Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Laugardagur, 13. desember 2008
Nú er það svart: Loftslag heimsins hlýnar, segja Rússar og vitna til gagna frá heimsskautasvæðunum... Breytingar í Golfstraumnum?
Er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af þessari frétt 12. des?
"World Climate Growing Warmer, Say Russians, Citing Arctic Data"
Two Professors Independently Find Change in Temperature - They See a Gulf Stream Relation, but Look for Deeper Causes"
Loftslag heimsins hlýnar, segja Rússar og vitna til gagna frá heimsskautasvæðunum. Þeir tengja það breytingum í Golfstraumnum, og jafnvel breytingum í útgeislun sólar.
Svona hjóðar fyrirsögn áhugaverðar greinar 12. desember í New York Times.
Það er vissulega ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þessu því eitthvað u n d a r l e g t er á seyði !
Hvað er svona undarlegt við þetta? Er þetta ekki dauðans alvara?
Greinin er ekki úr New York Times 12. desember 2008, heldur 70 árum áður, eða 12. desember 1938.
Svo segja menn að sagan endurtaki sig ekki .
Það merkilega er að nákvæmlega þessi sama frétt hefði getað verið í blaðiu í gær!
Hvernig verða fréttirnar eftir 70 ár?
Sem sagt, þetta var árið 1938. Ekki árið 2008.
Tölvur og tækni | Breytt 14.12.2008 kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 11. desember 2008
Tunglið tunglið taktu mig ... Nú er lag þvi tunglið er næst jörðu föstudaginn 12 des!
Á morgun er nokkuð merkilegur dagur, því föstudaginn 12. desember verður tunglið okkar óvenju stórt og óvenju nálægt jörðu. Líklega hefur fullt tungl ekki verið nær jörðu síðan 8. mars 1993 og verður ekki aftur fyrr en 14. nóvember 2016. Föstudagurinn 12 des. er því dálítið merkilegur ...
Á myndinni má sjá muninn á stærð tunglsins þegar það er næst jörðu og fjærst. Munurinn er töluverður, en hefur einhver tekið eftir þessum stærðarmun? Hefur einhver tekið eftir því hve tunglið er óvenju stórt þessa dagana?
Hvers vegna er tunglið svona mis langt frá jörðu?
Það er vegna þess að braut tunglsins umhverfis jörðu er ekki hringferill heldur sporöskjulaga ferill eða ellipsa. Reyndar alls ekki eins ýkt og á myndinni hér til hliðar. Munurinn á jarðfirð og jarðnánd er um 10%.
Þegar tunglið er lengst frá jörðu er það í svokallaðri jarðfirð eða apogee, en jarðnánd eða perigee þegar það er næst jörðu, eins og sést á myndinni.
Hafið þið tekið eftir því að þegar tunglið er mjög lágt á himni virðist það vera miklu stærra en þegar það er hátt á himinhvolfinu. Hvað veldur? Er það ljósbrot eða er tunglið kannski nær jörðu? Svarið kemur á óvart, því ástæðan er bara undarleg skynvilla. Við getum prófað að mæla tunglið með tommustokk, bæði þegar það er við sjóndeildarhringinn og hátt á himninum og þá kemur hið sanna í ljós. Við látum platast. Góð útskýring á þessari skynvillu er hér á Vísindavefnum.
Kveðskapur um tunglið ...
Jón Ólafsson ritsjóri, skáld, og alþingismaður orti þetta um son sinn Ólaf sem síðar varð tannlæknir í Bandaríkjunum:
Tunglið má ekki taka hann Óla
til sín upp í himnarann,
þá fer hún mamma að gráta og góla
og gerir hann pabba sturlaðan.
Jón langafi bloggarans orti meira um tunglið. Flestir hafa sungið um mánann á Gamlársdag og á Þrettándanum:
Máninn hátt á himni skín,
hrímfölur og grár.
Líf og tími líður
og liðið er nú ár.
Bregðum blysum á loft,
bleika lýsum grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn
og hratt flýr stund.
Kyndla vora hefjum hátt,
horfið kveðjum ár.
Dátt við dansinn stígum
dunar ísinn grár.
Bregðum blysum á loft,
bleika lýsum grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn
og hratt flýr stund.
Nú er veður næsta frítt,
nóttin er svo blíð.
Blaktir blys í vindi
blaktir líf í tíð.
Bregðum blysum á loft,
bleika lýsum grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn
og hratt flýr stund.
Þess má geta að Jón var upphafsmaður Íslendingadagsins í Manitoba sem haldinn hefur verið árlega síðan 1874 er Jón var 24 ára ritstjóri Lögbergs.
Theodora Thoroddsen orti þessa skemmtilegu og l ö n g u þulu, en fyrirsögn bloggsins er auðvitað fengin þar að láni. Þulan er svo löng að hún ber mann auðveldlega hálfa leið í heimana nýja:
"Tunglið, tunglið taktu mig
og berðu mig upp til skýja".
Hugurinn ber mig hálfa leið
í heimana nýja.
Mun þar vera margt að sjá,
mörgu hefurðu sagt mér frá,
þegar þú leiðst um loftin blá
og leist til mín um rifinn skjá.
Komdu, litla lipurtá!
Langi þig að heyra,
hvað mig dreymdi, hvað ég sá
og kannski sitthvað fleira.
Ljáðu mér eyra.
Litla flónið, ljáðu mér snöggvast eyra:
Þar er siglt á silfurbát
með seglum þöndum,
rauðgull í rá og böndum,
rennir hann beint að ströndum,
rennir hann beint að björtum sólarströndum.
"Þar situr hún móðir mín"
í möttlinum græna,
hún er að spinna híalín
í hempu fyrir börnin sín.
"Og seinna, þegar sólin skín",
sendir hún þeim gullin fín,
mánasilfur og messuvín,
mörgu er úr að velja.
Hún á svo margt, sem enginn kann að telja.
"Þar sitja systur".
Sá sem verður fyrstur
að kyssa þeirra klæðafald,
og kveða um þeirra undravald,
honum gefa þær gullinn streng
á gígjuna sína.
"Ljúktu upp, Lína!"
Nú skal ég kveða ljúflingsljóð
um lokkana þína,
kveða og syngja ljóðin löng
um lokkana mjúku þína.
"Þar sitja bræður"
og brugga vél,
gakktu ekki í skóginn, þegar skyggir.
Þar situr hún María mey,
man ég, hvað hún söng:
Ég er að vinna í vorið
vetrar kvöldin löng.
Ef að þornar ullin vel
og ekki gerir stórfelld él
sendi ég þér um sumarmálin sóley í varpa.
Fögur er hún harpa.
Um messur færðu fleira,
fjólu og músareyra,
hlíðunum gef ég grænan kjól,
svo göngum við upp á Tindastól,
þá næturvökul sumarsól
"sveigir fyrir norðurpól",
en dvergar og tröll sér búa ból
í bergsins innstu leynum
og ljósálfar sér leika á hól
að lýsigulli og steinum.
Við skulum reyna að ræna frá þeim einum.
Börnunum gef ég gnótt af óskasteinum.
"Þá spretta laukar,
þá gala gaukar".
Þá syngja svanir í tjörnum,
segðu það börnum,
Krækjur:
Hvað er tunglið langt frá jörðu?
Fróðleikur um Tunglið á Stjörnufræðivefnum
December 12, 2008: Closest Full Moon in 23 Years
The Moon at Perigee and Apogee
Lunar Perigee and Apogee Calculator
NASA: Biggest Full Moon of the Year
Wikipedia: Mikill fróðleikur um Tunglið.
Svona leit tunglið út yfir Esjunni í ljósaskiptunum að kvöldi 13. desember 2008:
Tölvur og tækni | Breytt 14.12.2008 kl. 07:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Föstudagur, 5. desember 2008
Veiðimaðurinn Óríon eða Aurvandill er meðal fegurstu stjörnumerkjanna...
Eitt glæsilegasta stjörnumerki himinsins fer að verða meira og meira áberandi á kvöldhimninum á næstu vikum. Nú þegar er farið að glitta í kollinn á veiðimanninum á miðju kvöldi, en innan skamms mun Aurvandill gnæfa yfir landi og þjóð á suðurhimninum. (Smella þrisvar á mynd til að stækka).
Í grísku goðafræðinni var Óríon hinn mikli veiðimaður og sonur Póseidons og Eruyale drottningar. Að öllum líkindum er þetta stjörnumerkið sem fornmenn nefndu Aurvandil og kemur fyrir í Snorra-Eddu. Aurvandill er sá sem ferðast um með björtu skini.
Tvær stjörnur í Óríon bera af. Það eru Rígel og Betelgás. Skoðum myndina sem er efst á síðunni.
Neðst til hægri í Óríon er bláleita stjarnan Rígel, bjartasta stjarna merkisins. Hún er 60 þúsund sinnum bjartari en sólin okkar, hún er mun heitari en sólin og í 900 ljósára fjarlægð. Er Rigel Aurvandilstá sem getið er um í Snorra-Eddu?
Næst bjartasta stjarna merkisins er hin gyllta Betelgás, efst í horninu vinstra megin. Betelgás er svokallaður rauður risi og er í um 600 ljósára fjarlægð og er þvermál hennar um 1000 sinnum meira en þvermál sólar. Samt er hún ekki nema um 20 sinnum efnismeiri. Væri Betalgás stödd þar sem sólin er, þá næði hún út fyrir braut Mars. Jörðin væri sem sagt langt inni í iðrum hennar. Það er undarlegt til þess að hugsa að þéttleiki hennar er aðeins einn milljónasti þéttleika vatns. Ef við reyndum að snerta á henni yrðum við einskins vör!
Í miðju merkisins eru þrjár stjörnur sem mynda belti Óríons. Þetta eru stjörnurnar Alnítak, Alnílam og Mintaka og hafa þær verið nefndar fjósakonurnar þrjár.
Í sverði Óríons er Sverðþokan fræga sem á máli stjörnufræðinga kallast M42. Þessar stjörnur í sverðinu hafa verið nefndar fjósakarlarnir. Demanturinn í sverðinu leynir sér ekki á myndinni efst á síðunni. Þetta er auðvitað sverðþokan fræga og ægifagra. Sjá myndina hér til hliðar.
Vel má greina þessa stjörnuþoku með venjulegum handsjónauka, og með góðum vilja jafnvel með berum augum þegar skyggni er gott og ljósmengun lítil.
Það sakar ekki að smella þrisvar á myndirnar af sverðþokunni og Óríon til að stækka þær.
Úr skáldskaparmálum Snorra-Eddu:
Þórr fór heim til Þrúðvanga, ok stóð heinin í hôfði honum. Þá kom til vôlva sá, er Gróa hét, kona Aurvandils ins frækna. Hon gól galdra sína yfir Þór, til þess er heinin losnaði. En er Þórr fann þat ok þótti þá ván, at braut myndi ná heininni, þá vildi hann launa Gró lækninguna ok gera hana fegna, sagði henni þau tíðendi, at hann hafði vaðit norðan yfir Élivága ok hafði borit í meis á baki sér Aurvandil norðan úr Jôtunheimum, ok þat til jartegna, at ein rá hans hafði staðit úr meisinum, ok var sú frerin, svá at Þórr braut af ok kastaði upp á himin ok gerði af stjôrnu þá, er heitir Aurvandilstá. Þórr sagði, at eigi myndi langt til, at Aurvandill myndi heim koma, en Gróa varð svá fegin, at hon mundi enga galdra, ok varð heinin eigi lausari ok stendr enn í hôfði Þór, ok er þar boðit til varnanar at kasta hein of gólf þvert, því at þá hrærist heinin í hôfði Þór. Eftir þessi sôgu hefir ort Þjóðólfr hvinverski í Haustlông.
Næstu vikur skulum við fylgjast með veiðimanninum Óríon eða Aurvandli vini okkar á kvöldin. Fylgjast með hvernig hann ferðast yfir stjörnuhimininn. Þessa dagana er hann byrjaður að sjást á suðausturhimninum síðla kvölds, en eftir nokkrar vikur fer hann að sjást hærra og hærra á lofti á suðurhimninum. Þá verður hann tignarlegur í meira lagi. Hann verður í hásuðri um níuleytið á kvöldin um miðjan febrúar.
Það er einhvernvegin þannig að við njótum stjörnuhiminsins miklu betur ef við þekkjum hann aðeins.
Aurvandill?
Krækjur:
Hvað getið þið sagt mér um stjörnumerkið Óríon? Sævar Helgi Bragason á Vísindavefnum.
Viking Age Star and Constellation Names
Lifandi kort: Stjörnuhimininn yfir Íslandi þessa stundina
Kortið uppfærist sjálfvirkt í hvert sinn sem þessi síða er opnuð
Kortið hér fyrir neðan er fengið að láni hjá Stjörnufræðivefnum, www.stjornuskodun.is
Kortið er einnig hægt að finna hjá www.astroviewer.com
Austur er til vinstri og norður upp. Óríon fer að sjást á suð-austur hluta kortsins (neðarlega vinstra megin) á miðju kvöldi nú í byrjun desember. Síðan færist hann á suðurhimininn ... Muna eftir að smella á "Refresh" eða takkann F5 til að fá ferska útgáfu af kortinu. Dagsetning og tími sést efst til hægri.
"We are all in the gutter, but some of us are looking at the stars" - Oscar Wilde
Tölvur og tækni | Breytt 6.12.2008 kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Föstudagur, 21. nóvember 2008
VERKÍS verkfræðistofa með samfellda reynslu frá 1932 og um 350 starfsmenn...
Verkfræðistofurnar VST-Rafteikning, Fjarhitun, RT-Rafagnatækni og Fjölhönnun sameinast formlega í dag 21. nóvember.
Nafn verkfræðistofunnar er VERKÍS.
Allar stofurnar eru rótgrónar og eiga að baki farsælan feril á verkfræðimarkaðnum. VST-Rafteikning varð til vorið 2008 við sameiningu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen sem var stofnuð árið 1932 og Rafteikningar sem stofnuð var árið 1965. RT-Rafagnatækni hefur starfað frá árinu 1961, Fjarhitun frá árinu 1962 og Fjölhönnun frá árinu 1970.
Með samruna þessara fyrirtækja, sem samtals hafa starfað í 250 ár, verður til leiðandi og öflug verkfræðistofa með um 350 starfsmenn.
VERKÍS mun veita alhliða ráðgjöf á flestum sviðum verkfræði. Samruninn mun styrkja innviði, gera vinnustaðinn eftirsóknarverðari, auka faglega hæfni og breidd, styrkja fagþekkingu og efla sókn á erlenda markaði. Samskipti við viðskiptavini verða áfram persónuleg og þjónusta verður styrkt með fjölbreyttari lausnum og víðtækari ráðgjöf sem unnin er samkvæmt vottuðu gæðakerfi.
- 1932: VST - Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen
- 1961: RT - Rafagnatækni
- 1962: Fjarhitun
- 1965: Rafteikning
- 1970: Fjölhönnun
Samanlagður aldur verkfræðistofanna sem sameinast er 250 ár.
Fjöldi starfsmanna er 350.
>>> Það eru vitmenn hjá Verkís <<<
Til hamingju með daginn Verkís
Tölvur og tækni | Breytt 26.11.2008 kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Miðvikudagur, 19. nóvember 2008
Einn maður fær lánað andvirði 8 Kárahnjúkavirkjana !!!
Ég veit ekki hvort mig sé að dreyma eða hvort Ísland hafi breyst í Undraland, svo margt er öfugsnúið. Getur það vikilega verið að einn maður hafi fengið lánaða 1000 milljarða króna frá íslensku bönkunum?
Hve há upphæð er 1000 milljarðar, eða 1.000.000.000.000 krónur? Öðru nafni 1000 gigakrónur eða ein terakróna, ef einhver skilur það betur þannig.
Ekki er fjarri lagi að Kárahnjúkavirkjun með öllu hafi kostað 130 milljarða króna. Maðurinn hefur því bara sí svona fengið lánað andvirði næstum 8 Kárahnúkavirkjana, með 57 ferkílómetra uppistöðulóni og 72 km af jarðgöngum. Átta virkjanir með samtals 600 km af jarðgöngum, 500 ferkílómetra af uppistöðulónum, 8 risastíflum, .....!
Reykjanesvirkjun kostaði um 15 milljarða. Virkjunin er með stærstu jargufuvirkjunum á Íslandi. Maðurinn hefur fengið lánað andvirði 70 slíkra virkjana með borholum, háspennulínum og öllu tilheyrandi.
Fyrir 1000 milljarða er hægt að reisa raforkuver sem er 7000 megawött. Raforkuver á íslandi framleiða samtals um 2500 megawött. Maðurinn hefur því fengið lánað hátt í þrefalt andvirði allra virkjana á Íslandi.
Þetta getur einfaldlega ekki verið. Mig er örugglega að dreyma. Hver ætti þessi huldumaður annars að vera, og hvernig gæti hann hafa komist yfir allt þetta fé án þess að fara í greiðslumat eins og við hin. Þetta hlýtur að vera algjört ofurmenni. Er það maðurinn með pípuhattinn sem situr til borðs með Lísu á myndinni?
Segjum svo að mig sé ekki að dreyma. Hvað gerði maðurinn við alla þessa peninga? Hvar eru þeir niðurkomnir?
Nú veit maður ekkert um hvaða lánskjör hafa verið í boði. Segjum að lánið sé til 30 ára, sé verðtryggt og beri 5% vexti. Árleg afborgun ásamt vöxtum ætti þá að vera því sem næst 30 milljarðar plús 50 milljarðar, eða um 80 milljarðar.
Nú er best að fá sér sterkt kaffi og reyna að vakna. Þetta hlýtur að hafa verið undarlegur draumur. Þetta er svo ofvaxið mínum skilningi. Jafnvel Lísa í Undralandi hefði orðið hissa.
"Af hverju hefur það ekki verið upplýst að einn aðili skuldaði eitt þúsund milljarða í íslenska bankakerfinu og þá er eingöngu verið að tala um viðskiptabankana þrjá, ekki sparisjóðina, lífeyrissjóðina eða ýmsa aðra aðila, sem viðkomandi skuldaði né erlendar skuldir sama aðila.... Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst? Hvaða heljartök hafði viðkomandi á bönkunum og öllu kerfinu" Svo mælti Davíð í gær.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Sunnudagur, 16. nóvember 2008
Ótæmandi orkulind: Raunveruleg vetnisorka úr samrunaofnum innan 30 ára?
(Uppfært 13. ágúst 2022)
Hugsið ykkur, að vatn í einu baðkari ásamt lithíum úr einni hleðsluraflöðu í fartölvunni nægi sem orkulind heillar fjölskyldu í hálfa öld. - Bull? Ekki aldeilis.
Þetta er vonandi ekki mjög fjarlægur draumur. Markmiðið er að virkja ótæmandi orkulind innan fárra áratuga. Þetta er sama orka og sólin notar sem eldsneyti.
Um er að ræða alvöru vetnisorku. Það er óskylt vetnisrafölum sem hafa m.a verið notaðir til að knýja bíla. Þar er vetnið orkumiðll en ekki orkulind. Gjörólíkt.
Í bókinni Kjarnorka á komandi tímum, sem kom út á Íslandi árið 1947 og fjallað var um í þessum pistli nýlega, stendur á bls. 185:
"Fyrir meira en tuttugu árum þykjast vísindamenn hafa komist að, að einhver hagkvæmasta uppspretta kjarnorkunnar mundi verða sú, að breyta vetni í helíum; og það er almennt álit stjarnfræðinga nú, að einhver slík frumefnabreyting sé uppsprettan að ljósorku og hitamagni sólar vorrar og annarra sólstjarna."
Bókin kom út fyrir um 75 árum (uppfært 2022) og vitnað er til þekkingar manna tuttugu árum fyrr. Hver er staðan í dag?
Nú er hafin smíði á tilraunaofni hjá ITER (International Thermonuclear Experimental Reactor). Takmarkið er að árið 2018 takist að framleiða 500 megawött í að minnsta kosti 1000 sekúndur.
Gangi allt samkvæmt áætlun er ætlunin að smíða fyrsta samrunaofninn sem framleitt getur nothæfa orku árið 2040. Orku sem nýta má til að framleiða rafmagn. Það er til mikils að vinna. Vonandi gengur allt samkvæmt áætlun.
Hingað til hefur kjarnorka tæpast talist til vistvænnar orku. Vandamál við geymslu og förgun geislavirks úrgangs eru óleyst. Margir hafa illan bifur á kjarnorkuverum af þessum sökum. Allt annað gildir um samrunaofna. Þeir nota ekki geislavirkt eldsneyti og geislavirknin sem myndast er smávægileg og verður einungis í málmhlífum ofnsins. Auðvitað er engin losuna á koltvísýringi heldur. Aðal úrgangsefnið er helíum, sama efni og börn nota í gasblöðrur.
Almennt má segja að nokkur bjartsýni ríki nú og vísindamenn telja töluverðar líkur á að þessi draumur manna verði að veruleika innan 30 ára.
Hvernig er hægt að vinna orku úr vatni?
Mjög góður og aðgengilegur fróðleikur á Íslensku, "Samrunaofnar-TOKAMAK", er hér. Þetta var lokaverkefni Karenar Óskar Magnúsdóttur og Líneyjar Höllu Kristinsdóttur í eðlisfræði við Menntaskólann við Hamrahlíð haustið 2002. Nú er Karen orðin rafmagnsverkfræðingur og Líney eðlisfræðingur.
Myndin sem er úr umfjöllun Karenar Óskar og Líeyjar Höllu sýnir orkuver sem fær varmann frá samrunaofni. Samrunaofninn framleiðir varmann, sem notaður er til að framleiða gufu, sem leidd er að gufuhverfli eins og í jarðvarmavirkjunum.
Tölvur og tækni | Breytt 13.12.2022 kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Hvað varð um peningana sem komu inn hjá Icesave? Einhvers staðar hljóta þeir að vera...
Ég er ekki enn búinn að átta mig á því hvað varð um peningana sem komu inn hjá Icesave. Gufuðu þeir bara rétt sí svona upp, eða voru þeir lánaðir aftur út?
Hafi þeir verið lánaðir, þá hljóta lántakendur að þurfa að greiða lán sín til baka, nema þá að þeir hafi allir með tölu farið á hausinn, sem mér finnst mjög ólíklegt. Megnið ætti því að koma til baka með vöxtum eftir einhvern tíma. Þannig væri hægt að greiða innistæðueigendum Icesave án vandamála, þó það taki einhvern tíma.
Einhvers staðar hlýtur þetta fé að vera niðurkomið, er það ekki? Varla allt glatað? Hvernig mætti það vera? Þetta finnst mér vera grundvallarspurning sem verður að fá svar við strax.
Hefur þessi spurning ekki vaknað hjá fleirum en mér? Fjármálaeftirlitið sem hefur umsjón með gömlu bönkunum hlýtur að vita svarið. Peningar gufa bara ekki sí svona upp.
Mér finnst þetta fé hljóti að vera bundið einhvers staðar í útlánum gömlu bankanna og ætti því að skila sér til baka með tíð og tíma.
Líklega eru þetta fjármagn meira og minna allt í kerfinu. Það hefur verið lánað ýmsum aðilum og er sumt til langs tíma. Það ætti þó að seytla inn. Þetta eru eignir. Því er spurning hvort ekki sé á einhvern hátt hægt að nota þetta fé til að greiða innistæðueigendum hjá Icesave skuldir Landsbankans gamla? Vandamálið er ef til vill að nú er verið að selja eignir á brunaútsölu þannig að lítið situr eftir. - En, er það virkilega nauðsynlegt? Er ekki hægt að standa öðruvísi að verki?
Eru menn ekki að flýta sér allt allt of mikið?
Ef þessir eignir eru raunverulega til, og peningar koma til með að innheimtast á næstu árum, er þá ekki hægt að stilla upp einhverju aðgerðarplani í samráði við breta og Hollendinga þannig að hluti þess sem kemur inn renni jafnóðum, beint eða óbeint, til Icesave innustæðueigenda? Væri ekki hægt að ná sáttum á einhverjum svona forsendum, þannig að það verði ekki of íþyngjandi fyrir okkur?
---
Peningavélin:
Ég hef heyrt að bankarnir láni út nífalda upphæðina sem kemur inn. Lengi vel skildi ég þetta ekki. Komi milljón í kassann um Icesave þá láni þeir út 9 milljónir. Einhvers konar sjónhverfingar. En ef svo er, þá ætti gamli bankinn að eiga gríðarlega fjármuni útistandandi. Jafnvel þó stór hluti lántakenda hafi farið á hausinn, þá ætti að vera nóg eftir...
Hvernig virka svona sjónhverfingar? Sjá umfjöllun um Fractional-reserve Banking á Wikipedia hér. Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig 100 dollara innlögn getur orðið að 1000 dollurum eftir nokkrar hringferðir í bankakerfinu. ("Hringferðir í kerfinu", hljómar það ekki kunnuglega?). Blái ferillinn (10% lausafjárskylda) sýnir þetta. Er þetta hluti af skýringunni?
Árið 2003 setti Seðlabankinn viðskiptabönkunum aðeins 2% bindiskyldu. Margföldunarstuðullinn er þá ekki 10, heldur 50. Einn milljarður verður að 50 milljörðum, eða þannig ... Kerfið verður væntanlega óstöðugt við þessa mögnun og hrynur að lokum. Öll kerfi sem eiga að finna sjálf sitt jafnvægi (reglunarkerfi eða feedabck control system) verða sveiflukennd og hrynja að lokum ef mögnunin fer yfir ákveðin mörk. Peninagvélin er ekki undanþegin. Svo einfalt er það.
"The expansion of $100 through fractional-reserve banking with varying reserve requirements. Each curve approaches a limit. This limit is the value that the money multiplier calculates".
Ítarefni:
Sjá Vísindvefinn: Hvernig eykst magn peninga í umferð í heiminum?
Þar stendur m.a: "...Nú setur Seðlabankinn seðla að andvirði 100 milljónir króna í umferð,....... Þannig heldur ferlið áfram og í hverjum hring eykst peningamagn um 90% af því, sem það jókst um í næsta hring á undan. Hægt er að sýna fram á að á endanum hefur peningamagn aukist um einn milljarð. Heildaraukningin fæst með því að deila upp í upprunalegu peningamagnsaukninguna, 100 milljónir, með bindiskylduhlutfallinu, 10% eða 0,1, samanber: 100.000.000/0,1 = 1.000.000.000"
---
Í athugasemdunum (#8) bendir GuSi á að vel geti verið um að ræða klassíska Ponzi-svikamyllu. Sjá Wikipedia hér. Það er spurning hvort við eigum eftir að komst á listann sem er á síðunni "Notable Ponzi schemes".
Splunkunýtt dæmi af vefsíðunni: "In Slovakia, the so called non-banking institutions collected appx. 25 bil. SKK ($1 billion) from 300-350 thousand people. There were around 30 of these companies, such as BMG Invest and Horizont Slovakia, Drukos, AGW, 1. dôchodková, Sporoinvest and SaS. Mr. Fruni, the owner and director of both BMG and Horizont will sit 115 years in prison, according to the Court's judgement from April 2008".
You Ain't Seen Nothing Yet
Tölvur og tækni | Breytt 13.11.2008 kl. 07:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Sunnudagur, 9. nóvember 2008
Hvernig styðja má við frumkvöðla og sprotafyrirtæki...
Þar sem bloggarinn er alinn upp í litlu frumkvöðla- eða sprotafyrirtæki vill hann leggja fáein orð í belg í umræðuna um hvað gera má til að reisa við íslenska hagkerfið og skýra frá eigin reynslu.
Nokkrir bloggarar eins og t.d. Kjartan Pétur Sigurðsson hafa safnað fjölmörgum hugmyndum sem vinna má úr. Þannig hugmyndir eru mjög verðmætar á þeim erfiðu tímum sem eru framundan.
Reynsla fyrrverandi sprotafyrirtækis: Fyrirtækið Rafagnatækni, sem nú heitir RT ehf, var stofnað árið 1961. Ef til vill fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi. Það hóf starfssemi sína á að þróa búnað fyrir jarðeðlisfræðirannsóknir, svo sem segulmæla fyrir berg, geislamæla, jarðviðnámsmæla o.fl. Þróaður var búnaður til að mæla ísskrið í ám, fjargæslu og fjarstýribúnaður til nota á hálendinu, vatnshæðarmælar fyrir ár og vötn, laxateljarar, hitaritar fyrir fiskiðnaðinn, ferskleikamælar fyrir fisk, stöðuleikavakt fyrir skip, o.m.fl. Mest af framleiðslunni var fyrir innanlandsmarkað, en allnokkuð var flutt út. Smám saman breyttust áherslurnar. Meiri áhersla var lögð á hefðbundna verkfræðiþjónustu hin síðari ár, en fyrritækið hefur m.a. hannað og forritað mestallt stjórnkerfi virkjanana í Svartsengi og á Reykjanesi...
Sjá má sögu fyrirtækisins í hnotskurn hér, en þetta er gömul grein sem bloggarinn skrifaði fyrir allmörgum árum í tilefni fertugsafmælis fyrirtækisins og varðveitt er á vefsíðu RT-Rafagnatækni www.rt.is.
Helstu erfiðleikarnir sem við var að etja voru þessir:
1) Kostnaður við markaðssetningu. Markaðssetning er mjög tímafrek og dýr. Ofviða litlum fyrirtækjum. Þessi þáttur er oft verulega vanmetinn. Líklega er þetta það sem mikilvægast er að bæta.
2) Lítill innanlandsmarkaður. Það er mjög gott að hafa sæmilega stóran markað í næsta nágrenni meðan verið er að þróa vöruna. Þróun tekur tíma og þá er mjög gott að vera í nánum tengslum við viðskiptavinina.
3) Fjarlægð frá hinum stóra heimi þar sem hugsanlegir kaupendur eru í þúsundavís, en ekki bara í tugavís eins og hér. Markaðssetning getur því verið erfið og dýr.
4) Fjármagnið var ekki á lausu á árum áður. Yfirleitt varð að kosta þróun með því að reyna að tryggja sölu fyrirfram, eða nota eigið fé.
Hvað væri til úrbóta?
Aðeins neðar á síðunni er minnst á nokkra aðila sem veita frumkvöðlum og nýsköpunarfyrritækjum stuðning þannig að töluvert hefur þegar verið gert í þessum málum á Íslandi.
1) Við gætum örugglega lært mikið af þjóðum eins og Finnum sem lentu í kreppunni miklu um 1992 og náðu sér furðufljótt á strik aftur. Þess vegna gæti verið mjög ráðlegt að fá hingað til lands til skrafs og ráðagerða einhvern sem gjörþekkir málið og getur skýrt okkur frá því hvað tókst vel, og einnig og ekki síður, hvað tókst miður vel. Hugsa og skipuleggja áður en hafist er handa.
2) Koma þarf upp öflugri stofnun sem aðstoðar fyrirtæki við markaðssetningu. Það er til lítils að framleiða vöru ef hún selst ekki. Markaðssetning er flókin og kostnaðarsöm og oft vanmetin. Nota þarf góða blöndu af fagfólki sem bæði kann markaðssetningu og einnig fólki þem þekkir vel vöruna sem verið er að markaðssetja og getur rætt á traustvekjandi hátt við mögulega viðskiptavini.
3) Koma upp tæknigörðum sem aðstoða við vöruþróun. Þeir mega gjarnan vera í góðum tengslum við háskóla.
4) Opinber og hálfopinber fyrirtæki og stofnanir þurfa að vera tilbúnar að gefa innlendum fyrirtækjum tækifæri til að koma með lausnir. Ekki kaupa allt frá útlöndum. Gefa mönnum tækifæri til að þróa og síðan endurbæta. Hugarfari innlendra aðila þarf að breyta; fyrsta val á að vera íslenskt!
5) Aðstoð við fjármögnun þarf að vera til staðar. Þörf er á "þolinmóðu" fjármagni því arður skilar sér seint. Stundum alls ekki.
6) Mikilvægt er að taka vel á móti öllum hugmyndum og vinna úr þeim. Notagildið blasir ekki alltaf við við fyrstu sýn.
7) Vefurinn er allra góðra gjalda verður, en ekki má treysta of mikið á hann þar sem vefsíður í dag skipta jafnvel hundruðum milljóna. Vefsíður þurfa fyrst og fremst að hafa upplýsingagildi, vera aðgengilegar og skýrar.
8) Auðvitað kostar svona aðstoð mikið fé. Þetta fé þarf að miklu leyti að koma frá hinu opinbera og þar mega menn ekki vera nískir. Verið er að byggja upp nýja Ísland.
9) Muna að þeir fiska sem róa. Ekki aðrir. Ekki gefast upp þó á móti blási um tíma.
En..., ýmislegt er þegar fyrir hendi, meira en margir vita af:
- Nýsköpunarmiðstöð Íslands er með vefsíðuna www.nmi.is.
- Impra er miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og lítil fyrirtæki. Impra er deild innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hefur skrifstofur í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði og Vestmannaeyjum. Hjá Impru er á einum stað hægt að leita aðstoðar um allt sem við kemur viðskiptahugmyndum og almennum rekstri fyrirtækja. Hægt er að leita til sérfræðinga á ýmsum sviðum um leiðsögn og upplýsingar varðandi mismunandi þætti hugmynda og reksturs. Jafnframt eru gefin út leiðbeiningarit og fylgst náið með því sem er að gerast hérlendis og erlendis fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. (Af vefsíðu Impru). Sjá hér.
- Innovit er sjálfstætt starfandi nýsköpunar- og frumkvöðlasetur fyrir kraftmikið og metnaðarfullt fólk með góðar viðskiptahugmyndir. Megináhersla er lögð á að styðja við háskólamenntaða frumkvöðla og sprotafyrirtæki sem verða til innan íslenskra háskóla. Í því skyni hefur Innovit gert samstarfs- og þjónustusamninga við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst sem tryggir nemendum skólanna aðgang að þjónustu Innovit endurgjaldslaust, allt frá því að nám hefst og þar til fimm árum eftir útskrift. (Af vefsíðu Innovit). Innovit er með vefsíðuna www.innovit.is
- Sprotafyrirtæki innan Samtaka iðanaðains. Sjá www.si.is Hjá Samtökum iðnaðarins eru nokkrir starfsgreinahópar. Einn þeirra nefnist Sprotafyrirtæki. Hægt er að tengjast vefsíðu Sprotafyrirtækjahópsins hér.
- Klak - Nýsköðunarmiðstöð atvinnulífsins er með vefsíðuna www.klak.is
- Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er með vefsíðuna www.nsa.is.
- Frumkvöðlasetur Austurlands er með þessa vefsíðu.
- Frumkvöðlasetur Norðurlands er með þessa vefsíðu.
- Frumkvöðlasetur Vesturlands er með þessa vefsíðu.
Fleiri ... ?
Undanfarið hefur oft verið minnst á "finnsku leiðina". Á Íslandi erum við miklu betur undirbúin en Finnar voru á sínum tíma. Við eigum mörg stuðningsfyrirtæki og stofnanir, en það þarf að veita þeim meiri styrk og kraft án tafar. Þannig gætum við lyft Grettistaki á skömmum tíma.
Hálfrar aldar gamalt sprotafyrirtæki:
Hugsanlega vill einhver skoða sögu gamla frumkvöðla- eða sprotaftrirtækisins RT-Rafagnatækni sem er hér. Þar kemur fram hvað menn hafa verið að bralla á Íslandi í hartnær hálfa öld, þ.e. á sviði rafeindatækninnar. Þar kemur einnig fram hvernig svona fyrirtæki getur þróast með tímanum.
Litla myndin: "Fyrsta verkefnið (1961) var framleiðsla á mjög vönduðum geislamælum (Anticoincidence Counter), líklega þeim nákvæmustu sem völ var á í heiminum, en þeir gerðu greinarmun á geislum frá sýninu og truflandi geimgeislum..." Meira úr sögu fyrirtækisins hér.
Bloggarinn biðst forláts á hve textinn er tæknilegur sums staðar og þess ekki alltaf gætt að nota góða íslensku. Hann ber þess merki að vera að mestu afrit af erindi sem haldið var á 40 ára afmæli fyrirtækisins með myndasýningu.
Sagan sýnir hvað hægt var að gera fyrir hartnær hálfri öld. Nú er allt miklu auðveldara og því eru tækifærin mörg. Stuðningur við sprotafyrirtæki er töluverður, eins og fram kemur hér að ofan.
Framtíðin er björt ef við vinnum úr málum okkar af skynsemi. Munum bara að sígandi lukka er best og að bjartsýni er bráðnauðsynleg
Sýnum nú hug, djörfung og dug....
--- --- ---
Marel hefur einbeitt sér að hátæknibúnaði fyrir matvælaiðnaðinn. Saga Marels.
Verum bjartsýn!
Tölvur og tækni | Breytt 10.11.2008 kl. 05:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 4. nóvember 2008
Hefur verð á áli náð botninum?
Er ástæða til smá bjartsýni?
Á ferlinum hér fyrir neðan virðist sem álverð hafi náð botninum. Það var lægst síðari hluta október, en hefur farið aðeins hækkandi síðan.
Efri ferillinn sýnir þróun álverðs síðustu 6 mánuði en neðri ferillinn siðustu 10 ár. Báðir ferlarnir eru beintengdir við www.infomine.com og uppfærast daglega.
Verð á hráefni eins og áli gefur hugmynd um stöðu efnahagsmála í heiminum. Er það versta afstaðið? Sjálfsagt á verðið eftir að sveiflast nokkuð á næstunni, en vonandi er þetta jákvæð vísbending.
Hér er þróunin síðustu 6 mánuði þannig að auðvelt er að fylgjast með þróun síðustu daga.
(Athugið að verð á lóðrétta ásnum er í dollurum x 1000 / tonn).
Þróun álverðs síðastliðin 10 ár. Takið eftir verðinu um það bil sem ákveðið var að ráðast í álver í Hvalfirði og á Austurlandi. Ætli það hafi ekki verið um 2002-2003. Þá var verð á áli töluvert lægra en í dag.
Þrátt fyrir dýfuna undanfarið getur álverðið ekki talist mjög lágt.
Heimild: www.infomine.com Efri ferilin má sjá hér.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 07:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 30. október 2008
Nú er mjög mikilvægt fyrir þjóðarbúið að álversframkvæmdum í Helguvík verði ekki slegið á frest.
Nú skiptir miklu máli fyrir þjóðarbúið að staðið verði nokkurn vegin við áætlanir um framkvæmdir í Helguvík meðan það versta er að ganga yfir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Verði framkvæmdum slegið á frest um óákveðinn tíma munu afleiðingarnar verða mjög slæmar. Ráðamenn þjóðarinnar ættu því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða framkvæmdaaðila við að halda fyrri áætlun.
Fyrirsjáanlegt er gríðarlegt atvinnuleysi meðal iðnaðarmanna, verkamanna og tæknimanna, og næstum öruggt að stór hluti þeirra mun leita sér starfa erlendis. Óvíst er að þeir sem fundið hafa atvinnuöryggi erlendis snúi aftur. Við vitum einnig að menning og listir verða illa fyrir barðinu á samdrætti. Styrkir til menningarmála eru með því fyrsta sem fyrirtæki og einstaklingar spara. Þjóðin koðnar niður. Heilbrigðis- og menntakerfið er í hættu nú þegar þúsundir munu líklega missa vinnuna innan fárra vikna og mánaða.
Það er deginum ljósara að framkvæmdir, sem þegar eru hafnar vegna álvers í Helguvík og tilheyrandi orkuver, hefðu gríðarlega jákvæð áhrif á efnahag þjóðarinnar. Þetta er þó það lítill áfangi og óverulegur í samanburði við Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði að engin hætta er á ofþenslu. Þetta er ekki meiri framkvæmd en svo að óþarfi er að flytja inn erlenda verkamenn. Íslendingar færu létt með að sjá um framkvæmdir sjálfir.
Þessar framkvæmdir, álver og orkuver, gætu veitt vel yfir 1000 manns vinnu meðan á þeim stendur. Hönnuðum, iðnaðarmönnum og verkamönnum. Síðan skapast verðmæt störf til lengri tíma eftir að framkvæmdum lýkur. Margfeldisáhrifin eru veruleg.
Íslenskir tæknimenn eru fullfærir um að sjá um alla hönnun. Þeir hafa áður komið að slíkum verkum og staðið sig vel. Þeir fara létt með að hanna mannvirki, vélbúnað, rafkerfi og forrita öll stjórnkerfi. Hafa gert allt áður. Íslenskir iðnaðarmenn eru frábærir verkmenn, svo og almennir verkamenn. Líklega betri en þeir erlendu sem starfað hafa hér í uppsveiflunni.
Auðvitað hefur álverð snarlækkað á undanförnum vikum. Lækkað um því sem næst 35%. Það er þó enn hærra en fyrir nokkrum árum þegar menn voru að hefjast handa við að reisa álver í Hvalfirði og á Austurlandi. (Sjá myndina hér fyrir neðan). Á móti kemur að aðföng sem þarf til að reisa virkjanir og álver hafa einnig snarlækkað. Til dæmis hefur stál lækkað um 70% og kopar um 50%. Íslenskt vinnuafl hefur aldrei verið ódýrara og vinnufúsar hendur aldrei eins margar. Nú er því lag að reisa ódýr og hagkvæm mannvirki. Ólíklegt er að álverð haldi áfram að síga um ókomna mánuði og ár þrátt fyrir snögga dýfu. Öll él birtir upp um síðir. Töluverður viðsnúningur gæti hafa átt sér stað eftir 2-3 ár þegar framkvæmdum lyki.
Nokkur viðsnúningur í efnahagskerfi þjóðanna gæti hafist innan fárra vikna eða mánaða. Það er því mjög óráðalegt að fresta framkvæmdum strax en viturlegra að fylgjast vel með hvernig málin þróast og nota vel tímann á meðan til að leita úrræða.
Auðvitað eru hugmyndir manna um álver mismunandi. Þau eru dýr og skapa ekki mörg störf til lengri tíma litið miðað við tilkostnað. Sumir vilja helst ekki vita af þeim, en nú er svo gríðarlega mikið í húfi að við verðum að sameina krafta okkar og gera allt sem í valdi okkar stendur til að tryggja að þessar framkvæmdir tefjist ekki. Núna má líkja álveri í Helguvík við blóðgjöf á gjörgæsludeild. Síðan tekur við endurhæfing og bati. Fái sjúklingurinn ekki rétta meðhöndlun í byrjun verður batinn hægur. Án blóðgjafarinnar er óvíst að sjúklingurinn héldi lífi. Endurhæfingin felst í því að byggja upp þjóðfélagið á nýjan leik með öðrum áherslum. Það tekur þó tíma því nauðsynlegt er að vanda til verka. Tækifærin eru mörg eins og t.d. Kjartan Pétur bendir á hér. Frumkvöðla þarf til, en þeir mega ekki hrökklast úr landi á næstu vikum og mánuðum. Í því liggur hættan.
Nú þegar verða ráðamenn þjóðarinnar að kalla saman nefnd vísra manna til að ráðgast við þá sem hyggjast standa að framkvæmd álvera og orkuvera. Leita þarf ráða til að hægt sé að fjármagna reksturinn eftir að bankarnir sem búið var að semja við um fjármögnun komust í þrot. Ríkisstjórnin þarf að beita áhrifum sínum til að liðka fyrir um lánveitingar.
Oft var þörf, en nú er virkilega nauðsyn. Engan tíma má missa.
Þróun álverðs síðastliðin 10 ár. Takið eftir verðinu um það bil sem ákveðið var að ráðast í álver í Hvalfirði og á Austurlandi. Ætli það hafi ekki verið um 2002-2003. Heimild www.infomine.com
Þrátt fyrir dýfuna undanfarið getur álverðið ekki talist mjög lágt.
Hér er þróunin síðustu 6 mánuði þannig að auðvelt er að fylgjast með þróun síðustu daga.
Báðir ferlarnir uppfærast sjálfvirkt daglega. Sjá hér.
Tölvur og tækni | Breytt 3.11.2008 kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Um bloggið
Ginnungagap
Ýmislegt
Loftslag
Teljari
Álverð
Sólin í dag:
(Smella á mynd)
.
Olíuverðið í dag:
Nýjustu færslur
- Kínverskur loftbelgur yfir Ameríku, og Amerískur belgur yfir ...
- Vísindavefurinn: Getum við seinkað klukkunni á Íslandi og fen...
- Sjálfstæðisflokkurinn með tæplega 19% meira fylgi en Samfylki...
- Bjarni Sigurðsson harmonikkusnillingur frá Geysi. Fáein orð...
- Hvers vegna valdi Apple ekki Ísland fyrir gagnaver...?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 74
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Tenglar
Ýmsar vefsíður
- Efnisyfirlit pistla
- Lofthiti - Sjávarstaða - Hafís - Sólvirkni... Beintengdir ferlar
- Club du Soleil Greinar um samaspil sólar og veðurfars
- Stjörnufræðivefurinn
- Astronomy Picture of the Day
- Climate4you
- Watts Up With That?
- World Climate Report
- CO2 Science
- The Reference Frame
- Climate-Audit
- ICECAP
- The Air Went
- Science Sceptical Blog
- Roy Spencer
- Friends of Sience
- Prometheus
- Öldur aldanna. Sjaldan er ein báran stök - einnig í veðurfari? (2003) Vefsíða ÁHB
- Gróðurhúsaáhrif eða eðlilegar sveiflur í virkni sólar? (Grein í Lesbók Mbl. 20. júní 1998) Höfundur Ágúst H. Bjarnason
- Er jörðin að hitna?-Ekki er allt sem sýnist (1998) Vefsíða ÁHB
Uppskriftir
Ýmsar mataruppskriftir
Myndaalbúm
Bloggvinir
- majab
- ragu
- amadeus
- andres08
- apalsson
- asabjorg
- askja
- astromix
- baldher
- biggibraga
- bjarkib
- bjarnijonsson
- bjarnimax
- bjorn-geir
- blindur
- bofs
- brandarar
- daliaa
- darwin
- duddi9
- ea
- egillsv
- einari
- einarstrand
- elinora
- elvira
- emilhannes
- esv
- eyjapeyji
- fhg
- finder
- finnur
- fjarki
- flinston
- frisk
- gattin
- geiragustsson
- gillimann
- gretaro
- gthg
- gudmbjo
- gudni-is
- gummibraga
- gun
- gutti
- haddi9001
- halldorjonsson
- halldors
- hlini
- hof
- hordurhalldorsson
- hreinsamviska
- hronnsig
- hugdettan
- icekeiko
- ingibjorgelsa
- jakobbjornsson
- jakobk
- johannesthor
- johnnyboy99
- jonaa
- jonasgunnar
- jonmagnusson
- jonpallv
- jonthorolafsson
- juliusvalsson
- karljg
- katrinsnaeholm
- kikka
- kje
- klarak
- kolbrunb
- krissiblo
- ksh
- kt
- lehamzdr
- liljabolla
- lillagud
- lindalea
- lucas
- maeglika
- maggij
- maggiraggi
- marinomm
- martasmarta
- marzibil
- mberg
- midborg
- minos
- morgunbladid
- mosi
- mullis
- naflaskodun
- nimbus
- nosejob
- omarbjarki
- ormurormur
- palmig
- perlaoghvolparnir
- peturmikli
- photo
- possi
- prakkarinn
- raggibjarna
- rattati
- ravenyonaz
- redlion
- rs1600
- rynir
- saemi7
- sesseljamaria
- sigfus
- sigurgeirorri
- sjalfstaedi
- sjerasigvaldi
- skari60
- skulablogg
- sleggjudomarinn
- stebbix
- steinibriem
- steinnhaf
- stinajohanns
- stjornuskodun
- storibjor
- straitjacket
- summi
- tannibowie
- thil
- thjodarskutan
- throsturg
- toro
- tryggvigunnarhansen
- valdimarjohannesson
- valdinn
- vefritid
- vey
- vidhorf
- vig
- visindin
- vulkan
- kristjan9
- arkimedes
- kliddi
- eliasbe
Eldri færslur
- Febrúar 2023
- Janúar 2019
- Maí 2018
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- Ágúst 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði