Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Stríð og friður - góð grein Péturs Stefánssonar verkfræðings um ástandið á Íslandi samborið við eftirstríðsárin í Þýskalandi...

 

 

"Aldrei á mínum 70 árum hef ég upplifað jafn neikvæða þjóðfélagsumræðu, reiði og persónulega óvild eins og mér finnst ég skynja í þjóðfélaginu í dag"...  

Þannig skrifar Pétur Stefánsson í grein í Morgunblaðinu í dag 13. apríl.  Ég er svo innilega sammála Pétri að ég tek mér besssaleyfi og birti grein Péturs hér í heild sinni.

 

 

petur-stefansson.jpg"Mér hefur síðustu misserin orðið tíðhugsað til námsáranna í München eftir stríðið. Ég kom til Þýskalands þegar 13 ár voru liðin frá stríðslokum. Uppbyggingin var þá hafin af krafti en menn voru enn að brjóta niður ónýt hús og hreinsa rústir. Ég bjó um tíma hjá gamalli ekkju sem misst hafði bæði eiginmanninn og einkasoninn í stríðinu. Hún kvartaði ekki. Það kvartaði enginn. Umferð var lítil og vöruúrval var lítið, þó svalt held ég enginn. Þjóðin var sakbitin. Enginn minntist á stríðið. Það ríkti þögul þrá eftir nýrri framtíð.

 

»Þýska efnahagsundrið«

Það var sérstaklega eftirminnilegt að fylgjast með stjórnmálunum. Tveir menn voru áberandi, Konrad Adenauer kanslari og Ludwig Erhard efnahagsmálaráðherra. Adenauer talaði kjark í þjóðina og sinnti einkum hinu víðara samhengi í Evrópu. Ludwig Erhard, sem síðar hefur verið nefndur faðir þýska efnahagsundursins, hafði forystu um endurreisn efnahags landsins. En hver var þessi Ludwig Erhard og hver var hans galdur. Erhard var sonur smákaupmanns í Fürth. Hann gekk í verslunarháskóla en nam síðan hagfræði og félagsfræði og lauk doktorsprófi. Árið 1948 varð hann forstöðumaður efnahagsráðs hernámsstjórnarinnar og afnam sem slíkur verðlagshöft og opinbera framleiðslustýringu samhliða upptöku þýska marksins. Ári síðar varð Erhard þingmaður CDU (nú flokkur Angelu Merkel) og efnahagsmálaráðherra til 14 ára. Erhard var þó aldrei flokksbundinn og að mínu mati aldrei fulltrúi neins nema þýsku þjóðarinnar. Ludwig Erhard lagði þunga áherslu á frjálst efnahagslíf (»die freie Wirtschaft«) en hann lagði jafnframt áherslu á félagslegt réttlæti (»die soziale Gerechtigkeit«). Þetta var mikil jafnvægislist. Hann vissi að hann mátti ekki lama dráttarklára atvinnulífsins en hann stóð líka dyggan vörð um grundvallarmannréttindi. Allir áttu rétt á að lifa mannsæmandi lífi og njóta hæfileika sinna. »Wohlstand für alle«, velferð fyrir alla, var kjörorð hans og raunar heiti á bók þeirri er hann síðar gaf út. Það sérstaka afbrigði kapítalisma sem þróaðist í Þýskalandi á þessum árum (og ríkir í meginatriðum enn) hefur verið nefnt »Ordokapitalismus«, væntanlega, án þess ég viti það, skylt þýska orðinu Ordnung (regla).

Þegar ég hélt heim frá námi sex árum síðar voru rústirnar að mestu horfnar, vöruúrval orðið fjölbreytt í verslunum og menningarlíf tekið að blómstra á ný. Á einum aldarfjórðungi byggðu Þjóðverjar öflugasta iðnríki álfunnar undir öruggri leiðsögn Ludwigs Erhards og eftirmanna hans.

 

Ólíkt höfumst við að

Við Íslendingar lentum líka í stríði, stríði við eigin breyskleika og hömluleysi og eigum líka um sárt að binda. Við settum kíkinn fyrir blinda augað og biðum lægri hlut.

Þegar ég hins vegar ber ástandið hér heima saman við ástandið í Þýskalandi eftir stríðið verð ég hugsi. Aldrei á mínum 70 árum hef ég upplifað jafn neikvæða þjóðfélagsumræðu, reiði og persónulega óvild eins og mér finnst ég skynja í þjóðfélaginu í dag. Af hverju erum við svona reið? Tókum við ekki flest einhvern þátt í dansinum, mishratt að vísu. Vissulega urðum við fyrir áfalli og vissulega töpuðum við nokkrum fjármunum. Þannig tapaði undirritaður t.d. 30-40% af lífeyrisréttindunum sínum til æviloka og eignir hans lækkuðu í verði eins og eignir annarra. Hann ætti því samkvæmt formúlunni að vera bæði sár og reiður. Því fer þó fjarri. Ég er bæði glaður og þakklátur. Glaður yfir því að húsin okkar eru heil, brýrnar okkar heilar, framleiðslutækin heil og ríkisfjármálin alveg þokkaleg í alþjóðlegum samanburði. Ég er líka þakklátur þeim sem brugðust við þegar á reið, þakklátur þeim sem settu neyðarlögin, Þakklátur Indefence-hópnum fyrir öfluga málsvörn og þakklátur forseta Íslands sem með fyrra málskoti sínu líklega bjargaði börnum okkar frá áralöngum skuldaklafa. Þótt margar fjölskyldur eigi vafalaust enn í erfiðleikum vegna atvinnumissis og greiðsluörðugleika tel ég að á heildina litið sé lítil innistæða fyrir allri þeirri neikvæðu umræðu sem á okkur dynur í netheimum og fjölmiðlum. Þvert á móti tel ég að við eigum með okkar vel menntuðu æsku og ríku auðlindir til lands og sjávar alla möguleika á að endurheimta hér »velferð fyrir alla« ef við einungis berum gæfu til að þroska okkar stjórnmálalíf, móta okkur skýra framtíðarsýn og láta af öfgum til hægri og vinstri. Traust þjóðarinnar til Alþingis Íslendinga virðist því miður vera í sögulegu lágmarki. Ég hef áður lýst efasemdum mínum um ágæti hinna opnu prófkjara og hvernig þau hafa að mínu mati fælt vel menntað og reynslumikið fólk frá þátttöku í stjórnmálum. Það er, ef rétt er, mikið áhyggjuefni. Stjórnmálaflokkarnir verða nú þegar nálgast kosningar að átta sig á því að traust fylgir ekki stjórnmálaflokkum, traust fylgir einstaklingum. Það á ekki bara við um núverandi stjórnarflokka, það á líka við um þann flokk sem ég hef jafnan stutt í gegnum árin".

 

Ég held það sé varla tilviljun, en á svipuðum nótum og Pétur hef ég sjálfur ítrekað hugsað undanfarið.   Síðustu vikur er ég var staddur erlendis með fjölskyldu minni varð mér einmitt tíðrætt um þessa "neikvæðu þjóðfélagsumræðu, reiði og persónulegu óvild",  svo ekki sé minnst á tilhneigingu margra ráðamanna til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tefja fyrir uppbyggingu hér á landi eftir hrunið.  Ég tapaði eins og Pétur 30-40% af lífeyrisréttindum mínum, en er á sama hátt og Pétur þakklátur þeim sem gerðu það sem í þeirra valdi stóð til að forða okkur og börnum okkar frá algjöri hruni. Við Pétur erum nánast jafnaldrar, munar kannski hálfum áratug, og kollegar, og kannski er það þess vegna að við höfum svipaða sýn á málin. Ég hef þó grun um að flestallir góðir og sannir Íslendingar geti tekið heils hugar undir þessi ágætu skrif Péturs.

 

 



 


Munum eftir smáfuglunum...

 

 

fuglinn.jpg

Nú má ekki gleyma smáfuglunum.

Snjór er yfir öllu og margir þessara litlu vina okkar svangir...

 

Þessi þakkaði fyrir sig með því að stilla sér upp

og syngja sinn uppáhalds söng, eins og honum einum er lagið...

 

 

 

 

Vísindavefurinn:
Hvað á maður að gefa smáfuglum, skógarþröstum og öðrum, að éta úti í garði á veturna?


 

 

 

 Myndin var tekin um síðustu helgi með Panasonic Lumix FZ100.

Tvísmella til að stækka.

 

 


Til hamingju með daginn Axel Sölvason...!!!

 

 

axel_solvason_og_asgeir_long.jpg

 

 

Hinn síungi Axel Sölvason er orðinn áttræður. Hver skyldi hafa trúað því, maður sem lítur út fyrir að vera að minnsta kosti tíu árum yngri, og í viðkynningu áratugum yngri.  Einn af þessum heppnu sem tíminn bítur ekki á.

Stundum hef ég velt því fyrir mér hvers vegna tíminn virðist hafa gleymt Axel. 
Líklega er skýringin einföld.  Sjálfsagt á Axel þátt í þessu... Hann er einn sá mesti dellukarl sem ég þekki, einn af þeim lífskúnstnerum sem kunna að varðveita barnshjartað það vel að tíminn gleymir því að menn séu til. Gleymir því að menn eigi að eldast...

Axel er, og hefur allaf verið, mikill dellukall.  Hann hefur stundað ýmiss konar flug, bæði utanfrá og innanfrá, flogið listflug og hringspólað í teygjustökki. Hann hefur verið í fjarskiptasambandi um víða veröld sem radíóamatör, ferðast um hálendið á sínum fjallabíl, stundað skytterí, og guð má vita hvað...   Hann er enn að og verður örugglega um ófyrirsjáanlega framtíð, ef ég þekki hann rétt.  Svona líf er líklega lykillinn að eilífri æsku.

Ég óska Axel mínum gamla og síunga kunningja innilega til hamingju með áfangann. Wizard

 

Á myndinni er Axel Sölvason aðeins vinstra megin við miðju. Í ræðupúltinu er frægasti flugkappi Íslendinga, Þorsteinn E. Jónsson sem frægur varð fyrir afrek sín hjá Royal Air Force í síðari heimsstyrjöndinni og í Biafra. Milli Axels og Þorsteins er Ásgeir Long. Lengst til vinstri er Ingvar Þórðarsson, en milli hans og Axels eru Böðvar Guðmundsson og Ólafur Sverrisson.  Myndina tók pistlahöfundur einhvern tíman á síðustu öld.

 

 

--...    ... --

          -..    .

                    -    ..-.    ...--    ---   --


 

 


Einstaklega skýr stefnumál frambjóðanda til stjórnlagaþings - Hver er maðurinn...?

 

fjallkonan.jpg

 

Stefnumálin eins frambjóðanda til Stjórnlagaþingsins þykja mér mjög skynsamleg og skýr, og tek ég mér því bessaleyfi afrita þau af vefsíðu hans og birta hér fyrir neðan.

 

Hver þessi frambjóðandi er kemur fram neðst á síðunni, en stefnumál hans hefjast á þessum orðum:

 

"Ef menn vilja móta sér stefnu til að hafa áhrif á eitthvað sem betur má fara, ber fyrst að athuga hverjir þeir þættir eru sem þarf að bæta.      Síðan hvernig má gera það..."

 



Stefnumál

"Ef menn vilja móta sér stefnu til að hafa áhrif á eitthvað sem betur má fara, ber fyrst að athuga hverjir þeir þættir eru sem þarf að bæta. Síðan hvernig má gera það. Þá er rétt að byrja a því að íhuga hvað það er sem stór hluti almennings a Íslandi er óánægður með í íslensku stjórnarfari. Það þarf ekki vísindalega skoðanakönnun til að skynja óánægju almennings með íslenska stjórnsýslu. Þættirnir sem fólk er óánægt með virðast einkum eftirfarandi:

  • Flokksræði og endalaus flokkstryggð þingmanna.
  • Kosningar byggðar á flokkslistum, ekki hægt að kjósa úr fleiri en einum flokki 
  • Eilíft karp á þingi, oft frumvörp og deilur um minniháttar mál meðan stórmál bíða.
  • Stöðuveitingar á pólitískum frekar en faglegum grundvelli.
  • Ónægur aðskilnaður framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds.
  • Ójafnt vægi atkvæða eftir landshlutum.
  • Margir vilja færri þingmenn.

Jafn atkvæðisréttur- tvær leiðir
Þá er að athuga hvernig breyta þarf stjórnsýslunni, og þá stjórnarskránni, til að lagfæra þetta. Rétt er að byrja a byrjuninni, kosningu þingmanna, fulltrúa okkar.

Landið eitt kjördæmi
Það má jafna atkvæðisrétt manna einfaldlega með því að gera landið að einu kjördæmi. Einn hængur er á þessu samt og það er að hætt er við að flestir frambjóðendur kæmu úr þéttbýlustu svæðunum og þau strjálbýlu yrðu afskipt í pólitískum áhrifum vegna fámennis.

Einmenningskjördæmi byggð á fólksfjölda
Svo er hægt að hafa einmenningskjördæmi, en þau þurfa að byggjast á fólksfjölda fremur en flatarmáli til að fyrirbyggja misvægi. Þannig mætti til dæmis hafa 33 kjördæmi fyrir alls 33 þingmenn sem myndi þýða um það bil 10.000 manns a bak við hvern kjörinn þingmann. Á fjögurra ára fresti mætti svo endurskipuleggja kjördæmin til að vega upp a móti fólksflutningum sem kynnu að raska fjölda kjósenda að baki hverjum kjörnum þingmanni.

Í báðum þessum dæmum, það er landið sem eitt kjördæmi eða fleiri einmenningskjördæmi með jafnan fólksfjölda að baki, gætu allir sem hefðu einhver lágmarksstuðning boðið sig fram hvort sem væri á vegum stjórnmálaflokks eður ei. Í báðum tilfellum myndi þetta væntanlega stuðla að betri blöndun sjónarmiða a þingi heldur en gerist þegar kosið er um flokkslista i kjördæmunum sem flokksforystur hafa raðað upp.

Kjósa fólk úr mismunandi flokkum
Í öllum flokkum má finna góða menn og ennfremur miður góða. Því gæti önnur endurbót falist i því að kjósendur mættu kjósa milli flokka, ef eitthvað flokkslistafyrirkomulag verður áfram. Þannig gæti kjósandi valið einn góðan mann af einum lista og annan góðan af öðrum og sniðgengið skussana sem kynnu að vera á listunum.

Reyndar mætti nota  báðar aðferðirnar, kjördæmakosningu til þings en landið eitt kjördæmi er kosinn væri forseti eða forsætisráðherra  (ef sú leið væri valin).

Ráðherraræði
Íslenska stjórnarskráin er arfleifð þeirrar dönsku sem var mótuð um miðja nítjándu öld. Síðan þá hafa Danir breytt henni oftar í tímans rás, en íslendingar hafa gert. Danska stjórnarskráin færði stóran hluta af valdi konungs til ráðherranna. Segja má að vald ráðherra a Íslandi sé að sumu leyti leifar af gömlu konungsvaldi. Frumvörp eru samin í ráðuneytum, ráðherra tryggir sér stuðning allra dyggra flokksfélaga sem sitja á þingi, semur við samstarfsflokk á sama grundvelli og greiðir svo sjálfur atkvæði með frumvarpinu a Alþingi. Stjórnarskráin eins og hún er í dag veitir líka ráðherra víðtæk völd til að ráða í störf og embætti á vegum hins opinbera þar sem pólitík þess sem ráðinn er ræður meiru heldur en fagmennska hans.

Þrískipting valds
Ef völd ráðherra og þar með framkvæmdavaldsins leiða til vandamála sem meðal annars felast i ofurvaldi framkvæmdavaldsins gagnvart Alþingi og sé hægt að minnka þessi vandamál með breytingu á stjórnarskránni, þá er augljósast að utanþingsstjórn sé æskilegur kostur. Þingmenn gætu ekki verið  ráðherrar né ráðherrar á þingi. Þingið yrði þó að samþykkja ráðherrana, hvern og einn, og þeir yrðu þá valdir af kjörnum forseta eða forsætisráðherra. (Kjörinn forsætisráðherra þyrfti að sjálfsögðu ekki samþykki!). Um dómsvaldið er það að segja að til að draga úr líkum á að minnsta kosti hæstaréttardómarar séu ekki skipaðir af of pólitískum grundvelli, þá sé rétt að skipun þeirra hljóti einnig staðfestingu þingsins.

Neitunarvald forseta
Verði forsetaembættið áfram hluti af íslenskri stjórnskipan, en líklega munu flestir landsmenn vera því hlynntir, þá væri það eftir sem áður æskilegt að forseti gæti neitað að samþykkja lög, telji hann meinbugi þar á. Hinsvegar eru einum manni falin mikil völd til að tefja löggjöf ef að hann gerir það af pólitískum ástæðum eða honum hreinlega skjátlast.  Því væri rétt að hafa varnagla á með því að neiti forseti að staðfesta lög fari þau aftur í þingumræðu og þurfi þá aukinn meirihluta (2/3 hluta atkvæða) til að öðlast gildi. Náist það ekki, geti forseti vísað þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mannréttindi
Mannréttindi hafa almennt verið vel virt á Íslandi, sem betur fer. Það má þó ekki taka þeim sem gefnum og ber að verja þau vel í stjórnarskrá. Þau hafa verið stjórnarskrárbundin á seinni tímum. Auk þess hafa Íslendingar samþykkt Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og fleiri alþjóðlegra samtaka. Í stjórnarskrá eru ýmsir hópar tilteknir sem hafa í gegnum tíðina verið beittir misrétti, og tekið fram að þeir séu jafn réttháir öðrum gagnvart lögum. Töluvert hefur verið rætt um að stjórnarskrárbinda eigi rétt fólks óháð kynhneigð. Ég er sammála því. Minna hefur borið á umræðu um að stjórnarskrárbinda rétt fólks óháð fötlun. Á því þarf líka að gera bót. Mikilvægi mannréttinda ætti að skipa þeim í fyrirrúm í nýrri stjórnarskrá.

Öryggismál
Flestar þjóðir álíta höfuðverkefni sinna stjórnvalda að tryggja sem best öryggi landsmanna fyrir utanaðkomandi hernaðarvá. Íslendingar hafa verið blessunarlega lausir við að þurfa að hugsa um slíkt, fyrst vegna einangrunar landsins i margar aldir og fjarlægðar frá átakasvæðum allt fram til annarrar heimstyrjaldar, síðar vegna þess að Bretland og Bandaríkin sáu sér hag í að verja landið gegn óvinveittum öflum.

Ísland er i NATO og nýtur samningsbundinnar verndar þess, en sú vernd er ekki eins traust og hún var á meðan ekki var hægt að hertaka landið án þess að lenda i vopnuðum átökum við bandaríkjaher. Ný stjórnarskrá þarf að leggja einhverjar skyldur a stjórnvöld um að hyggja að öryggismálum. Sagan sýnir að það er engin vörn í að vera með yfirlýst ævarandi hlutleysi og enga tryggingu um hervernd. Þetta sönnuðu bæði Jörundur hundadagakonungur á sínum tíma og breska herstjórnin í maí 1940. Langflestir íslendingar vörpuðu öndinni léttar er þeir sáu að það var breskur en ekki þýskur her sem gekk hér á land. Herlaust hlutlaust land utan herverndar öflugri ríkja eða bandalaga getur hvaða herveldi sem er tekið hvenær sem er. Ef til hernaðarátaka kemur engu að síður sem geta valdið skaða á Íslandi er nauðsynlegt að hér sé sá viðbunaður til almannavarna sem við höfum efni á og viljum kosta til. Sá viðbunaður kemur einnig að miklu leyti að gagni í náttúruhamförum en þar hafa almannavarnir og hjálparsveitir staðið sig einstaklega vel. Sem betur fer hafa einungis hamfarir af völdum náttúrunnar en ekki hernaðar valdið íslendingum búsifjum undanfarna áratugi, en ekki má gleyma því að á skammri stundu geta umskipti orðið í alþjóðamálum.  Svo má heldur ekki gleyma því að ógn sem aldrei þurfti að gera ráð fyrir áður er nú ekki óhugsandi en það eru hugsanleg hryðjuverk.

Eignarhald auðlinda
Að lokum er rétt að minnast á hvort beri að stjórnarskrábinda eignarétt Íslendinga yfir auðlindum landsins. Nú er það svo að þegar vatnsorku er breytt i rafmagn fara um það bil 90% af kostnaðinum við virkjunina í vexti afborganir af stofnkostnaðinum og þá um 90% af rafmagnsverðinu i þessar greiðslur. Þegar búið er að borga upp virkjunina, venjulega a 40-60 árum hefur eigandi virkjunarinnar hagnast um það sem hún kostaði. Virkjunin endist trúlega meir en eina öld. Hugmyndin um afskriftir fjárfestinga byggðist upphaflega á því að þegar framkvæmdin eða mannvirkið sem fjarfestingin séu úr sér gengið sé upphaflega fjárfestingin fengin til baka ásamt vöxtum.

Endist framkvæmdin eða mannvirkið lengur og séu tekjurnar sem skapast óbreyttar stóreykst hagnaðurinn sem skilar sér út endingatímabilið. Endurnýjanlegar auðlindir endast um aldir ef ekki til eilífðar og mala þá eigendum sínum gull um langa framtíð. Ein skilgreining á sjálfbærri þróun er að núlifandi kynslóð skili ekki rýrari afkomu til komandi kynslóða heldur en að hún sjálf nýtur. Ef við viljum að afrakstur endurnýjanlegra auðlinda okkar skili sér til fulls til afkomenda okkar, er áríðandi að ganga þannig frá eignaraðild auðlindanna að arðurinn af nýtingu þeirra skili sér til landsmanna. Því er mikilvægt að fyrirkomulag þar að lútandi, á einn eða annan hátt sé tryggt . Því væri stjórnarskráratriði þar að lútandi mikilvægt. Sjá grein."

 

 

50514_104322192968689_2364870_n.jpgSá sem þessi orð ritar er Ágúst Valfells verkfræðingur.  

Hann er með doktorspróf í verkfræði og starfaði lengi sem prófessor í kjarnorkuverkfræði við háskóla í Bandaríkjunum. Hann hefur einnig starfað alllengi hér á landi m.a. sem forstöðumaður Almannavarna, sérfræðingur hjá Raunvísindastofnun Háskólans og kennari við HÍ. Auk þess hefur hann m.a. setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja og starfað sem ráðgefandi verkfræðingur.

 

 


Vefsíða Ágústar Valfells er www.agustvalfells.is

Facebook er hér.

Æviágrip eru hér.

 

 

>

 

 


Íslenska birkið á Englandi...

 

birki-embla-lauf_edited-1.jpg

  Myndin af birkinu er tekin 1. maí.

 

Hvernig skyldi íslenska birkið þrífast á Suður-Englandi?  Hvenær ætli það laufgist á vorin og hvenær fær það haustliti?

Í garði einum sunnarlega á Englandi eru nokkrar birkiplöntur sem plantað var í tilraunaskyni vorið 2007. Kannski ekki beinlínis í tilraunaskyni, og þó...  Kvæmið er Embla. Embla er birkistofn sem ræktaður var af fallegum móðurtrjám á höfuðborgarsvæðinu. Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig þessum plöntum reiðir af á næstu árum.

Við skoðun á plöntunum um mánaðamótin apríl/maí leyndi sér ekki að þeim líður afskaplega vel. Vöxturinn hefur verið hraður, án þess þó að að plönturnar beri þess merki. Laufblöðin voru einstaklega falleg. Þær eru alls ekki mjög renglulegar. Líta út sem heilbrigðar og fallegar plöntur, sem þó þarf að klippa til.  Gaman verður að fylgjast með þessum trjám á næstu árum.

Í vor byrjuðu plönturnar að laufgast um miðjan mars, en síðastliðið haust voru haustlitirnir því sem næst um svipað leyti og á Íslandi. Eiginlega áttu þeir sem standa að þessu fikti alveg eins von á að birkið fylgdi systkinum sínum á Íslandi vor og haust, en svo virðist ekki vera. Birkið laufgast fyrr en bræður þess og systur á Fróni. Fróðlegt verður að fylgjast betur með þessu næstu ár.

Plönturnar voru ekki háar í loftinu vorið 2007. Aðeins um 10 sentímetrar ofan jarðar. Nú, réttum tveim árum seinna,  er stærsta plantan orðin um einn metri á hæð. Hinar heldur minni, en þó í góðum vexti. Vaxa meira á þverveginn. Miklu betri vöxtur en maður á að venjast hérlendis.

Myndin efst á síðunni sýnir vel hve falleg laufblöðin voru, og myndin hér fyrir neðan er af stærstu plöntunni. Neðsta myndin er af birki á höfuðborgarsvæðinu 10. maí, eða tíu dögum eftir að hinar myndirnar voru teknar...

Embla á Englandi

Plantan er  um 100 cm á hæð. Var 10 cm vorið 2007.

 

Þessi einfalda tilraun sýnir okkur vel hve gróður á Íslandi á erfitt uppdráttar og hve vel hann bregst við hlýnandi veðurfari. Það munar um hverja gráðu, en þar sem birkiplöntunum var plantað er hitinn oft um 10 gráðum hærri en hér. Sumarið þar er sex mánuðir, en ekki rúmar sex vikur - eða þannig... Það er því engin furða að Emblunni líði vel.

 

birki-_sl-10mai2010.jpg

 Svona leit birkið út á Íslandi 10 maí.

 

Fyrir árþúsundi var landið okkar viði vaxið milli fjalls og fjöru, enda var þá álíka hlýtt og í dag. Skógarmörk voru hærra og trjágróður óx þar sem nú eru auðnir einar. Nú má sjá þess merki að birkið sé aftur farið að nema land á lítt grónum svæðum, jafnvel á ógrónum melum. Það getum við meðal annars þakkað hlýnandi loftslagi undanfarna áratugi.  Vonandi verður ekki lát þar á. Minnkað beitarálag hefur einnig haft mikið að segja. Væntanlega hafa skógarplöntunar litlu einnig kunnað að meta vel áburðinn CO2 sem gróðri hefur borist í auknum mæli með loftinu...

 

--- --- ---

 

 


 

World Meterological Organization:

 

Climatological Information London
MonthMean Temperature oCMean Total Rainfall (mm) Mean Number of Rain Days
Daily
Minimum
Daily
Maximum
Jan2.47.25314.8
Feb2.57.63610.8
Mar3.810.34813.4
Apr5.613.04712.7
May8.717.05112.5
Jun11.620.35010.5
Jul13.722.34810.1
Aug13.421.95410.9
Sep11.419.15310.5
Oct8.915.25711.6
Nov5.110.45714.0
Dec3.48.25713.2
  

 

 

Climatological Information Reykjavík
MonthMean Temperature oCMean Total Precipitation (mm) Mean Number of Precipitation Days
Daily
Minimum
Daily
Maximum
Jan-3.01.975.613.3
Feb-2.12.871.812.5
Mar-2.03.281.814.4
Apr0.45.758.312.2
May3.69.443.89.8
Jun6.711.750.010.7
Jul8.313.351.810.0
Aug7.913.061.811.7
Sep5.010.166.512.4
Oct2.26.885.614.5
Nov-1.33.472.512.5
Dec-2.82.278.713.9
  

 

Mánuðir þar sem meðal daglegi hámarkshitinn er um og yfir 10° eru merktir með öðrum lit.


Litlir vinir á lækjarbakka...

 

 



Þessum vinum mætti ég einn fagran haustdag á liðnu ári. Sumri var tekið að halla og vetur í nánd. Einhver undarleg ró hvíldi yfir öllu eftir amstur sumarsins sem hafði verið einstaklega milt og fallegt. Eiginlega kom það á óvart hve spakir þessi fallegu stálpuðu heiðlóuungar voru á árbakkanum. Engu var líkara en þeir könnuðust við mig og vissu að ekkert væri að óttast, þó risinn ég væri svo sem þúsundfalt þyngri en þeir. Vissulega voru það ekki bara tveir vinir sem þarna hittust á árbakkanum fallega í lok sumars, heldur þrír vinir sem nutu þess að vera til.

 

 

 

Uppfært 31. jan og 10. feb:  Sjá athugaemdir. Líklega eru þetta stálpaðir lóuungar en ekki auðnutittlingar eins og fyrst stóð í textanum en hefur nú verið leiðrétt :-)


 Fuglavefurinn

Myndin er tekin 4. október 2009 við Almenningsá í Bláskógabyggð með CANON EOS 400D / Canon 17-85 mm IS. Ramminn er gerður með Photoshop Elements 8. Myndina má stækka með því að tvísmella á hana.


Jólakveðja...

 

 

 

 

 

Óska öllum þeim sem kunna að opna þessa bloggsíðu gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

 


Haustbirta og kvöldrökkur. Mynd...

 

Myndin var tekin eftir sólsetur 4. október.  Haustkyrrðin var einstök.  Mjög var farið að bregða birtu þannig að ljósop myndavélarinnar stóð opið í 15 sekúndur. Þó var ekki orðið nægilega dimmt til þess að stjörnur sæjust  nema að tunglið sveif rétt fyrir ofan sjóndeildarhringnum þar sem enn mátti sjá örlitla birtu frá sólinni sem var gengin til náða. Birtan var þó svo lítil að í móanum má greina birtu frá glugga húss eins sem stendur á bakka árinnar sem liðast í átt til sjávar.

 

Stæka má mynina með því að smella tvisvar á hana.

Canon 400D. Linsa Canon 17-85 IS, stillt á 17mm.  Lýsing:  15 sek, f/8, ISO 200.  24.10.2009 - 18:38


''Í sama báti'' - Leiðarinn um Icesave í Financial Times 11. ágúst 2009

 

financial_times_893800.jpg

 

Ef til vill vilja einhverjir senda vinum og kunningjum erlendis leiðarann sem birtist í Financial Times til að kynna málstað okkar:

 --- --- ---

 
Editorial.

In the same boat.

When the Dutch and British governments clinched Iceland’s agreement to reimburse savers in Icesave, the now-defunct overseas branch of Landsbanki, they did not count on the ire of Icelandic voters. The deal, stuck in an Althingi committee, is unlikely to gain the Icelandic parliament’s approval.

All sides are playing hardball. Iceland’s government sees the deal as essential to repair Iceland’s links with the rest of the world. It worries that economic lifelines from Nordic neighbours and the International Monetary Fund will be undermined by the lack of an agreement with Holland and the UK – who refuse to budge.

The £3.3bn Reykjavik agreed to reimburse is a paltry sum for most countries, but it amounts to more than £10,000 for each citizen of the subarctic island. This economic burden – about half a year’s economic output – for compensating overseas savers is similar to the cost to the British government of tackling a UK recession less severe than Iceland’s.

Some compare the plan to the Versailles treaty’s harsh demands of Germany. A better analogy is the 1982 Latin American debt crisis, in which even Chile, poster boy of Chicago School economics, saw the state take over a mountain of private debt. A decade of stagnation followed. The same could be in store for Iceland.

Would that benefit anyone? It would alienate the Icelandic people, already angered by Gordon Brown’s use of anti-terror laws to freeze Icelandic assets. Icelanders’ support for the recent application to join the European Union is rapidly cooling. The risk is an Iceland geopolitically adrift with its strategic location and important natural resources. Russia is no doubt paying attention: it was the first to offer Iceland economic assistance.

Moreover, there is a joint interest in bringing to light any murky dealings behind the bank collapse. A less confrontational relationship could foster collaboration on investigation – and recovery of assets – which Iceland does not have the resources to carry out alone.

There is plenty of blame to go around, beyond latter-day Viking raiders who built brittle financial empires. Icelandic voters repeatedly elected a government bent on unleashing financial liberalisation while letting regulators sleep on duty. But Dutch and UK authorities could have seen that Icesave’s high yields were only as safe as Iceland’s ability to cover deposits.

With more even burden-sharing for clearing up the mess, good neighbourliness may prove to bring more than its own reward.

Published: August 11 2009 22:52 | Last updated: August 11 2009 22:52

Copyright The Financial Times Limited 2009.

 

http://www.ft.com/cms/s/0/bf7cbbae-86c0-11de-9e8e-00144feabdc0.html?nclick_check=1 

 

 


Til hamingju Jón Magnússon!

jon_magnusson_thingma_ur.jpgÉg hef alltaf haft mikið álit á Jóni Magnússyni sem stjórnmálamanni, en Jón hef ég þekkt frá fyrstu árum okkar í Menntaskólanum í Reykjavík. Það er nú einu sinni þannig með stjórnmálin að maður getur aldrei varið sammála öllum í einu og öllu, sérstaklega ef maður er sjálfum sér trúr. Einhvern veginn hafa þó skoðanir okkar átt samleið að miklu leyti í gegn um tíðina, þó ég hafi verið algjör amatör í þeim málum og aldrei verið flokksbundinn.

Ef ég má vera hreinskilinn þá held ég að það sem mest hefur háð Jóni er hve heilsteyptur og samviskusamur hann er. Hann hefur alltaf verið trúr sinni samvisku og hlýtt henni frekar en að láta berast með straumnum, sem er auðvitað þægilegra og því miður algengara. Ég held að þjóðfélaginu væri miklu betur stjórnað ef fleiri þingmenn hlýddu ávallt sinni samvisku. 

Jón er með reglulega pistla á Útvarpi Sögu í hádeginu á mánudögum sem vert er að fylgjast með. Síðastliðinn mánudag fjallaði Jón um  það hvers vegna hann sagði sig úr Frjálslynda flokknum á dögunum og er ljóst að sambúðin á því heimili var orðin Jóni  erfið.  

Jón hafði alllöngu áður sagt sig Sjálfstæðisflokknum þar sem hann hafði starfað frá 15 ára aldri þar til Davíð Oddsson var kjörinn formaður flokksins, en þá þótti honum örvænt um að frjálslynd öfl myndu fá nokkru áorkað innan flokksins meðan hinn nýi formaður og valdahópur hans stjórnaði för, og því fór sem fór, eins og fram kom í síðasta pistli Jóns á Útvarpi Sögu.  Nú má segja að Jón sé kominn heim eftir langt ferðalag, reynslunni ríkari. Ég þykist vita að honum verði vel tekið. 

Til hamingju gamli skólabróðir!  


mbl.is Jón Magnússon í Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 764863

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband