Góð grein Styrmis í Sunnudagsblaði Moggans: "Við búum í sjúku samfélagi"...


 

moggi_logo-skuggaverkun.jpg

 

Styrmir Gunnarsson skrifar einstaklega góða grein í Sunnudagsblað Morgunblaðsins í dag 31. október. Ég er svo hjartanlega sammála, að ég tek mér bessaleyfi og birti hana alla hér fyrir neðan.

Vona að mér fyrirgefist að biðja ekki um leyfi. Ábyrgðarmaður þessa pistils þakkar Styrmi fyrir góða grein sem full ástæða er til að vekja athygli á. Ekki síst á greinin erindi til okkar sem skrifa bloggpistla.

Leturbreytingar eru á ábyrgð bloggarans og eru gerðar til að auðvelda lestur af skjá og um leið leggja áherslu á það sem bloggaranum finnst rauði þráðurinn í greininni.

Áður hefur verið fjallað hér um grein Kolbrúnar Bergþórsdóttur sem nefnist "Ætlarðu að segja af þér". Að sumu leyti er þar fjallað um hliðstætt efni og í grein Styrmis. Sjá hér.

Greinin Styrmis er hér á bls. 26 í Morgunblaðinu 31. október 2010 (Sunnudagsmogganum).

 

 

 

Við búum í sjúku samfélagi
sturmir_gunnarsson.jpgViðbrögð í Færeyjum við samkynhneigð vöktu athygli hér á Íslandi síðla sumars og spurningar um hvers konar samfélag hefði orðið til í því fámenni og einangrun, sem Færeyingar hafa lengst af búið við. Viðbrögðin bentu til lokaðs samfélags, þar sem umtalsverð þröngsýni ríkti. Síðar hef ég heyrt á förnum vegi, að mörgum ungum Færeyingum þyki erfitt að búa í því samfélagi og fylgja þeim óskráðu reglum, sem þar eru um samskipti fólks. Sumir þeirra leiti gjarnan á brott.
 
Við Íslendingar horfum til Færeyja úr fjarlægð og sjáum þess vegna kannski betur en þeir sjálfir styrkleika þeirra og veikleika. Viðbrögð Færeyinga við hruninu á Íslandi gleymast aldrei, alla vega ekki núlifandi kynslóðum Íslendinga. Slíkur var drengskapur þeirra.
 
En um leið er það áleitin spurning, hvort við sjáum ekki sjálf okkur með einhverjum hætti í færeysku samfélagi. Við erum líka fá, þótt við séum fleiri en Færeyingar. Við höfum líka lengst af búið við mikla einangrun, þótt hún hafi verið rofin hér eins og þar á seinni áratugum. Viðbrögðin í Færeyjum við samkynhneigð nú voru þau sömu og á Íslandi fyrir hálfri öld.
 
Sú spurning hefur leitað á mig undanfarin misseri, þegar ég hef fylgzt með umræðum hér á Íslandi um okkar eigin málefni, hvort við búum í sjúku samfélagi, hvort fámennið og sú hugmyndalega einangrun, sem við búum enn við þrátt fyrir öll samskipti út og suður, hafi sýkt samskipti fólks með svo alvarlegum hætti, að erfitt verði að brjótast út úr því.
 
Stundum fæ ég bréf frá fólki, sem ég þekki ekki, vegna skrifa minna hér í Morgunblaðið og að nokkru leyti einnig vegna skrifa á lítinn vefmiðil, sem við Björn Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, höldum úti um málefni Íslands og Evrópusambandsins og nefnist evrópuvaktin.is.
 
Þegar ég hóf skrif þessa pistils á fimmtudagsmorgni fékk ég bréf frá einum lesanda Evrópuvaktarinnar, sem kallaði mig og mína skoðanabræður í ESB-málum nánast »hyski«. Ég svaraði bréfinu kurteislega, kvaðst tilbúinn til skoðanaskipta og rökræðna um ESB og Ísland en það væri óneitanlega erfitt ef bréfritari liti á mig sem »hyski«, sem ætti að hafa sig á brott frá Íslandi. Til baka kom kurteislegt svar, sem sýndi að bréfritaranum var ofboðið vegna ástandsins í því samfélagi, sem við búum í, og átti erfitt með að sjá einhverja útleið og gerði sér alveg grein fyrir að eðlilegt væri að við töluðum saman á annan hátt, þótt skoðanamunur væri til staðar um Evrópumál.
 
Umræðuvenjur okkar Íslendinga eru vísbending um, að við búum í sjúku samfélagi. Við stöndum ekki úti í miðjum drullupolli, ef þá er einhvers staðar að finna, og köstum drullu í vegfarendur. En við gerum það ef við setjumst niður og skrifum greinar í blöð eða á vefmiðla, tölvupóst eða nýtum aðra þá samskiptatækni, sem nútíminn býður upp á. Af hverju þetta stöðuga skítkast í annað fólk? Af hverju er ekki hægt að ræða um sameiginleg málefni lands og þjóðar án þess að hafa uppi persónulegar svívirðingar um nafngreinda einstaklinga?
 
Vinsælasta fréttaefnið er um meintar ávirðingar einhverra einstaklinga. Vilji menn ná eyrum ljósvakamiðla sérstaklega en dagblöð ekki undanskilin er eina örugga leiðin til þess að nota nógu sterk orð um náungann. Bloggskrif eru kapítuli út af fyrir sig að ekki sé talað um nafnlaus bloggskrif. Þeir sem gera tilraun til að ræða um málefni út frá efnislegum forsendum en ekki á persónulegum nótum ná sjaldnast athygli.
 
Það er sennilega rangt hjá mér að telja umræðuhætti okkar vísbendingu um að við búum í sjúku samfélagi. Líklegra er að sá sjúkdómur sé staðreynd. Hann hefur búið um sig, vaxið og dafnað í fámenninu og myrkri hugans og brýzt fram með þeim hætti að það er einungis þriggja kosta völ: vaða út í drullupollinn og taka þátt í skítkastinu, draga sig í hlé og loka sig inni í eigin músarholu eða flytja af landi brott eins og margir ungir Færeyingar og Íslendingar vilja helzt gera.
 
Hér er um að ræða sálrænt vandamál heillar þjóðar. Þegar einstaklingur á við alvarleg sálræn vandamál að stríða hefur það áhrif á líðan hans og hegðun. Þegar heil þjóð á við slíkan vanda að etja hefur það sömu áhrif. Fólki líður illa og skeytir skapi sínu á náunganum og þjóðin sem slík kemst ekkert áfram, að ekki sé talað um að vinna sig upp úr öldudal af einhverjum krafti.
 
Það er orðið tímabært að við sem þjóð og samfélag ræðum þetta vandamál opið og af hreinskilni. Og gerum tilraun til að rífa okkur upp úr þeim farvegi, sem við erum í. Við getum hneykslast á þröngsýni og lokuðum heimi nokkurra Færeyinga varðandi samkynhneigð en það mundi skila meiri árangri ef við reyndum að gera okkur grein fyrir því að við höfum sjálf lokað okkur inni í lokuðum og þröngum heimi, sem er ekki frýnilegur þegar litið er inn í hann utan frá.
 
Gamall samstarfsmaður minn á Morgunblaðinu, Matthías Johannessen, sagði stundum að það yrði að stinga á kýlinu og hleypa greftrinum út. Það þarf íslenzkt samfélag að gera, stinga á kýlinu og láta gröftinn vella út.
 
Það er haft orð á þessu hér vegna þess, að sálræn hreinsun af þessu tagi er forsenda fyrir því að þjóðin nái sér á strik eftir hrun.
 
Getur RÚV ekki tekið upp vikulegan þátt, þar sem fjallað er um sálræn vandamál hins íslenzka samfélags, umræðuhætti þjóðarinnar og aðra ósiði og sjá, hvort slík umfjöllun getur ekki leitt okkur af braut sundrungar og mannorðsmorða til sátta og samstöðu?

 

 

 --- --- ---

 

Bloggarinn getur ekki annað en tekið undir þessi orð Styrmis
og vonar að fleiri séu sama sinnis...
 
 
Einnig er minnt á  þær reglur sem gilda um athugasemdir sem skrifaðar eru við þessa bloggpistla.
Aðeins málefnalegar athugasemdir sem skrifaðar eru án skætings og undir fullu nafni verða birtar.

Sjá reglur hér.

 


Bloggfærslur 31. október 2010

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 766365

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband