Færsluflokkur: Lífstíll

Um áramót reikar hugurinn víða...

Flugeldar

 

Auðvitað reikar hugurinn víða um áramót. Eins konar uppgjör á sér stað. Maður verður jafnvel örlítið meyr og tilfinningarnar brjótast fram. Fyrst og fremst er þakklæti efst í huga. Árið hefur verið gæfuríkt og ánægjulegt, þannig að ekki er hægt annað en vera glaður og þakklátur.

Ég ætla að einskorða þenna pistil við kynni mín af bloggheiminum á liðnu ári, enda er sá heimur mjög sérstakur. Það tekur smá tíma að læra að fóta sig í þessum hálfgerða sýndarheimi og kynnast innviðum hans, en ekki líður á löngu áður en maður er farinn að vera heimavanur og óragur við að sýna sig og sjá aðra. Sjálfstraustið vex.

Í bloggheiminum fara fram fjörugar umræður. Stundum fullar af gáska og fjöri, en oft er fjallað um mikilvæg málefni, stundum svo vel að rödd okkar berst út fyrir virkisveggi bloggheima. Þá er virkilega tekið eftir því sem við höfum til málanna að leggja. Hvers vegna, jú hér fara fram miklar og rökfastar umræður um bókstaflega allt sem viðkemur mannlegum samskiptum, listum, stjórnmálum, tækni og trúmálum. Líklega er ekkert okkur óviðkomandi. Gagnkvæm virðing og samstaða ríkir milli íbúa bloggheima. Þar eru allir jafnir.

Auðvitað er maður ekki alltaf sammála öllum, en bloggsamskiptin krefjast þess oft að maður beiti gagnrýnni hugsun, finni rök og reyni að beita þeim. Í pistlaskrifum reynir á öguð og vönduð vinnubrögð. Þar er gott að hafa góðar fyrirmyndir og vera sífellt að reyna að bæta sig. Sífellt að læra eitthvað nýtt. Þegar upp er staðið erum við öll sigurvegarar.

Í bloggheiminum hef ég eignast vini. Jafnvel mjög góða. Gömul kynni hafa rifjast upp og stofnað hefur verið til nýrra. Hér hef ég kynnst einstöku fólki.

Það sem mér er minnisstæðast úr heimi bloggsins á liðnu ári er þátttaka mín í Leshringnum og samneyti við góða lesvini sem venja komur sína á Martas Blog Café. Þar hef ég kynnst góðu fólki og átt margar ánægjulegar stundir við lestur góðra bóka og spjall um ritverk og höfunda þeirra, sögusvið og ritstíl.

 

Ég óska öllum bloggvinum mínum og fjölskyldum þeirra árs og friðar.
Þakka fyrir ánægjuleg samskipti á liðnu ári.
 
Gleðilegt ár Wizard

 


Himnaríki og helvíti

Jón KalmanEkki er ætlunin að fjalla um trúmál í þessum pistli, heldur bókina Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Bókina sem var kjörin besta íslenska skáldsagan árið 2007 af bóksölum.

Ég las bókina um jólin og er þetta ein allra magnaðasta bók sem ég hef lesið. Ég hef sjaldan lifað mig inn í skáldsögu eins og undanfarna daga. Bókin beinlínis dró mig inn á sögusviðið og leið mér stundum eins og ég væri viðstaddur. Jafnvel um borð í sexæringnum fann ég fyrir nístandi kuldanum. Þetta er bókin þar sem ljóð í Paradísarmissi er örlagavaldurinn mikli, og einn stakkur skilur milli lífs og dauða.

Textinn er einstaklega myndrænn og meitlaður. Persónulýsingar skýrar, og síðast en ekki síst er atburðarásin þannig að bókin heldur manni svo sannarlega við lesturinn. Bók sem vissulega er hægt að mæla með.

 

Í kynningu forlagsins segir:

"Sagan gerist fyrir meira en hundrað árum, fyrir vestan, inni í firði, á milli hárra fjalla, eiginlega á botni heimsins, þar sem sjórinn verður stundum svo gæfur að það er hægt að fara niður í fjöru til að strjúka honum.

Strákurinn og Bárður róa um nótt á sexæringi út á víðáttur Djúpsins að leggja lóðir. Þar bíða þeir fram á brothættan morgun eftir fiskinum sem hefur synt óbreyttur um hafið í 120 milljón ár. Þótt peysurnar séu vel þæfðar smýgur heimskautavindur auðveldlega í gegn. Það er stutt á milli lífs og dauða, eiginlega bara ein flík, einn stakkur.

Jón Kalman Stefánsson hefur þrisvar sinnum verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlanda: Fyrst fyrir bókina Sumarið bak við brekkuna, svo Ýmislegt um risafurur og tímann og nú síðast fyrir Sumarljós og svo kemur nóttin, sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2005".

 

Bloggaranum fannst það ánægjulegt að langafi hans kom við sögu framarlega í bókinni, en á bls. 19 er minnst á kennslubók Jóns Ólafssonar í enskri tungu. Um enskukver Jóns "English made easy" og "Vesturfara túlkur" er fjallað aftarlega í grein Steinunnar Einarsdóttur "Þegar Íslendingar fóru að læra ensku". Svo er það spurning hvort "Lárus sýslumaður" sem kemur oftar en einu sinni fyrir  í sögunni sé Lárus H. Bjarnason sem var um skeið bæjarfógeti og sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, þ.e. afabróðir bloggarans, en þetta eru nú bara persónulegar hugrenningar sem vöknuðu við lestur þessarar ágætu bókar.

 

Á vefsíðu útgáfufyrirtækisins Bjarts er skýrt frá nýlegu bréfi Gallimard útgáfunnar:

Þar segir svo m.a. í lauslegri þýðingu (leturbreytingar eru mínar):

Það er mér mikil heiður, fyrirgefið  mikil, mikill  heiður, að geta loks sagt ykkur að við hjá Gallimard höfum ákveðið að kaupa þýðingarréttinn á bók Jóns Kalmans Stefanssonar, Himnaríki og helvíti.  Jon Kalman er höfundur sem á heima á útgáfulista okkar. Hann er frábær viðbót fyrir okkur, fyrirtæki sem getur státað af að hafa gefið út helstu risa heimsbókmenntanna. Nú er komið að Jóni Kalman Stefánssyni. Þegar við hjá Gallimard tökum höfund um borð  þá er það til að fara í langa og skemmtilega siglingu. Útgáfan okkar er eins og glæst listisnekkja. Við siglum ekki í höfn fyrr en við höfum látið alla lesandi borgara Frakklands og helst allan heiminn  vita að Jon Kalman er eitt af stærstu nöfnum evrópskra nútímabókmenntanna.

 

Það er eitthvað mikið að gerast!  Gaman verður að fylgjast með Jóni Kalman á næstu árum.

Hver veit nema Leshringurinn taki fyrir einhverja af bókum Jóns Kalman í framtíðinni? Það væri áhugavert.


Ljúfir tónar: Alison Balsom trompetleikari

 

 Eru til ljúfari tónar?    Er til betri trompetleikari en Alison Balsom?

Hlustið að minnsta kosti á Paganini Caprice No.4

 ---

 
Someone to watch over me.

 


Légende.

  

 
Paganini Caprice No. 24  (Alveg magnað).

 



Bach Works for Trumpet.
  
 

Caprice - The Album (Kynning á geisladisknum).
 
 
 
Vefsíða snillingsins:   www.alisonbalsom.com 
 
 
 

Ballett í háloftunum, Svetlana Kapanina

 

Svatlana Kapanina

 

Þessi pistill er tileinkaður öllum hinum fjölmörgu konum sem láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Konum sem þora, vilja og geta. Konum sem eru oft fremri karlmönnum.

Ein þessara hugrökku kvenna er Svetlana Kapanina sem lætur sig ekki muna um að dansa ballett í háloftunum. og gerir það betur en flestir aðrir.   

Hér fyrir neðan eru fáein myndbönd þar sem stúlkan sýnir listir sýnar.  Segið svo að þetta sé bara fyrir stráka!

 


Svetlana Kapanina - the best female pilot of all times.
Eftir einnar mínútu Bla...Bla... á rússnesku byrjar ballið!
Takið eftir danssporunum á jörðu niðri Halo

  

 

 ( Skýrari og stærri mynd hér )

 
 
 

 Það er nóg að horfa og hlusta

 

 
Með rússnesku tali
  
 
 
Skrifað í skýin. Ég sá ekki betur en Svetlana teiknaði Heart í háloftunum.
 


Meira um konur sem þora:

Af bleikum og ekkibleikum.  Áhugaverður pistill Mörtu B. Helgadóttur um konur sem þora í lífi og starfi.


2009 verður ár stjörnufræðinnar á 400 ára afmæli stjörnusjónaukans

galileo_sustermansÁhugaverð frétt er í Morgunblaðinu í dag. Þar segir meðal annars:

 

Árið 2009 verður alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar samkvæmt tillögu sem Ítalía heimaland Galíleós Galíleís sem samþykkt var á alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær.

...

Einar H. Guðmundsson prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands er formaður íslensku IYA2009 landsnefnarinnar og tengill hennar við alþjóðasambandið.

Hann segir af þessu tilefni:


„Hér á landi verður haldið upp á Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar 2009 með margvíslegum hætti. Meðal annars er fyrirhugað að bjóða almenningi að hlýða á fyrirlestra um það sem efst er á baugi í stjarnvísindum nútímans.

Mönnum mun einnig gefast kostur á fræðslu um stjörnusjónauka og þátttöku í stjörnuteitum þar sem stjörnuhiminninn verður skoðaður. Þá er verið að vinna úr hugmyndum um samvinnu stjarnvísindamanna og stjörnuáhugamanna við kennara og nemendur í skólum landsins.

Einnig er ætlunin að fræða landsmenn um sögu stjarnvísinda á Íslandi. Það er mikið ánægjuefni að Ísland skuli hafa stutt þessa tillögu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og þannig tekið undir það viðhorf að raunvísindi séu einn af hornsteinum nútíma samfélags."

 

Það rifjast upp að fyrir allmörgum árum störfuðum við Einar sem sumarmenn á Háloftadeild Raunvísindastofnunar hjá Þorsteini Sæmundssyni stjörnufræðingi, þar sem unnið var að rannsóknum á m.a. norðurljósum og segulsviði jarðar.

Myndin er af Galíleó Galíleí. 

Krækjur:

Stjörnuskoðunarfélagið

Stjörnufræðivefurinn

Vefsíða stjörnufræðiársins 2009 

 

Sjá fréttina í Morgunblaðinu:


mbl.is 2009 verður ár stjörnufræðinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórar og litlar flugvélar af ýmsum gerðum... Og litlar stórar flugvélar !

Frá Cosford 2005

Hvað eru menn að bralla í sínum tómstundum? Sumir spila golf, aðrir safna frímerkjum, en ....

Tæknibylting undanfarinna áratuga hefur sett mark sitt á þá þróun sem orðið hefur á þeim rafeinda- og tæknibúnaði sem notaður er til að knýja og stýra smáflugvélum þeim sem í daglegu tali eru kallaðar flugmódel.   Smáflugvélum?   Sum flugmódel eru æði stór eins og sést á myndinni hér til hliðar. (Smella tvisvar á myndina til að sjá hana í fullri stærð). Nánast alvöru flugvélar í smækkaðri mynd. Þessi þróun hefur haft það í för með sér að það er nú á hvers manns færi að iðka þessa íþrótt, þ.e.a.s., hafi menn næga þolinmæði og áhuga.

Flug með fjarstýrðum flugvélum lýtur sömu lögmálum og flug á mannbærum flugvélum. Fjarstýrt flug er því aðeins ein tegund flugs, þar sem flugmaðurinn stendur á jörðu niðri og er einnig áhorfandi. Flugið krefst stundum gríðarmikillar einbeitingar, því það er ekkert einfalt mál að fljúga grip eins og á myndinni og vera staddur hundruð metra frá stjórnklefanum. Miklu erfiðara en að sitja inni í stjórnklefanum segja þeir sem þekkja hvort tveggja. Adrenalínið streymir um æðar, enda er mikið í húfi.

Flugmódel eru af ýmsum gerðum, allt frá litlum svifflugum til stórra vélfluga í mælikvarða 1:3 eða jafnvel 1:2, þ.e. allt að 50% af stærð fyrirmyndarinnar. Algeng stærð er um 1:5 eða um 20%. Vænghaf fjarstýrðra flugvéla á Íslandi er allt að 5 metrar og mótorar eru allt að 20 hestöfl. Erlendis mun stærri.  Þetta eru sem sagt svifflugur, vélflugur, þotur og þyrlur.
Mótorar eru af ýmsum gerðum; bensínmótorar, rafmótorar og jafnvel þotuhreyflar. 

Módelflug hentar Íslendingum afar vel. Hér er bjart um sumarnætur til flugs og útiveru í góðra vina hópi, og fátt annað fær dimm og drungaleg vertarkvöld til að líða með leifturhraða  eins og að sitja við smíðar á óskaflugvélinni.

Það sem gerir þetta sport áhugavert er hve margbreytilegt og víðfeðmt það er.  Menn þurfa að kunna skil á flugi, flugeðlisfræði, mótorum, radíófjarstýringum, smíði úr tré, málmi, koltrefjum, osfrv. Sífellt er verið að læra eitthvað nýtt. Oft reynir á þolinmæði og úthald, því smíði getur tekið hundruðir klukkustunda, jafnvel þúsundir í einstaka tilvikum.  Stundum  verða óhöpp þegar fjarstýrðum flugvélum er flogið, en þá er bara að byrja aftur...

Í sportinu endast ekki aðrir en þeir sem hafa í ríkum mæli þolinmæði og jafnaðargeð.  Svo er það spennan sem fylgir því að gangsetja smíðagripinn í fyrsta skipti og fljúga um loftin blá. Eiginlega eins og að kasta fjöreggi á loft. 

Sjón er sögu ríkari. Hér fyrir neðan eru allmargar myndir af stórum og litlum fjarstýrðum flugvélum. Þó aðallega stórum litlum flugvélum. Sumar myndanna eru teknar hér á landi, en aðrar erlendis.

 

Vestfirdingur-600w
 
Katalína - Vestfirðingur 
 
 
Jokull-600w

 DC3 - Jökull

Varðveisla flugsögunnar er mikilvægur þáttur flugmódelsportsins. Hér má sjá stór módel af þekktum flugvélum; Vestfirðingi og Jökli. Bæði módelin eru að öllu leyti smíðuð af Sturlu Snorrasyni og Skildi Sigurðssyni. Þetta er einstök smíði. Takið eftir að hver einasti hnoðnagli er sýnilegur í álklæðningunni á Jökli, en ef horft er inn í farþegarýmið blasið við ótrúleg sjón. Blátt áklæði er á öllum sætum, hvítur dúkur á hnakkapúðum, o.s.frv.
 
 
 
DeHavillandComet-600w

 

Sumarið 2003 heimsóttu tveir þekktustu módelflugmenn Bretlands Hamranesflugvöll, þeir Steve Holland og Richard Rawle. 
Sharon Styles ljósmyndari var með þeim í för umhverfis landið.
Þeir höfðu með sér nokkur gríðarstór módel, m.a. Zlin Acrobat, De Haviland Comet og Spitfire. Flugvélarnar á myndinni eru 50% af fullri stærð, en Spitfire, sem ekki sést hér, er í 33% skala.

 
 
Cosford1-600w
 
Sama flugvél og efst til vinstri á síðunni.  Cosford 2005.

 

 Cosford2-600w

Vulcan herþotan sást lengi vel ekki á flugi  öðruvísi en sem módel, en í dag er búið að gera eina fullskala Vulcan flughæfa í Bretlandi. Myndin er frá Cosford 2005.

 

 Cosford3-600w

 Flestar flugvélanna sem flogið er árlega á Cosford herflugvellinum eru völundarsmíð.
Íslenskir módelflugmenn eru tíðir gestir á Cosford og vel þekktir, en Skjöldur Sigurðsson og Guðjón Ólafsson hafa farið með einstaklega vel smíðuð módel á flugkomuna.

 

 Cosford5-600w

Concord flýgur ekki lengur nema sem flugmódel. Þessi er auðvitað með alvöru þotuhreyflum. Hér brunar Concord í lágflugi með hjólin uppi og nefið niðri. Takið efitr hitamistrinu frá þotuhreyflunum.

Bloggarinn heimsótti flugsýninguna í Cosford sumarið 2005. Hér eru fjölmargar myndir.

 

Tungubakkar2006-600w

Myndin er tekin á Tungubökkum í Mosfellsbæ sumarið 2007. 
Hér eru fleiri myndir þaðan og víðar.

 

Eftirbrennari-600w

Hér er Norðmaður að tilkeyra þotumótor með eftirbrennara. 

 

 



Hugsanleag er þetta toppurinn. Þetta risamódel af B52 er knúið með 8 litlum þotuhreyflum.
Hér er það í reynsluflugi, en nokkru síðar hrapaði módelið í jörðina með miklum dynk.
 
 
 
 
 En hvað segja menn um B29 sem ber X1 með eldflaugamótor í háloftin?
 
 
 
Vonandi hafa strákar og stelpur á öllum aldri haft nokkra ánægju af þessum myndum. Það er ljóst að Hinrik Hinrikssson flugkappi frá Iðu blundar í mörgum okkar Wink    Eitt er víst, þessir menn kunna svo sannarlega að leika sér og hafa gaman af lífinu Wizard
 
(Reyndar benda nýjustu rannsókir til að Hinrik Hinriksson hafi í reynd verið  Hemingur Hemingsson fæddur í Árnessýslu 1688. Sjá athugasemd #29 í pistlinum um flugkappann).
 
 
Ítarefni:
 
Myndir: 
 
Félög:
 
Frétta- og umræðuvefur:
 
 longflight

Refur á ferli í Garðabæ

refur1Ég varð heldur betur hissa í þegar refur í vetrarbúningi hljóp yfir götuna fyrir framan bílinn í morgun. Datt fyrst í hug köttur, síðan hundur, en ekki fór á milli mála að þarna var lágfóta á ferð, enda hef ég oft séð hana utanbæjar.

Ég var að aka klukkan hálftíu suður eftir Reykjanesbrautinni í Garðabæ. Um hundrað metrum fyrir norðan brúna á móts við Ikea rölti refur í austurátt þvert yfir veginn. Það var enginn sérstakur asi á honum og staldraði hann smástund við þegar yfir veginn var komið um leið og ég ók fram hjá.

Hvort hann heldur til þarna í hrauninu eða hafi bara verið að koma af fjöllum í fylgd jólasveina veit ég ekki, en fallegur var rebbi.

Í uppsveitum þar sem bloggarinn á landskika hefur refnum farið fjölgandi síðustu ár. Hann sést þar allt árið, og að vetri til sjást oft spor í snjónum. Hann virðist ekki mjög styggur. Á sama tíma og refnum hefur fjölgað er nokkuð ljóst að fuglum hefur fækkað, enda þarf tófan auðvitað að nærast á einhverju.

Ég þykist vita að einn tryggur lesandi bloggsíðunnar er vanur að sjá ref í garðinum heima hjá sér, en hann býr í úthverfi London. Refurinn er þar að gramsa í leit að æti. Hér á landi er refurinn ekki ennþá svo heimakær, en hver veit hvað verður. Megum við búast við að hann fari í auknum mæli að sækja í þéttbýli til að leita sér að æti, eins og hann gerir erlendis? Það er ljóst að ref hefur fjölgað mjög hér á landi á undanförnum árum og æti fyrir hann í náttúrunni ekki ótakmarkað.

 

Nú væri gaman að vita. Hafa fleiri orðið varir við ref á höfuðborgarsvæðinu?


SOHO --- Sólin í návígi

Flestum dettur víst eitthvað annað í hug en blessuð sólin þegar minnst er á SOHO. Í þessum pistli er ekki meiningin að beina augunum að þessu hverfi í Lundúnum, heldur er tilgangurinn að skoða hina sönnu dagstjörnu, eins og sólin kallst í hinum fornu Sólarljóðum 

SOHO stendur fyrir Solar and Heliospheric Observatory, en það er gervihnöttur sem komið er fyrir í um 1,5 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðu, á stað þar sem aðdráttarafl jarðar og sólar eru í jafnvægi.  Þetta jafngildir um fjórfaldri fjarlægð tungslsins frá jörðu. Þessi staður, sem kallast Lagrangian Point L1 er mjög sérstakur, því þar er hægt að koma fyrir gervihnetti í þyngdarleysi án þess að hann sé eiginlega á braut umhverfis jörðu, og á stað þar sem er eilíft sólskin. SOHO beinir augum sínum dag og nótt að dagstjörnunni okkar og hefur tekið ótrúlega fallegar myndir.  SOHO hefur átt mikinn þátt í að auka þekkingu okkar á sólinni.

Á morgun, 2. desember, mun SOHO fagna 12 ára afmæli sínu.

Á þessari bloggsíðu eru nokkrar fallegar myndir sem SOHO hefur tekið af sólinni. Miklu fleiri myndir eru á heimasíðu SOHO     Það er vel þess virði að heimsækja þetta vandaða vefsetur.

 whip304_prev

 Falleg mynd af sólinni

 

 solarcycle_soho_600w

Það er með ólíkindum hver ásjóna sólar breytist mikið yfir eina 11 ára sólblettasveiflu.
Sólblettir voru í hámarki um 2001, en eru nú í lágmarki. Myndin er tekin í útfjólubláu ljósi. Sjá nánar hér 

 

20031202c2eit304_prev-600w

 Gríðarmiklir sólblossar sjást stundum.

Myndin er samsett úr tveim myndum. Stærri myndin er lík þeirri báu sem er hér fyrir neðan, en hún sýnir gasstreymið frá sólinni eða sólvindinn sem er eins og geislar út frá sólinni, og mikinn sólblossa sem stafar af eins konar sprengingu á yfirborði sólar. Einnig sjást þar nokkrar stjörnur. Til að koma í veg fyrir að myndavélin blindist af skæru sólarljósinu er komið fyrir hringlaga hlíf í miðri linsunni. Lítil hefðbundin SOHO mynd af allri sólinni hefur verið felld inn í miðja myndina til að gefa hugmynd um stærðarhlutföllin.

Þegar svona sólblossar stefna á jörðina sjást oft óvenjumikil norðurljós, jafnvel í suðlægum löndum.  13 mars 1989 urðu miklar rafmagnstruflanir í Kanada af völdum sólgosa. Sjá hér

Hugsanlegar eru áhrif sólar á veðurfar meiri en margan grunar. 

 

Comet-neat

Stundum sjást halastjörnur koma inn í sjónsvið SOHO

Stærð sólar má marka af hvíta hringnum í miðju myndarinnar. 

 

Solblossi-jordin-600w

 Hér má sjá jörðina til samanburðar. Hún er örsmá.
Myndin gefur okkur hugmynd um gríðarlega stærð sólgosa.

 


 

          McNaught halastjarnan og sólin. (Hafa hljóðið á)

 

 Ítarefni:

Miklu fleiri myndir eru á heimasíðu SOHO

Mun sólin kæla okkur svo um munar innan fárra ára Blogg frá 27. jan 2007 

 



Úr Sólarljóðum

Sól ek sá
sanna dagstjörnu
drúpa dynheimum í;
en Heljar grind
heyrða ek á annan veg
þjóta þungliga.

 

 


Halastjarnan Holmes sem sést hefur undanfarið

 Halastjarnan Holmes

Líklega hafa ekki margir Íslendingar komið auga á halastjörnuna Holmes sem enn má sjá á himinhvolfinu. Veðrið hefur verið með eindæmum leiðinlegt og hentað illa fyrir stjörnuskoðun, ljósmengun truflar, og svo er halastjarnan Holmes halalaus séð frá jörðinni. Bloggarinn sá hana þó 18 nóvember þar sem hún var í stjörnumerkinu Perseus hátt á norð-austur himninum. Hún líktist frekar litlum skýjahnoðra á stærð við tunglið en halastjörnu. Hún sást ekki með berum augum vegna ljósmengunar, en nokkuð vel með handsjónauka (Canon 15x50-Image Stabilizer).

Í sjónaukanum leit halastjarnan út nokkurn vegin eins og sést á myndinni, sem tekin er sama dag en fengin að láni á netinu. Myndin er þó öllu skarpari en sú sem sást með handsjónaukanum.

Halastjarnan Holmes er um margt óvenjuleg. Til dæmis jókst birtustig henna skyndilega milljónfalt 24. október, öllum að óvörum. 

 

Ítarefni:

 
Comet Holmes from the Hubble Space Telescope,  Astronomical Picture of the Day  

Halastjarna á himni skín, bloggpistill 

Halastjarnan McNaught kveður með stæl, bloggpistill

Betlehemsstjarnan, grein eftir Þorstein Sæmundsson. (Í tilefni þess að Jólin nálgast).

 


Vextir íbúðalána hafa hækkað um 54% og húsnæði um 94% á þrem árum !!!

Á þrem árum hafa vextir íbúðalána hækkað úr 4,15%  í 6,40% (KB, en þar eru vextir reyndar 7,15% ef fólk er ekki í viðskiptum við bankann), eða um 54% !  


Á þrem árum hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað úr 184 í 357   (okt. ´04 til okt. '07 skv. http://www.fmr.is/?PageID=448&NewsID=1301 ) eða um 94%  !

Sem sagt 54% dýrari lán til að greiða 94% dýrara húsnæði !!!

Svo hefur auðvitað húsaleigan fylgt í kjölfarið og hækkað í takt við íbúðaverð og fasteignagjöld fylgja verði fasteigna, en það er önnur saga...



Með verðbótum eru vextir líklega a.m.k. 11% í dag.  Lánin eru yfirleitt annuitets-lán (jafngreiðslulán), þannig að eignamyndun er mjög hæg fyrstu árin. Þá greiða menn nánast eingöngu vexti og verðbætur. Það er ekki fyrr en á síðari hluta lánstímans sem eignamyndun fer að verða einhver að ráði. Þetta kemur mörgum verulega á óvart þegar þeir ætla að skipta um húsnæði t.d. eftir 10 ár. Þeir eiga nánast ekkert í húsinu sínu! Höfuðstóllinn hefur jafnframt hækkað verulega. Hvað varð eiginlega um allar greiðslurnar? Því miður gerir fólk sé almennt ekki grein fyrir þessu, en vaknar nánast eignalaust upp við vondan draum um fimmtugt þegar flestir vildu vera búnir að koma sér úr mesta baslinu.


Til samanburðar þá eru vextir í Bretlandi og á Norðurlöndum um 5% og höfuðstóll óverðtryggður. Jafnar afborganir af höfuðstól þannig að eignamyndun er jöfn allan lánstímann.  Helmingur höfuðstóls hefur verið greiddur þegar hálfur lánstíminn er liðinn. Fólk veit hverju það gengur að og getur skipulagt framtíðina.


Þetta er í hnotskurn samanburður á ástandinu hér á klakanum og hjá siðuðum þjóðum.

 

Er nokkur furða þó fólk flytji úr landi, eða hiki við að koma heim að loknu námi eða starfi erlendis ?

Hvað þarf fólk að hafa í tekjur til að eiga möguleika á því að eignast þak yfir höfuðið? 

Hverjum er þessi dæmalausa vitleysa á íslenskum húsnæðismarkaði að kenna ? 

Til að kóróna vitleysuna er fólki oft ráðlagt að taka lán til 40 ára. Það verður með hurðarás um öxl þar til það verður löggilt gamalmenni eða lengur !   Á lítið sem ekkert í húsi sínu um fimmtugt.  Auðvitað ætti enginn að taka húsnæðislán til lengri tíma en 25 ára.

Hverjir græða á þessari vitleysu ?   Gettu nú ! Bandit

 

Hvað er til ráða ? 

Áður en fólk tekur lán er nauðsynlegt að skoða vel alla kosti sem eru í boði. Nota þær reiknivélar sem aðgengilegar eru á netinu, eins og t.d. þá sem vísað er á hér fyrir neðan. Ekki flana að neinu. Gera áætlun sem nær yfir allan greiðslutímann.

Greiðslubyrði af 40 ára láni er ekki mikið lægri en af 25 ára láni, en heildargreiðslur miklu hærri og eignamyndun mun hægari.

Ef viðkomandi ræður við að taka óverðtryggt lán með jöfnum afborgunum af höfuðstól ætti hiklaust að skoða þann möguleika líka. Afborganir eru þá hærri fyrstu árin, en fara hratt lækkandi. Eignamyndun er jöfn allan lánstímann.

Hjá íslensku bönkunum bjóðast bæði verðtryggð og óverðtryggð lán, með jöfnum afborgunum af höfuðstól.

Rétt er að hugleiða fasteignalán þar sem höfuðstóll er í erlendri mynt. Lánin eru óverðtryggð, vextir tiltölulega lágir, en höfuðstóllinn fylgir öllum gengisbreytingum, þannig að lántakandinn þarf að vera viðbúinn skyndilegum breytingum til skamms tíma litið.

Hafa verður í huga, að verið er að skuldbinda sig áratugi fram í tímann. Betra er að leggja á sig aukna greiðslubyrði meðan maður er ungur og stefna að því að létta hana þegar aldurinn færist yfir.

Hjá bönkunum starfa ráðgjafar sem eru sérfræðingar í þessum málum. Mun betra er að fá ráð hjá þeim en sölumönnum fasteigna, sem yfirleitt hafa mun minni þekkingu á þessum flókna málaflokki. 

 

Góð reiknivél á vef Landsbankans:  http://www.landsbanki.is/umlandsbankann/reiknivelar/lanareiknir

 

 

Annuitetslán_40_ár

Hinn ískaldi veruleiki á Íslandi:

Myndin hér fyrir ofan er af þessum vef Landsbankans og sýnir þróun höfuðstóls ef 25 milljón króna lán til 40 ára er tekið í dag. Miðað er við 6,4% vexti, 4% verðbólgu allan lánstímann og jafngreiðslulán (annuitet). Mánaðalegar afborganir um 146.000 kr. allan lánstímann miðað við fast verðlag. Heildargreiðslur af þessu 40 ára láni eru um 169.000.000 krónur þegar upp er staðið og viðkomandi greiðir sína síðustu afborgun, jafnvel kominn á elliheimilið Undecided


 

Jafnar_höfuðstólsafborganir_25_ár

Þetta er aftur á móti sá veruleiki sem blasir við lántakendum í Englandi og á Norðurlöndum:
Vextir 5%. Höfuðstóll óverðtryggður. 25 milljón króna lán tekið til 25 ára. Heildargreiðslur af láninu um 41 milljón krónur. Mánaðarlegar afborganir í byrjun 188.000 kr, en falla smám saman niður í 84.000 kr.  Eignamyndun jöfn allan lánstímann.  Á besta aldri getur lántakandinn farið að njóta lífsins Smile

 

 

Notið nú hinn ágæta Lánareikni Landsbankans til að skoða hina ýmsu valkosti.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband