Færsluflokkur: Dægurmál

Danskan er yndislegt tungumál eins og allir vita ...

Auðvitað skilja allir Íslendingar dönsku mætavel og tala hana lýtalaust. Er það ekki? Prófaðu bara að segja upphátt "rødgrød med fløde på".  - En skyldu Danir skilja dönsku? Ekki er það nú alveg víst. Um það fjallar þetta skondna myndband.

 

 

 
 
 
 
 Nú er bara að æfa sig: Rødgrød med fløde ...
 
 

Hvernig er þetta hægt? Svartigaldur?

Sjá myndbandið.  Hvernig í ósköpunum er þetta hægt? Svar óskast.

 

 

 
 

Nauðsynlegt tæki fyrir bankastofnanir og bloggara...

Bloggarinn frétti á skotspónum að fjármálastofnun ein sé að fjárfesta í svona tækjum fyrir starfsmenn sína til að halda þeim í góðri líkamlegri þjálfun. Þetta kvað vera hugsað til að mæta hinu gríðarlega álagi á starfsmennina sem þróunin á fjármálamörkuðum hefur valdið undanfarið. Kemur í veg fyrir að þeir sofni í vinnunni eftir andvökunætur þar sem þá dreymir skuldatryggingaálag, stýrivexti og verðbólgudrauginn. Viðskiptavinir munu taka eftir að starfsmennirnir verða mun líflegri og starfssemin mun iða öll eftir að þessi nýja tækni verður tekin í notkun. 

Af samkeppnisástæðum má að sjálfsögðu ekki upplýsa meira um málið, en þetta ætti allavega að hrissssta aðeins upp í fólki. 

Er þinn vinnustaður að hugleiða fjárfestingu í svona búnaði?  

Svo væri auðvitað gráupplagt fyrir bloggara að ná sér í svona heilsuræktartæki Wink

Nánari upplýsingar um undratækið eru hér.  Kostar $290.   Ég yrði nú örugglega fljótt sjóveikur Shocking

 

 
Fyrst hélt ég þetta hlyti að vera grín, en svo virðist ekki vera Tounge
 
 
 
Það er allavega ekkert grín að sitja í svona stól Shocking

Aðferð til að losna við truflandi auglýsingar

UptownHeraldAd_small-BÁ ýmsum vefsíðum, sérstaklega fréttasíðum, er mikill fjöldi blikkandi auglýsinga til ama. Auðvitað eru auglýsingar nauðsynlegar og óþarfi að amast við þeim, en þær verða þá að vera þannig úr garði gerðar að þær trufli ekki viðkomandi. Hugsið ykkur hvernig dagblöðin væru ef önnur hver auglýsing þar væri blikkandi og á sífelldu iði. Margumrædd auglýsing á bloggsíðunni stuðar mig lítið þar sem ég get einfaldlega mjókkað gluggann þannig að auglýsingin hverfi, ef mér sýnist svo.

 Ég hef um alllangt skeið notað forritið Adblock Plus sem hægt er að tengja Firefox vafranum. Það er hægt að kenna forritinu að þekkja auglýsingarnar og fjarlægja þær, en þar sem nýjar auglýsingar birtast daglega þarf sífellt að endurþjálfa Adblock Plus, og vafasamt hvort maður nenni að standa í því.

Leiðbeiningarnar hér fyrir neðan tók ég saman um daginn fyrir fjölskyldumeðlim. Þó svo að í dæminu sé minnst á fréttasíðu Morgunblaðsins, þá er það alls ekki illa meint og hef ég fullan skilning á nauðsyn auglýsinga í nútímaþjóðfélagi. Það er þó þetta sífellda blikk sem angrar mig stundum og gerir það að verkum að ég reyni að forðast að líta á þannig auglýsingar. Trúlega er það misskilningur hjá auglýsendum að telja að blikkandi  auglýsingar séu betri. Ég held að því sé öfugt farið.

Hér eru tvær aðferðir sem hægt er að prófa: 

---

Microsoft Internet Explorer (Ekki er mælt með þessari aðferð þar sem hún truflar t.d. YouTube):

Fara í Tools og síðan  Manage- Add-ons, þar næst  Enable/Disable Add-ons þá er hægt að finna Shockwave Flash Object. Í listanum.   Merkja það með því að smella á Shockwave Flash Object og velja síðan Disable.

Nú ættu blikkandi Flash auglýsingar eins og xxxx að hverfa.

 

Þetta  virkar  Microsoft Internet Explorer en ég hef ekki enn fundið samsvarandi fyrir Firefox.

---

Firefox:

Setja inn forritið Adblock Plus sem slekkur á auglýsingunni í Firefox. Ekki bara Flash auglýsingum.

Forritið er ókeypis hér http://adblockplus.org/en/installation

Það slekkur bara á auglýsingum sem búið er að kenna forritinu að slökkva á. Það er hægt að kenna því að slökkva á öllum auglýsingum, þannig að t.d. www.mbl.is verður miklu læsilegra.

Þegar forritið er komið inn í Firefox sét rauður ikon efst til hægri: (ABP).  Þegar smellt er á hann opnast gluggi neðst með lista yfir allar síðueiningarnar. Þar á meðal eru leiðinlegu auglýsingarnar.

Auglýsingarnar má þekkja á því að inni í nafninu stendur  …/ augl /… eða að nafnið endar á .swf.   Til dæmis:

http://www.lbm.is/ augl /files/85/ad_8529_4346.swf

Hægri-smella á þennan textastreng og velja "Block this item". Gera þetta við allar auglýsingarnar og velja síðan [Apply] í glugganum sem opnast.

Auglýsingarnar ættu að hverfa. Þessu þarf að halda aðeins við ef nýjar auglýsingar birtast.

---

Reynsla mín af þessu fikti með AdblockPlus er að maður nennir varla að standa í þessu stússi að vera sífellt að endurþjálfa forritið.  Reynir bara að láta blikkið ekki pirra sig. Til lengdar er það besta aðferðin.

13.2.2008: Ýmsar gagnlegar upplýsingar hafa komið fram í athugasemdunum. Ég er nú með tvo filtera í Adblock Plus:   */augl/*   og   *visir.is/ads/*  .   Nú er allt "sjálfvirkt". Ekkert stúss við endurþjálfun.   Filterinn er hægt að setja inn með því að smella á litlu píluna hægra megin við rauða (ABP) íkonið efst til hægri í glugganum. Velja þar Preferences og síðan Add Filter.


Leshringur@ og Viltu vinna milljarð? eftir Vikas Swarup

viltuvinnamilljardFrá stofnun Leshringsins á Moggablogginu hefur undirritaður verið virkur félagi og haft bæði gagn og gaman af. Leshringurinn tekur fyrir eina bók í senn, les hana í um mánuð, kemur síðan saman á vefnum og ræðir bókina frá ýmsum sjónarhornum. Eftirfarandi er byggt á umsögn bloggarans um bókina Viltu vinna milljarð eftir Vikas Swarup sem tekin var fyrir í nóvember s.l.   Eiginlega má segja að þessar hugleiðingar fjalli bæði um þá bók og vinnubrögðin sem tíðkast í Leshringnum. Kynning á hvoru tveggja.

Það skemmtilega við Leshringinn er að maður les bækur sem manni kæmi sjálfsagt aldrei til hugar að opna. Sumar drepleiðinlegar, aðrar skemmtilegar eða áhugaverðar. Stundum reyfara eftir óþekkta höfunda og stundum bókmenntaverk eftir þekkta höfunda. Bækur sem maður gleymir strax að lestri loknum og bækur sem vekja mann til umhugsunar. Allt þar á milli. Fjölbreytnin er mikil. Þannig á það að vera.   - Svo fer það auðvitað eftir hugarfarinu þegar maður nálgast nýja bók hvernig maður metur hana.

Að lestri loknum er mikilvægt er að gefa sér smá tíma til að melta bókina áður en umsögn er sett á blað og umræður á spjallrás Leshringsins hefjast. Hugleiða innihaldið, stílinn og bakgrunn sögunnar. Punkta hjá sér það sem kemur í hugann. Færa sjónarhólinn til og skoða betur. Oft öðlast maður meiri skilning þegar maður hefur haft næði til að íhuga efnið á þann hátt.

Stundum er maður búinn að kynna sér höfundinn og umsagnir áður en bókin er lesin, en það er ekki alltaf nóg. Maður skilur bókina betur meðan hún er lesin ef maður hefur kynnt sér höfundinn áður, en höfundinn betur eftir að hafa lesið bókina. Það er sem sagt um nóg að hugsa, áður en bókin er lesin, meðan hún er lesin og eftir að hún hefur verið lesin. Það eru einmitt svona pælingar sem gera svona lestur í leshring áhugaverðan

 

VikasSwarupBókin Viltu vinna milljarð? eftir indverska höfundin Vikas Swarup lýsir á átakanlegan hátt, en jafnframt skemmtilegan, uppvaxtarárum fátæks munaðarlauss drengs á Indlandi. Líf hans er að mörgu leyti ævintýri líkast þar sem hann vinnur milljarð í spurningakeppni, en inn í söguna fléttast frásögn af lífi hans sem sjaldnast er dans á rósum.  Frásögnin er mjög lipur og nánast spennandi. Heldur manni vel við efnið. Mjög myndræn. Þýðing Helgu Þórarinsdóttur er mjög góð.

Við lestur bókarinnar lifir maður sig inn í indverskt samfélag, fyrst og fremst samfélag hinna efnaminni og lægst settu. Einhvern vegin náði bókin að heilla mig og ég fann fyrir samúð með söguhetjunni sem sýnir mikla sjálfsbjargarviðleitni. Það kom mér sífellt á óvart að Ram Mohammad Thomas  er bara barn, en sýnir samt óvenju mikinn þroska. Það leiðir hugann að götubörnunum á Indlandi og víðar um heim, börn sem ganga meira og minna sjálfala og eiga oftar en ekki hvergi heima. Börn sem verða að sýna mikla útsjónarsemi til að komast af.

728px-Taj_Mahal_in_March_2004 Sagan er svo myndræn að ég átti oft auðvelt að ímynda mér sögusviðið og var eiginlega á ferðalagi fram á aftur um Indland í samfylgd hinna fátæku.  Ég er mikið búinn að flakka um Indland á netinu eftir lestur bókarinnar og komið víða við, m.a. í þjóðargerseminni Taj Mahal, og Dharavi stærsta fátækrarhverfi Asíu. Stöðum þar sem sagan gerist meðal annars. Indverskur matur hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Fann öll afbrigði kryddsins sem kitlar bragðlaukana meðan ég las. Maður bókstaflega finnur lyktina og heyrir indverska tónlist í fjarska.

Mörg atriði í bókinni koma manni skemmtilega á óvart. Maður fer að trúa því að örlaganornir hafi spunnið lífsþráð piltsins, allt þar til það kemur fram í bókarlok að lukkupemingurinn var ekki allur þar sem hann er séður. Þetta vekur mann svo sannarlega til umhugsunar um það hvernig það er fyrst og fremst maður sjálfur sem ræður sínum örlögum. En leyndarmál peningsins kemur ekki fram fyrr en á síðustuDharavi blaðsíðunni. Maður bókstaflega missir bókina úr höndum sér þá!   Hvar voru vinkonurnar Urður, Verðandi og Skuld allan tímann? Eigi má sköpun renna, segir einhvers staðar. Er það endilega víst? Ég held ekki. Hver er sinnar gæfu smiður.

Sjálfsagt er hægt að njóta bókarinnar á fleiri en einn hátt. Hún er góð afþreying, en hún vekur mann einnig til umhugsunar örbirgð og lífsbaráttu hinna fjölmörgu munaðarlausu götubarna í heiminum.

Bókin hefur ef til vill ekki mikið bókmenntarlegt gildi. Hún er frumraun höfundarins og skrifuð er honum leiddist eitt sinn er hann var fjarri fjölskyldu sinni. Hugmyndin er góð og vel spilað úr henni. Ef til vill mætti flokka hana meðal spennusagna eða reyfara, en það gefur henni gildi að hún er óvenjuleg og gefur sérstaka sýn inn í framandi heim götubarnanna á Indlandi.   Það er einnig áhugavert að kynnast höfundi frá þessum heimshluta.  Hver veit nema Swarup eigi eftir að skrifa fleiri bækur. Frumraunin lofar góðu.

Stofnandi og ötull stjórnandi Leshringsins, Marta B Helgadóttir, á mikinn heiður skilinn fyrir framtak sitt hér á Moggablogginu. Frábær hugmynd að stofna leshring sem alfarið fer fram á vefnum. Líklega hefur það ekki verið gert áður.


Hákon Bjarnason efnilegur píanóleikari. Stjarna morgundagsins.

 

Hákon Bjarnason píanóleikariÍ gær hlustaði ég á ungan frænda minn leika einleik á píanó með Sinfóníuhljómsveitinni. Þeir sem hafa fylgst með Hákoni Bjarnasyni, sem fæddur er 1987, vita að þar er enginn meðalmaður á ferð þó aðeins sé hann tvítugur að aldri. Dúx frá MH 2005 yngstur nýstúdenta og með langflestar einingar, um það bil að ljúka háskólaprófi, sigurvegari í ýmsum einleikarakeppnum, Íslandsmeistari í Karate, o.s.frv. Það er ekki lítið sem þessi hógværi og ljúfi drengur hefur afrekað!

Hákon er nemandi Halldórs Haraldssonar í Listaháskóla Íslands. Síðastliðna haustönn var Hákon í skiptinámi við Sibeliusar-akademiuna í Helsinki. Hákon hefur unnið til verðlauna í öll þrjú skiptin sem píanókeppni Íslandsdeildar EPTA hefur verið haldin. Tvisvar sinnum hefur hann hlotið fyrstu verðlaun og einu sinni þriðju.  Í vor mun hann ljúka bakkalárprófi frá Listaháskóla Íslands og væntanlega halda utan til framhaldsnáms í haust.

 Að sjálfsögðu þarf ekki að hafa mörg orð um frammistöðu Hákonar. Hún var einfaldlega stórfengleg, eins og frammistaða hinna ungu einleikaranna sem einnig léku með Sinfóníuhljómveitinni.  Það kom skemmtilega á óvart hve glæsilegt og hæfileikaríkt unga fólkið sem lék einleik með Sinfóníuhljómsveitinni er.  Hákon, Theresa, Arngunnur og Páll eru örugglega stjörnur morgundagsins.

Það var einstaklega ánægjulegt að sjá þennan unga pilt, Hákon Bjarnason, ganga inn á sviðið í upphafi tónleikanna klæddan kjólfötum og setjast af sama öryggi og þekktustu píanóleikarar við hljóðfærið og leika af fingrum fram Píanókonsert nr.1 eftir Sergej Prókofíev, sem  bæði er flókinn og hraður.

Þar sem ég er auðvitað mjög montinn af frænda mínum er vonandi í lagi að kynna aðeins hvernig við tengjumst. Alnafni minn og afi Ágúst H. Bjarnason prófessor (1875-1952) var langafi Hákonar.  Ágúst var sonur Hákonar Bjarnasonar kaupmanns á Bíldudal (1828-1877) sem rak þar verslun og þilskipaútgerð. Föðurbróðir  minn Hákon Bjarnason skógræktarstjóri (1907-1989) var afi Hákonar píanóleikara. Við getum rakið ættir okkar til vestfirskra galdramanna og ofurmenna, en ljóst er að Hákon ungi er einn slíkur þegar píanóið er annars vegar. 

 

Af vefsíðu Sinfóníuhljómsveitarinnar:

Sigurvegarar í einleikarakeppni Sinfóníuhljómsveitarinnar og Listaháskólans flytja einleiksverk.
Tækifæri til að kynnast stjörnum morgundagsins.

Hljómsveitarstjóri: 

Kristofer Wahlander

Einleikari: 

Hákon Bjarnason

Einleikari: 

Theresa Bokany

Einleikari: 

Arngunnur Árnadóttir

Einleikari: 

Páll Palomares

 

Höfundur 

 

Verk

Sergej Prókofíev: 

Píanókonsert nr.1

H. Wieniawski: 

Fiðlukonsert nr. 2

Claude Debussy: 

Premier Rhapsody f. klarinett og hljómsveit

Jean Sibelius: 

Fiðlukonsert

 

 

Úr frétt Morgunblaðsins frá 2005:

mbl.is | 23.12.2005 | 08:18      Átján ára piltur dúx í MH: Stefnir á feril í tónlist

„Ég hef alltaf haft mestan áhuga á raungreinum eins og stærðfræði og eðlisfræði og svo auðvitað tónlist," segir Hákon Bjarnason, sem útskrifaðist dúx frá Menntaskólanum við Hamrahlíð nú á miðvikudag. Hákon, sem brautskráðist frá náttúrufræðideild, er fæddur árið 1987 og er því átján ára. Hann var yngstur nýstúdenta og með langflestar einingar, auk þess sem hann var með óaðfinnanlega skólasókn allan námstímann.

...

Auk þess að vera dúx skólans fékk Hákon verðlaun fyrir árangur í stærðfræði og var með aðaleinkunn í kringum 9,3. Hákon segir lykilatriðið í árangrinum vera það að hann lærði það sem hann hafði brennandi áhuga á. "Ég hef getað valið mér það sem mér þykir skemmtilegast í skólanum og þurfti ekki að taka mikið af aukafögum sem ég hafði ekki áhuga á vegna þess að tónlistin gildir stóran hluta af einingafjöldanum," segir Hákon, sem hefur þegar hafið nám við Listaháskólann á tónlistarbraut. "Þar er ég á hljóðfæraleikarabraut, þar sem tekur þrjú ár að taka Bachelor of Music-gráðu. Síðan hef ég velt því fyrir mér að fara til útlanda aðeins fyrr sem skiptinemi á vegum skólans. Hvort sem ég klára hérna eða úti stefni ég á meistaragráðu í hljóðfæraleik úti."

Hákon stefnir á feril í píanóleik og hefur m.a. tekið þátt í keppnum á því sviði. Þá hefur hann einnig verið virkur í félagslífinu í MH. Tók hann m.a. þátt í uppsetningu á leikritinu Martröð á jólanótt, en þar lék hann á hljómborð og útsetti nokkur lög fyrir hljómsveitina. Einnig hefur Hákon tekið þátt í lagasmíðakeppninni Óðrík Algaula, þar sem hann lék á píanó í lögum vina sinna.

Píanóið er þó ekki eini afrekastaður Hákons, en hann æfði karate fyrir nokkrum árum og tók svarta beltið í þeirri íþrótt. Þá varð hann Íslandsmeistari í sínum aldursflokki. "Það hjálpar til að vera í góðu líkamlegu formi og hefur líka mikið að gera með agann," segir Hákon, sem þó hætti fyrir tveimur árum sökum tímaskorts."

Að auki syngur Hákon með Hamrahlíðarkórnum, en hann mun einmitt syngja í Dómkirkjunni á aðfangadagskvöld.

 


Fasteignagjöld hækka óheyrilega milli ára. 14% - 20%

 

 
 

- Fasteignagjöld af miðlungsíbúð í Reykjavík hækka um 14%.

- Fasteignagjöld atvinnuhúsnæðis í Reykjavík hækka um 20%

- Fasteignagjöld af sumarhúsum og sumarhúsalóðum í uppsveitum hækka um 20%

 

- Þetta er  þrefalt meira en hækkanir á almennu verðlagi og launum. 

 

Þannig er þetta víða um land. Álagningaseðlar hafa ekki enn verið bornir út, þannig að fólk er ekki farið að átta sig á þessum ósköpum. Hvað er á seyði? Eru sveitarfélögin alveg úti að aka og gjörsamlega stikkfrí? Þessi hækkun er með öllu óskiljanleg og gjörsamlega út í hött.

 

Sjá upplýsingar á vef Fasteignamats ríkisins hér

Ég vona bara að þetta sé tómur misskilningur hjá mér.   Undecided
Er mig að dreyma, eða er þetta rétt?


Lækkun hlutabréfa í dag; er ekki betra að þrauka en selja?

 

urvalsvisitalan
 

 

Bloggarinn skilur ekki hvers vegna hlutabréf hafa snarlækkað strax við opnun í dag. Finnst það vera mjög seint um rassinn gripið að vera að selja núna í stað þess að þrauka.  Eitthvað undarlegt og óvenjulegt er í gangi.   Eitthvað sem enginn skilur.  Getur verið að skýringin sé einhver af eftirfarandi, eða sambland af mörgum?

 

1) Stórir erlendir aðilar séu að "shorta" í stórum stíl. Aðilar sem hafa fengið hlutabréf að láni séu að innleysa hagnaðinn núna. (Short selling eða shorting hefur verið þýtt sem skortsala á Íslensku).

2) Er ástæðan panik og hjarðhegðun óviturra Íslendinga?

3) Er ástæðan hin gríðarlega samtenging á íslenska fjármálamarkaðnum þar sem fyrirtækin eiga hvert í öðru?

4) Er ástæðan sú að margir hafa veðsett eignir til að fjárfesta í hlutabréfum og eru nú komnir í þrot? 

5) Eitthvað annað sem þú veist betur en ég?

 

Hvað sem öðru líður, er ekki arfavitlaust fyrir almenna eigendur hlutabréfa að vera að selja núna. Er ekki miklu viturlegra að þrauka?

 


mbl.is Mikil verðlækkun á hlutabréfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýárs-halastjarnan Tuttle

 Tuttle-jan-2008

 Þessi fallega mynd af halastjörnunni 8P/Tuttle er fengin að láni hjá www.spaceweather.com

 

Annað slagið birtast halastjörnur á himninum. Stundum koma þær óvænt, en stundum koma þær aftur og aftur, jafnvel með áratuga millibili. Alltaf ríkir þó óvissa um hve mikilfenglegar þær verða.

Nú er halastjarnan 8P/Tuttle á stjörnuhimninum. Hún er þó á mörkum þess að sjást með berum augum, en sést með handsjónauka, þ.e. ef vel viðrar. Það er þó ekkert síðra að skoða myndir sem teknar hafa verið af henni  undanfarna daga, en þær eru margar hverjar einstaklega fallegar. Á vefsíðunni  www.spaceweather.com eru einmitt fjölmargar slíkar myndir. Þar er einnig að finna upplýsingar um hvar halastjarnan er í dag.

Stjörnuþokan á myndinni er  M33 Triangulum.

 

Krækjur:

Myndasafn með myndum af Tuttle halastjörnunni á spaceweather.com

Vísindavefurinn: Hvernig verða halastjörnur til?

McNaught halastjarnan. Blogg með myndum frá janúar 2007.


Heimurinn um nótt

 


 

Þessi ofurfallega mynd er af nýju vefsíðunni The World at Night (TWAN), en þar er að finna safn ljósmynda sem teknar eru að nóttu til.  Margar þeirra einstaklega fallegar. Myndin hér fyrir ofan er fengin að láni þar, en hún prýðir einnig vefsíðuna Astronomy Picture of the Day (APOD) í dag, jóladag. (Smellið tvisvar á myndina til að sjá hana í fullri stærð).

Myndin er auðvitað af jólastjörnunni Mars, en þar til hægri er stjörnumerkið Orion. Rauða stjarnan í miðjunni er Betelgeuse, en Orion stjörnuþokan er rauðleit hægra megin á myndinni, gimsteinninn í sverðinu neðan við belti Orions, veiðimannsins mikla. Ljósmyndari er  Wally Pacholka.

 

Gleðilega hátíð.

Fáeinar næturmyndir eftir bloggarann hér 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 11
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 764872

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband