Færsluflokkur: Menntun og skóli

Vestmannaeyjagosið: Fundust smáskjálftar í Eyjum dagana fyrir gos?

volcanic_islandÉg var staddur í Vestmannaeyjum dagana fyrir gos og rétt nýfarinn þaðan þegar gosið hófst.  Ég varð oft var við titring þessa vikuna og taldi hann vera af eðlilegum ástæðum, en það var ekki fyrr en skömmu eftir gos þegar ég var aftur þar á ferðinni að ég komst að raun um að ástæðan gat ekki verið sú sem mig hafði grunað. Þá kom mér í hug að um smáskjálfta eða gosóróa hefði verið að ræða. Það var svo ekki fyrr en 23. október 2000 að ég sendi Dr. Ármanni Höskuldssyni eldfjallafræðingi eftirfarandi tölvupóst, en hann var þá forstöðumaður Náttústofu Suðurlands í Vestmannaeyjum. Ég hafði þá skömmu áður hitt Ármann við Geysi og spjallað við hann um óskyld mál.  Hér fyrir neðan er hluti úr bréfaskiptum okkar. Svar Ármanns er mjög fróðlegt eins og vænta má.

(Ég vona að Ármann fyrirgefi að ég vitni í bréfaskriftir okkar, en eins og hann segir,  þá er gott að fá svona reynslusögur því þær geta komið að gagni síðar. Þess vegna væri gott að fá athugasemdir frá þeim sem kunna að segja frá einhverju í þessum dúr).

 

Sæll Ármann
...
Ég sá á síðu þinni http://www.nattsud.is  áskorun um að segja frá reynslu af eldgosum. Hér er ein stutt:

Ég var í Vestmannaeyjum alla vikuna fyrir gos og fór þaðan tveim dögum áður en ósköpin byrjuðu. Ég var að reyna að koma lagi á fjargæslubúnað vatnsveitunnar, en miðstöðin var staðsett í húsnæði símans og útstöðinn í dælustöðinni uppi á landi. Milli lands og eyja var notað VHF radíósamband.

Miðstöðin var tekin niður eftir að gosið byrjaði og sett aftur upp í kjallara ráðhússins eftir gos, og dvaldist ég þá aðra viku í Eyjum. Magnús var bæjarstjóri fyrir gos og Páll bæjartæknifræðingur.

Það sem mér hefur lengi þótt áhugavert varðandi vikuna fyrir gos er að hugsanlega hef ég orðið var við gosóróa eða smáskjálfta án þess að gera mér grein fyrir því þá.

Ég stóð í nokkra daga fyrir framan skápinn með fjargæslubúnaðinum og var að rekja merkin sem skiluðu sér ekki með sveiflusjá. Annað slagið fann ég titring í gólfinu eins og vél væri í gangi í húsinu. Þetta var mjög greinilegt og veitti ég þessu athygli nokkrum sinnum. Ég dró þá ályktun, að sjálfsagt væri þetta vararafstöð í kjallaranum sem verið væri að prófa, og fannst ósköp eðlilegt að svo væri í símstöð. Eftir að gosið hófst fór þetta að rifjast upp og mér komu í hug smáskjálftar.

Þegar ég kom til Eyja eftir gos og við vorum að setja búnaðinn aftur upp minntist ég á þetta við starfsmann símans. Hann kvað þetta ekki hafa geta verið dieselstöð, þar sem engin dieselrafstöð hefði verið í húsinu. Nú veit ég ekki hvort þetta er rétt hjá honum, en oft síðan hefur mér komið til hugar að þetta gætu hafa verið smáskjálftar og kvikan byrjuð að streyma upp. Ég veit ekki heldur hvort menn hafi orðið varir við þetta á mælum.

Sagan er stutt og kanski ómerkileg :-)

Bestu kveðjur

Ágúst Bjarnason 

 

--- --- ---

 

Sæll Ágúst og þakka þér fyrir síðast,
....
Saga þín af reynslu fyrir gos í Eyjum er mjög merkileg, einkum fyrir það að þú hefur verið að finna titring allt að viku fyrir gos. Ljóst er að tveim dögum fyrir gos var all mikið um smá kippi hér í Eyjum og gerðust þeir harðari eftir því sem leið nær gosi. Einna stekrastir voru þeir um 2 klst fyrir gos.

Skjálftar sem greindir voru á mælum fyrir gosið voru ávalt taldir eiga uppruna sinn á Torfajökulssvæðinu, en sá galli fylgdi gjöf Njarðar að aðeins voru tveir skjálftamælar í gangi á þessum tíma, skurðpunktar mælanna voru því tveir, annar í Torfajökli og hinn í Eyjum. Vegna þess að Torfajökull er mun virkara svæði en Eyjar var talið að þar ættu sér stað einhver kvikuumbrot. Menn komust að sjálfsögðu að því þegar að fór að gjósa að skjálftarnir tengdust allir Eyjum en ekki Torfajökli.

Það er ávallt gott að fá svona reynslu sögur því þær geta til að mynda gefið okkur von um að með því mælaneti sem uppi er í dag getum við séð fyrir kvikuhreyfingar hér í Eyjum með allt að viku fyrirvara. Fyrirvari eldgosa er þó mismunandi á milli eldstöðva. Þannig er til að mynda Hekla eitt af undrum heims því hún verður ekki skjálftavirk fyrr en nokkrum mínútum fyrir gos.

Bestu kveðjur ...

Ármann.

 

Eftir 35 ár er mér enn í fersku minni  titringurinn sem ég fann fyrir annað slagið, en er ekki ennþá viss um ástæður hans.  Fróðlegt væri að frétta hvort fleiri telji sig hafa orðið vara við svipaðan titring og hér er lýst.


Gömlu góðu vindstigin.

 

Francis BeaufortMargir eiga erfitt með að venja sig við mælieininguna metra á sekúndu (m/s) fyrir vindhraða og líkar best við gömlu góðu vindstigin. Af einhverjum ástæðum skynjar maður miklu betur hvað átt er við með gömlu einingunum en þeim nýju. Ástæðan er líklega sú að vindstigin taka mið af áhrifum vinds á landi og sjó.

Vissulega hefur gamli Beaufort skalinn fyrir vindstig ýmsa ókosti. Hann er ólínulegur og nær ekki nema upp í 12 vindstig, þó svo að menn hafi stundum framlengt hann upp í 14 vindstig eða jafnvel hærra. 

Til að tengja saman vindhraða (v) í m/s og vindstig (B) má nota þessa nálgunarformúlu:

  v = 0.836 B3/2 m/s

Það sem heillar bloggarann mest varðandi gömlu góðu vindstigin er tengingin við náttúruna. Með því að horfa í kring um sig og gæta að öldum á vatni, hvernig tré hreyfast, fánar blakta, o.s.frv., er hægt að fara nærri um vindstigin. Sjá töfluna hér fyrir neðan.

Gömlu góðu orðin logn, andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi, stinningskaldi, allhvasst, hvassviðri, stormur, rok, ofsaveður, fárviðri heyrast nú sjaldan, en oft er í veðurlýsingum sjónvarps talað um strekkingsvind, hvað sem það nú er. Getur verið að ástæðan sé sú að menn séu hættir að gá til veðurs, heldur láti nægja að sitja inni á kontór og lesa af stafrænum vindhraðamælum?

 

Mikið væri nú ánægjulegt ef veðurfræðingar notuðu þessar einingar jafnhliða, þ.e. metra á sekúndu og vindstig, eða að minnsta kosti orðin andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi, stinningskaldi ...  og þá samkvæmt hinni gömlu hefð.

Hvað finnst þér?   Vindstig,  m/s, km/klst eða hnútar, - eða m/s ásamt gömlu orðunum?

 

Gamli góði  skalinn fyrir vindstig er kenndur við Sir Francis Beaufort (1774-1857) sem myndin er af.

 

Samanburðartafla fyrir vindhraða.

Þumalputtareglur:
Deila með 2 í hnúta til að fá því sem næst m/s.
Deila með 2 í m/s til að fá gróft vindstig. Ónákvæmt þar sem Beaufort skalinn fyrir vindstig er ólínulegur.

VeðurhæðMeðalvindhraðiMiðgildi meðalvindhraða
VindstigHeiti og lýsing á áhrifum
m/skm/klsthnútarm/skm/klsthnútar
0Logn

0-0,2

< 1

< 1

0,00,00,0
1Andvari. Vindur hreyfir reyk. Gárur á vatni.

0,3-1,5

1-5

1-3

0,83,01,6
2Kul. Vindur finnst á húð. Lauf skrjáfa. Litlar smáöldur.

1,6-3,3

6-11

4-6

2,48,54,6
3Gola. Lauf og smágreinar slást til. Stórar smáöldur.

3,4-5,4

12-19

7-10

4,315,68,5
4Stinningsgola (blástur). Ryk og laus pappír fýkur til. Litlar greinar hreyfast. Litlar öldur.

5,5-7,9

20-28

11-16

6,724,113,0
5Kaldi. Minni tré svigna. Miðlungsstórar, langar öldur. Dálítið löður og úði.

8,0-10,7

29-38

17-21

9,333,618,2
6Stinningskaldi. Stórar greinar hreyfast. Erfitt að nota regnhlíf.  Stórar hvítfyssandi öldur og úði.

10,8-13,8

39-49

22-27

12,344,223,9
7Allhvast. Heil tré hreyfast. Erfitt að ganga móti vindi.  Sjór hrannast upp og löðrið myndar rákir.

13,9-17,1

50-61

28-33

15,555,730,1
8Hvassviðri.  Sprek brotna af trjám, Vindurinn tekur í bíla á ferð. Nokkuð háar hvítfyssandi öldur og særok. Löðurrákir.

17,2-20,7

62-74

34-40

18,968,136,8
9Stormur. Minni skemmdir á mannvirkjum. Háar öldur með þéttu löðri. Ölduhryggir hvolfast. Mikið særok.

20,8-24,4

75-88

41-47

22,681,343,9
10Rok. Tré rifna upp. Töluverðar skemmdir á mannvirkjum. Mjög háar öldur. Yfirborð sjávar er hvítt og haugasjór. Skyggni minnkar.

24,5-28,4

89-102

48-55

26,495,251,4
11Ofsaveður. Almennar skemmdir á mannvirkjum. Gríðarlega stórar öldur.

28,5-32,6

103-117

56-63

30,5109,859,3
12Fárviðri. Miklar almennar skemmdir á mannvirkjum. Risaöldur. Loftið fyllist af löðri og úða. Hafið er alveg hvítt. Mjög lítið skyggn

>= 32,7

>= 118

>= 64

.........

 


Er hægt að lækka yfirdráttarvexti um 33% ?

peningarSvarið er já, eða þannig...   

Margir hafa vanið sig á að vera með yfirdráttarlán í hverjum mánuði. Skulda tugi eða hundruð þúsunda um hver mánaðamót og greiða af því láni hæstu vexti sem eru á markaðnum. Freistandi er fyrir ístöðulausa að taka gylliboðum bankanna sem hljóma t.d. „Debetkorthafar geta fengið allt að 500.000 kr. yfirdráttarheimild án heimildargjalds".  Jafnvel eru í gangi tilboðsvextir fyrstu mánuðina. Fjótlega sökkva menn í skuldafenið og eru í mínus um hver mánaðamót. 



Vextir af almennum yfirdráttarlánum í dag eru um 24%. Bankarnir græða,  þú tapar.

 

Hvernig er þá hægt að greiða 33% lægri vexti?

Yfirdráttarlán eru sögð vera til að jafna út sveiflur.  Það er hægt að jafna út sveiflur á annan hátt.  Í stað þess að vera sífellt með að jafnaði tugi eða hundruð þúsunda í mínus, reynir maður að vera með samsvarandi upphæð í plús á reikningnum. Ekki á venjulegum debetkortareikningi, heldur innlánsreikningi sem gefur sæmilega vexti.  Með því að skoða vaxtatöflur bankanna er hægt að finna óbundna innlánsreikninga sem gefa t.d. 9 prósent vexti. Jafnvel meira. Munurinn á 24% yfirdráttarvöxtum og 9% innlánsvöxtum er 33%!   

 

Að snúa mínus í plús og njóta frelsisins: 

Með smá aðhaldi er hægt að greiða upp yfirdráttarlán og snúa mínus í plús. Greiða mánaðarlega inn á góðan innlánsreikning ákveðna upphæð, t.d. 10.000 krónur, og áður en maður veit af er þar kominn sjóður sem er jafnhár yfirdráttarláninu sem maður er að jafnaði með í hverjum mánuði. Þegar svo er komið er hægt að fara að huga að því að nota þann sjóð til að jafna út sveiflur, í stað þess að nota dýra yfirdráttarlánið. Það er ekki flóknara en þetta.   Vaxtamunurinn sem er 33% fer þá virkilega að vinna með manni .

Svo er auðvitað gott að halda áfram að greiða smávegis inn á hávaxtareikninginn í hverjum mánuði. Nota hluta af vaxtamuninum til þess. Þannig sígur innistæðan uppávið og smám saman myndast sjóður sem gott er að vita af. Skapar öryggi. Maður er orðinn frjáls!

 

Ráðgjafar bankanna geta örugglega gefið holl ráð í þessum málum, og fundið hentuga innlánsreikninga sem gefa góða vexti, og eru ekki með ákvæði um lágmarksupphæð eða bundnir til ákveðins tíma.  Þeir geta janvel aðstoðað þig til að finna sparnaðarleið sem gefur meiri ávöxtun en 9%. Ávinningurinn verður þá þeim mun meiri.

Með útsjónarsemi gætir þú hugsanlega náð enn meiri mun en 33%! 


Námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun fyrir börn og fullorðna

ic342_noao

 

(Formaður Stjörnuskoðunarfélagsins það mig um að koma eftirfarandi á framfæri).

Námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun fyrir fullorðna

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn standa fyrir tveimur námskeiðum fyrir byrjendur. Þau eru opin öllum þeim sem áhuga hafa á stjörnufræði og stjörnuskoðun. Þeir sem eiga sjónauka ættu að geta lært sitthvað um meðferð þeirra. Námskeiðin standa yfir í tvö kvöld en boðið verður upp á stjörnuskoðun að þeim loknum (þegar veður leyfir). Námskeiðin fara fram í Valhúsaskóla, á Seltjarnarnesi, þar sem Stjörnuskoðunarfélagið hefur aðsetur.

Dagsetningar:

  • 22.-23. janúar 2008 (og stjörnuskoðun 24. janúar ef veður leyfir annars síðar)
  • 5.-6. febrúar 2008 (og stjörnuskoðun 7. febrúar ef veður leyfir annars síðar)

» Lesa nánar / skráning á fullorðinsnámskeið

 

Námskeið í stjörnufræði fyrir börn og unglinga

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn standa fyrir tveimur námskeiðum í stjörnufræði fyrir börn og unglinga á aldrinum 9-13 ára. Með hverju barni skal koma einn forráðamaður. Á námskeiðunum verður fjallað um ýmislegt sem tengist himingeimnum auk þess sem börnum og fullorðnum býðst að heimsækja stjörnuverið. Hvort námskeið stendur yfir í 2 klst., þátttakendur velja annan hvorn daginn, en boðið verður upp á stjörnuskoðun að þeim loknum (þegar veður leyfir). Námskeiðin fara fram í Valhúsaskóla, á Seltjarnarnesi, þar sem Stjörnuskoðunarfélagið hefur aðsetur.

 

Dagsetningar:

  • Laugardagurinn 19. janúar 2008 kl. 14-16
  • Sunnudagurinn 20. janúar 2008 kl. 14-16
 
sedsm51a
 
Sjá bloggsíðuna Stjörnufræðivefurinn bloggar 

Himnaríki og helvíti

Jón KalmanEkki er ætlunin að fjalla um trúmál í þessum pistli, heldur bókina Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Bókina sem var kjörin besta íslenska skáldsagan árið 2007 af bóksölum.

Ég las bókina um jólin og er þetta ein allra magnaðasta bók sem ég hef lesið. Ég hef sjaldan lifað mig inn í skáldsögu eins og undanfarna daga. Bókin beinlínis dró mig inn á sögusviðið og leið mér stundum eins og ég væri viðstaddur. Jafnvel um borð í sexæringnum fann ég fyrir nístandi kuldanum. Þetta er bókin þar sem ljóð í Paradísarmissi er örlagavaldurinn mikli, og einn stakkur skilur milli lífs og dauða.

Textinn er einstaklega myndrænn og meitlaður. Persónulýsingar skýrar, og síðast en ekki síst er atburðarásin þannig að bókin heldur manni svo sannarlega við lesturinn. Bók sem vissulega er hægt að mæla með.

 

Í kynningu forlagsins segir:

"Sagan gerist fyrir meira en hundrað árum, fyrir vestan, inni í firði, á milli hárra fjalla, eiginlega á botni heimsins, þar sem sjórinn verður stundum svo gæfur að það er hægt að fara niður í fjöru til að strjúka honum.

Strákurinn og Bárður róa um nótt á sexæringi út á víðáttur Djúpsins að leggja lóðir. Þar bíða þeir fram á brothættan morgun eftir fiskinum sem hefur synt óbreyttur um hafið í 120 milljón ár. Þótt peysurnar séu vel þæfðar smýgur heimskautavindur auðveldlega í gegn. Það er stutt á milli lífs og dauða, eiginlega bara ein flík, einn stakkur.

Jón Kalman Stefánsson hefur þrisvar sinnum verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlanda: Fyrst fyrir bókina Sumarið bak við brekkuna, svo Ýmislegt um risafurur og tímann og nú síðast fyrir Sumarljós og svo kemur nóttin, sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2005".

 

Bloggaranum fannst það ánægjulegt að langafi hans kom við sögu framarlega í bókinni, en á bls. 19 er minnst á kennslubók Jóns Ólafssonar í enskri tungu. Um enskukver Jóns "English made easy" og "Vesturfara túlkur" er fjallað aftarlega í grein Steinunnar Einarsdóttur "Þegar Íslendingar fóru að læra ensku". Svo er það spurning hvort "Lárus sýslumaður" sem kemur oftar en einu sinni fyrir  í sögunni sé Lárus H. Bjarnason sem var um skeið bæjarfógeti og sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, þ.e. afabróðir bloggarans, en þetta eru nú bara persónulegar hugrenningar sem vöknuðu við lestur þessarar ágætu bókar.

 

Á vefsíðu útgáfufyrirtækisins Bjarts er skýrt frá nýlegu bréfi Gallimard útgáfunnar:

Þar segir svo m.a. í lauslegri þýðingu (leturbreytingar eru mínar):

Það er mér mikil heiður, fyrirgefið  mikil, mikill  heiður, að geta loks sagt ykkur að við hjá Gallimard höfum ákveðið að kaupa þýðingarréttinn á bók Jóns Kalmans Stefanssonar, Himnaríki og helvíti.  Jon Kalman er höfundur sem á heima á útgáfulista okkar. Hann er frábær viðbót fyrir okkur, fyrirtæki sem getur státað af að hafa gefið út helstu risa heimsbókmenntanna. Nú er komið að Jóni Kalman Stefánssyni. Þegar við hjá Gallimard tökum höfund um borð  þá er það til að fara í langa og skemmtilega siglingu. Útgáfan okkar er eins og glæst listisnekkja. Við siglum ekki í höfn fyrr en við höfum látið alla lesandi borgara Frakklands og helst allan heiminn  vita að Jon Kalman er eitt af stærstu nöfnum evrópskra nútímabókmenntanna.

 

Það er eitthvað mikið að gerast!  Gaman verður að fylgjast með Jóni Kalman á næstu árum.

Hver veit nema Leshringurinn taki fyrir einhverja af bókum Jóns Kalman í framtíðinni? Það væri áhugavert.


Stærsti stjörnusjónauki landsins og Stjörnuskoðunarfélagið

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er eina félag áhugamanna um stjörnuskoðun og stjörnufræði hér á landi og eru félagar í því um 150 talsins. Aðsetur félagsins er í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Uppi á þaki skólans er hvolfþak sem hýsir aðalsjónauka félagsins. Hann er af gerðinni JMI NGT-18 og er spegill hans 46 cm í þvermál.

NGT-18 (sjá mynd) er 18 tommu Newtonsspegilssjónauki frá bandaríska sjónaukaframleiðandanum Jim’s Mobile Incorporated. Þetta er stærsti og fullkomnasti stjörnusjónauki landsins en bræðurnir og velunnarar félagsins, þeir Ágúst og Sveinn Valfells, gáfu Stjörnuskoðunarfélaginu gripinn. Með þessari höfðinglegu gjöf vildu þeir Ágúst og Sveinn efla áhuga almennings á stjarnvísindum og stjörnuskoðun. Á sama tíma vildu þeir bræður minnast systur sinnar dr. Sigríði Valfells málfræðings, sem lést haustið 1998, sextug að aldri.

Félagið á einnig tvo aðra stjörnusjónauka. Annars vegar 10 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Meade og hins vegar 14 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Celestron. Sá hinn síðari er fyrsti sjónauki félagsins.

Saga Stjörnuskoðunarfélagsins nær yfir rúm þrjátíu ár en félagið var stofnað þann 11. mars árið 1976 og voru stofnfélagar tuttugu talsins. Fyrsti formaður félagsins var Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur. Núverandi stjórn Stjörnuskoðunarfélagsins skipa

  • Sævar Helgi Bragason, formaður
  • Grétar Örn Ómarsson, ritari
  • Kristján Þór Þorvaldsson, gjaldkeri

Stjörnuskoðunarfélagið er opið öllum áhugamönnum um stjörnuskoðun og stjörnufræði. Undanfarin ár hefur félagsgjaldið verið 2.000,- kr. á ári. Á hverju ári stendur félagið fyrir margvíslegum spennandi uppákomum og ber þar helst að nefna námskeið í stjörnuskoðun, útgáfu fréttabréfa, sólskoðun og stjörnuskoðun fyrir almenning auk ýmiss annars.

Þessar upplýsingar um félagið eru fengnar að láni af vefsíðu þess:  www.astro.is

Vefsíðan er mjög áhugaverð og er þar að finna ítarlegar upplýsingar um félagið, aðstöðu þess, sjónauka og starfssemi.

Bloggarinn hefur verið um árabil félagsmaður í Stjörnuskoðunarfélaginu og setið í stjórn þess um tíma.  Allir sem hafa ánægju af því dást að stjörnuhimninum ættu að íhuga það vel að gerast félagar. Það er vel þess virði.

Myndina tók bloggarinn skömmu eftir að sjónaukanum hafði verið komið fyrir í turninum, en síðan hefur aðstaðan þar verið endurbætt verulega.

 

Tenglar: 

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness: www.astro.is

Stjörnufræðivefurinn: www.stjornuskodun.is


2009 verður ár stjörnufræðinnar á 400 ára afmæli stjörnusjónaukans

galileo_sustermansÁhugaverð frétt er í Morgunblaðinu í dag. Þar segir meðal annars:

 

Árið 2009 verður alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar samkvæmt tillögu sem Ítalía heimaland Galíleós Galíleís sem samþykkt var á alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær.

...

Einar H. Guðmundsson prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands er formaður íslensku IYA2009 landsnefnarinnar og tengill hennar við alþjóðasambandið.

Hann segir af þessu tilefni:


„Hér á landi verður haldið upp á Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar 2009 með margvíslegum hætti. Meðal annars er fyrirhugað að bjóða almenningi að hlýða á fyrirlestra um það sem efst er á baugi í stjarnvísindum nútímans.

Mönnum mun einnig gefast kostur á fræðslu um stjörnusjónauka og þátttöku í stjörnuteitum þar sem stjörnuhiminninn verður skoðaður. Þá er verið að vinna úr hugmyndum um samvinnu stjarnvísindamanna og stjörnuáhugamanna við kennara og nemendur í skólum landsins.

Einnig er ætlunin að fræða landsmenn um sögu stjarnvísinda á Íslandi. Það er mikið ánægjuefni að Ísland skuli hafa stutt þessa tillögu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og þannig tekið undir það viðhorf að raunvísindi séu einn af hornsteinum nútíma samfélags."

 

Það rifjast upp að fyrir allmörgum árum störfuðum við Einar sem sumarmenn á Háloftadeild Raunvísindastofnunar hjá Þorsteini Sæmundssyni stjörnufræðingi, þar sem unnið var að rannsóknum á m.a. norðurljósum og segulsviði jarðar.

Myndin er af Galíleó Galíleí. 

Krækjur:

Stjörnuskoðunarfélagið

Stjörnufræðivefurinn

Vefsíða stjörnufræðiársins 2009 

 

Sjá fréttina í Morgunblaðinu:


mbl.is 2009 verður ár stjörnufræðinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsöm skólatafla

Það er stundum gaman að sjá hvernig tæknin breytist.  Einu sinni voru allar skólatöflur svartar, síðan grænar, svo hvítar, en nú hafa þær fengið furðu mikið vit. Þessi skynsama skólatafla er hreint ekki svo vitlaus. Eiginlega skarpgreind.  Hvort er þetta skólatafla eða töfratafla?

 Sjón er sögu ríkari...

 
 Sjá einnig vefsíðu hjá verkfræðiháskólanum MIT http://icampus.mit.edu/MagicPaper

« Fyrri síða

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 64
  • Frá upphafi: 766350

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband