Lífrænir OLED flatskjáir eru betri en LCD og Plasma!

113193Allir þekkja flatskjána vinsælu, ýmist Plasma eða LCD. Þeir þykja ofur glæsilegir, enda ekki nema nokkrir sentímetrar á þykkt. Getur verið að þeir séu að vera úreltir? Líklega.

Ný tækni er að ryðja sér til rúms. Í skjáinn eru notaðar "lífrænar" ljósdíóður  svokallaða OLED = Organic Light Emitting Diode. Sjónvörp sem nota þessa tækni kallast því OLED-TV, eða "sjónvörp með lífrænum ljósdíóðum".

Kostir: Lítil til aflnotkun, björt mynd, kontrast-hlutfall 1.000.000 : 1, (1000 sinnum meira en LCD), og sjónarhorn er miklu víðara en á venjulegum flatskjám. Þeir eru næfurþunnir, svo þunnir að jafnvel má rúlla þeim upp, eins og sjá má á myndinni. Þeir eru um 10 sinnum þynnri en hefðbundnir flatskjár, þ.e. þegar þeir eru komnir bak við gler í ramma.  Upplausn á að geta verið þrefalt betri en á LCD skjám, þeir eru hraðvirkari og þeir eru ódýrari í framleiðslu. 

flex1Líftími OLED hefur verið vandamál, en nú eru menn vonandi að ná tökum á því. Þess vegna megum við búast við að sjá þessa nýju tækni bráðlega í farsímum, fartölvum og næfurþunnum sjónvörpum. Á sýningunni International CES 2008 mátti sjá nokkra raunverulega flatskjái sem frumgerðir (sjá myndskeið hér fyrir neðan) sem fara vonandi í framleiðslu innan skamms.

Mun bók framtíðarinnar líta út eins og á myndinni hér til hliðar? OLED skjánum er rúllað af hólknum sem inniheldur þúsundir bókatitla í minni sínu? Papyrus kefli Egypta hinna fornu koma óneitanlega í hugann... Þau voru vissulega lífræn Wink

 

Nú er það spurning. Er rétt að bíða? Eitt er víst, OLED sjónvörp eru að koma á markaðinn. Sjálfsagt líða fáein ár þar til verðið verður samkeppnishæft við LCD  skjái, en tíminn er undur fljótur að líða. Gefum okkur 5 ár þar til þau koma á markaðinn í ýmsum stærðum og önnur 5 þar til þau verða ódýrari en þau sem við þekkjum í dag....

Gamla feita góða Grundig 28" sjónvarp bloggarans verður látið duga þar til OLED verður komið á markaðinn og verðið viðráðanlegt.... 

Við lifum svo sannarlega á spennandi tímum. Lífræn sjónvörp, sem eru miklu betri en LCD og Plasma, verða stöðutáknið innan fárra ára ... Smile

 

Hér er tækninni lýst.


123
 
27" flatskjárinn er ekki nema 3 mm á þykkt! Frá sýningunni CES 2008.
 
 
 
 
Cnet júní 2007 (spáir 3-6 ára bið): Should you wait for an OLED TV? 
 
 
 

Stjórnklefinn í Airbus A380 og Batman

 

 Skrifstofan í Airbus A380 er hlaðin tölvubúnaði. En hvar eru hefðbundnu stjórntækin?
 

Í þessum pistli eru borin saman tvenns konar flug, flug með einni fullkomnustur flugvél nútíamns og  flug nútíma mannlegra leðurblaka, svokallaðra mannblaka ........ W00t

Í Airbus A380 notar flugmaðurinn stýripinnann til að senda boð til stjórntölvunnar. Tölvan metur boðin og sendir skeyti til útstöðva sem eru í vængjum og stéli. Þaðan fara svo boðin til rafmótora sem framkvæma þær hreyfingar á vængbörðum sem tölvan ákveður með hliðsjón af óskum flugmannsins. Það er sem sagt tölvan sem flýgur flugvélinni.

Á bernskudögum Airbus áttu þær til að taka völdin af flugmönnunum og reyna loftfimleika.  Flugmennirnir voru þá nánst bara áhorfendur og sáu jafnvel stýripinnann og bensíngjöfina hreyfast eins og ósýnileg hendi héldi þar um.  Svo segir sagan, en er hún sönn? Þetta eiginlega ekki flugvél heldur flugtölva.  Þetta er víst framtíðin. Öllu stjórnað af gervigreind með silikon heilum í tölvum, og silikon fylltar flugfreyjur, eða silikonur, stjana við okkur farþegana. Ætli það sé langt þar til stjórnklefinn verður mannlaus?  ...  "This is your pilot speaking. My name is IBM ..."


 

Algjör andstaða við þennan tölvuvædda stjórnklefa er flug mannblakana Devil sem Ragnar Ágústsson kallar svo á bloggsíðu sinni, og er þá líklega með leðurblökur í huga.  Þessir menn geta varla verið með fullum fimm, eða hvað finnst þér? Úff...Pinch






Batman eða Mannblaka á flugi ?
 
  

Má bjóða þér inn í stjórnklefann í Airbus A380?

Hér er frábær panoramamynd af stjórnklefanum. Notið stjórntækin neðst á myndinni til að færa til myndavélina; upp, niður og allt um kring.

 

Hvort skyldi vera meira spennandi; sitja við tölvuskjáinn í A380 eða skjótast í leðurblökulíki meðfram klettaveggjunum?

Hvorir eru meiri flugmenn, flugstjórar Airbus eða mannblökurnar? 

 

 

Ítarefni um Airbus A380 fyrir tæknisinnaða:

Airbus Fly-by-Wire aircraft at a glance.   


 

Nauðsynlegt tæki fyrir bankastofnanir og bloggara...

Bloggarinn frétti á skotspónum að fjármálastofnun ein sé að fjárfesta í svona tækjum fyrir starfsmenn sína til að halda þeim í góðri líkamlegri þjálfun. Þetta kvað vera hugsað til að mæta hinu gríðarlega álagi á starfsmennina sem þróunin á fjármálamörkuðum hefur valdið undanfarið. Kemur í veg fyrir að þeir sofni í vinnunni eftir andvökunætur þar sem þá dreymir skuldatryggingaálag, stýrivexti og verðbólgudrauginn. Viðskiptavinir munu taka eftir að starfsmennirnir verða mun líflegri og starfssemin mun iða öll eftir að þessi nýja tækni verður tekin í notkun. 

Af samkeppnisástæðum má að sjálfsögðu ekki upplýsa meira um málið, en þetta ætti allavega að hrissssta aðeins upp í fólki. 

Er þinn vinnustaður að hugleiða fjárfestingu í svona búnaði?  

Svo væri auðvitað gráupplagt fyrir bloggara að ná sér í svona heilsuræktartæki Wink

Nánari upplýsingar um undratækið eru hér.  Kostar $290.   Ég yrði nú örugglega fljótt sjóveikur Shocking

 

 
Fyrst hélt ég þetta hlyti að vera grín, en svo virðist ekki vera Tounge
 
 
 
Það er allavega ekkert grín að sitja í svona stól Shocking

Tunglmyrkvinn aðfararnótt fimmtudagsins 21. febrúar

Tunglmyrkvi
 
 Ótrúleg litadýrð.
Takið eftir hvernig tunglið er greinilega hnattlaga en ekki bara flöt skífa eins og venjulega. Það virðist svífa um meðal stjarnanna sem ekki sjást að jafnaði vegna glýju.
 
 
Nú styttist í almyrkva á tungli, en þann 21. febrúar verður tunglmyrkvi sem mun sjást um miðja nótt frá Íslandi.
 
Almyrkvinn verður á milli kl. 3:01 og 3:51 aðfararnótt fimmtudagsins, eða "mjög seint á miðvikudagskvöld". Tunglið byrjar að ganga inn í alskugga jarðar kl. 1:43 og hefst þá deildarmyrkvi. Smám saman breytist deildarmyrkvinn í almyrkva eins og sést á myndinni neðst á síðunni.
 
Almyrkvi á tungli getur verið mikið sjónarspil ef vel viðrar. Með hefðbundnum handsjónauka nýtur maður hans mun betur en með berum augum, en hann getur verið mjög tilkomumikill jafnvel þó maður hafi ekki sjónauka við hendina.
 
Við almyrkvann tekur tunglið á sig undarlegan roða. Litbrigðin geta verið undurfögur, og ásýnd mánans virðist breytast frá því að vera hringlaga flöt skífa á himninum yfir í þrívíða dimmrauða kúlu sem svífur á milli stjarnanna. Stjörnur, sem áður voru ósýnilegar vegna glýju frá tunglinu, koma í ljós og tindra umhverfis fylgihnött jarðar sem skartar sínu fegusta og svífur um himinfestinguna í allri sinni dýrð.  Myndin hér fyrir ofan gefur vonandi hugmynd um hvað í vændum er.
 
Hugsum okkur að við verðum stödd á tunglinu aðfaranótt fimmtudagsins. Þar eru engin ský sem geta byrgt útsýnið og þar er engin ljósmengun. Hvernig myndum við þá upplifa myrkvann?  Það sést á neðri myndinni, sem er reyndar samsett úr mynd sem tekin var af jörðinni frá tunglinu og mynd af sólmyrkva. Auðvitað er þetta sólmyrkvi sem karlinn í tunglinu sér ásamt okkur ef við værum í fylgd hans, því jörðin skyggir á sólina. Meira um þessa mynd á vefsiðunni Astronomical Picture of the Day.

 

Solmyrkvi_a_tunglinu
 
Karlinn í tunglinu sér ægifagran sólmyrkva sem líkist demantshring.
Það er ljósbrotið í lofthjúp jarðar, sem myndar krans umhverfis jörðina, sem lýsir upp tunglið meðan á almyrkvanum stendur. Það má því segja að það sé baðað í geislum sólar sem er undir sjóndeildarhringnum.
En hvers vegna er hann rauður? Svarið kemur á óvart: Rauði litur mánans stafar af því að allir morgunroðar og kvöldroðar jarðar lýsa hann upp samtímis !   Rómantískara gæti það ekki verið
InLove
 
Þegar rétt sést í sólina, eins og á myndinni, er talað um demantshring. Svona undurfagran demantshring er bara hægt að sjá þegar sólmyrkvi er, en ekki tunglmyrkvi. Nánar hér.
 
 TLE2008Feb21-GMT copy
 
  Hér má sjá hvernig tunglið gengur inn í skugga jarðar
 
  • Deildarmyrkvi hefst: 1:43

  • Almyrkvi hefst: 3:01

  • Miður myrkvi: 3:26

  • Almyrkva lýkur: 3:51

  • Deildarmyrkva lýkur: 5:09

 
Meira um tunglmyrkvann: 
 
 

Paganini: Kaprísa No 24, Shlomo Mintz & Alison Balsom. Töfrum líkast.

paganiniHér eru tvö myndbönd með frábærum tónlistarmönnum sem leika Kaprísu #24 eftir Nikkoló Paganini.

Hinn heimsþekkti fiðluleikari Shlomo Mintz leikur á fiðlu, en Alison Balsom leikur þetta erfiða verk af einstakri snilld á trompet.

Það er gaman að hlusta á þessa tvo snillinga flytja þetta stórfenglega verk. Auðvitað er frábært að hlusta á fiðluleikinn, en þegar verkið er leikið á trompet verður maður einfaldlega heillaður.

 

Shlomo Mintz er einn þekktasti fiðluleikari heims í dag. Hann stundaði nám m.a. hjá Isaac Stern og hóf einleikaraferil sinn 11 ára gamall með Fílharmóníusveitinni í Ísrael og stuttu síðar var hann beðinn um að hlaupa í skarðið fyrir Itzhak Perlman í Paganini Fiðlukonserti nr. 1  undir stjórn Zubin Metha.  Hann hefur nú í fjóra áratugi ferðast vítt og breytt um heiminn bæði sem hljómsveitarstjóri og fiðluleikari og haldið ótal tónleika í öllum þekktustu tónleikasölum heims.

Í tilefni fimmtugsafmælis síns þann 30. október á síðasta ári ákvað hann að fara í tónleikaferð um heiminn með Kaprísur Paganinis í farteskinu, en hann hélt tónleika hér á landi fyrir skömmu. (Af vef Midi.is).

 

Breski trompetleikarinn Alison Balsom er sannarlega ein af rísandi stjörnum hins klassíska tónlistarheims. Hún stundaði nám við Guildhall tónlistarskólann og Konservatoríið í París, auk þess sem hún sótti einkatíma hjá hinum þekkta sænska trompetleikara  Håkan Hardenberger. Árið 2006 hlaut hún titilinn „besti breski tónlistarmaður ársins“ á klassísku Brit-Awards verðlaunahátíðinni og sama ár fékk hún hlustendaverðlaun Klassísku FM-stöðvarinnar á Gramophone verðlaunaafhendingunni. Hún komst í úrslit keppninnar „Ungur einleikari ársins“ árið 1998 og kom í kjölfarið fram með öllum hljómsveitum BBC. Hún hlaut verðlaunin „Rísandi stjarna ársins“ á Echo Klassik-hátíðinni 2007.

Alison Balsom hefur m.a. komið fram sem einleikari með Fílharmóníuhljómsveitinni í Los Angeles, Parísarhljómsveitinni og Ensku kammerhljómsveitinni. Árið 2006 lék hún á lokakvöldi Proms-tónlistarhátíðarinnar sem þykir mikill heiður. Balsom er á samningi við EMI útgáfufyrirtækið og hefur leikið inn á þrjár geislaplötur og fengið afar lofsamlega dóma fyrir leik sinn. Hún var nýlega skipuð gestaprófessor í trompetleik við Guildhall-tónlistarskólann í Lundúnum.  Hún lék með Sinfóníuhljómsveitinni 25. október síðastliðinn. (Af vef Sinfó).

 

Blogg um tónleikana frá 26. október s.l.  Alison Balsom trompetleikari með Sinfóníuhljómsveitinni.

Nokkur myndbönd með Alison Balsom á blóggsíðunni hér


 
Fiðluleikarinn Shlomo Mintz ungur að árum. Gamalt VHS myndband.
 
 

 

 

 
Trompetleikarinn Alison Balsom.

Snögg kólnun jarðar í janúar

London 1814.
 
Hefðbundnar mælingar á meðalhita lofthjúps jarðar sýna að janúar hefur verið mjög kaldur. Skýrir það væntanlega kuldakastið sem frést hefur af víða um heim.  Kaldasti mánuður síðan 1995. Ferillinn hér fyrir neðan er teiknaður samkvæmt þessum gögnum frá NASA GISS. Sama er upp á teningnum þegar mæligögn frá gervihnöttum eru skoðuð. Myndin sýnir mánaðameðaltöl frá árinu 1978.
 
Takið eftir hvernig ferillinn steypist niður við hægri jaðar myndarinnar.  Fróðlegt verður að sjá hvernig framhaldið verður. Vafalítið stafar þetta hitafall af fyrirbærinu La Niña í Kyrrahafinu. Frá árinu 1995, þegar kaldari mánuður en sl. janúar mældist, hafa verið þrjú La Niña tímabil; 1995-1996, 1998-2000 og 2000-2001.
 
Vonandi er þetta ekki fyrirboði þess að langtíma kólnun sé framundan. Það er eðli El Níño og La Niña fyrirbæranna að þau geta ekki staðið yfir nema tiltölulega fáeina mánuði (eða sárafá ár) í senn. Til eru náttúrulegar sveiflur í hitafari jarðar sem standa yfir í mörg ár eða áratugi. Vel þekkt eru kuldatímabil sem komu á meðan á "Litlu ísöldinni" stóð og eru tvö þeirra kennd við lágmörk í virkni sólar sem nefnd eru Maunder minimum (1645-1715) og Dalton minimum (1790-1830).  Myndin efst á síðunni er einmitt frá London meðan á Dalton minimum kuldatímabilinu stóð.
 
Þegar er farið að spá svona lágmarki í virkni sólar á næstu áratugum og hafa sumir tímastett lágmarkið árið 2030. Þetta eru auðvitað fyrst og fremst stjarneðlisfræðingar sem telja sig þekkja dynti sólar. Þeim kemur þó ekki saman um hvort því muni svipa til Maunder eða Dalton, en mun kaldara var meðan á því fyrrnefnda stóð.
 
Sólsveifla #24 er um það bil að sjá dagsins ljós. Þó ekki byrjuð. Sólin er búin að vera undur friðsæl undanfarið og lengd sólsveiflu #23 þegar komin ár fram yfir meðaltalið sem 10,7 ár. Miðað við söguna getur það bent til hratt minnkandi virkni sólar á næstu árum. Enginn veit þó hvað verður, en einn þeira sem spáði fyrir um lágmark árið 2030, Dr. Theodor Landscheidt (1927-2004) sagði aðspurður í tölvupósti til undirritaðs um aldamótin að væntanlega yrðum við orðin vör við kólnun áður en þessi áratugur er liðinn. Sjá vangaveltur hér og hér. Sumir eru virkilega farnir að hafa áhyggjur. Sjá hér.
 
 
Við skulum vona að þetta sé bara La Niña í Kyrrahafinu sem er að stríða okkur. Það er lang líklegast.
 
 
GISSglobal-jan2008-600w
 Hitaferill GISS frá desember 1978 til janúar 2008.
Takið eftir hitafallinu lengst til hægri. 
 
 
 
Willie Soon og  Steven H Yaskell: Year Without a Summer. Góð grein.
 
David Archibald: The Past and Future of Climate. PowerPoint. 
 

Aðferð til að losna við truflandi auglýsingar

UptownHeraldAd_small-BÁ ýmsum vefsíðum, sérstaklega fréttasíðum, er mikill fjöldi blikkandi auglýsinga til ama. Auðvitað eru auglýsingar nauðsynlegar og óþarfi að amast við þeim, en þær verða þá að vera þannig úr garði gerðar að þær trufli ekki viðkomandi. Hugsið ykkur hvernig dagblöðin væru ef önnur hver auglýsing þar væri blikkandi og á sífelldu iði. Margumrædd auglýsing á bloggsíðunni stuðar mig lítið þar sem ég get einfaldlega mjókkað gluggann þannig að auglýsingin hverfi, ef mér sýnist svo.

 Ég hef um alllangt skeið notað forritið Adblock Plus sem hægt er að tengja Firefox vafranum. Það er hægt að kenna forritinu að þekkja auglýsingarnar og fjarlægja þær, en þar sem nýjar auglýsingar birtast daglega þarf sífellt að endurþjálfa Adblock Plus, og vafasamt hvort maður nenni að standa í því.

Leiðbeiningarnar hér fyrir neðan tók ég saman um daginn fyrir fjölskyldumeðlim. Þó svo að í dæminu sé minnst á fréttasíðu Morgunblaðsins, þá er það alls ekki illa meint og hef ég fullan skilning á nauðsyn auglýsinga í nútímaþjóðfélagi. Það er þó þetta sífellda blikk sem angrar mig stundum og gerir það að verkum að ég reyni að forðast að líta á þannig auglýsingar. Trúlega er það misskilningur hjá auglýsendum að telja að blikkandi  auglýsingar séu betri. Ég held að því sé öfugt farið.

Hér eru tvær aðferðir sem hægt er að prófa: 

---

Microsoft Internet Explorer (Ekki er mælt með þessari aðferð þar sem hún truflar t.d. YouTube):

Fara í Tools og síðan  Manage- Add-ons, þar næst  Enable/Disable Add-ons þá er hægt að finna Shockwave Flash Object. Í listanum.   Merkja það með því að smella á Shockwave Flash Object og velja síðan Disable.

Nú ættu blikkandi Flash auglýsingar eins og xxxx að hverfa.

 

Þetta  virkar  Microsoft Internet Explorer en ég hef ekki enn fundið samsvarandi fyrir Firefox.

---

Firefox:

Setja inn forritið Adblock Plus sem slekkur á auglýsingunni í Firefox. Ekki bara Flash auglýsingum.

Forritið er ókeypis hér http://adblockplus.org/en/installation

Það slekkur bara á auglýsingum sem búið er að kenna forritinu að slökkva á. Það er hægt að kenna því að slökkva á öllum auglýsingum, þannig að t.d. www.mbl.is verður miklu læsilegra.

Þegar forritið er komið inn í Firefox sét rauður ikon efst til hægri: (ABP).  Þegar smellt er á hann opnast gluggi neðst með lista yfir allar síðueiningarnar. Þar á meðal eru leiðinlegu auglýsingarnar.

Auglýsingarnar má þekkja á því að inni í nafninu stendur  …/ augl /… eða að nafnið endar á .swf.   Til dæmis:

http://www.lbm.is/ augl /files/85/ad_8529_4346.swf

Hægri-smella á þennan textastreng og velja "Block this item". Gera þetta við allar auglýsingarnar og velja síðan [Apply] í glugganum sem opnast.

Auglýsingarnar ættu að hverfa. Þessu þarf að halda aðeins við ef nýjar auglýsingar birtast.

---

Reynsla mín af þessu fikti með AdblockPlus er að maður nennir varla að standa í þessu stússi að vera sífellt að endurþjálfa forritið.  Reynir bara að láta blikkið ekki pirra sig. Til lengdar er það besta aðferðin.

13.2.2008: Ýmsar gagnlegar upplýsingar hafa komið fram í athugasemdunum. Ég er nú með tvo filtera í Adblock Plus:   */augl/*   og   *visir.is/ads/*  .   Nú er allt "sjálfvirkt". Ekkert stúss við endurþjálfun.   Filterinn er hægt að setja inn með því að smella á litlu píluna hægra megin við rauða (ABP) íkonið efst til hægri í glugganum. Velja þar Preferences og síðan Add Filter.


Sökktu sólblettir Titanic? Grein á vef NOAA - Bandarísku haf- og loftslags- stofnunarinnar.

sunclimate_4Fyrirsögnin  hljómar vissulega fáránlega, en eins og allir vita þá sökk Titanic vegna áreksturs við hafís. En hvernig stóð á hafís á þessum suðlægu slóðum? Grein á vef hinnar þekktu rannsóknarstofnunar NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration)  ber nafnið The Sun-Climate Connection - Did Sunspots Sink the Titanic?

Þar er vísað til þeirrar staðreyndar að hafís var á siglingaleið Titanic á sama tíma og sólblettir voru í lágmarki. Hafís hefur ekki sést þar eftir að virkni sólar fór að aukast og sólblettum að fjölga.   Þessi áhugaverða og auðlesna grein er hér.

Greinin hefst á umfjöllun um hlýnun andrúmslofts á síðustu öld, en hlýnumin er talin vera bæði af völdum náttúrunnar og af mannavöldum. Tveim spurningum er varpað fram:

1)      Af hve miklu leyti er hlýnunin af mannavöldum?

2)      Hvernig hefðu loftslagsbreytingar orðið hefði maðurinn hvergi komið þar nærri?

Til þess að geta svarað fyrri spurningunni verða vísindamenn að hafa svar við seinni spurningunni, segir í greininni.

 

Þar sem sólin er eini hitagjafi jarðar (fyrir utan jarðhitann sem er hverfandi) er augum beint að breytingum í sólinni. Bent er á að yfir eina 11 ára sólsveiflu breytist heildarútgeislun sólar um aðeins 0,1%, en frá 17. öld um 0,5%. (Nú skulum við hafa í huga að sólin hitar jörðina frá alkuli upp í +15° að meðaltali, eða um tæpar 300°. Lítil breyting í orkustreymi frá sólinni getur því haft allnokkur áhrif á hita lofthjúpsins).

sunclimate_2Í greininni kemur einnig fram að þessi 0,1% - 0,5% breyting er miðuð við heildarútgeislun frá sólinni, en miklu meiri breytingar í útgeislun verða í útfjólubláa hluta litrófsins. Þar getur útgeislunin breyst 100 til 1000 falt yfir eina sólsveiflu !   Útfjólubláa ljósið hefur fyrst og fremst áhrif á efstu lög lofthjúpsins.   Sjá myndina hér til hliðar, en hún sýnir hvernig ásýnd sólar breytist á sex ára tímabili þegar hún er skoðuð með myndavél sem er næm er fyrir útfjólubláu ljósi.

Þar sem greinin er skrifuð árið 2001 er ekki fjallað um hinar nýju kenningar Henriks Svensmark um  samspil breytilegrar virkni sólar, geimgeisla, skýja og þar með hitafars. (Sjá bloggið "Byltingarkennd kenning dansks vísindamanns skekur vísindaheiminn....")

 

 

sunclimate_3bÍ greininni frá NOAA er mynd sem sýnir samsvörun milli fjölda sólbletta og hitastigs á síðustu öld. Samsvörunin er sláandi, eins og sést á myndinni hér til hliðar. Rauði ferillinn er fjöldi sólbletta, en blái ferillinn hitastig við yfirborð jarðar.

 

Nú, síðan eftir þessa kynningu víkur sögunni aftur að Titanic árið 1912, en eins og kunnugt er rakst skemmtiferðaskipið á ísjaka sem var á siglingaleiðinni milli Evrópu og Bandaríkjanna. Á þessum árum mátti oft sjá ís á þessum suðlægu slóðum, en hann var mjög varasamur skipum, sérstaklega að nóttu til, því skip voru auðvitað ekki með ratsjá á þeim tíma.

Að sjálfsögðu voru það ekki sólblettirnir sem sökktu Titanic, en líklegt er að rekja megi hina köldu veðráttu sem ríkti þegar Titanic rakst á borgarísjakann langt suður í höfum til lítillar virkni sólar, en fáir sólblettir eru einmitt til marks um það. Með hlýnandi loftslagi (og fjölgandi sólblettum) hætti ís reka þangað suðureftir.

 

Lesendum þessa pistils er eindregið bent á að lesa greinina sem er á vef NOAA hér. Þar er auðvitað fjallað mun betur um málið en í þessari stuttu kynningu.

 Krækjur:

The Sun-Climate Connection - Did Sunspots Sink the Titanic?

NOAA Research 


Íslenska Eldflaugafélagið mun skjóta á loft 2ja þrepa eldflaug í sumar

AIR-203Félagið AIR eða  Amateur Icelandic  Rocketry   stefnir að því að skjóta á loft tveggja þrepa eldflaug síðar á árinu.  Flaugin mun fara  í allt að 5000 metra hæð og ná  allt að  1500 km/klst hraða, sem er vel yfir hljóðhraða.

Fyrir rúmu ári, eða 18. nóvember 2006 var fyrstu eldflaug félagsins skotið á loft á Vigdísarvöllum. Flaugin var 203 cm á hæð og vóg 5,1 kg. Hún fór í 1080 metra hæð og náði 590 km/klst hraða.  

Í samstarfi við félagið hefur Háskólinn í Reykjavík sett á laggirnar nám í eldflaugafræðum.  Þetta er sex eininga kúrs á vorönn sem endar væntanlega á að skotið verður á loft eldflaug sem nemendur og kennarar eru að hanna.

 

Fréttablað félagsins var að koma út. Þetta áhugaverða blað er prýtt fjölda ljósmynda  og er hægt að nálgast það ókeypis hér. Þar er mikinn fróðleik að finna um þetta áhugaverða félag, eldflaugarnar, eldsneyti þeirra, námið í eldflaugafræðum, fyrirhugað eldflaugaskot, o.fl.

 

Félagið er með tvær vefsíður, íslenska www.eldflaug.com og enska www.AIRrocketry.com

 

Að félaginu standa Magnús Már Guðnason og Smári Freyr Smárason. 

 
Árin 1964 og 1965 voru hér á landi franskir vísindamenn sem skutu nokkrum eldflaugum  út í geim, eða í yfir 400 km hæð. Myndir af þeim atburði eru hér.


Bloggað í 10 ár ...

 
 
Fyrir áratug, 1. febrúar 1998, fann bloggarinn hvöt hjá sér til að blogga um mál sem honum var hugleikið. Vandamálið var að enginn blogg-vettvangur eins og Moggabloggið var fyrir hendi, þannig að búin var til vefsíða af fingrum fram. 
 
Aðdragandinn var góður göngutúr í fallegu veðri á nýársdag árið 1998. Leiðin lá úr Garðabænum yfir hraunið upp í Heiðmörk að Maríuhellum. Hugurinn reikaði víða en staldraði við nýársávörp forsætisráðherra og forseta Íslands. Þeir voru svo innilega ósammála varðandi meintar loftslagsbreytingar af mannavöldum að engu tali tók. Á náttborðinu hafði verið tímaritið Sky and Telescope (apríl 1997) með grein sem nefndist "Sunspots that Changed the World" eftir Dr. Bradley E. Schaefer prófessor.
 
apr97cvrGreinin í Sky and Telescope byrjaði á hugleiðingum um það er Eiríkur rauði fann Grænland árið 981 og lokkaði þangað með fallegu nafni landsins 25 skip með Íslendingum til að hefja búsetu þar árið 985. Greinin fjallaði einnig um landafund Leifs heppna í vestri árið 1000 og nokkuð ítarlega um byggð norrænna manna á Grænlandi. Höfundurinn virtist vera vel fróður um sögu norrænna manna.

Hvað varð um þessa byggð er ekki ljóst, en vitað er að veðurfar var óvenju hagstætt frá um 1000-1300, en fór þá snögglega kólnandi. Tímabilið sem fór í hönd hefur verið kallað "litla ísöldin" og hafði kólnandi veðurfar áhrif víða um heim næstu aldir. Svo mikill var kuldinn að áin Thames í Englandi var oft ísi lögð.
 
Greinin fjallaði sem sagt um áhrif breytinga í sólinni á veðurfar. Í göngutúrnum flugu margar hugsanir um hugann. Greinin hafði vakið áhuga minn, en nýársávörpin urðu til þess að í göngutúrnum ákvað ég að setja á blað það sem ég þóttist vita, og það sem ég ætlaði mér að fræðast um á næstu vikum. Teningnum var kastað. Réttum mánuði síðar, 1. febrúar 1998,  var komin vefsíða á netið sem kallaðist "Er jörðin að hitna? Ekki er allt sem sýnist". Vefsíðan var ekki löng í byrjun, en smám saman stækkaði hún og stækkaði þar til hún náði yfir 9 kafla.
 
Vefsíðan er ennþá hér, ef einhver skyldi vilja bera hana augum. Það verður að viðurkennast að henni hefur ekki verið haldið við, þannig að margar krækjur eru dauðar.  Takið eftir að í greininni "§ 16. Ítarefni í öðrum köflum vefsíðunnar..." neðarlega á inngangssíðunni eru krækjur að öðrum köflum vefsíðunnar það sem fjallað er ítarlegar um ýmislegt sem bloggarinn var að pæla í. Þess má geta í lokin, að í upphafi var öll síðan skrifuð með ritlinum Notepad og html-kóðuð handvirkt Smile
 
"Bloggað í 10 ár..." stendur í fyrirsögninni. Jæja, það er kanski aðeins orðum aukið... 
 
 
 
 
Enn eldri síða bloggarans: Gap Ginnunga frá 26.12.1996 (Stjörnuskoðun)

Töluvert yngri síða: Öldur aldanna  (Er jörðin að kólna?) 

 

"The important thing is to not stop questioning." - Albert Einstein 


Hefur þú séð Andromedu?

Andromeda vetrarbrautin er glæsileg. Smella þrisvar á myndina til að sjá stærri mynd. Astronomy Picture of the Day 2008-1-24
 

Andromedu vetrarbrautina má greina með berum augum þar sem ljósmengun er mjög lítil, en hún sést vel með venjulegum handsjónauka sem frekar óskýr hnoðri í Andromedu stjörnumerkinu. Hún er í 2,8 milljón ljósára fjarlægð, þannig að svona leit hún út fyrir 2.800.000 árum! Þarna eru milljarðar sólna og ekki ólíklegt að einhvers staðar sé viti borið líf. Hugsanlega er þar einhver að virða fyrir sér okkar vetrarbraut Halo

Stjörnufræðingar nefna hana oft M31, en hún er svokölluð þyrillvetrarbraut eins og okkar eigin vetrarbraut. Þar eru líklega meira en 400 milljarðar sólna.  Hugsum okkur að aðeins ein sól af milljón hafi reikistjörnu sem líkist jörðinni og að þar hafi líf í einhverri mynd þróast. Í Andromedu væru þá 400 milljón þannig "jarðir".  Auðvitað vitum við nákvæmlega ekkert um þetta, en það er gaman að láta hugann reika. Hugsum okkur aftur að við viljum ná sambandi við einhverja viti borna veru þar og sendum skilaboð með öflugum útvarpssendi. Viðkomandi fær ekki skeytið fyrr en eftir 2,8 milljón ár og við hugsanlegt svar í fyrsta lagi eftir 5,6 milljón ár!  Pinch

Reyndu að koma auga á Andromedu næst þegar þú ert undir stjörnubjörtum himni þar sem ljósmengun er lítil. Þú getur notað stjörnukortið sem er neðst á síðunni til að finna hana.

(Orðið "vetrarbraut" er hér notað fyrir "galaxy" þar sem við eigum ekkert gott íslenskt orð yfir fyrirbærið. Orðið stjörnuþoka er ekki nógu gott því það þýðir eiginlega rykský í himingeimnum. Sjá t.d. myndir af Orion þokunni (Orion nebula) hér.  Orðið stjörnuþoka er einnig oft notað fyrir galaxy og einnig óreglulegar stjörnuþyrpingar).
 

Þegar bloggarinn var að taka mynd af Hale Bopp halastjörnunni í mars 1997 var hann svo heppinn að Andromeda vetrarbrautin var þar nálægt og sést hún neðst til hægri á myndinni.

Á myndinni má einnig sjá aragrúa stjarna sem eru ósýnilegar með berum augum. Filma var Kodak PPF Pro 400 ASA. Linsa 135mm, Ljósop 3,5. Lýsingartími um 2 mínúur. Stjörnuhimninum var fylgt eftir með heimasmíðuðu mótordrifi.

 

haleBopp-andromeda-aurora-crop-saturation-700

 Hale Bopp, Andromeda og norðurljós í mars 1997

 

Andromedu má sjá á stjörnukortinu hér fyrir neðan sem gildir fyrir 4. febrúar 2008 kl. 21.00

Svona kort er hægt að sjá á vefsíðunni Heavens Above

Þetta er mjög áhugaverð vefsíða. Með því að skrá sig sem notanda (Register as an user) og gefa upp stað (Observing site, t.d. Reykjavík) er hægt að sjá stjörnukort fyrir himininn eins og hann er núna, miðað við staðinn sem gefinn er upp.  Ýmislegt fleira forvitnilegt er þar, svo sem upplýsingar um brautir gervihnatta, halastjörnur, o.fl.

Andromeda er mjög hátt á himninum í vesturátt um kl 21.   Auðvelt er að finna stóra "W" stjörnumerkið Cassiopeia, en Andromeda er nánast "undir" W-inu. Ef þú veist hvar pólstjarnan er, þá skaltu draga ímyndaða línu þaðan og í gegn um W og framlengja hana síðan þar til hún sker Andromedu vetrarbrautina. Notaðu venjulegan handsjónauka.

 

Stjornukort

 Myndin efst er frá Astronomy Picture of the Day (APOD)


Ótrúlegt hvað tíminn líður. 50 ár liðin frá geimskoti fyrsta bandaríska gervihnattarins

exp1Launch_msfc_fNú er hálf öld liðin síðan Bandaríkjamenn skutu upp sínum fyrsta gervihnetti Explorer-1, hinn 31. janúar 1958, fáeinum mánuðum eftir að Sovétmenn skutu upp Sputnik-1, 4. október 1957.

Þessi tvö geimskot fyrir hálfri öld mörkuðu upphaf geimaldar og hafa haft miklu víðtækari áhrif en flesta grunar. Án geimferðakapphlaupsins mikla væri margt öðru vísi en í dag.  Atburðurnir höfðu áhrif á stjórnmál, menntamál, vígbúnað og vísindi um allan heim.

Hvernig væri heimurinn án fjarskiptahnatta og veðurtungla?   Væru tölvur eins fullkomnar þær eru í dag? Væru til GSM símar? Hvernig væru samgöngur án GPS staðsetningartækja? Væri heilsugæslan eins góð? Væru til hátækni lækningatæki eins og segulómunartæki?

Það er ljós að geimferðakapphlaupið hleypti nýju blóði í rannsóknir, vísindi og vöruþróun.  Mjög miklar breytingar urðu á kennsluefni í stærðfræði og eðlisfræði og tóku kennslubækur miklum framförum. Bein og ekki síður óbein áhrif hafa vafalítið verið gríðarlega mikil á flestum sviðum daglegs lífs.

 Hér fyrir neðan eru myndbönd sem lýsa þessum atburði vel.

 

Hvaða áhrif telur þú að þessir atburðir hafi haft á daglegt líf okkar? Lífsgæði, heilsufar, efnahag, ...  Fróðlegt væri að fá álit þitt hér.

 
Áður hefur verið fjallað um Sputnik-1, sjá færsluna "Upphaf geimaldar 1957. Spútnik 50 ára í dag 4. október"

 

Sjá einnig vefsíðuna "Geimskot Frakka á Íslandi 1964 & 1965" 

 

 

NASA: Explorer 1 -- JPL and the Beginnings of the Space Age
 
 
 
 
Explorer 1 Launch : 1958-02-01
 
 
 
Bakvið tjöldin 
 

Hvernig er þetta hægt? Ótrúlegt flug!

Á þessu myndskeiði má sjá ótrúlegt flug.  Hvernig er hægt að láta MIG-29 herþotu standa upp á endann rétt fyrir ofan flugbrautina? Hvernig er hægt að láta hana falla eins og laufblað? Hér má sjá makalaust flug lítillar flugvélar sem Ítalinn Sebastiano Silvestri stjórnar. Hann situr þó ekki í flugmannssætiinu heldur stendur á jörðu niðri meðal áhorfenda. Ég skil hann vel, því ekki vildi ég vera um borð í vélinni Crying

 

 

 
 Amazing Vector Thrust MIG Turbine flown by Sebastiano Silvestri
 
 

Hvernig er hægt að fljúga þotunni á þessan hátt?  Lykillinn að leyndarmálinu er auðvitað  búnaðurinn við þotuhreyflana sem sjá má hér fyrir neðan, en það dugir ekki til.  Flugmaðurinn Sebastiano Silvestri er einstaklega fær og flýgur vélinni úr fjarlægð án hjálpar frá mælitækjum og tölvubúnaði.   Hvað ætli svona leikfang kosti? Það mætt prófa að bjóða eigandanum svo sem €35.000
 
 
Mig_1
 
Næmynd af þotunni.
 
 
 
Mig_2
 
Hér sést frágangurinn fyrir aftan þotuhreyflan. Hægt er að beina loftstreyminu á ýmsa vegu (vector thrust) og þannig ná hinni furðulegu flughæfni vélarinnar.
 
 
 
 
Mig_3
 
Hér sjást tveir þotuhreyflar.
 
 
 
Mig_4
 
Flugmaðurinn ásamt flugfreyjunni? 
 

Hellt í glas meðan flugvélin er á hvolfi!

Fjöllin eru íslensk, en hver er flugmaðurinn sem hellir úr flösku í glas meðan flugvélin er á hvolfi? Hann fer létt með það sem Bob Hoover var frægur fyrir.

 

 "Flying a Yak-18T in Iceland and rolling it while pouring a glas of soda"
 

 
Hér er svo Bob Hoover sjálfur sem stundaði það að fljúga listflug á tveggja hreyfla flugvél, en með dautt á báðum hreyflum W00t     

Í lok myndbandsins má sjá gamla manninn hella íste í glas meðan hann veltir vélinni í heilan hring og að vanda er hann búinn að drepa á báðum hreyflunum.  

 
 
 
 
Bob Hoover tribute:
 

Spaugstofan í gær var ósmekkleg

spaugstofanMér fannst Spaugstofan fara yfir strikið í gærkvöld. Ég átti vissulega von á að efniviðurinn væri atburðir undanfarinna daga og hefði hæglega mátt gera góðan þátt, en í gær blöskraði mér. Ólafur átti við veikindi að stríða um skeið en hefur vonandi komist til heilsu.

Vissulega voru góðir kaflar í Spaugstofunni, en oft var farið yfir strikið. Við verðum að hafa í huga að Ólafur á börn og fjölskyldu. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Borgarstjórinn sjálfur hlýtur aftur á móti að þola svoan ágjöf, annars væri hann varla í pólitík.

Ágætt viðtal er við Ólaf í 24 stundum í gær þar sem hann ræðir opinskátt um veikindin við Kolbrúnu Bergþórsdóttur. Það hendir marga að lenda í tímabundnum veikindum eins og Ólafur og þykir ekkert tiltökumál. 

Vonandi eru þetta ekki dauðakippir Spaugstofunnar, en hún er orðin það léleg að tími er kominn til að hún fái að hvíla sig á langlegudeildinni. Og þó, annar kostur í stöðunni er að Spaugstofumenn hugsi sitt ráð og vandi sig ögn meira.

Ég er ekkert yfir mig hrifinn af núverandi borgarstjórnarmeirihluta, en það kemur málinu bara ekkert við.  Það er sjálfsagt að gera grín að þeim sem sitja við stjórvölinn og er efniviðurinn nægur. Það er bara ekki sama hvernig það er gert.

 

Hér er Spaugstofan umrædda. 

 


Leshringur@ og Viltu vinna milljarð? eftir Vikas Swarup

viltuvinnamilljardFrá stofnun Leshringsins á Moggablogginu hefur undirritaður verið virkur félagi og haft bæði gagn og gaman af. Leshringurinn tekur fyrir eina bók í senn, les hana í um mánuð, kemur síðan saman á vefnum og ræðir bókina frá ýmsum sjónarhornum. Eftirfarandi er byggt á umsögn bloggarans um bókina Viltu vinna milljarð eftir Vikas Swarup sem tekin var fyrir í nóvember s.l.   Eiginlega má segja að þessar hugleiðingar fjalli bæði um þá bók og vinnubrögðin sem tíðkast í Leshringnum. Kynning á hvoru tveggja.

Það skemmtilega við Leshringinn er að maður les bækur sem manni kæmi sjálfsagt aldrei til hugar að opna. Sumar drepleiðinlegar, aðrar skemmtilegar eða áhugaverðar. Stundum reyfara eftir óþekkta höfunda og stundum bókmenntaverk eftir þekkta höfunda. Bækur sem maður gleymir strax að lestri loknum og bækur sem vekja mann til umhugsunar. Allt þar á milli. Fjölbreytnin er mikil. Þannig á það að vera.   - Svo fer það auðvitað eftir hugarfarinu þegar maður nálgast nýja bók hvernig maður metur hana.

Að lestri loknum er mikilvægt er að gefa sér smá tíma til að melta bókina áður en umsögn er sett á blað og umræður á spjallrás Leshringsins hefjast. Hugleiða innihaldið, stílinn og bakgrunn sögunnar. Punkta hjá sér það sem kemur í hugann. Færa sjónarhólinn til og skoða betur. Oft öðlast maður meiri skilning þegar maður hefur haft næði til að íhuga efnið á þann hátt.

Stundum er maður búinn að kynna sér höfundinn og umsagnir áður en bókin er lesin, en það er ekki alltaf nóg. Maður skilur bókina betur meðan hún er lesin ef maður hefur kynnt sér höfundinn áður, en höfundinn betur eftir að hafa lesið bókina. Það er sem sagt um nóg að hugsa, áður en bókin er lesin, meðan hún er lesin og eftir að hún hefur verið lesin. Það eru einmitt svona pælingar sem gera svona lestur í leshring áhugaverðan

 

VikasSwarupBókin Viltu vinna milljarð? eftir indverska höfundin Vikas Swarup lýsir á átakanlegan hátt, en jafnframt skemmtilegan, uppvaxtarárum fátæks munaðarlauss drengs á Indlandi. Líf hans er að mörgu leyti ævintýri líkast þar sem hann vinnur milljarð í spurningakeppni, en inn í söguna fléttast frásögn af lífi hans sem sjaldnast er dans á rósum.  Frásögnin er mjög lipur og nánast spennandi. Heldur manni vel við efnið. Mjög myndræn. Þýðing Helgu Þórarinsdóttur er mjög góð.

Við lestur bókarinnar lifir maður sig inn í indverskt samfélag, fyrst og fremst samfélag hinna efnaminni og lægst settu. Einhvern vegin náði bókin að heilla mig og ég fann fyrir samúð með söguhetjunni sem sýnir mikla sjálfsbjargarviðleitni. Það kom mér sífellt á óvart að Ram Mohammad Thomas  er bara barn, en sýnir samt óvenju mikinn þroska. Það leiðir hugann að götubörnunum á Indlandi og víðar um heim, börn sem ganga meira og minna sjálfala og eiga oftar en ekki hvergi heima. Börn sem verða að sýna mikla útsjónarsemi til að komast af.

728px-Taj_Mahal_in_March_2004 Sagan er svo myndræn að ég átti oft auðvelt að ímynda mér sögusviðið og var eiginlega á ferðalagi fram á aftur um Indland í samfylgd hinna fátæku.  Ég er mikið búinn að flakka um Indland á netinu eftir lestur bókarinnar og komið víða við, m.a. í þjóðargerseminni Taj Mahal, og Dharavi stærsta fátækrarhverfi Asíu. Stöðum þar sem sagan gerist meðal annars. Indverskur matur hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Fann öll afbrigði kryddsins sem kitlar bragðlaukana meðan ég las. Maður bókstaflega finnur lyktina og heyrir indverska tónlist í fjarska.

Mörg atriði í bókinni koma manni skemmtilega á óvart. Maður fer að trúa því að örlaganornir hafi spunnið lífsþráð piltsins, allt þar til það kemur fram í bókarlok að lukkupemingurinn var ekki allur þar sem hann er séður. Þetta vekur mann svo sannarlega til umhugsunar um það hvernig það er fyrst og fremst maður sjálfur sem ræður sínum örlögum. En leyndarmál peningsins kemur ekki fram fyrr en á síðustuDharavi blaðsíðunni. Maður bókstaflega missir bókina úr höndum sér þá!   Hvar voru vinkonurnar Urður, Verðandi og Skuld allan tímann? Eigi má sköpun renna, segir einhvers staðar. Er það endilega víst? Ég held ekki. Hver er sinnar gæfu smiður.

Sjálfsagt er hægt að njóta bókarinnar á fleiri en einn hátt. Hún er góð afþreying, en hún vekur mann einnig til umhugsunar örbirgð og lífsbaráttu hinna fjölmörgu munaðarlausu götubarna í heiminum.

Bókin hefur ef til vill ekki mikið bókmenntarlegt gildi. Hún er frumraun höfundarins og skrifuð er honum leiddist eitt sinn er hann var fjarri fjölskyldu sinni. Hugmyndin er góð og vel spilað úr henni. Ef til vill mætti flokka hana meðal spennusagna eða reyfara, en það gefur henni gildi að hún er óvenjuleg og gefur sérstaka sýn inn í framandi heim götubarnanna á Indlandi.   Það er einnig áhugavert að kynnast höfundi frá þessum heimshluta.  Hver veit nema Swarup eigi eftir að skrifa fleiri bækur. Frumraunin lofar góðu.

Stofnandi og ötull stjórnandi Leshringsins, Marta B Helgadóttir, á mikinn heiður skilinn fyrir framtak sitt hér á Moggablogginu. Frábær hugmynd að stofna leshring sem alfarið fer fram á vefnum. Líklega hefur það ekki verið gert áður.


Vestmannaeyjagosið: Fundust smáskjálftar í Eyjum dagana fyrir gos?

volcanic_islandÉg var staddur í Vestmannaeyjum dagana fyrir gos og rétt nýfarinn þaðan þegar gosið hófst.  Ég varð oft var við titring þessa vikuna og taldi hann vera af eðlilegum ástæðum, en það var ekki fyrr en skömmu eftir gos þegar ég var aftur þar á ferðinni að ég komst að raun um að ástæðan gat ekki verið sú sem mig hafði grunað. Þá kom mér í hug að um smáskjálfta eða gosóróa hefði verið að ræða. Það var svo ekki fyrr en 23. október 2000 að ég sendi Dr. Ármanni Höskuldssyni eldfjallafræðingi eftirfarandi tölvupóst, en hann var þá forstöðumaður Náttústofu Suðurlands í Vestmannaeyjum. Ég hafði þá skömmu áður hitt Ármann við Geysi og spjallað við hann um óskyld mál.  Hér fyrir neðan er hluti úr bréfaskiptum okkar. Svar Ármanns er mjög fróðlegt eins og vænta má.

(Ég vona að Ármann fyrirgefi að ég vitni í bréfaskriftir okkar, en eins og hann segir,  þá er gott að fá svona reynslusögur því þær geta komið að gagni síðar. Þess vegna væri gott að fá athugasemdir frá þeim sem kunna að segja frá einhverju í þessum dúr).

 

Sæll Ármann
...
Ég sá á síðu þinni http://www.nattsud.is  áskorun um að segja frá reynslu af eldgosum. Hér er ein stutt:

Ég var í Vestmannaeyjum alla vikuna fyrir gos og fór þaðan tveim dögum áður en ósköpin byrjuðu. Ég var að reyna að koma lagi á fjargæslubúnað vatnsveitunnar, en miðstöðin var staðsett í húsnæði símans og útstöðinn í dælustöðinni uppi á landi. Milli lands og eyja var notað VHF radíósamband.

Miðstöðin var tekin niður eftir að gosið byrjaði og sett aftur upp í kjallara ráðhússins eftir gos, og dvaldist ég þá aðra viku í Eyjum. Magnús var bæjarstjóri fyrir gos og Páll bæjartæknifræðingur.

Það sem mér hefur lengi þótt áhugavert varðandi vikuna fyrir gos er að hugsanlega hef ég orðið var við gosóróa eða smáskjálfta án þess að gera mér grein fyrir því þá.

Ég stóð í nokkra daga fyrir framan skápinn með fjargæslubúnaðinum og var að rekja merkin sem skiluðu sér ekki með sveiflusjá. Annað slagið fann ég titring í gólfinu eins og vél væri í gangi í húsinu. Þetta var mjög greinilegt og veitti ég þessu athygli nokkrum sinnum. Ég dró þá ályktun, að sjálfsagt væri þetta vararafstöð í kjallaranum sem verið væri að prófa, og fannst ósköp eðlilegt að svo væri í símstöð. Eftir að gosið hófst fór þetta að rifjast upp og mér komu í hug smáskjálftar.

Þegar ég kom til Eyja eftir gos og við vorum að setja búnaðinn aftur upp minntist ég á þetta við starfsmann símans. Hann kvað þetta ekki hafa geta verið dieselstöð, þar sem engin dieselrafstöð hefði verið í húsinu. Nú veit ég ekki hvort þetta er rétt hjá honum, en oft síðan hefur mér komið til hugar að þetta gætu hafa verið smáskjálftar og kvikan byrjuð að streyma upp. Ég veit ekki heldur hvort menn hafi orðið varir við þetta á mælum.

Sagan er stutt og kanski ómerkileg :-)

Bestu kveðjur

Ágúst Bjarnason 

 

--- --- ---

 

Sæll Ágúst og þakka þér fyrir síðast,
....
Saga þín af reynslu fyrir gos í Eyjum er mjög merkileg, einkum fyrir það að þú hefur verið að finna titring allt að viku fyrir gos. Ljóst er að tveim dögum fyrir gos var all mikið um smá kippi hér í Eyjum og gerðust þeir harðari eftir því sem leið nær gosi. Einna stekrastir voru þeir um 2 klst fyrir gos.

Skjálftar sem greindir voru á mælum fyrir gosið voru ávalt taldir eiga uppruna sinn á Torfajökulssvæðinu, en sá galli fylgdi gjöf Njarðar að aðeins voru tveir skjálftamælar í gangi á þessum tíma, skurðpunktar mælanna voru því tveir, annar í Torfajökli og hinn í Eyjum. Vegna þess að Torfajökull er mun virkara svæði en Eyjar var talið að þar ættu sér stað einhver kvikuumbrot. Menn komust að sjálfsögðu að því þegar að fór að gjósa að skjálftarnir tengdust allir Eyjum en ekki Torfajökli.

Það er ávallt gott að fá svona reynslu sögur því þær geta til að mynda gefið okkur von um að með því mælaneti sem uppi er í dag getum við séð fyrir kvikuhreyfingar hér í Eyjum með allt að viku fyrirvara. Fyrirvari eldgosa er þó mismunandi á milli eldstöðva. Þannig er til að mynda Hekla eitt af undrum heims því hún verður ekki skjálftavirk fyrr en nokkrum mínútum fyrir gos.

Bestu kveðjur ...

Ármann.

 

Eftir 35 ár er mér enn í fersku minni  titringurinn sem ég fann fyrir annað slagið, en er ekki ennþá viss um ástæður hans.  Fróðlegt væri að frétta hvort fleiri telji sig hafa orðið vara við svipaðan titring og hér er lýst.


Gömlu góðu vindstigin.

 

Francis BeaufortMargir eiga erfitt með að venja sig við mælieininguna metra á sekúndu (m/s) fyrir vindhraða og líkar best við gömlu góðu vindstigin. Af einhverjum ástæðum skynjar maður miklu betur hvað átt er við með gömlu einingunum en þeim nýju. Ástæðan er líklega sú að vindstigin taka mið af áhrifum vinds á landi og sjó.

Vissulega hefur gamli Beaufort skalinn fyrir vindstig ýmsa ókosti. Hann er ólínulegur og nær ekki nema upp í 12 vindstig, þó svo að menn hafi stundum framlengt hann upp í 14 vindstig eða jafnvel hærra. 

Til að tengja saman vindhraða (v) í m/s og vindstig (B) má nota þessa nálgunarformúlu:

  v = 0.836 B3/2 m/s

Það sem heillar bloggarann mest varðandi gömlu góðu vindstigin er tengingin við náttúruna. Með því að horfa í kring um sig og gæta að öldum á vatni, hvernig tré hreyfast, fánar blakta, o.s.frv., er hægt að fara nærri um vindstigin. Sjá töfluna hér fyrir neðan.

Gömlu góðu orðin logn, andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi, stinningskaldi, allhvasst, hvassviðri, stormur, rok, ofsaveður, fárviðri heyrast nú sjaldan, en oft er í veðurlýsingum sjónvarps talað um strekkingsvind, hvað sem það nú er. Getur verið að ástæðan sé sú að menn séu hættir að gá til veðurs, heldur láti nægja að sitja inni á kontór og lesa af stafrænum vindhraðamælum?

 

Mikið væri nú ánægjulegt ef veðurfræðingar notuðu þessar einingar jafnhliða, þ.e. metra á sekúndu og vindstig, eða að minnsta kosti orðin andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi, stinningskaldi ...  og þá samkvæmt hinni gömlu hefð.

Hvað finnst þér?   Vindstig,  m/s, km/klst eða hnútar, - eða m/s ásamt gömlu orðunum?

 

Gamli góði  skalinn fyrir vindstig er kenndur við Sir Francis Beaufort (1774-1857) sem myndin er af.

 

Samanburðartafla fyrir vindhraða.

Þumalputtareglur:
Deila með 2 í hnúta til að fá því sem næst m/s.
Deila með 2 í m/s til að fá gróft vindstig. Ónákvæmt þar sem Beaufort skalinn fyrir vindstig er ólínulegur.

VeðurhæðMeðalvindhraðiMiðgildi meðalvindhraða
VindstigHeiti og lýsing á áhrifum
m/skm/klsthnútarm/skm/klsthnútar
0Logn

0-0,2

< 1

< 1

0,00,00,0
1Andvari. Vindur hreyfir reyk. Gárur á vatni.

0,3-1,5

1-5

1-3

0,83,01,6
2Kul. Vindur finnst á húð. Lauf skrjáfa. Litlar smáöldur.

1,6-3,3

6-11

4-6

2,48,54,6
3Gola. Lauf og smágreinar slást til. Stórar smáöldur.

3,4-5,4

12-19

7-10

4,315,68,5
4Stinningsgola (blástur). Ryk og laus pappír fýkur til. Litlar greinar hreyfast. Litlar öldur.

5,5-7,9

20-28

11-16

6,724,113,0
5Kaldi. Minni tré svigna. Miðlungsstórar, langar öldur. Dálítið löður og úði.

8,0-10,7

29-38

17-21

9,333,618,2
6Stinningskaldi. Stórar greinar hreyfast. Erfitt að nota regnhlíf.  Stórar hvítfyssandi öldur og úði.

10,8-13,8

39-49

22-27

12,344,223,9
7Allhvast. Heil tré hreyfast. Erfitt að ganga móti vindi.  Sjór hrannast upp og löðrið myndar rákir.

13,9-17,1

50-61

28-33

15,555,730,1
8Hvassviðri.  Sprek brotna af trjám, Vindurinn tekur í bíla á ferð. Nokkuð háar hvítfyssandi öldur og særok. Löðurrákir.

17,2-20,7

62-74

34-40

18,968,136,8
9Stormur. Minni skemmdir á mannvirkjum. Háar öldur með þéttu löðri. Ölduhryggir hvolfast. Mikið særok.

20,8-24,4

75-88

41-47

22,681,343,9
10Rok. Tré rifna upp. Töluverðar skemmdir á mannvirkjum. Mjög háar öldur. Yfirborð sjávar er hvítt og haugasjór. Skyggni minnkar.

24,5-28,4

89-102

48-55

26,495,251,4
11Ofsaveður. Almennar skemmdir á mannvirkjum. Gríðarlega stórar öldur.

28,5-32,6

103-117

56-63

30,5109,859,3
12Fárviðri. Miklar almennar skemmdir á mannvirkjum. Risaöldur. Loftið fyllist af löðri og úða. Hafið er alveg hvítt. Mjög lítið skyggn

>= 32,7

>= 118

>= 64

.........

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst H Bjarnason
Ágúst H Bjarnason

Verkfr. hjá Verkís.
agbjarn-hjá-gmail.com

Audiatur et altera pars

Aðeins málefnalegar athugasemdir, sem eiga ótvíætt við efni viðkomandi pistils, og skrifaðar án skætings og neikvæðni í garð annarra, og að jafnaði undir fullu nafni, verða birtar. 

Um bloggið

Ginnungagap

Ýmislegt

Loftslag

Click to get your own widget

Teljari

free counters

Álverð

http://metalprices.com/PubCharts/PublicCharts.aspx?metal=al&type=L&weight=t&days=12&size=M&bg=&cs=1011&cid=0

Sólin í dag:

(Smella á mynd)

.

Olíuverðið í dag:

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 103
  • Frá upphafi: 766912

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 73
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband