla vöktun á magni brennisteinsvetnis í lofti. Um áramótin 2009 og 2010 voru settar upp þrjár nýjar síritandi mælistöðvar, sem reknar eru í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Þær eru í Norðlingaholti, í Hveragerði og við Hellisheiðarvirkjun. Hægt er að fylgjast með mæligildum frá stöðvunum í rauntíma á vef Orkuveitunnar og Heilbrigðiseftirlitsins. Heilbrigðiseftirlit á höfuðborgarsvæðinu hafa rekið loftgæðamælistöðvar um nokkurra ára skeið til að fylgjast með loftgæðum, og er svifrykið þar mest í umræðu auk brennisteinsvetnisins.

4         Af hverju er Orkuveitan ekki farin að beita þeim aðferðum sem notaðar eru annarsstaðar til að hreinsa brennisteinsvetnið?

Orkuveitan hefur kynnt sér aðferðir sem beitt er þar sem brennisteinsvetni fellur til í iðnaði. Skoðunin bendir til að niðurdæling brennisteinsvetnis ofan í jarðlög að nýju sé ekki bara ódýrari en hefðbundnar aðgerðir heldur einnig miklu heppilegri frá sjónarmiði umhverfisins. Ástæðan er sú að allar iðnaðarlausnirnar eru því marki brenndar að annaðhvort fellur til brennisteinn eða brennisteinssýra, sem afurð. Hvorttveggja er markaðsvara en verðið lágt og flutningskostnaður mikill frá Íslandi á þekkta markaði. Líklega yrði því að urða brennisteininn með tilheyrandi áhrifum á umhverfið. Því eru þessi þekktu ferli við hreinsun einungis tilflutningur á viðfangsefninu, ekki lausn.

Þá er sú leið einnig þekkt að leiða útblásturinn upp í háf í því augnamiði að dreifing hans verði meiri. Það dregur ekki úr magni brennisteinsvetnisins, en með meiri blöndun við loftið, dregur úr styrk þess. Sú lausn virðist ekki vera óhóflega dýr og virðist geta lækkað toppa í styrk brennisteinsvetnis.

5         Er óhætt að fara nálægt virkjununum?

Já og Orkuveitan hefur hvatt til útivistar á jarðhitasvæðunum, sem fyrirtækið nýtir með útgáfu gönguleiðakorta og stikun göngustíga. Hægt er fylgjast með styrk brennisteinsvetnis í lofti við Hellisheiðarvirkjun á vef fyrirtækisins og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.

6         Er brennisteinsvetnið hættulegt heilsunni?

Í því magni, sem nú mælist í byggð er það ekki talið hættulegt. Nýleg íslensk rannsókn gefur þó vísbendingar um að brennisteinsvetni, ásamt öðrum loftmengunarþáttum, geti haft áhrif á öndunarfæri þeirra sem viðkvæmastir eru. Orkuveitan hefur ákveðið að styrkja frekari rannsóknir á þessu. Styrkur svifryks í andrúmslofti í Reykjavík hefur farið yfir mörk 15 til 29 daga á ári frá 2008. Styrkur brennisteinsvetnis fór þrisvar yfir viðmiðunarmörk í Hveragerði árið 2011 en var alltaf undir mörkum í Norðlingaholti.

Erlendar rannsóknir, þar sem leitað hefur verið langtímaáhrifa af brennisteinsvetni í litlu magni á fólk, hafa gefið misvísandi niðurstöður, sem erfitt hefur reynst að draga ályktanir af. Ákvarðanir um umhverfismörk brennisteinsvetnis, hér á landi og erlendis, eru ekki byggðar á faraldsfræðilegum rannsóknum eins og gert hefur verið fyrir svifryk, óson og brennisteinsoxíð.

Í miklum styrk er brennisteinsvetni stórhættulegt og ber því að gæta fyllstu varúðar þar sem það getur safnast saman. Það getur t.d. gerst inni í borholuhúsum, stöðvarhúsum eða öðrum mannvirkjum jarðgufuvirkjana og getur einnig orðið í náttúrunni svo sem við jökulhlaup eða eldgos.

Taflan hér að neðan sýnir áhrif brennisteinsvetnis á mannslíkamann við mismunandi styrk þess, mælt í míkrógrömmum á rúmmetra. Inn í töfluna eru feitletruð reglugerðarmörk hér á landi. Hún er byggð á samantekt Kristins Tómassonar og Friðriks Daníelssonar, sérfræðinga hjá Vinnueftirlitinu.

Neðri mörk µg/m3

Efri mörk
µg/m3

Áhrif - umhverfismörk

1

190

Lyktarskynsmörk (fólk byrjar að finna lykt en það er misnæmt fyrir lyktinni)

5

Leyfilegt ársmeðaltal

50

Hámark daglegs hlaupandi 24 stunda meðaltals

150

Sólarhringsmeðaltal heilsuverndarviðmiðs Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar

1.400

7.100

Óþægileg lykt, mögulega ógleði eða höfuðverkur eftir lengri viðveru

14.000

Hámark 8 klst. viðvera skv. vinnuverndarreglugerð

21.000

Hámark 15 mínútna viðvera skv. vinnuverndarreglugerð.

29.000

71.000

Erting í nefi, hálsi og lungum, meltingarónot, lystarleysi, lyktarskyn dofnar og verður ekki lengur öruggt merki um mengunina.

143.000

286.000

Veruleg óþægindi frá nefi, hálsi og lungum, lyktarskyn hverfur alveg.

357.000

714.000

Mögulega banvænt. Lungnabjúgur myndast, sérlega við lengra álag, jafnvel án miðtaugakerfiseinkenna, s.s. Höfuðverks, ógleði og svima

714.000

Mikil lungnaeinkenni, spenna í líkama, höfuðverkur, svimi, óstöðugleiki, yfirlið. Meðvitundarleysi og dauði innan 4-8 klukkustunda. Minnistruflanir.

714.000

1.429.000

Öndunarlömun, óreglulegur hjartsláttur, dauði. Einkenni lungnabjúgs, brjóstverkir og andnauð, geta komið fram eftir allt að48 klukkustundir eftir að einstaklingur hefur lent í mengun.

7         Er brennisteinsvetnið hættulegt tækjum?

Brennisteinsvetni veldur því að það fellur á málma, t.d. silfur og kopar. Fólk í austari hluta borgarinnar hefur sagst telja að það falli hraðar á silfur eftir að Hellisheiðarvirkjun tók til starfa. Þá þarf að verja rafbúnað, sem inniheldur kopar, fyrir áhrifum brennisteinsvetnisins þar sem það er í háum styrk eins og í virkjununum sjálfum.

8         Get ég losnað við hveralyktina úr kranavatninu heima hjá mér?

Já, það er hægt með því að setja upp varmaskipti fyrir þann hluta heita vatnsins sem ekki fer á ofnana heldur inn á neysluvatnskerfið, þ.e. í krana, baðkör o.s.frv. Í nýrri byggingareglugerð er að finna ákvæði um varmaskipti eða uppblöndunarloka á heitavatnskerfinu. Þar er ákvæðið til þess að koma í veg fyrir að of heitt vatn komi úr krönum með tilheyrandi slysahættu. Sé varmaskiptir notaður í þessum tilgangi kemur upphitað kalt neysluvatn úr heitu krönunum. Komi fólk sér upp slíkum búnaði þarf að huga sérstaklega vel að því að lagnaefni þoli súrefnið í upphitaða vatninu.

9         Stafar starfsfólki OR hætta af brennisteinsvetninu?

Já, það þarf að viðhafa sérstakar ráðstafanir á vinnustöðum á borð við jarðgufuvirkjanirnar til að draga úr líkum á slysum vegna brennisteinsvetnis í háum styrk. Starfsmenn bera mæla á sér sem gera viðvart fari styrkur upp í vinnuverndarmörk. Sérstakur kafli er í öryggishandbók Orkuveitunnar þar sem starfsfólki er leiðbeint um hvernig umgangast eigi þessa hættu. Orkuveitan hefur ekki ástæðu til að ætla að við eðlilegar aðstæður sé vinnuumhverfið starfsmönnum skaðlegt. Engu að síður hefur fyrirtækið ákveðið að fylgjast sérstaklega með heilsufari starfsmanna sem vinna í brennisteinsríku umhverfi.

10      Verður útblástur Hverahlíðarvirkjunar hreinsaður að fullu?

Þegar unnið var að mati á umhverfisáhrifum Hverahlíðarvirkjunar, á árunum 2006 til 2008, lýsti Orkuveitan því yfir að brennisteinsvetni yrði hreinsað að langmestu leyti úr útblæstrinum. Á árinu 2010 var sett reglugerð nr. 514/2010 um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Leyfilegur styrkur samkvæmt reglugerðinni er fremur lágur, eða um þriðjungur leiðbeinandi marka Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Vinna Orkuveitunnar miðar nú að því að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar og er þá litið til allra virkjana á Hengilssvæðinu, ekki bara Hverahlíðarvirkjunar. Í yfirstandandi viðræðum um fjármögnun og byggingu Hverahlíðarvirkjunar er það forsenda af hálfu Orkuveitunnar að áður en ráðist verði í virkjun liggi fyrir hvernig brennisteinsmál og niðurrennsli affallsvatns verða leyst.

11      Verður útblástur allra virkjananna hreinsaður að fullu?

Alger hreinsun brennisteinsvetnisins er líklega ekki raunhæf. Markmið Orkuveitunnar er að uppfylla ákvæði reglugerðar 514/2010. Samkvæmt henni taka hert ákvæði gildi um mitt ár 2014. Orkuveitan sér ekki fram á að vera tilbúin með lausn á iðnaðarskala fyrir þennan tíma. Þess vegna mun fyrirtækið, í samstarfi við önnur orkufyrirtæki, fara þess á leit að gildistöku hertra ákvæða verði frestað.

Umhverfismörk

Viðmiðunartími

Mörk
μg/m3

Fjöldi skipta á ári sem má fara yfir mörk

Gildir frá

Heilsuverndarmörk

Hámark daglegra hlaupandi 24 stunda meðaltala

50

5

1.6.2010

Heilsuverndarmörk

Hámark daglegra hlaupandi 24 stunda meðaltala

50

0

1.7.2014

Heilsuverndarmörk

Ár

5

 

1.6.2010

Tilkynningarmörk

Samfellt í 3 klst

>150

 

1.6.2010

Tilkynningarmörk

Samfellt í 3 klst

>50

 

1.7.2014

12      Má búast við að orkuverðið hækki vegna hreinsunar brennisteinsvetnis?

Ef þær lausnir, sem verða ofan á við hreinsun brennisteinsvetnisins, verða mjög kostnaðarsamar, má búast við að sá kostnaður komi fram í verði til neytenda.

 

Nýlega hafa HS-Orka, Landsvirkjun og Orkuveita Rekjavíkur auglýst sameiginlega eftirverkefnastjóra til að stýra sameiginlegu verkefni sem hefur það markmið að draga úr styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti við jarðvarmavirkjanir. Það er því ljóst að málið er nú tekið föstum tökum.

 

 

Spurningar og svör um brennisteinsvetni frá OR má nálgast sem pdf með því að smella á krækjuna neðst á síðunni.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hveralyktin góða í Hveragerði...

 

 




hveragerdi.jpg

 

Brennisteinsvetni (H2S) er lofttegund sem oftast gengur einfaldlega undir nafninu „hveralykt", en þannig lykt þekkja flestir Íslendingar. Þessa lykt má finna nánast alls staðar á hverasvæðum og þar sem jarðhitinn er virkjaður, í mismiklu magni þó.  Lykt af brennisteinsvetni má finna af eggjum og jökulárhlaupum.

Hveragerði er fallegur bær sem dregur nafn sitt af fjölda hvera inni í bænum og umhverfis hann. Íbúar hafa lengi notað gufu og heitt vatn til að hita upp gróðurhús sín og íbúðarhús. Ferðamenn koma til að njóta hins fallega umhverfis og þefa af hveralykt. Kort þar sem sjá má m.a. hverina í bænum er að finna hérInni í miðjum bænum er jafnvel Hveragarður eða Geothermal Park þar sem má sjá ýmsar gerðir hvera, heitt vatn sjóða og hvæsandi gufu streyma. Sjá myndir hér. (Myndin efst á síðunni er fengin þar að láni). Um Hveragarðinn í Hveragerði má lesa hér á Virtual Tourist.

Á vef Hveragerðisbæjar www.hveragerði.is  er nábýlinu við hverina lýst. Þar stendur meðal annars:

„Fá bæjarfélög á Íslandi hafa upp á jafn fjölbreytta möguleika til útivistar að bjóða og Hveragerði. Í bænum sjálfum eru einstakar náttúruperlur á borð við hverasvæðið þar sem fræðast má um mismunandi tegundir hvera, og Varmá sem liðast í gegnum miðbæinn..."

„Reykjadalurinn er sannkölluð útivistarperla en þarna er ein sú flottasta gönguleiðin í Hveragerði. Volgar laugar og litrík hverasvæði gera landsvæðið að einstakri náttúruperlu sem enginn útivistarmaður ætti að láta fram hjá sér fara. Sundföt eru nauðsynleg með í för en heiti lækurinn er helsta aðdráttaraflið í dalnum en hægt er að baða sig í læknum, tekur u.þ.b 1 1/2 - 2 klukkustundir að ganga að honum. Gönguleiðin er vel merkt og má sjá falleg hitasvæði á leiðinni en varast má að fara ekki útaf af gönguleiðinni."

 

Mjög fróðleg grein um hverina í Hveragerði og hverasvæðið í miðbænum er á vef Lands og sögu, sjá hér.

 ---

Það kemur bloggaranum því ekki á óvart að hveralykt eða lykt af brennisteinsvetni finnist í Hveragerði. Svo hefur alltaf verið og verður vonandi áfram um ókomna tíð. Án hveranna fallegu væri bærinn ekki svipur hjá sjón. Það eru ekki margir bæir í veröldinni sem státað geta af Hveragarði eða Geothermal Park með sjóðandi vatni, hvæsandi gufu og yndislegri hveralykt inni í miðjum bænum.  Svo ekki sé minnst á alla hverina í fjallshlíðunum umhverfis, blásandi borholur og gufuskiljur þar sem jarðvarminn er virkjaður til húshitunar og matvælaframleiðslu. Allt þetta hlýtur að hafa áhrif á mælingar, hvort sem þær eru skynrænar gerðar með nefinu eða með dýrum mælibúnaði.

 

 


mbl.is Fólkið verði ekki tilraunadýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar..."

 

 

 atlantic_cod-2.jpg

 

 "Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.

Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum...

Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um..."

 

Gjört í Reykjavík, 10. ágúst 2006.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Einar K. Guðfinnsson.

 

 

Úr gildandi lögum um stjórn fiskveiða sem lesa má hér í Stjórnartíðindum.

 

Vonandi hefur enginn veðsett "sameign íslensku þjóðarinnar" fyrir láni, og vonandi hefur engin fjármálastofnun verið svo vitlaus að taka slíkt veð gilt.  Það væri aldeilis slæmt fyrir viðkomandi fjármálastofnun því þannig veð er marklaust og einskis virði.

 

 

 

 

 


mbl.is Ekki annað eins í 32 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir frá þvergöngu Venusar í gær...

 

 

P1010037-1

 

Eins og margir aðrir fylgdist ég með þvergöngu Venusar í gærkvöld og tók fáeinar myndir á Panasonic Lumix  FZ150 myndavél, en vélin er með linsu sem jafngildir 25-600mm.  Ég var ýmist með mylar filmu eða rafsuðugler til að deyfa ofurbjart sólarljósið. Þegar sólin er rétt lýst, þá verður umhverfið nánast svart á myndunum.

Ég er ekki búinn að fara yfir myndasafnið, en hér eru sýnishorn. Ef til vill bæti ég við fleiri myndum seinna.

 

 P1000919-1

 

 

p1010011-001--b.jpg

 

P1010057-----C-1 

Á efri myndinni má greina sólblett #1494 rétt fyrir neðan miðju (smella tvisvar á mynd til að stækka), en hann má sjá á "lifandi" mynd hér eða hér.

 

 

 


mbl.is Þverganga Venusar var í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.12.): 8
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 68
  • Frá upphafi: 764725

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband