Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Bloggað í 10 ár ...

 
 
Fyrir áratug, 1. febrúar 1998, fann bloggarinn hvöt hjá sér til að blogga um mál sem honum var hugleikið. Vandamálið var að enginn blogg-vettvangur eins og Moggabloggið var fyrir hendi, þannig að búin var til vefsíða af fingrum fram. 
 
Aðdragandinn var góður göngutúr í fallegu veðri á nýársdag árið 1998. Leiðin lá úr Garðabænum yfir hraunið upp í Heiðmörk að Maríuhellum. Hugurinn reikaði víða en staldraði við nýársávörp forsætisráðherra og forseta Íslands. Þeir voru svo innilega ósammála varðandi meintar loftslagsbreytingar af mannavöldum að engu tali tók. Á náttborðinu hafði verið tímaritið Sky and Telescope (apríl 1997) með grein sem nefndist "Sunspots that Changed the World" eftir Dr. Bradley E. Schaefer prófessor.
 
apr97cvrGreinin í Sky and Telescope byrjaði á hugleiðingum um það er Eiríkur rauði fann Grænland árið 981 og lokkaði þangað með fallegu nafni landsins 25 skip með Íslendingum til að hefja búsetu þar árið 985. Greinin fjallaði einnig um landafund Leifs heppna í vestri árið 1000 og nokkuð ítarlega um byggð norrænna manna á Grænlandi. Höfundurinn virtist vera vel fróður um sögu norrænna manna.

Hvað varð um þessa byggð er ekki ljóst, en vitað er að veðurfar var óvenju hagstætt frá um 1000-1300, en fór þá snögglega kólnandi. Tímabilið sem fór í hönd hefur verið kallað "litla ísöldin" og hafði kólnandi veðurfar áhrif víða um heim næstu aldir. Svo mikill var kuldinn að áin Thames í Englandi var oft ísi lögð.
 
Greinin fjallaði sem sagt um áhrif breytinga í sólinni á veðurfar. Í göngutúrnum flugu margar hugsanir um hugann. Greinin hafði vakið áhuga minn, en nýársávörpin urðu til þess að í göngutúrnum ákvað ég að setja á blað það sem ég þóttist vita, og það sem ég ætlaði mér að fræðast um á næstu vikum. Teningnum var kastað. Réttum mánuði síðar, 1. febrúar 1998,  var komin vefsíða á netið sem kallaðist "Er jörðin að hitna? Ekki er allt sem sýnist". Vefsíðan var ekki löng í byrjun, en smám saman stækkaði hún og stækkaði þar til hún náði yfir 9 kafla.
 
Vefsíðan er ennþá hér, ef einhver skyldi vilja bera hana augum. Það verður að viðurkennast að henni hefur ekki verið haldið við, þannig að margar krækjur eru dauðar.  Takið eftir að í greininni "§ 16. Ítarefni í öðrum köflum vefsíðunnar..." neðarlega á inngangssíðunni eru krækjur að öðrum köflum vefsíðunnar það sem fjallað er ítarlegar um ýmislegt sem bloggarinn var að pæla í. Þess má geta í lokin, að í upphafi var öll síðan skrifuð með ritlinum Notepad og html-kóðuð handvirkt Smile
 
"Bloggað í 10 ár..." stendur í fyrirsögninni. Jæja, það er kanski aðeins orðum aukið... 
 
 
 
 
Enn eldri síða bloggarans: Gap Ginnunga frá 26.12.1996 (Stjörnuskoðun)

Töluvert yngri síða: Öldur aldanna  (Er jörðin að kólna?) 

 

"The important thing is to not stop questioning." - Albert Einstein 


Hefur þú séð Andromedu?

Andromeda vetrarbrautin er glæsileg. Smella þrisvar á myndina til að sjá stærri mynd. Astronomy Picture of the Day 2008-1-24
 

Andromedu vetrarbrautina má greina með berum augum þar sem ljósmengun er mjög lítil, en hún sést vel með venjulegum handsjónauka sem frekar óskýr hnoðri í Andromedu stjörnumerkinu. Hún er í 2,8 milljón ljósára fjarlægð, þannig að svona leit hún út fyrir 2.800.000 árum! Þarna eru milljarðar sólna og ekki ólíklegt að einhvers staðar sé viti borið líf. Hugsanlega er þar einhver að virða fyrir sér okkar vetrarbraut Halo

Stjörnufræðingar nefna hana oft M31, en hún er svokölluð þyrillvetrarbraut eins og okkar eigin vetrarbraut. Þar eru líklega meira en 400 milljarðar sólna.  Hugsum okkur að aðeins ein sól af milljón hafi reikistjörnu sem líkist jörðinni og að þar hafi líf í einhverri mynd þróast. Í Andromedu væru þá 400 milljón þannig "jarðir".  Auðvitað vitum við nákvæmlega ekkert um þetta, en það er gaman að láta hugann reika. Hugsum okkur aftur að við viljum ná sambandi við einhverja viti borna veru þar og sendum skilaboð með öflugum útvarpssendi. Viðkomandi fær ekki skeytið fyrr en eftir 2,8 milljón ár og við hugsanlegt svar í fyrsta lagi eftir 5,6 milljón ár!  Pinch

Reyndu að koma auga á Andromedu næst þegar þú ert undir stjörnubjörtum himni þar sem ljósmengun er lítil. Þú getur notað stjörnukortið sem er neðst á síðunni til að finna hana.

(Orðið "vetrarbraut" er hér notað fyrir "galaxy" þar sem við eigum ekkert gott íslenskt orð yfir fyrirbærið. Orðið stjörnuþoka er ekki nógu gott því það þýðir eiginlega rykský í himingeimnum. Sjá t.d. myndir af Orion þokunni (Orion nebula) hér.  Orðið stjörnuþoka er einnig oft notað fyrir galaxy og einnig óreglulegar stjörnuþyrpingar).
 

Þegar bloggarinn var að taka mynd af Hale Bopp halastjörnunni í mars 1997 var hann svo heppinn að Andromeda vetrarbrautin var þar nálægt og sést hún neðst til hægri á myndinni.

Á myndinni má einnig sjá aragrúa stjarna sem eru ósýnilegar með berum augum. Filma var Kodak PPF Pro 400 ASA. Linsa 135mm, Ljósop 3,5. Lýsingartími um 2 mínúur. Stjörnuhimninum var fylgt eftir með heimasmíðuðu mótordrifi.

 

haleBopp-andromeda-aurora-crop-saturation-700

 Hale Bopp, Andromeda og norðurljós í mars 1997

 

Andromedu má sjá á stjörnukortinu hér fyrir neðan sem gildir fyrir 4. febrúar 2008 kl. 21.00

Svona kort er hægt að sjá á vefsíðunni Heavens Above

Þetta er mjög áhugaverð vefsíða. Með því að skrá sig sem notanda (Register as an user) og gefa upp stað (Observing site, t.d. Reykjavík) er hægt að sjá stjörnukort fyrir himininn eins og hann er núna, miðað við staðinn sem gefinn er upp.  Ýmislegt fleira forvitnilegt er þar, svo sem upplýsingar um brautir gervihnatta, halastjörnur, o.fl.

Andromeda er mjög hátt á himninum í vesturátt um kl 21.   Auðvelt er að finna stóra "W" stjörnumerkið Cassiopeia, en Andromeda er nánast "undir" W-inu. Ef þú veist hvar pólstjarnan er, þá skaltu draga ímyndaða línu þaðan og í gegn um W og framlengja hana síðan þar til hún sker Andromedu vetrarbrautina. Notaðu venjulegan handsjónauka.

 

Stjornukort

 Myndin efst er frá Astronomy Picture of the Day (APOD)


Ótrúlegt hvað tíminn líður. 50 ár liðin frá geimskoti fyrsta bandaríska gervihnattarins

exp1Launch_msfc_fNú er hálf öld liðin síðan Bandaríkjamenn skutu upp sínum fyrsta gervihnetti Explorer-1, hinn 31. janúar 1958, fáeinum mánuðum eftir að Sovétmenn skutu upp Sputnik-1, 4. október 1957.

Þessi tvö geimskot fyrir hálfri öld mörkuðu upphaf geimaldar og hafa haft miklu víðtækari áhrif en flesta grunar. Án geimferðakapphlaupsins mikla væri margt öðru vísi en í dag.  Atburðurnir höfðu áhrif á stjórnmál, menntamál, vígbúnað og vísindi um allan heim.

Hvernig væri heimurinn án fjarskiptahnatta og veðurtungla?   Væru tölvur eins fullkomnar þær eru í dag? Væru til GSM símar? Hvernig væru samgöngur án GPS staðsetningartækja? Væri heilsugæslan eins góð? Væru til hátækni lækningatæki eins og segulómunartæki?

Það er ljós að geimferðakapphlaupið hleypti nýju blóði í rannsóknir, vísindi og vöruþróun.  Mjög miklar breytingar urðu á kennsluefni í stærðfræði og eðlisfræði og tóku kennslubækur miklum framförum. Bein og ekki síður óbein áhrif hafa vafalítið verið gríðarlega mikil á flestum sviðum daglegs lífs.

 Hér fyrir neðan eru myndbönd sem lýsa þessum atburði vel.

 

Hvaða áhrif telur þú að þessir atburðir hafi haft á daglegt líf okkar? Lífsgæði, heilsufar, efnahag, ...  Fróðlegt væri að fá álit þitt hér.

 
Áður hefur verið fjallað um Sputnik-1, sjá færsluna "Upphaf geimaldar 1957. Spútnik 50 ára í dag 4. október"

 

Sjá einnig vefsíðuna "Geimskot Frakka á Íslandi 1964 & 1965" 

 

 

NASA: Explorer 1 -- JPL and the Beginnings of the Space Age
 
 
 
 
Explorer 1 Launch : 1958-02-01
 
 
 
Bakvið tjöldin 
 

« Fyrri síða

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 762134

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband