Eldgosið og HDR (High Dynamic Range) myndataka...

 

 

Eldgos 27. mars 2010, ÁHB

 HDR mynd
(Smella tvisvar á mynd til að stækka)

 

Við hjónin skruppum í Tröllagjá nærri fjallinu Einhyrningi til að virða fyrir okkur eldgosið síðastliðinn laugardag í ljósaskiptunum. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, en í þessum pistli ætla ég að kynna ljósmyndatækni sem getur, þegar vel tekst til, skilað einstökum myndum. Tæknin kallast   HDR, sem stendur fyrir High Dynamic Range imaging.

Myndin sem trónir efst á síðunni er tekin þannig, en er ekkert merkileg né sérstök að öðru leyti. Þar sem ég á hana til bæði sem HDR og venjulega, og þar sem eldgosið er á allra vörum, nota ég hana sem dæmi.

-

Skoðum nú myndina hér fyrir neðan. Hún er "venjuleg", nánast eins og hún kom beint úr myndavélinni. Þó hefur verið reynt að bæta hana smávegis með myndvinnsluforriti. Ekkert óvenjuleg sem slík. Myndin er þó miklu verri en ég upplifði myndefnið á staðnum, því ég sá landslagið og himininn vel.

Sólin var rétt komin niður undir sjóndeildarhringinn og rökkrið farið að skella á. Ég var ekki með þrífótinn, þannig að hristivörnin í 17-85mm linsunni fyrir Canon 400D myndavélina kom sér vel. Myndin er sæmilega skörp, en birtuskilin afleit.

Þegar maður tekur myndir við svona aðstæður er er erfitt að lýsa myndina rétt. Annað hvort verður himininn alltof ljós eða landið alltof dökkt. Oft er útilokað að ná hvoru tveggja rétt lýstu samtímis. Myndirnar verða leiðinlegar.

 


 Venjuleg mynd.
(Þetta er reyndar 1/3 af HDR myndinni).

 

Til að búa til HDR mynd eru teknar þrjár (stundum fimm) myndir af sama myndefninu, en með mismunandi stillingum. Ein myndanna er "rétt" lýst eins og myndavélin vill hafa hana, þ.e. myndavélin reynir að ná bæði landslaginu og himninum sæmilega lýstum, önnur er lýst mun lengur til að landslagið sjáist, og sú þriðja er lýst mun skemur til þess að skýin komi vel fram. Oft lýsir maður venjulega samkvæmt ljósmælingu, fjórfalt lengur (+2 stopp) og fjórfalt skemur (-2 stopp). Litlu myndirnar hér fyrir neðan sýna þessar þrjár útgáfur af myndinni. Sérstakt forrit er síðan notað til að fella þessar þrjár myndir saman. Ég notaði Photomatix Pro.

Best er að nota þrífót svo allar myndirnar verði eins, nota RAW (hægt með DSLR  myndavélum, gefur meira birtusvið en jpg), og nota sjálfvirkt "bracketing" sem lýsir sjálfkrafa myndirnar á mismunandi hátt. Það er þó hægt að ná góðum árangri á einfaldari hátt með vasamyndavél og jpg, án þrífóts. Það sakar ekki að reyna :-)

 

 

allar_eldgos_200w_edited-2.jpg

Myndirnar þrjár sem notaðar voru í HDR myndina sem er efst á síðunni.
Efsta er "rétt lýst" (í dekkra lagi), miðmyndin er undirlýst um 2 stopp, og neðsta myndin yfirlýst um 2 stopp. 

 

 

Til að fella saman þessar þrjár myndir í HDR er hægt að nota t.d. Photoshop Elements 8. Árangurinn verður þokkalegur. Bestur árangur næst þó líklega með sérhæfðu forriti eins og Photomatix.  Það er tiltölulega auðvelt og fljótlegt að fella myndirnar saman í HDR mynd, en þá tekur við smá nostur við að varpa myndinni svo vel sé yfir á birtusvið endanlegu myndarinnar, eða svokallað tone mapping.

---

Að lokum eru tvær myndir sem voru teknar af sólarlaginu í sömu ferð. Fyrri myndin er venjuleg, en síðari HDR. Hér gleymdi ég að stilla á RAW þannig að myndirnar voru jpg. Í þessu tilviki hefði jafnvel verið betra að taka fimm myndir í stað þriggja því sólin er ofurbjört. Það er ýmislegt að þessari HDR mynd, en hún sýnir hvernig hægt er að ná samtímis himninum, bjartri sólinni og bílunum sem koma akandi í rökkrinu. Skýin koma betur fram svo og landslagið í fjarska.

 

 


Venjuleg mynd

 

 
HDR mynd

 

---

Viðbót 4. apríl:

Smá tilraun innanhúss. 

 

img_2433.jpg
 
Venjuleg mynd
 
Allt of mikill birtumunur úti og inni. Landslagið fyrir utan gluggann sést ekki.
 
 
 
img_2434_1_2_3_tonemapped.jpg
 
  HDR mynd
Notaðar voru fjórar myndir lýstar 1/200 sek, 1/50, 1/10, og 1/3 sek. Ljósop f7,0. 100 ISO.
 
Landslagið fyrir utan gluggann sést jafn vel og skúmaskotin inni.
 
---
 
 

 

Þetta var aðeins lítilfjörleg kynning á þessari tækni sem gefur möguleika á miklu birtusviði, miklu meira en hægt er að ná á venjulegri mynd, hvort sem er á pappír eða skjá.

 

Ítarefni:

Wikipedia: High dynamic range imaging

Video sem sýnir hvernig nota má Photoshop Elements 8 til að búa til HDR myndir

Vefsíða sem sýnir hvernig nota má Photoshop Elements 8 til að búa til HDR myndir

Photomatix forritið

 Bloggsíða: HDR - Áhugaverð nýjung í ljósmyndatækni (Kjartan Sigurðsson)

 

 


 ---

 

 Hluti efstu myndarinnar. Takið eftir fólkinu efst á fjallinu

(Smella tvisvar á mynd til að stækka)

 

Nú er bara að prófa sjálfur HDR!   Nóg er til af kennsluefni á netinu...  Þetta er mun auðveldara en virðist við fyrstu sýn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta eru flottar og vel heppnaðar tilraunir. Verð að prófa þennan effekt við tækifæri.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.3.2010 kl. 22:48

2 identicon

Ég sá einhverja útgáfu af þessu á compact ultrazoom vél frá Sony (HX5v). Vélin tekur reyndar bara tvær myndir með örstuttu millibili og setur þær saman sjálf þannig að þú sérð bara eina mynd.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 31.3.2010 kl. 02:15

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Svo er líka sá möguleiki fyrir hendi að búa til sæmilega HDR mynd úr einni RAW mynd.

Ein aðferð er að nota fyrst RAW->JPG  converter til að búa til þrjú eintök, venjulegt, undirlýst og yfirlýst. Nota síðan HDR tæknina á þessar þrjár myndir. JPG mynd er aðeins 8-bita, en RAW er 12-bita og nær yfir meira birtusvið. Þannig HDR mynd er auðvitað ekki eins góð og mynd sem tekin er með mismunandi stillingum á myndavélinni, en vel þess virði að aðferðin sé prófuð. Photomatix getur gert þetta beint.

Ágúst H Bjarnason, 31.3.2010 kl. 08:17

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er geðveikt, verða að sýna kallinum mínum þetta.  Takk takk og gleðilega páska.

Ásdís Sigurðardóttir, 1.4.2010 kl. 23:37

5 identicon

Sælir.

Mér finnst "venjulegu myndirnar" sýna miklu betur hvernig hið mannlega auga skynjar hana. Þetta HDR er samt mjög athyglisvert og örugglega til að hjálpa vísindunum.

Kveðja

Druslari 

druslari (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.12.): 13
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 764772

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband