Færsluflokkur: Menntun og skóli

Vetrarsólstöður 21/12: Bein útsending frá 5000 ára gömlu grafhýsi á Írlandi...


 

 

 

Í tilefni Alþjóðalegs árs stjörnufræðinnar 2009 verður á vetrarsólstöðum bein útsending á sólarupprás frá 5000 ára gömlu grafhýsi á Írlandi, sem er eldra en Stonhenge. Eða er réttara að kalla þetta 5000 ára gamla stjörnuathugunarstöð, eins og Ásgeir Kristinn bendir á í athugasemd sinni? Það er gaman að velta þessu fyrir sér. Menning, trú, tímatalsreikningur, ...  

 

Smellið hér til að sjá útsendinguna frá Newgrange sem verður frá klukkan 8:30 til 9:30 á morgun sunnudaginn 21. desember.

 

 


Hér sést hvernig fyrstu sólargeislarnir á vetrarsólstðum berast eftir 18 metra löngum gangi sem er fyrir ofan innganginn að grafhýsinu og lýsa upp gólfið fyrir framan skreyttan stein. Fyrir 5000 árum hefði sólin náð að skína á steininn á vetrarsólstöðum. Sjá nánar hér.

Myndin er fengin að láni á APOD síðunni hér.

 

aas2009_sma.jpg

 Vefsíðan www.astronomy2009.org

Íslenska vefsíðan  www.2009.is

Vetrarsólstöður á Stjörnufræðivefnum

Newgrange - Winter Solstice

Útsending frá vetrarsólstöðum 2007. Þá var veður hagstætt.

 

 

Bloggið Vetrarsólstöður, hænufetið, tíminn og jólakveðja

 

 

 

 
 
 
 
 

Gleðileg Jól

 

 

 

 
 

 


Tunglið tunglið taktu mig ... Nú er lag þvi tunglið er næst jörðu föstudaginn 12 des!

 

 

 

Á morgun er nokkuð merkilegur dagur, því föstudaginn 12. desember verður tunglið okkar óvenju stórt og óvenju nálægt jörðu. Líklega hefur fullt tungl ekki verið nær jörðu síðan 8. mars 1993 og verður ekki aftur fyrr en 14. nóvember 2016.  Föstudagurinn 12 des. er því dálítið merkilegur ...

Á myndinni má sjá muninn á stærð tunglsins þegar það er næst jörðu og fjærst. Munurinn er töluverður, en hefur einhver tekið eftir þessum stærðarmun? Hefur einhver tekið eftir því hve tunglið er óvenju stórt þessa dagana?

 

Hvers vegna er tunglið svona mis langt frá jörðu? 

moon_orbit_20030722142611.gifÞað er vegna þess að braut tunglsins umhverfis jörðu er ekki hringferill heldur sporöskjulaga ferill eða ellipsa. Reyndar alls ekki eins ýkt og á myndinni hér til hliðar. Munurinn á jarðfirð og jarðnánd er um 10%.

Þegar tunglið er lengst frá jörðu er það í svokallaðri jarðfirð eða apogee, en jarðnánd eða perigee þegar það er næst jörðu, eins og sést á myndinni.

moongames_lavedern080717_9416_747812.jpg

 

Hafið þið tekið eftir því að þegar tunglið er mjög lágt á himni virðist það vera miklu stærra en þegar það er hátt á himinhvolfinu.  Hvað veldur? Er það ljósbrot eða er tunglið kannski nær jörðu? Svarið kemur á óvart, því ástæðan er bara undarleg skynvilla. Við getum prófað að mæla tunglið með tommustokk, bæði þegar það er við sjóndeildarhringinn og hátt á himninum og þá kemur hið sanna í ljós. Við látum platast. Góð útskýring á þessari skynvillu er hér á Vísindavefnum.

 

 


Kveðskapur um tunglið ...

 

Jón Ólafsson ritsjóri, skáld,  og alþingismaður orti þetta um son sinn Ólaf sem síðar varð tannlæknir í Bandaríkjunum:

Tunglið má ekki taka hann Óla
til sín upp í himnarann,
þá fer hún mamma að gráta og góla
og gerir hann pabba sturlaðan.
 

 

Jón langafi bloggarans orti meira um tunglið. Flestir hafa sungið um mánann á Gamlársdag og á Þrettándanum:

Máninn hátt á himni skín,

hrímfölur og grár.

Líf og tími líður

og liðið er nú ár.

 

Bregðum blysum á loft,

bleika lýsum grund.

Glottir tungl og hrín við hrönn

og hratt flýr stund.

 

Kyndla vora hefjum hátt,

horfið kveðjum ár.

Dátt við dansinn stígum

dunar ísinn grár.

 

Bregðum blysum á loft,

bleika lýsum grund.

Glottir tungl og hrín við hrönn

og hratt flýr stund.

 

Nú er veður næsta frítt,

nóttin er svo blíð.

Blaktir blys í vindi

blaktir líf í tíð.

 

Bregðum blysum á loft,

bleika lýsum grund.

Glottir tungl og hrín við hrönn

og hratt flýr stund.


 

 

Þess má geta að Jón var upphafsmaður   Íslendingadagsins í Manitoba sem haldinn hefur verið árlega síðan 1874 er Jón var 24 ára ritstjóri Lögbergs.

 

 

Theodora Thoroddsen orti þessa skemmtilegu og   l ö n g u   þulu, en fyrirsögn bloggsins er auðvitað fengin þar að láni. Þulan er svo löng að hún ber mann auðveldlega hálfa leið í heimana nýja:

"Tunglið, tunglið taktu mig
og berðu mig upp til skýja".
Hugurinn ber mig hálfa leið
í heimana nýja.
Mun þar vera margt að sjá,
mörgu hefurðu sagt mér frá,
þegar þú leiðst um loftin blá
og leist til mín um rifinn skjá.
Komdu, litla lipurtá!
Langi þig að heyra,
hvað mig dreymdi, hvað ég sá
og kannski sitthvað fleira.
Ljáðu mér eyra.
Litla flónið, ljáðu mér snöggvast eyra:
Þar er siglt á silfurbát
með seglum þöndum,
rauðgull í rá og böndum,
rennir hann beint að ströndum,
rennir hann beint að björtum sólarströndum.
"Þar situr hún móðir mín"
í möttlinum græna,
hún er að spinna híalín
í hempu fyrir börnin sín.
"Og seinna, þegar sólin skín",
sendir hún þeim gullin fín,
mánasilfur og messuvín,
mörgu er úr að velja.
Hún á svo margt, sem enginn kann að telja.
"Þar sitja systur".
Sá sem verður fyrstur
að kyssa þeirra klæðafald,
og kveða um þeirra undravald,
honum gefa þær gullinn streng
á gígjuna sína.
"Ljúktu upp, Lína!"
Nú skal ég kveða ljúflingsljóð
um lokkana þína,
kveða og syngja ljóðin löng
um lokkana mjúku þína.
"Þar sitja bræður"
og brugga vél,
gakktu ekki í skóginn, þegar skyggir.
Þar situr hún María mey,
man ég, hvað hún söng:
Ég er að vinna í vorið
vetrar kvöldin löng.
Ef að þornar ullin vel
og ekki gerir stórfelld él
sendi ég þér um sumarmálin sóley í varpa.
Fögur er hún harpa.
Um messur færðu fleira,
fjólu og músareyra,
hlíðunum gef ég grænan kjól,
svo göngum við upp á Tindastól,
þá næturvökul sumarsól
"sveigir fyrir norðurpól",
en dvergar og tröll sér búa ból
í bergsins innstu leynum
og ljósálfar sér leika á hól
að lýsigulli og steinum.
Við skulum reyna að ræna frá þeim einum.
Börnunum gef ég gnótt af óskasteinum.
"Þá spretta laukar,
þá gala gaukar".
Þá syngja svanir í tjörnum,
segðu það börnum,


 

Krækjur:

Hvað er tunglið langt frá jörðu?

Fróðleikur um Tunglið á Stjörnufræðivefnum

December 12, 2008: Closest Full Moon in 23 Years

The Moon at Perigee and Apogee

Lunar Perigee and Apogee Calculator 

NASA: Biggest Full Moon of the Year

Wikipedia: Mikill fróðleikur um Tunglið.

 

 Svona leit tunglið út yfir Esjunni í ljósaskiptunum að kvöldi 13. desember 2008:

 

Tungl yfir Esju 13. des 2008

 


Veiðimaðurinn Óríon eða Aurvandill er meðal fegurstu stjörnumerkjanna...

 

Aurvandill

 

Eitt glæsilegasta stjörnumerki himinsins fer að verða meira og meira áberandi á kvöldhimninum á næstu vikum. Nú þegar er farið að glitta í kollinn á veiðimanninum á miðju kvöldi, en innan skamms mun Aurvandill gnæfa yfir landi og þjóð á suðurhimninum. (Smella þrisvar á mynd til að stækka).

Í grísku goðafræðinni var Óríon hinn mikli veiðimaður og sonur Póseidons og Eruyale drottningar. Að öllum líkindum er þetta stjörnumerkið sem fornmenn nefndu Aurvandil og kemur fyrir í Snorra-Eddu. Aurvandill er sá sem ferðast um með björtu skini.

BetelgásTvær stjörnur í Óríon bera af. Það eru Rígel og Betelgás. Skoðum myndina sem er efst á síðunni.

Neðst til hægri í Óríon er bláleita stjarnan Rígel, bjartasta stjarna merkisins. Hún er 60 þúsund sinnum bjartari en sólin okkar, hún er mun heitari en sólin og í 900 ljósára fjarlægð. Er Rigel Aurvandilstá sem getið er um í Snorra-Eddu?

Næst bjartasta stjarna merkisins er hin gyllta Betelgás, efst í horninu vinstra megin. Betelgás er svokallaður rauður risi og er í um 600 ljósára fjarlægð og er þvermál hennar um 1000 sinnum meira en þvermál sólar. Samt er hún ekki nema um 20 sinnum efnismeiri. Væri Betalgás stödd þar sem sólin er, þá næði hún út fyrir braut Mars. Jörðin væri sem sagt langt inni í iðrum hennar.  Það er undarlegt til þess að hugsa að þéttleiki hennar er aðeins einn milljónasti þéttleika vatns.  Ef við reyndum að snerta á henni yrðum við einskins vör!

 

Í miðju merkisins eru þrjár stjörnur sem mynda belti Óríons. Þetta eru stjörnurnar Alnítak, Alnílam og Mintaka og hafa þær verið nefndar fjósakonurnar þrjár.

Sverðþokan

 

Í sverði Óríons er Sverðþokan fræga sem á máli stjörnufræðinga kallast M42. Þessar stjörnur í sverðinu hafa verið nefndar fjósakarlarnir. Demanturinn í sverðinu leynir sér ekki á myndinni efst á síðunni. Þetta er auðvitað sverðþokan fræga og ægifagra. Sjá myndina hér til hliðar.

Vel má greina þessa stjörnuþoku með venjulegum handsjónauka, og með góðum vilja jafnvel með berum augum þegar skyggni er gott og ljósmengun lítil.

Það sakar ekki að smella þrisvar á myndirnar af sverðþokunni og Óríon til að stækka þær.

 

 

 

 

Úr skáldskaparmálum Snorra-Eddu:

Þórr fór heim til Þrúðvanga, ok stóð heinin í hôfði honum. Þá kom til vôlva sá, er Gróa hét, kona Aurvandils ins frækna. Hon gól galdra sína yfir Þór, til þess er heinin losnaði. En er Þórr fann þat ok þótti þá ván, at braut myndi ná heininni, þá vildi hann launa Gró lækninguna ok gera hana fegna, sagði henni þau tíðendi, at hann hafði vaðit norðan yfir Élivága ok hafði borit í meis á baki sér Aurvandil norðan úr Jôtunheimum, ok þat til jartegna, at ein rá hans hafði staðit úr meisinum, ok var sú frerin, svá at Þórr braut af ok kastaði upp á himin ok gerði af stjôrnu þá, er heitir Aurvandilstá. Þórr sagði, at eigi myndi langt til, at Aurvandill myndi heim koma, en Gróa varð svá fegin, at hon mundi enga galdra, ok varð heinin eigi lausari ok stendr enn í hôfði Þór, ok er þar boðit til varnanar at kasta hein of gólf þvert, því at þá hrærist heinin í hôfði Þór. Eftir þessi sôgu hefir ort Þjóðólfr hvinverski í Haustlông.


 

Myndin hér fyrir neðan er fengin að láni úr grein um Óríon eftir Sævar Helga Bragason á Vísindavefnum.

 

orion_190803.jpg

 

 

Næstu vikur skulum við fylgjast með veiðimanninum Óríon eða Aurvandli vini okkar á kvöldin. Fylgjast með hvernig hann ferðast yfir stjörnuhimininn.  Þessa dagana er hann byrjaður að sjást á suðausturhimninum síðla kvölds, en eftir nokkrar vikur fer hann að sjást hærra og hærra á lofti á suðurhimninum. Þá verður hann tignarlegur í meira lagi. Hann verður í hásuðri um níuleytið á kvöldin um miðjan febrúar.

Það er einhvernvegin þannig að við njótum stjörnuhiminsins miklu betur ef við þekkjum hann aðeins.

 

 

Aurvandill?

 

Aurvandill?

 

 

 

Krækjur: 

Hvað getið þið sagt mér um stjörnumerkið Óríon? Sævar Helgi Bragason á Vísindavefnum.

Viking Age Star and Constellation Names

Norse Constellations

Stjörnufræðivefurinn

Ljósmengun

 

 

Lifandi kort: Stjörnuhimininn yfir Íslandi þessa stundina

Kortið uppfærist sjálfvirkt í hvert sinn sem þessi síða er opnuð

Kortið hér fyrir neðan er fengið að láni hjá Stjörnufræðivefnum, www.stjornuskodun.is

Kortið er einnig hægt að finna hjá www.astroviewer.com

Austur er til vinstri og norður upp. Óríon fer að sjást á suð-austur hluta kortsins (neðarlega vinstra megin) á miðju kvöldi nú í byrjun desember. Síðan færist hann á suðurhimininn ...  Muna eftir að smella á "Refresh" eða takkann F5 til að fá ferska útgáfu af kortinu. Dagsetning og tími sést efst til hægri.

 

 

"We are all in the gutter, but some of us are looking at the stars" - Oscar Wilde


VERKÍS verkfræðistofa með samfellda reynslu frá 1932 og um 350 starfsmenn...

 

 

Verkfræðistofurnar VST-Rafteikning, Fjarhitun, RT-Rafagnatækni og Fjölhönnun sameinast formlega í dag 21. nóvember. 

Nafn verkfræðistofunnar er VERKÍS.

www.verkis.is

 

Allar stofurnar eru rótgrónar og eiga að baki farsælan feril á verkfræðimarkaðnum. VST-Rafteikning varð til vorið 2008 við sameiningu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen sem var stofnuð árið 1932 og Rafteikningar sem stofnuð var árið 1965. RT-Rafagnatækni hefur starfað frá árinu 1961, Fjarhitun frá árinu 1962 og Fjölhönnun frá árinu 1970.

Með samruna þessara fyrirtækja, sem samtals hafa starfað í 250 ár, verður til leiðandi og öflug verkfræðistofa með um 350 starfsmenn.

VERKÍS mun veita alhliða ráðgjöf á flestum sviðum verkfræði.  Samruninn mun styrkja innviði, gera vinnustaðinn eftirsóknarverðari, auka faglega hæfni og breidd, styrkja fagþekkingu og efla sókn á erlenda markaði. Samskipti við viðskiptavini verða áfram persónuleg og þjónusta verður styrkt með fjölbreyttari lausnum og víðtækari ráðgjöf sem unnin er samkvæmt vottuðu gæðakerfi.  

 

 

verkistimaskali.jpg

 

  • 1932:  VST - Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen
  • 1961:  RT - Rafagnatækni
  • 1962:  Fjarhitun
  • 1965:  Rafteikning
  • 1970:  Fjölhönnun

Samanlagður aldur verkfræðistofanna sem sameinast er 250 ár.

Fjöldi starfsmanna er 350.

 

verkisgomlulogo.jpg

 

 

 >>> Það eru vitmenn hjá Verkís <<<

Wizard  Til hamingju með daginn Verkís   Wizard

 


Ótæmandi orkulind: Raunveruleg vetnisorka úr samrunaofnum innan 30 ára?

 

Samrunaofn

 

(Uppfært 13. ágúst 2022)

Hugsið ykkur, að vatn í einu baðkari ásamt lithíum úr einni hleðsluraflöðu í fartölvunni nægi sem orkulind heillar fjölskyldu í hálfa öld.   - Bull? Ekki aldeilis.

Þetta er vonandi ekki mjög fjarlægur draumur. Markmiðið er að virkja ótæmandi orkulind innan fárra áratuga. Þetta er sama orka og sólin notar sem eldsneyti.

 

Um er að ræða alvöru vetnisorku.   Það er óskylt vetnisrafölum sem hafa m.a verið notaðir til að knýja bíla. Þar er vetnið orkumiðll en ekki orkulind. Gjörólíkt.

 

Í bókinni Kjarnorka á komandi tímum, sem kom út á Íslandi árið 1947 og fjallað var um í þessum pistli nýlega, stendur á bls. 185:

"Fyrir meira en tuttugu árum þykjast vísindamenn hafa komist að, að einhver hagkvæmasta uppspretta kjarnorkunnar mundi verða sú, að breyta vetni í helíum; og það er almennt álit stjarnfræðinga nú, að einhver slík frumefnabreyting sé uppsprettan að ljósorku og hitamagni sólar vorrar og annarra sólstjarna."

Bókin kom út fyrir um 75 árum (uppfært 2022) og vitnað er til þekkingar manna tuttugu árum fyrr. Hver er staðan í dag?

Nú er hafin smíði á tilraunaofni hjá ITER (International Thermonuclear Experimental Reactor). Takmarkið er að árið 2018 takist að framleiða 500 megawött í að minnsta kosti 1000 sekúndur.

Gangi allt samkvæmt áætlun er ætlunin að smíða fyrsta samrunaofninn sem framleitt getur nothæfa orku árið 2040. Orku sem nýta má til að framleiða rafmagn. Það er til mikils að vinna. Vonandi gengur allt samkvæmt áætlun.

Hingað til hefur kjarnorka tæpast talist til vistvænnar orku. Vandamál við geymslu og förgun geislavirks úrgangs eru óleyst.  Margir hafa illan bifur á kjarnorkuverum af þessum sökum. Allt annað gildir um samrunaofna. Þeir nota ekki geislavirkt eldsneyti og geislavirknin sem myndast er smávægileg og verður einungis í málmhlífum ofnsins. Auðvitað er engin losuna á koltvísýringi heldur. Aðal úrgangsefnið er helíum, sama efni og börn nota í gasblöðrur.

Almennt má segja að nokkur bjartsýni ríki nú og vísindamenn telja töluverðar líkur á að þessi draumur manna verði að veruleika innan 30 ára.

 

Hvernig er hægt að vinna orku úr vatni?

Mjög góður og aðgengilegur fróðleikur á Íslensku, "Samrunaofnar-TOKAMAK",  er hér.  Þetta var lokaverkefni Karenar Óskar Magnúsdóttur og Líneyjar Höllu Kristinsdóttur í eðlisfræði við Menntaskólann við Hamrahlíð haustið 2002. Nú er Karen orðin rafmagnsverkfræðingur og Líney eðlisfræðingur.  

 

 

image006.gif

 

 

 Myndin sem er úr umfjöllun Karenar Óskar og Líeyjar Höllu sýnir orkuver sem fær varmann frá samrunaofni.  Samrunaofninn framleiðir varmann, sem notaður er til að framleiða gufu, sem leidd er að gufuhverfli eins og í jarðvarmavirkjunum.

 

 


Hvernig styðja má við frumkvöðla og sprotafyrirtæki...

innovation.jpgÞar sem bloggarinn er alinn upp í litlu frumkvöðla- eða sprotafyrirtæki vill hann leggja fáein orð í belg í umræðuna um hvað gera má til að reisa við íslenska hagkerfið og skýra frá eigin reynslu.

Nokkrir bloggarar eins og t.d. Kjartan Pétur Sigurðsson hafa safnað fjölmörgum hugmyndum sem vinna má úr. Þannig hugmyndir eru mjög verðmætar á þeim erfiðu tímum sem eru framundan.

Reynsla fyrrverandi sprotafyrirtækis: Fyrirtækið Rafagnatækni, sem nú heitir RT ehf, var stofnað árið 1961. Ef til vill fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi. Það hóf starfssemi sína á að þróa búnað fyrir jarðeðlisfræðirannsóknir, svo sem segulmæla fyrir berg, geislamæla, jarðviðnámsmæla o.fl.   Þróaður var búnaður til að mæla ísskrið í ám, fjargæslu og fjarstýribúnaður til nota á hálendinu, vatnshæðarmælar fyrir ár og vötn, laxateljarar, hitaritar fyrir fiskiðnaðinn, ferskleikamælar fyrir fisk,  stöðuleikavakt fyrir skip, o.m.fl. Mest af framleiðslunni var fyrir innanlandsmarkað, en allnokkuð var flutt út. Smám saman breyttust áherslurnar. Meiri áhersla var lögð á hefðbundna verkfræðiþjónustu hin síðari ár, en fyrritækið hefur m.a. hannað og forritað mestallt stjórnkerfi virkjanana í Svartsengi og á Reykjanesi...

Sjá má sögu fyrirtækisins í hnotskurn hér, en þetta er gömul grein sem bloggarinn skrifaði fyrir allmörgum árum í tilefni fertugsafmælis fyrirtækisins og varðveitt er á vefsíðu RT-Rafagnatækni www.rt.is

 

Helstu erfiðleikarnir sem við var að etja voru þessir:

1) Kostnaður við markaðssetningu. Markaðssetning er mjög tímafrek og dýr. Ofviða litlum fyrirtækjum. Þessi þáttur er oft verulega vanmetinn. Líklega er þetta það sem mikilvægast er að bæta.

2) Lítill innanlandsmarkaður. Það er mjög gott að hafa sæmilega stóran markað í næsta nágrenni meðan verið er að þróa vöruna. Þróun tekur tíma og þá er mjög gott að vera í nánum tengslum við viðskiptavinina. 

3) Fjarlægð frá hinum stóra heimi þar sem hugsanlegir kaupendur eru í þúsundavís, en ekki bara í tugavís eins og hér. Markaðssetning getur því verið erfið og dýr.

4) Fjármagnið var ekki á lausu á árum áður. Yfirleitt varð að kosta þróun með því að reyna að tryggja sölu fyrirfram, eða nota eigið fé.

 

 

Hvað væri til úrbóta?

Aðeins neðar á síðunni er minnst á nokkra aðila sem veita frumkvöðlum og nýsköpunarfyrritækjum stuðning þannig að töluvert hefur þegar verið gert í þessum málum á Íslandi.

1) Við gætum örugglega lært mikið af þjóðum eins og Finnum sem lentu í kreppunni miklu um 1992 og náðu sér furðufljótt á strik aftur. Þess vegna gæti verið mjög ráðlegt að fá hingað til lands til skrafs og ráðagerða einhvern sem gjörþekkir málið og getur skýrt okkur frá því hvað tókst vel, og einnig og ekki síður, hvað tókst miður vel. Hugsa og skipuleggja áður en hafist er handa. 

2) Koma þarf upp öflugri stofnun sem aðstoðar fyrirtæki við markaðssetningu. Það er til lítils að framleiða vöru ef hún selst ekki. Markaðssetning er flókin og kostnaðarsöm og oft vanmetin. Nota þarf góða blöndu af fagfólki sem bæði kann markaðssetningu og einnig fólki þem þekkir vel vöruna sem verið er að markaðssetja og getur rætt á traustvekjandi hátt við mögulega viðskiptavini.

3) Koma upp tæknigörðum sem aðstoða við vöruþróun. Þeir mega gjarnan vera í góðum tengslum við háskóla.

4) Opinber og hálfopinber fyrirtæki og stofnanir þurfa að vera tilbúnar að gefa innlendum fyrirtækjum tækifæri til að koma með lausnir. Ekki kaupa allt frá útlöndum. Gefa mönnum tækifæri til að þróa og síðan endurbæta. Hugarfari innlendra aðila þarf að breyta; fyrsta val á að vera íslenskt!

5) Aðstoð við fjármögnun þarf að vera til staðar. Þörf er á "þolinmóðu" fjármagni því arður skilar sér seint. Stundum alls ekki.

6) Mikilvægt er að taka vel á móti öllum hugmyndum og vinna úr þeim. Notagildið blasir ekki alltaf við við fyrstu sýn. 

7) Vefurinn er allra góðra gjalda verður, en ekki má treysta of mikið á hann þar sem vefsíður í dag skipta jafnvel hundruðum milljóna. Vefsíður þurfa fyrst og fremst að hafa upplýsingagildi, vera aðgengilegar og skýrar.

8) Auðvitað kostar svona aðstoð mikið fé. Þetta fé þarf að miklu leyti að koma frá hinu opinbera og þar mega menn ekki vera nískir. Verið er að byggja upp nýja Ísland.

9) Muna að þeir fiska sem róa. Ekki aðrir. Ekki gefast upp þó á móti blási um tíma.

 

 

En...,   ýmislegt er þegar fyrir hendi, meira en margir vita af:

 

  • Nýsköpunarmiðstöð Íslands er með vefsíðuna www.nmi.is
  • Impra  er miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og lítil fyrirtæki. Impra er deild innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hefur skrifstofur í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði og Vestmannaeyjum. Hjá Impru er á einum stað hægt að leita aðstoðar um allt sem við kemur viðskiptahugmyndum og almennum rekstri fyrirtækja. Hægt er að leita til sérfræðinga á ýmsum sviðum um leiðsögn og upplýsingar varðandi mismunandi þætti hugmynda og reksturs. Jafnframt eru gefin út leiðbeiningarit og fylgst náið með því sem er að gerast hérlendis og erlendis fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. (Af vefsíðu Impru). Sjá hér.
  • Innovit er sjálfstætt starfandi nýsköpunar- og frumkvöðlasetur fyrir kraftmikið og metnaðarfullt fólk með góðar viðskiptahugmyndir. Megináhersla er lögð á að styðja við háskólamenntaða frumkvöðla og sprotafyrirtæki sem verða til innan íslenskra háskóla. Í því skyni hefur Innovit gert samstarfs- og þjónustusamninga við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst sem tryggir nemendum skólanna aðgang að þjónustu Innovit endurgjaldslaust, allt frá því að nám hefst og þar til fimm árum eftir útskrift. (Af vefsíðu Innovit). Innovit er með vefsíðuna www.innovit.is
  • Sprotafyrirtæki innan Samtaka iðanaðains. Sjá www.si.is  Hjá Samtökum iðnaðarins eru nokkrir starfsgreinahópar. Einn þeirra nefnist Sprotafyrirtæki. Hægt er að tengjast vefsíðu Sprotafyrirtækjahópsins hér.
  • Klak - Nýsköðunarmiðstöð atvinnulífsins er með vefsíðuna www.klak.is
  • Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er með vefsíðuna www.nsa.is.
  • Frumkvöðlasetur Austurlands er með þessa vefsíðu.
  • Frumkvöðlasetur Norðurlands er með þessa vefsíðu.
  • Frumkvöðlasetur Vesturlands er með þessa vefsíðu.

Fleiri ... ?

 

Undanfarið hefur oft verið minnst á "finnsku leiðina".  Á Íslandi erum við miklu betur undirbúin en Finnar voru á sínum tíma. Við eigum mörg stuðningsfyrirtæki og stofnanir, en það þarf að veita þeim meiri styrk og kraft án tafar. Þannig gætum við lyft Grettistaki á skömmum tíma.

 

 samsett_mynd1-_lit-_bla.gif

 

 

Hálfrar aldar gamalt sprotafyrirtæki:

Anticoincidence Scaler. Vandaður geislamælir.Hugsanlega vill einhver skoða sögu gamla frumkvöðla- eða sprotaftrirtækisins RT-Rafagnatækni sem er hér. Þar kemur fram hvað menn hafa verið að bralla á Íslandi í hartnær hálfa öld, þ.e. á sviði rafeindatækninnar. Þar kemur einnig fram hvernig svona fyrirtæki getur þróast með tímanum.

 Litla myndin: "Fyrsta verkefnið (1961) var framleiðsla á mjög vönduðum geislamælum (Anticoincidence Counter), líklega þeim nákvæmustu sem völ var á í heiminum, en þeir gerðu greinarmun á geislum frá sýninu og truflandi geimgeislum..."    Meira úr sögu fyrirtækisins hér.

Bloggarinn biðst forláts á hve textinn er tæknilegur sums staðar og þess ekki alltaf gætt að nota góða íslensku. Hann ber þess merki að vera að mestu afrit af erindi sem haldið var á 40 ára afmæli fyrirtækisins með myndasýningu.

 

Sagan sýnir hvað hægt var að gera fyrir hartnær hálfri öld. Nú er allt miklu auðveldara og því eru tækifærin mörg. Stuðningur við sprotafyrirtæki er töluverður, eins og fram kemur hér að ofan.

Framtíðin er björt ef við vinnum úr málum okkar af skynsemi. Munum bara að sígandi lukka er best og að bjartsýni er bráðnauðsynleg Smile

Sýnum nú hug, djörfung og dug....

    

--- --- ---

 

Marel hefur einbeitt sér að hátæknibúnaði fyrir  matvælaiðnaðinn.  Saga Marels.

 

Verum bjartsýn!




Verður atgervisflótti frá Íslandi innan skamms? Framtíð þjóðarinnar er í húfi.

 

 

 

Ráðamenn þjóðarinnar virðast ekki hafa látið sér detta í hug að ef ætlunin er að skrifa upp á óútfylltan tékka til að mæta kröfum Icesafe reikningseigenda og annarra mun verða mikill atgervisflótti frá Íslandi. Unga fólkið vill ekki láta varpa sér, börnum sínum og barnabörnum í myrkur fátæktar og örbirgðar um ókomin ár.

Hér er menntunarstig unga fólksins mun betra en víða annars staðar. Fólk mun því ekki eiga í erfiðleikum með að hefja nýtt líf erlendis.

Þar sem mun færri og tekjulægri verða eftir á skerinu verður greiðslubyrðin mun þyngri hjá þeim sem eftir verða. Hverjir verða eftir?  Fyrst og fremst eldra fólk. Getur það staðið undir afborgunum? Auðvitað ekki.

Það er því deginum ljósara: Við megum ekki með nokkru móti skuldsetja okkur umfram það sem lög segja til um. Annars blasir landauðn við. Svo einfalt er það.

Ráðamenn: Gerið ekkert af fljótfærni. Hugleiðið afleiðingarnar. Skoðið lagagrundvöllinn rækilega áður en samningar sem eru í bígerð verða endanlegir, eins og  Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður benda á.

 

Framtíð þjóðarinnar er í húfi.

 

"Í OPINBERRI umræðu kemur fram að íslensk
stjórnvöld séu langt komin að semja við Breta og
Hollendinga um mörg hundruð milljarða króna
skuldbindingar vegna starfsemi útibúa Landsbanka
Íslands í þeim löndum. Við undirritaðir
teljum nauðsynlegt að lagagrundvöllur sé skoðaður
rækilega áður en slíkir samningar verða endanlegir."

Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður í Mbl. 15. okt.

 


Nauðsyn þess að vera bjartsýnn og jákvæður...

 

 

 

Nú þegar innviðir þjóðfélagsins hafa verið að hrynja er mikilvægt að hugsa til þess hve vel við stöndum að mörgu leyti.  Reyna að hugsa jákvætt um framtíðina.  Óvissan nagar marga og því er mikilvægt að standa saman. Sýna vináttu og hlýhug. Hjálapst að.  Öll él birtir upp um síðir, en það getur tekið tíma. Ljósið er þó framundan.   


Við eigum gott land með miklum auðlindum sem bíða þess að verða nýttar.  Auðvitað verður að stíga varlega til jarðar og gæta þess að skemma ekki náttúruverðmæti, en jafnframt er nauðsynlegt að reyna eftir fremsta megni að setja af stað arðbær verkefni til að reyna að fá hjól atvinnulífsins til að snúast. Nú verðum við öll að líta í kringum okkur og leggja höfuðið í bleyti. Verðum að vera samtaka. Margt smátt gerir eitt stórt. Saman getum við komist yfir erfiðleikana, en við megum alls ekki missa móðinn.

Menntun Íslendinga er með því besta sem gerist í heiminum. Íslendingar eru áræðnir og duglegir. Hugmyndaríkir og skynsamir. Hvernig væri að reyna að safna saman hugmyndum um hvað gera má til að flýta fyrir batanum?

Bloggarar eru með gott tæki til að skiptast á hugmyndum og koma þeim á framfæri. Notum hugmyndaflugið. Ræðum hugmyndir og úrræði.  Munum að orð eru til alls fyrst.

Framundan er álver á Reykjanesi og jafnvel annað á Bakka. Til að knýja þau þarf að virkja jarðvarma og vatnsföll. Nauðsynlegt er að sjá til þess að Íslendingar njóti forgangs við framkvæmdir. Ekki veitir af. Hver veit nema þessar tvær framkvæmdir geti hjálpað verulega til að komast yfir erfiðasta hjallann.

Örugglega er hægt að koma auga á margt annað sem gera mætti, þó það sé ekki eins stórt í sniðum. Margt smátt gerir eitt stórt. Stundum mjög stórt.

 

Bjartsýni:

Frábært efni í Spegli RÚV:

Viðtal  við skynsama og bjartsýna menn. Smella hér til að hlusta.

Jón G. Hauksson ritsjóri Frjálsrar verslunar: Veröldin eins og hún var nýlega, og ráðleggingar um hvernig við endurreisum viðskiptalífið og komumst út úr kreppunni. Lífið heldur áfram...

Gylfi Magnússon  dósent í hagfræði við HÍ:  Jafnvægi á gjaldeyrismarkaði gæti komist á innan nokkurra daga og lífið í svipað horf eftir fáein ár. Líf í heilbrigðara hagkerfi þar sem fáeinir auðmenn ráða ekki yfir stórum hluta efnahagslífsins...

 

Sjá einnig gott viðtal við Benedikt Jóhannesson og Gylfa Magnússon í Kastljósinu 9. okt. hér.

 

Sjá:

Vefur BBC News:
What happened to Iceland?
Jon Danielsson
Economist, Financial Markets Group, London School of Economics 

 

Sjá grein Ágústs Valfells á Silfri Egils:  Viðreisn

 

Verum bjartsýn og dugleg. Það skiptir mestu máli. 


Stjörnufræðivefurinn. Áhugaverður vefur fyrir almenning.

stjornufraedivefurinn.jpg

 

Það er full ástæða til að benda á mjög áhugaverðan vef um stjörnuskoðun og stjörnufræði fyrir áhugamenn og almenning. Vefurinn nefnist Stjörnufræðivefurinn og vefslóðin er

 www.stjornuskodun.is

 

 

Sjá einnig vef Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness

www.astro.is

Félagar koma alls staðar af landinu, enda er þetta eina stjörnuskoðunarfélagið.

 

 hringthokan.jpg

Ring Nebula (M57).   Hringþokan í Hörpunni
Sjá umfjöllun á Stjörnufræðivefnum


Frábær fyrirlestur undrabarns um fjórðu víddina, strengjafræði og tilraunirnar hjá CERN ... Myndband

brian_greene.jpgLangar þig að vita hvers vegna menn leggja svona gríðarlega mikið á sig við öreindarannsóknir og eru tilbúnir að verja 500 milljörðum króna í vélbúnað sem 5000 vísindamenn munu koma að? Það hlýtur að vera eitthvað stórmerkilegt að gerst.

Er þetta eitthvað sem er ofar skilningi okkar  sem ekki eru öreindafræðingar? Er þetta eitthvað sem hlýtur að vera ómögulegt að skilja? Nei, ekki aldeilis.

Brian Greene er prófessor í eðlisfræði og stærðfræði við Columbia háskólann í Bandaríkjunum. Hann er einnig frábær fyrirlesari og á auðvelt með að segja frá þannig að allir skilji. Jafnvel ég og þú. Hann er einn þekktasti öreindafræðingur samtímans, en hann er sérfæðingur í svokallaðri strengjafræði. Undrabarn sem fór 12 ára gamalt í Columbia háskólann til að nema stærðfræði.

Í fyrirlestrinum á myndbandinu lýsir hann á auðskilinn hátt þeim örsmáa undraheimi  sem vísindamenn um allan heim eru að reyna að skyggnast inn í með hjálp öreindahraðalsins í CERN. Eftir aðeins fáeinar mínútur erum við mikils vísari um þennan heim þar sem víddirnar eru ekki aðeins þrjár, og jafnvel ekki fjórar, heldur tíu! 

Betri fyrirlesari en  Brian Greene er er líklega vandfundinn. Hann er þekktur fyrir að fræða almenning um fræðilega eðlisfræði, m.a. í sjónvarpsþáttum.

 Það væri frábært ef sjónvarpið tæki til sýninga eitthvað af þáttum hans.

 

 

Úr Wikipedia:

Brian Greene (fæddur 3. febrúar 1963) er eðlisfræðingur og einn þekktasti strengjafræðingur heims. Hann hefur verið prófessor við Columbia-háskóla síðan árið 1996. Greene, sem fæddur er í New York var undrabarn í stærðfræði. Hæfileikar hans voru slíkir, að 12 ára gamall hlaut hann einkakennslu hjá stærðfræðiprófessor við Columbia-háskóla þar sem hann hafði þegar farið langt fram úr allri framhaldsskólastærðfræði. Árið 1980 innritaðist Greene í Harvard-háskóla til að leggja stund á eðlisfræði og síðar nam hann við háskólann í Oxford á Englandi.

Bók hans The Elegant Universe: Superstrings, Hidden Dimensions, and the Quest for the Ultimate Theory var til þess fallinn að vekja áhuga á strengjakenningunni og M-kenningunni. Hún var útnefnd til Pulitzer verðlauna í flokki bóka sem ekki teljast til skáldsagna. Bókin varð síðar viðfangsefni sjónvarpsþátta á PBS sjónvarpstöðinni þar sem Greene var sögumaður. Seinni bók hans The Fabric of the Cosmos fjallar um tímarúm og eðli alheimsins.

Brian Greene hefur einnig komið að leiklist, t.a.m. var hann leikaranum John Lithgow til aðstoðar vísindalegan texta í sjónvarpsþáttaröðinni 3rd Rock from the Sun og kom einnig fram sem aukaleikari í myndinni Frequency. Nýverið var hann einnig til ráðgjafar við kvikmyndina Deja Vu sem fjallar um tímaflakk og inniheldur hugtök úr fræðilegri eðlisfræði.

 

 

Vísindavefurinn: 
Getur rúmið sem við hrærumst í haft fleiri víddir en þær þrjár sem við eigum að venjast?

 

Frábær myndbönd með Brian Greene:

The Elegant Universe
Þessa þætti væri gaman að sjá í sjónvarpinu, en þetta eru bara sýnishorn á vefsíðu Public Broadcasting Service (PBS).

 

Í fullri lengd er hægt að sjá á Google  The Elegant Universe - Part I Einsteins Universe

og  The Elegant Universe-Part.II-Strings Theory

 

 

(Ath. Á álagstímum eru oft miklir hnökrar í YouTube. Það hjálpar að setja SpeedBit Video Accelerator í tölvuna. Ókeypis hér).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 87
  • Frá upphafi: 762576

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 68
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband