Er bráðnun jökla virkilega okkur mönnum að kenna? Spyr sá sem ekki veit...

 

 

Fréttabréf Jöklarannsóknafélagsins er alltaf áhugavert. Í síðasta fréttabréfinu er fróðleg grein eftir Odd Sigurðsson jarðfræðing. Þar segir meðan annars: 

"Jöklar styttust á 37 mælistöðvum, 5 gengu fram og 1 stóð í stað. Jafnt og þétt
gengur á jöklana og eru þeir nú vandfundnir sem standa framar en þeir gerðu
fyrir um 4 öldum. Hvarvetna birtist undan jöklunum land sem menn hafa ekki
séð síðan í kaþólskum sið".

Auðvitað vaknar áleitin spurning. Hvernig var Ísland í kaþólskum sið? Hvernig í heiðnum sið? Hvernig aldirnar áður en landið byggðist? 

Hvernig má það vera að jöklar hafi verið minni þá en í dag?

Við teljum okkur vita að losun manna á koltvísýringi (CO2) á síðustu árum nemi um 0,01%, þ.e. hafi valdið aukningu úr 0,028% í 0,038% eins og velþekkt er,  eða með öðrum orðum, að mennirnir hafi bætt við einni sameind af CO2 við hverjar 10.000 sameindir andrúmslofts. Ef þessi eina sameind af 10.000 hefur valdið bráðnun jökla á síðustu áratugum, hvað varð þess þá valdandi að jöklar voru fyrirferðalitlir á öldum áður?  Skil ekki ... Halo

 

Þeir sem eru sannfærðir um að bráðnun jökla á síðustu öld séu okkur að kenna vinsamlegast rétti upp hönd...  

Einnig eru þeir beðnir um að útskýra hvers vegna jöklar voru svona litlir í "kaþólskum sið".  Var það ef til vill trúarhiti manna sem bræddi jökulinn?  Wink   

Er hætta á að jöklar fari að stækka aftur eins og þeir fóru að gera um siðaskiptin? 

Bloggarinn er forvitinn og vill gjarnan fá skýringar á þessum málum.  Það er alltaf óþægilegt að vera ekki viss í sinni sök, eða þannig...  (Ekki er verið að spyrja um hverju menn trúa, heldur um beinharðar staðreyndir).  Orðið er laust!  Smile

 

 

 Sjá Árbók Landgræðslu ríkisins 1995-1997

 

 

Kortið efst á síðunni er frá árinu 1772. Sjá hér.  Þar er Vatnajökull enn nefndur sínu forna nafni Klofajökull.

 

 

Ítarefni

Bókin Jöklaveröld - Náttúra og mannlíf  kom út haustið 2004. Hér er um að ræða mikið ritverk í ritstjórn Helga Björnssonar jöklafræðings sem hefur verið lengi í smíðum og er skrifað af fjölmörgum fræðimönnum á ýmsum sviðum. Bókin skiptist í 11 kafla og er meginviðfangsefnið náttúra Vatnajökuls og mannlíf við rætur hans.

Í bókinni kemur m.a. fram hið mikla hlýskeið sem ríkti á jörðinni, þegar jöklar voru litlir sem engir á Íslandi fyrir 6000 árum, síðan mikið kuldaskeið er jöklar mynduðust og stækkuðu ört, hlýskeiðið á landnámsöld þegar jöklar voru mun minni en í dag og þjóðleið lá yfir Vatnajökul sem þá nefndist Klofajökull, litla ísöldin þegar jöklar gengu fram og óðu jafnvel yfir bújarðir nærri Vatnajökli, og síðan aftur hlýskeið sem hófst eftir 1890, þegar jöklar tóku að hopa á nýjan leik. Sannkallaðar öldur aldanna. Hvað veldur?

Þetta er ein áhugaverðasta bók sem komið hefur út í langan tíma. Fróðlegt er að lesa um breytilega stærð jökla, hafís við Ísland, gróðurfar, veðurfar, efnahag og mannlíf. Meira um bókina hér.

 

 

 

„Á landnámsöld og fram eftir öldum voru jöklar hér sem annars
staðar á landinu langtum minni en nú er. Jökulhetta var á
Hnappafelli, eins og Öræfajökull var nefndur í öndverðu, og
skriðjöklar teygðu sig þar eitthvað niður eftir hlíðum. Vatnajökull
var til en langtum minni en síðar varð, hugsanlega að mestu skorinn
sundur í tvo eða þrjá jökulskildi, enda lengst af kallaður
Klofajökull. Meginskriðjöklarnir frá honum voru litlir í samanburði
við það sem síðar varð. Það sem við köllum einu nafni
Breiðamerkurjökul voru þrjár skriðjökultungur sem óvíst er
hvort náðu að renna saman neðan við Mávabyggðir en sú nafngift
náði þá einnig yfir Esjufjöll. Jökuljaðarinn hefur þá legið allt
að 15 kílómetrum innar en nú er en utan við var slétta sem verið
hafði sjávarbotn í ísaldarlokin. Drjúgur hluti þessarar miklu
sléttu hefur verið gróinn og skógivaxinn á köflum eins og múlarnir
beggja vegna og þar var víða allþykkur jarðvegur.“

                Árbók Ferðafélags Íslands1993. Hjörleifur Guttormsson.

 

 

 Í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar, 8. tbl. 2004,  er fjallað um jarðir sem farið hafa undir jökul.

 

 Hlýindin fyrir árþúsundi: Medieval Warm Period Project.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Ágúst

Mig langar að reyna að svara nokkrum af spurningunum sem þú varpar fram. Ekki er ég neinn sérfræðingur í þessum málum, frekar áhugasamur viðvaningur, en ég hef lengi haft áhuga á gróðurhúsaáhrifum og hugsanlegri hlýnun jarðar af manna völdum.

Í fyrsta lagi er að taka það sem þú bendir á, að hækkun frá 300 í 380 ppm bætir aðeins tæplega einni sameind af CO2 per 10.000 sameindir í lofti almennt. Þetta er ekki mikið en dugar þó, samkvæmt útreikningum, til að hafa nokkur áhrif.

Gróðurhúsaáhrifin sem slík eru ekki umdeild, þau hafa verið marg-reiknuð og staðfest. Jörðin okkar er 20 - 30 gráðum hlýrri í dag en hún ella væri án þessara áhrifa og væri því varla byggileg. Mælingar og útreikningar benda til þess að vatnsgufa sé völd að 50% gróðurhúsaáhrifa, 25% vegna skýja, 20% vegna CO2 og 5% vegna annarra lofttegunda.

Eða með öðrum orðum, þessar uþb 300 ppm af CO2 leggja til 4 - 6 gráður af núverandi gróðurhúsaáhrifum. Hækkun um 100 ppm ætti því eitt og sér að samsvara einhvers staðar á bilinu 1,3 til 2 gráður aukalega. Sú hækkun leiðir aftur til aukningar vatnsgufu (sem hefur víst þegar verið staðfest í núverandi hlýnunarskeiði) og þar sem vatnsgufa er miklum mun öflugri gróðurhúsalofttegund bætir hún nokkrum gráðum við einnig.

Skýjafar er auðvitað óljós þáttur, ský geta bæði kælt og hitað og hvorki aukning né minnkun í skýjafari hafa auðreiknanleg áhrif. Þó þykjast menn hafa mælt að aukin skýjamyndun vegna brennisteinsmengunar í iðnríkjum á seinni helmingi 20. aldar skýri þá kólnun sem varð milli 1940 og 1980 eða þar um bil.

Þú bendir réttilega á að hitastig hefur áður verið hærra á jörðinni, til dæmis var hér mun hlýrra eftir að síðasta ísaldarskeiði lauk. Það er í samræmi við þá hrinu ísaldar- og hlýskeiða sem gengið hafa yfir jörðina síðustu 3 milljónir ára eða svo. Þar áður var auðvitað enn heitara, ákveðin jarðsögutímabil hafa verið nærr 10 gráðum heitari að meðaltali og enn önnur miklum mun kaldari en síðasta ísaldarskeið.

Að mestu eru orsakir þessara hitasveiflna nokkuð vel skýrðar. Sveiflur í geislun sólar, staðsetning meginlanda (vegna hafstrauma og jöklamyndunar) og svo auðvitað mikil aukning eða minnkun gróðurhúsalofttegunda.

Sveiflur milli ísaldarskeiða og hlýskeiða undanfarnar 3 milljónir ára má skýra nokkuð vel út frá staðsetningu meginlanda ásamt sveiflum í útgeislun sólar. Þegar útgeislun sólar eykst, eins og gerðist við lok síðasta ísaldarskeiðs, byrja jöklar að bráðna og mikil aukning verður af CO2 í andrúmslofti. Hitastig hækkar mjög hratt og síðustu útreikningar sýna að aukning sólargeislunar og aukning gróðurhúsalofttegnunda (einkum CO2 og vatnsgufu) skila uþb. sitt hvorum helmingnum af þessari hækkun.

Þegar jöklar hafa hopað er CO2 magnið í hámarki og hitinn einnig. En CO2 fer strax að minnka og hitastigið að lækka. Einnig kemur að því að útgeislun sólar minnkar einnig. Því er það að hlýindaskeiðin byrja mun hlýrri en taka síðan að kólna jafnt og þétt. Okkar núverandi hlýindaskeið er reyndar nokkur undantekning, þar hafa verið ákveðnir hlýindakaflar, t.d. á síðari hluta miðalda.

Ein spennandi skýring er sú að áhrif mannsins nái mun lengra aftur en við höfum ímyndað okkur. Fyrsti hlýindakaflinn stenst nokkurn veginn á við það þegar akuryrkja breiddist hratt út um heiminn, einkum hrísgrjónarækt sem losar mjög mikið metangas. Landbúnaður eyðir skógum og losar mikið CO2 með því móti.

Sama væri þá uppi á teningnum við hlýindaskeiðið á síðari hluta miðalda. Fólksfjölgun var mikil frá upphafi miðalda og fram til um 1300, og m.a. fullbyggðist Evrópa á þessum tíma. Skógum fækkaði mikið og landbúnaður jókst stórum skrefum. Afleiðingin er hlýindaskeið sem entist fram að 1500. Mjög mikil mannfækkun á 14. öld, m.a. vegna Svarta dauða, leiddi til þess að gróðurhúsalofttegundir drógust saman og afleiðingin er "litla ísöldin" sem samkvæmt þessu væri þá hið eðlilega hitastig sem aðgerðir mannsins eru sífellt að leita frá.

Hlýnunin sem hefst að ráði við lok 19. aldar væri þá bein áhrif af iðnvæðingunni og bruna jarðefnaeldsneyta. Hækkunin hefur staðið nokkuð óbreytt, að undanskildum árunum 1940 til 1980, en útreikningar sýna að það má skýra með brennisteinsmengun eins og áður sagði.

Ef þessi kenning stenst sem ég hef lýst hérna þá eru áhrif af aukningu gróðurhúsaáhrifa trúlega mjög ofmetin. En hvað sem öðru líður þá er mjög erfitt að líta framhjá því að heimurinn er að hlýna og að aukning CO2 er eina líklega skýringin, og að sú aukning sé af mannavöldum.

Brynjólfur Þorvarðsson, 23.2.2009 kl. 20:39

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ágúst. Þú hefur væntanlega þínar skoðanir á þessu ef ég þekki þig þig rétt.

En eftir þetta langa svar hér að ofan vil ég koma að lítilli staðreynd: Það er stutt síðan litlu ísöld lauk þannig að jöklarnir eru í dag allt of stórir og ekki í jafnvægi miðað við núverandi hitastig. Því er ekki hægt að bera saman stærð jöklanna í dag og á einhverjum tímapunkti á fyrri tíð og gefa í skyn að þess vegna hafi verið hlýrra á þeim tímapunkti.

Og annað. Þótt það hafi verið hlýtt og jöklar minni fyrir 1000 árum af náttúrulegum ástæðum útilokar það ekki hlýnun af mannavöldum í dag.

Framtíðina þekki ég ekki frekar en aðrir og get því ekki svarað hvort jöklar muni stækka á ný.

En bókin er góð – mæli einnig með henni!

Emil Hannes Valgeirsson, 23.2.2009 kl. 22:43

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sælir félagar og takk fyrir svarið.

Það sem liggur kannski í spurningu minni er; hvernig getum við fullyrt að minnkun jökla á undanförnum áratugum stafi af losun manna á CO2  en ekki af náttúrulegum sveiflum?

Það má líka snúa spurningunni við:

Hvað var það sem gerði það að verkum að jöklar tóku að vaxa gríðarlega á 13. öld og voru síðan í hámarki um 1900. Getur verið að það sé sama fyrirbærið og veldur því að jöklar hafa verið að ganga til baka á undanförnum árum?  Ef við skoðum t.d. myndina á bls. 93 í bókinni Jöklaveröld (kafli Páls Bergþórssonar, "Tilraunasalur veðranna") þá sjáum við að vöxtur jökla hefur verið hraðari á 13. öld en minnkun þeirra á síðustu öld. Það sýnir okkur að í náttúrunni er eitthvað fyrirbæri sem getur valdið svona gríðarlegum breytingum á skömmum tíma, breytingum sem hafa áhrif í aldir.

Við vitum að stærð jökla er góður mælikvarði á langtíma hitafar, þó svo að vetrarúrkoma einstakra ára hafi einnig áhrif. Myndin hér fyrir neðan er úr greininni "Decadal variability of sea surface temperatures off North Iceland over the last 2000 years."  í  Earth and Planetary Science Letters. Þar má sjá hitafallið á 13. öld sem passar svo vel við framgang jökla sem hófst þá.

 l1_northiceland2.gif

Ágúst H Bjarnason, 24.2.2009 kl. 06:11

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Varðandi hlýindin fyrir 1000 árum sem koma fram í myndinni hér fyrir ofan:

Á vefsíðunni Medieval Warm Period Project  er tilvísun í  670 vísindamenn í 391 vísindastofnunum í 40 mismunandi löndum. Þar á meðal eru íslenskir vísindamenn.  Á vefsíðunni er reynt að fá heildarmynd af þessum rannsóknum og meta hvort það hafi verið jafnhlýtt fyrir 1000 árum en í dag, hlýrrra eða kaldara. Einnig hvort um hnattræn eða staðbundin fyrirbæri hafi verið að ræða.

Ágúst H Bjarnason, 24.2.2009 kl. 06:14

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Í greininni sem ég var að vísa í hér fyrir ofan,   "Decadal variability of sea surface temperatures off North Iceland over the last 2000 years." , stendur í Discussions:


"A remarkable feature of the North Icelandic SST record is the abrupt increase of around 1–1.5 °C occurring within a decade around 980 A.D., maybe imputable to the onset of the MWP. This sustained warm period, lasting for several centuries, ends by a sharp cooling around 1350 A.D., following a brief cold episode around 1250 A.D. The same pronounced centennial-scale warming, though not exactly synchronous, has been documented by the distant records from the Sargasso Sea (Keigwin, 1996), the Eastern sub-tropical Atlantic (deMenocal et al., 2000) and estuarine sediments of Chesapeake bay (Cronin et al., 2005), confirming its widespread occurrence in the North Atlantic region."

Þarna er bent á þessa skyndilegu hitahækkun um 980.  Þetta er meiri hitahækkun en á síðustu undrað árum. (Einn höfunda greinarinnar er Jón Eiríksson).

Ágúst H Bjarnason, 24.2.2009 kl. 06:28

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vantrúarmönnum eins og Brynjólfi Þorvarðarsyni hlýtur að líða óskaplega vel með að telja sig vita þetta allt út í hörgul og hafa "mannlegar" skýringar á kulda- og hlýindaskeiðum á 14. og 16. öld, m.a. hrísgrjónaakra og skógarhögg á þessari risastóru jörð okkar.

En svo að við stríðum honum svolítið, þá liggur náttúrlega í augum uppi, að hlýindin hér á frá því um 980 komi í kjölfar innreiðar kaþólskrar kirkju í þjóðlíf okkar og nær hámarki í glæstum bókmenntum okkar á 12. og 13. öld, fer síðan niðrávið, einkum með siðaskiptunum (sem eru jafnvel kuldalegra skeið en myrku aldirnar á 5.–9. öld), og ekki batnaði það á 19. og 20. öld, en fer síðan afar hratt skánandi undir lok 20. aldar, enda hefur kaþólikkum á landinu fjölgað um tífalt síðan ég tók kaþólska trú um 1974!

Jón Valur Jensson, 24.2.2009 kl. 09:14

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

En Ágúst, vantar ekki síðustu 50 ár í hitalínuritið hér að ofan? Ef græna línan er núverandi hiti þá eru að tala um næstum 2°C stökk uppávið á síðustu 50 árum, sem er þá tvöfalt meira en stökkið fyrir 1.000 árum (miðað við rauðu línuna).

Annars get ég alveg tekið undir að það er varla hægt að fullyrða að aðgerðir mannsins séu hér einum um að kenna.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.2.2009 kl. 09:44

8 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Jón Valur, ekki vissi ég að þú værir svona mikill húmoristi!

Ágúst, þú ert með tvö atriði sem mig langar til að reyna að svara hvort fyrir sig:

Þú spyrð hvernig hægt sé að fullyrða að núverandi bráðnun jökla núna sé af mannavöldum. Satt að segja er ekki hægt að fullyrða það með 100% vissu. Það er alltaf hægt að efast um vísindi og mælingar, þetta er flókið kerfi og talsvert í að við skiljum það til fullnustu.

Hitt er svo annað mál að samkvæmt viðurkenndum kenningum í eðlisfræði, efnafræði og veðurfræði, er eftirfarandi talið nánast öruggt:

1) CO2 í andrúmslofti orsakar gróðurhúsaáhrif

2) aukning CO2 orsakar aukningu gróðurhúsaáhrifa og þar með hækkandi hitastig

3) núverandi aukning CO2 í andrúmslofti er af mannavöldum, sem sést m.a. af breyttu hlutfalli C14 og C3.

Er hægt að draga af þessu þá ályktun að núverandi hlýnun sé af manna völdum? Auðvitað freistast margir til þess en það er engu að síður ljóst að einkum liður 2 er háður mörgum óvissuþáttum á borð við hversu mikil hækkunin verður og hversu hratt hún brestur á.

Miðað við þær upplýsingar sem við höfum í dag bendir flest til þess að núverandi hækkun sé af manna völdum. Hún gerist mjög hratt miðað við fyrri veðursveiflur og það finnast ekki aðrar viðunandi skýringar á núverandi hækkun en einmitt hið aukna magn CO2.

Innan vísindaheimsins er það ekki dregið í efa í neinni alvöru að núverandi hækkun sé af mannavöldum. Hins vegar eru stórir og ríkir áhrifaaðilar reiðubúnir að kosta áróður sem sáir efasemdafræum og almennningur virðist einnig hafa gaman að gagn-kenningum og því er auðvelt að rugla menn í ríminu.

Hitt atriðið hjá þér, Ágúst, sem þú bendir á sem og margir aðrir, er að hitastig á jörðinni er langt frá stöðugt. Miklar breytingar hafa orðið í gegnum tíðina af náttúrulegum orsökum, meðalhiti milli ára getur sveiflast verulega og nægir að minna á 1709 þegar talið er að meðalhiti hafi lækkað um 5-7 gráður í Evrópu af óþekktum ástæðum og með hrikalegum afleiðingum.

Atriði sem geta haft áhrif á veðurfar til lengri tíma er útgeislun sólar, magn gróðurhúsalofttegunda, lega meginlanda og lega hafstrauma. Þegar við lítum nokkrar milljónir ára aftur í tímann má skýra veðursveiflur með sveiflum í útgeislun sólar og magni gróðurhúsalofttegunda en einstaka sveiflur á borð við Álftanes-jökulskeiðið með breytingu á hafstraumum. Ástandið 1709 gæti sem best verið vegna þess að Golfstraumurinn hafi misst kraft af einhverjum ástæðum.

En hvað sem því líður, Ágúst, þá eru ástæður veðurfarssveiflna þekktar og mælanlegar. Þegar við tölum um fortíðina er erfitt að gera sér fulla grein fyrir ástandinu - við höfum ekki beinar mæliniðurstöður og oft takmarkaða vitneskju um raunverulegt ástand. En það sem við vitum passar vel saman, veðurfarssveiflur fortíðar má að mjög miklu leyti skýra með þekktum breytingum í þessum fjórum þáttum sem ég nefndi hér á undan.

Í dag vitum við hins vegar hver staðan er. Við getum mælt útgeislun sólar beint og aukningu gróðurhúsaáhrifa einnig. Við getum fylgst með sjávarstraumum og breytingum á CO2 magni og hitastigi í sjó. Allar þessar mælingar benda til CO2 sem orsakavaldurinn að núverandi hitastigsaukningu sem staðið hefur frá lokum síðustu aldar.

Það er einmitt þessi staðreynd, Ágúst, að fortíðin sýnir okkur svo gríðarmiklar sveiflur, að við verðum að óttast núverandi ástand þeim mun meira. Ef fortíðin sýndi stöðugt hitastig sama hvað þá væri ástæða til að líta á aukningu CO2 núna sem léttvæga. En af því að sagan sýnir okkur hvað hitastig jarðar er í raun háð tiltölulega litlum sveiflum í CO2 eða sólargeislun þá styrkist óneitanlega hræðsluboðskapur þeirra sem telja að allt fari á versta veg.

Spár SÞ og annarra eru nefnilega frekar hófsamar og byggja yfirleitt á því að gera ráð fyrir frekar stöðugu loftslagi. Sagan segir okkur hins vegar að loftslag jarðarinnar er langt í frá stöðugt og þeir sem leggja allt út á versta veg nota einmitt þá staðreynd til að spá miklum mun meiri áhrifum af gróðurhúsaáhrifum en flestir vísindamenn myndu skrifa undir.

Núverandi hitastigsaukning er mun meiri en tölvuspár gerðu ráð fyrir og sjávarstöðuhækkun er þegar búin að ná 3 mm á ári og mætti þá ekki aukast neitt til að fara ekki yfir neðri mörk spár SÞ um sjávarstöðuhækkun á þessari öld. En miðað við að sjávarastöðuhækkunin var einungis um 1 mm fyrir 15 árum þá er varla von til að hún hangi í 3 mm næstu 100 árin.

Að öllu ofansögðu er samt ekki hægt að fullyrða það endanlega að núverandi hækkun sé af mannavöldum. Við verðum að bíða og sjá, ég býst við að það geti tekið nokkra áratugi áður en menn tali um 100% vissu.

Brynjólfur Þorvarðsson, 24.2.2009 kl. 10:12

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Brynjólfur og takk fyrir kommentin.

Eins og þú bendir á þá eru  breytingar á hitafari undanfarinna alda vel þekktar. Dýpsta lægðin sem kennd er við Maunder var einmitt í árin kring um 1709, eða heldur fyrr, en það var einmitt þá sem Thames lagði árvisst við London eins og vel er þekkt.

Á hitaferlinum hér fyrir ofan  vekur athygli hin mikla og snögga hækkun hitastigs um því sem næst 1,5°C  um 980, síðan tiltölulega stöðugt hitafar til um 1350, en þá fellur hitastigið aftur skyndilega um annað eins í byrjun Litlu ísaldarinnar. Báðar þessar miklu breytingar gerast á skömmum tíma, þ.e í mesta lagi fáum áratugum. Hitabreytingin er tvöföld miðað við það sem menn hafa mælt á síðustu 150 árum. Þetta finnst mér hljóta að vekja menn til umhugsunar um að hækkun hitastigs á síðustu öld er ekkert einsdæmi.

Vissulega eru þetta óbeinar(proxy) mælingar, en  ef við skoðum einn lengsta samfellda hitaferil sem til er, þ.e þar sem hitastig er mælt með hefðbundnum aðferðum, þá sjáum við t.d. gríðarmikla hækkun hitastigs (næstum 2 gráður) á 50 ára tímabili eftir um 1690, en það er einmitt í lok "Maunder minimum" lágmarksins velþekkta. 

Hitaferillinn er hér fyrri neðan. Hann nær reyndar ekki nema til 1998, en þá plottaði ég hann með Excel eftir gögnum sem eru á vef Hadley Centre og setti á gömlu vefsíðu mína sem er hér.

 Hiti á Bretlandseyjum 1659-1998

Ef svona hitabreytingar eins og urðu á síðustu öld eru ekki óþekkatar, hvernig getum við þá dregið þá ályktun að öll hækkun hitastigs á síðustu öld (0,7°C    +/- 0,2°C) sé af mannavöldum?    Einhver hluti (kannski helmingur) er væntanlega af náttúrulegum ástæðum.

Emil: Síðustu 50 árin vantar í hitaferilinn. Ástæðan er vænatnlega að  þetta eru óbeinar mælingar og er aðferðinni lýst í greininni sem ég vísaði á. Núverandi hitastig (eða því sem næst) er aftur á móti merkt inn sem græn lárétt lína.

Keigwin ferillinn sem rætt er um hér að ofan í úrklippunni úr skýrslunni er hér fyrir neðan. 

 Hiti í Þanghafinu

Ágúst H Bjarnason, 24.2.2009 kl. 13:19

10 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Ágúst

Hitastigshækkun sem þegar er orðin hlýtur að eiga sér orsakir - eins og fyrri breytingar á hitastigi hafa átt sér sínar orsakir. Hversu hratt hitastigið breytist er ekki augljós vísbending um orsök nema að hluta til, stöðvun Golfstraumsins myndi t.d. valda mjög hraðri lækkun hitastigs í Evrópu (en ekki á heimsvísu vel að merkja).

Orsakir fyrri hlýindaskeiða er auðvitað ekki að fullu þekktar. Hnattrænt hitastig er heldur ekki þekkt nema með grófum hætti, það er til dæmis óljóst hvort litla ísöldin var evrópskt fyrirbæri, hvort hún náði til alls norðurhvels eða allrar jarðarinnar. Heimildir skortir einfaldlega (þótt flest bendi víst til að hún hafi verið hnattræn).

Hversu hratt hitastigið breytist er einnig óljóst vegna ónákvæmni í mælingum. Hitt er ljóst að hitastig virðist geta breyst mjög hratt og mun hraðar en menn áttu von á.

Núverandi hlýnun hlýtur að eiga sér orsök, eins og ég sagði áður, og ef aukning CO2 af mannavöldum er ekki orsökin (eða bara hálf orsökin eins og þú segir), þá verður að finna hina orsökina. Miklar rannsóknir hafa ekki getað sýnt aðra orsök fyrir núverandi hlýnun og því hlýtur maður að freistast til að eigna hana CO2 af mannavöldum.

Orsakir fyrri hlýnunar/kólnunar eru oft óljósar en mér finnst þú vera að segja að þar sé líka einhver dulin orsök sem sé einnig að verki núna. Ef við sjáum ekki þessa orsök í nútímanum er auðvitað til lítils að leita að henni í fortíðinni.

Líklegri ástæða fyrir hröðum breytingum hér áður fyrr er trúlega annars vegar skortur á gögnum (þ.e. breytingarnar gerðust hægar en virtist) eða að veðurfar er einfaldlega óstöðugra en líkönin okkar gera ráð fyrir sem getur orsakast af jákvætt styrkjandi ferlum á borð við losun metangas frá sífrera, en slíkt er erfitt að setja inn í líkön.

Annars fanst mér gaman að sjá línuritið fyrir Sargasso hafið sem þú ert með hér að ofan (hvernig svo sem niðurstöður eru fengnar). Línuritið passar nefnilega furðu vel við það sem ég var að segja í fyrsta pósti, kenningin um að við eigum að vera í kólnandi heimi en áhrif mannsins verki á stundum í hina áttina. Sargasso hafið er í miðju Atlantshafi, "the doldrums" eins og sagt er á ensku - hafsvæði án strauma eða vinda, þar sem álarnir fjölga sér. Þar ætti hlýnun að sjást síðar en annars staðar ímynda ég mér. Hvernig menn áætla hitastig þar fyrir um 1500 geri ég mér enga grein fyrir, veist þú hvernig þetta er unnið?

Brynjólfur Þorvarðsson, 24.2.2009 kl. 17:16

11 identicon

Mig langar að skjóta inn einni spurningu til ykkar, fróðu og vísu menn. Hún er um áhrif stórra eldgosa á veðurfar. Manni skilst að það sé orðin viðurkennd staðreynd, að t.d. Lakagígagosið hér á landi 1783 hafi valdið verulegum veðurfarsáhrifum á norðurhveli jarðar. Ekki eru öll eldgos skráð á sögulegum tíma, þar kemur náttúrulega til skjalanna að fram á fimmtándu öld vissu Evrópubúar og Asíubúar lítt eða ekki um meginlönd Ameríku og hvað þar kann að hafa gerst, auk annarra eyða, sem í sögunni eru af ýmsum orsökum. Fróðir menn hafa staðfest, að t.d. gosið í Mt. St. Helens 1980 hafi orsakað kuldakast árið 1981, og annað gos í Mexico hafi orsakað kuldakastið 1979, en beggja þessara kuldakasta gætti mjög hér á landi. Eitthvað hefur maður lesið um risagos á forsögulegum tíma, auk þess sem árekstur/árekstrar við loftsteina hafi haft gríðarleg áhrif, bæði bein loftslagsáhrif og svo jafnvel með því að hnika jörðinni til á braut sinni? Er þetta kannski eitthvað sem á ekki erindi inn í þessar vangaveltur?

Sveitamaður (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 17:56

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Brynjólfur. Keigwin skrifaði um þessar rannsóknir sínar í Science í nóvember 1996. Sjá ágrip hér.

The Little Ice Age and Medieval Warm Period in the Sargasso Sea

Lloyd D. Keigwin

Sea surface temperature (SST), salinity, and flux of terrigenous material oscillated on millennial time scales in the Pleistocene North Atlantic, but there are few records of Holocene variability. Because of high rates of sediment accumulation, Holocene oscillations are well documented in the northern Sargasso Sea. Results from a radiocarbon-dated box core show that SST was sim 1°C cooler than today sim 400 years ago (the Little Ice Age) and 1700 years ago, and sim 1°C warmer than today 1000 years ago (the Medieval Warm Period). Thus, at least some of the warming since the Little Ice Age appears to be part of a natural oscillation.

Ferillinn sem teiknaður er eftir mæligögnum frá Keigwin er mælikvarði á yfirborðshita sjávar, vegna þess að í setlögunum sem rannsökuð hafa verið eru lífverur sem lifa við yfirborð sjávar. Þegar þær deyja sökkva þær til botns. Nánar í greininni í Science.  (Keigwin. 1996. "The Little Ice Age and Medieval Warm Period in the Sargasso Sea." Science, v.274, p.1504-1508).

Gögnin frá Keigwin rannsókninni í Þanghafinu fékk ég frá Dr. Baliunas stjarneðlisfræðing i við Mount Wilson Institute / Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics árið 1998. Ég var þá minnir mig að spyrjast fyrir um gögn varðandi lengd segulsveiflu sólar, en Baliunas er einmitt sérfræðingur í sólstjörnum og hegðun þeirra.

 ---

Varðandi náttúrulegar sveiflur og áhrif þeirra á hitafar jarðar, þá vill svo til að vel getur verið að náttúran sé að fara að gera tilraun sem vert er að fylgjast með. Það bendir nefnilega fjölmargt til að virkni sólar fari hríðminnkandi þessi árin. Hafi breytileg virkni sólar áhrif á hitafar lofthjúps jarðar, þá gæti svo farið að við verðum þess vör á næstu árum. Þá gest gullið tækfæri til að nánast mæla áhrif breytiinga í virkni sólar á lofthjúp jarðar.Sjá t.d. blogg hér og   hér

Ágúst H Bjarnason, 24.2.2009 kl. 21:20

13 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

"Sveitamaður":

Það er vel þekkt að stór eldgos geta haft áhrif á lofthita um allan heim. Það má jafnvel sjá á hitaferlinum hér fyrir neðan sem sýnir frávik í meðalhita jarðar frá 1979 til loka janúar s.l.   Dr Roy Spencer, sem sér um úrvinnslu mæligagna frá gervihnöttum hefur þar teiknað hring um hitafallið sem varð þegar Mt. Pinatubo gaus.

 

Greinin The Year Without a Summer eftir Dr Willie Soon fjallar um eldgosið mikla í Tambora 1815, sem reyndar var í miðju Dalton lágmarki í virkni sólar sem gæti hafa hjálpað til, eins og fram kemur í greininni og einnig á Wikipedia hér.

Greinin er mjög áhugaverð og auðlesin. 

 NASA fjallar um áhrif Laka á loftslagið víða um heim. Historic Volcanic Eruption Shrunk the Mighty Nile River

Ágúst H Bjarnason, 24.2.2009 kl. 21:39

14 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Á vefsíðu Harvard er hægt að sækja greinina The Year Without a Summer sem pdf skjal, eins og það var búið til prentunar í Mercury Magazine May/June 2003. Sjá hér.

Ágúst H Bjarnason, 24.2.2009 kl. 22:28

15 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Ágúst

Mér datt það nú reyndar í hug eftir að ég skrifaði síðasta komment að svarið væri að finna í botnfalli (sediment) undir Þanghafinu enda er staðurinn vel til slíkra rannsókna fallinn.

Enn eigum við eftir að finna hvaða náttúrulegu orsakir gætu verið valdar að núverandi hlýnun - þú virðist gera því skóna að einhver slík orsök sé til, en hver? Mælingar á geislun sólar bendir ekki til neinnar langtímabreytingar og meðalgeislun hefur ekki aukist undanfarna hálfa öld á sama tíma og heimurinn hefur hitnað verulega.

Eldgos hafa þekkt áhrif á veðurfar og risagos fornaldar eru jafnvel talin hafa valdið hlýnun með mikilli losun CO2. Eldgos voru annars því valdandi að CO2 safnaðist upp í andrúmslofti jarðar frá upphafi, áður en líf náði að myndast, og gróðurhúsaáhrif voru þá mun meiri en þau eru í dag. Sólargeislun var talsvert minni fyrir um 4 milljörðum ára en í dag en hitastig mun hærri vegna mikils magns CO2. Ljóstillífandi lífverur drógu síðan smátt og smátt úr CO2 magninu og grófu það í jörðu, hraðast gerðist það á kolatímabilinu þegar háplöntur lögðu undir sig meginlöndin en bakteríur höfðu ekki enn þróað með sér hæfnina til að melta sellulósa. CO2 magn andrúmsloftsins minnkaði verulega og jörðin kólnaði jafnt og þétt. Það eru þessar gröfnu birgðir kolatímabilsins sem við erum nú að skila aftur út í andrúmsloftið.

Samkvæmt Milankovitch sveiflum breytist afstaða jarðar til sólar eftir ákveðnu munstri með hámörk á um 100.000 ára fresti. Síðasta slíkt hámark var fyrir um 20.000 árum og leiddi til núverandi hlýskeiðs, samkvæmt fyrri sveiflum ætti því að fara kólnandi núna og jörðin að nálgast nýtt ísaldarskeið.

Samkvæmt spá SÞ mun hitastig á þessari öld hækka um 2,6 til 6,3 gráður á heimsvísu. Flestum þykir neðri talan ólíkleg en algengt er að tala um 4 gráður. Slík hækkun mun m.a. óhjákvæmilega leiða til bráðnunar allra jökla á jörðinni (þó það taki auðvitað lengri tíma) og sjávarstöðuhækkun upp á um 100 metra. Eyðimerkur munu stækka verulega og Sahara t.d. ná vel inn í S-Evrópu en Skandínavía og önnur norðlæg svæði munu verða miklum mun gróskumeiri og byggilegri en nú er.

Síðsta sveifla af þessari stærðargráðu átti sér stað fyrir 55 milljónum ára. Orsökin er þekkt, gríðarmiklar botnlægar frosnar CO2 birgðir losnuðu í tveimur hrinum sem hver um sig stóð í um 1000 ár. Hlýnunin nam 6 gráðum á um 20.000 ára tímabili. Ein afleiðing, sem ætti að valda áhyggjum hér á landi, var að sjávarlíf hrundi vegna aukningar CO2 í höfunum. Slíkt endurtekur sig væntanlega núna, hversu hratt það gerist er erfitt að spá fyrir um.

Þarna sérðu stærðargráðuna af því sem við erum að gera í dag, Ágúst. Við verðum sjálfsagt orðið þéttbýlt landbúnaðarland eftir eina til tvær aldir, fiskveiðar munu heyra sögunni til og skógur búinn að endurheimta hálendið.

Brynjólfur Þorvarðsson, 26.2.2009 kl. 09:46

16 identicon

Athyglisverðar pælingar

         ....reyndar er síðasta pælingin athygliverð í öðru ljósi en umhverfissjónarmiðum.

   Ef maður fer inn á linkinn sem er við nafnið Brynjólfur, þá kemst maður síðuna hans. Þar er hann skráður trúlaus, eða vantrúaður. Allt í lagi með það. Samt gaman að skoða þetta í ljósi allta dómsdagsspámannanna sem hafa verið í gegnum aldirnar. Þeir spáðu um endi jarðlífs í nafni trúarinnar.

   Núna virðast hlutverkin hafa snúist við þar sem trúlausi maðurinn er kominn með dómsdagspá!!!

     .....þetta gerir hann í nafni vísindanna??. Ætli svona vísindastarfsemi(túlkun á henni) sé ekki hin nýju öfgatrúarbrögð, sem margir hafa aðhyllst í gegnum aldirnar

p.s. Það er náttúrulega auljóst en væntanlega ekki hjá þessum Brynjólfi.

Jóhannes (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 12:04

17 Smámynd: Ágúst H Bjarnason


Brynjólfur.

Áhugi minn á þessum málum tengist fyrst og fremst spurningunni um að hve miklu leyti breytingar í hitafari lofthjúps jarðar fyrr á öldum og jafnvel á síðustu árum stafi af náttúrulegum breytingum í sólinni. Sá áhugi stafar að lúmskum áhuga sem ég hef haft á stjörnufræði síðan ég var unglingur.

Ég smíðaði stjörnukíki úr pappahólk, gleraugnalinsum og stækkunargleri líklega um 13 ára aldur, en með honum sá ég tungl Júpiters og gígana á tunglinu, fylgdist með brautum gervihnatta á menntaskólaárunum fyrir breska aðila vegna rannsókna á efstu lögum lofthjúpsins, fylgdist í návígi með geimskotum Frakka á Mýrdalssandi 1964/65  þegar þeir skutu nokkrum eldflaugum upp í yfir 400 km hæð vegna rannsókna á norðurljósunum,  starfaði á háskólaárunum á Háloftadeild Raunvísindastofnunar Háskólans þar sem fara fram rannsóknir á áhrifum sólar m.a á segulsvið jarðar, var stjórnarmaður um skeið í Stjörnuskoðunarfélaginu, o.s.frv.

Þetta skýrir væntanlega það sjónarhorn sem ég hef á þessi mál...

Ég hef ekki velt mér mikið upp úr auknum  gróðurhúsaáhrifum vegna viðbótar magns CO2 í lofthjúpnum, en hef þó fylgst sæmilega með málunum í yfir áratug. Ég forðast það þó eins og heitan eldinn að deila um þau mál, enda skila slíkar deilur ekki neinu nema leiðindum. Ég hef lengi haft þá skoðun að um það bil helmingur hækkunar hitastigs lofthjúpsins á síðustu öld geti stafað af mannavöldum, en tel það mjög líklegt að hinn helmingurinn sé náttúrulegar sveiflur. Hvað "helmingur" er, það er svo annað mál. Hinu er ekki að leyna að sérgrein mín hefur gert það að verkum að ég er ekki alltaf vel sáttur við mælingar á lofthita, úrvinnslu gagna og notkun hermilíkana við langtímaspár. Það er allt annar handleggur.

Það vill svo til, að mjög oft sem virkni sólar hefur minnkað eða aukist, þá hafa orðið breytingar í lofthita. Kannski er það tilviljun, kannski ekki. Það virðist þó varla einleikið hve fylgnin er mikil. Miklar rannsóknir eru í gangi og lærðar greinar skrifaðar, ein nýleg er
þessi hér, ritrýnd grein í Journal of Geophysical Research. Umsögn um greinina "Using the oceans as a calormeter to quantify the solar radiative forcing" birtist í gær hér.  Ýmsir vísindamenn, séstaklega þeir sem tengdir eru stjarneðlisfræði, eru uggandi um að á allra næstu árum geti dregið mjög úr hlýnun lofthjúpsins, reyndar svo mikið að um allnokkra kólnun verði að ræða. Kólnun sem staðið getur yfir á áratugi.  Gangi spá þeirra eftir, þá líður ekki á löngu þar til við verðum þess vör. Sjálfur vona ég innst inni að þeir hafi rangt fyrir sér, því einn af mínum breyskleikum er áhugi á skógrækt. Þrátt fyrir sæmilega hlý sumur undanfarin ár lendir maður stundum í afföllum vegna kulda. Það má ekki miklu skeika í hitafari hér á landi.

Jæja, nóg í bili um áhugann...

Ágúst H Bjarnason, 26.2.2009 kl. 20:38

18 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þar  sem þú minnist á Milankovitch og ísaldir þá læt ég hér flakka myndir og texta af 11 ára gamalli vefsíðu minni sem er hér. Þessi kafli vefsíðunnar nefnist Áhrif innbyrðis afstöðu jarðar og sólar á hitastig. Ísaldir og önnur óáran. Rannsóknir á Grænlandsjökli. (Síðast breytt 12.11.1998).

 Ísaldir koma og fara....
Í kaflanum hér um sólblettina vorum við að skoða tiltölulega stutt tímabil. Hvernig væri að skyggnast 200.000 ár aftur í tímann, og reyndar 100.000 ár fram í tímann! Hvernig í ósköpunum er það hægt? Jú með því að skoða breytingar á innbyrðis afstöðu jarðar og sólar.

Reyndar var fyrst og fremst ætlunin að fjalla um veðurfar nútímans með tilliti til umfjöllunar um svokölluð gróðurhúsaáhrif. Það getur þó verið fróðlegt að skoða hvaða hugmyndir menn hafa um veðurfar fyrir óralöngu, og hvernig menn hafa reynt að skýra ástæður fyrir gríðarmiklum sveiflum í veðurfari, sem valdið hafa ísöldum og hlýindaskeiðum á víxl.

Árið 1941 setti stærðfræðingurinn Milutin Milankovitch fram kenningu sem skýrt getur hvers vegna mikil kólnun verður með tiltölulega löngu millibili. Hann reiknaði út samanlögð áhrif breytinga á möndulhalla (obliquity, 41.000 ára sveifla), möndulveltu (precession, sbr. skopparakringlu, 19-21,000 ára sveifla) og braut jarðar umhverfis sólu (eccentricity, 100.000 ára sveifla).

Niðurstaðan sýnir hvenær líkur eru á köldum og heitum tímabilum, og að á kuldaskeiðum fá staðir á 60°N aðeins sama varma frá sólinni (insolation) og staðir á 80°N fá nú!

Áhrif möndulveltu og möndulhalla gera það að verkum, að annað slagið hallar jörðin lítið móti sólu að sumri til, og verður sumarhitinn því lágur.

Síðari rannsóknir sýna að fjöldi smærri áhrifa hefur áhrif á heildarmyndina, en kenning Milankovitch er samt sem áður mjög áhugaverð og vel þekkt.

Kenning Milankowitch
Kenning Milutin Milankovitch um ástæður ísalda er vel þekkt. Með útreikningum er hægt að finna mismunandi hitunaráhrif sólar á norðurhvel jarðar. Möndulhalli, möndulvelta og braut jarðar breytast með tímanum.

Á myndinni hér til hliðar sjáum við hvernig þessir þrír þættir leggjast saman og mynda samsetta ferilinn sem er neðst. Tímaskalinn nær 200.000 ár aftur í tímann og 100.000 ár fram í tímann. (Lóðrétti ásinn er merktur: Wött á fermetra á 60°N)

 

Jæja, hvenær megum við eiga von á næstu ísöld samkvæmt þessari kenningu? Skoðaðu vel neðsta ferilinn!

 

Eins og mörgum er kunnugt, þá virðist sem ísaldir hafi skollið á með litlum fyrirvara á aðeins nokkrum áratugum. Rannsóknir á borkjörnum frá Grænlandsjökli hafa leitt þetta í ljós. Getur verið að sólin hafi komið þar nærri og hjálpað til við að setja ferlið af stað með langvarandi kuldakasti á sama tíma og afstaða jarðar og sólar var óhagstæð samkvæmt líkani Milankovitch? Eins og við sáum hér á undan, þá getur sólin verið ansi dyntótt!

 Grænlandsjökull....
Í tímaritinu Scientific American, febrúar 1998, er áhugaverð grein sem heitir Greenland Ice Cores: Frozen in Time. Greinin er eftir Richard B. Alley prófessor við Pennsylvania State University og Michael L. Bender prófessor við Princeton University. Þeir félagar unnu við borun í Grænlandsjökul fyrir nokkrum árum.
Í inngangi greinarinnar segir m.a. "Mun jörðin eiga eftir að hlýna aftur eins og fyrir um 1000 árum þegar víkingar settust að í Grænlandi og Bretar ræktuðu vínvið?" Í greininni fjalla þeir um rannsóknir á borkjörnum og skýra m.a. frá því að niðurstöðurnar staðfesti kenningar Milankovitch. Hlýindi voru fyrir 103.000, 82.000, 60.000, 35.000 og 10.000 árum, í takt við 20.000 ára pólveltusveifluna (precession).
Meira á óvart kemur þó, að á milli köldu og hlýju tímabilanna eru fjölmargar smærri sem ekki verða skýrðar með kenningu Milankovitch. Ástæðan fyrir þessum ("tvær tylftir á tímabilinu frá 20.000 - 100.000 árum síðan") er ókunn.

(Þess má geta, að í þessu sama blaði er fróðleg grein um víkinga og langskip þeirra.)

 

 

Íslenskar rannsóknir....
Nokkrir Íslendingar hafa tekið þátt í Evrópsku verkefni undir stjórn Sigfúsar Johnsen. Borað var í gegn um hábungu Grænlandsjökuls. Safnað var borkjarna úr 3400 metra djúpri holu og innihald samsæta súrefnis og vetnis rannsakað. Niðurstöður eru mjög áhugaverðar og sýna gífurlegar sveiflur í veðurfari.

Laugardaginn 7. mars '98 hélt Dr. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir mjög áhugavert erindi "Glötum við Golfstraumnum" í tilefni "Árs hafsins" um borunina í Grænlandsjökul sem hún tók þátt í, og um rannsóknir á borkjörnunum. Hún fjallaði um veðurfarsbreytingar sem koma fram sem breytingar á magni súrefnissamsæta og innihalds metans í ísnum, svo og samanburð við rannsóknir á setlögum á sjávarbotni sem styðja þessar rannsóknir. Að lokum var fjallað um "færibandið mikla" (m.a. Golfstrauminn) sem flytur heitan sjó til okkar, og hættuna á að færibandið geti stöðvast næstum fyrirvaralaust. Rannsóknirnar á ískjörnunum sýndu að loftslagsbreytingar virðast geta átt sér stað fyrirvaralítið. Ein tilgátan er sú að hafstraumar geti stöðvast þegar selta sjávar minnkar vegna aukins ferskvatns. Færibandið virtist geta stöðvast á nokkrum öldum, en síðan hrokkið í gang á mun skemmri tíma, eða aðeins 50 árum.

(Þetta leiðir hugann að því sem einhverjum góðum vísindamanni varð að orði er hann sá niðurstöður rannsóknar á Grænlandsjökli: "Hafstraumarnir eru eins og flókin vél með mörgum tökkum, sem óvitar ættu ekki að fikta í. Menn gætu farið sér að voða."
Nú er komið að okkur að kappkosta að læra vel á takkana svo við vitum hvað við erum að gera...)

 

 

Halastjörnur og aðrar kenningar....
Sveinn Valfells, sem er mikill áhugamaður um stjarneðlisfræði og vel fróður um þau mál, benti höfundi vefsíðunnar á eftirfarandi kenningar:

1: Braut jarðar í kringum sólu skera brautir halastjarna.
Halastjörnur eiga sína lífdaga og gufa smásaman upp eins og halinn sýnir eða beinlínis sundrast fyrir áhrif þyngdarkrafta frá sólu sem plánetum. Talið er að stjörnuhrapaskúrin í Taurus tengist halastjörnunni Encke, og smástirnunum Hephaistos og Oljato. Þessi þrjú hafa svipaðar brautir um sólu og fara einn hring um hana á ca. 3,2 árum. Sýnt hefur verið fram á að Encke og Hephaistos voru á sama stað í rúminu fyrir um 9.000- árum Ekki er ólíklegt að þetta séu leifar risa halastjörnu sem hefur sundrast og aðrir hlutar hennar geta verið á sveimi eftir öðrum brautum.

Leifar halastjörnu dreifast misjafnt um sporbraut hennar og mynda geimryk misjafnlega þétt í braut hennar. Geimrykið er aðalega vatn og falla þúsundir tonna af því á dag á jörðina við venjulegar aðstæður. Þegar braut jarðar og braut sundraðar halastjörnu skarast og eykst rykið í háloftunum. T.d. eru hinir árlegu stjörnuhrapaskúrir (meteor showers) eins og t.d. sá sem kenndur er við Nautið (Taurus) af þessum orsökum. Lendi jörðin í óvenju þykku skýi getur það gert tvennt:

— Minna ljós frá sólu nær til jarðar vegna endurkasts geimryksins í geimnum eins og bílljós í þoku.

— Einnig veldur meira ryk í háloftunum meira endurkasti frá jörðu.

Talið er að þetta geti valdið reglubundum hitasveiflum mismunandi löngum eins og varð þegar snögg kólnaði á tímabili fyrir 5000 árum. Ekki er ólíklegt að þar hafi Taurus verið um að kenna.
Ef kólnunin verður það mikil að það valdi mikilli ísingu í hálofunum getur það leitt til "positífs feedbacks". Meiri ísing, meira endurkast, meiri kólnun, meiri ísing. Ríkjandi hitastig geti verið þannig í óstabílu jafnvægi á sérhverjum tíma eins og ískjarnar úr Grænlandsjökli benda til.

 

2: Ein kenning um orsakir ísalda, er sú að norðurpóllin er í landluktu innhafi sem hlýir hafstraumar ná ekki til. Einnig er land á suðurskautinu, sem kaldur hringstraumur umlykur, auk þess að það er mjög hálent. Talið er að ís hafi farið að safnast á Suðurskautslandinu er það rofnaði frá Suður Ameríku og hringstraumurinn myndaðist sem bægði hlýrri sjó frá.

Þetta ástand með norður- og suðurpól er nýtt í jarðsögunni. Kannski hefur myndun Íslands sem hófst fyrir 15 milljón árum hjálpað til að hindra hlýsjávarflæðið.
Þar að auki hefur mikið koldíoxíð fallið út í gegnum ármilljónirnar einkum í formi kalksteins og lítillega sem kol og olía. Við erum því að skila örlitlum hluta þess til baka. Kannski tefur það næsta ísskeið eitthvað?

---

Margar kenningar eru um ástæður ísalda, eða öllu heldur ástæður hlýindaskeiða eins og við njótum nú, milli ísalda. Ef til verða þessum kenningum gerð berti skil síðar.

 

 

Hvað ber framtíðin í skauti sér, hlýnun eða kólnun?....
Náttúrulegar breytingar, sem eru vel þekktar, hafa vafalaust ekki stöðvast. Við þekkjum vel hagstæð tímabil í jarðsögunni, með smávægilegum hitasveiflum upp á við og köldum tímabilum þess á milli. Við þekkjum einnig miklar ísaldir, sem koma með nokkuð reglulegu millibili.

Síðustu 900.000 árFyrir um 1000 árum var mikið góðæri í heiminum. Það stóð aðeins í tiltölulega stuttan tíma (~200 ár). Síðan tók við langt tímabil með nokkuð köldu veðurfari; "Litla ísöldin". Rannsóknir á sólstjörnum, sem líkjast okkar sól, gefa til kynna að tímabil þar sem sólin er í lægð ("Maunder minimum"), eru algeng fyrirbæri. Stjarneðlisfræðingar hafa í alvöru varað við því að nýtt "Maunder minimum" geti hafist í okkar sól hvernær sem er, jafnvel á næstu öld. Það þýðir nýtt kuldakast og mikinn hafís umhverfis Ísland. Þá mundi aukið magn CO2 í andrúmsloftinu hafa kærkomin áhrif á hitastig til að vinna á móti þessu. Það er að segja, ef áhrif CO2 til hækkunar hitastigs reynast nægileg.

Raunverulegar ísaldir koma með nokkuð reglulegu millibili. Við þessu getum við ekkert gert. Bara beðið eftir næstu ísöld!
Sé litið til lengri tíma er víst að ný ísöld komi og landið hverfi undir ís. Svo virðist sem hlýindaskeið, eins og nú ríkir, séu fremur undantekning, og að ísöld sé eðlilegra ástand. Við sjáum það á ferlinum, sem nær yfir 900.000 ár, að hitastigið er yfirleitt lægra en nú á dögum (lárétta línan), og oft miklu lægra.

Vel getur verið að við séum að nálgast lok núverandi hlýindaskeiðs, sem þegar hefur staðið yfir í um 10.000 ár. Ef til vill eru ekki nema nokkrar aldir til næstu ísaldar. Ef til vill fáein þúsund ár.

Myndin hér til hliðar sýnir í stórum dráttum hitafar síðustu 900.000 ára. Strikaða viðmiðunarlínan er sett á hitastig, sem var um 1900. Oftast hefur verið mun kaldara en þá. Takið eftir, að hitasveiflurnar eru miklu meiri en virðist við fyrstu sýn. Hitaskalinn nær yfir aðeins 2 gráður á neðsta ferlinum, en 7-8 gráður á efri ferlunum.

Þegar á allt er litið, getum við ekki annað en verið þakklát náttúrunni fyrir það hve mjúkum höndum hún fer um okkur þessa áratugina.

Ágúst H Bjarnason, 26.2.2009 kl. 20:51

19 Smámynd: Einar Þór Strand

Brynjólfur það sem virðist vera að þessum rannsóknum er að þær flestar líta á geislun sólar sem fasta.

Einar Þór Strand, 27.2.2009 kl. 11:08

20 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þar sem mér finnst samspil sólar og loftslagsins mjög áhugavert hafði ég hugsað mér að reyna að taka saman á einn stað það sem menn eru að velta fyrir sér. Menn þykjast vita að breyting í útgeislun sólar (Total Solar Irradaiance) hafi alls ekki nægileg áhrif á hitafarið til þess að skýra þær breytingar sem orðið hafa á lofthita,   en það eru ýmis önnur fyrirbæri sem koma vel til greina og sem menn hafa verið að horfa til. Í bloggi mínu hef ég stundu minnst á þau, en aldrei sem eina heild.  

Það má segja að jörðin sé stödd í ystu lögum "lofthjúps" sólar, enda leikur mjög svo breytilegur sólvindurinn stanslaust um efstu lög lofthjúps jarðar, og segulsvið sólar er samþætt segulsviði jarðar.  Það er því ekki bara "birtan" frá sólinni eða útgeislun hennar sem við verðum að líta til.

Eins og sjá má á mynd IPCC hér fyrir neðan, þá er aðeins litið til breytinga á TSI, eða Total Solar Irradaiance (0,12 w/m2).  Fjölmargir telja það ekki nóg.

 http://www.realclimate.org/images/ipcc2007_radforc.jpg

Ágúst H Bjarnason, 27.2.2009 kl. 12:03

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Æ fleiri "málsmetandi" menn virðast vera orðnir skeptískir á "Man made global warming", sjá http://www.theregister.co.uk/2009/01/28/nasa_climate_theon/  og http://www.theregister.co.uk/2009/02/25/jstor_climate_report_translation/

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.3.2009 kl. 12:30

22 Smámynd: Gunnar Þór Gunnarsson

Var að leita að allt öðru og rakst á þessa umræðu nú viku eftir síðasta ræðumanni.

Einhverra hluta vegna finnst mér umræðan ekki vera á réttum nótum. Auðvitað er nauðsynlegt að vita af hverju hitasveiflur eru á jörðinni og EF það er okkur að einhverju leiti að kenna þá er um að gera að passa það. Það breytir því hins vegar ekki að aðal áhyggjuefnin eru strandbúarnir. Það þarf að koma í veg fyrir að hitasveiflurnar hafi mikil áhrif á lífsskilyrði þeirra með því að benda á hættuna við að byggja of nærri sjó. Allt er breytingum háð og þegar sjávarborðið lækkar þá á ekki að flytja nærri sjónum því sjávarborðið hækkar líklega aftur. Nú er hins vegar hlýnun og verður því að finna lausn fyrir þetta fólk sem þegar hefur byggt of nærri strandlínunni. Mesta glapræði sem við gætum samt farið út í er að reyna á einhvern hátt að hafa áhrif á hlýnunina eins og minnst var á í sjónvarpsþætti fyrir skemmstu þar sem ýmsum möguleikum var stillt upp sem lausn í þessu máli.

Hefur einhver kannað hvernig íbúaaukning varð við strendurnar þegar litla ísöldin brast á? Fór þá ekki sjávarmál lækkandi? Eru ekki aðal vandamálin í dag tengd þeim byggðum? Við sjáum hér á landi upp í fjallshlíðum kuðunga og önnur merki þess að sjávarborð hafi verið hærra, að sumu leiti vegna því að jöklarnir héldu landinu niðri en einnig væntanlega í öðrum tilfellum vegna þess að sjávarborðið var mun hærra vegna hlýskeiðs. Við verðum þá að gera okkur grein fyrir því að þetta geti aftur orðið strandlínan! Í baráttunni við hitasveiflurnar þá höfum við tapað og hljóta því að gilda þær reglur að bregðast við í stað þess að reyna að hafa áhrif. Við erum eins og lýs sem viljum stjórna því hvort höfuðið sé með húfu eða ekki.

Því miður finnst mér einnig sú pólitíska "lykt" af umræðunni að kenna CO2 um allt saman. Týskuleiðin í dag til að búa til peninga er að skilgreina eitthvað "eign" sem hægt er að selja. Það mun fyrst og fremst þjóna tilgangi fjármálamanna sem geta þá verslað með þennan nýja Kyoto-kvóta.

Gunnar Þór Gunnarsson, 10.3.2009 kl. 11:33

23 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Gunnar.

Í mínum huga er mjög mikilvægt að geta greint að náttúrulegar sveiflur í hitafari og þann hluta sem kann að vera mönnunum að kenna. Jöklarnir segja okkur ýmislegt um það hvernig hitasveiflur hafa verið áður en menn fóru að losa koltvísýring að ráði.

Það er alveg klárt, held ég, að fyrr á öldum reistu menn sín hús þar sem sagan hafði kennt þeim að öruggt væri að búa. Í dag ríkja önnur sjónarmið. Menn reisa hús sín nærri sjó vegna þess að þar er svo fallegt. Reisa húsin jafnvel á landfyllingum úti í sjó. 

Ég verð að viðurkenna að ég hef hvergi rekist á neitt um það hvort einhver íbúaaukning hafi orðið við strendurnar meðan á litlu ísöldinni stóð. Manni finnst það rökrétt að þá hafi sjávarborð hugsanlega lækkað eitthvað. Þetta er áhugavert innlegg í umræðuna.

Ágúst H Bjarnason, 10.3.2009 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 11
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 84
  • Frá upphafi: 761784

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband