Hvernig styðja má við frumkvöðla og sprotafyrirtæki...

innovation.jpgÞar sem bloggarinn er alinn upp í litlu frumkvöðla- eða sprotafyrirtæki vill hann leggja fáein orð í belg í umræðuna um hvað gera má til að reisa við íslenska hagkerfið og skýra frá eigin reynslu.

Nokkrir bloggarar eins og t.d. Kjartan Pétur Sigurðsson hafa safnað fjölmörgum hugmyndum sem vinna má úr. Þannig hugmyndir eru mjög verðmætar á þeim erfiðu tímum sem eru framundan.

Reynsla fyrrverandi sprotafyrirtækis: Fyrirtækið Rafagnatækni, sem nú heitir RT ehf, var stofnað árið 1961. Ef til vill fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi. Það hóf starfssemi sína á að þróa búnað fyrir jarðeðlisfræðirannsóknir, svo sem segulmæla fyrir berg, geislamæla, jarðviðnámsmæla o.fl.   Þróaður var búnaður til að mæla ísskrið í ám, fjargæslu og fjarstýribúnaður til nota á hálendinu, vatnshæðarmælar fyrir ár og vötn, laxateljarar, hitaritar fyrir fiskiðnaðinn, ferskleikamælar fyrir fisk,  stöðuleikavakt fyrir skip, o.m.fl. Mest af framleiðslunni var fyrir innanlandsmarkað, en allnokkuð var flutt út. Smám saman breyttust áherslurnar. Meiri áhersla var lögð á hefðbundna verkfræðiþjónustu hin síðari ár, en fyrritækið hefur m.a. hannað og forritað mestallt stjórnkerfi virkjanana í Svartsengi og á Reykjanesi...

Sjá má sögu fyrirtækisins í hnotskurn hér, en þetta er gömul grein sem bloggarinn skrifaði fyrir allmörgum árum í tilefni fertugsafmælis fyrirtækisins og varðveitt er á vefsíðu RT-Rafagnatækni www.rt.is

 

Helstu erfiðleikarnir sem við var að etja voru þessir:

1) Kostnaður við markaðssetningu. Markaðssetning er mjög tímafrek og dýr. Ofviða litlum fyrirtækjum. Þessi þáttur er oft verulega vanmetinn. Líklega er þetta það sem mikilvægast er að bæta.

2) Lítill innanlandsmarkaður. Það er mjög gott að hafa sæmilega stóran markað í næsta nágrenni meðan verið er að þróa vöruna. Þróun tekur tíma og þá er mjög gott að vera í nánum tengslum við viðskiptavinina. 

3) Fjarlægð frá hinum stóra heimi þar sem hugsanlegir kaupendur eru í þúsundavís, en ekki bara í tugavís eins og hér. Markaðssetning getur því verið erfið og dýr.

4) Fjármagnið var ekki á lausu á árum áður. Yfirleitt varð að kosta þróun með því að reyna að tryggja sölu fyrirfram, eða nota eigið fé.

 

 

Hvað væri til úrbóta?

Aðeins neðar á síðunni er minnst á nokkra aðila sem veita frumkvöðlum og nýsköpunarfyrritækjum stuðning þannig að töluvert hefur þegar verið gert í þessum málum á Íslandi.

1) Við gætum örugglega lært mikið af þjóðum eins og Finnum sem lentu í kreppunni miklu um 1992 og náðu sér furðufljótt á strik aftur. Þess vegna gæti verið mjög ráðlegt að fá hingað til lands til skrafs og ráðagerða einhvern sem gjörþekkir málið og getur skýrt okkur frá því hvað tókst vel, og einnig og ekki síður, hvað tókst miður vel. Hugsa og skipuleggja áður en hafist er handa. 

2) Koma þarf upp öflugri stofnun sem aðstoðar fyrirtæki við markaðssetningu. Það er til lítils að framleiða vöru ef hún selst ekki. Markaðssetning er flókin og kostnaðarsöm og oft vanmetin. Nota þarf góða blöndu af fagfólki sem bæði kann markaðssetningu og einnig fólki þem þekkir vel vöruna sem verið er að markaðssetja og getur rætt á traustvekjandi hátt við mögulega viðskiptavini.

3) Koma upp tæknigörðum sem aðstoða við vöruþróun. Þeir mega gjarnan vera í góðum tengslum við háskóla.

4) Opinber og hálfopinber fyrirtæki og stofnanir þurfa að vera tilbúnar að gefa innlendum fyrirtækjum tækifæri til að koma með lausnir. Ekki kaupa allt frá útlöndum. Gefa mönnum tækifæri til að þróa og síðan endurbæta. Hugarfari innlendra aðila þarf að breyta; fyrsta val á að vera íslenskt!

5) Aðstoð við fjármögnun þarf að vera til staðar. Þörf er á "þolinmóðu" fjármagni því arður skilar sér seint. Stundum alls ekki.

6) Mikilvægt er að taka vel á móti öllum hugmyndum og vinna úr þeim. Notagildið blasir ekki alltaf við við fyrstu sýn. 

7) Vefurinn er allra góðra gjalda verður, en ekki má treysta of mikið á hann þar sem vefsíður í dag skipta jafnvel hundruðum milljóna. Vefsíður þurfa fyrst og fremst að hafa upplýsingagildi, vera aðgengilegar og skýrar.

8) Auðvitað kostar svona aðstoð mikið fé. Þetta fé þarf að miklu leyti að koma frá hinu opinbera og þar mega menn ekki vera nískir. Verið er að byggja upp nýja Ísland.

9) Muna að þeir fiska sem róa. Ekki aðrir. Ekki gefast upp þó á móti blási um tíma.

 

 

En...,   ýmislegt er þegar fyrir hendi, meira en margir vita af:

 

  • Nýsköpunarmiðstöð Íslands er með vefsíðuna www.nmi.is
  • Impra  er miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og lítil fyrirtæki. Impra er deild innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hefur skrifstofur í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði og Vestmannaeyjum. Hjá Impru er á einum stað hægt að leita aðstoðar um allt sem við kemur viðskiptahugmyndum og almennum rekstri fyrirtækja. Hægt er að leita til sérfræðinga á ýmsum sviðum um leiðsögn og upplýsingar varðandi mismunandi þætti hugmynda og reksturs. Jafnframt eru gefin út leiðbeiningarit og fylgst náið með því sem er að gerast hérlendis og erlendis fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. (Af vefsíðu Impru). Sjá hér.
  • Innovit er sjálfstætt starfandi nýsköpunar- og frumkvöðlasetur fyrir kraftmikið og metnaðarfullt fólk með góðar viðskiptahugmyndir. Megináhersla er lögð á að styðja við háskólamenntaða frumkvöðla og sprotafyrirtæki sem verða til innan íslenskra háskóla. Í því skyni hefur Innovit gert samstarfs- og þjónustusamninga við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst sem tryggir nemendum skólanna aðgang að þjónustu Innovit endurgjaldslaust, allt frá því að nám hefst og þar til fimm árum eftir útskrift. (Af vefsíðu Innovit). Innovit er með vefsíðuna www.innovit.is
  • Sprotafyrirtæki innan Samtaka iðanaðains. Sjá www.si.is  Hjá Samtökum iðnaðarins eru nokkrir starfsgreinahópar. Einn þeirra nefnist Sprotafyrirtæki. Hægt er að tengjast vefsíðu Sprotafyrirtækjahópsins hér.
  • Klak - Nýsköðunarmiðstöð atvinnulífsins er með vefsíðuna www.klak.is
  • Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er með vefsíðuna www.nsa.is.
  • Frumkvöðlasetur Austurlands er með þessa vefsíðu.
  • Frumkvöðlasetur Norðurlands er með þessa vefsíðu.
  • Frumkvöðlasetur Vesturlands er með þessa vefsíðu.

Fleiri ... ?

 

Undanfarið hefur oft verið minnst á "finnsku leiðina".  Á Íslandi erum við miklu betur undirbúin en Finnar voru á sínum tíma. Við eigum mörg stuðningsfyrirtæki og stofnanir, en það þarf að veita þeim meiri styrk og kraft án tafar. Þannig gætum við lyft Grettistaki á skömmum tíma.

 

 samsett_mynd1-_lit-_bla.gif

 

 

Hálfrar aldar gamalt sprotafyrirtæki:

Anticoincidence Scaler. Vandaður geislamælir.Hugsanlega vill einhver skoða sögu gamla frumkvöðla- eða sprotaftrirtækisins RT-Rafagnatækni sem er hér. Þar kemur fram hvað menn hafa verið að bralla á Íslandi í hartnær hálfa öld, þ.e. á sviði rafeindatækninnar. Þar kemur einnig fram hvernig svona fyrirtæki getur þróast með tímanum.

 Litla myndin: "Fyrsta verkefnið (1961) var framleiðsla á mjög vönduðum geislamælum (Anticoincidence Counter), líklega þeim nákvæmustu sem völ var á í heiminum, en þeir gerðu greinarmun á geislum frá sýninu og truflandi geimgeislum..."    Meira úr sögu fyrirtækisins hér.

Bloggarinn biðst forláts á hve textinn er tæknilegur sums staðar og þess ekki alltaf gætt að nota góða íslensku. Hann ber þess merki að vera að mestu afrit af erindi sem haldið var á 40 ára afmæli fyrirtækisins með myndasýningu.

 

Sagan sýnir hvað hægt var að gera fyrir hartnær hálfri öld. Nú er allt miklu auðveldara og því eru tækifærin mörg. Stuðningur við sprotafyrirtæki er töluverður, eins og fram kemur hér að ofan.

Framtíðin er björt ef við vinnum úr málum okkar af skynsemi. Munum bara að sígandi lukka er best og að bjartsýni er bráðnauðsynleg Smile

Sýnum nú hug, djörfung og dug....

    

--- --- ---

 

Marel hefur einbeitt sér að hátæknibúnaði fyrir  matvælaiðnaðinn.  Saga Marels.

 

Verum bjartsýn!




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Sæll Ágúst.

            Þökk fyrir þennan fróðlega pistil. Mér sýnist saga og Þróunarferill þessa fyrirtækis vera  skólabókardæmi um það  hverju hægt er að áorka þegar saman fara þekking og áræðni. Til hamingju með það
Sannarlega er þörf á því núna á þessum erfiðu tímum, sem  blasa við þjóðinni að hvetja menn til dáða, þar má enginn liggja á liði sínu. Ég hefi efasemdir um að risavaxnar álverksmiðjur með tilheyrandi hundruð milljarða skuldsetningu vegna stórvirkjana séu besti kosturinn í þeirri stöðu, sem þjóðin er núna.
Mig langar að nefna að á undanförnum áratugum munu lítil og meðalstór fyrirtæki í Þýskalandi og víðar í Evrópu,
sem veittu tiltölulega mörgum vinnu í hlutfalli við stofnkostnað hafa átt stærstan þátt í auknum hagvexti.
Hér á landi hafa menn með frumlegar hugmyndir í atvinnusköpun átt erfitt með að fá stuðning og margir gefist upp vegna þess að þeir hafa alstaðar rekist á veggi. Við þurfum nýja hugsun og eins og í ykkar dæmi þá er það menntun og hugvit sem er undirstaðan.

             Bestu kveðjur.   Þorvaldur Ágústsson.

Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 21:21

2 Smámynd: fannar

Svo er það Klakið, http://www.klak.is/ - nýsköpunarmiðstöð.

fannar, 9.11.2008 kl. 23:49

3 identicon

Kærar þakkir fyrir þetta, var einmitt að fara að leita að þessum upplýsingum. Og þetta blogg blasti við þegar ég opnaði tölvuna.

Mun nota mér þetta á morgunn þegar farið verður í að vinna að Draumnum.

Enn og aftur, kærar þakkir.

Kidda (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 23:53

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir upplýsingarnar Fannar. Ég bætti þessu inn í listann.

Ágúst H Bjarnason, 10.11.2008 kl. 05:59

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þorvaldur. Vonandi breytist hugarfarið núna og vonandi fá ný fyrirtæki meiri stuðning en áður. Á undanförnum árum hafa litið dagsins ljós allmörg frumkvöðlasetur og nýsköpunarmiðstöðvar. Vonandi verður tekið vel á móti öllum þeim sem þangað leita.

Ég minni aftur á hugmyndasafnið hans Kjartans Péturs Sigurðssonar hér.

Ágúst H Bjarnason, 10.11.2008 kl. 06:05

6 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæll Ágúst,

Takk fyrir fína samantekt og að vísa á síðuna hjá mér. Ég er víst búinn að vera á fullu í öðru og því ekki komist til að uppfæra og setja inn allt það nýjasta. Ég vona að það sé í lagi að fá að láni nokkra góða punkta til að bæta inn á listann hjá mér.

Varðandi álið, þá eru þar í gangi risaframkvæmdir sem soga í sig gríðarlega orku úr þeim fámenna "hátækni" mannskap sem við Íslendingar höfum yfir að ráða. Jafnvel frumkvöðlafyrirtæki eins og þú stofnar á sínum tíma leitar rólega yfir í arðvænlegri iðnað og framkvæmdir. Stórframkvæmdir gefa vel af sér á meðan þær eru í gangi, en þegar þeim líkur, þá fer að harðna á dalnum og mátti lesa t.d. grein frá ungri konu frá Egilsstöðum sem talaði um lífið á því svæði fyrir, á meðan og svo eftir framkvæmdir þarna fyrir austan. Hún benti á að hlutirnir væru því miður ekki í allt of góðum málum eftir að ALLAR FRAMKVÆMDIR VÆRU BÚNAR. Lítið þjóðfélag þolir ekki vel allar þessar öfgar og hagkerfið er í sífellu út og suður og núna síðast með hörmulegum afleiðingum.

Öguð og sígandi lukka er best og fer líklega best með mannfólkið. Vandamálið með allar þessar öfgakenndu stórframkvæmdir er að þær virðast blinda allt og alla, botnlaus vinna og peningar streyma í kassann út um allt og á meðan það er þannig, þá eru allir svo ánægðir og mestur sjálfur Fjármálaráðherra. Verst er að þetta eru SVONA framkvæmdir og skyndilausnir sem að stjórnmálamenn eru svo hrifnir af. Helst að það sé nógu stórt og mikið. Það er horft of mikið á fáar STÓRAR lausnir, orka, ál, fiskur og er síðasta útrás Íslendinga bankastarfsemi sem öll þjóðin var svo meðvirk í gagnrýnislaus eins og svo mörgu.

En varðandi þá stefnu sem Íslendingar hafa tekið, þá er þessi öfga-óhollusta hreinlega slæm. Núna er sem til dæmi orðið offramboð af jarðvinnuverktökum, vörubílaeigendum með dýra vörubíla og svo fullt af sérhæfingu sem tengist virkjanaútrásinni og stórframkvæmdum. En EF SÚ LEST STOPPAR SKYNDILEGA, þá hrynur öll spilaborgin með látum og mikið af dýrum tækjum liggja ónotuð. Hvað geta þá stjórnvöld gert? Aðeins eitt og það er að auka enn á hraðann í stórframkvæmdum því annars er fullt af aðilum verkefnalausir! Þetta fer að verða eins og með eiturlyfjasjúklinginn.

Því er líklega ekki óvitlaust að dreifa áhættunni meira. Vera meira allt í öllu og hreinlega mikið af smáfyrirtækjum með sem fjölbreyttasta framleiðslu. Slíkt kerfi er líklegra til að þola betur áföll eins og núna ríður yfir. Í Danmörku sem dæmi, þá er mjög hátt hlutfall í "Hátækni"- iðnaði, sjálfsagt er því öfugt farið á Íslandi. Jafnvel þitt fyrirtæki ætti að hafa það sem stefnu að leggja ákveðna prósentu í nýsköpun! En þá kemur á móti að þú vilt ekki vera að binda mannskap í tímafreku og kostnaðarsömu þróunardæmi. Sem er vel skiljanlegt. Hvað er betra en að selja mann út á tímann á 7 - 15.000 á tímann í heilt ár í botnlausa vinnu eða vera með botnlausan kostnað og greiða einhverjum sem er að þróa eitthvað sem svo engin veit hvort nokkuð kemur út úr? Líklega þurfa frumkvöðlar að fá svipaðan status og listamenn til að lifa af :)

Svo er það annað, ekki veit ég hvað snarlækkað álverð gæti haft áhrif á lán og skuldir Íslendinga. Spurningin er? Hvað má mikið útaf bera áður en stórt dæmi eins og Kárahnjúkavirkjun og þær fjárfestingar fari á hættulegt stig? Maður er búinn að heyra svo margar öfgar í báðar áttir að maður veit ekki hverju skal trúa lengur. Nýjasta dæmið er að Café Latte drykkja ferðamanna í Rvk 101 gefi meira af sér en það sem áliðnaðurinn skilur eftir sig í útflutningsverðmætum!

En eitt er víst, að þróun, hönnun og sköpun að ýmsu tagi hefur EKKI nokkurn séns á að lifa af í því samfélagi sem Íslendingar hafa rekið síðustu árin. Á meðan sumar atvinnugreinar búa við háa innkomu, þá drepur það á sama tíma aðrar greinar sem hafa ekki yfir sama fjármagni að ráða.

Það tala allir um hvað Marel sé flott og frábært í dag og svo búið, en það eru að verða 15 - 20 ár síðan það var. Hvað svo? Ég hefði viljað sjá fleiri slík fyrirtæki í dag. Þrátt fyrir mína menntun, þá er það því miður raunin að ég hefði líklega haft það betra ef að ég hefði fjárfest í skurðgröfu eða stórum vörubíl fyrir 10-15 árum síðan!

Kjartan Pétur Sigurðsson, 10.11.2008 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.12.): 13
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 764772

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband