Eldgosið: Hvenær kemst flug á Íslandi í eðlilegt horf...?

 

 

icelandair_b757-800w-shadow.jpg

 

 

Nú þegar dregið hefur verulega úr gosinu vaknar sú spurning  hjá mörgum hvenær reikna megi með að flugið komist í eðlilegt horf.

Styrkur gossins er, skilst mér, aðeins um 1/20 eða 5% af því sem var þegar mest gekk á og er nú ekki meiri  en var í gosinu á Fimmvörðuhálsi. Auk þess eru gosefnin farin að hlaðast upp sem hraun í stað þess að rjúka upp í háloftin. Lítil aska kemur því frá gígnum.

Minnst af mistrinu sem sést hefur kemur beint frá gosinu, heldur er um að ræða eins konar sandfok eða rykmökk af þeim svæðum þar sem askan féll til jarðar meðan gosið var í hámarki. Er þannig mistur varasamara flugi en t.d. sandfok af hálendinu eða Mýrdalssandi, eða rykmökkur sem stundum berst á haf út frá Sahara?

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá "venjulega"  rykmekki frá Íslandi og Sahara. Ekki eru svona rykmekkir taldir varasamir flugi, en hvernig er með rykmökk frá nýfallinni ösku? Er hann varasamari en svona rykmökkur fá gömlum gosefnum eins og á Mýrdalssandi?

Fróðlegt væri að fá svar við þessum spurningum og öðrum sem kunna að skipta máli. Ef svifryk sem rýkur upp frá nýfallinni ösku er slæmt fyrir flugumferð, þá gætum við nefnilega átt von á miklum truflunum á flugumferð vikum og mánuðum saman, jafnvel þó eldgosinu lyki á morgun.   Svo vitum við að svona eldgos getur mallað mánuðum saman...

Er nokkur hætta á að menn séu að blanda saman skaðlitlu en hvimleiðu sandfoki (öskufoki) og hættulegri ösku beint frá eldgígnum?

Hvar er þessar spár um útbreiðslu gosefna gerðar? 

Bloggarinn hefur alls ekkert vit á þessum málum, en þykist vita að spurningin um hvað þurfi til að flugbanninu verði aflétt brennur á vörum margra...

 

 

 

iceland_dust_2002028_lrg--b.jpg

 

Rykmökkur frá Mýrdalssandi

 Myndin er frá 28. janúar 2002

 

 

duststormsahara2000.jpg


Rykmökkur frá Sahara

 Myndin er frá 26. febrúar 2000

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Réttmæt pæling Ágúst.  Hræddur er ég nú um að í þessu sé  búin að vera talsverð taugaveiklun.  Það var auðvitað miklu minna öskufall í Gjálpargosinu en ekki rekur mig minni til þess að þetta hafi komið til umræðu þá.

Þórir Kjartansson, 25.4.2010 kl. 17:28

2 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Hæð mökksins hlýtur að skipta hér máli. Í eldgosum verður mikið hitauppstreymi sem bera ösku með sér upp í yfir 10 km hæð. svipað gerist líka í miklum skógareldum þó það séu ef til vill smámunir í samaburði við eldgos. Foksandur af Mýrdalssandi eða Sahara kemst örugglega seint í þessa hæð.

Guðmundur Jónsson, 25.4.2010 kl. 18:53

3 identicon

Kæri Ágúst,

Þar sem ég hef ekkert vit á þessu leyfi ég mér að setja eftirfarandi fram:

  1. Mér skilst að flugbannsvæðin í Evrópur séu sett af Bretum sem styðjast við loftdreifingarlíkön. Það best ég veit hafa engar reglulegar mælingar verið gerðar á gjóskustyrk í háloftunum yfir og í grennd við Ísland. Sé þetta rétt er óvissan væntanlega mikil. Veist þú til þess að "rykstyrkur" sé eða hafi verið mældur reglulega. 
  2. Ég veit ekki til þess að um borð í flugvélum séu "ryknemar". Séu þénugir rykagnanemar til ættu þeir þá ekki að vera í þotunum?
  3. Ég reikna með að þotuhreyflar séu misnæmir fyrir því hvers konar ryk er á ferðinni. Hafi ég skilið rétt þá er kvikan undir Eyjafjallajökli ísúr og/eða súr, sem þýðir væntanlega að bræðslumark gjóskuagnanna er frekar lágt eða um 1000 C°. Þar sem hitastigið í brunakönnum þotuhreyflanna er um og jafnvel yfir 1000 C°  er hætta á að agnirnar bráðni og geri af sér óskunda í brunakönnunum og í heitasta hluta túrbínunnar.
  4. Hver eru viðbrögð flugmanna við gjósku verði þeir á annað borð varir við hana, hvað stendur í handbókinni? Verði flugmenn varið við gjósku ættu þeir þá ekki að draga af hreyflunum til að lækka hitastigið í þeim þó svo vélin missi hæð og leita leiða út úr gjóskunni?
  5. Efnasamsetning ryksins, kornastærð þess, þéttleiki þess, hæð þess, raki  og vindstyrkur skiptir allt máli þegar meta á hættuna. Hvernig er tekið tilllit til þessara þátta í áhættumati Bretanna?

Kærar kveðjur,

Albert   

Albert Albertsson (IP-tala skráð) 25.4.2010 kl. 20:19

4 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Góð og þörf pæling. Oft er vitnað til B747 vélar sem flaug inn í sjálfan gosstrókinn í nýhöfnu gosi  í Indónesíuí niðamyrkri. Sú vél var sem sandblásin og ónýt eftir atburðinn. Samt tókst að koma hreyflunum aftur í gang, þótt hún lenti í skýi sem var svo þykkt að vart sá á hönd sér. Engin flugvél,  jafnvel bíll stenst slíkt. Þessu er nú verið að rugla saman við það ryk og sand, sem ávallt er til staðar að einhverju leyti og við þekkjum m.a. sem mistur og rykmengun hér í Reykjavík í norðaustanáttum. Viðbrögð yfirvalda virðast hafa verið nánast krampakennd og einkennst af öfgum, ef ekki beinlínis móðursýki.

Vilhjálmur Eyþórsson, 25.4.2010 kl. 20:54

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Albert.

Ég hef auðvitað ekkert vit á þessu frekar en þú

Ég var einmitt að velta fyrir mér hvort gjóskustyrkurinn hlyti ekki að hafa minnkað verulega.  Ef styrkur gosins er orðinn aðeins 1/20 af því sem mest var (minnir að jarðfræðingur hafi sagt það), og segjum að 95% gosefnanna fari nú í að mynda hraun og því 5% (1/20) í að mynda ösku, þá ætti öskumagnið aðeins að vera 1/400 af því sem það var í byrjun (1/20 x 1/20 = 1/400).

Auðvitað eru þessar tölur hreinar ágiskanirog alveg út í bláinn, en settar fram til að skýra hvað ég er að meina.

Ég veit ekki til þess að reynt hafi verið að mæla gjóskumagnið í háloftunum. Ætti það ekki að vera tiltölulega auðvelt?  Svifryk er mælt víða um land með því að draga loft í gegn um fíngerðar síur og þær síðan rannsakaðar. Það ætti að vera auðvelt að koma þannig búnaði fyrir í flugvélum, hefði ég haldið.

Þú segir nokkuð varðandi viðbrögð flugmannanna. Ætli nokkuð standi um þetta í handbókum?

Varðandi áhættumat Bretanna...  Líklega eru þau unnin í tölvulíkönum, en slík líkön hafa miklar takmarkanir, þó góð séu. Það er alltaf nauðsynlegt að framkvæma mælingar og kvarða slík líkön, eða rétta þau af. Þess vegna hlýtur að vera mikilvægt að reyna að framkvæma mælingar í háloftunum. Hver veit nema slíkir mælar verði staðalbúnaður í flugvélum innan skamms?

Annars hefur Haraldur Sigurðsson verið með fróðlegar pælingar um þessi mál á bloggsíðu sinni vulkan.blog.is

Í The Wall Street Journal er grein um hvernig menn standa að verki í Alaska, og jafnvel mæla.

Áhugaverð  grein frá NASA.

Útskýring CAA: Why it took six days to reopen the skies after the volcano erupted.

 BBC: Was the flightban necessary?

Ágúst H Bjarnason, 25.4.2010 kl. 21:14

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Vilhjálmur. Það er auðvitað gríðrlegur munur á því að lenda beint í hnausþykku gjóskuskýi þar sem vélarnar koma út sandblásnar, og útþynntri ösku sem er mánast nánast ósýnilegt mistur. Trúlega stafa þessi harkalegu viðbrögð að einhverju leyti af því að menn hafa verið alveg óundirbúnir og ekki verið búnir að hugsa til enda hvernig eigi að bregðast við, hvar mörk styrks gosefnanna liggur, og ekki verið tilbúnir með mælibúnað, þ.e. hvorki einfaldar síur né Lidar.

Ég var einnig í pistlinum að velta fyrir mér hvort menn væru etv. að blanda saman ryki sem fýkur af yfirborði jarðar nærri gosstöðvunum, og gosösku sem stígur beint upp frá gígnum. Ég held að mistrið sem sást á suðvesturlandi á laugardaginn hafi að langmestu leyti verið gömul aska sem var að fjúka til. 

Ágúst H Bjarnason, 26.4.2010 kl. 06:03

7 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Alltaf gaman að detta inn á blogg þar sem menn ræða málin af áhuga, án heiftar og jafnvel skíkasts á þá sem eru á önverðri skoðun, er búinn að sjá ótrúlega mikið slíkt um meira að segja þetta mál ??!!

En er búinn að vera kíkja á eitt og annað tengt þessu og sé að aðrir hafa lagt sig fram í upplýsingasöfnun, svo mig langar bara að bæta mínum "slóðum" við t.d. hér: http://savaa.nilu.no/ þar sem fjallað er vísindalega um þetta, svo er annar í textanum hér undir (tekið úr eldra bloggi hjá mér) 

Svona er þetta byggt upp í dag sbr svæðin hér : http://www.metoffice.gov.uk/aviation/vaac/ og er svæðið London VAAC það sem snýr að Íslandi, og vest/norður Evrópu ásamt hafsvæðum, það er mikið í gangi núna til að betrumbæta upplýsingastreymið svo og tækni mælibúnaðar svo betur gangi að segja til um hvar og hvort öruggt sé að fljúga, en þetta er eitt "þéttasta" flugsvæði í heiminum, svo á meðan vitneskjan er ekki betri en hún er í dag, verða menn að láta öryggið sitja í fyrirúmi

Kristján Hilmarsson, 26.4.2010 kl. 11:13

8 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Kærar þakkir Kristján.

Ég er miklu fróðari en í gær þegar ég vissi nánast ekkert um málið.  

Ágúst H Bjarnason, 26.4.2010 kl. 12:29

9 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Ekkert að þakka bara gaman "Maður lærir svo lengi sem maður lifir" stendur einhversstaðar, og svo líka þetta "því meira sem ég læri, því betur sé ég hvað lítið ég veit" 

Er búinn að læra helling sjálfur á síðustu dögum um einmitt þessi mál ofl.

Kristján Hilmarsson, 26.4.2010 kl. 13:25

10 identicon

Það er ekki bara athyglisvert og mikilvægt að vita hvers vegna drapst á hreyflum breiðþotunnar 1982 heldur einig hvers vegna tókst að koma þeim í gang eftir langt svif í átt að jörðu.

Mér sýnist enginn hafa fjallað um þetta hér og mér finst þetta mög áhugavert svo ég leyfi mér að rekja það.

Þegar eldfjallaaskan kemur inn í brumahólfið þar sem er allt að 1200 gráðu hiti bráðnar hún og sest sem glerklessur á veggi og blöðkur. Ef nóg er af þessu þá missir hreyfillinn afl og drepst loks á honum.

Glerið kólknar og maður skildi ætla að þar með væri úti um málið en svo er þó ekki.

Þegar drepst á honum fer að streyma kallt loft inn í brunahólfið og kælingin er hröð. Það er einmitt það sem bjargar málum því við of snögga kælingu þá mlnar glerið og smám saman hreinsast nóg af því svo hægt er að gangsetja hreyfilinn aftur.

Í glerverksmiðjum er glerið eftir mótun einmitt sett í sérstakan ofn til þess að kæla það hægt því annars springur það og molnar.

Bragðið er sem sagt að drepa á sem fyrst og láta sig svífa í kalda loftinu niður eða út úr öskunni.

Hér er myndskeið frá BBC með sýnikennslu á fyrirbærinu: http://www.youtube.com/watch?v=YJzenWOva0Y

Björn Geir Leifsson (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 11:14

11 Smámynd: Ágúst H Bjarnason


Sæll Björn Geir.

Takk fyrir að senda þetta myndskeið. Ég sá það einhvers staðar um daginn, en mundi ómögulega hvar. Það gæti einmitt vel hafa verið á BBC stöðinni sem ég sé í Fjölvarpinu.

Albert var í athugasemd #3 að velta fyrir sér hvort hægt væri að lækka hitastigið í hreyflunum niður fyrir bræðslumark gosagnanna með því að hægja á þeim verði menn varir við óvænt öskuský. Koma þannig í veg fyrir frekari glerhúð áður en hreyfillinn stöðvast. 

(Albert er einkar fróður um stórar túrbínur (~100.000 hö) og SiO2 útfellingar í þeim. Reyndar við heldur lægra hitastig, þ.e. undir bræðslumarki öskunnar).

Ágúst H Bjarnason, 27.4.2010 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.12.): 13
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 764772

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband