Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Lending Fönix geimfarsins á Mars tókst mjög vel og myndir farnar að berast

Fönix lenti á klukkan 23:38 í gær samkvæmt íslenskum tíma. Fimmtán mínútum síðar (23:53) barst fyrsta skeytið  til Jarðar. Lendingin gekk að öllu leyti samkvæmt áætlun og nokkru síðar fóru að berast myndir frá heimskautasvæði Mars.  Leitin að lífi á Mars er hafin.

Það tekur radíómerkin 15 mínútur að berast til Jarðar þó þau ferðist með hraða ljóssins. Fönix var sendur af stað 4. ágúst síðastliðinn og hefur ferðast tæplega 700 milljón kílómetra að áfangastað.

 

230069main_PhoenixLandingFirstEstimateNoGrid_516-387

 

Fönix lenti inna rauða hringsins á miðri myndinni. Blái sporöskjulaga hringurinn sýnir það svæði þar sem lending hafði verið áætluð. Stóri appelsínuguli flöturinn hægra megin við lendingarstaðinn er gígurinn Heimdallur.

 

 

230121main_false_color_postcard_edr_516-387

 

 Svona lítur lendingarstaðurinn út.

 

230117main_false_color_postcard_516-387
 
 
Ein af fyrstu myndunum. 
 
 
 
 
230109main_S_000EFF_CYL_SR10CA8_R888M1_8799_516-387

 

Önnur landslagsmynd. 

 

 

aaz

 

High Resolution Imaging Science Experiment (HiRISE) myndavélin sem er um borð í gervihnettinum Mars Reconnaissance Orbiter (MRO) náði þessari mynd af Fönix á leið niður í fallhlíf á 400 km hraða. MRO var í 310 kílómetra fjarlægð frá Fönix. Sjá hér.  Ótrúlegt að tekist hafi að ná þessari mynd.

 

 

230862main_PSP_008591_2485_RGB_Lander_labeled_516-387

 

 HiRISE myndavélin í gervihnettinum Mars Reconnaissance Orbiter (MRO) náði þessari góðu mynd af lendingarstaðnum daginn eftir lendinguna. 

 

 

PSP_008579_9020

 

 Makalaust góð mynd sem sýnir Fönix skjótast fram hjá gígnum Heimdalli á leið sinni að lendingarstað. Takið eftir stækkuðu myndinni í neðra vinstra horni. Sjá hér.

 

 

232970main_Sol004_weather_report_black_background_516-387

Fyrstu veðurfregnirnar frá Mars hafa borist frá Fönix. Vindurinn er mældur með vindmælinum sem Haraldur Páll Gunnlaugsson hjá Árósaháskóla átti þátt í að smíða.
Sjá hér. Sólarhringurinn á Mars kallast Sol. Sjá hér. Þetta er því veðurspá frá degi 2 (Sol 2) á Mars.

 

 

 Meira hér:  http://www.nasa.gov/phoenix

Leitin að lífi í himingeimnum: Astrobiology Magazine



Fönix geimfarið lendir á Mars á sunnudaginn með skurðgröfu og ´´hálf-íslenskan´´ vindhraðamæli... Myndir

pheonix_birdÞað er margt líkt með reikistjörnunum Mars og Jörðinni, en nú er orðið ljóst að fyrir milljónum ára voru þær mun líkari. Á Mars hafa líklega verið jöklar, ár og höf sem mótað hafa landslagið. Nú er þar eyðimörk sem líkist einna helst Sprengisandi.  

Þekking manna á náttúruöflum sem móta reikistjörnurnar hefur aukist verulega á undanförnum árum. Margt eigum við ólært og erum rétt að byrja. Menn eru að leita skilnings á mörgum fyrirbærum á yfirborði Mars, og óneitanlega hefur spurningin um líf á Mars leitað á vísindamenn og almenning um aldir.

Sunnudaginn 25. maí, skömmu fyrir miðnætti að íslenskum tíma,  lendir ómannað könnunarfar NASA, sem kallast Mars Fönix eða Mars Phoenix nærri norðurskauti Mars, eða á 68 breiddargráðu. Um borð í lendingarfarinu er eins konar skurðgrafa sem leita mun að ís í jarðvegi hnattarins og rannsaka hvort í honum er að finna lífrænar sameindir. Það er auðvitað mjög mikilvægt vegna mannaðra geimferða til Mars að vita af vatni þar.

Meðal fjölmargra vísindatækja um borð í geimfarinu verður vindmælir sem Dr. Haraldur Páll Gunnlaugsson frá Árósaháskóla í Danmörku hefur tekið þátt í að hanna og smíða. Þessi vindmælir er aðeins 20 grömm að þyngd, en ofurnæmur þar sem lofthjúpur Mars er hundrað sinnum þynnri en lofthjúpur Jarðar. Vindmælirinn er auðvitað danskur, en ekki beinlínis "hálf-íslenskur", - og þó, kannski smávegis Smile

Haraldur hélt mjög fróðlegt erindi á vegum Stjarnvísindafélags Íslands, Eðlisfræðifélags Íslands og Jarðfræðifélags Íslands þriðjudaginn 20. maí.  Sagt var frá helstu niðurstöðum úr leiðöngrum bandarísku og evrópsku geimferðastofnananna (NASA og ESA) til Mars á undanförnum árum og gefið yfirlit um stöðu þekkingar á hnettinum. Sérstaklega var fjallað um fyrirbæri á Mars sem eiga sér hliðstæður í náttúru Íslands. Helstu vísindatækjum Fönix geimfarsins var lýst og fjallað um niðurstöður þær sem búast má við að berist frá lendingarstaðnum á næstu mánuðum með áherslu á tækjabúnað þann sem Haraldur hefur tekið þátt  að þróa og smíða.

Haraldur hóf fyrirlesturinn með því að sýna loftmynd af Mars sem tekin var frá Evrópska geimfarinu Mars Express. Á þessari skýru mynd mátti sjá fjöll og dali. Þar næst sýndi hann loftmynd sem tekin var yfir Vestfjörðum. Það koma á óvart að landslagið var nánast alveg eins! Á Vestfjörðum eru fjöllin sorfin af jöklum svo ekki er fjarri að álykta að sama hafi átt sér stað á Mars.

Mjög fróðlegt er að heimsækja vefsíðu vinnustaðar Haraldar, The Mars Simulation Laboratory, við Árósarháskóla. Þar er meðal annars stórt hylki þar sem líkt er eftir lofthjúpnum á Mars þar sem loftþrýstingur er aðeins um 1/100 þess sem við erum vön, og hægt að framkalla vind af ýmsum styrkleika. Í þessu hylki var vindmælirinn prófaður við mismunandi aðstæður.

Ferðalag Fönix geimfarsins niður á yfirborð Mars tekur um 7 mínútur. Geimfarið kemur inn í lofthjúpinn á 20.000 km/klst hraða og birtist á himninum sem glóandi eldhnöttur. Hitaskjöldur kemur í veg fyrir að það bráðni upp. Þegar geimfarið hefur hægt hæfilega á sér opnast stór fallhlíf sem hægir enn frekar á farartækinu, en þar sem lofthjúpurinn er mjög þunnur dugir það ekki til. Skömmu fyrir lendingu er fallhlífin losuð frá og við taka eldflaugar sem stýra geimfarinu síðasta spölinn og lenda því vonandi mjúklega.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir og myndbönd sem lýsa þessu ferðalagi á ókunnar slóðir betur en fátækleg orð.

 

 


Phoenix-1

 
Fönix flýgur inn í lofthjúp Mars eins og eldhnöttur á 20.000 km/klst hraða.

 

 

Phoenix-2


Eldflaugar stýra farinu niður síðasta spölinn með sömu tækni og notuð var í tunglferðunum sem hófust árið 1969
.

 

Phoenix-3
 
Svona kemur Fönix til með að líta út á yfirborði Mars.
Vindmælirinn er efst á mastrinu vinstra megin.
(Stærri mynd með því að smella tvisvar á myndina). 

 

descomp
  
Svona lítur vindmælirinn út, næstum eins og vindpoki á flugvelli.
Myndavél sendi myndir af mælitækinu til jarðar meðan mælt er. Haraldur sýndi nákvæma eftirmynd af mælinum á fyrirlestrinum.
 
 
 
Leonardo
 
Leonardo da Vinci tók þátt í hönnun vindmælisins ...

 

 

Phoenix-4
 
Fönix geimfarið situr kyrrt á sama stað og getur ekki hreyft sig úr stað. Tilgangurinn er að skoða það sem er undir yfirborði reikistjörnunnar og leita að vatni og lífrænum efnum. Þetta er því nokkurs konar skurðgrafa.
Þega vetur skellur á næstkomandi ágúst hættir sólarrafhlaðan að vinna og síðan fer Fönix væntanlega á kaf í kolsýrusnjó og deyr drottni sínum... 

 

 

080514-mars-steps-02


Svona gengur lendingin fyrir sig.  Á 7 mínútum ráðast örlög þessa verkefnis sem kostar 420 milljón dollara. Ætli það séu ekki um 30 milljarðar króna.

Klukkan 23:53 að íslenskum tíma sunnudagskvöldið 26. maí ætti að vera ljóst hvort lendingin hafi heppnast.

 

 

 

80524-phoenix-ready-mars-landing_2

 
Fönix lendir skammt frá norðurpólnum, mun norðar en fyrri geimför. Þar hefur með mælingum fundist vatn undir yfirborðinu.

 

 

 

PIA09946_fig1

 Fönix lendir skammt frá stóra appelsínurauða gígnum Heimdalli.

 

 

 


Það er fallegt á Mars. Myndin er tekin úr Evrópska geimfarinu Mars Express.
Smella þrisvar á myndina til að sjá hana í mikilli upplausn.

 

 

 

 Nú er um að gera að skoða myndböndin hér fyrir neðan:

 

 
 
 
 
 
 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vefsíður:

The Mars Simulation Laboratory í Danmörku

Vefsíða NASA um Fönix

Vefsíða Arizona háskólans sem er leiðangursstjóri

Wikipedia um Fönix geimfarið 



Evrópska geimfarið Mars Express hefur tekið ótrúlega skýrar myndir af yfirborði reikistjörnunnar. Sjá hér.  Veljið Multimedia vinstra megin á síðunni
 
Vísindavefurinn: Hver var fuglinn Fönix?  

 

Bloggpistlar:

Jólastjarnan í ár er Mars. Eins og gyllt jólakúla.

Jeppaferð um óbyggðir plánetunnar Mars

 

 


Skýringin á hækkandi olíuverði

Olía

Eldsneyti hefur hækkað óheyrilega undanfarnar vikur og mánuði. Nú er komið í ljós að um er að ræða græðgi olíufélaga og fjárfesta sem kaupa bensín og olíu í miklu magni og skapa þannig skort sem hleypir verðinu upp. Geyma síðan eldsneytið, meðal annars á Íslandi, þar til verðið hefur hækkað og selja það þá á uppsprengdu verði.  Gróðinn er gríðarlegur, en það erum við neytendur sem blæðum.

Það eru fleiri aðferðir sem spákaupmenn nota. Sjá t.d. hér: ‘Perhaps 60% of today’s oil price is pure speculation’


Sé um spákaupmennsku að ræða, þá má búast við lækkun á næstu mánuðum. Sjá hér.

 

Sjálfsagt liggja svipaðar hvatir að baki hækkunar á verði matvæla í heiminum. 

 

 

Frétt Morgunblaðsins 16. maí 2008: 

46 milljónir lítra af bensíni fluttar úr landi

Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is

Um 46 milljónir lítra af bensíni, sem finnska olíufélagið Neste Oil hafði geymt í olíutönkum Olíudreifingar í Hvalfirði frá því í desember, voru í fyrradag fluttar áleiðis til Bandaríkjanna þar sem bensínið verður væntanlega selt með miklum hagnaði. Þar í landi hefur meðalverð á bensíni nefnilega hækkað um 27% á þessu tímabili, úr um þremur dölum fyrir gallonið í tæplega 3,8 dali.

Félagið leigði sjö af níu tönkum í Hvalfirði og í desember var bensíninu skipað þar upp til geymslu því Finnarnir höfðu ekki pláss fyrir það annars staðar. Ávallt var ætlunin að flytja það aftur úr landi.

Engu er hægt að slá föstu um raunverulegan gróða finnska fyrirtækisins af því að bíða með að selja eldsneytið en ef miðað er við útsöluverð á bensíni í Bandaríkjunum (sem er auðvitað ekki fyllilega sanngjarnt) er ljóst að gróðinn er mikill. Útsöluverð á 46 milljónum lítra af bensíni hefði verið um 36,5 milljónir dala í desember en í gær hefðu fengist um 46,5 milljónir fyrir sama magn.


mbl.is 46 milljónir lítra af bensíni fluttar úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitabylgja í uppsveitum í gær. Sumarið er komið.

Hitamælir 12-5-2008Um hádegið í gær fór hitinn í 21 gráðu við sumarbústað sem er ekki fjarri Geysi. Myndin af mælinum sem er í skugga norðan megin við húsið var tekin klukkan 13:50.

Í byrjun dags og fram eftir morgni var veðrið sæmilegt og hitinn aðeins um 12 gráður en rauk mjög hratt upp um hádegið.

Sjálfvirkur hitamælir Vegagerðarinnar sem kenndur er við Gullfoss, en er í reynd við Kjóastaði, fór þó aldrei hærra en í 15 gráður. Líklega er sá mælir í aðeins 3ja km fjarlægð, þannig að þessi hitabóla hefur verið staðbundin.

Veðrið annan í hvítasunnu var sannkallað sumarveður. Sól, logn og hiti yfir tuttugu gráður. Sumarið er komið!

 

 


Nemendur HR skutu eldflaug til himins. Myndir.

 

Hönnunarhópurinn

 Fjölmargar myndir eru vistaðar í vefalbúmi hér.

Mánudaginn 5 maí skutu nemendur við Háskólann í Reykjavík eldflaug til himins frá Vigdísarvöllum. Eins og við öll geimskot var mikil eftirvænting í loftinu. Flaugin náði 1397 metra hæð og hálfum hljóðhraða eða 170 metrum á sekúndu, sem jafngildir 620 km/klst.

Flaugin er um 2.5 metrar að lengd og er knúin áfram af 1.6 kg af KNER drifefni, en það er blanda af saltpétri og gervisykri. 

Eldflaugin var einstaklega vel smíðuð. Í henni var m.a. videomyndavél, staðsetningartæki og fallhlíf til að bera hana óskemmda til jarðar. Greinilegt var að allt var vel undirbúið því hópurinn vann fumlaust að því að gera flaugina klára fyrir skot. Hún hóf sig á loft á klukkan 14 eins og áætlað hafði verið og hvarf sjónum í skýin. Eftir nokkra stund mátti sjá hana koma svífandi niður úr skýjaþykkninu og berast undan vindinum þar til hún hvarf sjónum bak við fjallshlíð. Auðvitað urðu mikil fagnaðarlæti.

Til hamingju eldflaugasmiðir Wizard

 

Bloggarinn tók fjölmargar myndir sem eru vistaðar í vefalbúmi hér.  Best er að skoða myndirnar með því að velja "Slideshow". Hægt er að hlaða niður myndum í upplausninni 1600 pixel á breidd.

Á vefsíðu hönnunarhópsins honnunx.blogcentral.is eru allmargar myndir af flauginni.

Sá einnig vefsíðu Íslenska eldflaugafélagsins www.eldflaug.com

Umfjöllun í Kastljósi RÚV:
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4365670/2

Sjónvarp Morgunblaðsins:
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/05/05/eldflaug_skotid_a_loft 

 

Sjá einnig eldri pistla:

Íslenska Eldflaugafélagið mun skjóta á loft 2ja þrepa eldflaug í sumar

Geimskot Frakka á Íslandi 1964-1965... Iceland Space Center ... Myndir

 

 

 

Eldflaugin
 
Búúmmm... 

Myndir af sólinni sem teknar voru 2. maí með stjörnusjónauka

Myndirnar voru teknar í hádeginu 2. maí í Bláskógabyggð.  Notaður var Coronado PST sjónauki með ljóssíu fyrir Hydrogen-Alfa (vetnis-alfa).

Það er lítið spennandi að taka myndir af sólinni þessar vikurnar. Engir sólblettir hafa sést lengi. Eiginlega eru sumir farnir að hafa áhyggjur að þessari leti í sólinni því það gæti bent til hratt minnkandi virkni hennar á næstu árum. Sjá pistilinn Veruleg kólnun og skíðasnjór á næstu árum? frá 14. mars s.l.

Örþunn skýjaslæða gerði það að verkum að myndirnar urðu ekki alveg eins góðar og þær hefðu getað orðið.

Meira um sólina hér á Stjörnufræðivefnum. 

Áhugaverð vefsíða með nýjum myndum o.fl: SolarCycle24.com.  Þar er vel fylgst með breytingum í sólinni og fjallað um þær á auðskilinn hátt. Mjög fallegar nýjar myndir eru hér.

Sjá einnig vefsíðuna Storms from the Sun frá NASA.

 Sólin 2. maí 2008--#2-IMG_1303-Crop-600w

 

123

Sólin 2. maí 2008--#1-IMG_1316-Crop-600w 


Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 24
  • Sl. sólarhring: 145
  • Sl. viku: 247
  • Frá upphafi: 761644

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 225
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband