Færsluflokkur: Lífstíll

100 ára amma flýgur í svifdreka um loftin blá...

Það er ekki annað hægt en að dást af þessari fullorðnu konu sem svífur um loftin blá meðal skýja og fugla í svifdreka. 

 

Ótrúlegt en satt...   Kissing

 

 

 


 


Ljósmengun í þéttbýli og dreifbýli...


 

 

Auðlind sem er að hverfa. 

Ljósmengun frá illa hannaðri lýsingu er helsti óvinur þess sem vill njóta fegurðar himinsins. Þetta er ekki aðeins vandamál hérlendis, heldur víða um heim. Nú er að vaxa upp kynslóð sem varla hefur séð stjörnur aðrar en þær allra skærustu. Hve margir skyldu hafa séð okkar eigin Vetrarbraut? Jafnvel norðurljósin hverfa í glýjuna.

 

 


hale bopp reykjavik 800w

Ljósmengum er af ýmsum toga. Algengasta orsök er slæmur frágangur á ljósastæðum. Ljós berst þá til hliðar eða upp og verður sýnilegt sem bjarmi yfir borgum eða gróðurhúsum.

Myndin er tekin árið 1997 frá Garðabæ og sér yfir hluta Öskjuhlíðar. Rétt má greina halastjörnuna Hale-Bopp, sem var mjög björt. Aðrar stjörnur sjást varla vegna bjarmans.

Ljósmengun í Reykjavík er verulega mikil.

(Smella á mynd til að sjá stærri. Ljósm. ©ÁHB)

Víða erlendis hafa menn gert sér grein fyrir þessu vandamáli og gert bragarbót: Lýsing hefur orðið þægilegri, orkunotkun verulega minni, og fjárhagslegur ávinningur hefur því verið töluverður af þessum lagfæringum. Allir eru ánægðir þegar vel tekst til, ekki síst stjarneðlisfræðingar, stjörnuáhugamenn, og allir þeir sem unna fallegri náttúru.

 

 

Alþjóðleg samtök áhugamanna og hagsmunaaðila á þessu sviði, International Dark-Sky Association - IDA (http://www.darksky.org), hafa víða náð góðum árangri á þessu sviði með því að benda á vandamálið og úrlausnir. IDA er með mjög gagnlega vefsíðu.

 

Hér á landi hefði mátt ætla að við værum blessunarlega laus við þessa mengun eins og aðrar, en það er öðru nær. Ljósmengun hér er engu minni en víða í hinum stóra heimi. Bjarmi yfir höfuðborginni er ótrúlega mikill, svo og bjarmi frá gróðurhúsum í dreifbýlinu.  

 

Hér til hægri eru tvær myndir teknar í mars 1997:

 

Fyrri myndin er tekin frá Garðabæ  yfir hluta Reykjavíkur. Vel má sjá bjarmann, sem liggur eins og hjúpur yfir borginni. Aðeins allra skærustu stjörnur sjást, og  Vetrarbrautin sést ekki lengur. Ein bjartasta halastjarna sem sést hefur á síðustu árum prýddi stjörnuhimininn. Mjög erfitt var að ljósmynda hana frá Reykjavík.

 

Næsta mynd sýnir Hale-Bopp og aragrúa stjarna. Hér var myrkrið það gott, að hægt var að hafa ljósop myndavélarinnar opið í 10 mínútur. Þá koma fram ótal stjörnur, sem venjulega sjást ekki með berum augum. Einnig má sjá bláan rafhala halastjörnunnar, en hann sést ekki með berum augum. Myndin var tekin frá Keilisnesi, áður en Reykjanesbrautin var lýst upp með illa skermuðum ljósum. Lýsing utanbæjar er sífellt að aukast, og oftar en ekki gleymist að huga að góðri lýsingartækni. Lýsingin veldur óþarfa bjarma, og ekki síður óþarfa glýju.


haleBopp andromeda aurora crop saturation 700

Þessi mynd af Hale-Bopp er tekin utan Reykjavíkur í mars 1997. Mjög lítil ljósmengun og aragrúi stjarna er sýmilegur. Grænleita slæðan er norðurljós. Neðst til hægri má sjá Andromeda stjörnuþokuna. Þar eru milljarðar sóla.  Á þessari mynd má einnig sjá aragrúa stjarna, sem eru ósýnilegar með berum augum.

(Smella á mynd til að sjá stærri. Ljósm. ©ÁHB)

 

 

Hefur þú lesandi góður prófað að horfa til himins þar sem himininn er ómengaður? Prófaðu að fara út úr bílnum og horfa til himins ef þú ert á ferðalagi utan þéttbýlis í stjörnubjörtu veðri. Þú verður ekki fyrir vonbrigðum Smile

 

Vonandi fara menn að gera sér grein fyrir þessu vaxandi vandamáli. Ef heldur áfram sem horfir verður stjörnuhimininn ósýnilegur flestum innan skamms. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra!

 

 

Hvað veldur ljósmengun?

Ljósmengum er af ýmsum toga. Algengasta orsökin er slæmur frágangur á ljósastæðum. Ljós berst þá til hliðar eða upp og verður sýnilegt sem bjarmi yfir borgum eða gróðurhúsum.  

 

Sum götuljós eru mjög illa hönnuð, og þekkja margir kúlu- eða keilulaga ljósakúpla sem einkum eru algengir í íbúðahverfum. Í stað þess að beina ljósinu niður er því varpað um allar trissur, mest beint í augu vegfarenda.

 

Ljóskastarar, sem ætlaðir eru til að lýsa upp byggingar, geta verið slæmir, því töluvert ljós fer fram hjá byggingunni beint upp í háloftin.

 

Önnur gerð af ljósmengun stafar af skærum ljósum sem skína beint í augun og valda glýju, þannig að augun verða ónæmari og krefjast meiri lýsingar, sem veldur enn meiri ljósmengun,..... o.s.frv! 

 

 


nordurljos 1   800wide

Norðurljós eru oft falleg. Einar Benediktsson reyndi eitt sinn að selja norðurljósin, segir sagan, en nú er tækifæri fyrir ferðamannaiðnaðinn að selja erlendum ferðamönnum beina yfir vetrarmánuðina og norðurljósin þannig óbeint, það er að segja, ef ljósmengun hefur ekki þegar skemmt fyrir. Á myndinni má sjá lítið upplýst gróðurhús í fjallshlíðinni, en hvað er í vændum? Er þetta byrjun á enn meiri ljósmengun? Hvað finnst sumarhúsafólki um upplýsta bústaði nágranna sinna? Sumarhúsafólkið er nefnilega farðið að nýta bústaðina allt árið, einnig yfir vetrarmánuðina, til að njóta fallegra norðurljósa og stjörnuhimins.

(Smella á mynd til að sjá stærri. Ljósm. ©ÁHB)

Hvað er til ráða?

Ljósabúnaður: Nota góðan ljósabúnað sem varpar ljósinu eingöngu niður. Ljós sem berst til hliðar eða upp er til einskis nýtt, en veldur bjarma og glýju í augum. Vel skermuð ljós (og þar með minni glýja í augun) gera það að verkum, að skyggni að nóttu til verður meira en ella! Þannig má komast af með minni perur og spara orku og peninga. Ekki nota óþarflega stórar perur.

 

Gróðurhús: Gróðurhúsabændur ættu að huga vel að þeim kostnaði sem stafar af því að senda ljósið upp í háloftin. Þarna er væntanlega fundið fé. Með betri nýtingu á ljósinu gætu þeir vafalaust sparað stórfé, og jafnframt aukið uppskeruna.

 

Þjófavörn: Stundum telja menn að gott sé að hafa útiljós kveikt í öryggisskyni, þ.e. til að minnka líkur á innbrotum. Ljós sem síloga draga athygli að mannvirkinu sem ætlunin var að verja, en mun áhrifameira er að hafa ljós sem kvikna við merki frá hreyfiskynjara, en eru að öllu jöfnu slökkt. Nágrannar verða þá varir við mannaferðir, og hinir óboðnu gestir hörfa.

 

Sumarhús: Vaxandi sumarhúsabyggð utan þéttbýlis veldur áhyggjum. Tilheiging virðist vera hjá sumum sumarhúsaeigendum að vera með útljós kveikt, jafnvel þegar enginn er við. Ljósin hjálpa óboðum gestum að finna sumarhúsið. Það er einnig tillitsleysi við nágrannana að vera með logandi og illa skermuð útiljós að óþörfu.

 

Hvers vegna  að hafa kveikt á útiljósum, þegar enginn er útivið?

  - Munið eftir slökkvaranum!

  - Notið hreyfiskynjara við útiljósin, ef ætlunin er að fæla burt óvelkomna gesti. 

  - Veljið ljósastæði sem lýsa eingöngu niður.

  - Notið ljósadimmi.

  - Notið minni perur. 

 

Einstaklingar, sem setja upp ljós utanhúss, ættu að taka tillit til nágranna sinna!

 

Munið eftir leynivopninu gegn óboðnum gestum; þ.e. hreyfiskynjaranum sem kveikir útiljósin þegar einhver nálgast!   Ekki gera þeim lífið auðveldara með því að lýsa upp sumarhúsið í tíma og ótíma Bandit.

 

 

Þjóðvegalýsing: Aukin lýsing á þjóðvegum landsins veldur áhyggjum, en þar þyrfti að huga betur að vali á ljósastæðum en gert hefur verið hingað til.Til að varðveita fegurð himinsins væri æskilegt að sjá tekið á þessum málum í greinargerðum aðal- og deiliskipulags, svo og í umhverfisstefnum. Aðeins ætti að nota fullskermuð ljós á þjóðvegum.

 

Hönnun: Verkfræðingar, tæknifræðingar, arkitektar og aðrir sem hanna lýsingu utanhúss ættu að taka höndum saman og taka tillit til þessarar mengunar við hönnun á nýframkvæmdum og við lagfæringar á eldri búnaði.

 

Aðal- og deiliskipulag: Skipulagsfræðingar og landslagsarkitektar, sem vinna að aðal- og deiliskipulagi, ættu að setja ákvæði um skynsamlega lýsingu í greinargerð skipulagsins.

 


Í umhverfisstefnu Borgarbyggðar, sem samþykkt á fundi bæjarstjórnar 25. apríl 2000 stendur m.a:

“11.  Ljósmengun:     Við uppsetningu og endurnýjun götulýsingar verður þess gætt að ljósmengun utan svæðis verði í lágmarki”.

Þetta er til mikillar fyrirmyndar.

 

Ýmislegt er hægt að gera til að minnka ljósmengun. Hér fyrir aftan eru nokkrar tengingar að vefsíðum þar sem fræðast má nánar um aðgerðir. Nokkrar ljósmyndir hér fyrir neðan varpa ljósi á vandamálið. Aðalatriðið er að menn séu meðvitaðir um málið og láti skynsemina ráða.

 

 

Hver er reynsla annarra þjóða?

Minni orkunotkun er ótrúlega fljót að skila sér. Sem dæmi má nefna San Diego þar sem ráðist var í að lagfæra götulýsingu með því að skipta um ljósker. Eftir aðeins þrjú ár hafði minni orkunotkun greitt allan kostnað, og nú nemur sparnaðurinn milljónum dollara á ári! Ótrúlegt en satt. Stjörnur eru aftur farnar að skreyta himinhvelfingua eftir þessar lagfæringar.

 

 

Nokkrar myndir.

Myndirnar hér á síðunni eru frá ýmsum áttum. Sumar varpa skýrara ljósi á vandamálið og úrlausnir, en aðrar eru af ómenguðum stjörnuhimi og sýna hvers menn eru að fara á mis þar sem ljósmengun er mikil.

 

Oft, en ekki alltaf, má smella á mynd til að kalla fram aðra stærri.

 

 


Ljosmengun grodurhus 800W

Þetta er ekki eldgos.  Ljósmengun frá gróðurhúsum getur verið gríðarleg. Hér má sjá bjarmann frá Flúðum og Reykholti. Er virkilega þörf á þessari orkusóun og mengun?

(Smella á mynd til að sjá stærri. Ljósm. ©ÁHB)


sumarhus ljosmengun 600

Sumarhúsaþyrping að kvöldi dags. Hvers vegna öll þessi ljós, jafnvel þegar enginn er við? Er þetta tillitsleysi, eða bara myrkfælni? Ef til vill bara athugunarleysi, en þá er auðvelt að ráða bót á því með því að teygja sig í slökkvarann! Öllum mun líða betur!

(Smella á mynd til að sjá stærri. Ljósm. ©ÁHB)

ljos jardar stor

Samsett mynd tekin utan úr geimnum af jörðinni sýnir hve vandamálið er gríðarlegt. Enn er dreifbýli á Íslandi lítt mengað, en ástandið versnar með hverju ári sem líður.

(Smella þrisvar á mynd til að sjá stærri)

 

 

 

Slæmt. Ljósið fer um allar trissur.

Fáránlegt. Ljósið ratar ekki einu sinni niður.

Gott. Lítil ljósmengun. Lítil glýja.

Slæm götuljósker varpa glýju í augun. Ljósið dreifist meira og minna um allar trissur og veldur óþarfa ljósmengun.

 

 

 

Góð götuljósker skerma ljósið af, þannig að það beinist aðeins niður. Engin glýja í augum.

 

Sama gildir um val á útiljósum húsa. Þau eiga að vera skermuð og lýsa niður.

Ráðið við ljósmengun er einfalt!

 

 

Látum ljós okkar skína af skynsemi!

Rétt val á ljósabúnaði skiptir sköpum. Ljós, sem fer upp eða til hliðar, er orkusóun og veldur ljósmengun og glýju í augum.

Tökum höndum saman. Notum góðan ljósabúnað og látum ekki skær útiljós loga að óþörfu.

 

 

 

 

Ört vaxandi sumarhúsabyggð er eitt helsta áhyggjuefni stjörnuskoðunarmannsins. Hvers vegna? Jú vegna þess að margir virðast telja sér skylt að flytja ljósmengun þéttbýlisins út í sveitir landsins og setja upp skær ljós utanhúss sem skera í augu nágrannans. Ekki aðeins þegar einhver er í bústaðnum, heldur dag og nótt, árið um kring. Þetta er mikill misskilningur ef ætlunin er að fæla óboðna gesti frá. Góð útiljós hjálpa þeim að rata að bústaðnum og athafna sig. Tvö ráð eru miklu áhrifameiri: Nota útiljós sem tengt er hreyfiskynjara og vekur athygli nágranna á mannaferðum, og/eða dauft ljós bak við gluggatjöld. Hinn óboðni veit ekki hvort einhver er heima og fælist ljósið sem kviknar.

 

Venjið ykkur á að slökkva á útiljósum ef enginn er útivið. Takið tillit til nágranna ykkar. Notirð dauf og vel skermuð útiljós, ljós sem lýsa niður, en ekki fram.

 

 

Njótið þess að vera án ljósmengunar utan þéttbýlis. Lærið að njóta fegurðar himinsins. Venjulegur handsjónauki (t.d. 8x40) er allt sem til þarf auk hinnar frábæru bókar Snævarrs Guðmundssonar Íslenskur stjörnuatlas. Á einfaldan og fróðlegan hátt er greint frá því hvernig best er að stunda stjörnuskoðun. Í bókinni, sem er 144 blaðsíður, er mikill fjöldi mynda og stjörnukorta og aftast í henni er örnefnakort af tunglinu. Bókinni fylgir snúningsskífa með stjörnuhvelfingunni þar sem sést hvernig næturhimininn ber fyrir á öllum tímum ársins og hvaða svæði hans hentar að skoða hverju sinni. Íslenskur stjörnuatlas er fyrsta bókin um íslenska stjörnuhimininn.
 

 

 

haleboppesja5.jpg

 

Hale Bopp, stjörnur og norðurljós í tunglskini í mars 1997. Skálafell í baksýn. ©ÁHB


 

Krækjur:

 

Vísindavefurinn:

Hvað er átt við með ljósmengun, er það mikið vandamál á Íslandi og hvað er til ráða gegn því?

 

Stjörnuskoðun:

Stjörnufræðivefurinn

 

Til fyrirmyndar:

Umhverfisstefna Borgarbyggðar tekur á ljósmengun.  (Sjá grein 11).

 

Alþjóðasamtök:

International Dark Sky Association

 

Meira um ljósmengun:

Áhyggjur stjörnuskoðunarfélags af vaxandi mengun (PDF grein á íslensku)

 

Gap Ginnunga. Vefsíða

 

Ekki láta útiljósin loga að óþörfu! 

 

 

 

Stjörnuskoðun í Minjasafni Orkuveitu Reykjavíkur þriðjudagskvöld...

 


Þriðjudagskvöldið 3. mars efna
til stjörnuskoðunarkvölds fyrir alla áhugasama í
 

Gert er ráð fyrir því að stjörnuskoðunin hefjist klukkan 20:00 og verður fjöldi stjörnusjónauka á staðnum.

Þetta stjörnuskoðunarkvöld er haldið fyrir þig í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar. Eitt allra mikilvægasta markmið ársins er að sýna þér það sem Galíleó sá fyrir 400 árum og meira til.

Þú mátt gjarnan mæta með þinn eigin sjónauka og sýna öðrum í gegnum hann, eða njóta þess að horfa í gegn um sjónaukann hjá öðrum...

 

 

 

Undur Alheimsins - Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar 2009

www.2009.is

 

 


Snjór, hreindýr og börn í London. Nokkrar myndir...


Eru hreindýr í London?  Ganga þau laus?

Vissulega. Í Richmond Park ganga um 600 dýr laus borgarbúum til ánægju í einstaklega fallegum 1000 hektara garði.

Ég fékk sendar nokkrar myndir frá London sem teknar voru síðastliðinn mánudag.

Þetta var mesti snjór sem fallið hafði í 20 ár og kunnu börnin vel að meta hann  Smile

Myndirnar tók Ragnar Þ. Ágústsson.

 

 


Bretar kalla dýrin í Richmond Park deer.  Ef til vill er réttara að kalla þau dádýr en hreindýr. Bloggarinn verður að viðurkenna vanþekkingu sína á þessum fallegu dýrum.
 
Uppfært: Sveinn Ingi benti á í athugasemdum að þetta eru krónhirtir.

 

 

 

 
 
 

 

n526183199_2018754_2721-1.jpg
 
 
 
n526183199_2018752_2135-1.jpg
 
 
 
n526183199_2018753_2421-1.jpg

 




n526183199_2018750_1532-1.jpg

 Þessi mynd er tekin á sunnudagskvöld þegar snjórinn tók að falla af himnum ofan. Hekla Dögg er komin út í garðinn sinn.

 

 

Loftmynd af Richmond Park í vestur-London.

(Smella þrisvar á mynd til að sjá stærri)


Tenging íbúðalána við launavísitölu mun heppilegri fyrir lántakendur á óvissutímum en tenging við lánskjaravísitölu...

Væri ekki ráð að breyta reglum, a.m.k. timabundið, þannig að vísitölubundin lán taki mið af launavísitölu frekar en lánskjaravísitölu?

Á samdráttartímum eins og núna hækkar launavísitalan mun minna en lánskjaravísitalan. Stendur jafnvel í stað.

Launavísitalan sýnir breytingar heildarlauna allra launþega fyrir fastan vinnutíma.

Lánskjaravísitala  er reiknuð út frá framfærsluvísitölunni (2/3) og byggingarvísitölunni (1/3). Lánskjaravístalan fylgir verðbólgunni miskunnarlaust.

Á næstu mánuðum mun lánskjaravísitalan væntanlega hækka mun hraðar en launavísitalan.

Væri það ekki mikið öryggi á þeim óvissu- og samdráttartímum sem eru að hefjast ef greiðslubyrðin breyttist í takt við launin frekar en í takt við óðaverðbólguna?  Til lengri tíma litið hafa þessar vísitölur að miklu leyti fylgst að, þannig að bankar og lífeyrissjóðir ættu ekki að tapa.

Nú er það spurning hvort eitthvað vit sé í þessu ...

 

launavisitala-600w.jpg

 Þróun launavísitölu s.l. 4 ár.  Á næstu mánuðum er ólíklegt að búast megi við mikilli hækkun.

 

 


Þróun lánskjaravísitölu s.l. 4 ár.  Á næstu mánuðum er líklegt að búast megi við mikilli hækkun.

 

Innlent | mbl.is | 21.11.2008 | 18:55

Hætti að greiða af lánum sínum

Um 200 milljarðar kr. leggjast á höfuðstól verðtryggðra lána á næsta eina og hálfa árinu að mati Gunnars Tómassonar hagfræðings í Bandaríkjunum. Aðgerðir ríkisins til hjálpar efnahags heimilanna séu því einsog að setja plástur á svöðusár.

Hefur fréttastofa Stöðvar 2 eftir Gunnari að við slíkar aðstæður sé raunveruleg hætta á því að þeir sem séu með verðtryggð lán hætti að greiða af lánum sínum.

 


Auðlind sem má nýta til að komast úr kreppunni ...

 

Islenskur orkuidnadur  Urklippa 4 nov 08

 

 

Nú skiptir öllu máli að leita leiða til að reisa við efnahag þjóðarinnar á sem skemmstum tíma. Við þurfum að hlúa að gömlum og nýjum iðngreinum, hlúa að sprotafyrirtækjum og styrkja frumkvöðla til dáða. Allt tekur þetta tíma og er ekki raunhæft að búast við að árangur skili sér fyrr en með tíð og tíma. Á meðan er mikil hætta á verulegu atvinnuleysi og landflótta sem leiðir til fólksfækkunar. Hættan er sú að okkar bestu iðnaðarmenn og sérfræðingar flytjist úr landi. Sumir varanlega.

Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 4. nóvember var áhugaverð grein eftir Eyjólf Árna Rafnsson framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar Mannvits og Svein I. Ólafsson framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar VST-Rafteikningar.

Í greininni  benda þeir á að margir hafi lagt til að flýtt verði framkvæmdum við orkuiðnaðinn, en það kosti mikinn undirbúning sem taki mörg ár. Þörf sé á samstilltu átaki allra hlutaðeigandi aðila ef framkvæmdir í orkuiðnaðinum eiga að vera burðarás í verklegum fjárfestingum atvinnulífsins á næstu árum.

Þeir leggja áherslu á að ekki verði slakað á í umhverfismálum, fjalla um þær framkvæmdir sem eru í burðarliðnum, svo sem álver, netþjónabú og aflþynnuverksmiðju, og benda á aðra möguleika í framtíðinni.

Í greininni er síðan fjallað um mögulega nýtingu orkulinda Íslendinga næstu 8 árin og  kynnt hvernig framkvæmdir geti dreifst á tímabilið. Tekið er fram að fjárfestingar í orkuiðnaðinum sem hlutfall af landsframleiðslu geti þó tæplega orðið nema helmingur á við það sem var þegar þær voru mestar.

Niðurstaða þessarar áhugaverðu greinar er að mikilvægur þáttur þess að verja lífskjörin á Íslandi á næstu árum sé að fjárfesting, sem eykur atvinnu hérlendis og útflutning, stöðvist ekki. Því þurfi að halda áfram hóflegri nýtingu orkulinda landsins. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Það þurfi samstillt átak allra innlendra aðila sem eiga hlut að máli.

 

Greinina má lesa með því að smella þrisvar á myndina sem er efst á síðunni. Betra er þó að sækja hana sem pdf skjal hér, eða jpg mynd hér.

 

Það er ljóst, að með skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda okkar, án þess þó að slakað verði á í umhverfismálum, höfum við möguleika á að vinna okkur tiltölulega hratt út úr kreppunni. Á sama tíma verðum við að nýta tímann vel til að hlúa að ýmiss konar iðnaði og þjónustu, frumkvöðla- og sprotafyrirtækjum, sem geta tekið við eftir áratug eða svo.

 

Við verðum að nýta tímann vel. Við megum engan tíma missa. Strax þarf samstilltar aðgerðir. Nú stefnir í 15-20.000 manna atvinnuleysi innan skamms ef ekkert verður að gert.

Við eigum auðlindir og við eigum mannauð. Hvort tveggja þarf að virkja.

 


Ætla ráðamenn virkilega að samþykkja forhertar stríðsskaðabætur Breta?

Financial Times segir að verið sé að ganga frá 600.000.000.000 króna láni svo Íslendingar geti greitt skaðabætur vegna Icesave.  Til viðbótar eru svo kröfur Hollendinga. Íbúar Íslands eru aðeins um 300.000.  Þetta eru því 3.000.000 krónur á hvert mannsbarn, þar með taldir hvítvoðungar og gamalmenni. 12.000.000 á hverja 4-manna fjölskyldu.

 

Eru Bretar endanlega gengnir af göflunum?  Bretar eru um 60 milljónir, eða um 200 sinnum fleiri en við. Þessir 600 milljarðar jafngilda því aðeins 10.000 krónum (50 sterlingspundum)  á hvern Breta. Ætli það sé ekki svipað hjá Hollendingum.

 

Ég held að Bretar kunni ekki að reikna. Þetta eru ekkert annnað en stríðsskaðabætur. Nú vitum við endanlega hverjir eru vinir okkar og hverjir ekki. Eru Bretar sérfræðingar í að sparka í þá sem eru minnimáttar, og helst þá sem liggja? Hvað kallast þannig menn?

 

Í þessa einfölduðu útreikninga vantar að minnsta kosti aðra eins upphæð vegna annarra lána. Hver Íslendingur mun væntanlega skulda yfir 6.000.000 þegar upp er staðið, og hver 4-manna fjölskylda 25.000.000, þ.e. íbúðarverð. Svo megum við ekki gleyma vöxtunum af þessum lánum...

Segjum að allt fari  á versta veg og þriðjungur landsmanna flytjist úr landi. Skuldin deilist þá á 200 þúsund manns og hækkar úr 25 milljón krónum á fjölskyldu í næstum 40 milljónir. Ekki falleg framtíðarsýn sem gæti blasað við ef menn fara ekki gætilega.

 

Vonandi átta ráðamenn sig á því hvað hangir á spýtunni og hvaða afleiðingar þetta hefði fyrir land og þjóð.  Að sjálfsögðu verður fjöldaflótti frá Íslandi nái þessi arfavitleysa í gegn. Fátækt og volæði hjá þeim sem eftir sitja.

 

Pétur Blöndal alþingismaður og tryggingastærðfræðingur segir kröfur Breta og Hollendinga hlutfallslega 3-4 sinnum hærri en stríðsskaðabætur þær sem Þjóðverðum var gert að greiða eftir fyrri heimsstyrjöldina !!!  Við vitum hvernig það endaði...

 

 

480571.jpg

Gordon Brown

 

 

 

Dr. Martin Scheinin, finnskur lagaprófessor og sérlegur sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi í baráttunni gegn hryðjuverkum segir að ákvörðun breskra stjórnvalda um að nota lög um varnir gegn hryðjuverkum til að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi sýni hvernig hægt sé að misnota slíka löggjöf.

 

Institute for Human Rights - Prófessor Dr. Martin Scheinin. Sjá ummæli hér.

"Britain's use of anti-terror laws to freeze the assets of failing Icelandic banks shows how such legislation can be abused for purposes other than originally intended, according to Martin Scheinin, the UN special rapporteur on the protection of human rights in the fight against terrorism".

 


Ábyrgð ríkisins á innlánum í Bretlandi og Hollandi takmarkist við Tryggingasjóð.

Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður skrifuðu mjög athyglisverða grein sem nefnist Ábyrgð ríkisins á innlánum  í Mbl. miðvikudaginn 15. október. Bloggarinn tekur heils hugar undir það sem þar kemur fram.

Í greininni segir í upphafi:

"Í OPINBERRI umræðu kemur fram að íslensk
stjórnvöld séu langt komin að semja við Breta og
Hollendinga um mörg hundruð milljarða króna
skuldbindingar vegna starfsemi útibúa Landsbanka
Íslands í þeim löndum. Við undirritaðir
teljum nauðsynlegt að lagagrundvöllur sé skoðaður
rækilega áður en slíkir samningar verða endanlegir."

Síðar segir í grein lögmannanna:

"Íslenska ríkið hefur í hyggju að greiða íslenskum
innlánseigendum fjárhæðir til að tryggja innstæður
þeirra. Taki ríkið á sig slíkar skuldbindingar
og greiði úr ríkissjóði myndu þær greiðslur
vera umfram skyldur íslenska ríkisins í þeim tilgangi
að tryggja að unnt væri að starfrækja innlenda
innlánastarfsemi í framtíðinni og til að
tryggja efnahagslegan stöðugleika. Slíkar
greiðslur koma EES-samningnum í raun réttri
aðeins óbeint við enda myndu þær ekki fara fram
á gildissviði hans nema í undantekningartilvikum.
Evrópskar skuldbindingar felast aðeins í þeim
Tryggingasjóðum sem að framan eru nefndir og
þeim reglum sem um þá gilda.
Þær reglur snerta
einkavædda banka og Tryggingasjóð sem er sjálfstæð
stofnun en ekki íslenska ríkið. Þær ráðstafanir
sem ríkið gerir til að halda uppi efnahagslegum
stöðugleika í framhaldi af því eru því
annars eðlis. Hefði ríkið hins vegar breytt lögum
um Tryggingasjóð með þeim hætti að innlánseigendum
hefði verið mismunað eftir búsetu kynni
slíkt að brjóta í bága við reglur EES-samningsins".

"Meginniðurstöður okkar eru eftirfarandi:
Ekki hvílir nein ábyrgð á ríkissjóði vegna stöðu
innstæðna í Tryggingasjóðnum.
Lagabreyting sem gerir ráð fyrir að innlánskröfur
verði forgangskröfur getur staðist ef hana
má réttlæta með skírskotun í neyðarrétt.
Greiðslur sem ríkið tekur á sig að inna af hendi
til innstæðueigenda hér á landi falla almennt utan
gildissviðs EES-samningsins nema í undantekningartilvikum".

 

Það er deginum ljósara að mikil hætta er á að íslensk stjórnvöld séu þegar í samningum við Breta og Hollendinga um skuldbindingar sem geta gert okkur, börn okkar og barnabörn að þrælum um ókomin ár. Það má alls ekki gerast.

Sem betur fer er Pétur H. Blöndal formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis sammála lögmönnunum. Hann segir það vafasama hugmynd að íslensk stjórnvöld skrifi upp á óútfylltan tékka til að mæta kröfum hollenskra og breskra Icesave reikningseigenda."Ég held að það sé alls ekki hagur þessara þjóða að Íslendingum sé varpað í myrkur fátæktar og örbirgðar" er haft eftir Pétri í Mbl. í dag.

Nú verða stjórnvöld að gæta sín á að gera ekkert í fljótfærni. Það má alls ekki gera neitt sem varpar okkur í myrkur fátæktar og örbirgðar.  Munum að það var hlutafélagið Landsbankinn sem kom okkur í þessar ógöngur.

Alþingi hlýtur að verða að fjalla um og samþykkja allar skuldbindingar og samninga í þessu máli.

 

 

tryggingasjodur.jpg

 

 Smella þrisvar á mynd til að lesa

 

www.nyjaisland.is


Þegar ''íslensku'' Fálkarnir fengu gullið á Ólympíuleikunum 1920...

Fálkarnir
 
 

Það rifjast upp í dag þegar strákarnir okkar komu heim með silfrið, að árið 1920 fengu íslenskir strákar gullverðlaun á Ólympíuleikunum í íshokkí. Reyndar vestur-íslenskir og voru þeir frá Winnipeg.

Í Winnipeg-Falcons liðinu voru allir nema einn af íslensku bergi brotnir:

Sigurður Franklin "Frank" Fredrickson
Kristmundur N. "Chris" Friðfinnson
Magnús "Mike" Goodman
Halldór (Harold) "Slim" Haldorson
Konráð "Konnie" Johannesson
Jakob Walter "Wally" Byron
Róbert John "Bobby" Benson
Allan Charles "Huck" Woodman (Af enskum ættum)

 

1114hockey1920-v6

 Gullverðlaunahafarnir á Ólympíuleikjunum 1920

Á efri myndinni eru þeir um borð í skipi á leið til Antverpen

 

 

Sjá grein frá árinu 2002 í Morgunblaðinu: "Fálkarnir um alla framtíð" 

Myndir af hetjunum:  Descriptions of the 1920 Falcons players from "Spalding's Athletic Library"

Wikipedia: Winnipeg Falcons 

 


mbl.is Með stöðugan kökk í hálsinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafknúnar alvöru flugvélar - Myndir og myndbönd

 Sonex rafknún flugvél

 

Framfarir í rafhlöðum og rafmótorum hafa verið með ólíkindum á undanförnum árum. Nú er svo komið að smíðuð hefur verið fullvaxin flugvél sjá Sonex sem knúin er með rafmótor og rafhlöðum eingöngu. Á myndinni má sjá hve lítið fer fyrir hreyflinum, sem er 3ja fasa riðstraumsmótor. Lithium polymer rafhlöðurnar eru í svarta kassanum.  Svokallaður áriðill (aftan á mótornum) breytir jafnstraum rafgeymisins í 3ja fasa riðstraum með breytilegri tíðni. Flugþol er áætlað um klukkustund í venjulegu flugi og stundarfjórðungur í listflugi þegar mótorinn er nýttur til hins ýtrasta. Sjá hér.

 

 

Á myndbandinu hér fyrir neðan er kynning á þessari nýstárlegu flugvél.  Önnur rafknúin flugvél sést hér og hér.

 

 

 
 
 

Í nokkur á hafa menn flogið rafknúnum flugmódelum af ýmsum stærðum og gerðum, þar á meðal stóru eins og hér verður kynnt. Á næsta myndbandi má sjá Bernd Beschorner listflugmann kynna flugvél sína. Rafmótorinn er 15 kílówött eða 15.000 wött. Það jafngildir um 20 hestöflum. Það merkilega er að honum er ekki komið fyrir undir vélarhlífinni, heldur inni í "spinnernum" eða keilunni sem er framan á loftskrúfunni!!!   Mótorinn, sem er frá Plettenberg, er aðeins 1900 grömm að þyngd.

 

 
 
  

Hér fyrir neðan flýgur meistarinn Rafkrumma, eða Electric Raven við ljúfa tónlist. Ekki skortir flugvélina afl og ekki truflar hávaðinn frá rafmótornum tónlistina.   Íslenskir módelflugmenn hafa um árabil notað lithium polymer rafhlöður og þriggja fasa rafmótora, en ekkert í líkingu við þessa flugvél.

 

 
 
 


Það er varla nokkrum vafa undirorpið að rafknúin farartæki með rafhlöðum eru framtíðin. Nýtni þeirra er að minnsta kosti tvöföld nýtninnar við vetnisknúin farartæki og tæknin er þegar fyrir hendi. Aðeins á eftir af fínslípa hana.  Vetni hvað?  Sjá pistilinn Vetnissamfélag eða rafeindasamfélag.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband