Færsluflokkur: Lífstíll

Ævar vísindamaður og flöskuskeytið frábæra með gervihnattatengingu...

 Flaska -  utgafa 3

Neðarlega á síðunni má sjá á kortum hvar fjöskuskeytin eru stödd, vindalíkan fyrir jörðina alla, hafís við Grænland, ölduspá og vindaspá fyrir Atlantshafið.  Með hjálp þessara korta og spálíkana er auðveldara að spá fyrir um rek flöskuskeytanna næstu daga.

Einnig er á síðuni lýst aðdraganda verkefnisins í máli og myndum. Þar er einnig smá fróðleikur um fjarskipti með gervihnöttum og fleira.

Er hægt að senda flöskuskeyti frá Íslandi til Noregs og fylgjast með því með hjálp gervitungla?  Það langaði Ævar vísindamann að vita. Hann var alveg að deyja úr forvitni. Þess vegna hafði hann samband við snillingana hjá Verkís, en Ævar hafði frétt að þar væru menn í gervihnattasambandi við gæsir sem væru að ferðast milli landa. Hvorki meira né minna

Auðvitað var hið síunga starfsfólk Verkís tilbúið að prófa. Í skyndi var kallað saman harkalið til að smíða flöskuskeyti, ekki bara eitt, heldur tvö, og gera útreikninga á sjávarstraumum, veðri og vindum. Alda, Arnór, Ágúst, Ármann, Ólöf Rós og Vigfús skipuðu framsveitina, en að baki voru aðrir 320 starfsmenn Verkís; verkfræðingar, tæknifræðingar, náttúrufræðingar, tölvunarfræðingar... Þetta yrði skemmtilegur leikur í skammdeginu. Starfsmenn Verkís iðuðu í skinninu, svo mikil var spennan!

Í þessum pistli, sem fyrst og fremst er ætlaður aðdáendum Ævars á öllum aldri, verður smíði flöskuskeytanna lýst í máli og myndum. Nú eru þau bæði einhvers staðar að velkjast um í öldurótinu, hoppandi og skoppandi... Nei nei, ekki bara einhvers staðar, því þau hringja heim nokkrum sinnum á dag og láta vita hvar þau eru stödd. Ótrúlegt, en satt...

 

Flaskan

11848882_1094276523916971_1226397055_n(1)Nú þurfti að leggja höfuðið í bleyti og finna lausn á þeirri staðreynd að gervihnettirnir sem ætlunin var að nota eru einhvers staðar hátt uppi á himninum, en flaskan gat snúið alla vega í sjónum. Loftnetið varð nefnilega alltaf að snúa upp á við, hvað sem á gengi í öldurótinu. Það dugði auðvitað ekki að vera með einhvern flókinn rafknúinn búnað til að snúa loftnetinu í átt til gervihnattanna. Rafhlöðurnar yrðu þá fljótar að tæmast.

Einfaldar lausnir eru alltaf bestar. Á myndinni sem er efst á síðunni er útskýrt hvernig flaskan er hugsuð. Smella má á myndina til að stækka hana og gera skýrari... 

Á myndinni hér til hliðar er frumgerðin eða pótótýpan eins og sundum er sagt á óvönduðu máli. Myndin er tekin áður en hylkjunum var lokað og þau prófuð. Í fyrstu var hugmyndin að vera með eins konar flöskustút á hylkinu svo það líktist meira flösku, en síðar horfið frá því.

Flaskan er tvöföld, þ.e. innra hylki og ytra hylki. Innra hylkið er laust og flýtur inni í hálffullu ytra hylkinu eins og bátur. Þyngdarpunktur innra hylkisins er hafður neðarlega svo rétta hlið gervihnattabúnaðarins, þ.e. loftnetin, snúi ávallt upp, hvernig sem ytra hylkið velkist í sjónum. 

Á vefsíðu Verkís um flöskuskeytið er þessi lýsing:

hylkinInni í hvorri flösku er lítið hylki sem innheldur GPS-staðsetningarbúnaðinn og gervihnattasendinn sem sendir frá sér staðsetningu til gervitungls.  Við hönnun flöskuskeytanna þurfti að hafa í huga að GPS-búnaðurinn ásamt loftneti gervihnattasendis myndi ávallt snúa upp til að tryggja að samband við gervitungl væri til staðar. Til þess að tryggja að innra hylkið snúi rétt er það látið fljóta í glycerol inni í flöskunni. Efnið glycerol var valið vegna þess að það er frostþolið þegar það er blandað í réttum hlutföllum við vatn, það er mjög seigt sem leiðir til aukins stöðugleika innra hylkisins þegar ytra hylkið er á hreyfingu og það er ekki skaðlegt umhverfinu. Til að tryggja höggþol flöskuskeytanna á hafi og þegar þau koma upp á land, var hálfum dragnótarkúlum bætt við á enda flöskuskeytanna og þær festar saman með plast snittteinum.

Á myndinni eru Ármann og Vigfús glaðir og reifir með flöskuskeytin fullsmíðuð.



Gervihnattabúnaðurinn

Auðvitað er mikilvægt að vita hvar flöskuskeytin eru stödd og hvernig ferðalagið gengur. Það væri lítið spennandi að henda þeim í sjóinn og bíða síðan í óvissu, mánuðum eða árum saman. Þess vegna eru í flöskuskeytunum lítil tæki sem eru í sambandi við tvær gerðir gervihnatta og koma upplýsingum um hvar flöskuskeytin eru stödd á kort sem Verkís hefur útbúið. Þetta gerist auðvitað allt sjálfvirkt.

 

GPSGPS gervihnettirnir

Í um það bil 20.000 kílómetra hæð svífur fjöldi gervihnatta. Þeir senda í sífellu frá sér sérstök merki, og með því að mæla hve lengi þau hafa verið á leiðinni getur GPS (Global Positioning System) tækið reiknað út hvar í heiminum það er statt. GPS tækið þarf að fá merki frá að minnsta kosti 3 hnöttum til að geta reiknað út hvar það er statt.

Svona GPS tækni hefur þróast mikið á undanförnum árum, og nú eru GPS viðtæki m.a. í flestum GSM snjallsímum.

GPS tækið í flöskuskeytinu getur reiknað út staðsetningu flöskunnar með aðeins 5 metra óvissu.

 

 

 

GlobalStarOrbitsGlobal Star gervihnettirnir

Í 1.410 kílómetra hæð svífa 48 gervihnettir í kerfi sem kallað er Global Star. Kerfið er ætlað fyrir gervihnattasíma og fjarmælingar. Braut gervihnattanna er töluvert fyrir sunnan Ísland, og þegar þeir eru næst okkur eru þeir því sem næst yfir London. Merkið sem flöskuskeytið sendir frá sér með upplýsingum um staðsetningu þarf því að ferðast a.m.k. um 2.000 kílómetra vegalengd að viðtæki einhvers þessara 48 gervihnatta.

Það er nokkuð merkilegt að hugsa til þess að þetta skuli vera hægt. Við þekkjum hvernig vasaljósaperur í gömlum vasaljósum líta út. Þær nota um það bil 1 til 2 wött frá rafhlöðunum. Þessar gamaldags glóperur senda þó aðeins um 0,1 watt frá sér sem sýnilegt ljós. Sendirinn í flöskuskeytinu sendir einmitt merki frá sér sem er mest 0,1 wött. Álíka og peran í vasaljósinu. Þegar flöskuskeytið sendir frá sér stutt skeyti með 4 klukkustunda millibili, jafngildir það því að vasaljósaperan blikki merki sem þarf að taka á móti í um 2.000 kílómetra fjarlægð. Í raun er ekki mikill munur á þessum merkjum frá flöskuskeytinu og perunni, því hvort tveggja eru rafsegulbylgjur sem ferðast með hraða ljóssins.

Nú er rétt að staldra aðeins við. Hve dauft er merkið frá flöskuskeytinu orðið þegar það er komið að gervihnettinum? Við munum að afl þess var 0,1 wött þegar það lagði af stað, en auðvelt er að reikna út hve dauft það er þegar það er komið að gervihnettinum. Ef loftnet gervihnattarins væri lítið og álíka stórt og í símanum okkar, þá væri merkið sem hnötturinn tekur á móti ekki nema um 0,000.000.000.000.000.01 wött. Í gervihnettinum eru loftnetin auðvitað betri en í símanum okkar, en samt er merkið sem hlustað er eftir ekki nema agnarögn, eða þannig. Merkilegt að það skuli vera hægt að hlusta eftir þessum daufu merkjum ;-)

Úff. Þessi fjöldi núlla er alveg ómögulegur. Maður þarf sífellt að vera að telja til þess að vera nokkurn vegin viss um að fjöldi þeirra sé réttur. Samt er maður ekki viss... Eiginlega alveg ruglaður.  Miklu betra er að nota svokallaðan desibel skala þegar verið er að reikna deyfingu á útbreiðslu radíóbylgna, nú eða þá ljóss. Í desibel skalanum gildir nefnilega:

3 desibel er tvöföldun
6 desibel er fjórföldun
10 desibel er tíföldun
20 desibel er hundraðföldun
30 desibel er þúsundföldun
...og
160 desibel er tíu þúsund milljón milljón eða 10.000.000.000.000.000   (Vá!!!).
(Deila í 160 desibel með 10 og telja núllin í stóru tölunni. Einfalt!).

Þetta var miklu betra. Radíómerkin dofna um 160 desibel á leið sinni frá flöskuskeytinu að gervitunglinu, sem er auðvitað miklu miklu auðveldara að skrifa en öll romsan af núllum eins og hér fyrir ofan.

Það er annars merkilegt að þrátt fyrir að merkið frá flöskunni hafi dofnað tíu þúsund milljón milljón - falt á leið sinni út í geiminn að gervitunglinu, þá getum við tekið á móti því og birt staðsetningu flöskuskeytanna á korti. Makalaust!  Varla dygði að nota litla vasaljósaperu í svona fjarskiptum, þó svo að hún sendi frá sér jafn öflugar rafsegulbylgjur og litli sendirinn í flöskunni.

 


 

 
 
 
 

Útreikningar á sjávarstraumum
Hjá Verkís starfa nokkrir verkfræðingar sem eru sérfræðingar í því sem kallast straumfræði. Þeir kunna að reikna út strauma í ám og vötnum, og jafnvel sjó. Það nýtist vel til dæmis þegar verið er að hanna orkuver til að framleiða rafmagn, sama hvort verið er að virkja ár eða jafnvel hafstrauma.  Gerð var tilraun til að reikna út hvert flöskurnar færu með hjálp sjávarstrauma. Niðurstaðan var að líklega væri að þær færu áleiðis til Noregs og ferðalagið tæki nokkra mánuði. En, það var þó eitt vandamál sem getur haft mikil áhrif. Flöskuskeytin eru létt og vindurinn getur feykt þeim til og frá. Hann fer reyndar létt með það. Þess vegna er eins líklegt að flöskuskeytin eigi eftir að ferðast eftir ýmsum krókaleiðum sem erfitt er að spá fyrir um. Það verður gaman að fylgjast með.

Af vefsíðu Verkís:

Rekhluti sjávarfallalíkans Verkíss var notaður til að meta hvar hentugasti sleppistaður flöskuskeytanna væri. Niðurstöður þess sýndu að hentugast væri að sleppa flöskuskeytinu á suður- eða austurlandi. Flöskuskeytin voru prófuð í öldulaug Álftaneslaugar til að skoða floteiginleika þess og í Nauthólsvík til að staðfesta að samband næðist við gervihnött þegar flöskuskeytin væru í vatni. 

Þess má geta, að nota má svona forrit þegar leita þarf að björgunarbátum sem eru einhvers staðar á reki. Hægt er að láta það reikna út hvert björgunarbátinn hafi rekið með hjálp hafstrauma og vinda, og hvar best sé að byrja að leita.

 

Prófanir í sundlaug og sjó
Þegar búið að að smíða eina flösku var kominn tími til að prófa hana. Mikilvægt var að prófa hvernig hún þyldi harkalega meðferð, öldugang og sjóferð. Fyrst var farið með flöskuna í sundlaugina á Álftanesi, en þar er eins og allir vita stærsta vatnsrennibraut landsins. Flöskuskeytinu var hent úr mikilli hæð ofan í sundlaugina. 15 metra hæð heyrðist einhver tauta. Mikið skvamp heyrðist, en flaskan og það sem í henni var reyndist óskemmt.

Í þessari frábæru sundlaug er einnig vél sem getur búið til miklar öldur. Flaskan flaut vel, og það sem skipti öllu máli var að gervihnattabúnaðurinn vísaði ávallt til himins, sama hvað gekk á. Þetta lofaði góðu.

Að lokum var farið með frumgerðina í Skerjafjörð og flöskunni hent út í sjóinn. Allt virtist í lagi og loftnetin í flöskunni vísuðu upp, þó svo flaskan væri að veltast. Nokkrum mínútum eftir að merki átti að fara frá flöskunni í gervihnött í 1.400 km hæð einhvers staðar fyrir sunnan England kom sannleikurinn í ljós. Á skjá snjallsímans mátti á landakorti sjá hvar flöskuskeytið var á floti í Nauthólsvíkinni.

Nú virtist allt vera í lagi. Frumsmíðin með tvöföldu hylki eins og myndin efst á síðunni sýnir, virkaði vel. Mjög vel. Allir voru ánægðir og önnur flaska smíðuð í snatri.

 

 

 

 

Flöskuskeytunum varpað í hafið
Sunnudaginn 10. janúar 2015 rann stóra stundin upp. Flogið var með bæði flöskuskeytin með þyrlu langt á haf út við Grindavík og þeim varpað í sjóinn. Nú magnaðist spennan fyrir alvöru. Var búið að kasta flöskunum frábæru á glæ í orðsins fyllstu merkingu? (Glær er nefnilega gamalt orð yfir sjó). Voru þau einhvers staðar fljótandi, eða jafnvel komin niður á hafsbotn?

Flöskuskeytin voru sjósett um 20 mílur suðaustur út frá Reykjanesvita með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar. Líklegt er að flöskuskeytin verði hið minnsta nokkra mánuði á reki áður en þau ná landi.

Úff, - nokkru síðar fóru að berast merki frá Global Star gervihnöttunum. Þeir höfðu heyrt í flöskuskeytunum, og það sem meira var, flöskurnar létu vita hvar þær væru staddar svo skki skeikaði meira en 5 metrum!

 

 

 

 

Nú er spennandi að fylgjast með...!
Mun flöskuskeytið stefna til Noregs, eða fer það eitthvað allt annað? Kannski í öfuga átt og endar í Ameríku? Hver veit?

Á vefsíðu Verkís er hægt að sjá kort sem sýnir nákvæmlega hvar flöskuskeytin eru stödd núna. Smellið á þessa krækju til að sjá kortið og fræðast meira: 

FLÖSKUSKEYTI - MESSAGE IN A BOTTLE

www.verkis.is/gps

 

 

Á annarri vefsíðu hjá Verkís er ýmiss fróðleikur:

FYLGST MEÐ FLÖSKUSKEYTUM Í GEGNUM GERVITUNGL

http://www.verkis.is/um-okkur/frodleikur/frettir/fylgst-med-floskuskeytum-i-gegnum-gervitungl

 

 

 

Krækjur
Ungir aðdáendur Ævars vísindamanns, og reyndar allir sem eru ungir í anda, hafa ef til vill gaman af að glugga í nokkrar vefsíður þar sem sá sem hér skrifar þekkir aðeins til.Vilji einhver fræðast um mælingar á brautum gervihnatta sem sá er þessar línur ritar framkvæmdi þegar hann var unglingur má smella hér: Athuganir á brautum gervihnatta yfir Íslandi fyrir hálfri öld, og njósnarinn í Norðurmýrinni...

Fyrir hálfri öld, og rúmlega það, var eldflaugum skotið frá Íslandi alla leið upp í geiminn. Auðvitað var blekbóndinn sem þessar línur ritar einnig þar. Enn bara unglingur með brennandi áhuga á tækni og vísindum: Geimskot Frakka á Íslandi ... Iceland Space Center ... Myndir

Það eru ekki bara stórveldin sem smíða og senda á loft gervihnetti. Vissu þið að áhugamenn um allan heim hafa smíðað og sent á loft fjöldann allan af gervihnöttum sem kallaðir eru AMSAT OSCAR.  Fyrsti gervihnötturinn sem radíóamatörar smíðuðu og kallaður var OSCAR-1 var sendur á loft 12. desember 1961, aðeins 4 árum eftir að Rússar sendu upp fyrsta gervihnöttinn SPUTNIK-1 árið 1957. Þetta eru sem sagt ungir vísindamenn á öllum aldri sem eru að dunda við þetta merkilega áhugamál. Sjá hér.  

Þeir sem gaman hafa af stjörnuskoðun ættu að líta við hjá Stjörnuskoðunarféagi Seltjarnarness (reyndar allra landsmanna) og Stjörnufræðivefnum. Þar er margt skemmtilegt og fróðlegt að sjá. Auðvelt að gleyma sér þar!

Aðdáendur Ævars leynast örugglega meðal þeirra sem ánægju hafa af því að smíða fjarstýrðar flugvélar, stórar og smáar. Ekki er síður spennandi að fljúga þeim. Hér er ekkert kynslóðabil.


 

 

Myndir
Hér fyrir neðan má sjá ýmsar myndir frá því meðan á smíði og tilraunum stóð, en þar fyrir neðan er hugsanlega ýmislegt góðgæti sem áhugavert er að skoða.

 

_MG_7349

 Arnór Sigfússon PhD er dýravistfræðingur og vanur að fylgjast með flugi fugla yfir heimshöfin með GPS búnaði.

 

 

Alda 

Alda J. Rögnvaldsdóttir grafískur hönnuður og kynningarstjóri hjá Verkís var yfirleitt bak við myndavélina eða upptekin við að drífa verkefnið áfram og því fundust ekki við fyrstu leit myndir af henni við flöskuskeytið. Aftur á móti er hún hér með annað og stærra farartæki í höndunum, en hún var árið 2013 höfundur verðlaunatillögu að útliti flugvéla WOW.

Alda tók flestar myndanna sem prýða þessa síðu.

 

 

 

IMG_0925 - Copy

Ágúst H. Bjarnason rafmagnsverkfræðingur sá um frumhönnun tækisins, m.a. stöðugleikabúnaðarins, og smíði frumgerðar með aðstoð Fást ehf.  Myndin tekin eftir viðtalið við Ævar.

 

IMG_0923 - Copy-2

Ágúst útskýrir hönnun tækisins fyrir Ævari

 

 

IMG_0916

Vigfús Arnar Jósepsson er vélaverkfræðingur og Ólöf Rós Káradóttir er byggingarverkfræðingur og stærðfræðingur.  Vigfús og Ólöf Rós sáu um útreikninga í sjávarfallalíkani Verkíss, sem er flókinn hugbúnaður. Í miðju er auðvitað Ævar.

 

 

IMG_0914

Ólöf Rós í viðtali við Ævar, en í bakgrunni er Vigfús að vinna við tölvulíkanið.

 

 

IMG_7592

Nú er smíðinni lokið. Ármann E. Lund vélatæknifræðingur og Vigfús Jósepsson vélaverkfræðingur kampakátir með bæði flöskuskeytin.

 

IMG_0906

Frumsmíði flöskuskeytisins. Eftir er að gera á því nokkrar endurbætur og prófa.

 

IMG_7557


Innra hylkið er vel merkt.

 

IMG_7573


Ytra hylkið er einnig vel merkt.

 

 

GlobalStarOrbits

48 gervihnettir í Global Star kerfinu eru á braut í 1400 kílómetra hæð langt fyrir sunnan Ísland.  Þangað þurfa merkin frá litlu sendunum í flöskunum að draga.

 

 image001

Við prófanir í sjónum við Nauthólsvík barst merkið án vandræða í fyrstu tilraun.

 

 

 

 

 Líkan sem sýnir vindakerfið akkúrat núna.
Liturinn í bakgrunni táknar hitastig.

http://earth.nullschool.net

 

 

 

Á vefsíðu hjá Verkís er ýmiss fróðleikur um verkefnið:

FYLGST MEÐ FLÖSKUSKEYTUM Í GEGNUM GERVITUNGL

Smella hér:

http://www.verkis.is/um-okkur/frodleikur/frettir/fylgst-med-floskuskeytum-i-gegnum-gervitungl

 

 Flöskuskeytin í dag.

Hægt er að skruna og færa kortið til með músinni.
Nota má [+] & [-] takkana til að zoom-a á einstök hús á eyjunni Tiree þar sem flöskuskeytið lenti.   

Smellið á blöðru til að sjá hve langt flöskuskeytið hefur rekið, o.fl.

www.verkis.is/gps


dmi_weekly_icechart_colour

 Hafísinn (Smella á kort og stækka)
http://en.vedur.is/media/hafis/iskort_dmi/dmi_weekly_icechart_colour.pdf

 

 

 Hér er hægt að sjá ölduhæð og sveiflutíma

www.vegagerdin.is/vs/ArealKort.aspx?la=is

 

 

 

 

 

 Vindaspá fyrir Atlantshaf
www.vedur.is/vedur/sjovedur/atlantshafskort

 

 

 

 

18703-1

 

www.visindamadur.com

 

 

Verkis heilindi

 

www.verkis.is

 


Loftslagsbreytingar af völdum manna eða náttúru, eða kannski hvort tveggja?

 

 

Inngangur

Síðastliðin 25 ár eða svo hefur hækkun hitastigs á jörðinni verið mikið á dagskrá. Alþjóðlegar ráðstefnur hafa verið haldnar og nýlega var haldin mikil ráðstefna í París. Þar komu tugþúsundir manna saman og ræddu áhrif koltvísýrings á hitastig jarðar. Áhrif náttúrunnar á langtíma hitabreytingar fengu enga athygli. 

Umræður um losun koltvísýrings (koltvíildis, kolsýru – CO2) af mannavöldum hafa vakið áhuga margra á að kynna sér ástæður veðurfarsbreytinga í nútíð og fortíð. Miklar breytingar á veðurfari hafa orðið að því er virðist “af sjálfu sér” sé litið hundruð eða þúsundir ára aftur í tímann.  Auðvitað gerist slíkt ekki af sjálfu sér, eitthvað hlýtur að koma ferlinu af stað. Getur verið að þetta “eitthvað” sé einnig að hafa áhrif á veðrið á þessari öld?  Hvað er þetta “eitthvað”?  Getum við búist við að það muni haga sér á sama hátt og það hefur gert oft áður, þ.e. komið, staldrað við og horfið síðan á braut?   Um það fjallar þessi grein.

Áður en við fjöllum um þetta dularfulla “eitthvað” er rétt að skoða nánar hvað hefur verið á seyði undanfarin árþúsund og jafnvel enn í dag.

 

Hitafar frá síðustu ísöld fyrir um 11.000 árum

Mynd 1 sýnir niðurstöður mælinga á ískjörnum fengnum úr rúmlega 3000 metra djúpri holu sem boruð var í Grænlandsjökul. Með rannsóknum á magni samstætna súrefnis (oxygen isotopes) hefur verið hægt að áætla hitastig á yfirborði jökulsins þúsundir ára aftur í tíma. Þessi ferill nær yfir 11.000 ár, þ.e. aftur til loka ísaldar þegar þykk íshella þakti stóran hluta jarðar.

Ferillinn nær þó af mælitæknilegum ástæðum aðeins til ársins 1854, en hefur verið mjög lauslega framlengdur til dagsins í dag með strikuðu línunni lengst til hægri.

Svæðin sem merkt eru með grænu eru sérlega áhugaverð.  Lengst til hægri eru hlýindin sem glatt hafa okkur undanfarna áratugi og kallast Modern Warm Period. Fyrir um 1000 árum var annað hlýskeið sem stóð nokkra áratugi og kallast Medieval Warm Period. Þá var jafnvel hlýrra en í dag, að minnsta kosti jafn hlýtt. Fyrir 2000 árum, meðan á Roman Warm Period stóð, var svo enn hlýrra og mun hlýrra var fyrir rúmum 3000 árum á tímabili sem kallað er Minoan Warm Period.  Hvað veldur þessum áratugalöngu hlýskeiðum sem hafa komið reglulega með um 1000 ára millibili? Við getum skyggnst lengra aftur í tíma og sjáum að fyrir 7000 og 8000 árum var lang hlýast frá því er ísöld lauk. Holocene Climate Optimum kallast sá tími.

Vissulega er þessi ferill aðeins frá Grænlandi og sýnir breytingar þar. Það má þó teljast líklegt að hann endurspegli í stórum dráttum breytingar í hitafari jarðar frá því er ísöld lauk.

gisp220temperature-B

Mynd 1: Niðurstöður mælinga á ískjörnum fengnum úr rúmlega 3000 metra djúpri holu sem boruð var í Grænlandsjökul. Skammvinn hlýskeið eru sýnd með grænu.

Stækka má myndir með því að smella á þær.

 

 

GISP2

Mynd 1a: Annað sjónarhorn á niðurstöðurnar frá Grænlandsjökli

 

Áleitnar spurningar vakna þegar horft er á þessa mynd. Hýindin fyrir 1000, 2000, 3000, o.fl. árum voru örugglega ekki af mannavöldum. Þetta voru heitari tímabil en við upplifum nú. Hvernig getum við verið viss um að hlýindin nú stafi að mestu leyti af hegðun okkar? Getur ekki verið að núverandi góðæri í veðurfari undanfarið stafi af sömu orsökum og oft áður? Er ekki full ástæða til að velta fyrir sér hvaða náttúrulegu ástæður hafi valdið þessum hitasveiflum á undanförnum árþúsundum og hvort að náttúran sé ekki enn að verki?

Minni okkar er stutt, og sjálf skynjum við ekki nema nokkra áratugi til baka. Ef til vill er það þess vegna sem menn hafa einblínt á gróðurhúsaáhrif vegna aukningar koltvísýrings í andrúmsloftinu. Þessi kenning hefur verið mjög vinsæl, það vinsæl að ekki hefur verið hlustað nægilega vel á gagnrýni sem komið hefur fram frá virtum vísindamönnum í loftslagsfræðum,  stjarneðlisfræði o.fl. sem telja að náttúran eigi stóran þátt í breytingum, nú sem á öldum áður.

 

Breytingar síðan Ísland var numið

Breytingar í veðurfari á síðustu öldum eru vel þekktar. Sjá mynd 2. Á landnámsöld var jafnvel hlýrra á jörðinni en í dag, Ísland var þá viði vaxið milli fjalls og fjöru og vínviður óx jafnvel í Englandi. Þá voru hinir miklu landafundir norrænna manna, sem ekki víluðu fyrir sér að sigla í opnum bátum landa og heimsálfa á milli. Leifur heppni Eiríksson fann Vínland þar sem vínviður óx. Eiríkur rauði stofnaði byggð í Grænlandi árið 985 er hann sigldi með 25 skip Íslendinga þangað. Fundist hafa merki um ræktun korns þar og ölgerð þessara norrænu manna.

Eftir um 1200 fór heimurinn að kólna. Þá gekk í garð langt tímabil sem menn hafa nefnt “Litlu ísöldina”. Mikil harðindi urðu á Íslandi, byggð norrænna manna í Grænlandi leið undir lok og kuldinn var það mikill í Englandi að Thames lagði sum árin á vetrum. Áhrifa litlu ísaldarinnar gætti um allan heim næstu aldirnar.

hitafar-jardar-2000-ar_876926

Mynd 2: Hnattrænar hitabreytingar síðastliðin 2000 ár.

 

Gamla málverkið á mynd 3 eftir Abraham Hondius og er frá 1677. Horft er niður eftir ánni í átt að gömlu Lundúnarbrúnni.  Lengst til hægri handan brúarinnar er Southwark Cathedral, og þar til vinstri sést í turn St. Olave’s Church.

Takið eftir ísjökunum, sem virðast um hálfur annar metri á þykkt. Hvernig stendur á þessum ósköpum? Eitt kaldasta tímabil Litlu ísaldarinnar svokölluðu stóð yfir meðan virkni sólar var í lágmaki sem kallast Maunder minimum. Það stóð yfir um það bil frá 1645 til 1715. Þá sáust hvorki sólblettir né norðurljós og fimbulkuldi ríkt víða. Málverkið er frá þessu kuldaskeiði.

thames-5-b_527654


Mynd 3: Meðan á litlu ísöldinni stóð var áin Thames við London oft ísi lögð.

Málverkið er eftir Abraham Hondius (1630-1695). Museum of London. Fleiri myndir af “Frost Fairs” á Thames eru til.
Horft er niður eftir ánni í átt að gömlu Lundúnarbrúnni. Lengst til hægri handan brúarinnar er Southwark Cathedral, og þar til vinstri sést í turn St. Olave’s Church.

 

Hvernig var ástandið á Íslandi um þetta leyti? Þór Jakobsson segir þetta í erindi sínu “Um hafís fyrir Suðurlandi – frá landnámi til þessa dags” sem finna má á vef Veðurstofunnar:

“1695. Óvanalega miklir hafísar. Ís rak um veturinn upp að Norðurlandi og lá hann fram um þing, norðanveður ráku ísinn austur fyrir og svo suður, var hann kominn fyrir Þorlákshöfn fyrir sumarmál og sunnudaginn fyrstan í sumri (14. apríl) rak hann fyrir Reykjanes og Garð og inn á fiskileitir Seltirninga og að lokum að Hvalseyjum og í Hítarós, fór hann inn á hverja vík. Hafði ís ei komið fyrir Suðurnes innan 80 ára, þótti því mörgum nýstárlegt og undrum gegna um komu hans. Þá mátti ganga á ísum af Akranesi í Hólmakaupstað (Reykjavík) og var ísinn á Faxaflóa fram um vertíðarlok rúmlega, braut hann skip undan 6 mönnum fyrir Garði, en þeir gengu allir til lands”.

Um 1900 fer heimurinn að hlýna á nýjan leik og hefur sú þróun haldist til dagsins í dag, – með rykkjum þó. Við vitum hvernig ástandið var hér á landi seint á 19. öld þegar vesturferðir Íslendinga stóðu sem hæst, og fólk flúði harðindi og fátækt sem af því leiddi. Við höfum heyrt af frostavetrinum mikla 1918, síðan komu veruleg hlýindi fram að stríðsárum, þá nokkur kólnun fram til um 1975 er fer að hlýna aftur. Auk þessara breytinga eru smá sveiflur frá ári til árs, sem eru breytilegar frá einu landi til annars, eins og við könnumst við. Hér á norðurslóðum, þar sem meðalhiti ársins er ekki nema nokkrar gráður yfir frostmarki erum við miklu næmari fyrir smávægilegum hitafarsbreytingum en sunnar í álfunni þar sem ársmeðalhitinn er mun hærri.

Hvenær lauk Litlu ísöldinni? Um það má deila, sumir miða við áeið 1900 og enn aðrir vilja meina að frostaveturinn 1918 hafi verið dauðakippir þessa langa kuldaskeiðs.

 

Hlýnun síðastliðin 150 ár frá Litlu ísöldinni

Samkvæmt mælingum er talið að hitastig jarðar hafi hækkað um því sem næst 0,8°C síðan um 1850.  Hvers vegna 1850?  Jú það er vegna þess að sæmilega áreiðanlegar eldri mælingar á lofthita eru ekki til. Þá var Litlu ísöldinni ekki lokið. Verulegur hluti þessa tímabils, um það bil hálf öld, tilheyrir Litlu ísöldinni. Skekkir það ekki aðeins myndina?

Menn hafa af því miklar áhyggjur að meðalhiti jarðar hafi hækkað um því sem næst 0,8 gráður á 150 árum.  Hver vill fullyrða að um 1850, á síðustu áratugum Litlu ísaldar, hafi veðurfar verið “rétt” og öll hækkun hita síðan þá sé “röng” og hættuleg?   Það merkilega er að þetta er kjarninn í umræðunni um loftslagsmálin.

Reyndar er mjög oft talað um að þessi hækkun lofthita um 0,8°C sé "frá upphafi iðnbyltingar". Iðnbyltingin hófst um 1750, en þá voru enn eftir 150 ár af Litlu ísöldinni.  Hvers vegna í ósköpunum er verið að miða við þetta kalda tímabil þegar hungur og sjúkdómar fóru illa með fólk?

Við sjáum greinilega á hitaferlinum frá Bresku Veðurstofunni (mynd 4) að Litlu Ísöldinni lýkur ekki fyrr en um 1920, þá verður mjög hröð hlýnun fram að 1945, síðan kyrrstaða til um 1975 er hitinn fer að rísa hratt til ársins 2000, og að lokum kyrrstaða til dagsins í dag.

Eftirtektarvert er að á tímabilinu 1920 til 1945 er álíka hröð og álíka mikil hækkun á hitastigi og á tímabilinu 1975 til 2000. Hvort tveggja 25 ára tímabil. Það er umhugsunarvert að losun manna á koltvísýringi var tiltölulega lítil fyrr en eftir miðja síðustu öld er losunin fór hratt vaxandi. Það flækir auðvitað málið dálítið.  Var það kannski náttúran sem var að verki á fyrra tímabilinu og mannfólkið á hinu síðara?  Eða á náttúran einhvern þá í hitabreytingunum yfir allt tímabilið? 

Við tökum eftir því að meðalhitinn yfir allt tímabilið er nokkurn vegin sá sami og mældist í kyrrstöðunni 1945-1975. Væri ekki eðlilegra að miða hækkun lofthitans við það tímabil frekar en Litlu Ísöldina eins og gert er?  Þá væri hækkunin sem við værum með áhyggjur af um 0,5 gráður í stað 0,8 gráða.

 

hadcrut4_annual_global

Mynd 4: Myndin er frá Bresku veðurstofunni Met Office. Hún sýnir frávik í meðalhita tímabilsins 1850 til 2014. Á þessum tíma hefur styrkur koltvísýrings aukist frá 0,03% í 0,04%.

 

 

HadCRUT3 GlobalMonthlyTempSince1850 NH-SH-NormalPeriod (1)


Mynd 4a:  Önnur mynd frá Bresku veðurstofunni Met Office. Stór hluti ferilsins tilheyrir Litlu ísöldinni, en nær þó ekki aftur til upphafs iðnbyltingar um 1750

 

 

Kyrrstaða hlýnunar frá aldamótum

Náttúran hefurverið að stríða okkur frá aldamótum, því eitthvað veldur því að meðalhiti jarðar hefur meira og minna staðið í stað frá aldamótum eins og sést á mynd 5, þrátt fyrir sívaxandi losun manna á koltvísýringi CO2.

Hitamælingar á lofthjúpnum fara í aðalatriðum fram á tvennan hátt: Með hefðbundnum hitamælum á veðurstöðvum víða um heim og frá gervihnöttum. Mælingar frá gervihnöttum hafa það fram yfir kvikasilfursmælana að gervihnettirnir mæla yfir allan hnöttinn, byggð ból, hafið, eyðimerkur, fjöll og firnindi. Svokölluð þéttbýlisáhrif trufla ekki þær mælingar, en við vitum flest hve miklu heitara er innan borgarmarkanna en utan þeirra. Þessar mælingar frá gervihnöttum ná þó aðeins aftur til ársins 1979. Á þeim má greina áhrif frá stórum eldgosum og fyrirbærum í Kyrrahafinu sem kölluð eru El Niño og La Niña. Um þessar mundir er öflugt El Niño í gangi sem veldur nokkurra mánaða hækkun hitastigs og veðurbreytingum víða um heim.

 

UAH_LT_1979_thru_November_2016_v6

Mynd 5: Hitamælingar frá gervihnöttum sýna kyrrstöðu í hlýnun frá síðustu aldamótum
(Myndin uppfærð í desember 2016)

 

Ástæður loftslagsbreytinga og hvað er þetta «eitthvað» sem minnst var á í innganginum?

Ljóst er að ýmislegt annað getur haft áhrif á loftslagsbreytingar en koltvísýringur. Margir þekkja snjallar kenningar hins virta vísindamanns Páls Bergþórssonar um samspil breytilegs endurskins frá hafís sem orsakavald hinnar velþekktu 60 ára sveiflu í hitafari. Hann hélt nýlega áhugavert erindi á Aðventuþingi félags veðurfræðinga. Sjá erindið hér.  Margir beina sjónum að sólinni, okkar eina hitagjafa.  Sólin á mynd 6 er svokölluð breytistjarna sem jörðin er í nábýli við. Frá henni streymir breytilegur sólvindurinn sem veldur fallegum norðurljósum, og gæti átt verulegan þátt í hitasveiflum undanfarinna alda og árþúsunda samkvæmt velþekktum kenningum prófessors Henriks Svensmark.

11878975_10207837021626423_5834415388739750727_o

Mynd 6: Sólin er breytileg stjarna. Virkni hennar gengur í bylgjum. Sveiflurnar eru áratuga, árhundraða og árþúsunda langar. Jörðin er í nábýli við þessa dagstjörnu.

 

Á mynd 7 má sjá breytingar í heildarútgeislun sólar frá árinu 1610 til 2014. Eins og sjá má, þá er hún í hæstu hæðum á síðarihluta nýliðinnar aldar, og nú er heildarútgeislunin farin að dala aftur. Maunder lágmarkið frá 1650-1700 leynir sér ekki.

Breytingin í heildarútgeislun er reyndar heldur  lítil til að skýra hitabreytingar undanfarið þannig að leita þarf annarra skýringa. Skýringin gæti legið í útfjólubláa þætti sólarljóssins og beinast augu vísindamanna nú að þeim möguleika.

SolarIrradianceReconstructedSince1610 LeanUntil2000 From2001dataFromPMOD (1)

Mynd 7: Heildarútgeislun sólar hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin 400 ár ásamt því sem hnattræn hlýnun hefur átt sér stað. Nú kann virkni sólar að fara minnkandi á næstu árum.

 

Breyting í heildarútgeislun er aðeins um 0,2% yfir allt tímabilið, en breyting í útfjólubláa ljósinu (Extreme UltraViolet-EUV) yfir aðeins eina 11 ára sólsveiflu er um tíföld eða 1000 %.   Jafnvel tvöfalt það eins og sést á mynd 8 frá japönsku geimferðastofnunni.

 

11_year_uv_cycles

Mynd 8: 20-föld (2000 %) breyting á útfjólublárri útgeislun sólar yfir 11 ára tímabil.

 

Sólvirknin hefur minnkað hratt á síðustu árum. Kyrrstaða hefur verið í hitastigi undanfarinn hálfan annan áratug. Er það tilviljun að það fer saman? Kannski. Eða, er það merki þess að hámarkinu sé náð og hlýskeiðið að ganga niður, eins og það gerði fyrir 1000, 2000 og 3000 árum eftir nokkurra áratuga löng góðæri?  Því hafa ýmsir vísindamenn spáð, en fáir hlustað. Fari svo, þá mun það koma í ljós innan áratugar.

 

Samantekt

Í fyrirsögn var spurt: Loftslagsbreytingar af völdum manna eða náttúru, eða kannski hvort tveggja? 

Ætli svarið sé ekki "hvort tveggja".

Áður hefur sá sem hér ritar gert því skóna að skiptingin gæti hafa verið verið milli eftirfarinna þátta undanfarna áratugi:

  1. Ytri sveiflur sem væru þá helst breytingar í sólinni.

  2. Innri sveiflur svo sem breytingar í hafstraumum og breytingar í hafís/endurskini eins og Páll Bergþórsson hefur bent á.

  3. Stígandi sem stafar af sífelt meiri losun á koltvísýringi

 

Þetta er semsagt flókið samspil náttúrulegra fyrirbæra og áhrifa losunar manna á koltvísýringi. Hve mikið hver þessara þriggja þátta vegur er ómögulegt að segja.  Við getum þess vegna til einföldunar og bráðabirgða sagt er hver þáttur valdi svo sem þriðjungi, en auðvitað er það bara órökstudd ágiskun þar til við vitum betur...

 

 --- --- --- 

 

Jákvæð áhrif aukningar CO2

Fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott.

Koltvísýringur er ekki eitraður. Hann er undirstaða alls lífs á jörðinni. Án hans yxi ekki grænn góður og matvælaframleiðsla væri engin. Dýralíf lítið sem ekkert og víst er að við værum ekki hér.

Með hjálp sólar vinna plönturnar mjölvi og sykur úr koltvísýringnum og losa frá sér súrefni. Lífsandi plantanna er koltvísýringur, en okkar lífsandi er súrefnið. Án grænu plantanan væri ekkert súrefni og því ekkert dýralíf.

Aukning koltvísýrings í andrúmsloftinu eykur verulega vaxtarhraða gróðurs. Það hefur mjög jákvæð áhrif á matvælaframleiðslu heimsins. Ekki veitir af.

Hér á landi hefur gróðri fleygt fram á undanförnum árum. Skógarmörk hafa hækkað og víða má sjá sjálfsáð tré vaxa upp þar sem áður var auðn. Við getum þakkað það bæði hækkuðum lofthita og auknum styrk koltvísýrings.

Íslenskir gróðurhúsabændur vita að hægt er að auka framleiðsluna verulega með því að losa koltvísýring inn í gróðurhúsin. Þess vegana má iðulega sjá stálgeyma eða stærri tanka með koltvísýringi fyrir utan gróðurhúsin eins og á mynd 9 sem tekin var fyrir utan gróðurhús í uppsveitunum. Inni í gróðurhúsunum er styrkur koltvísýrings tvöfaldur til fjórfaldur þess sem er utan þeirra.

 

greenhouse-2


Mynd 9: Geymir með koltvísýringi fyrir utan íslenskt gróðurhús.
(Ljósmynd áhb)

 

 

WoodyFourLevelsOfCO2Enrichment

 

Mynd 10: Tilraunir hafa verið gerðar í því skyni að mæla vaxtarhraða plantna við mismunsandi styrk koltvísýrings. Á myndinni er verið að gera tilraunir með furu. Lengst til vinstri er styrkurinn sá sami og í andrúmsloftinu, eða 400 ppm (0,04%). Á næstu mynd hefur 150 ppm verið bætt við þannig að styrkurinn verður 550 ppm. Á þriðju myndinni er styrkurinn orðinn 700 ppm og á þeirri fjórðu 850 ppm, eða meiri en tvöfaldur þess sem er í andrúmsloftinu utandyra.  Þetta kunna plönturnar svo sannarlega að meta og vaxtarhraðinn tvöfaldast.

 

Aukinn styrkur koltvísýrings og hærri lofthiti hafa gert það að verkum að gróður jarðar hefur aukist. Matvælaframleiðsla í hungruðum heimi hefur af þeim sökum aukist.  Hún er að verða grænni samkvæmt gervihnattamyndum. Um það má lesa á vefsíðu NASA sem nefnist Global Garden Gets Greener, en þar er að finna mynd 11.

 

npp_change_bump_lrg

Mynd 11: Hin grænkandi jörð samkvæmt vefsíðu NASA.  

 

Höfum það hugfast að koltvísýringur, undirstaða lífs á jörðinni, er ekki mengun. Magn koltvísýrings í andrúmsloftinu mælist nú 0,04%.    Munum einnig að við erum í nábýli við stjörnu sem við köllum sól. Sólin veitir okkur birtu og yl sem breytist með sveiflum sem ná yfir áratugi, árhundruð og árþúsund. Munum eftir sveiflum í Atlantshafinu og Kyrrahafinu. Munum eftir sveiflum í útbreiðslu hafíss og breytlegu endurskini.   Munum eftir…

 

 

 --- --- ---

 

 

 

 

 

Vetrarsólstöður eru í ár 22. desember. Sólin verður þá lægst á lofti og dagurinn stystur. Á Þorláksmessu fer sólin að hækka á lofti og dagurinn að lengjast, þó ekki muni nema hænufeti fyrst í stað.  Áður en við vitum af fer vorilmur að finnast í lofti, fuglar að syngja, ástin blómstrar og vorið er komið!

Það er því tilefni að fagna. Það munum við gera á hinni ævagömlu hátíð Jólunum. 

 

"Fyrsta sólarhring frá sólstöðum lengist sólargangurinn í Reykjavík um 9 sekúndur. Annan daginn lengist hann um 27 sekúndur og þriðja daginn um 44 sekúndur. Þetta eru sem sagt "hænufetin" í Reykjavík. Á Akureyri er fyrsta hænufetið 12 sekúndur, hið næsta 37 sekúndur og hið þriðja 62 sekúndur", stendur í grein eftir Þorstein Sæmundsson sem birtist í Almanaki Háskólans árið 1993.  Greinina má lesa hér.

 

solsetur_2011

 

 Gleðileg Jól

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

"Myrkurstundum á vökutíma fjölgar um 131 til 190 klukkustundir eða 5 til 8 sólarhringa ef klukkunni verður seinkað"...

 

 

 

Dr. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur hefur séð um útgáfu Almanaks Háskólans í áratugi og reiknað út hinar margbreytilegu töflur sem þar eru, en það er mikil nákvæmnisvinna. Hann er því manna fróðastur um tímatal og klukkuna. Þorsteinn var um áratugaskeið deildarstjóri Háloftadeildar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Þorsteinn hefur oft fjallað um klukkuna, seinkun hennar, sumartíma, vetrartíma, o.fl. Mig langar til að vísa á nýlegan pistil hans á vef Almanaksins: „Um seinkun klukkunnar“    http://www.almanak.hi.is/seinkun2.html

Það vill svo til að sá sem þessar línur ritar starfaði á Háloftadeild Raunvísindastofnunar, þar sem Þorsteinn réði ríkjum, sem sumarmaður árin 1968 og 1969. Þá var einmitt ákveðið að  hafa sumartíma allt árið á Íslandi og urðu margir fegnir þegar hringlinu með klukkuna var hætt.

 

Þorsteinn sagði í viðtali við Morgunblaðið 1. desember:

 

Still­ing klukk­unn­ar alltaf mála­miðlun

Ingi­leif Friðriks­dótt­ir
if@mbl.is

Dr. Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.stækka

Dr. Þor­steinn Sæ­munds­son, stjörnu­fræðing­ur hjá
Raun­vís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands. mbl.is/​Golli

„Ég hef mikl­ar efa­semd­ir um nei­kvæð heilsu­fars­leg áhrif af fljótri klukku. Í því sam­bandi er at­hygl­is­vert að svefn­höfgi ung­linga virðist engu minna vanda­mál í þeim lönd­um þar sem klukk­unni er seinkað að vetri til,“ seg­ir Þor­steinn Sæ­munds­son, stjörnu­fræðing­ur.

Hann seg­ir það klukk­una frem­ur en dags­birt­una sem ræður því hvenær ung­ling­ar fara að sofa á kvöld­in. Sums staðar er­lend­is hafi það gef­ist vel að hefja skóla­hald seinna að morgni, og slíkt hafi t.a.m. tíðkast í Eg­ilsstaðaskóla síðustu ár.

Mbl.is fjallaði í síðustu viku um fyr­ir­lest­ur Bjarg­ar Þor­leifs­dótt­ur, lektors við Lækna­deild Há­skóla Íslands, um klukkuþreytu á meðal Íslend­inga. Þar sagði hún það mjög brýnt lýðheilsu­mál að seinka klukk­unni um eina klukku­stund. Íslend­ing­ar væru að skapa sér vanda með nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi sem hef­ur meðal ann­ars slæm­ar af­leiðin­f­ar fyr­ir heilsu fólks.

Ég hef litla trú á því að þetta sé heilsu­fræðilegt heimsvanda­mál,“ seg­ir Þor­steinn í sam­tali við mbl.is. Hann seg­ist jafn­framt hafa þá at­huga­semd að Björg, ásamt mörg­um öðrum, ein­blíni á eina af­leiðingu þess að seinka klukk­unni í stað þess að skoða málið frá öll­um hliðum. 

Hverri til­hög­un fylgja kost­ir og ókost­ir

„Still­ing klukk­unn­ar verður alltaf mála­miðlun því að sér­hverri til­hög­un fylgja bæði kost­ir og ókost­ir,“ seg­ir Þor­steinn, en bend­ir á að þegar nú­gild­andi lög um tíma­reikn­ing voru sett árið 1968 hafi megin­á­stæðan verið óánægja fólks með það sem kallað var hringlið með klukk­una.

Í pistli sín­um um seink­un klukk­unn­ar seg­ir hann mark­miðið með laga­setn­ing­unni það ár hafa fyrst og fremst verið það að koma á föst­um tíma allt árið. „Skoðana­könn­un leiddi í ljós að mun fleiri vildu hafa flýtta klukku („sum­ar­tíma“) en óbreytta („vetr­ar­tíma“). Varð því niðurstaðan sú að klukk­ur skyldu stillt­ar eft­ir miðtíma Greenwich.“

Radd­ir komið fram síðustu ár sem kalla á breyt­ingu

Eft­ir breyt­ing­una má segja að friður hafi ríkt um tíma­reikn­ing­inn í ald­ar­fjórðung. Það er ekki fyrr en á síðustu árum að komið hafa fram radd­ir sem kalla á breyt­ingu á ný. Má þar nefna þings­álykt­un­ar­til­lögu árið 1994, frum­varp árið 1995 (end­ur­flutt 1998 og 2000), og þings­álykt­un­ar­til­lög­ur árin 2006, 2010, 2013 og nú síðast árið 2014.

„Spyrja má hvers vegna breyt­inga sé óskað eft­ir svo langa sátt um nú­gild­andi fyr­ir­komu­lag. Þar kem­ur tvennt til greina. Í fyrsta lagi er vax­in upp ný kyn­slóð sem man ekki það fyr­ir­komu­lag sem áður gilti og þekk­ir ekki af eig­in raun kosti þess eða ókosti. Í öðru lagi hafa skap­ast ný viðhorf vegna breyttra aðstæðna í þjóðfé­lag­inu, nýrr­ar tækni og nýrra sjón­ar­miða. Hvort tveggja þarf að hafa í huga áður en ákvörðun er tek­in um laga­setn­ingu sem óhjá­kvæmi­lega snert­ir hvern ein­asta Íslend­ing að meira eða minna leyti.“

Bjart­ari morgn­ar dýr­keypt­ir

Þá bend­ir hann á að seink­un klukk­unn­ar hefði þau áhrif að bjart­ara yrði á morgn­anna og það sé tví­mæla­laust sterk­asta rök­semd þeirra sem vilja fara þessa leið. 

„Á hinn bóg­inn eru bjart­ari morgn­ar keypt­ir því verði að fyrr dimm­ir síðdeg­is þegar um­ferð er meiri og börn á leið úr skóla. Menn get­ur greint á um það hvort þeir kjósi frem­ur bjart­ari morgna eða bjart­ara síðdegi. En um­ferðarþung­inn bend­ir til þess að menn nýti al­mennt síðdegið frem­ur en morgn­ana til að sinna er­ind­um sín­um. Það virðist gilda að sumri ekki síður en vetri og stjórn­ast því ekki af birt­unni einni sam­an. Óum­deilt er, að flest­ir kjósa flýtta klukku á sumr­in, því að lengri tími gefst þá til úti­vist­ar.“

Fals­von­ir um batn­andi líðan við að seinka klukk­unni

Þor­steinn bend­ir jafn­framt á að í þings­álykt­un­ar­til­lög­unni sé horft fram­hjá þeirri staðreynd að raf­lýs­ing hef­ur áhrif á lík­ams­klukk­una ekki síður en sól­ar­ljósið og rask­ar því hinni nátt­úru­legu sveiflu. „Í þjóðfé­lagi nú­tím­ans ræður sól­ar­ljósið ekki still­ingu lík­ams­klukk­unn­ar nema að tak­mörkuðu leyti. Því ætti ekki að vekja mönn­um fals­von­ir um að líðan þeirra muni batna til muna við það að seinka klukk­unni.“

Þá seg­ist hann hrædd­ur um að mörg­um myndi bregða í brún þegar þeir yrðu var­ir við það að myrkrið skylli á klukku­stund fyrr síðdeg­is, eins og myndi ger­ast ef klukk­unni væri seinkað. „Dótt­ir mín bjó í Lundi í Svíþjóð í haust þegar klukk­unni var breytt þar frá sum­ar­tíma yfir á vetr­ar­tíma. Hún orðaði það svo að breyt­ing­in síðdeg­is hefði verið afar óþægi­leg. Ég hef heyrt svipaða sögu frá fleir­um, bæði aust­an­hafs og vest­an­hafs,“ seg­ir Þor­steinn.

Loks seg­ir hann rétt að vekja at­hygli á því að mik­ill fjöldi fólks í heim­in­um býr við fljóta klukku allt árið. Þetta sjá­ist vel ef tíma­kort Almanaks Há­skól­ans er skoðað.

 

--- --- ---

 

Dr. Gunnlaugur Björnsson stjarneðlisfræðingur, núverandi deildarstjóri Háloftadeildar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, skrifaði 1. desember 2014 á visir.is:

Myrkur í heygarðshorninu

SKOÐUN
09:18 01. DESEMBER 2014
 
 
Gullli
Enn er komin fram á Alþingi þingsályktunartillaga um „seinkun klukkunnar og bjartari morgna“. Réttilega er bent á í tillögunni að klukkan á Íslandi er ekki í samræmi við gang sólar. Það er enda svo að tíminn er ákveðinn hinn sami á öllu landinu þó að með réttu lagi ætti klukkan á Austurlandi að vera um hálftíma á undan klukkunni á Vesturlandi.


Þegar tíminn er festur eins og gert er á Íslandi og raunar í öllum löndum, er reynt að koma því þannig fyrir að gangur klukkunnar sé sem flestum að skapi. Það er ekki alltaf auðvelt, og í sumum ríkjum er það reyndar alls ekki gert. Þegar ákveðið var árið 1968 að sumartími skyldi gilda á Íslandi árið um kring var það að sjálfsögðu að vel athuguðu máli og hefur ekki þótt ástæða til að hreyfa við því síðan.

Á liðnum áratug eða tveimur, hafa öðru hvoru komið fram á Alþingi tillögur um að hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Fyrst vildu menn auka enn við misræmið og færa hádegið lengra fram á eftirmiðdaginn. Gæfust þannig lengri og bjartari kvöld til útiveru, grillunar eða annarrar iðju. Það varð ekki. Nú vilja sumir þingmenn taka skrefið í hina áttina og hverfa frá föstum sumartíma. Meginástæða þessara hugmynda að breyttri klukku sýnist vera sú að með því móti fáist bjartari morgnar, sem vissulega er rétt. Það virðist þó skína í gegn í tillögunni að þetta gefi fleiri birtustundir í sólarhringnum en núverandi fyrirkomulag og bæti þar með geð guma. Það er auðvitað alrangt. Lega landsins og gangur jarðar um sól „úthluta“ okkur ákveðnum fjölda birtustunda yfir daginn, við getum einungis ákveðið með lögum hvernig klukkan skuli stillt. Það fjölgar ekki birtustundum.

Líklega skiptir það þorra manna mestu máli að birtustundir á vökutíma séu sem flestar. Það er einfalt að reikna það út að ef klukkunni yrði seinkað um eina klukkustund eins og þingsályktunartillagan leggur til, myndi myrkurstundum á vökutíma fjölga um 131 til 190 klukkustundir eftir því hvort vökutími teldist frá 7-23 eða 8-24.

Þetta samsvarar fimm til átta heilum sólarhringum í auknu myrkri á vökutíma! Ég myndi ekki vilja skipta fyrir nokkurn mun. Ekki verður séð að hugmynd flutningsmanna sé líkleg til að draga úr skammdegisþunglyndi eða öðrum sálarkvillum sem hugsanlega orsakast af langri dvöl á norðurhjara.

 

--- --- ---

 

Þetta er skoðun þeirra tveggja manna sem best þekkja útreikning tímatals og klukkunnar á Íslandi. 

Á mínum vinnustað mætir starfsfólkið til vinnu á tímabilinu 7 til 9. Þeir árrisulu mæta snemma og geta því einnig farið snemma heim í lok vinnudags. Flestir mæta um klukkan átta, en allnokkrir ekki fyrr en um níuleytið.  Allir eru ánægðir og klukkan ekkert vandamál.

Svo má auðvitað minnast á að í þéttbýli utanhúss er tæplega hægt að tala um skammdegismyrkur, lýsing er það góð. Myrkrið er aftur á móti í dreifbýlinu. Þar er það oft kolsvart.  Innanhúss er auðvitað vel bjart hjá okkur öllum, þökk sé góðri raflýsingu. 

Ráðið við morgunsyfju er einfalt: Fara fyrr að sofa og gæta þess að ná 7 - 8 tíma svefni. Vakna síðan eldhress smile.



 

 

 

 

 


mbl.is Svona dimmir með breyttri klukku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel varðveitt leyndarmál í Frakklandi...

 

 

picture_356.jpg

 

 

Sumir eiga sér draum sem aldrei verður neitt annað en draumur.  Aðrir láta draum sinn rætast jafnvel þó það kosti blóð, svita og tár. Draumar sem rætast eiga það til að vera engu líkir, enda eru draumar alltaf dálítið sérstakir og persónulegir.

Margrét Jónsdóttir listmálari er ein þeirra sem hafa látið draum sinn rætast, draum um að eiga hús í sveit í Frakklandi.   Fyrir um áratug keypti hún ævagamalt hús í örlitlu þorpi ekki langt frá París. Hún gerði húsið, sem er 300 ára gamalt, upp af einstakri alúð og smekkvísi sem listamönnum einum er lagið,  og breytti því í sannkallaðan unaðsreit.

 
Þarna dvelur listamaðurinn annað slagið, en leigir húsið út þess á milli þeim sem vilja kynnast hinu blíða Frakklandi, eða eins og Frakkar segja sjálfir: "Douce France".    Það kemur skemmtilega á óvart hve leiguverði er stillt í hóf.

Skammt frá húsinu eru kastalar, ótal eldgamlar gönguleiðir, hundgömul þorp, baðströnd við vatn, skógur, veiðar, golf og hestaleiga.  Allt er þetta nokkuð sem okkur sem búum í köldu landi nærri heimskautsbaug dreymir um að kynnast.

Sannarlega er það ótrúlegt framtak að gera 300 ára gamalt hús svona vel upp eins og raun ber vitni.   Ef einhvers staðar er til gamalt hús með fallegri sál og góðum anda þá er það hér.

Húsið er í litlu þorpi í sveitarfélaginu Mayenne í héraðinu Pays de la Loir. Náttúrufegurð er þar mikil.

 

Eiginlega er þetta vel varðveitt leyndarmál sem fáir vita um.   Er ástæða til að ljóstra upp þessu fallega leyndarmáli?  Auðvitað!

 

 

Vefsíða þessa fallega húss sem auðvitað heitir Mögguhús er:                       margretjonsdottir.blogspot.fr

 

Facebook síða hússins er hér.  (Áhugaverðar upplýsingar).

 

Fjölmargar myndir og upplýsingar um leiguverð eru hér


Fjölmargar myndir eru á Flickr síðu hér, en þær má skoða sem myndasýningu (slideshow).

 

 
 
picture_137.jpg
Eldhúsið
 
 
picture_345.jpg
 Stofan
 
 
picture_204.jpg
  Bakgarðurinn
 
 
lokin_008.jpg
 Húseigandinn Margrét Jónsdóttir listmálari
 
 
 


400.000 ára saga Mayenne

 

 

 

 Undursamleg náttúrufeguð

 

 

 

 Uppgötvið Mayenne og auðlegð þess!

 

 

 

mont-saint-michel.jpg
 
 Mont Saint Michel
 
 

 
 
Síða hússins á Facebook er áhugaverð: MögguHús-Hús til leigu  
 
 
 

 

Verkfræðingar við Harvard háskóla smíða býflugur með gervigreind...

 

 harvard_robobee.jpg

 

Það er ekki annað hægt að segja en að þessi tækni sem notuð er til að smíða þessi vélrænu skordýr sé stórmerkileg...   En þegar grannt er skoðað á hún margt sameiginlegt með barnabókum sem við þekkjum flest, þ.e bækur þar sem ævintýrið bókstaflega sprettur upp þegar við opnum bókina, en þannig bók er stundum kölluð sprettibók, eða pop-up book á útlensku.

Lísa í UndralandiMyndin hér til hliðar sýnir svona bók um Lísu í Undarandi. Ekki er laust við að manni líði eins og Lísu þegar maður skoðar þessa tækni. Er heimurinn að breytast í raunverulegt Undraland, eða er hann þegar orðinn það?

Í þessum pistli er meiningin að litast um í Verkfræðideild Harvard háskóla, en eins og margir vita, þá er Harvard meðal allra þekktustu háskóla. Reyndar er Harvard í göngufæri frá hinum þekkta verkfræðiháskóla, MIT - Massachusettes Institute of Technology.

 

Um er að ræða örsmátt flygildi sem er nánast vélbýfluga, eða RoboBee eins og fyrribærið er kallað. Framleiðsluferlið er einstaklega sniðugt og verður því lýst með hjálp myndanna hér fyrir neðan. Kvikindið vegur aðeins 0,09 grömm, eða tæplega 1/10 úr grammi. Smíðin á flygildinu er aðeins fyrsti áfanginn, síðar verður væntanlega bætt við litlum heila til að gefa flugunni smá vit, vídeó myndavél fyrir augu, o.s.frv.   Hvar endar þetta?

 


 

harvard_flugan3-600w.jpg

Hér er vél-býflugan nýkomin úr "púpunni" sem framleiddi hana.  Hún er greinilega ekki stór, eins og sést samanborið við peninginn (1 cent).



 harvard_flugan2-600w.jpg

Hér sjáum við búnað sem líkja má við púpu sem flugan skríður fullsköpuð úr.  Þessi 18 laga vél er með sveigjanlegum lömum sem setur saman þrívíða afurðina, sem aðeins er 2,4 mm á þykkt, í einni svipan, svipað og í sprettibók.

 

 harvard_flugan4-600w.jpg

Litli róbotinn, hin 2,4 mm þykka vélbýfluga, er settur saman með öðrum róbota. Kannski má segja að stærri róbotinn sé vélpúpa.


 harvard_flugan5.jpg

Hér sjáum við þríviða teikningu af púpunni og flugunni.  Hönnuðurnir segja að auðvelt sé að bæta við mótorum og skynjurum.

 

harvard_flugan6.jpg

Svona vél getur auðveldlega fjöldaframleitt vélbýflugur. Markmiðið er að fjöldaframleiða svarm af svona vélbýflugum.

 harvard_flugan7-600w.jpg

Rannsóknarstofan hefur unnið að frumgerðum vélskordýra í mörg ár, fyrst var þetta mikil handavinna, en nú er framleiðsla nánast orðin sjálfvirk.



harvard_flugan_10-600w.jpg

Nærmynd af búnaðinum. Hver örþunnur flötur er myndaður úr 18 lögum.

 

 harvard_flugan_8-600w.jpg

Efri myndin sýnir lítinn hluta af verkfræðiteikningu af  "Harvard Monolithic Bee" sem samkvæmt orðanna hljóðan þýðir nánast "Harvard einsteinungs býflugan". 

Neðri myndin sýnir öll 18 lögin sem myndar þynnuna sem síðan er skorin með leysigeisla, og þarnæst brotin eins og pappír í sprettibók.

 

 harvar-flugan-liffraedi.jpg

Næsta kynslóð Harvard flugunnar. Hér er búið að bæta við skynjurum, taugakerfi, heila og mótorum. Flugan verður fljúgandi vitvél...

 

 

 Tvö fróðleg myndbönd sem sýna hvernig smíðin fer fram:

 

 

 

 

 

 

 

robobees.png

 

Lesa meira:  http://robobees.seas.harvard.edu

 

 

 

 

 

VFÍ
 
Verkfræðingafélag Íslands er orðið 100 ára Wizard
www.vfi.is
 
afmaelismerki_upphleypt_liggjandi_verkfraedistofa_1137821.jpg
 
...og verkfræðistofan Verkís 80 ára Wizard

 

 

 

 

Ef ég væri orðin lítil fluga,
ég inn um gluggann þreytti flugið mitt,
og þó ég ei til annars mætti duga,
ég eflaust gæti kitlað nefið þitt.

 

lisaundralandi-dyr-300w.jpg

 

Líklega höfum við aðeins fengið að gægjast örlítið inn um dyrnar að Undralandi.
Handan þeirra er örugglega ýmislegt enn furðulegra en það sem við vorum að kynnast.




Jessica Cox, stúlkan sem fæddist handalaus, er með einkaflugmannspróf - Videó...

 

jessica-cox-standing-in-plane.jpg

 

 

 

Nú þegar svartsýnin og örvæntingin ræður ríkjum í þjóðfélaginu er hughreystandi að lesa um Jessicu Cox sem fæddist handalaus, en hefur með einstökum dugnaði og bjartsýni náð lengra en flest okkar. Getur fleira og gerir það betur.

Þrátt fyrir fötlun sína er Jessica með einkaflugmannspróf,  leikur á píanó, vélritar 25 orð á mínútu, er meistari í íþróttum, dansar, er góður fyrirlesari...

Eiginlega á ég ekki orð.   Hvers vegna er ég að kvarta þó á móti blási stundum? Hvernig væri heimurinn ef allir væru eins jákvæðir og þessi fallega stúlka?

Myndirnar segja meira en mörg þúsund orð, orð sem ég á ekki til...

 

 

 


 

 

jessica1.jpg

 

 

 

 

 Meira hér.

 

 

 

 

 


Flugvélar framtíðarinnar verða margar hverjar rafknúnar - Myndbönd...

 

 

Þessi draumur er orðinn að veruleika. Þessi fallega tveggja manna flugvél á myndinni er rafknúin og því næstum hljóðlaus. Þetta er alvöru flugvél í fullri stærð, en ekki leikfang. Flugvélin er kínversk og kallast Yuneec e430. (Yuneec er borið fram eins og unique). Sjá myndir og myndbönd hér.

Áður hefur verið fjallað um rafknúnar mannbærar flugvélar í pistlinum:  Rafknúnar alvöru flugvélar - Myndir og myndbönd

 

 Sjón er sögu ríkari:

 

 

 




 

Þessi stóra B-50 sprengjuflugvél sem er í eigu Tony Nijhuis er rafknúin. Ekki þó mannbær eins og Yuneec:

 

 

 

 


Litlir vinir á lækjarbakka...

 

 



Þessum vinum mætti ég einn fagran haustdag á liðnu ári. Sumri var tekið að halla og vetur í nánd. Einhver undarleg ró hvíldi yfir öllu eftir amstur sumarsins sem hafði verið einstaklega milt og fallegt. Eiginlega kom það á óvart hve spakir þessi fallegu stálpuðu heiðlóuungar voru á árbakkanum. Engu var líkara en þeir könnuðust við mig og vissu að ekkert væri að óttast, þó risinn ég væri svo sem þúsundfalt þyngri en þeir. Vissulega voru það ekki bara tveir vinir sem þarna hittust á árbakkanum fallega í lok sumars, heldur þrír vinir sem nutu þess að vera til.

 

 

 

Uppfært 31. jan og 10. feb:  Sjá athugaemdir. Líklega eru þetta stálpaðir lóuungar en ekki auðnutittlingar eins og fyrst stóð í textanum en hefur nú verið leiðrétt :-)


 Fuglavefurinn

Myndin er tekin 4. október 2009 við Almenningsá í Bláskógabyggð með CANON EOS 400D / Canon 17-85 mm IS. Ramminn er gerður með Photoshop Elements 8. Myndina má stækka með því að tvísmella á hana.


Skógræktarritið og vorið sem er næstum á næsta leiti...

 

 

Hekla 2005
 
>>> Hekla Dögg  í  Haukadal  <<<

 

Þó sólin sé rétt aðeins farin að hækka á lofti, og daginn aðeins örlítið farið að lengja, þá finnur maður strax mun. Sólin er greinilega heldur hærra á himninum en á vetrarsólstöðum, og dagurinn greinilega heldur lengri. Það fer ekki á milli mála.

Það er ekki laust við að maður sé farinn að hlakka örlítið til vorsins. Kannski er það til marks um þessa tilhlökkun að hinn sami maður sé farinn að laumast til að kíkja í Skógræktarritið æ oftar. Síðasta eintakið liggur á náttborðinu, en það merkilega við Skógræktarritið er að það er hægt að lesa það aftur og aftur. Stinga hendinni blindandi inn í staflann og út kemur einhver gersemi, - gamall vinur. Fátt er eins notalegt og sofna eftir að hafa gluggað í þetta einstalega vandaða blað og svífa síðan inn í fagurgræna draumaheima.   Jafnvel um hávetur.

Það sem einkennt hefur Skógræktarritið er hin mikla alúð sem lögð er við gerð þess. Í ritinu koma saman fræðimenn og áhugamenn, þannig að það verður enstaklega áhugavert. Það er greinilegt að allir eru að skrifa um málefni sem þeim þykir vænt um. Kannski er það ástæðan fyrir því hve þetta óvenjulega rit er vinalegt.

 

Hvað ætli margir Íslendingar séu í skógræktarfélögum? Þeir eru líklega æði margir, því á vefnum www.skog.is er listi með vefkrækjum yfir 60 skógræktarfélög í öllum landshlutum.

 

... Og svo er vorið einhvers staðar handan horns. Innan skamms kviknar ástin í hjörtum litlu fuglanna og þeir gleðja okkur með söng sínum meðan þeir gera sér hreiður og koma upp ungunum sínum. Þá er vorið vissulega komið, en auðvitað er veturinn ekki búinn. Milda veðrið undanfarið platar okkur svolítið og Þorrinn er eftir. Hann getur verið illskeyttur - En sólin hækkar á lofti og með hverjum deginum sem líður verður bjartara, - einnig í hugum okkar...

 

(Myndin efst á síðunni er tekin í Haukadalsskógi í ágúst 2005. Myndina má auðvitað stækka með því að tvísmella á hana.  Það kunna víst flestir :-)

 

 

Nokkrar vefsíður skógræktarfélaga.
Smellið á nafn félags til að opna síðu:

www.skog.is
Skógræktarfélag Íslands

 

Skógræktarfélag Eyfirðinga
Skógræktarfélag Kópavogs
Skógræktarfélag Mosfellsbæjar
Skógræktarfélag Neskaupstaðar
Skógræktarfélag Reykjavíkur
Skógræktarfélag Selfoss (Sk. Árnesinga)
Skógræktarfélag Stykkishólms

 box-facebook

 


Sólstöður í dag og dagurinn hænufeti lengri á morgun - Undarleg mynd...

 

Vetrarsólstöður 2009

 


Í dag eru vetrarsólstöður eða vetrarsólhvörf og sólin lægst á lofti. Nóttin er löng og dagurinn er stuttur. Á morgun hefst nýtt ár. Nýtt ár í þeim skilningi að daginn fer að lengja aftur, ekki mikið í fyrstu, en á morgun verður hann þó einu hænufeti lengri en í dag. Fyrsta skref hænunnar er aðeins 9 sekúndur, síðan 27 sekúndur, svo 44 sekúndur, og sífellt verða skrefn lengri. Áður en við vitum af fer vorilmur að finnast í lofti, fuglar að syngja, ástin blómstrar og vorið er komið!

Í dag kemst sólin ekki hærra en 2,7 gráður yfir sjóndeildarhring á höfuðborgarsvæðinu. Enn lægra norðan heiða. Bloggarinn horfði til sólar um helgina og smellti af mynd. Eitthvað er hún undarleg. Gæti næstum verið frá öðrum heimi,,, 

 

Stækka má myndina með því að tvísmella á hana.

 



Næsta síða »

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 762157

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband