(Uppfært 25/6, sjá neðar). Það er fyllsta ástæða til að leiða hugann að því er Dr. Baldur Elíasson segir í viðtali við Morgunblaðið í dag um hugmyndir manna um rafstreng frá Íslandi til Skotlands. Auðvitað er málið miklu flóknara en hægt er að gera skil í stuttu blaðaviðtali, en Baldur bendir á ýmis sjónarmið sem ekki hafa farið hátt í umræðunni um sæstreng. Það er auðvitað nauðsynlegt að skoða allar hliðar málsins og velta því vel fyrir sér, ekki síst vegna þess að við Íslendingar höfum mikla tilhneigingu til að líta til einhverra patentlausna til að græða, en við eigum það til að verða fyrst vitrir eftirá. Sjálfsagt er ekki víst að allir séu sammála Baldri, en málið þarf að ræða og skoða vel. Við megum auðvitað ekki skella skollaeyrum við aðvörunarorðum, og umræðan má ekki vera yfirborðskennd. Það er nauðsynllegt að skoða vel öll rök, með og móti, og gera nákvæma kostnaðar- og áhættugreiningu áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar. Það ferli þarf að vera opið og gegnsætt. Þá fyrst er hægt að gera sér grein fyrir hvort vit sé í framkvæmdinni. En... Baldur gerir ráð fyrir að Íslendingar eigi og reki strenginn ásamt endabúnaði. Það er þó ekki endilega þannig. Erlendir fjárfestar virðast hafa áhuga á að eiga strenginn og sjá um orkuflutninginn. Það breytir auðvitað ýmsu, en ekki því að nauðsynlegt er að vanda til verka við mat á þeim arði sem framkvæmdin kann að skila okkur Íslendingum, áhættu sem við kunnum að bera, umhverfismálum, o.fl. --- Dr. Baldur stundaði nám í rafmagnsverkfræði og stjörnufræði í Zurich og tók doktorspróf í rafmagnsverkfræði frá sama skóla. Hann starfaði um tíma hjá radíóstjörnufræðideild California Institute of Technology í Pasadena við rannsóknir á gasskýjum í Vetrarbrautinni. Eftir að hann snéri aftur til Sviss hóf hann störf við vísindarannsóknir hjá Brown Boveri. Þegar Brown Boveri sameinaðist sænska fyrirtækinu Asea og varð Asea Brown Boveri (ABB) varð hann yfirmaður orku- og umhverfismála hjá þessu risafyrirtæki sem er með um 150.000 starfsmenn. Í viðtalinu við Stefán Gunnar Sveinsson stendur eftirfarandi, en allt viðtalið má lesa í Morgunblaðinu í dag á blaðsíðu 14. »Ég tel þetta vera glapræði,« segir dr. Baldur Elíasson, fyrrverandi yfirmaður orku- og umhverfismála hjá sænsk-svissneska orkurisanum ABB, um þær hugmyndir sem heyrst hafa í umræðunni, að leggja eigi sæstreng til Bretlands í þeim tilgangi að selja orku úr landi. Baldur, sem hefur unnið við orkumál lungann af starfsævi sinni og meðal annars veitt Kínverjum ráðgjöf um nýtingu endurnýjanlegrar orku, segir nokkra þætti koma í veg fyrir að fjárfestingin myndi borga sig.
Hann bendir á að strengurinn yrði sá lengsti sem lagður hefði verið í heiminum, eða um 1.200 kílómetrar. »Lengsti strengur sem lagður hefur verið hingað til er um 600 kílómetrar og er í Norðursjó milli Noregs og Hollands. Sá strengur liggur á um hundrað metra dýpi. Þessi strengur myndi hins vegar liggja um Norður-Atlantshafið á um þúsund metra dýpi.« Baldur segir að lega strengsins og dýpi myndi jafnframt þýða að mjög erfitt yrði að gera við hann ef hann bilaði, líkt og flest mannanna verk gera fyrr eða síðar, og viðgerðarkostnaður yrði gríðarlegur. Tveir þriðju þjóðarframleiðslu? Að auki myndi það kosta sitt að leggja strenginn. »Kostnaðurinn yrði svo gífurlegur að Ísland myndi ekki ráða við hann. Það hefur verið talað um fimm milljarða dollara í þessu samhengi. Það er að mínu mati allt of lág tala,« segir Baldur sem áætlar að framkvæmdirnar sem slíkar gætu kostað tvöfalda þá tölu, og sennilega meira. »En þá verður að hafa í huga að þjóðarframleiðsla Íslendinga er 14-15 milljarðar Bandaríkjadala. Hugsanlega væri þarna því á ferðinni fjárfesting sem næmi tveimur þriðju af landsframleiðslu landsins,« segir Baldur og bætir við að jafnvel þó að lægri talan stæðist væri engu að síður um gríðarlega fjárfestingu að ræða. Þá standi einnig í veginum það tæknilega atriði að til þess að flytja rafmagnið yrði það að vera í formi jafnstraums, en raforka sé jafnan framleidd og nýtt sem riðstraumur. Því þyrfti að breyta orkunni við báða enda strengsins. »Því lengri sem kapallinn er, því hærri þarf spennan að vera, og þá væru á báðum endum strengsins turnar þar sem riðstraumi er breytt í jafnstraum og öfugt á hinum endanum. Þetta er því ekki jafnauðvelt og það að leggja einfaldan kapal yfir hafið.« Þá segir Baldur að það magn sem kapallinn ætti að flytja sé nánast hlægilega lítið. »Talað er um að kapallinn muni flytja 700 megawött, en það er hérumbil það sem fer í álverksmiðjuna á Reyðarfirði,« segir Baldur. Hann bendir á að slíkt magn rafmagns myndi ekki endast lengi, hugsanlega væri hægt að veita einum bæ í Skotlandi orku með því magni. Þegar haft sé í huga að það þyrfti að virkja meira til þess að fá þessi 700 megawött segir Baldur að þar af leiði að skynsamlegra sé að vinna úr orkunni hér. Þá bætist við að það verð sem fengist fyrir raforkuna erlendis myndi líklega ekki duga fyrir útlögðum kostnaði við strenginn. Raforkuverð erlendis sé mjög lágt, og aðrir orkugjafar séu að ryðja sér þar til rúms. Baldur nefnir sem dæmi að framleiðsla á jarðgasi sem unnið er úr jörðu með leirsteinsbroti muni líklega færast í vöxt á komandi árum. Þurfum orkuna sjálf Baldur segir aðalástæðuna fyrir því að þessar hugmyndir gangi ekki upp þó vera einfalda: »Orkan er ekki fyrir hendi. Ísland hefur ekki upp á þessa orku að bjóða.« Baldur áætlar að hér séu nú þegar um 20 terawattsstundir notaðar, en það sé um helmingurinn af þeirri vatnsorku sem virkjanleg sé á Íslandi, séu allir skynsamlegir virkjunarkostir nýttir. »Íbúafjöldi Íslands hefur á mínum sjötíu árum meira en tvöfaldast, og næstum þrefaldast. Sú þróun mun halda áfram. Á næstu sextíu til sjötíu árum er því viðbúið að íbúafjöldi Íslands tvö- eða þrefaldist. Allt þetta fólk þarf straum,« segir Baldur.»Ég myndi segja að Ísland eigi varla orku til þess að sjá íbúum sínum fyrir þörfum þeirra, ef horft er fram í tímann.« Þar komi til að jarðhitaorka yrði aldrei framleidd í jafnmiklum mæli og vatnsorka og sólarorka sé varla valkostur hér á landi. Þá séu eftir vindorka og kjarnorka, en væntanlega vilji enginn hið síðarnefnda og auðveldara sé um að tala en í að komast þegar vindorkan er annars vegar.»Við höfum því aðeins orku fyrir okkar þarfir út þessa öld. Ef menn vilja byggja streng þá - og hugsanlega verður slíkur strengur lagður í framtíðinni - yrði hlutverk hans að flytja inn orku, ekki selja hana.«Þegar allir þessir þættir séu teknir saman; lengd kapalsins og dýpt hans, kostnaður við kapalinn til þess að flytja út tiltölulega litla orku, og því lítil von um ágóða, auk þess að orkunnar sé meiri þörf hér á landi, segir Baldur niðurstöðuna einfalda. »Kapallinn gengur ekki upp.« --- --- --- Svo mörg voru þau orð. Víst er að ekki eru allir sammála Baldri, en það er þó víst að þetta er það stórt mál að afleiðingarnar af mistökum geta hæglega sett þjóðfélagið á hliðina einu sinni enn. Það er því nauðsynlegt að gefa orðum Dr. Baldurs Elíassonar gaum og velta málinu vel fyrir sér áður en einhverjar ákvarðanir eru teknar. Ef erlendir aðilar koma til með að eiga strenginn, þá hefur það auðvitað áhrif á suma þætti málsins, en aðrir þættir sem huga þarf að koma þá í staðinn. Málið er flókið... Það er orðið brýnt að skoða málið vel og birta niðurstöður opinberlega. Þá fyrst geta umræður orðið vitrænar. Höfundur þessa pistils treystir sér ekki til að hafa rökstudda skoðun á málinu, en vill stíga varlega til jarðar og ekki flana að neinu. Málið er vissulega áhugavert og margar spurningar, sem brýnt er að fá svar við, vakna. --- --- --- UPPFÆRT 25. júní 2014: Úr Morgunblaðinu í dag: "Ótal spurningum ósvarað um sæstreng Ekki tímabært að fullyrða um arðsemi sæstrengsins
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is
»Við teljum gríðarlega mikil tækifæri geta verið til staðar í lagningu sæstrengs. Það er alls ekki tímabært að fullyrða um arðsemi sæstrengsins að svo stöddu. Stærsta spurningin núna er hvernig samning bresk stjórnvöld eru tilbúin að gera, og hversu mikið yrði afgangs sem skilaði sér til Íslands. Sem stendur bjóða Bretar mjög hátt verð fyrir raforku í slíkum samningum,« segir Gústaf Adolf Skúlason framkvæmdastjóri Samorku, um gagnrýni á sölu raforku frá landinu í gegnum sæstreng til Bretlands.
Dr. Baldur Elíasson, fyrrverandi yfirmaður orku- og umhverfismála hjá sænsk-svissneska orkurisanum ABB, sagði í Morgunblaðinu í fyrradag lagningu strengsins »glapræði«. Baldur nefndi að ef strengurinn yrði lagður þá yrði hann sá lengsti í heiminum og á miklu dýpi. Ef hann myndi bila, sem er óhjákvæmilegt, þá yrði viðgerðarkostnaðurinn hár. »Vissulega er bæði kostnaðarsamt að leggja strenginn sem og að gera við hann. En íslenski ríkissjóðurinn myndi ekki leggja fram fjármagnið heldur félag sem rekur strenginn. Ef strengurinn liggur niðri þá er ekki seld mikil orka. En nú er ekki tímabært að fullyrða um arðsemina og hvað rynni hingað til okkar, ef til stórra viðgerða kæmi. Engir samningar liggja enn fyrir,« segir Gústaf. Baldur talaði einnig um að Ísland myndi varla eiga orku til að sjá íbúum fyrir raforku þegar horft er fram í tímann. Vatnsaflsvirkjanir reistar?
Í þessu samhengi bendir Gústaf á að Ísland sé sveigjanlegur raforkugjafi í vatnsafli. »Tækifæri okkar liggja í sveigjanlegri raforkuafhendingu og hér er endurnýjanleg raforka. Við gætum þess vegna flutt raforkuna inn, t.d. á nóttunni þegar hún er á lægra verði og selt út á háu verði þegar eftirspurnin er meiri. Þetta eru kostir vatnsaflsins,« segir Gústaf. Hann bendir á að það eigi eftir að kanna hvaða áhrif þetta hefði á Ísland og hvort nýjar vatnsaflsvirkjanir yrðu reistar til að anna eftirspurn eftir raforku. Fagna allri umræðu »Við fögnum allri umræðu um verkefnið, það er áhugavert en mörgum spurningum er enn ósvarað um tæknilega útfærslu og áhættu,« segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, um gagnrýni Baldurs á lagningu sæstrengsins. Hörður segir ummæli fyrrverandi starfmanns ABB koma á óvart í ljósi þess að fyrirtækið hafi unnið að skýrslu um sæstrenginn. Í henni kemur fram að verkefnið er tæknilega framkvæmanlegt. Ósamræmi sé á milli þess sem Baldur segi og þess sem er í skýrslunni. »Mikil þróun hefur verið í sæstrengjum undanfarin ár. Bæði hafa verið lagðir sæstrengir sem fara á tvöfalt það dýpi sem við færum mögulega á ef til þess kæmi. Eins er búið að leggja strengi á landi sem fara tvöfalda þá vegalengd,« segir Hörður. Hann ítrekar þó hversu tæknilega krefjandi verkefnið sé og því mikilvægt að gefa því góðan tíma líkt og raunin sé. Þá bendir Hörður á að ekki sé rétt að raforkuverð erlendis sé lágt líkt og Baldur segi. »Rarforkuverð í Bretlandi er mjög hátt. Þeir semja nú um raforkuverð frá nýju kjarnorkuveri fyrir yfir 150 dollara á megawattstund.« Eins segir Hörður þá fullyrðingu ekki rétta að við þurfum meiri orku til eigin nota. »Nú þegar eru um 80% af orku sem við framleiðum flutt út í formi áls, járnblendis og þess háttar vara. Öll frekari orkuvinnsla á Íslandi verður flutt út í formi málma eða eins og Norðmenn hafa gert, flutt orkuna út í formi sæstrengja,« segir Hörður". |