Nú er mjög mikilvægt fyrir þjóðarbúið að álversframkvæmdum í Helguvík verði ekki slegið á frest.

Nú skiptir miklu máli fyrir þjóðarbúið að staðið verði nokkurn vegin við áætlanir um framkvæmdir í Helguvík meðan það versta er að ganga yfir í efnahagsmálum þjóðarinnar.  Verði framkvæmdum slegið á frest um óákveðinn tíma munu afleiðingarnar verða mjög slæmar. Ráðamenn þjóðarinnar ættu því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða framkvæmdaaðila við að halda fyrri áætlun.

Fyrirsjáanlegt er gríðarlegt atvinnuleysi meðal  iðnaðarmanna, verkamanna og tæknimanna, og næstum öruggt að stór hluti þeirra mun leita sér starfa erlendis. Óvíst er að þeir sem fundið hafa atvinnuöryggi erlendis snúi aftur. Við vitum einnig að menning og listir verða illa fyrir barðinu á samdrætti.  Styrkir til menningarmála eru með því fyrsta sem fyrirtæki og einstaklingar spara. Þjóðin koðnar niður. Heilbrigðis- og menntakerfið er í hættu nú þegar þúsundir munu líklega missa vinnuna innan fárra vikna og mánaða.

Það er deginum ljósara að framkvæmdir, sem þegar eru hafnar vegna álvers í Helguvík og tilheyrandi orkuver, hefðu gríðarlega  jákvæð  áhrif á efnahag þjóðarinnar. Þetta er þó það lítill áfangi og óverulegur í samanburði við Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði að engin hætta er á ofþenslu.  Þetta er ekki meiri framkvæmd en svo að óþarfi er að flytja inn erlenda verkamenn. Íslendingar færu létt með að sjá um framkvæmdir sjálfir.

Þessar framkvæmdir, álver og orkuver,  gætu veitt vel yfir  1000 manns vinnu meðan á þeim stendur. Hönnuðum, iðnaðarmönnum og verkamönnum. Síðan skapast verðmæt störf til lengri tíma eftir að framkvæmdum lýkur. Margfeldisáhrifin eru veruleg.

Íslenskir tæknimenn eru fullfærir um að sjá um alla hönnun. Þeir hafa áður komið að slíkum verkum og staðið sig vel. Þeir fara létt með að hanna mannvirki, vélbúnað, rafkerfi og forrita öll stjórnkerfi. Hafa gert allt áður. Íslenskir iðnaðarmenn eru frábærir verkmenn, svo og almennir verkamenn. Líklega betri en þeir erlendu sem starfað hafa hér í uppsveiflunni.

Auðvitað hefur álverð snarlækkað á undanförnum vikum. Lækkað um því sem næst 35%. Það er þó enn hærra en fyrir nokkrum árum þegar menn voru að hefjast handa við að reisa álver í Hvalfirði og á Austurlandi. (Sjá myndina hér fyrir neðan). Á móti kemur að aðföng sem þarf til að reisa virkjanir og álver hafa einnig snarlækkað. Til dæmis hefur stál lækkað um 70% og kopar um 50%. Íslenskt vinnuafl hefur aldrei verið ódýrara og vinnufúsar hendur aldrei eins margar. Nú er því lag að reisa ódýr og hagkvæm mannvirki. Ólíklegt er að álverð haldi áfram að síga um ókomna mánuði og ár þrátt fyrir snögga dýfu. Öll él birtir upp um síðir. Töluverður viðsnúningur gæti hafa átt sér stað eftir 2-3 ár þegar framkvæmdum lyki.

Nokkur viðsnúningur í efnahagskerfi þjóðanna gæti hafist innan fárra vikna eða mánaða. Það er því mjög óráðalegt að  fresta framkvæmdum strax en viturlegra að fylgjast vel með hvernig málin þróast og nota vel tímann á meðan til að leita úrræða.

Auðvitað eru hugmyndir manna um álver mismunandi. Þau eru dýr og skapa ekki mörg störf til lengri tíma litið miðað við tilkostnað. Sumir vilja helst ekki vita af þeim, en nú er svo gríðarlega mikið í húfi að við verðum að sameina krafta okkar og gera allt sem í valdi okkar stendur til að tryggja að þessar framkvæmdir tefjist ekki. Núna má líkja álveri í Helguvík við blóðgjöf á gjörgæsludeild. Síðan tekur við endurhæfing og bati. Fái sjúklingurinn ekki rétta meðhöndlun í byrjun verður batinn hægur. Án blóðgjafarinnar er óvíst að sjúklingurinn héldi lífi. Endurhæfingin felst í því að byggja upp þjóðfélagið á nýjan leik með öðrum áherslum. Það tekur þó tíma því nauðsynlegt er að vanda til verka. Tækifærin eru mörg eins og t.d. Kjartan Pétur bendir á hér. Frumkvöðla þarf til, en þeir mega ekki hrökklast úr landi á næstu vikum og mánuðum. Í því liggur hættan.

Nú þegar verða ráðamenn þjóðarinnar að kalla saman nefnd vísra manna til að ráðgast við þá sem hyggjast standa að framkvæmd álvera og orkuvera. Leita þarf ráða til að hægt sé að fjármagna reksturinn eftir að bankarnir sem búið var að semja við um fjármögnun komust í þrot. Ríkisstjórnin þarf að beita áhrifum sínum til að liðka fyrir um lánveitingar.

 

Oft var þörf, en nú er virkilega nauðsyn.      Engan tíma má missa.

 

 

 

 

Þróun álverðs síðastliðin 10 ár. Takið eftir verðinu um það bil sem ákveðið var að ráðast í álver í Hvalfirði og á Austurlandi. Ætli það hafi ekki verið um 2002-2003. Heimild www.infomine.com

Þrátt fyrir dýfuna undanfarið getur álverðið ekki talist mjög lágt.

 

 

 

Hér er þróunin síðustu 6 mánuði þannig að auðvelt er að fylgjast með þróun síðustu daga.

Báðir ferlarnir uppfærast sjálfvirkt daglega. Sjá hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dofri Hermannsson

Nú er mjög brýnt að ekki verði öll virkjanleg orka á stóru landsvæði soguð inn í þessa einu verksmiðju. Skv. ársskýrslu HS 2007 hefur þurft að neita mörgum fyrirtækjum með orkuþörf 10-50 MW um orku. Það væri nær að veita orkunni í fleiri fyrirtæki, fleiri greinar. Það er nóg komið af einhæfum töfralausnum.

Dofri Hermannsson, 30.10.2008 kl. 12:12

2 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Er ekki alheimslánsfjárkreppa? Hvar ætti álrisinn að fá lán til framkvæmda og hvar ætti Landsvikjun að fá lán til virkjanaframkvæmda? Ætli margir séu tilbúnir til þess í miðri lánsfjárkreppu að lána til framkvæmda í iðnaði, sem býr nú við fallandi afurðaraverð?

Heldur þú að álrisinn liggi með þá peninga undir koddanum, sem þarf til að reisa þetta álver? Hversu líklegt heldur þú eiginlega að sé að þetta álver rísi áður en lánsfjárkreppan er búinn?

Sigurður M Grétarsson, 30.10.2008 kl. 12:57

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ágúst: Ég segi það einu sinni og segi það aftur og það er þyngra en tárum taki!

Við þurfum 15-20.000 manna atvinnuleysi áður en þessir "besservisserar" átta sig á hversu mikilvæg álverin í Helguvík og á Bakka eru.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 30.10.2008 kl. 15:47

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Guðbjörn.  Auðvitað megum við ekki gefast upp. Atvinnuleysi af þessari stærðargráðu sem þú nefnir blasir við á næstu árum. Þjóðin ræður einfaldlega ekki við slíkt öðru vísi en að stór hluti hennar flytji af landi brott. Er mönnum virkilega sama?

Álverð hefur farið lækkandi, en er víst að sú lækkun haldi mikið áfram? Álverð er enn hærra en það var það var þegar ákveðið var að ráðast í álverin á Reyðarfirði og í Hvalfirði, og auk þess er vinnuafl og aðföng jafnvel ódýrari en þá.   Vandamálið er fjármögnunin. Bankarnir þrír sem voru búnir að útvega fjármagn hættu starfssemi eins og allir vita. Takaist á einhvern hátt að útvega fjármagn er ekkert á móti því að halda áfram. Það gæti tekist einhverntíman á næstu mánuðum, og því er mikilvægt að gefast ekki upp. 

Hættan er sú að ef ákveðið verður að stöðva alveg framkvæmdir um óákveðinn tíma að þá verði erfitt að byrja aftur. Þess vegna væri miklu betra að fara sér hægt, jafnvel löturhægt á meðan mestu hremmingarnar eru að ganga yfir. Sjá svo til með hvort auka megi framkvæmdahraðann eftir einhverja mánuði...

Verum bjartsýn og leitum leiða til að bæta ástandið. Allir verða að hjálpast að við þá leit. 

Ágúst H Bjarnason, 30.10.2008 kl. 16:05

5 Smámynd: Rauða Ljónið

Álverð fer aftur hækkandi álfélögin hafa en áhuga að reisa álver, bréf í áliðnaði hefur hækkað nú í þessari viku.

Undirskriftum Hafnfirðinga er safnað vegna íbúakosninga um deiluskipulagið og að kosið verði á ný í bænum um það. Framkvæmdin sem um ræðir er upp á um 1.7 til 1.8 milljarða $ eða 207 til 210 milljarða íslenskra króna. Af þeirri upphæð stendur eftir um 60% eða 120 til 130 milljarðar króna í þjóðarbúinu. Þess má geta til samanburðar að lán frá IMF til íslenska ríkisins nemur 2.0 milljörðum $ og er íslenska þjóðin þegar farin að súpa seiðið af því með stýrivaxtahækkun upp á 6 % sem þeytti stýrivöxtunum í 18%.                                                                                                                                  

 Þessir 210 milljarðar er sú upphæð sem kemur í hlut verkefnisins í Hafnarfirði.

 

Dofri skrifar fyrir dökkrum dögum ,, Ekki skal lítið gert úr því að margir munu finna fyrir samdrætti nú þegar einu mesta þensluskeiði í sögu landsins lýkur. Hins vegar vegur ofbýður mér hinn harði hræðsluáróður  um yfirvofandi atvinnuleysi.”

Kaffihúsamussunnar félagar Dofra 101 RVK. Telja sig vera í sterkum andlegum tengslum  við náttúru Íslands þrátt fyrir að þekkja lítið til hennar af eigin raun, varla hafa gróðursett eitt einasta tré nema þá í foksandi. Skilja ekki hvernig málum er háttað úti á landsbyggðinni og landinu, Steingrímur J. er líklega einn af fáum í liði VG og Samfylkingarinnar og kaffihúsamussunnar 101 RVK, sem hefur komið út fyrir 101 Reykjavík og Litlu kaffistofunnar.Áhyggjur kaffihúsahópsins er hækkun á verði kaffihúsanna eins og meðfylgjandi skrif Dofra benda til. Kaffihúsin hafa hækkað verðskrá sína umtalsvert upp á síðkastið.      Cafe Latte   (tvöfaldur) hækkaði úr 360 í 390 hjá Te&kaffi, úr 350 í 380 hjá Kaffi Tári en kostaði 370 hjá Kaffi Hljómalind og hefur ekki hækkað.          Uppáhellt kaffi hækkaði úr 290 í 320 hjá Te&kaffi, úr 240 í 280 hjá Kaffi Tári en kostaði 300 hjá Kaffi Hljómalind og hefur ekki hækkað.           Súkkulaðikaka, ein sneið, hækkaði úr 490 í 590 hjá Te&kaffi, úr 530 í 580 hjá Kaffi Tári og úr 520 í 540 hjá Kaffi Hljómalind.             Ef við gefum okkur að tvær manneskjur ætli að hittast yfir kaffibolla og kökusneið. Önnur drekkur Cafe Latte en hin uppáhellt og hvor um sig fær sér kökusneið. Þá hefur þessi lúxus hækkað sem hér segir:          Hjá Te&kaffi úr 1630 í 1890 eða um 16%, hjá Kaffi Tári úr 1650 í 1820 eða um 10,3%
Kaffi Tár,  Cafe Latte  , Te&kaffi,  eru góð frumtök, og starfa  í þjónustugeiranum ( tertiay sectror) og í raun skapar það engar útflutningstekjur, en byggist m.a á innflutning (aðflutt hráefni, og að nokkru leyti tekjur sem ferðamenn leggja til við kaup á kaffi).  Aðrar tekjur sem Kaffi Tár fær eru frá fólkinu í landinu sem kaupir af því vörur og þjónustu.                                                                  
Halda mætti að hópurinn byggi í öðru sólkerfi, ,  Drepum niður atvinnuuppbyggingu á Húsavík. Drepum niður atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Þetta er sú klisja sem Samfylkingin og VG  sí og æ drepa  á, drepum niður atvinnu uppbyggingu á Húsavík og annar staðar á landinu við viljum eitthvað annað. Í yfir 42 ár hafa Íslendingar heyrt þessa bábilju frá kommanistum og Samfylkingu 101 RVK. eitthvað annað, eitthvað annað.Síðan þá hefur ekkert komið frá þessum flokkum til að byggja upp atvinnu og koma í veg fyrir atvinnuleysi á Íslandi. Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 30.10.2008 kl. 22:41

6 Smámynd: haraldurhar

    Ágúst eg er fylgjandi notkun raforku okkar til stóriðju, en ég er á móti því að raforkan okkar sé seld á hrakvirði, eins og hún er seld á í dag, samkvæmt mínum upplýsingum er söluverð raforku til væntanlegs álvers í Helguvík, hreint út sagt hörmung.   Við verðum að endursemja um raforkuverð til stjóriðju, og ef Norðurál treystir sér ekki til að greiða það orkuverð er gildir í okkar heimshluta, eigum við að leita að nýjum kaupendum orkunnar.  Það er ömurlegt að búa við það að orkuverð til stóriðju sé leyndarmál árið 2008, og í hinu orðinu erum við ábyrg fyrir glópsku stjórnvalda í stjórnun penginamála.  Þessum ósóma verður að linna.

haraldurhar, 30.10.2008 kl. 23:00

7 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. haraldurhar,  Það er al rangt hjá þér og ósatt að raforka til stóriðju sé seld á hrakviðri miða við forsendur á verðmætum roforkuverði er hún á góðu verði til stóriðju getur upplýst mig um þá 90 milljarða sem stóriðjan skilar í þjóðarbúið og hver stórhluti er orkuverð.

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 30.10.2008 kl. 23:12

8 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir góðan pistil Sigurjón.

Það er gleðilegt að heyra að hlutabréf í áliðnaði hafi verið að hækka undanfarið og hve mikill hugur er í Hafnfirðingum núna.

Sem betur fer eigum við í möguleika á að milda áhrifin af  fjármálahruninu með nýtingu raforku.  Sem betur fer eigum við enn bjartsýna og stórhuga menn. Því miður einnig úrtölumenn.

Jákvæðar fréttir eru að Robert Mundell nóbelsverðlaunahafi í hagfræði telur að það versta sé afstaðið og að viðsnúningur verði brátt í Bandaríkjunum. Evrópa sé reyndar enn í miðjum brimskaflinum. Ég gæti trúað að ástandið í Evrópu eig eftir að fylgja Bandaríkjunum og að botninum þar verði náð innan skamms. Sjá bls. 19 í Mbl. í dag.

Ágúst H Bjarnason, 31.10.2008 kl. 06:52

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þriðjungur fólks hefur hugleitt að flytja til útlanda vegna efnahagsástandsins á Íslandi. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Capacent Gallup framkvæmdi fyrir Morgunblaðið 27.-29. október síðastliðinn. Könnunin nær til fólks á aldrinum 18-75 ára, en á þeim aldri eru 217.000 Íslendingar. Af yngra fólki 18-35 ára hefur um helmingur hugleitt að flytja úr landi. Sjá Mbl. í dag, forsíðu og bls. 8.

Þetta eru hrikalegar fréttir, sem þurfa þó ekki að koma á óvart.  Í  þessum bloggpistli var einmitt minnst á að þriðjungur þjóðarinnar gæti fluttst úr landi.  Er það ekki yfirleitt duglegasta fólkið sem hefur sig í að flytja til annarra landa til að hefja nýtt líf?

Við verðum því að gera allt sem mögulegt er til að komast upp úr kreppunni á sem skemmstum tíma. Reyna að koma í veg fyrir að rjóminn af þjóðinni flytjist af landi brott. Í álverunum bíður vonandi tækifæri til þess.  Við megum þó ekki gleyma að leita annarra tækifæra.

Við megum engan tíma missa.

Ágúst H Bjarnason, 31.10.2008 kl. 07:06

10 identicon

EF VINSTRI GRÆNIR KOMAST AÐ Í STJÓRN ÞÁ VERÐA ENGAR FRAMKVÆMDIR HÉR OG SANNARLEGA EKKI BYGGÐ UPP ÁLVERR Í HELGUVÍK EÐA NEIN FRAMFÖR. ÞEIR ERU Á MÓTI TIL AÐ VERA Á MÓTI HEF ALDREI SKILIÐ ÞENNAN FLOKK ÞAÐ EINA SEM ÉG HEF HEYRT ER MÓTMÆLI. SAMKVÆMT ÞEIM ÆTTU VESTFIRÐIR AÐ LEGGJAST Í EYÐI ÞÁ MÁ EKKERT GERA ÞAR. VIÐ FJÖLSKYLDAN EIGUM LAND ÞAR OG BÚUM ÞAR OG VILJUM EKKI SJÁ VINSTRI GRÆNA ÞAR ÞESSA AFTURHALDSSEGGI

Guðrún (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 08:26

11 Smámynd: haraldurhar

Rauða Ljónið.

   Eg hef ekki forsendur til að segja þú segir ósatt, en ég hef leyfi til að setja afar hæpnar við fullyrðingar þínar varðandi raforkuverð, og jafnframt  hverjar eru nettótekjur v/framl. og útfl. á áli.   Eftir þeim bestu upplýsingu er ég hef er greitt ca 230 us$ á frl. tonn af áli í rafmagn.  Eg get ekki séð að orkusölutekjur okkar fari yrir 30 milljarða á ári, ef skoðaðar eru árskýrslur og þær takmörkuðu upplýsingar er ligga fyrir um orkuverðið.  Ég endurtek enn að það ótrúlegt að orkuverð skuli ekki vera upplýst, því miður tel ég að stjórnvöld og stjórnendur orkufyrirtækjanna skammist sín hversu lágt það er.  Eg blæs á að ekki megi greina frá þeim vegna samkeppnisstöður, ´því allir stærri álfraleiðendur heimsis vita upp á brot úr centi hvert raforkuverð okkar er í raun.  Gylfi það þýðir ekkert að vera sífellt að blaðra um hverjar nettótekur okkar eru afstóriðjunni. leggðu bara fram staðreyndir ef eitthvað á að vera marka hvað þú endurtekur sí og æ.

Heimsmarkaðsverð á áli er nú í dag 2058 dollarar og hefur það lækkað sem nemur 11 dollörum í dag, sérkennilegt að það skuli ekki vera leyndarmál.

haraldurhar, 31.10.2008 kl. 19:40

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála Ágúst

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.11.2008 kl. 13:56

13 identicon

Jájá álið reddar öllu! Ekki satt? Helguvík og Bakki sjá til þess að það verði ekkert atvinnuleysi og hagvöxtur ævintýralegur.

Hver kannast ekki við kauða eins og þig Ágúst sem hafa verið í því með innistæðulausum alhæfingum að tala upp húsnæðisverð, hlutabréfaverð og blessuð lífskjörin á íslandi. Og sjá! Hvar erum við stödd í dag?

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 00:19

14 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Eggert. Ég held að þú hafir ekki lesið pistilinn og sjáir ekki hlutina alveg í samhengi.

Við eigum von á 10.000 manna atvinnuleysi fljótlega eftir áramót. Helmingurinn verður jafnvel búinn að fá uppsagnarbréf fyrir jól. Reyndar er líklegra að fjöldi atvinnulausra á næsta ári verði nær 15.000. Svo slæmt er ástandið.

Segjum að álver í Helguvík ásamt nauðsynlegum orkuverum geti veitt um 2.000 manns atvinnu í tvö ár. Eitthvað yrði síðan um afleidd störf. Þá eru eftir 8.000 manns (13.000 ef hærri talan hér að ofan er réttari) sem eru atvinnulausir. Enginn "ævintýralegur hagvöxtur" því miður. Það munar þó auðvitað um störf fyrir 2.000 manns meðan það versta gengur yfir. Það finnst mér a.m.k.

Ég er hræddur um að atvinnuleysirbætur dugi ekki fyrir alla sem eiga eftir að verða atvinnulausir og víst er að mikill landflótti verður. Það eru þessi áhrif sem ég vona að hægt sé að milda með framkvæmdum eins og álveri.  Sumum virðist þó vera alveg sama.

Ágúst H Bjarnason, 2.11.2008 kl. 08:32

15 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæll frændi. Ég deili þínum sjónarmiðum öllum og styð þau. Nú eru veður válynd í pólitík og ekki virðast heilindi mikil´af hálfu Samfylkingar í ríkisstjórnarsamstarfinu ef fréttir eru sannar af leka þeirra í Fréttablað Jóns Ásgeirs varðandi vantraust á Davíð sem er beinn undirmaður forsætisráðherra. Ekki var Ingibjörg fyrr komin úr veikindaleyfi þegar boðskapurinn barst frá henni; Fyrst IMF og svo í ESB, þrátt fyrir að stjórnarsáttmálinn sé ekki um þetta. Og helsti fræðimaður Samfylkingarinnar er varaformaður Seðlabankans og formaður Fjármálaeftirlitsins.

Trúa menn því virkilega að Davíð eigi sök á ástandinu  vegna vaxtastefnu Seðlabankans sem er sú sama og IMF. En lögin  mæla skýrt fyrir um skyldu bankans til að vinna gegn verðbólgu. Skyldi Eggert Vébjörnsson halda til dæmis að Davíð beri meiri ábyrgð á bankahruninu en Gordon Brown ?

Hvað er að frétta af Hafnfirðingum með undirskriftirnar um álverið ?  Datt það uppfyrir ?

Og ingibjörg Sólrún sat sjálf í stjórn Seðlabankans sjálf frá 2001-2005 held ég þegar Jöklabréfin streymdu inn. Ég man ekki til þess að hún hafi þá talað fyrir gengisfellingu.

Það er auðvitað gaman að heimta kosningar þegar maður heldur að manns tími sé hugsanlega kominn til að salla aðra niður. En það þarf líka að stjórna í þessum krappa dansi. Það er ekki bara hægt að vera lausríðandi á þeirri leið. 

Mér skilst að VG vilji enga stóriðju og þeir vilji fremur samstarf við Noreg en ESB svo ekki áttar maður sig á því hvað Samfylkingin er að vilja með sífelldu ESB og Evrutali. En ég deili með þér áhyggjum af atvinnuleysinu sem hellist yfir. Það er meira en skelfiegt ef þúsundir neyðast til að flýja land vegna þess að hér er allt bjargarlaust. Jafnvel þó að Björk telji  að  sprotafyrirtæki leysi vandann þá er engin fljótvirk læning í því fremur en að fara að byrja á að uppfylla Mastricht skilyrðin til þess að komast í forgarð evrunnar.. Það er vont veganesti að elta mýrarljós í myrkrinu.  

Halldór Jónsson, 2.11.2008 kl. 22:15

16 identicon

Ertu gjörsamlega steinsofandi Halldór Jónsson? Ber Gordon Brown meiri ábyrgð á bankahruninu og krísunni hér á landi en Davíð Oddsson???????????

Hver stóð að því að koma á núverandi kvótakerfinu sem gerði það að verkum að tug- ef ekki hundruðum miljaðar var dælt inní íslenska hagkerfið.

Hver stóð  að því að einkavinavæða bankanna fyrir lítinn pening?

Hver stóð að því að gefa þeim lausan tauminn. T.a.m. með lækkaðri bindiskyldu.

Hverjir hafa verið steinsofandi og aðgerðalausir undanfarin eitt til tvö ár þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir bæði erlendra sem innlendra sérfræðinga.

Var það Gordon Brown.

Blessaður vaknaðu af þessum þyrnirósarsvefni þínum og reyndu að gera þér grein fyrir orsök og afleiðingu.

Þú ættir að hafa aldur og þroska til þess.

PS: ISG hefur verið steinsofandi rétt eins og hinir og ætti að fá reisupassann líka.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 22:58

17 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég setti inn nýjan feril sem sýnir þróun álverðs síðustu 6 mánuði, þannig að auðvelt er að sjá þróunina síðustu daga.

Báðir ferlarnir eru beintengdir við infomine.com þannig að þeir uppfærast sjálfkrafa.

Er botninum í álverði náð?

 

Ágúst H Bjarnason, 3.11.2008 kl. 08:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.12.): 14
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 764773

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband