Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Sjónarspil á himni um jólin - og Álfadansinn...

 

 

Júpiter og tunglið á jóladag

 



 
Það sakar ekki að gjóa augum til himins að kvöldi jóladags.

Þar mun Karlinn í Tunglinu spóka sig með Júpiter sjálfum á suðaustur himninum.
 
Óríon verður skammt undan og tekur þátt í gleðskapnum ásamt Systrunum sjö.
 
Hver veit nema öll syngi þau saman Máninn hátt á himni skín, hrímfölur og grár...



 

Myndin er tekin úr tölvu-stjörnukortinu Starry Night Pro og sýnir hvernig afstaða Tunglsins og Júpiters verður klukkan 9 að kvöldi  25. desember. Máninn verður þar örskammt frá hinni björtu reikistjörnu.  Það sakar ekki að hafa með sér sjónauka, jafnvel venjulegan handsjónauka.

Nú er bara að vona að ekki verði skýjað...

Vefsíða NASA Christmas Sky Show.

 

 

 ...en þar sem við erum að fjalla um Mánann:

 

 

                                                             Álfadansinn

jon_olafsson_ritstjori.jpgNú er ekki nema vika til áramóta og allir kunna að syngja Máninn hátt á himni skín...   Hvernig varð Álfadansinn til?

Langafi minn, Jón Ólafsson ritstjóri, átti auðvelt með að yrkja og var fljótur að því. Eftirfarandi birtist í Iðunni - Tímarit til skemmtunar, nytsemdar og fróðleiks árið 1916 sem lesa má hér. Umfjöllunin um Jón Ólafsson hefst á blaðsíðu 82.

 

 

Eftirfarandi úrklippa er frá blaðsíðum 84-85, en þar er fjallað um Álfadansinn:

 

"... Piltar léku þá oft sjónleika um miðsvetrarleytið
og höfðu það til siðs að syngja eitthvert ný-ort kvæði
undan leiknum. í þetta sinn (1873) höfðu þeir fengið
loforð hjá Jóni um að yrkja kvæðið, en hann var
þá á einhverju slarki, og svo rann upp dagurinn,
að ekki fengu þeir kvæðið. Kristján Eldjárn og annar
maður til fóru þá heim til Jóns kl. 2 um daginn,
en hann bjó þá eins og síðar á horninu á Laugavegi
og Skólavörðustíg.

Þegar þeir koma inn til Jóns,
sefur hann svefni hinna réttlátu. Kristján veður þá
að honum, dregur hann harkalega fram á rúmstokk-
inn og heimtar af honum kvæðið; en Jón hafði
ekkert kvæði ort. Lofar samt að gera það svo tíman-
lega, að þeir geti sungið það um kvöldið, og það varð:


          Halló, halló!
     Á bylgjandi bárum
     nú beitið ei árum,
     en seglið pér greiðið,
     því gott er nú leiðið
og látum nú klofinn hinn löðrandi sjó,
því leiðið er inndælt. Halló!


-

Annað kvæði, sem Jón var að eins eina »matmáls-
stund« að yrkja, var hið þjóðkunna kvæði »Máninn
hátt á himni skín«
. Þeir höfðu komið sér saman um
það ungir mentamenn í bænum, ég held að undirlagi
Valdemars Briems, að halda álfadans á gamla-árs-
kvöld 1871.

Verkum var þannig skift niður, að Ólafur
sá, sem nefndur var »HvítaskáId« í skóla, síðar
prestur  að Ríp,   skyldi yrkja upphafskvæðið,   er álf-
arnir komu á svellið, Jón Ólafsson sjálfan álfadans-
inn og Valdemar Briem um brautförina af svellinu.

Jón varð hugfanginn af hugmyndinni og gekk um
kvöldið heim með Eiríki Briem, sem þá bjó í Hjalte-
steðshúsi. Þar var matur á borðum, hangikjöt og
annað góðgæti og bauð Eiríkur Jóni að borða. Sett-
ust þeir niður sinn hvoru megin við borðið, en Jón
sinti ekki matnum, heldur tók að yrkja, og það stóð
heima, þegar Eiríkur var búinn að borða, hafði Jón
lokið kvæðinu. Daginn eftir kom Valdemar Briem
svo sínu kvæði á hann líka, og hann var eittkvað
álíka fljótur að yrkja það..."

 

- - -


Álfadansinn  (Eins og hann birtist í Þjóðólfi 23. janúar 1872):

 

BLYSFARARDANS
[Sungið við „Álfadansinn" á Reykjavíkurtjörn (— með
færeyska Vikivaka-laginu: „Góða skemtan gjöra skal þars eg
geng í dans),  —   í blysför eðr við  blysburð   stúdenta og
skólapilta á gamlárskvöld 31. Desember 1871].

 

1.  Máninn hátt á himni skín
            hrímfölr og grár.
     Líf og tími Iíður,
           og liðið er nú ár.


K ó r : Bregðum blysum á lopt
           bleika lýsum grund;
           glottir tungl, en hrín við hrönn,
           og hraðfleig er stund.


2.  Kyndla vora hefjum hátt,
           horfið kveðjum ár.
     Dátt vér dansinn stigum,
           dunar ísinn grár.


Bregðum blysum á lopt o. s. frv.


3.  Nú er veðr næsta frítt
           nóttin er svo blíð.
     Blaktir blys í vindi,
           blaktir líf í tíð.


Bregðum blysum á lopt o. s. frv.


4.  Komi hver sem koma vill,
           komdu nyja ár.
     Dönsum dátt á svelli,
           dunar ísinn blár.


Bregðum blysum á lopt o. s. frv.


5. Færðu unað, yndi' og heill
           öllum vættum lands.
     Stutt er stund að líða,
           stígum þétt vorn dans.


Bregðum blysum á lopt o.s.frv.


6. Færðu bónda' í búið sitt
           björg og heyja-gnótt.
     Ljós í lopti blika,
           líðr fram á nótt.


Bregðum blysum á lopt o.s.frv.


7. Gæfðir veittu', en flýi frost,
           fiskinn rektu' á mið.
     Dunar dátt á svelli,
           dansinn stígum við.


Bregðum blysum á lopt O.s.frv.


8. Framför efldu, fjör og líf
           færðu til vors lands.
     Stutt er stund að líða,
           stígum þétt vorn dans.


Bregðum blysum á lopt o.s.frv.


9. Máninn hátt á himni skín
           hrímfölr og grár.
     Líf og tími líður,
           og liðið er nú ár.


           Bregðum blysum á lopt
           bleika lýsum grund.
           Glottir tungl, en hrín við hrönn
           og horfin er stund.

 

Jón var fæddur 1850 og því 21 árs þegar hann orti Álfadansinn eða Blysfarardansinn skömmu fyrir gamlársdag 1871.

 

 

 

Gleðileg  jól !

 
 

tungl.jpg

 

 

Hrímfölur og grár...

Gleymið ekki Tunglinu og Júpiter á jóladagskvöld.

Svona verður afstaðan um miðnætti.

Reynið að koma auga á tungl Júpiters með sjónauka!



Sól ég sá, sanna dagstjörnu, drjúpa dynheimum í --- Sólvirknin nálgast hámark sem er mun lægra en hið fyrra...

 

 



solarlag_des2012.jpg


Sól ég sá, sanna dagstjörnu, drjúpa dynheimum í...  Þannig byrjar eitt erindið af 83 í hinum fornu Sólarljóðum sem komu mér í hug fyrir skömmu þegar ég sá myndina sem myndavélin mín fangaði í uppsveitunum fyrir fáeinum dögum. Sólarljóðin eru eftir óþekktan höfund líklega frá því nokkru eftir árið 1200, en ljósop myndavélarinnar myndaði þessa fallegu stjörnu og bjó óbeðið til þessa fallegu sólargeisla.

Í dag á vetrarsólstöðum er sólin lægst á lofti. Hún rétt nær því að komast um 3 gráður yfir sjóndeildarhringinn á höfuðborgarsvæðinu um hádegisbil. Skammdegið er í hámarki, en á morgun fer daginn að lengja aftur, fyrst um eitt hænufet og síðan um tvö, og svo skref fyrir skref...

Í þessum sólarpistli er fjallað um fortíð, nútíð og framtíð...

Hin sanna dagstjarna, sólin, sem við búum í nábýli við og veitir okkur birtu og yl, er svokölluð breytistjarna. Við verðum ekki vör við það dags daglega, en þegar grannt er skoðað sjáum við að ásjóna hennar breytist nokkuð reglulega. Hún kætist og verður freknótt og spræk með um 11 ára millibili, og þá prýða sólblettir ásjónu hennar. Þess á milli hverfa blettirnir og sólin verður ekki eins virk. Með mælitækjum má sjá að birtan frá sólinni breytist örlítið á þessu tímabili, ekki mikið, en nóg til þess að hægt sé að nefna hana breytistjörnu eða "variable star".

Það er ekki nóg með að sólin breytist með svonefndri 11 ára sveiflu, heldur má greina lengri sveiflur, 90 ára, 200 ára, o.s.frv.  Það veldur því að fjöldi sólbletta í hámarki 11-ára sveiflunnar er breytilegur. Stundum stundum er sólblettatalan vel á annað hundað, stundum minna en hundrað og jafnvel hefur komið fyrir að nánast engir sólblettir hafa sést. Svo eru sveiflurnar mislangar, síðasta sólsveifla var óvenju löng eða 12,6 ár.

Við erum nú að nálgast hámark 11-ára sólsveiflu sem hefur raðnúmerið 24. David Hathaway hjá NASA gefur reglulega út spádóma þar sem hann reynir að spá fyrir um hæð sólsveiflunnar. Nú er hámarkinu næstum náð eins og sjá má á fallegu myndinni hér fyrir neðan sem fylgir nýjustu spá hans:

 

hathaway_sunspot_prediction_dec2012.gif

 

Eins og sjá má myndinni hér fyrir ofan, þá stefnir sólvirknin í hámark "11-ára sólsveiflunnar" á allra næstu mánuðum.   Sólblettatalan verður nú um 70 en var um 120 við síðasta hámark.  Það er töluverður munur, en það getur verið fróðlegt að bera þessa sólblettatölu við fyrri sólsveiflur.

 

 

sidc_dailysunspotnumbersince1900.gif

Hér sjáum við sólsveiflur aftur til ársins 1900 og blasir þá við að núverandi sólsveifla ætlar að verða sú veikasta í 100 ár. Aðeins sólsveiflan sem var í hámarki um það bil 1905 var lægri.

 

 

600px-solar_cycle.gif

 

Hér sjáum við sólsveiflur aftur til ársins 1600 er menn byrjuðu reglubundið að fylgjast með sólblettum, reyndar ekki kerfisbundið fyrr en síðar. Það var einmitt fyrir rúmum 400 árum þegar Galileo Galilei beindi sjónauka sínum til himins sem menn fóru að fylgjast með hinum furðulegu sólblettum af áhuga. Sólsveiflu 24, sem nú nálgast hámark, vantar á myndina.

En hvað gerist á tímabilinu 1650 til 1700, sjást engir sólblettir þá? Þeir voru víst sárafáir sem prýddu ásjónu sólar þá. Sólblettalausa tímabilið nefnist Maunder Minimum, eða Maunder lágmarkið í virkni sólar og er kennt við stjörnufræðinginn Edward Walter Maunder sem rannsakaði þetta tímabil, en af einhverjum ástæðum fellur það saman við kaldasta tímabil Litlu Ísaldarinnar. Þetta tímabil hefur einnig það virðulega nafn Grand Minimum.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá annað lítið virkt tímabil við sólsveiflur 5 og 6, en það kallast Dalton lágmarkið, en þá var líka af einhverjum ástæðum frekar svalt.  Við tökum einnig eftir að sólsveiflan sem var í hámarki 1905 og minnst var á fyrr í pistlinum hefur raðnúmerið 14.

Nú vaknar auðvitað áleitin spurning; heldur sólvirknin áfram að minnka? Er hætta á að sólvirknin stefni í annað Grand Minimum á næstu árum? Enginn veit neitt um það, en vísindamenn reyna auðvitað að sjá lengra en nef þeirra nær.

 

 

livingston_and_penn.png

Efri myndin: Birta sólbletta hefur farið vaxandi undanfarin ár. Þeir verða því ekki eins svartir og hverfa síðan að mestu ef heldur fram sem horfir.


Neðri myndin: Styrkur segulsiðs innan sólbletta hefur farið lækkand.

 

Myndin hér að ofan er fengin úr grein tveggja vísindamanna þeirra Livingston og Penn, sjá tilvísun í greinar neðst á síðunni. Reyndar er þetta uppfærð mynd sem inniheldur nýjustu mælingar, allt til þessa dags.  Þeir hafa um árabil fylgst með sólinni á óvenjulegan hátt. Þeir hafa nefnilega verið að fylgjast með því hvernig birta sólblettanna breytist með tímanum, svo og styrkur segulsviðsins inni í þeim. Það er auðvitað tiltölulega einfalt að mæla birtuna, en til þess að mæla segulsviðið hafa þeir notað svokölluð Zeeman hrif sem valda því að litrófslínur klofna í fleiri línur í segulsviði.

Á neðri myndinni sjáum við hvernig styrkur segulsviðsins í sólblettunum hefur farið minnkandi. Þeim félögum Livingston og Penn reiknast til, að þegar styrkurinn er kominn niður í 1500 Gauss að þá verði birtuskilin (contrast) milli sólblettanna og umhverfis þeirra orðinn svo lítil að blettirnir verða ósýnilegir og munu því hverfa sjónum okkar að mestu meðan þetta ástand varir. Er nýtt Grand Minimum á næsta leiti?  Daufa bláa línan sem sker lóðrétta ásinn við 1500 Gauss sýnir okkur þessi mörk og línan sem hallar niður til hægri sýnir okkur hver tilhneigingin er í dag.

Ef fram heldur sem horfir, þá munu þessar linur skerast eftir  fáein ár. Lesendur geta reynt að finna út hvenær það verður...

Auðvitað er ekki víst að ferillinn sem sýnir styrk segulsviðsins inni í sólblettunum haldi áfram að falla, en líklegt má telja að næsta sólsveifla, sólsveifla númer 25, muni verða öllu lægri en núverandi sem er sú lægsta í yfir 100 ár.

 

sunspots_earth_size_big-486w.jpg

 

                                                Sólblettur getur verið gríðarstór

 

Þessi minnkandi virkni sólar mun þó gefa okkur kærkomið tækifæri til að meta áhrif sólar á  hitafar jarðar. Ef þau áhrif eru óveruleg þá mun halda áfram að hlýna með auknum styrk koltvísýrings í loftinu, en hætti að hlýna og fari síðan að kólna...   -  Við Frónbúar skulum bara vona að ekki kólni, því það yrði fæstum okkar hér á klakanum kærkomið.

 

Hvað um það, hátíð fer í hönd og því tilefni til að enda þennan Sólarpistil á þeim hluta hinna merku  Sólarljóða sem ljóðin eru kennd við. Þetta eru erindi númer 39-45 af 83:

 

 





...

Sól ek sá,
sanna dagstjörnu,
drúpa dynheimum í;
en Heljar grind
heyrðak ek á annan veg
þjóta þungliga.

Sól ek sá
setta dreyrstöfum;
mjök var ek þá ór heimi hallr;
máttug hon leizk
á marga vegu
frá því sem fyrri var.

Sól ek sá,
svá þótti mér,
sem ek sæja göfgan guð;
henni ek laut
hinzta sinni
aldaheimi í.

Sól ek sá,
svá hon geislaði,
at ek þóttumk vættki vita;
en gylfar straumar
grenjuðu annan veg,
blandnir mjök við blóð.

Sól ek sá
á sjónum skjálfandi,
hræðslufullr ok hnipinn;
því at hjarta mitt
var harðla mjök
runnit sundr í sega.

Sól ek sá
sjaldan hryggvari;
mjök var ek þá ór heimi hallr;
tunga mín
var til trés metin,
ok kólnat at fyrir utan.

Sól ek sá
síðan aldregi
eftir þann dapra dag,
því at fjalla vötn
lukðusk fyrir mér saman,
en ek hvarf kallaðr frá kvölum.

...

 

Sólarljóð eru talin vera frá tímabilinu 1200-1250. Höfundur er óþekktur. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar stendur: „Sæmundur andaðist 1133, en með hverjum atburðum höfum vér eigi heyrt; þó segja menn, að hann þrídagaður hafi úr líkrekkjunni risið og þá kveðið þá drápu, er hans Ljóða-Eddu er vön að fylgja og kallast Sólarljóð".  Þessu  trúum við rétt mátulega, en þjóðsagan ekki verri fyrir það.

Í Sólarljóðum  birtist kristinn og heiðinn hugarheimur og þar birtist faðir syni sínum í draumi og ávarpar hann frá öðrum heimi.

Sólarljóð má t.d. lesa hér ásamt enskri þýðingu sem Benjamin Thorpe gerði 1866. Tilvísanir í þýðingar á önnur tungumál má finna hér.

Það er vel þess virði að lesa Sólarljóð í heild sinni.  

 

 
 
 
jkort2.jpg
 
 
 
 
 
Krækjur:
 
 
 
 
Livingston & Penn: Sunspots may vanish by 2015
 

Dr. Leif Svalgaard (fyrirlestur): Livingston & Penn Data and Findings so Far
 
 
 
 
 
 
 
 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

NASA fjallar um væntanlegan heimsendi - Myndband...

 

 

heimsendir-620.jpg

 

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum
að heimurinn á að farast á vetrarsólstöðum í ár.

En er það ekki bara bull?

NASA hefur séð ástæðu til að gera myndband um málið.

 

 


 

 

Vefsíða NASA um heimsendinn: 

Why the World Didn't End Yesterday

 

 

 

 - - -

Hér er vefsíða fyrir þá sem trúa á heimsendi:

www.december212012.com

 


Ég nota kjarnorku fyrir hita og ljós í kofanum mínum...

 

 

kjarnorka_islandi.jpg

 


 

Ég nota kjarnorku til að hita upp kofann minn í íslensku sveitinni og einnig til að lýsa hann upp í skammdeginu. Enn sem komið er eru það ekki nema 5% raforkunnar sem ég nota sem koma frá kjarnorku og 6% frá kolum og olíu. Ég get þó verið sæmilega ánægður því heil 89% koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Humm... 

Er átt við jarðvarmann sem á uppruna sinn að rekja til kjarnorkunnar í iðrum jarðar? Það hélt ég fyrst, en málið er ekki svo einfalt.

Þetta kom mér á óvart, en ég hlýt að trúa upplýsingum frá opinberum aðilum, þó ótrúlegar séu. Myndin hér að ofan er úr skjalinu Uppruni raforku -  Stöðuð yfirlýsing fyrir árið 2011 sem skoða má hér á vef Orkustofnunar.

 


uppruni_raforku.jpg

 


 

 


Ég er aldeilis hlessa...

Skýringuna er að finna hér á vef Orkustofnunar. Reyndar er svona hringavitleysa langt fyrir ofan minn skilning. Tengist þetta beint eða óbeint kaup og sölu á kolefniskvóta? Ef svo er, hversvegna eru menn að standa í þessu?

Hvað sem þessu líður, þá er Ísland ekki lengur grænt í huga útlendinga.  Það er ekki lengur hægt að markaðssetja íslenska orku sem græna. Uppruni orkunnar er ekki lengur endurnýjanleg samkvæmt opinberum gögnum, heldur einnig kjarnorka og jarðefni W00t

Þeir ferðamálafrömuðir sem vilja selja Ísland sem land þar sem öll orka til húshitunar og lýsingar  er endurnýjanleg geta ekki lengur fengið vottorð um að svo sé, jafnvel þó allir viti mætavel að hvorki kjarnorka né jarðefnaeldsneyti sé notað í íslenskum orkuverum. Kerfið segir annað og við skulum bara gjöra svo vel og trúa því, þó það sé endemis vitleysa.

Hverslags kjánaskapur er þetta eiginlega?   

 

 

Frá því í desember 2011 hafa íslensk orkufyrirtæki gefið út og selt upprunaábyrgðir og voru það ár seldar upprunaábyrgðir fyrir um það bil 2 teravattstundir [TWst] vegna raforkuframleiðslu á Íslandi en heildarframleiðslan nam 16,8 TWst. Í staðinn fyrir útgefnar og seldar upprunaábyrgðir þarf að færa inn sama magn í hlutföllum samkvæmt vegnu meðaltali á samsetningu raforkuframleiðslu í Evrópu í stað þeirra 2 TWst. sem seldar voru úr landi í formi upprunaábyrgða. Þannig er endanleg  raforkusala á Íslandi eftir orkugjöfum reiknuð út.          

 Sjá hér.

         ¿¿¿ ...Skilekki... ???

 

 

 

Ef einhver skilur hvað er á seyði, þá er pláss hér fyrir neðan til að skýra það út á mannamáli fyrir okkur hin sem ekki skiljum...

 
 
 
 
Í hnotskurn:
(Bætt við eftir að höfundur pistilsins fór að skilja málið betur) 
 
 
"Upprunaábyrgðir raforku koma til í kjölfar Kyoto bókunarinnar
og þeirrar ákvörðunar ríkja að láta loftslagsmál sig varða. 
Markmiðið er að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í heiminum
og spyrna þar með gegn auknum gróðurhúsaáhrifum."
 
"Því hefur skapast markaður fyrir upprunaábyrgðir raforku sem virkar þannig
að þeir sem framleiða endurnýjanlega orku geta selt græn skírteini
til orkusölufyrirtækja í öðrum löndum
sem síðan bjóða upp á sérstakan grænan taxta til sinna viðskiptavina".


 
"Losun koldíoxíðs og kjarnorkuúrgangs
í hlutdeild raforkusölu á Íslandi 2011 er því þannig:
 
Koldíoxíð 42,25 g/kWh

Geislavirkur úrgangur 0,15 mg/kWh"
 
(Sjá hér á vef OR)

 

 

 

 

 

 

 

fjallkonan_1181956.jpg

 

Hverjir hafa verið að selja Fjallkonuna?

 


 

Uppfært í júní 2013:

Hlutur kjarnorku og jarðefnaeldsneytis hefur verið aukinn frá því í fyrra. 
Þessa mynd má sjá á vef Orkuveitu Reykjavíkur, sjá hér:

 

upprunaabyrgdir_2012.png

                                        "Losun koldíoxíðs og kjarnorkuúrgangs í hlutdeild raforkusölu á Íslandi 2011 er því þannig:

                                                            Koldíoxíð 159,05 g/kWh
                                                            Geislavirkur úrgangur 0,45 mg/kWh

 

 


Íslenska birkiplantan á Englandi vex hratt...

 

 

 

birki-ebbla-uk-sept-2012.jpg

 

Vorið 2010 birtist hér pistill sem nefndist    Íslenska birkið á Englandi...

Pistillinn fjallaði um birkiplöntu eina í á suður Englandi sem var 10 cm vorið 2007 en var orðin 100 cm þrem árum seinna eða vorið 2010. Hvernig skyldi henni hafa vegnað? Plantan rekur ættir sínar til Íslands og er kynbætt afbrigði sem kallast Embla.

Myndin hér fyrir ofan var tekin nú í haust eða 22. september. Nú er birkið orðið 300 cm hátt og varla hægt tala um birkiplöntu, heldur  birkitré.  Óneitanlega hefur birkið vaxið hratt, miklu hraðar en maður á að venjast hér á landi.

Hvað skyldi 10 cm birki sem plantað var á Íslandi vorið 2007 vera orðið hátt?  

 

Meira hér.


 





birkid-2010.jpg
Vorið 2010 var birkið um 100 cm.
 
 


birkid-2007.jpg

Vorið 2007 var birkið aðeins um 10 cm. Ætli það sé ekki ársgamalt á myndinni.

 

 

 


Vindstig eða m/s: Hvort skilur almenningur betur...?

 

 

 

haraldur-2.jpg


 


 

Getur verið að margir (flestir) hafi litla sem enga tilfinningu fyrir vindstyrk sem gefinn er upp í metrum á sekúndu?  Getur verið að flestir skilji mun betur gömlu góðu vindstigin?  Getur verið að fæstir geri sér grein fyrir að eyðileggingamáttur vindsins vex mjög hratt með vindhraðanum, miklu hraðar en tölurnar gefa í skyn?   Getur verið veðurfréttir, þar sem vindhraðinn er gefinn upp sem sekúndumetrar fari meira og minna fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum og það bjóði hættunni heim?

Í fersku minni er óveðrið í byrjun september síðastliðinn.  Ýmsir, þar á meðal einn ráðherra, töldu að ekki hefði verið varað við veðrinu. Það hafði þó verið gert, en svo virðist sem þær aðvaranir hafi ekki komist til skila. Hvernig stendur á því?

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur kom fram í sjónvarpinu eftir að í ljós kom að Ögmundur ráðherra hafði ekki skilið veðurfréttirnar.  Hann birti veðurkort sem sýnt var í veðurfréttum Sjónvarpsins 8. september.  Þar mátti sjá að spáð var um 25 m/s vindhraða skammt norður af landinu.   Veðurfræðingurinn tók fram að það jafngilti 10 vindstigum og við þann vindstyrk rifnuðu tré upp með rótum.    Um leið og hann nefndi 10 vindstig kviknaði ljós hjá mörgum.  Nú loks var talað mannamál í veðurfréttunum, en það hafði ekki verið gert árum saman.  - Loksins.

Það er nefnilega svo að við eigum mjög góðan skala yfir vindstyrk, skala sem er miklu meira lýsandi fyrir áhrif vindsins en sekúndumetrarnir sem í  hugum flestra eru bara einhverjar tölur, kannski álíka tölur og hitastigin á kortinu.  

Það eru í raun fáir sem gera sér grein fyrir hve eyðileggingamáttur vindsins vex hratt með vindhraðanum.  Það eru fáir sem vita að við tvöföldun á vindhraða áttfaldast aflið í vindinum. Vindrafstöðvar framleiða t.d. áttfalt meira afl ef vindhraðinn tvöfaldast, 27 sinnum meira ef hann þrefaldast.     Með öðrum orðum, þá er aflið í vindi sem er 24 m/s næstum 30 sinnum meira en aflið í vindi sem er aðeins 8 m/s.

Ég gæti vel trúað því að veðurfréttir kæmust mun betur til skila hjá flestum ef veðurfræðingar og veðurfréttamenn temdu sér að nota vindstig frekar en sekúndumetra.   Eða öllu heldur, nota gömlu góðu veðurheitin í stað þeirra þriggja orða sem núorðið heyrast nánast eingöngu í veðurfréttum, þ.e. logn, strekkingsvindur og stormur.  Veðurfréttamenn, að minnsta kost þeir sem komnir eru til vits og ára, hljóta að þekkja hin gömlu góðu heiti. Til upprifjunar birti ég hér töflu sem fengin er að láni hér hjá Trausta Jónssyni.

 


Mat vindhraða eftir Beaufort-kvarða


StigHeitim/sÁhrif á landi
0Logn0-0,2Logn, reyk leggur beint upp.
1Andvari0,3-1,5Vindstefnu má sjá af reyk, flögg hreyfast ekki.
2Kul1,6-3,3Vindblær finnst á andliti, skrjáfar í laufi, lítil flögg bærast.
3Gola3,4-5,4Breiðir úr léttum flöggum, lauf og smágreinar titra.
4Stinningsgola5,5-7,9Laust ryk og pappírssneplar taka að fjúka, litlar trjágreinar bærast. Lausamjöll byrjar að hreyfast.
5Kaldi8,0-10,7Lítil lauftré taka að sveigjast. Freyðandi bárur á stöðuvötnum. Lausamjöll hreyfist.
6Stinningskaldi10,8-13,8Stórar greinar svigna. Hvín í línum. Erfitt að nota regnhlífar. Lágarenningur viðvarandi.
7Allhvass vindur13,9-17,1Stór tré sveigjast til. Þreytandi að ganga á móti vindi. Skyggni slæmt í snjókomu. 
 8Hvassviðri17,2-20,7 Trjágreinar brotna. Erfitt að ganga á móti vindinum. Menn baksa á móti vindi. Skyggni í snjókomu verður lítið sem ekkert. 
 9Stormur20,8-24,4 Lítilsháttar skemmdir á mannvirkjum. Varla hægt að ráða sér á bersvæði. Glórulaus bylur ef snjóar.  
 10Rok24,5-28,4 Fremur sjaldgæft í innsveitum. Tré rifna upp með rótum, talsverðar skemmdir á mannvirkjum.  
 11Ofsaveður28,5-32,6 Miklar skemmdir á mannvirkjum. Útivera á bersvæði hættuleg. Rýfur hjarn, lyftir möl og grjóti.  
 12Fárviðri >= 32,7  Allt lauslegt fýkur, þar á meðal möl og jafnvel stórir steinar. Kyrrstæðir bílar geta oltið eða fokið. Heil þök tekur af húsum. Skyggni oftast takmarkað, jafnvel í þurru veðri.

 

Munur á 20 m/s og 30 m/s hljómar ekki mikill (50%), en það er samt gríðarlegur munur á hvassviðri (20 m/s, 8 vindstig) og ofsaveðri (30 m/s, 11 vindstig).     Líklega er það nokkuð sem fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir.

 

 

Þess má geta að Trausti minnist hér á Jón Ólafsson langafa bloggarans:

Jón ritstjóri Ólafsson

Þegar sendingar veðurskeyta hófust héðan árið 1906 fór fréttablaðið Reykjavík (undir ritstjórn Jóns Ólafssonar) fljótlega að birta veðurskeyti frá nokkrum veðurstöðvum. Þar fylgdu með nöfn á hinum 13 stigum Beaufort-kvarðans. Líklegt er að Jón hafi sjálfur raðað nöfnunum á kvarðann:

  • 0 Logn (logn)
  • 1 Andvari (andvari)
  • 2 Kul (kul)
  • 3 Gola (gola)
  • 4 Kaldi (stinningsgola, blástur)
  • 5 Stinningsgola (kaldi)
  • 6 Stinnings kaldi (stinningskaldi)
  • 7 Snarpur vindur (allhvass vindur)
  • 8 Hvassviðri (hvassviðri)
  • 9 Stormur (stormur)
  • 10 Rokstormur (rok)
  • 11 Ofsaveður (ofsaveður)
  • 12 Fárviðri (fárviðri)

Eru hér að mestu komin sömu nöfnin og Veðurstofan notaði síðar í veðurspám, þau má sjá í sviganum í töflunni. Fyrstu stigin þrjú, frá logni til kuls, eru gjarnan kölluð hægviðri og reyndin var sú að orðið gola var oftast notað sem samheiti á 3 til 4 vindstigum eins og í töflu Jóns Eyþórssonar, svo sem áður var getið.

 

 

Mikið yrði ég þakklátur ef veðurfræðingar og veðurfréttamenn færu aftur að nota gömlu góðu vindstigin í veðurfréttunum Joyful

 

Í fyrirsögn pistilsins var spurt  "Vindstig eða m/s:  Hvort skilur almenningur betur?"

Sjálfur skil ég vindstigin og samsvarandi heiti betur, miklu betur Cool

 

  ---

 

Smá fróðleikur um vindrafstöðvar:

Mesta virkjanlegt afl í vindinum fæst með þessari jöfnu:

 

 P = 1/2  ξ  ρ  x  A  x  v3      

þar sem

P = afl (Wött)

ξ  = nýtnistuðull

ρ = þéttleiki lofts (kg/m3)

A = flöturinn sem vindurinn fer um (m2)

v = vindhraði (m/s)

 

Sem sagt, aflið mælt í wöttum fylgir vindhraðanum í þriðja veldi (v3).  Sjá hér.

 


 

 

 


 


Með fjölnýtingu má gjörnýta orku jarðhitasvæðanna...

 

 

reykjanesvirkjun.jpg

 


 

 

HS-Orka og HS-veitur, eru meðal merkustu fyrirtækja þjóðarinnar. Þar starfa djarfir og framsýnir menn sem þora að takast á við vandamál sem fylgja því að vinna orku úr 300 gráðu heitum jarðsjó, sem sóttur er í iður jarðar á Reykjanesskaganum. Þeir eru sannkallaðir frumkvöðlar. Að sækja orku í sjó sem hitaður er með eldfjallaglóð er einstakt í heiminum. „Gull að sækja í greipar þeim geigvæna mar, ekki er nema ofurmennum ætlandi var" segir í kvæðinu Suðurnesjamenn. Það á ekki síður við um Suðurnesjamenn nútímans.

 

Hefðbundin jarðvarmaorkuver eins og Kröflustöð framleiða aðeins rafmagn. Önnur jarðvarmaver eins og Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun framleiða einnig heitt vatn sem notað er til húshitunar.

 

Í Svartsengi hefur aftur á móti smám saman þróast sannkallaður auðlindagarður með ótrúlega margslunginni starfsemi. Þar er ekki eingöngu framleitt rafmagn, heitt vatn og kalt vatn, heldur hefur til hliðar við alkunna starfssemi Bláa lónsins, sem 400 þúsund gestir heimsækja árlega, verið komið á fót meðferðarstöð fyrir húðsjúka, þróun og framleiðslu snyrtivara og sjúkrahóteli, svo fátt eitt sé nefnt.

 

Á vegum HS eru stundaðar margs konar rannsóknir á ýmsum sviðum til að leggja grunninn að framtíðinni. Hugmyndin að djúpborunarverkefninu á rætur að rekja til HS og ÍSOR. Svo má ekki gleyma því að nú er verið að taka í notkun verksmiðju í Svartsengi sem á að vinna metanól eldsneyti úr kolsýrunni sem margir telja eiga einhvern þátt í hnatthlýnuninni. Skammt frá Svartsengi er hátæknifyrirtækið Orf-Genetics sem nýtir græna orku; ljós og hita, frá Svartsengi til að smíða sérvirk prótein úr byggplöntum. Jafnvel er ætlunin að nota koltvísýringinn úr borholunum sem áburð fyrir plönturnar.

 

Í auðlindagarðinum í Svartsengi hafa nú um 150 manns fasta atvinnu; læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, viðskiptafræðingar, ferðamálafræðingar, tæknifræðingar, verkfræðingar, vélfræðingar, líffræðingar, lyfjafræðingar, jarðfræðingur, forðafræðingur, matreiðslumenn, trésmiðir, þjónar, blikksmiðir, vélvirkjar, rafvirkjar og ófaglærðir. Fræðslustarfsemin skipar sinn sess í auðlindagarðinum. Í Svartsengi er fyrirtaks aðstaða fyrir ráðstefnuhald, fræðslusetrið Eldborg og Eldborgargjáin, og á Reykjanesi er hin metnaðarfulla sýning Orkuverið Jörð. Sýningin hefst á atburði sem gerðist fyrir 14 milljörðum ára er ,,allt varð til úr engu", þ.e. við Miklahvell. Saga alheimsins er síðan rakin í máli og myndum með sérstakri áherslu á sólkerfið. Fjallað er um orkulindir jarðar og hvernig nýta má þær í sátt við umhverfið okkur jarðarbúum til hagsbóta.

 

sadi_carnot.jpgÞar sem eingöngu er framleitt rafmagn úr jarðgufu setur eðlisfræðin okkur takmörk varðandi nýtni. Það á við um allar vélar sem nýta hitaorku til að framleiða hreyfiorku. Bílvélin er ekki undanskilin. Úr varmafræðinni þekkja margir Carnot-hringinn sem kenndur er við Nicolas Léonard Sadi Carnot, en hann setti fram kenningu sína árið 1824. Jafnan e=1-TC/ TH gefur okkur mestu mögulega nýtni varmavélar sem vinnur milli tveggja hitastiga TC og TH.

Sem dæmi má taka gufuhverfil þar sem hitastig gufunnar inn er 150°C (423° Kelvin) og gufunnar út 50°C (323° Kelvin). Fræðileg hámarksnýtni verður þá 1-TC/TH = 1-323/423 = 0,24 eða 24%.

Að sjálfsögðu er raunveruleg nýtni öllu lægri en fræðilega nýtnin þar sem ávallt tapast einhver hluti orkunnar sem núningur í vélbúnaði, og einnig þarf að nýta hluta framleiddrar raforku til að knýja dælur o.fl. Í raun er heildarnýtni jarðgufustöðvar sem eingöngu framleiðir rafmagn nær því að vera um 15%. Nýtni bílvélarinnar er í raun ekki mikið meiri en 20%, þó svo fræðileg nýtni sé nær því að vera 40%.

 

Carnot er ekki hægt að plata þegar eingöngu er framleitt rafmagn, en það er hægt að nýta á fjölmargan hátt varmann sem til fellur og færi annars óbeislaður út í náttúruna. Þannig getum við aukið nýtnina við nýtingu jarðgufunnar verulega umfram 15%. Það fer eftir aðstæðum hverju sinni hve mikilli heildarnýtni má ná með fjölnýtingu, og einnig fer það eftir því við hvað er miðað og þær forsendur sem notaðar eru. Án þess að fullyrða of mikið mætti nefna 30-50% til þess að hafa samanburð. Það er um tvöföldun til þreföldun miðað við rafmagnsframleiðslu eingöngu.

 

Flestir hafa tekið eftir miklum gufumekki sem leggur frá kæliturnum flestra jarðvarmaorkuvera. Þetta er varmi sem stundum getur verið hagkvæmt að nýta og er vissulega arðbært ef rétt er að málum staðið. Aðstæður á virkjanastað og í nágrenni hans eru mjög mismunandi. Þess vegna er ekki hægt að beita sömu aðferðum alls staðar. Stundum er virkjunin nærri byggð og þá getur verið hagkvæmt að nota varmann sem til fellur til að framleiða heitt vatn, eins gert er í Svartsengi, Nesjavöllum og Hellisheiði. Á þessum stöðum er því heidarnýtnin töluvert meiri en 15% af þessum sökum. Með svokallaðri fjölnýtingu má gera enn betur...

 

Dæmi um fjölnýtingu:

Með svokölluðum tvívökvavélum, þar sem vökva með lágt suðumark er breytt í gufu sem knýr hverfil, er stundum hagkvæmt að vinna raforku úr lághita. Varmann má nýta á staðnum fyrir efnaiðnað, og einnig má nýta hann á staðnum til að hita t.d. gróðurhús þar sem rafmagnsljós eru notuð í stað sólarljóss. Að lokum má svo nýta steinefnaríka vatnið sem eftir verður til lækninga og baða, og koltvísýringinn sem kemur úr borholunum sem hráefni í framleiðslu á eldsneyti og sem áburð fyrir plöntur í gróðurhúsunum. Jafnvel má nota kísilinn sem fellur úr jarðhitavökvanum í dýrindis snyrtivörur. Allt er þetta gert í og við auðlindagarðinn í Svartsengi.

 

Fjölnýting er lykilorðið til að auka nýtnina við virkjun jarðvarmans. Líklega er hvergi í víðri veröld gengið eins langt í fjölnýtingu jarðvarmans og í auðlindagarðinum Svartsengi. Svartsengi gæti verið góð fyrirmynd að því hvernig nýta má jarðvarmann á sjálfbæran hátt með hámarks nýtingu á auðlindinni.

-

Það er reyndar ekki bara í Svartsengi þar sem afgangsvarminn er nýttur.

Í Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun er varminn frá eimsvölum hverflanna nýttur til framleiðslu á heitu vatni sem notað er fyrir húshitun á höfuðborgarsvæðinu.

Við Reykjanesvirkjun er nú verið að reisa fiskeldisstöð sem nýtir afgangsvarmann, en þar er einnig fyrirhugað að setja upp vélasamstæðu sem framleiðir rafmagn úr þessum varma, þ.e. án þess að bora þurfi fleiri holur.

Við Hellisheiðarvirkjun er fyrirhugað að reisa gróðurhús fyrir matvælaframleiðslu, en þar yrði afgangsvarmi notaður til upphitunar, raforka fyrir lýsingu og koltvísýringur sem kemur með jarðgufunni sem áburður til að örva vöxt.

 

Tækifærin eru til staðar og bíða þess að þau séu nýtt.   Vafalítið a nýting á afgangsvarma frá farðvarmavirkjunum eftir að aukast á næstu árum og þannig verður hægt að tvöfalda eða þrefalda nýtni jarðhitasvæðanna miðað við að eingöngu sé framleitt rafmagn.   

 

 

Greinin hér að ofan er að stofni til grein sem pistlahöfundur skrifaði í Gangverk fréttablað Verkís haustið 2011.  Blaðið má nálgast í íslenskri útgáfu  með því að smella hér og í enskri útgáfu hér.

 

 

Ítarefni: 

     - Frétt Morgunblaðsins:  Risastór eldisstöð Reykjanesi.

     - Pistill frá 2009 um sjálfbæra nýtingu jarðhitans.

     - Nýtni jarðhitavökva til orkuframleiðslu
         Dr. Oddur B. Björnsson verkfræðingur hjá Verkís
         Davíð Örn Benediktsson verkfræðingur hjá Verkís

 

 

 Myndin efst er af stöðvarhúsi Reykjanesvirkjunar.


 

gangverk-jardhitablad-2.jpg

 Gangverk fréttablað Verkís

 

 

 


mbl.is Risastór eldisstöð á Reykjanesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Snillingurinn Burt Rutan flugverkfræðingur heiðraður - og álit hans á loftslagsmálunum umdeildu...

 

 

burt-rutan-and-spaceshipone.jpg

Hver kannast ekki við flugverkfræðinginn Burt Rutan stofnanda flugvélaverksmiðjunnar Scaled Composites sem hannað hefur margar nýstárlegar flugvélar, meðal annars flugvélina Voyager sem flogið var í einum áfanga umhverfis jörðina árið 1986 og aðra SpaceShipOne sem flogið var út í geiminn árið 2004 og hlaut fyrir það afrek 10 milljon dollara Ansari-X verðlaunin.

Í janúar 2011 var fjallað hér á blogginu um Burt Rutan í pistlinum   Goðsögnin Burt Rutan flugverkfræðingur sem er að smíða geimskipið Space Ship One - Myndband...

Hér er myndband sem gert var af tilefni að hann var nýlega heiðraður með National Air and Space Museum 2012 Lifetime Achievement Trophy:

 



 


 

 

Annað myndband sem sýnir Space Ship Two á flugi:

 

 

 


Hin hliðin á Burt Rutan: 

Burt Rutan verkfræðingur (aerospace engineer) er vanur að rýna í mæligögn og leita að villum, enda er útilokað að ná svona langt eins og hann án þess.  Hann hefur því vanið sig á gagnrýna hugsun og trúir engu nema hann sjái óyggjandi og ótvíræð gögn og skilji sjálfur hvað liggi að baki þeim. Hann vill því alltaf sjá frumgögnin svo hann getir rýnt þau sjálfur.  Þannig lýsir hann sjálfum sér.

Á vefsíðu Forbes birtist  fyrir nokkrum dögum viðtal við Burt Rutan þar sem rætt er um loftslagsbreytingar. Viðtalið má lesa hér: A Cool-Headed Climate Conversation With Aerospace Legend Burt Rutan  Viðtalið er þarna á þrem síðum.  

Viðtalið er mjög áhugavert og er eins víst að margir eru honum sammála, en auðvitað margir ósammála. Burt Rutan hefur þó sýnt það og sannað að hann hefur næman skilning á lögmálum eðlisfræðinnar og kann að lesa úr tölum. Þess vegna er fróðlegt að lesa viðtalið í heild sinni. 

 

Til að kynnast manninum nánar má benda á eftirfarandi:

Vefsíða Burt Rutan þar sem hann fjallar um starf sitt og áhugamál:  www.BurtRutan.com.

 

Glærur um flug og feira. Erindi flutt í Oskosh.:

* CAGW=Catastrophic Anthropogenic Global Warming (Global climate destruction caused by human emissions of greenhouse gasses).

 

     Google má  "Burt Rutan"  (Næstum hálf milljón tilvísana).

 


 

 
 
Viðtalið hjá Forbes frá 9. september hefst svona, en öll greinin er hér:

Larry Bell

Larry Bell, Contributor

I write about climate, energy, environmental and space policy issues.

OP/ED
 
|
 
9/09/2012 @ 3:45PM |9,276 views

A Cool-Headed Climate Conversation With Aerospace Legend Burt Rutan

Burt Rutan with his SpaceShipOne , the first privately developed and financed craft to enter the realm of space twice within a two-week period and receive the Ansari X-Prize. (Photo credit: Burt Rutan)

My wife Nancy and I recently enjoyed a couple of great days with Burt Rutan and his wife Tonya at their beautiful new home in Coeur d’Alene, Idaho. The visit afforded an opportunity to discuss many topics of keenly shared interest, including the global warming “debate”. Although Burt is world renowned for his remarkable record-setting achievements in aircraft and spacecraft design, he has devoted a great deal of attention to this subject as well.

By way of brief introduction, Burt Rutan designed Voyager, the first aircraft to fly around the globe without stopping or refueling. He also designed SpaceShipOne financed by Microsoft co-founder Paul Allen which won the $10 million Ansari X-Prize in 2004 for becoming the first privately-funded manned craft to enter the realm of space twice within a two-week period. Both, along with three other of his aircraft, are on display at the National Air and Space Museum in Washington, D.C.  Burt’s recent projects include a flying car, and the Virgin GlobalFlyer which broke Voyager’s time for a non-stop solo flight around the world

Burt, as someone with such intense involvement in aerospace design and development, what got you interested in climate issues?

Even though I’ve been very busy throughout my entire career developing and flight-testing airplanes for the Air Force, I’ve always pursued other research hobbies in my time away from work. Since I’m very accustomed to analyzing a lot of data, about three or four years ago many alarmist claims by some climate scientists caught my attention. Since this is such an important topic, I began to look into it firsthand.

Although I have no climate science credentials, I do have considerable expertise in processing and presenting data. I have also had.........

...
...

Lesa meira með því að smella hér: http://www.forbes.com/sites/larrybell/2012/09/09/a-cool-headed-climate-conversation-with-aerospace-legend-burt-rutan/

Ef til vill þarf að smella á krækju á síðunni sem opnast "Continue to site". Þessi krækja er í horninu efst til hægri. 

 Prentvæn pdf útgáfa hér.

 


 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Flúrperur eða sparperur - hver er munurinn...? --- Hversvegna er verið að banna blessaðar glóperurnar hans Edisons...?

 

 

edison_600w.jpg

 

 

Flúrperur eru sparperur og sparperur eru flúrperur. Munurinn er því í raun enginn annar en sá, að það sem við köllum í daglegu tali sparperur er minna um sig og með innbyggða svokallaða straumfestu eða ballest. Svo er auðvitað skrúftengi í öðrum endanum eins og á glóperum.

Þegar ég stóð í því að koma þaki yfir höfuðið fyrir rúmum þrem áratugum gerði ég strax ráð fyrir sparperum og hef því notað þær jafn lengi.  Ég kom þeim yfirleitt fyrir þannig að þær veittu milda óbeina lýsingu. Ég var ekki að hugsa um orkusparnaðinn, heldur var þægilegt að koma sparperunum fyrir til dæmis bak við gardínukappa og undir skápum í eldhúsinu. Lausleg talning í huganum segir mér að ég hafi notað "sparperur" á 15 stöðum í þessi 33 ár. 

Auðvitað á ég við þessar aflöngu perur sem ganga undir nafninu flúrperur. Það sem við köllum sparperur í dag er nánast sama fyrirbærið, aðeins minna. Það er jafn rétt að tala um smáflúrperur eða Compact Fluorecent Lamp (CFL) eins og sagt er og skrifað í útlöndum.

Aðvitað hef ég einnig töluvert notað þessar nýju litlu flúrperur. Í reynd hafa venjulegar glóperur verið í minnihluta á heimilinu undanfarið, en samt haft sinn tilgang. Stundum hef ég bölvað þessum nýju perum í sand og ösku, en kannski oftar hrósað þeim.

Mér er illskiljanlegt hvers vegna verið er að banna hinar sígildu glóperur með lögum. Hvers vegna ekki að leyfa fólki að ráða.  Ef smáflúrperurnar eru betri og hagkvæmari, þá mun almenningur smám saman skipta yfir í þær. Eingin þörf á skipunum frá misvitrum sjálfvitum.

Menn tala um að flúrperum fylgi minni mengun eð glóperum. Er það nú alveg víst? Ekki er ég viss um það. Í þessum nýtísku smáflúrperum er bæði flókinn rafeindabúnaður og kvikasilfur. Í glóperunum er bara vír sem hitnar í lofttæmdri glerkúlu. Ekkert annað.   Minni koltvísýringur myndast þegar rafmagn er framleitt fyrir flúrperur, segja menn. En á Íslandi þar sem kolakynnt orkuver þekkjast ekki?    Hve mikil orka fer í að framleiða eina smáflúrperu  með flóknum rafeindabúnaði? Hve mikil losun á koltvísýringi fylgir því ferli?   Svo er það allt annar handleggur, er koltvísýringur, sem er undirstaða alls lífs á jörðinni, mengun?   Kannski í huga sumra, en ekki allra.     Kvikasilfur frá þessum perum er auðvitað hrein mengun ef það sleppur út. Óhrein mengun er víst réttara hugtak.

Í sumar hef ég keypt alls fimm sparperur og notað til þess æði marga þúsundkalla. Á umbúðunum var lofað tíu ára endingu.   -   Ein þeirra lýsti ekkert frá byrjun nema með daufu flökatndi skini og enn ein dugði í um 10 klukkustundir þar til hún gaf upp öndina með látum og sló út öryggi í rafmagnstöflunni.  Afföllin voru tvær perur af fimm eða 40%.
Sussum svei...

 

 

Eftirfarandi upptalning er byggð á reynslu bloggarans af hinum gömlu góðu glóperum og flúrperum af ýmsum gerðum. Þetta er ekki því nein vísindaleg greining...

Kostir glópera

  • Mild og notaleg birta
  • Ljós "hreint" og laust við birtutoppa sem einkenna flúrperur.
  • Ódýrar
  • Auðvelt að farga
  • Lítil mengun
  • Notalegur hiti frá glóperum
  • Einfaldar í framleiðslu.

 

Ókostir glópera

  • Mikil orkunotkun
  • Tiltölulega stuttur líftími (Lengja má líftíma verulega með því að nota dimmir)

 

 

Kostir smáflúrpera ("sparpera")

  • Langur líftími
  • Lítil orkunotkun
  • Minni breyting í ljósstyrk við breytingar á veituspennu

 

Ókostir smáflúrpera ("sparpera")

  • Dýrar
  • Ljós "óhreint"sem gerir m.a myndatöku erfiða. Lósmyndir oft með grænleita slikju.
  • Nokkur útgeislun á útfjólubláa sviðinu.
  • Flókin smíði með dýrum innbyggðum rafeindabúnaði
  • Kvikasilfur inni í perunum
  • Erfitt að farga á vistvænan hátt
  • Radíótruflanir stafa frá  perunum, sérstaklega á langbylgju og stuttbylgjusviðum.
  • Ljósið frá flúrperum dofnar verulega með aldrinum
  • Tiltölulega lengi að  ná fullri birtu eftir að kveikt hefur verið á þeim
  • Illmögulegt að nota dimmi
  • Flökt á ljósi stundum sýnilegt. 
  • Flúrperur henta illa þar sem oft þarf að bregða upp ljósi í skamma stund, t.d. á salernum.

 

Sem sagt, í mínum huga er aðalkosturinn við flúrperur langur líftími og  minni orkunotkun. Ókostirnir eru þó allnokkrir.

 


 

sparpera.jpg

 Flókinn rafeindabúnaður er í sökkli perunnar

 

 

 naturalwhite fluorecent lamp

 


Ljósið frá flúrperum er miklu "óhreinna" en ljósið frá hefðbundnum glóperum. Takið eftir toppunum á efri ferlinum og hvernig ljósið er mun bjartara (neðri myndin) þar sem topparnir eru.  Jafnvel er um nokkra útgeislun á útfjólubláa sviðinu að ræða. Það gerir það að verkum að erfitt getur verið að taka myndir innanhúss þar sem lýsingin kemur frá flúrperum, hvort sem þær eru stórar eða litlar. Margir kannast við grænleita slikju á þannig myndum. Konur verða að gæta sín þegar þær eru að farða sig í ljósi frá flúrperum - útkoman getur komið á óvart Wink.

 

Nánar um litrófið frá flúrperum þar sem sjá má m.a. toppana frá kvikasilfri (mercury) hér.

 




halogen.png



 Á næstu árum  verður búið að banna allar glóperur, þar meðtalið halógenperur sem vinsælar eru m.a. í baðherbergisinnréttingum.   Thomas Alva Edison, faðir lósaperunnar, sem myndin er af efst á síðunni, mun þá örugglega snúa sér við í gröfinni.

 

 

Til umhugsunar: Þetta er skrifað að kvöldi dags við ljós frá hefðbundnum vistvænum glóperum í sumarhúsi sem er hitað með raforku og hitanum frá glóperunum.  Hér er nákvæmlega sama hvaðan hitinn kemur og rafmagnsreikningurinn nákvæmlega hinn sami hvort sem notaðar eru flúrperur eða glóperur. 

Ef skipt væri yfir í flúrperur eða "sparperur" þá hækkað hitastillirinn á ofnunum rafmagnsnotkun þeirra nákvæmlega jafn mikið og flúrperurnar spöruðu!    Er það ekki makalaust?    Hér myndi ég því ótvírætt menga náttúruna mun meira með því að skipta yfir í flúrperur eða smáflúrperur.  Það er mér mjög á móti skapi.

 

 

Der Spiegel: 
'Dictatorship of the Bureaucrats'   -    Light-Bulb Ban Casts Shadow over EU Democracy

 

 

Nokkur ábyrgðarlaus orð í lokin:

Nú hafa evrópskir sjálfvitar bannað gömlu góðu góðarperuna með lögum og auðvitað apa íslenskir hálfvitar það eftir og gleyma því að hér á landi tíðkast ekki að framleiða raforku með jarðefnaeldsneyti. Þykjast vera að bjarga heiminum, en það er víst bara byggt á misskilningi eins og margt annað á landi hér.

Hvers vegna mátti ekki leyfa markaðinum einfaldlega að ráða. Hvers vegna þurftum við íslendingar að apa þessa vitleysu eftir, erum við bara svona miklir hugsunarlausir aftaníossar? Ef smáflúrperurnar eru miklu betri og hagkvæmari en glóperur þá mun fólk auðvitað nota þær. Sjálfur notar bloggarinn þær víða. Í stöku tilvikum kýs maður þó að  nota hinar umhverfisvænu kvikasilfurslausu glóperur. Það má þó ekki lengur.

Jæja, kannski var þetta skrifað áf eintómu ábyrgðarleysi í hita leiksins...


 

edison_patent.jpg
 
 
 
 
 
 
Umhverfisvæn upphitun:
Heatballs eða hitakúlur með 95% nýtni fást hér
 
!
 
 A HEATBALL® is not a light bulb, but fits into the same socket!
 
 
 
 
Og svo í blálokin:
Samsæriskenning frá Norska Sjónvarpinu NRK2:
 

 
 

Sólvirknin og norðurljósin...

 

 

 

nordurljos.jpg

 

 

 

Nú fer í hönd sá tími sem best er að stunda stjörnuskoðun og njóta norðurljósanna. Myrkur á kvöldin þegar hausta tekur, en ekki nístingskuldi vetrarins.

Norðurljósin virðast oft birtast fyrirvaralítið og eru jafnvel horfin þegar manni loks kemur til hugar að líta til himins. Þetta á sérstaklega við þegar maður býr þar sem ljósmengun er mikil.

Leynivopnið mitt er lítil vefsíða sem ég kalla einfaldlega Norðurljósaspá.  Þar er fjöldi beintendra mynda sem gefa upplýsingar um hvað er að gerast í háloftunum. Þó þessi síða sé fyrst og fremst ætluð sjálfum mér, þá er auðvitað öllum frjálst að nota hana. Þessi vefsíða er vistuð á litlum vefþjóni á heimanetinu þannig að ekki er víst að svartíminn sé eins stuttur og menn eiga að venjast.


 

Smella hér:  Norðurljósaspá.

 

 Smella tvisvar á mynd efst til að stækka hana

 


mbl.is Sólvirkni í hámarki 2013
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 9
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 83
  • Frá upphafi: 764562

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 58
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband